Fólkið sem kann ekki að skammast sín.

 

Mætir núna í lopapeysum í fylgd barna, og þykist vera svakalega hissa á afleiðingum áratuga stefnu þess að brjóta niður innviði landsbyggðarinnar.

Svo hissa að það sá tækifærið til að ná kastljóst fjölmiðlanna með því að tilkynna stofnun þjóðaröryggisráðs, sem er eitthvað stofnanaheiti þegar það kemur saman og lætur taka mynd af sér í lopapeysum.

 

Það er eins og það hafi aldrei lesið bænaskjölin sem koma ár eftir ár frá sveitastjórnum á landsbyggðinni, landshlutasamtökum og öðrum sem málið varða, og eru neyðaróp um að allt sé fyrir löngu komið í óefni, annars vegar vegna stöðugs niðurskurðar og hins vegar að það er ekki fjárfest í stoðkerfinu sem nauðsynlegt er til að reka nútíma þjóðfélag.

Það er eins og það hafi fyrst heyrt af þessu í gær að hlutirnir væru ekki í lagi og það kæmu vond veður á Íslandi.

 

Þess vegna er gott að rifja upp bókun Húnaþings vestra sem sagt var frá á Mbl.is undir fyrirsögninni:  OPINBERIR INNVIÐIR HAFA ALLIR BRUGÐIST.

Ekki sumir, heldur allir, og síðan er ömurleikinn talinn upp;

" að sveit­ar­fé­lagið hafi verið raf­magns­laust í rúm­lega 40 klukku­stund­ir. Hluti þess sé enn ekki kom­inn með raf­magn og ekki sé vitað hversu lengi það ástand vari. Veru­legt tjón hafi jafn­framt orðið hjá íbú­um. 

„Það er al­ger­lega óviðun­andi að grunnstofn­an­ir sam­fé­lags­ins, RARIK, Landsnet og fjar­skipta­fyr­ir­tæk­in hafi ekki verið bet­ur und­ir­bú­in og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aft­ur á móti voru Björg­un­ar­sveit­irn­ar og Rauði kross­inn, sem rek­in eru í sjálf­boðavinnu, vel und­ir­bú­in og kom­in með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á,“ seg­ir í bók­un­inni. Þar kem­ur einnig fram að óá­sætt­an­legt sé að tengi­virkið í Hrúta­tungu hafi verið ómannað þrátt fyr­ir yf­ir­lýs­ing­ar Landsnets um annað. Ger­ir sveit­ar­stjórn­in þá grund­vall­ar­kröfu að á svæðinu sé mannafli sem get­ur brugðist við með skömm­um fyr­ir­vara.

 Rík­is­út­varpið er einnig sagt hafa brugðist al­gjör­lega þegar horft er til ör­ygg­is­hlut­verks þess. „Dreifi­kerfi RÚV lá niðri víða í sveit­ar­fé­lag­inu og náðust send­ing­ar illa eða alls ekki. Al­mennri upp­lýs­inga­gjöf til íbúa um stöðu og horf­ur var ekki sinnt. Litl­ar sem eng­ar frétt­ir bár­ust frá Húnaþingi vestra þrátt fyr­ir að veðuraðstæður væru hvað verst­ar á þessu svæði og út­varpið nær eina leið íbúa til að fá upp­lýs­ing­ar.“ Þá seg­ir í bók­un­inni að grafal­var­legt sé að eng­in starfs­stöð lög­reglu sé á svæðinu, auk þess sem lýst er yfir áhyggj­um yfir því að eng­in vara­afl­stöð sé við Heil­brigðis­stofn­un Vest­ur­lands á Hvammstanga. ".

 

Þessi hnignun er alls ekki bundin við Húnaþing vestra þó ástandið þar sé sérstaklega slæmt.

 

Í raun má segja að valdið í Reykjavík hafi sagt landsbyggðina úr lögum við íslenska ríkið, öll stoðþjónusta er markvisst skorin niður, með því markmiði að í raun sé hún aðeins veitt úr Reykjavík.

Á sumu bera stjórnvöld beina ábyrgð, á öðru er ábyrgðin óbein eins og ohf væðing Rarik og fleiri ríkisstofnanna.

 

Að ekki sé minnst á evrópsku reglugerðina sem skar á tengslin milli orkuframleiðslunnar og dreifkerfisins, skar á tekjustreymið sem var hugsað til þess meðal annars að nútímavæða dreifikerfið þegar orkusamningar til stóriðju færu að skila arði til Landsvirkjunar.

Afleiðingin er fjársvelt dreifikerfi sem er að stofni til byggt af mun fátækari samfélagi um og uppúr miðri síðustu öld.  Byggðalína á til dæmis á aðeins rúm 2 ár í að verða fertug, það er yngsti hluti hennar, flestar díselrafstöðvarnar eru mun eldri.

 

Vissulega var veðrið vont, en það koma reglulega vond veður á Íslandi.

Það þarf að gera ráð fyrir þeim og innviðirnir þurfa að þola þau þó eitthvað rask sé alltaf óumflýjanlegt.

En það sem við eigum til að reka nútímaþjóðfélag á ekki að stofni til að vera frá dögum afa okkar og ömmu, eða foreldra okkar ef við erum sjálf komin á virðulegan aldur.

 

Samfélag okkar er ríkt, en annað mætti halda þegar fjárfestingar til framtíðar eru skoðaðar.

Sem og að hugarfarið er stórmengað af skaðlegri hugmyndafræði.

 

Mengun sem sýndi sig dagana eftir Hrunið haustið 2008, þá var ein fyrsta fréttin að sjómokstur yrði því sem næst aflagður í Árneshreppi.  Brothættasta byggð landsins sem bar enga ábyrgð á fjármálabraskinu öllu saman, en krónurnar sem spöruðust taldar mikilvægar til að bjarga fjárhag ríkisins.

Einnig má minna á að Hrunið var notað sem afsökun eða tylliástæða til að ráðast að áratuga uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni og það stórskaddað. 

Undir kjörorðinu; "þjónustan suður".

 

Og núna rúmum  10 árum frá Hruni, þegar tekjur þjóðarbúsins hafa aldrei verið eins miklar, þá lifir þetta kjörorð góðu lífi.

Meðal annars hjá núverandi ríkisstjórn.

Og það bendir ekkert til þess að breyting verði þar á.

 

Þess vegna er löngu tímabært, að kjörnir fulltrúar okkar landsbyggðarinnar, segi núna, af gefnu tilefni, við fólkið sem kann ekki að skammast sín.

"Skammist ykkar".

 

Því stundum þarf að segja sannleikann.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Fjarskiptamálin eru svo sér kapítuli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Kemur Ómar með gömlu Þorvaldarsteypuna.

Íslenska kosningin var dæmd ólögleg af Hæstarétti. Breska atkvæðagreiðslan var lögleg þjóðaratkvæðagreiðsla.

Halldór Jónsson, 13.12.2019 kl. 16:57

2 identicon

Heyr, heyr Ómar Geirsson.

Ömurleg skinhelgi þessa auma ráðherrahóps.

Baða sig í kastljósi fjölmiðla löngu eftir að skaðinn er skeður, og það á þeirra eigin vakt.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 13.12.2019 kl. 17:37

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Finnst þér það ekki réttara að skamma nafna minn á réttum þræði??

Ég greyi fékk fyrir hjartað þegar ég sá þetta í póstkerfi mínu, fyrir mig eru fáar skammir blóðugri en að vera kenndur við Þorvaldarsteypuna.

Ef hjartað væri ekki svona sterkt, þá hefði þetta verið það síðasta sem ég hefði lesið í þessu lífi, og væri núna kominn á slóðir andanna.

Samt tek ég þessu þannig að þú sért ekkert sérstaklega ósáttur við mig þessa dagana þegar ég segi þínu fólki að skammast sín, reyndar með öllum hinum.

Segir að mínum dómi margt þegar trygglyndir koma ekki til varnar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.12.2019 kl. 19:19

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon Pétur.

"Veikleikar", "vantar varafl", "fjarskiptaleysi", þessi orð eru tekin úr fréttafyrirsögnum, það er eins og þetta fólk hafi ekki dvalið lengi á Íslandi, hafi komið stuttlega í heimsókn, og séð hvað úrskeiðis fór.

En hver ber ábyrgðina, byrjaði það í stjórnmálum í gær, hjá flokkum sem eiga sér enga fortíð.

Mér finnst þetta eiginlega vera lítilsvirðing gagnvart fólkinu sem sýpur núna hinn beiska seyð af áralangri aðför að innviðum landsbyggðarinnar.

En það er ekki bara að fólk láti þetta yfir sig ganga, mjög margir sjá ekki einu sinni samhengið, og segja sín á milli, "já ráðherrar okkar, þeim er ekki sama, og þeir ætla að bregðast snöfurmannlega við".  Það eru sko margir sem tala forníslensku á landsbyggðinni, þess vegna nota ég orðið snöfurmannlegur.

Veit ekki Símon, en vísa í fyrri pistil dagsins, mikið vildi ég óska þess að þjóðin ætti leiðtoga.

Sem talar mannamál, axlar ábyrgð, og tekst á við raunhæf vandamál þjóðarinn, en ekki tilbúin.

En takk fyrir lesturinn, við trúum á dropann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.12.2019 kl. 19:31

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég var einmitt að velta því fyrir mér þegar ég frétti að sjálftökuliðið hefði farið í lopapeysurnar; hvers vegna það færi ekki bara upp í Skógarhlíð og horfði þar á tölvuskjá og "stjórnaðist" með ríkislögreglustjóra og hinum hetjunum? 

Þau hefðu allavega getað reynt að finna út með þeim hvernig stæði á því að það væri sambandslaust við landið og reynt að lauma sér í fréttaviðtöl um leið.

En að fara nokkrum dögum seinna í lopapeysu út á land meikar ekki sens. Annars alveg sammála þér Ómar þetta lið á að hund skammast sín.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 13.12.2019 kl. 20:01

6 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Ég þakka fyrir ágætis innlegg hér að ofan, um innviðina sem hafa fengið að grotna niður um allt land.
Við skulum átta okkur á að það eru tvö samfélög í þessu landi og landfræðileg skil þeirra eru við Hellisheiði syðri á annan veginn og við Kjalarnes á hinn veginn.
Austan og norðan þessara skila er samfélag sem nýlenda hins samfélagsins og ber öll merki sem slík:
Þar er stunduð frumframleiðsla ( mjólk, kjöt og raforka), en úrvinnsla og þó einkum þjónusta er eins lítil og komist verður af með, til að tryggja frumframleiðsluna.

Þetta nýafstaðna óveður sýndi og sannaði að innviðir nýlendunnar urðu fyrir skemmdum sem geta haft áhrif á það hvort frumframleiðslan geti haldið áfram og eins á það hvort hætta sé á að flótti fólks úr nýlendunni aukist enn meira frá því sem verið hefur.

Þá sjaldan sem það hefur gerst að einhvers staðar verður eitthvað það gert í nýlendunni sem ekki færir meiri arð út úr henni og gerir hana ögn sjálfbjarga á eigin vegum veldur það gremju og andstöðu sunnan Kjalarness og vestan Hellisheiðar.  Af þeim meiði er illskan út í Kárahnjúkavirkjun og öll þau störf sem fylgt hafa í kjölfarið.
Innviðum nýlendunnar er stjórnað af skrifstofum utan hennar.  Þannig eru aðalstöðvar stærstu orkufyrirtækjanna með höfuðstöðvar í Reykjavík, líka þeirra sem hvorki framleiða né dreifa orku á því landshorni.  Meira að segja eru aðalstöðvar stærsta þjóðgarðs landsins í 101 Reykajavík og nú á að búa til enn betri og notalegri kontór fyrir risaþjóðgarð sem mun teygja sig yfir stór landsvæði.  Vonandi að keypt verði góð kaffivél á þann kontór.

Þórhallur Pálsson, 13.12.2019 kl. 20:50

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið félagar.

Fáu við orð ykkar að bæta, þetta er í takt við það sem ég er að reyna að segja.

Nema að ég fékk svo lokaútrásina í pistli mínum núna áðan, ég er eiginlega bara reiður, mér ofbýður forheimskan og sýndin sem einkennir alla framgöngu ráðherra og ríkisstjórnar.

Engin ábyrgð, engin iðrun, aðeins froða ásamt atkvæðasnakki.

Jæja reiðinni var skilað yfir í netheima, svo núna er það jólamynd kvöldsins.

Það eru jú að koma jól, og vonandi kemur hitinn í öll köld hús áður en allt botnfrýs í kuldakastinu sem er framundan.

Vonum það besta.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.12.2019 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 384
  • Sl. sólarhring: 756
  • Sl. viku: 6115
  • Frá upphafi: 1399283

Annað

  • Innlit í dag: 325
  • Innlit sl. viku: 5180
  • Gestir í dag: 300
  • IP-tölur í dag: 296

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband