Þegar einn leiðtogi er í kjöri.

 

Þá vill hann oft vinna með yfirburðum, það er þegar engin annarleg sjónarmið eru í mótframboði.

 

Það er þannig að stjórnmál snúast um völd og áhrif, og það er eins með stjórnmálaflokka og fótboltalið, ef ekki tekst að móta sterka liðsheild út á við, þá ná menn ekki þeim árangri sem að er stefnt.

Leitni prófkjara er fylgni milli fjármuna og árangurs, þó vissulega séu á því undantekningar.

Eins og til dæmis tengsl inní sterk félagasamtök eða vinsældir fjölmiðlanna.

En prófkjör búa sjaldnast til sterka liðsheild og þeim hættir mjög til að búa til einsleitna lista.  Líkt og til dæmis listi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi var fyrir síðustu kosningar.

 

Leiðtoginn þarf ekki endilega að vera með mestu mannkostina, eða mesti mannasættirinn, en hann þarf að hafa áruna sem fiskar.  Hafa bæði sjarma og trúverðugleika.

Að þeirri einföldu ástæðu var ekkert leiðtogakjör hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík, aðrir frambjóðendur en Eyþór höfðu ekki þá eiginleika sem leiðtogi þarf að hafa.

Þeir fiska ekkert umfram fastafylgi flokksins, og flokkurinn sem slíkur gat endurunnið pappalöggur Sólveigar fyrrum dómsmálaráðherra og málað jakkaföt yfir löggubúninginn og teflt fram pappaleiðtoga eins og að láta þetta ágæta fólk leiða listann.  Pappaleiðtoginn hefði allavega ekki stuðað hina með tilheyrandi hjaðningavígum.

 

Það er full ástæða til að óska Eyþóri velfarnaðar, borginni er ekki vel stjórnað.

Þeir sem ráða líta á að borgin sé til fyrir þá, en ekki þeir fyrir hana.

Þjónustan eftir því, sérviskan og tiktúrur ráða ríkjum.

Eyþór mun örugglega ná að fá umræðuna til að snúast um kjarnann, þjónustu og velferð borgarbúa.

Hann er skólaður úr háskóla lífsins, með allskonar mar og skrámur eftir fjölda mistaka, en hann hefur alltaf komið sterkari til baka.

Með öðrum orðum, háskóli lífsins fer bráðum að útskrifa hann sem alvöru mann, sem þarf ekki almannatengla eða upplyftingu auglýsingastofa til að koma frá sér orði.

Ef hann stendur sig vel, þá er Bjarni í hættu.

 

Bjarni er nefnilega að klúðra sínu síðasta tækifæri með því að sína ekki þann þroska sem þarf til að henda úr forystusveit flokksins fólki sem er í stjórnmálum út á eigið egó, en sinnir ekki þeirri frumskyldu að láta ekki félaga sína og flokkinn gjalda egóstæla sinna.

Fólk sem þekkir ekki sinn vitjunartíma og skaðar allt og alla í kringum sig.

Festir flokkinn í sífelldri spillingarumræðu, ljær honum ásýnd frekju og yfirgangs.

Bjarni er nefnilega að klikka sem alvöru maður, hefur hvorki kjarkinn og styrkinn til að bjarga sjálfum sér og flokknum. 

Og afsökunarbrunnur hans fyrir þverrandi fylgi er að tæmast.

 

Sem sýnir hið fornkveðna, að þó silfurskeiðin geti keypt menntun, og það í dýrustu skólum.  Þó hún geti tryggt farsælan feril upp tröppugang valdastigans, þá getur hún aldrei tryggt eitt.

Árangur í háskóla lífsins.

Jafnvel þó nestið að heiman hafi verið góð ættarfylgja, og ýmsir mannkostir.

 

Skiptir mig svo sem ekki máli.

En það skiptir þjóðina máli.

 

Lýðræðið okkar þolir ekki enn eitt ruglkjörtímabilið þar sem krakkar í sandkassaleik leika sér að fjöreggi þjóðarinnar.

Það er heppni, túristaheppnin sem skýrir velmegun dagsins í dag.

En undirliggjandi er sundurklofin þjóð, ennþá í sárum, holsárum eftir Hrunið haustið 2008.

Það er vitlaust gefið, aðeins heimskingjar, sem og þeir sem hagsmuna hafa að gæta, bera á móti því.

Og aðeins eitt orð nær yfir umræðuna um okkar brýnustu mál:

Rugl.

 

Hvort sem það er aðförin að byggðum landsins sem endurspeglast í aðförinni að landbúnaðinum, tillögum um að slátra gullgæs sjávarútvegsins, ósættið um nýtingu orkuauðlinda, að ekki sé minnst á þá heimsku að fjárfesta ekki í innviðum samfélagsins því það gæti tímabundið dregið úr ofureyðslu og lúxuseyðslu.

Allt ber að sama brunni, við höfum ekki tilfinningu fyrri því hvað gerir okkur að þjóð, og við skiljum ekki að það þarf að afla til að eyða.  Og síðast þegar ég vissi, þá hefur enginn étið aurinn á bankabókinni, eða gullið í kistlinum.

Efnahagsmál eiga ekki að snúast um sterkan gjaldmiðil, efnahagsmál eiga að snúast um fjölbreytt og öflugt atvinnulíf.  Það seinna leiðir hins vegar til hins fyrra, en aldrei öfugt.

 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir er síðasta tækifæri hefðbundinna stjórnmála til að snúa ógæfuþróuninni við, sem og að hefja bygginga brúa yfir allar þær gjár sem kljúfa þjóðfélagið í herðar niður.

Mistakist henni, þá er lýðræðið dautt, hver sem gengur af því dauðu.

Kannski bara aðgerðarleysið, sundrungin og spillingin.

 

Þjóðin þarf leiðtoga.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf leiðtoga.

Borgarstjórnarflokkur hans fékk hins vegar sinn leiðtoga í dag.

 

En hér með er auglýst eftir hinum.

Kveðja að austan.


mbl.is Ákall um breytingar í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fjári er ég sammála þér

og ég deili áhyggjum þínum af íslensku þjóðinni hvers skoðanir virðast stjórnast af tístum

og ekki bara þegar tístin eru andsnúnar Tump

Grímur (IP-tala skráð) 27.1.2018 kl. 21:50

2 identicon

Stundum eru pistlar þínir einfaldir og sannir.

Þessi pistill er þannig, hittir beint í mark.

Mótast af heilbrigð skynsemi ... á ögurstundu.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 27.1.2018 kl. 23:14

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Það er alltaf gott þegar orð manns snerta sameiginlega taug, að maður nái að orða sem fleiri en ég skynja.

Mig langar samt að ítreka að ég er svona meir að fjalla um meint örlög íslenskra stjórnmála, þó undirliggjandi sé vissulega áhyggjur af þjóð sem höndlar ekki velmegun og ríkdæmi á þann hátt að við getum lifað hér í sæmilegri sátt. 

Það er svo margt sem veldur, og vissulega upplifun við orsakavalda missterkt, það er við tökum eftir einhverju, sem svo kannski í okkar huga verður stærra en kannski hjá einhverju öðrum sem sér hlutina með sínum augum.

Ég er ekki að reyna að vera háfleygur, aðeins að reyna að segja, þó við sjáum hlutina misjöfnum augum, og það fer eftir grunnskoðunum okkar, lífsgildum, mótun tímans eða hvað sem gerir okkur að þeim einstaklingum sem við erum, að þá sjáum við samt sama hlutinn.

Að eitthvað mikið sé að, og það gangi ekki mikið lengur.

Okkar allra vegna, og í raun er engu um að kenna, nema þá því ótal mörgu sem mismikla ábyrgð ber.

En við getum ekki vikist undan ábyrgð aðgerðarleysisins mikið lengur.  Og þá eru málin ekki leyst með því að benda á einhvern annan, eða ástunda mikla sagnfræði um ábyrgð annarra.

Málin verða aðeins leyst með því að gera það sem þarf að gera, og þá fyrst er hægt að benda, og þá á þá sem neita að horfast í augun á því sem þarf að gera.

Lifa aðeins nútíðina til að skoða fortíðina, ófærir um að lifa hana til að takast á við áskoranir morgundagsins.

Það er einhver svona kjarni sem við þurfum að átta okkur á.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.1.2018 kl. 23:39

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon frá Koti.

Þessi er allavega einfaldur, náði góðu flæði frá útgangspunkti í lokaorðin sem var tilgangur hans.

En það eru ekki mörg mörk þarna úti sem hann hittir, það er bara þannig.  Sem gerir hann ekki verri fyrir það, í sannleika sagt þá brosti ég þegar hann var búinn, ég var ánægður, ágætur lokapunktur í bili, fór frá ófriði í sæmilegan frið.

En ennþá á andinn langt í land með að landa pistlinum sem var ástæða þessar tarnar sem hófst þarna í kringum jólin.  Ennþá er ekki kominn flötur á Afgangsstærðina.

En hann kemur.

Ekki vonandi, heldur einhvern tímann.

Og í millitíðinni, kemur lífsneisti, endrum og eins.

Við skulum vona að þessi kosning verði borginni til góðs, og vonandi koma fleiri leiðtogar í kjölfarið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.1.2018 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 375
  • Sl. sólarhring: 378
  • Sl. viku: 4156
  • Frá upphafi: 1330332

Annað

  • Innlit í dag: 294
  • Innlit sl. viku: 3571
  • Gestir í dag: 250
  • IP-tölur í dag: 245

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband