Munu mannvitsbrekkur Pírata.

 

Og gáfnaljós Samfylkingarinnar krefjast neyðarfundar á Alþingi í kvöld.

Vegna hinna alvarlegu tíðinda frá Ástralíu um peningaþvætti enda öllu stórgáfuðu fólki ljóst að þarna eru bylgjuáhrif frá Samherja.

Og skrifast alfarið á íslenska kvótakerfið.

 

Þó ríkisstjórnin hafi "glutrað niður góðu tæki­færi til þess að ráðast í grund­vall­ar­breyt­ing­ar á fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu" svo vitnað sé í Pírata á Alþingi gær, þá hlýtur hún að hysja upp um sig brækurnar áður fleiri váleg tíðindi berast upp að landssteinum.

Ef kvótinn verður ekki þjóðnýttur, þá allavega þrefalda veiðigjöld, ef ekki fimmfalda þau.

Hin ólæknandi íslenska spilling má ekki breiðast eins og farsótt um alla heimsbyggðina, sem fram að þessu hefur ekki einu sinni heyrt af afspurn minnst á mútur eða peningaþvætti, allavega ekki áður en kvótinn var settur á.

 

Eins hljóta radikalar verkalýðshreyfingarinnar að blása í samstöðulúðra gegn þessu spillingaræxli og taka undir stórhækkun veiðigjalda.

Þeir vita eins og er að við Íslendingar erum fremst meðal jafningja i spillingu og peningaþvætti svo vitnað sé í eldmessu formanns VR.

Svo núna þarf virkilega að ná samstöðu um fækkun starfa á landsbyggðinni til að hægt sé að uppræta þessa óværu sem ógnar heiðarleika í öllum alheiminum.

 

Þetta er vitað.

Svo augljóst.

 

Nema kannski heimsbyggðin veit þetta ekki og sér ekki samhengið milli alþjóðlegrar spillingar og íslenska kvótans.

En hún veit ekki allt.

 

Það nægir að "VIÐ" vitum.

Kveðja að austan.


mbl.is Ástralskur banki sakaður um peningaþvætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

" .....að ná samstöðu um fækkun starfa á landsbyggðinni til að hægt se að uppræta þessa óværu......"

Er það misminni að hugtakið: "Brothættar byggðir" hafi þá fyrst tekið að þróast í tungumáli okkar eftir að áhrifa 

kvótakerfisins og kvótabrasksins tók að gæta hjá fjölskyldufólki í sjávarþorpunum? 

Ég geri mér sannarlega vonir um að Pírötum og Samfylkingunni takist ásamt Flokki fólksins að komast að því augljósa:

að brýnna verkefni muni vera að rannsaka tengslin á milli Hafrannsóknarstofnunar og fulltrúa kvótakónganna, en meintar

mútugreiðslur Samherja til ráðherra Namibíu og mikilvægra tengiliða í því tiltölulega nýfrjálsa landi.   


Varla telst það nothæfur valkostur að hætta öllum opinberum flutningi á hljómkviðu íslensku þjóðarinnar:

Besta fiskveiðistjórn  heimsins 

Árni Gunnarsson, 20.11.2019 kl. 17:41

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni.

Það er alltaf spurning þegar þú hittir ljón á förnum vegi, hvort um sé að kenna að þú verðir étinn, ljóninu eða þeim sem hleypti því út.

Það er ljóst að það voru engar forsendur fyrir togara í hverju þorpi, og það er ljóst að nútíminn þýðir nútímatækni.

Allt leiðir til fækkunar starfa, og það skaðar.

Glæpurinn var hins vegar að láta fórnarlömbin bera skaðann, án þess að bætur kæmu á móti. Ef það var hagræðing, þá átti hún að duga til að fjármagna slíkar bætur.

Annar glæpur var braskaravæðing og afleiðingar hennar.

En það náðist jafnvægi Árni, og það veistu, það voru byggðir sem lifðu af, útgerðir sem þraukuðu.

Stórfyrirtækin eignuðust ekki allt með manni og mús.

Ég er að vísa í þá staðreynd, daginn í dag, ekki daginn í gær eða fyrir áratugum sínum.

Það sem ég er að benda á og mér sýnist að þú sért að mæla með, kemur af stað nýrri hringekju sameininga, að einyrkjar selji frá sér kvóta, leggi skipum, með tilheyrandi byggðarauðn.

Eftir standa örfá stórfyrirtæki.

Sem eiga.

Það vil ég ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.11.2019 kl. 18:26

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sæll Ómar.


Það er auðvitað ekki vandalaust að misskilja en þarna finnst mér langt seilst eftir

verkfærunum. 

Mér kemur auðvitað aldrei til hugar að kvóta eigi að selja, enda er það skýrt í 1 

grein laga um stjórnun fiskveiða að úthlutun myndi ekki eignarrétt.

Ég legg ekki til togaraútgerð í hverju plássi enda er það of vitlaust til að ræða

það lengra.

Útgerð er enginn galdur - og þó síst eftir að sjómenn lærðu að meðhöndla fisk eins 

og matvæli en á því var skelfilegur misbrestur.

Framsal aflaheimilda er stórlega misnotað heimildarákvæði og sala/leiga er

auðvitað lögbrot með vísun í 1. gr. laganna.

Skortur á aflaheimildum er ávísun á eftirspurn og bein ávísun á milljarðana sem

útgerðir kvótakónganna hafa verið að basla með að komast yfir og koma í skjól fyrir

gráðugum skattayfirvöldum. Það er auðvitð álag sem þeir einir þekkja sem lenda í

Hafró hefur séð um þann þáttinn sem snýr að mjög "átakanlegum" skorti á

aflaheimildum.

Ég er afar vel kunnugur útgerð á Íslandi og hef starfað við flesta þætti þar.

Mýtan um besta fiskveiðikerfið og "að okkur hafi naumlega tekist að forða þorskinum

frá útrýmingu" er innihaldslaust blaður sem með kranablekkingum hefur tekist að 

innræta stærstum hluta þjóðarinnar.

Skipin voru of mörg en - engin dæmi veit ég um að ríkisvaldið hafi hlutast til með

lagaboðum að fækka vörubifreiðum eða lágvöruverslunum vegna meintrar offjölgunar!

Við veiddum langtum meira af þorski á ,,ofveiðitímabilinu" við óhefta sókn en í dag

undir vísindalegri stjórn Hafró.


Það var aldrei nein ofveiði á botnfiski fyrir daga kvótakerfisins Ómar Geirsson.

Aldrei  -  ALDREI

En kenningin dugði vel og skilaði því að nú eigum við fjölmargar "brothættar

byggðir" sem bíða náðarhöggsins.

Og svo eigum við öflugar útgerðir sem hafa nýtt sér kvótakerfið af skynsemi.

Hafa nýtt hagnaðinn til að koma sér upp tæknivæddasta kúabúi landsins og af

risastærð.

Og bíða þess nú að fá milljarða í "beingreiðslur" frá skattgreiðendum

(ríkinu)fyrir kúamjólk!

Ég bind nokkrar vonir við Píratana, jæa. Og með aðstoð Samfylkingar og Flokks

fólksins.

Jafnvægi í atvinnurekstri næst með skortstöðu og einokun í rekstri.

Það er enginn stjórnsýslugaldur.

Og hábölvað ef sú hagræðing kostar byggðaeyðingu og mannréttindabrot. 

Hafró virðist vera það haldreipi sem útgerðin þarfnast umfram ALLT annað tilað 

viðhalda skorti á aflaheimildum - eftirspurn og ofurverðum á kvóta.

Ég þekki vel til trillusjómanns sem tók þá ákvörðun sumarið 2018 að fiska fyrir

kvótaútgerð á Vestfjörðum.


Greiddar voru 150 kr. fyrir kg. af þorski og tilgreindur maður sá sér betur borgið

með þeim samningi en að stunda strandveiðar og leggja þá frá landi í hvern róður sem

"grunaður maður".

 
Það er nefnilega búið að glæpavæða þenna atvinnuveg eins og við vitum.  

.

Árni Gunnarsson, 20.11.2019 kl. 19:49

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

 Ps. Eftir að hafa fylgst með pólitískri stjórn þessa mikilvægasta atvinnuvegar

þjóðarinnar frá upphafi er niðurstaðan alltaf ein og sú sama.

Þarna hefur ALLT mistekist sem lagt var af stað með og átti að verða til bóta.

Við fiskum verulega miklu minna af botnfiskitegundum en við gerðum í stjórnlausri sókn.

Hagnaðurinn sem ráðamenn gera svo mikið úr er fenginn með því að skerða möguleika

fjölda fólks til sjálfsbjargar. skapa óhamingju og öryggisleysi þúsunda fólks og

eyða byggð.

Fáeinar fjölskyldur hafa auðgast og orðið milljarðamæringar. Misskipting er orðin

þjóðarmein og fjármálaspilling er utanáliggjandi vandamál.

Fjöldi fólks sofnar á kvöldin kófsveitt af réttlátri reiði út í stjórnvöld og vaknar

að morgni með hnút, kvíða og vonleysis í brjósti.

Réttlætiskennd fólks er misboðið og af því stafar reiðin. Við erum nefnilega 

auðug þjóð og þurfum ekki að búa við þá vitneskju að fólk líði skort vegna þess

að pólitískt vald hefur ákveðið að hagsældin sé séreign tilgreindra hópa.

Smæð samfélagsins - fámennið litar allar þessar neikvæðu staðreyndir skærum litum. 

Árni Gunnarsson, 20.11.2019 kl. 20:58

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Árni, ég fer létt með að skrifa ennþá lengri tölu um það sem ég tel miður hafa farið í kvótakerfinu, fáránleikann við að braskvæða það, og síðan almennt um þá misskiptingu sem hugmyndafræði frjálshyggjunnar og regluverkið sem af á rætur í hugmyndafræði hennar.

Frjálshyggjan rauf samfélagslegu sátt velferðarkerfisins, páfi hennar sagði að "there is no such thing as society".

Ef þú ert ekki sáttur við heimsmynd hennar, sem mér sýnist ekki miðað við skrif þín, forn og ný, þá tekur þú slaginn við hana, hugmyndafræði hennar sem og kerfið sem hún skóp.

Þú notar ekki ágalla hennar, til að taka eina atvinnugrein út úr, og notar síðan tungutak hennar til að rústa tilveru þúsunda en það er nákvæmlega það sem þú og allflestir félagar þínir í Andófinu eru að gera með því styðja  pólitíska lukkuriddara í bland við pólitíska vanvita í kröfu þeirra um hækkun veiðigjalda eða innkalla kvótann og bjóða hann svo hæstbjóðanda.

Það er ÓUMFLÝJANLEGT að hringekja hinna meintu hagræðingu fer af stað, með tilheyrandi búsifjum fyrir fólk og byggðir.  Það er óumflýjanlegt eins og að þegar þú hendir steini uppí loftið að hann falli til jarðar.

Það er ENGINN Árni, ég endurtek enginn af þessum lukkuriddurum eða vanvitum að ræða um úrbætur á kvótakerfinu á forsendum fólks eða byggða.

Og það grátlegasta Árni er að þú og þið í Andófinu skuli ekki átta ykkur á að þessi hringekja hagræðingarinnar var markmið Steina Páls þegar hann var sjávarútvegsráðherra, en hann skorti pólitískt afl til að ná fram draumi sínum um byggðaeyðingu sem hann var þó maður til að kannast við að væri markmið sitt.  Notaði reyndar ekki það orð, en dásamaði hagræðinguna á Nýja Sjálandi, og þar lögðust sjávarbyggðirnar í eyði í kjölfar þess að útgerðarmenn seldu stórútgerðinni kvóta sinn.

Ef þú ert orðinn frjálshyggjumaður Árni, þá er lágmark að kannast við það, og síðan átt og þið þarna í Andófinu að sjá sóma ykkar til að hætta tala illa um stórútgerðina og hervirki hennar, það sem þið styðjið er endalok þess fyrirkomulags að fólk hinna dreifðu byggða nýti fiskimiðin í kringum landið.

Ég þarf ekki að vera búandi í sjávarbæ til að þekkja níðingsskapinn, ég hef það siðferði að vita að það er rangt að valda saklausu fólki vísvitandi búsifjum.

Frjálshyggjan er helstefna, hún leiðir alltaf til örbirgðar fjöldans og auðnar samfélaga.  Aðeins feitir þjónar hinnar Örfáu sem eiga allt, hafa í sig og á, fjöldinn er alltaf arðrændur.

Síðan Árni er ofveiði heimshafanna staðreynd, þó kvótar og fiskveiðistjórn hafi náð að snúa þróuninni við af einhverju leiti.  Það stenst enginn lífrænn massi nútímatækni.

Og eins og ástandið var orðið á miðunum uppúr 1980 þá hefði enginn fengið bröndu úr sjó ef aftur hefði verið snúið til tækni til dæmis sjötta áratugarins.  Menn náðu svipuðu afla á níunda og tíunda áratugnum með stórbættum veiðarfærum, bæði urðu þau stærri og öflugri, sem og alls konar tækninýjungar í efni og útbúnaði (man til dæmis bara hvað segulkrókurinn gerði fyrir ýsuveiðar á línu í straum), í togveiðum þróuðu menn tækni til að komast yfir karga sem menn gátu ekki áður, hvarf þá margt griðlandið sem bolfiskurinn hafði haft, og ekki má gleyma staðsetningartækjum og leitartækjum, fiskurinn átti hvergi grið, og síðasta brandan hefði verið veidd, ef  það hefði verið hagkvæmt, en auðvita hefðu útgerðin löngu farið á hausinn áður.

Þetta er faktur, ég á líka heima í sjávarþorpi og þekki breytingarnar frá fyrstu hendi eða réttara sagt fyrsta sögumanni.

Kvóti hefur líka þekkst í öðrum atvinnugreinum, þar á meðal hjá vörubílum (vörubílastöðvar), leigubílum og á öldum áður voru gildin leið iðnaðarmanna til að hindra offjölgun í stétt sinni sem óhjákvæmilega hefði leitt til undirboða hungursins.  Atvinnutækifærin uxu ekki á trjánum í þá daga.

Og það er ekkert mál að kvótasetja fleiri atvinnugreinar, og skattleggja leyfin eða bjóða þau upp. 

Það er auðvelt fyrir til dæmis Ragnar Ingólfsson, gamlan félaga úr Andófinu, leggja til að arðrán á náunganum á landsbyggðinni, en ef hann væri sjálfum sér samkvæmur um aukinn arð í ríkiskassann, þá legði hann til kvóta og síðan auðlindagjald á verslun í Reykjavík. 

Gæti orðið ein mesta hagræðing aldarinnar, jafnvel árþúsundsins, en að sjálfsögðu með tilheyrandi fækkun starfa hjá félagsmönnum VR.

En Ragnar er ekki sjálfum sér samkvæmur, þess vegna er hann lukkuriddari.

Og það eru sorgleg örlög góðs drengs.

En verra þykir mér það að þú sért orðinn frjálshyggjumaður Árni.

Það er eins og baráttan við frjálshyggjuna sé töpuð.

Og líklegast er hún það.

Það er allavega ekki fjölmenni þessa dagana í skotgröfunum sem verjast atlögum hennar.

Við erum búin að tapa fullveldinu, málaliðar auðsins hafa knúið í gegn regluverk sem markaðsvæðir orkuna okkar, og núna sæta þeir lagi og ráðast á landsbyggðina, hún skal þrælkuð í gegnum ofurskatta þar til síðasti sjálfstæði útgerðarmaðurinn gefur upp öndina og eftir standa örfáar stórútgerðir sem fá að nýta sér öll leikföng regluverksins til að ná niður launakostnaði og þjappa saman vinnslu og útgerð í risastórar verstöðvar þar sem lungað af vinnuaflinu verða fátækir farandverkmenn fátækari landa.

Hvað verður þá eftir að landi feðra okkar Árni.

Ég bara spyr.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.11.2019 kl. 22:55

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég gat ekki á mér setið og orða bundist Ómar þegar ég las pistil þinn.


Það var asnaskapur.....en aðeins ein viðbót: Þú átt að lesa bls. 43 í Mogga í dag.

Þar er brein eftir Sveinbjörn Jónsson á Súganda. "Um siðrof".

Við Sveinbörn erum sammála og samherjar í baráttunni fyrir því að skipta út þeirri

fiskveiðistjórn dauðans sem fylgt er í dag og byggist á viðskiptahagfræði sem styðst

við ofveiðimóðursýki. Mér sýnist Sveinbjörn líta sömu augum og ég á þessi mál og 

hallast að því að nýta auðlindina af virðingu og ábyrgð. Og gleyma ekki ábyrgð sem 

snýr að mannlífinu.

Ekki ætla ég að deila við þig lengur Ómar í þetta sinn en get ekki látið hjá líða að

staldra við ártalið 1980 og ályktanir þínar um það.

Það ár "ofveiddum" við 435 þús. tonn af þorski með alltof stórum skipaflota.

Árið eftir veiddum við 469 þús. tonn af þorski með álíka skipaflota að líkindum.

Ofveiðikenningin sem þú heldur í þínu dauðahaldi er lifsnauðsyn til að lifa af

óskemmdur á Íslandi í dag. Sú kenning er hinsvegar búin að kosta þessa þjóð 

ægilegar upphæðir fjármuna og eyðileggja líf fjölmargra fjölskyldna sem áttu 

afkomu sína undir þessariauðlind sem lenti hja sérvöldum fjölskyldum auðmanna

vegna spillingar og beinnar mannvonsku. Sú ákvörðun átti enga stoð eða vísindalega

skírskotun í stofnvernd né vísindalega varkárni.


Bókin: "Fiskleysisguðinn" eftir Ásgeir Jakobsson heitinn segir alla sögu þessa

óvitaskapar svo skýrt og greinilega að ekki verður betur gert.

Beint samband á milli skortstöðu í aflaheimildum og verðmats á aflamarki - óveiddum

fiski er svo augljós sönnun þess að það er varla tilviljun að í stjórn Hafró sitja

í meirihluta fulltrúar útgerða sem eiga milljarðahagsmuni undir skortstöðunni.

Getur hugsast að tenging sé á milli andstöðunnar við nýja stjórnarskrá og einhvers

ótta við að útvaldir beri af því skaða?

Þakka góð samskipti nú sem fyrr hér á þessum vef. 

Árni Gunnarsson, 21.11.2019 kl. 12:36

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni, núna þegar frjálshyggjan veður uppi sem aldrei fyrr, og ógnar bæði byggð og fólki, þá kemst enginn upp með að tengja sig við verkfæri hennar án þess að vera minntur á hvað felst í þeirri tengingu.

Það má vera að þú teljir að ég hafi lagt of mikið út úr þessum orðum þínum, "Ég bind nokkrar vonir við Píratana, jæa. Og með aðstoð Samfylkingar og Flokks fólksins", sem og aðeins saklausari í fyrstu athugasemd þinni, en það er bara svo þannig að þegar ég er að takast á við fávitaskap verkfæranna, að þá er lofgjörð um þau ekki vel þeginn í pistlum þar um.

Þessir flokkar sem þú nefnir ganga núna í takt við lúðrasveit Viðreisnar þar sem Þorsteinn Pálsson slær taktinn, minnugur þess ósigurs að hafa ekki náð að leggja byggðir landsins í rústir á sínum tíma.  Að mæra þá á þessum tímapunkti er í raun að mæra skrúðgönguna og þann takt sem Þorsteinn Pálsson slær.

Ef þér finnst ósanngjarnt að það dragi þig í dilka, þá skaltu útskýra fyrir mér hvar leiðar skilja, og af hverju þú haldir að það sé hægt að styðja flokka sem eru í vinnumennsku fyrir frjálshyggjuna, að það geri þig ekki að frjálshyggjumanni með öllum þeim viðbjóði sem sú stefna stendur fyrir.

Þér til upplýsingar að þá er það þannig að þó margir sveitungar mínir séu góðar og gegnar manneskjur, telji sig til vinstri, og formæli oft og iðulega auðræði og jú frjálshyggju, að þá breytir það því ekki að þegar þeir ákváðu að halda tryggð við annaðhvort VG eða Samfylkinguna, eftir að ljóst var að viðkomandi flokkar stóðu fyrir fordæmalausri aðför að þjóð sinni, í þágu auðs og hrægamma, að þá urðu þeir samsekir, urðu allt það sem þeim var svo títt að gagnrýna.

Það er ekki bæði sleppt og haldið Árni, áttaðu þig á því.

Til að flækja ekki málin um of, þá skal ég ræða við þig kvótann, Sveinbjörn og nýju stjórnaskrána.

Á meðan er það kveðjan.

Ómar Geirsson, 21.11.2019 kl. 17:08

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Kvótakerfi dauðans segir þú Árni og vitnar hér í þann mæta baráttumann Sveinbjörn Súgfirðing.

Finnst þér þetta vitræn athugasemd svona í ljósi staðreynda?

Finnst þér eina atvinnugrein þjóðarinnar sem er í fremstu röð, varðandi sjálfbærni og arðsemi, eitthvað sem kenna má við dauðann? 

Finnst þér sanngjarnt að kenna atvinnugrein sem skilar ómældri framlegð inní samfélag sitt, að fullyrða að dauðinn sé forsenda hennar??

Eða að atvinnugrein sem borgar hæstu laun fyrir utan þá sem sýslar með peninga, byggist á kerfi sem virkar ekki??

Þú segir að Sveinbjörn hallist að kerfi sem "nýti auðlindina af virðingu og ábyrgð", og ertu þá að gefa í skyn að það hafi ekki verið gert??  Eða eitthvað annað kerfi hefði gert það betur??

Ég náði að míga í saltan sjó, áður en brjósklosið sagði við mig að það væri húsbóndinn, og ég náð bæði grásleppu, krókaveiði og snurvoð.  Vissulega hentum við ónýtum þorski sem kom í grásleppunetið, en það var líka gert fyrir daga kvótakerfisins, í krókakerfinu komum við ekki með smælki að landi, fiskurinn þurfti að vera vinnsluhæfur, og á snurvoðin var á kvóta, smælkið fékk sömu örlög, en það var ekki kastað aftur á bleyðu þar sem fiskurinn náði ekki stærð.

Ef þú ert að saka okkur um óvirðingu, þá veit ég allavega að vinnubrögðin voru ekki á neinn hátt öðruvísi fyrir daga kvótakerfisins. 

Þar sem ég er þorpari þá á ég bæði ættingja og vini sem voru á Norðfjarðartogurunum, og þeir könnuðust alveg við brottkast á verðlitlum eða verðlausum fiski, en kvótakerfið breytti engu þar um, það var það sem kom út úr kastinu sem gilti.

Kannski gerðu menn og gera eitthvað annað fyrir vestan, en ég þekki það ekki.

En þú bætir við, og vitnar í Sveinbjörn; "Og gleyma ekki ábyrgð sem snýr að mannlífinu.", og þar brugðust stjórnvöld algjörlega.  Það var vitað að byggðir myndu raskast, rökin voru aukin arðsemi, en af hverju var hluti  arðseminnar ekki lögð í sjóð þar sem fórnarlömb hagræðingarinnar fengju bætur fyrir atvinnumissi og verðlausar eignir. 

Það er ofsalega auðvelt að sýna gróða á meðan aðrir sitja uppi með tjónið. En slík ákvörðun er mannannaverk, kemur aflastjórnun með kvóta ekkert við.

En ábyrgðin gagnvart mannlífinu var allavega engin, og er engin í dag nema óbeint, því í umdeildu kerfi fara menn með gát.  Braskið var að ganga að byggðinni dauðri fyrir Hrun, en eftir það þá komst á ákveðið jafnvægi, með Guðmund vinalausa sem undantekningu, þá hafa kvótafyrirtækin ekki farið gegn byggðinni.  Ef þú veist dæmi um annað þá skaltu leiðrétta mig.

En gættu að því Árni að bestu vinir þínir leggja ekkert til þar um, aðeins einbeittan vilja til að starta nýrri bylgju hagræðingar með tilheyrandi búsifjum fyrir þó þær byggðir sem lifðu af síðustu bylgju.

Mundu líka að kvótakerfið hefur ekkert að gera með það kerfi kapítalismans sem við lifum við í dag, stríðið við hann er sérstakt verkefni, og það allavega vinnst ekki með fólki sem ætlar böl að bæta með tungutaki frjálshyggjunnar.

Síðan er það ofveiðin Árni sem þú afneitar, eða réttara sagt getu mannsins til að útrýma lífmassa.

Ég sagði uppúr 1980, staðan á Austfjarðarmiðum þegar ég kom aftur austur og fór að vinna í fiski 1989, var þannig að togaraflotinn var allur um haustið á Austfjarðamiðum, þar var eini aflinn að fá.  Og það veiðiálag gekk næstum því frá okkar staðbundna fiski sem er hérna fyrir austan.  Veit það á eigin skinni því ég rak litla saltfiskverkun 1991-1994, ördeyðan í þorski var næstum algjör. 

Ég náði að upplifa að gjöful snurvoðamið hættu að gefa af sér, og ég hlustaði á sögur trillusjómanna sem sögðu sögur af línumiðum fyrir utan 12 mílurnar, sem alltaf gáfu af sér, urðu að engu þegar stórir togarar drógu keðjuverk fyrst yfir kargann og nýttu sér síða rokkhopparana eða hvað sem þessir gúmmíbobbingar voru kallaðir, til að toga yfir svæði sem aldrei var togað á áður.

Ég heyrði fleiri en einn, og fleiri en 10 sjómenn segja beint í mín eyru að fiskgengdin væri þannig að menn hefðu ekki fengið bröndu úr sjó með þeim veiðarfærum sem menn höfðu í þeirra ungdæmi.  Og þeir voru ekki að ljúga fyrir kvótakerfið, voru reyndar flestir á móti því.

Þegar þú segir aflatölur 1980, 1981, þá minnir þú mig mjög á veiðimennina sem sögðu að nóg væri að vísundi, og vísuðu í veiðitölur sínar til stuðnings, eða alveg þar til þeir skutu síðustu hjörðina.

Þrátt fyrir minnkandi afla hefði örugglega verið hægt að veiða áfram með þokkalegum hagnaði, þróun tækja og búnaðar sá til þess.  En það reyndi ekki á það, en það var reynt á það víða annars staðar á norðurslóðum.

Hvar eru þeir fiskistofnar í dag??

Annað mál er hvernig kvótinn var ákveðinn, og öll sú aðferðarfræði.  Eða hvernig aflatoppar voru látnir synda hjá, eða hvernig miðin voru nýtt, það er til dæmis ljóst að smábátur með krók, hvort sem þeir eru í slóða eða á línu, getur aldrei, og þá segi ég aldrei, útrýmt nokkrum fiskstofnum.  Eða að hæsta afurðaverð saug til sín kvóta þannig að grunnmið víða um land voru annað hvort vannýtt eða eins og hérna fyrir austan, ónýtt.

Þetta er allt saman bara allt annar handleggur, kemur framferði Samherja í Namibíu ekkert við, eða þeirri staðreynd að veiðum þarf að stjórna.

Kerfið sem við höfum í dag hefur sína kosti og galla, kerfi sem menn leggja til í staðinn hafa líka sína kosti og galla, kannski ekki þá sömu, en þegar þú leysir einn galla, með einhverjum öðrum, þá þarf að vega og meta.

Það er staðreynd að fiskveiðar í dag við Ísland eru arðbærar, skila dýrmætum afurðum, og tækni okkar er í fremstu röð.  Og það er fiskur í sjónum.

Síðan er það líka staðreynd að fullt af fólki, og fullt að byggðum, eiga afkomu sína undir sjávarútvegi.

Þú skaðar ekki þetta fólk, þessar byggðir með einhverju bulli og vitleysu, eins og innköllun kvótans, eða leitar í smiðju frjálshyggjunnar með fiskveiðistjórnun.

Frjálshyggjan er eyðingarafl, bara við það eitt að útrýma henni úr hugmyndaheimi okkar, þá fáum við nýja nálgun á flest svið þjóðlífsins, þar á meðal útfærslu kvótakerfisins.

Þar má hugsa margt uppá nýtt, en það er ekki gert með kollsteypu sem ógnar afkomu fólks til skamms eða langs tíma.

Þar er hnífurinn í kúnni Árni, og þar skilur á milli.

Síðan ertu alltof greindur til að tala um nýja stjórnarskrá, sem var unnin undir handleiðslu Jóhönnu Sigurðardóttur, í þeim eina tilgangi að hefna ófaranna í ICEsave.

Þar liggur alltaf fiskur undir steini.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.11.2019 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 293
  • Sl. sólarhring: 402
  • Sl. viku: 458
  • Frá upphafi: 1320301

Annað

  • Innlit í dag: 273
  • Innlit sl. viku: 415
  • Gestir í dag: 266
  • IP-tölur í dag: 263

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband