21.12.2013 | 10:11
Hallalaus fjárlög
Ef einhver 2 orð ná að skýra kreppuna á evrusvæðinu þá er það þessi orð: hallalaus fjarlög.
Ef eitt orð nær að skýra kreppuna á evrusvæðinu, þá er það evran, hinn erlendi gjaldmiðil einstakra þjóðríkja.
Við Íslendingar eigum okkar evru, það er hin verðtryggða króna, vegna hennar má ekki hækka laun, má ekki auka ríkisútgjöld, má ekki tryggja fátækum lágmarks lífsafkomu.
Við Íslendingar eigum líka ríkisstjórn sem setur hallalaus fjárlög á oddinn, með sömu afleiðingum og á evrusvæðinu, stöðnun og að lokum samdráttur þegar ytri skilyrði duga ekki lengur til að vega upp neikvæð áhrif hinna hallalausu fjárlaga.
Í 5 ár hefur Evrópusambandið barist gegn stöðnun með hallalausum fjárlögum, í 5 ár hefur árangur þeirrar stefnu verið sá sami.
Áframhaldandi kreppa, sem ekki sér fyrir endann á.
Ásamt síaukinni fátækt, matarbiðröðum, neyðaraðstoð hjálparsamtaka.
Ekkert sem kemur á óvart því þessi stefna beið líka skipbrot á fjórða áratug síðustu aldar, á árunum sem kennd var við Kreppuna miklu.
Þá vissu menn ekki betur, en í dag vita menn betur.
Mig langar að vitna í sagnfræðinginn A.J.P. Taylor í umdeildri bók sem hann fjallar um orsakir seinni heimsstyrjaldar, þar sem hann fjallar um efnahagsástandið á fjórða áratugnum, og lærdóminn sem var dreginn af því ástandi.
Heimskreppan hófst vegna bankahruns í Bandaríkjunum og breiddist út og dýpkaði er kaupmáttur fólks hélt ekki í við vaxandi framleiðslukostnað. Þetta skilja allir nú á dögum, rétt eins og allir vita að til þess að komast út úr kreppuástandi þarf að auka ríkisútgjöld. Árið 1929 voru þeir næsta fáir sem skildu þetta og þeir fáu sem gerðu það höfðu engin áhrif á stefnumótun í stjórnmálum.
Þá voru flestir þeirrar skoðunar að verðhjöðnun væri eina ráðið, gjaldmiðlar ættu að vera traustir, jafnvægi ætti að ríkja í fjárhagsáætlunum og skerða bæri laun og útgjöld hins opinbera. Því aðeins mætti ætla að verðlag myndi lækka svo mikið að fólk hefði aftur efni á að kaupa.
Hinir hagfræðilegu leyndardómar, sem Schact hafði lokið upp í Þýskalandi og hin svonefnda New Deal Roosevelts Bandaríkjaforseta hafði sýnt enn skýrar, voru enn ókunnir breskum ráðamönnum. Þeir höfðu óbilandi trú á stöðugu verðlagi og stöðugu pundi, töldu aukin ríkisútgjöld af hinu illa og aðeins réttlætanleg í styrjöld, þar sem þó bæi að varast slíka léttúð. Þeir höfðu ekki hugmynd um að aukin ríkisútgjöld til nánast hvers sem var, jafnvel hermála, höfðu í för með sér aukna velsæld. Eins og nánast allir hagfræðingar samtímans, að J.M.Keynes undanskildum, fóru þeir með ríkisfjármál eins og þau væru fjármál einstaklinga. Þegar einstaklingur eyðir peningum í óþarfa hefur hann minna til að eyða í annað og þá minnkar eftirspurnin. Þegar ríkið eyðir peningum skapar það hins vegar aukna eftirspurn og þar aukna velsæld í samfélaginu í heild. Þetta er öllum ljóst nú á dögum, en fáir vissu það á þessum tíma.
Þegar Taylor skrifaði bók sína um 1960, þá var rifist um kenningar hans um hverjir báru ábyrgð á styrjöldinni, en um þessi orð hans var ekki rifist.
Þau voru almenn sannindi.
Og eru það ennþá dag í dag.
Kreppa evrusvæðisins sannar það.
Kveðja að austan.
Umræða um fjárlög hefst kl. 14 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 23
- Sl. sólarhring: 32
- Sl. viku: 2042
- Frá upphafi: 1412741
Annað
- Innlit í dag: 23
- Innlit sl. viku: 1795
- Gestir í dag: 23
- IP-tölur í dag: 21
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll.
Við erum sammála um að evran er mikið vandamál í Evrópu.
Ég get hins vegar ekki tekið undir með þér varðandi hallalaus fjárlög. Ef menn ætla að reka opinbera sjóði lengi með halla endar það illa. Með skuldsetningu opinberra sjóða eru menn að rýra lífskjör komandi kynslóða. Eigum við að lifa hátt á kostnað barna okkar?
Það er samband á milli mikillar opinberrar skuldsetningar og lítils hagvaxtar: Í Journal of economic perspectives (2012) er grein þar sem litið er til sambands skulda og hagvaxtar í 22 þróuðum ríkjum frá 1800-2011. Greinileg tengsl eru á milli skulda og hagvaxtar. Þar sem skuldir eru yfir 90% af GDP í meira en 5 ár verður hagvöxtur minni en af skuldir eru lægri en, var þarna um 2%. Ef skuldir hins opinbera eru undir 30% var hagvöxtur rúm 4%.
Þess má að lokum geta að í kreppunni miklu í USA á fjórða áratugnum reyndu opinberir aðilar allt sem þeir gátu til að kveða kreppuna í kútinn með eyðslu og skattahækkunum. Tekjuafgangur var á fjárlögum USA árin 1930 og 1931, þjóðarskuldir voru 16 milljarðar dollara árið 1931 en í lok áratugarins voru þær orðnar rúmir 40 milljarðar dollara. Þar sjáum við skýrt dæmi þess að menn geta ekki eytt peningum til að láta kreppu hverfa. Öðrum meðulum verður að beita.
Helgi (IP-tala skráð) 21.12.2013 kl. 15:49
Helgi fellur í sömu gryfju og svo margir aðrir svokallaðir frjálshyggjumenn, þ.e. þeir halda að rekstur ríkisins sé eins og rekstur fyrirtækis. Ómóttækileiki þeirra fyrir hlutverki ríkisins er grundvöllur hugmyndafræði þeirra; það verður að græða á öllu(m) og því sem ekki er hægt að græða á (skammtímagróði er eini sanni gróðinn) má deyja drottni sínum. Þegar þeim eru sýndar afleiðingar frjálshyggjunnar er svar þeirra yfirleit á þann veg að þetta sé ekki hugmyndafræðinni að kenna heldur fólkinu sem útfærði og framkvæmdi eins og frjálshyggjan bauð því. Orð Hannesar Smárasonar á tímum útrásarinnar (tímar þar sem frjálshyggjan náði hæstu hæðum)„ég á þetta - ég má þetta“ lýsir í hnotskurn hversu fátækleg hugmyndafræði þeirra er í raun og veru.
Og helgi minn ég er ekki að reyna að rökstyðja neitt, þannig að þú mátt alveg spara þér ákúrur um það í minn garð..... ef þú getur.
Toni (IP-tala skráð) 21.12.2013 kl. 16:26
Blessaður Helgi.
Það gleður mig mikið, er jafnvel ígildi jólagjafar að þú skulir vera sammála mér í einhverju.
Hvað hitt varðar, þá er það bara svo að þegar menn gefa sér aðra forsendu en þá að bein lína milli tveggja punkta sé stysta vegalengd á milli þeirra, þá kann ég ekki alveg að rökræða nema þá að þekkja þá forsendu sem gefin er.
En mér dettur í hug að ráðleggja þér að lesa Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson, nánar tiltekið um hagfræði afa á Knerri.
Hann var mikið fyrir að eiga fé í sjóði, en ekki á fjalli.
Fólk svalt, á meðan smérið úldnaði í hirslum hans.
Líklegast gerðu dollararnir sama gagn þarna um árið, það er ekkert.
En úldnuðu líklegast ekki.
Sem er eini munurinn á dollar í hirslu og sméri í hirslu.
Allavega, ef þú verður engu nær, þá hefur allavega lesið góða bók.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.12.2013 kl. 16:27
Hér er margt gott.
Það er smá grín í mér, en þetta er þó jafn satt.
Peningar eru flutningabílar.
Þeir flytja verðmæti, vörur og þjónustu a milli aðila í þjóðfélaginu.
Ef skortur er á flutningabílum getum við ekki flutt alla vinnu og hugsun, þjónustu og vörur á milli þegnana.
Þá kemst vinnan ekki í að búa til vörurnar.
Sjóður"0" er galtómur flutningabílaskapari.
Ef eitthvað þarf að gera, og það er laust vinnuafl, þá fáum við flutningabíla, "peninga" frá Sjóði"0"
Aldrei að taka lán.
Aldrei að skipta við fjárfesta.
Þarna sköpum við flutningabílana eftir þörfum.
Hugsanlega þarf að afskapa flutningabíla, draga þá aftur inn í Sjóð"0"
Búa til forrit sem keyrir þjóðfélagið með Sjóði"0"
Að sjálfsögðu þarf að stilla saman gjaldeyristekjur og gjaldeyris notkun.
Það þarf að breyta nokkrum áherslum, hugsun og gerðum í fjármálakerfinu.
Við eigum fullt af fólki sem getur hannað þetta fyrir okkur.
http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/
Egilsstaðir, 22.12.2013 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 22.12.2013 kl. 00:55
@2:
Þú veist ekki frekar en Ómar hvað frjálshyggja var. Þess vegna sýnist mér allt benda til þess að þið tveir séuð í raun sami aðili.
Frjálshyggjan náði ekki hæstu hæðum á sama tíma og Hannes Smára var að gera það sem hann gerði. Þegar reglum fjölgar og ríkisvaldið stækkar er það einmitt dæmi um að frjálshyggja hafi ekki verið ríkjandi. Þið Ómar ættuð (ef þið eruð ekki sami aðili) að kynna ykkur hvað frjálshyggja er. Þetta dæmi þitt segir því ekkert nema sanna að frjálshyggjan var ekki rót okkar vanda. Þakka þér fyrir að taka undir mitt mál :-) Annars skiptir ekki máli hvert stjórnarformið er, jafnaðarmennska eða frjálshyggja - alltaf munu misöflugir einstaklingar reka fyrirtæki og þeim mun ganga misvel.
Ég er ekki stjórnleysingi - ég tel að ríkið hafi takmörkuðu hlutverki að gegna. Og nei, ég er ekki á því að rekstur ríkisins sé eins og rekstur fyrirtækis. Þarna leggur þú mér aftur orði í munn - afar málefnalegt og þér til mikils sóma. Svo er það auðvitað þannig að ef fólk vill að mark sé á því tekið reynir það að rökstyðja sitt mál. Getur þú ekki rökstutt þitt mál eða nennir þú því ekki?
@3: Þarna sýnir þú með afar skýrum hætti það sem ég hef áður bent á: Þú svarar ekki og skiptir um umræðuefni heldur ferð að ræða hornafræði og skáldverk. Tengslin við það sem ég nefni í 1 eru nákvæmlega engin. Ertu stoltur af þessu svari?
Eigum við að lifa hátt á kostnað okkar barna? Getur þú ekki svarað þeirri spurningu eða viltu það ekki?
@4: Við eigum einmitt ekki að fá einn eða neinn til að hanna eitt eða neitt í fjármálakerfinu. Miðstýring virkar ekki.
Helgi (IP-tala skráð) 22.12.2013 kl. 10:31
Blessaður Helgi.
Þú særir mig pínkupons með því að halda að ég þurfi fleiri málpípur en mig sjálfan til að tjá mig hér á blogginu. En jafnframt er í þessu innifalið hrós, að þú teljir að ég ráði yfir þeim breytileika í stíl, að ég geti tjáð mig undir öðrum nöfnum án þess að nokkur tenging sjáist við megin stílnotkun mína.
Það liggur við að ég fari að spá í hvort ég geti svo algjörlega skipt um ham, en ég held samt að ég ráði ekki við það.
Félagi Toni er einn af fastalesendum þessa bloggs, eða það held ég, og hann var mjög oft hér í athugasemdarkerfinu í árdaga þegar ég bloggaði mikið um skuldaleiðréttinguna.
Að þekkja ekki til hans bendir ekki til mikillar athyglisgáfu af þinni hálfu. Þú ert jú búinn að vera fastur hér nokkuð lengi.
Varðandi það sem ég benti þér á hér að ofan, þá er það eiginlega ekki mitt vandamál, að þú skiljir ekki uppfræðslu mína, þú átt ekki eftir að lenda í Pisakönnun um almennan skilning á gangverki efnahagslífsins.
Þú hefðir samt gott af því að lesa Fjallkirkjuna, fyrir utan að vera afspyrnu góð bók, sem meðal annars útskýrir hagfræðina um úldið smér, þá segir hún margt um frelsið sem þú hefur í dag, en Gunnar Gunnarsson hafði ekki þegar hann ólst upp.
Því það alvarlega við frelsistal þitt Helgi er, að þú hefur ekki græna glóru um ófrelsi fjöldans á þeim dögum þegar hinir Örfáu höfðu frjálsar hendur með skipan mála.
Ófrelsi þeirra er frelsi fjöldans.
Og frelsisþrá þeirra sem þú styður svo dyggilega, er um leið bein ávísun á eldri skipan, ánauð fjöldans.
Varðandi þá umræðu sem þú ert sí og æ að reyna að endurvekja við mig fáfróðan manninn, sem kann ekki að rökstyðja mál sitt, að þá skal ég glaður halda áfram þar sem frá var horfið í þeim þráðum þar sem við ræddum þessi mál til hlítar.
Ef athugarsemdarkerfið hefur lokast í þeim, sökum tímalengdar, þá skal ég glaður opna þau á ný.
En við skulum láta Bill Murray um Groundhound day.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2013 kl. 11:41
Blessaður Jónas.
Kannski grín, en allavega gott grín.
Það útskýrir vel til hvers peningar eru.
Augljóst mál öllu vitibornu fólki en málið er hagsmunir.
Hagsmunir þeirra sem græða á heimskunni.
Þeir ráða í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2013 kl. 11:46
Kæri Ómar: Eigum við að lifa á kostnað barna okkar? Einföld spurning :-)
Groundhog day kemur þeirri spurningu ekkert við :-) Áttar þú þig nú á því hvað ég á við þegar ég tala um útúrdúra og að þú svarir ekki spurningum?
Eigum við að skuldsetja framtíð barna okkar, með halla á fjárlögum, eða eigum við að hafa fjárlög hallalaus?
Þið Toni hljótið í sameiningu að geta svarað þessari einföldu spurningu :-)
Fæ ég kannski næst eitthvað um Bjart í Sumarhúsum? Fyrirlestur um heimsku? Fyrirlestur um fjármagnið? Fyrirlestur um friedmanisma? Fyrirlestur um græðgi?
Helgi (IP-tala skráð) 23.12.2013 kl. 07:42
Blessaður Helgi minn.
Höfum eitt á hreinu, ég hef aldrei vænt þig persónulega um heimsku. Þú ert einhver blanda af bókstafstrúarmanni, og það er fólk sem tekur ekki rökum sem ganga gegn kenningum þeirra, og manni sem viðurkennir ekki almennar skilgreiningar. Sem í sjálfu sér þarf ekki að vera rangt, það er til dæmis hægt að reikna alla stærðfræði upp á nýtt ef þú gefur þér aðra grunnforsendu en þá að á milli tveggja punkta sé bein lína stysta vegalengdin, en þá þurfa menn að koma með sínar skilgreiningar, það er ef þeir vilja taka rökræðu við aðra.
Þetta er ekkert persónulegt, þetta er forsendan að geta verið frjálshyggjumaður, frjálshyggjan er hagtrú, ekki hagfræði.
Heimskan sem ég vitna í þegar ég fjalla um kröfuna um hallalaus fjárlög á krepputímum, er ekki vegna þess að hún gengur gegn öllum fræðilegum rökum, heldur vegna þess að hún er margsönnuð sem bull, hún virkar ekki.
Þú getur til dæmis reynt að telja samferðarmönnum þínum í trú um að það hafi engar afleiðingar að kasta stóru grjóti í gegnum glerrúðu, vissulega brotni rúðan, en glerbrotin lími sig alltaf saman upp á nýtt vegna innbyrðistogkrafta. Vísar þá í rökin um þú getur aðskilið líter af vatni í nokkur ílát, en látir þú hann aftur saman í eitt ílát, þá renni allt saman, og úr verður samfelldur líter af vatni.
Þau rök sem slík eru rétt, en tengingin milli þess og brotins glers er engin.
Kenning þín gengur því gegn öllum fræðilegum rökum.
En þú getur haldið henni fram.
Þar til þú gerir tilraun, brýtur rúðu, og ekkert gerist annað en það að rúðan brotnar. Gerir þú það aftur með sama árangri, og aftur, þá kemur sá tímapunktur að það er algjör heimska að taka mark á þér, hafi menn á annað borð gert það upphaflega.
Og Helgi, þetta er dæmisaga, ég er ekki að skipta um umræðuefni. Dæmi hafa fylgt kennslu frá upphafi kennslunnar.
Heimskan er svo ennþá meiri þegar menn sjá og gagnrýna fáráð þessarar stefnu í löndum Evrópusambandsins, en ætla síðan að framkvæma hana hér á landi.
Þess vegna er stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins heimskir, heimsk fífl, með fullri virðingu fyrir þeim.
Stuðningsmenn Samfylkingarinnar, sem afneita staðreyndum evrunnar, og ástandinu á evrusvæðinu, hafa þessa afneitun sér til afsökunar, en ekki stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins.
Þeir hafa jú gagnrýnt þessa stefnu í fjögur ár.
Af hverju þetta virkar ekki Helgi, hef ég marg oft útskýrt fyrir þér, og ætla ekki að gera það enn einu sinni.
Ég hef sagt þér að það er greinarmunur á skuldum í erlendri mynt, og þá eiga rök þín við, og skuldum í innlendri mynt, þar sem rök þín eiga ekki við.
Jafnvel þó ríkissjóður skuldi öðrum en Seðlabankanum, þá í fyrsta lagi getur Seðlabankinn keyrt vextina niður i núllið, líkt og gert er í öðrum vestrænum löndum, sem og að ríkissjóður getur hvenær sem er tekið lán í Seðlabankanum, og endurgreitt skuldir sínar.
Á krepputímum á ríkissjóður að fjármagna sig með lágmarks vaxtakostnaði, og ef fjármagnseigendur vilja ekki kaupa slík skuldabréf, þá fjármagnar ríkissjóður sig í gegnum Seðlabankann.
Sem líklegast yrði ekki raunin því á krepputímum leita fjárfestar í öruggt skjól með peninga sína og til dæmis Svisslendingar hafa hefð fyrir að gefa út ríkisskuldabréf með neikvæðum raunvöxtum.
Valkostirnir eru þá slík bréf, eða þá áhættan á ennþá meiri tapi annars staðar.
Þetta er leiðin til að hámarka verðmætasköpun í samfélaginu á krepputímum, og það er besta búið sem hægt er að skila börnum sínum.
Leið niðurskurðarins, að skemma verðmætasköpun með því að láta fjármagn vanta í hagkerfinu, er hins vegar leiðin þar sem þú lætur börnin borga umframgróða fjármagnsins.
Ég er margbúinn að segja þér þetta Helgi, og þú ert ekki sammála mér, og það nær ekki lengra.
Ég vitna í reynslu sögunnar, og fræðin, þú vitnar í hugmyndaheim þinn, fóðraðan af röngum fullyrðingum bókstafsins.
Það er munurinn að hafa rétt fyrir sér, og hafa rangt fyrir sér.
Þú virðist aldrei hafa skilið það Helgi, að mennirnir sem tóku ákvörðun um viðbrögð Bush stjórnarinnar við fjármálakrísunni haustið 2008, voru hámenntaðir hagfræðingar, og miklir talsmenn frjáls markaðar.
Samt tóku þeir þessa ákvörðun því samkvæmt þeirra þekkingu var hún sú eina rétta.
Þú hefur valkost hvort þú viljir halda áfram að trúa, eða hvort þú viljir vita.
Ég ætla því að linka til þín viðtalinu við Ben Bernanke þar sem hann útskýrði ákvarðanir Bush stjórnarinnar, sem var hvorki keynísk, sósíalísk eða kommúnísk, heldur hreinræktuð hægri stjórn í anda Friedmans, og einnig ætla ég að linka til þín Tímalínu About.com US economy, nokkuð greinargóð síða skrifuð á mannamáli. Og ekki af vinstra fólki, eða keynistum.
Fróðleikur skaðar aldrei.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 23.12.2013 kl. 09:21
Hér er linkurinn á Ben.
Ómar Geirsson, 23.12.2013 kl. 09:26
@9: Sæll.
Þú vilt s.s. skuldsetja framtíð barna okkar svo við getum lifað hátt. Gott og vel. Þá er það komið á hreint.
Ekki afneita síðan seinna þessari skoðun þinni þegar kemur að því að þurfa að borga þessar skuldir!!!!
Ekki reyna þá að hallmæla fjármagninu fyrir að gera ykkur sem viljið fjárlög með halla í kreppu kleift að gera það sem þið teljið vera það besta. Það eru til ýmis orð yfir slíkt viðhorf :-)
Peningaprentun er auðvitað ekkert annað en þjófnaður sem og sú lágvaxtastefna sem rekin er af helstu seðlabönkum heims.
Verðbólgan fer fyrr eða síðar af stað. Mundu þau orð mín!! Þegar verðbólgan fer af stað þá fara vextir líka af stað!! Þá fer að verða dýrt að skulda!! Mundu þau orð mín!! Þá verður þú og þín skoðanasystkini að gangast við ábyrgð!! Ekki reyna að velta henni yfir á mig og/eða frjálshyggjuna því ég er alfarið á móti hallarekstri hins opinbera.
Ég vitna ekki bara í fræði, í nr. 1 bendi ég þér á hvað reynt var að gera í kreppunni miklu án nokkurs árangurs - tek empírískt dæmi sem þú svarar í engu. Sömuleiðis tek ég empírískt dæmi um skaðsemi skuldasöfnunar hins opinbera þegar kemur að hagvexti.
Harding sneri niður kreppu á skömmum tíma með því að skera niður á fjárlögum. Hallalaus fjárlög á krepputímu eru því greinilega ekki heimska sem ekki virkar. Sagan passar ekki við þína kenningu.
Vel má vera að þeir sem stjórnuðu í USA þegar bankakrísan skall á hafi verið talsmenn frjáls markaðar en það sem þeir gerðu átti ekkert skylt við kapítalisma eða frjálshyggju enda kostaði TARP skattgreiðendur verulegar fjárhæðir. Hank Poulsen kom úr fjármálageiranum og auðvitað bjargaði hann vinum sínum á kostnað skattgreiðenda - pilsfalda kapítalismi sem ég er alveg á móti.
Svo verður þú að fyrirgefa mér fyrir að nenna ekki að lesa neitt frá Bernanke, hann var alveg úti á túni að tjalda varðandi bankahrunið þar til það brast á :-) Hann sá það ekki fyrir og skilur enn ekki tilurð þess.
Helgi (IP-tala skráð) 23.12.2013 kl. 10:37
Helgi, persónulega þá held ég að það sé ekki hægt að bulla meira en þú gerir hérna; "Þú vilt s.s. skuldsetja framtíð barna okkar svo við getum lifað hátt. Gott og vel. Þá er það komið á hreint. ", annað hvort ertu ekki læs á texta, eða þú skilur ekki einfalt orsakasamhengi.
Eða þá að þú skilur ekki orð af því sem sagt er við þig á íslensku.
Ég hafði einhvern grun um það, þess vegna datt mér í hug að vísa þér á About.com, þar er samhengi hagfræðinnar útskýrð á einföldu máli, á enskri tungu. Þú neitar að að lesa til að minnka fáfræði þína, en af einhverjum ástæðum þá lestu samt pistla mína, svo það er smá séns að þú náir samhenginu, ef ég peista til þín lykilatriði á ensku.
Og það snýr að hlutverki Seðlabanka.
"The Fed has the ability to simply create it. This unique ability is a function of all central banks. It has the same effect as printing money. " .
Það er engin skuld inní framtíðina, Seðlabankar búa til peninga, í versta falli ef það verður offramboð af peningum, þá útþynnist gjaldmiðillinn.
Og ef þér hefði borið gæfa til að kynna þér rök frjálshyggjumannsins, Ben Bernanke, þá hefðir þú vitað af hverju slíkt er ekki vandamál á krepputímum.
Síðan er hlálegt hjá mér að þurfa að leiðrétta rangfærslur þínar um friedmanismann, minn höfuðfjanda, en monatorisminn sem leggur áherslu á peningastjórnun (sem er micro aðgerð, ef þú veist þá hvað micro hagfræði er) en mælir gegn macro, það er inngripum ríkisvalds.
Þó ég sé alfarið á móti þessu, og sé augljósar takmarkanir á peningastjórnun, þá er viss lógík í því að lækka vexti til að vega upp á móti samdrætti. Og virkar vissulega í ákveðnum tilvikum.
Um lága vexti gildir, eins og líkt er með peningaprentun, að hættan er alltaf á þenslu umfram framleiðniaukningu.
Slík þensla var ekki til staðar í vestrænum hagkerfum fyrir hrun, það er í framleiðsluhagkerfinu, og þess vegna var vöxtum haldið lágum.
En lágir vextir leiða ekki sjálfkrafa til fjármálahruns, þá ætti til dæmis svissneska bankakerfið að hrynja 5 ára fresti. Þar eru alltaf lágir vextir, með þeim undantekningum sem sanna regluna.
Og lágir raunvextir eru miklu algengari í hagsögunni, en hávextir, án þess að neitt samhengi sé við fjármálakreppur.
Að halda öðru fram er í besta falli fáfræði, en þar sem þeir sem fóðra þig á þessu rugli eru menntaðir menn, þá eru þeir hreinlega að ljúga, þeir styðja fullyrðingar sínum engum sögulegum rökum.
Vikjum þá að Harding og kreppunni miklu, vonandi í síðasta skiptið því jafnvel bilaðar plötur hafa sínar takmarkanir á endurtekningum.
Og til að auðvelda lesturinn, þá kemur það í næstu athugasemd.
Á meðan, kveðja.
Ómar Geirsson, 23.12.2013 kl. 14:13
Víkjum fyrst að kreppunni miklu.
Hún varð í kjölfar hlutbréfahrunsins mikla 1929, og hefði alltaf haft alvarleg áhrif á efnahaginn.
En ríkisstjórnir Vesturlanda brugðust við með aðferðum klassískrar hagfræði, hækkuðu skatta og skáru niður, juku þar með vandann.
Vegna þess að í kjölfar hlutabréfahrunsins varð sjóðþurrð í hagkerfinu, það vantaði fjármagn, og því var rangt að auka þá þurrð með skattahækkunum og niðurskurði.
Aðeins eitt ríki Vesturlanda, beitti Keynískum aðgerðum, það var Þýskaland við valdatöku nasista, og þar blómstraði efnahagslífið og atvinnuleysi hvarf á einni nóttu.
Annað land beitti þeim að hluta, og það var USA eftir að ríkisstjórn Roosevelt tók við. Hún náði að endurreisa atvinnulífið, en aðeins að hluta, áherslur hennar á hefðbundin tæki klassískrar hagfræði, það er leitun að jafnvægi í ríkisfjármálum, vann á móti örvunaraðgerðum.
Önnur lönd, eins og Frakkland og Bretland, náðu sér ekki á strik með hinum hefðbundnu áherslum á hallalaus fjárlög og viðhalda stöðugu gengi.
Ef Þjóðverjar hefðu beðið með seinna stríð, þá hefðu þeir sjálfkrafa orðið öflugasta stórveldi Evrópu, því kreppuþjóðir útbúa ekki öfluga heri.
Allt sem þú segir um kreppuna miklu Helgi er rangt, ekkert styðst við sögulegar staðreyndir.
Þú kennir röng viðbrögð klassískrar hagfræði, það er hallalaus fjárlög og stöðugt gengi, við Keynisma, og áttar þig ekki á að New Deal var mjög takmörkuð aðgerð, og aðeins beitt í USA.
Síðan virðist þú ekki hafa græna glóru um af hverju kreppan skall á.
Þess vegna vil ég ráðleggja þér að lesa About.com, þar er ágætis grein sem heitir
Stock Market Crash of 1929
Lestu hana, þú verður aðeins sterkari í rökræðum á eftir.
En þá er það Harding, og hann fær nýja athugasemd.
Á meðan, kveðja.
Ómar Geirsson, 23.12.2013 kl. 14:33
Við höfum rætt Harding áður, ég sýndi þér fram á að samdrátturinn hefði verið hefðbundinn samdráttur þegar hagkerfi aðlaga sig almennri eftirspurn.
Benti þér á að stríðskerfið hefði verið miklu umfangsmeira eftir seinna stríð, og sagði þér af hverju.
Og ég benti þér á að svipuðum aðgerðum hefði verið beitt, það er hagkerfið örvað á einhvern hátt.
Harding skar niður stríðskerfið, lækkaði stríðsskatta, en almenn eftirspurn sem stafaði af tækniframförum, sá svo um restina.
Tækniframfarirnar hétu fjöldaframleiðsla.
En það var hægt að klúðra því, og það var ekki gert 1921.
Og hvað með það, hvað segir þetta dæmi??
Jú, örvunaraðgerðir virka.
Og kreppur er hægt að leysa áður en þær verða alvarlegar.
En annað er ekki hægt að heimfæra frá Harding yfir í meint rétt viðbrögð við fjármálakreppum.
Vegna þess að samdrátturinn 1920-1921 var ekki kreppa, heldur samdráttur, og í öðru lagi var samdrátturinn ekki vegna aðstæðna á fjármálamarkaði.
Samdrátturinn var ekki fjármálakreppa, það er verið að bera saman ólíka hluti.
Og þegar menntaðir menn, hafa ekki annað dæmi um virkni niðurskurðar og skattalækkana, þá afhjúpa þeir sig sem rökþrota einstaklinga sem geta ekki vísað í rök máli sínu til stuðnings.
Og síðan er þessi rökstuðningur rökvilla.
Það verður samdráttur á meðaltali 5 ára fresti, og ýmsum aðgerðum hefur verið beitt til að takast á við slíka samdrætti.
Ég gæti verið svo lyginn að ég tæki nokkur dæmi frá Keyníska hagskeiðinu, sem er lengsti samfelldi gróskutími nútíma efnahagssögu, og sagt, sjáið, það er ekki hægt að takast á við kreppur með öðrum tækjum en macro aðferðum Keynismans.
Sem er rangt af tveimur ástæðum, í það fyrsta þá duga þær ekki alltaf, og svona fullyrðing skautar yfir þá staðreynd, sem og hitt, að micro aðferðir Friedmanismans sló á svona samdrátt á níunda og tíunda áratugnum.
Og í vitiborinni umræðu stundar maður ekki svona málflutning.
Það er líka skýring þess að ég legg mig ekki eftir málflutningi frjálshyggjumanna, þegar ég verð var við svona alvarlegar rökveilur, og svona augljósa blekkingu, þá veit ég út frá heilbrigðri skynsemi, að restin er eins.
Því sem þarf ranga forsendu til að rökstyðja niðurstöðu sína, hann ástundar blekkingar, ekki fræði.
Og í síðasta sinn Helgi, og ég nenni ekki að endurtaka það aftur, Harding segir ekki neitt um kreppur, og hvernig á að takast á við fjármálakreppur.
Það er ekkert sambærilegt í þessum tveimur dæmum.
Það má vel vera að niðurstaðan sé rétt, að niðurskurður ríkisútgjalda sé leiðin, en Harding er ekki rökin.
Og það er tími til kominn að þú áttir þig á því.
Ef þú endurtekur þig einu sinni enn, þá nenni ég ekki að ræða við þig frekar.
Því gegn fullyrðingunni að jörðin sé flöt og heimurinn hafi verið skapaður fyrir 4500 árum síðan eftir forskrift fyrstu Mósesbókar eru engin rök sem sá sem trúir tekur gild.
Og slík umræða er ekki tekin hér.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 23.12.2013 kl. 14:52
Sæll.
Byrjar þú aftur að snúa út úr og ræða annað efni og saka mig um að skilja ekki texta. Mjög málefnalegt og voðalega þægilegt, með þessum aðferðum þarftu auðvitað ekkert að endurskoða hjá sjálfum þér. Mætir Toni ekki fljótlega á svæðið?
Þegar skuldir hins opinbera aukast erum við auðvitað að lifa á kostnað þeirra sem seinna koma. Þú munt sjá þetta eftir nokkur ár þegar borga þarf skuldir okkar til baka og standa við hundruð milljarða í skuldbindingum. Detroit upplifði þetta þannig að við sjáum hvað gerist, Detroit er gluggi inn í framtíðina. Hvað erum við að borga af skuldasúpunni okkar í ár? Finnst þér það kannski ekki skipta máli eða vera lítið?
Opinberir aðilar hafa hlaðið á sig skuldum (bæði hérlendis sem og erlendis) en samt er allt í steik í efnahagsmálum heimsins. Menn reyna að gera það sem Hoover og síðar Roosevelt gerðu. Það virkaði augljóslega ekki enda stóð kreppan mikla mjög lengi. Samt vilja menn bæta enn meira á þær skuldir og halda að það virki.
Merkilegt að þú skulir tala um nasistana, þeir juku skuldir gífurlega á fjórða áratugnum. Stríðið hafði augljóslega áhrif á greiðslu þeirra skulda og því hrundi efnahagurinn ekki. Þú sleppir alveg að nefna að matur og fatnaður, ásamt fleiru, var skammtað í stjórnatíð nasita. Lifistandard féll í Þýskalandi á þessum tíma, þó Hitler nánast útrýmdi atvinnuleysi með miklum skuldum. Það má auðvitað deila um það hvort þetta sé góður árangur eða ekki.
Þegar við ræddum Harding síðast sýndir þú bara fram á það hvernig menn komast í mótsögn við sjálfa sig. Ég nenni ekki frekar en þú niður þá götu aftur.
Þegar atvinnuleysi er yfir 10% tala flestir um kreppu en ekki þú. Sniðugt hvernig þú endurskilgreinir hugtök þannig að þau henti þínum málflutningi. Þetta er auðvitað ekki eina hugtakið sem þú leggur aðra merkingu í en allir aðrir (fyrir utan Toni).
Þú segir örvunaraðgerðir virka. Það er ekki rétt en þú um það. Hafa örvunaraðgerðirnar sem beitt hefur verið undanfarið í USA virkað? Nei! Það eina sem hefur verið örvað eru skuldir. Þarlendis, sennilega líkt og hér og annars staðar, mæla menn atvinnuleysi bara þannig að það virðist lágt (sleppa því t.d. að mæla þá sem eru í hlutastarfi en vilja fullt starf). Svo snúa menn bara blinda auganu að skuldunum og þá er allt bara honky dory! Skuldir og skuldbindingar munu að lokum gera vart við sig þó nokkur ár séu í það og þá verður þú löngu búinn að gleyma því sem ég er að reyna að benda þér á. Ætli þú talir þá ekki um hið illa fjármagn? Þeir sem lána eru rosalega vondir að vilja peninginn sinn til baka :-(
Finnst þér Roosevelt virkilega hafa endurreist atvinnulífið að hluta? Árið 1929 var atvinnuleysi 3%, árið 1931 var það 15%, 1933 var það tæp 25%, 1935 var það 20% og árið 1938 var það 19%. Kallar þú þetta að endurreisa atvinnulífið að hluta? Svo má ekki gleyma skuldasöfnuninni en það finnst þér sennilega vera algert aukaatriði, eða hvað? Þegar skuldir jukust eins hratt og raun bar vitni er ekki hægt að segja að hann hafi leitast eftir jafnvægi í ríkisfjármálum eins og þú vilt meina.
Ef þú segir mig hafa farið rangt með varðandi kreppuna miklu þá skaltu koma með heimildir máli þínu til stuðnings og benda á hvaða atriði ég fer rangt með. Vera má að einhverju smotterí muni á milli heimilda en aðalatriðin eru rétt. Ólíkt þér nota ég ekki einhverjar grunnristar heimildir af netinu máli mínu til stuðnings :-)
Helgi (IP-tala skráð) 23.12.2013 kl. 18:14
Blessaður Helgi.
Það er ekki oft sem maður situr hljóður og spáir í hvernig maður á að bregðast við athugasemd af þeim gæðaflokki sem þú náðir hér að ofan.
Á maður að gera grín??
Á maður taka helstu staðreyndarvillurnar fyrir og pakka viðkomandi aðila inní háð og spé, eða á maður að taka Flowel á þetta þegar honum var ljóst að þú réðir ekki við hugtakanotkun og staðreyndir sem er forsenda þess að hægt sé að takast á um ólík sjónarmið, því vissulega eru sjónarmiðin ólík í hagfræði og stjórnmálum.
Eða á maður í rólegheitum að fræða viðkomandi í þeirri von að hann lagfæri helstu ágalla vanþekkingar sinnar. Og ef svo er, hvaða tilgangi þjónar það.
Virka rök á trú??
En þetta er um leið sniðugt því hvernig sannar maður hið viðtekna, eitthvað sem maður les í öllum bókum eða greinum, telur rétt, en svo er sagt eitthvað allt annað??
Til dæmis ef röksemd til að sanna áhrifaleysi USA í dag sé til dæmis sú að íbúar Bandaríkjanna séu aðeins 330 þúsund og þeir séu allir eskimóar. Augljóst mál að viðkomandi er að rugla saman Íslandi og USA, og þar að auki afhjúpar hann fáfræði sína um Ísland og Íslendinga.
Eða hvernig tæklar maður svona fullyrðingaklausu??
Það sem er rétt er að atvinnuleysið minnkaði, þó tölfræði nasista hafi ekki alveg verið hlutlaus, en restin er annaðhvort hálfsannleikur eða algjör þvæla.
Eða hvernig útskýrir maður peningaprentun fyrir manni sem hefur bitið það í sig að hún sé skuldsetning???
Og á maður að gefa sér tíma í það??
En þetta er dálítið gaman, google frændi sparar manni verkið við að prenta upp texta úr sagnfræðibókum, og þetta rifjar upp löngu lærða þekkingu.
Vissulega hef ég aldrei skvett vatni á gæs, en get ímyndað mér að þetta sé svipað verk.
En ég ætla í rólegheitum að taka hvert atriði fyrir hér að ofan, og linka í heimildir þar sem má lesa sér til um staðreyndir, og síðan mat á þeim staðreyndum, um það má alltaf deila, en ekki um staðreyndir.
Og sjáum svo til.
Klára kannski fyrir áramót.
En á meðan Helgi minn þá óska ég þér gleðilegra jóla.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 24.12.2013 kl. 11:14
Blessaður Helgi.
Mér varð minna úr verki í morgun en ég ætlaði, las mér aðeins til um frjálshyggjuútgáfuna á kreppuna 1920-1921, þessa sem Harding átti að hafa læknað með skattalækkunum sínum, rakst þar ítrekað á þessa fullyrðingu;
Það er að þjóðarframleiðsla hefði dregist saman um 17%, eitthvað sem ég gat ekki fengið til að stemma við fyrirliggjandi gögn. Svo ég eyddi morgninum í að lesa mér til um þessa kreppu, ásamt því að reyna finna flugufótinn fyrir þessari fullyrðingu, reiknaði ekki með að menntaðir menn lygju svona blákalt um efnahagslegar staðreyndir án þess geta vísað í nein gögn, þó hagrædd væru.
Leitin var erfið því flestar GDP töflur ná aðeins til 1929, fyrir þann tíma aðeins línurit sem sýna ekki nándar nærri svona fall.
Wikipedia gaf upp þessar tölur.
Eins fann ég línurit sem sýna aukningu GDP sem varla sýna þessa kreppu, svo maður fór að spyrja sig hvað væri í gangi??
Birti tvær myndir í næstu athugasemd, svona að gamni mínu, og ef ég léti staðar numið, og benti á að þeir sem ljúga um grundvallarforsendu, að þeir hljóti að ljúga um restina, þá hefði ég fyrir löngu verið kominn með innslög um Kreppuna miklu, sem og hina furðulegu fullyrðingu um efnahag Þýskalands á millistríðs árunum sem þú birtir hér að ofan.
En ég kynnti mér flugfótinn, og las um þessa kreppu, og las um Harding forseta.
Hafði mikið gaman að, er fróðari á eftir.
En fallinn á tíma, skyldan kallar, og því verða svör mín að bíða fram yfir áramót.
Því þetta tekur allt sinn tíma, vegna kröfu þinnar um heimildartilvitnanir, hvað býr að baki almennri þekkingu, staðreyndir??, eða eitthvað sem er viðtekið, en þarf ekki að vera svo rétt þegar betur er að gáð.
Svör mín verða því löng og ítarleg, og í mörgum innslögum.
Gerist samt strax eftir áramót, heimildarvinnu minni er lokið, nema ég á aðeins eftir að lesa mér betur til um Hoover, þann misskilda mann fyrst þú spyrðir hann við Roosevelt, sem reyndar er ekki svo galið þegar betur er að gáð.
Langar að lokum að benda á eitt, svona til umhugsunar fyrir þig um áramótin.
Ef aukin umsvif ríkisins, sem er fjármagnað með það sem þú kallar skuldasöfnun, er skýring Kreppunnar miklu, og hvað hún var langvinn, af hverju lauk henni í USA við upphaf seinna stríðs, og lét ekki kræla á sér aftur fyrr en haustið 2008??
Svona í ljósi þess að umsvifin í seinna stríði voru margföld á við það sem var á kreppuárunum, og eftir stríðið voru þau mun umfangsmeiri en var á þriðja og fjórða áratugnum??
Þriðja myndin sem ég birti hér að neðan sýnir þessa aukningu.
Svo ég minnist ekki á hví í fjandanum var ekki fjármálakreppa á Norðurlöndunum í anda Kreppunnar miklu svona á þriggja ára fresti og stóð yfir í 8 ár í hvert skipti, þar sem umfang ríkisins var yfirleitt á bilinu 55-65% á eftirstríðsárunum???
Spáðu í það.
Annars óska ég þér gleðilegs nýs árs, og þakka fyrir samskiptin hér á bloggsíðinni á nýliðnu ári.
Skemmtileg samskipti, og alltaf krefjandi.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2013 kl. 13:35
Ómar Geirsson, 30.12.2013 kl. 13:49
Ómar Geirsson, 30.12.2013 kl. 13:51
Ómar Geirsson, 30.12.2013 kl. 13:53
Athugasemd 18 birti ekki mynd, en þetta er hún.
Ómar Geirsson, 30.12.2013 kl. 13:55
Blessaður Helgi.
Nú er það flóafriðurinn sem náðist aldrei um hátíðarnar.
Ætla að efna loforð mitt og taka lið fyrir seinustu athugasemd þína, og vitna í heimildir máli mínu til stuðnings.
Byrja á klausunni sem stakk mig sérstaklega, andsvar þitt gagnvart Keynisma Þýskalands á millistríðsárunum.
Ég þekki þessa marxísku framsetningu en vissi ekki að hún væri komin í sögubækur frjálshyggjumanna. Marxistarnir reyndu að réttlæta örbirgð sovéskra verkamanna með því að týna til það neikvæða sem þeir fundu í vestrænum löndum. Þýskaland og Sovétríkin voru einræðisríki, og bæði löndin stríðsvæddu iðnað sinn, en á meðan Þjóðverjar framleiddu samhliða neysluvarning þá var aðeins það brýnasta framleitt í Sovétríkjunum, það sem þurfti til að verkafólkið skrimti.
En heimild þín er líklegast Wikipedia, þessi grein hérna;
Jú, meginátök fyrra stríðs urðu í Frakklandi og Þýskalandi, þar urðu skemmdirnar mestar, þar þurrkaði stríðið upp stóran hluta af verðmætum sem til voru í upphafi stríðsins. Þar að auki varðandi Þýskaland þá var landið sigrað, það missti mikil landsvæði, auðugustu iðnaðarsvæðin, Ruhr héraðið var undir stjórn bandamanna til ársins 1936, geysiháar stríðsskuldir sliguðu efnahaginn, óðaverðbólga eftir stríðið hindraði alla efnahagsuppbyggingu, og þegar að eitthvað fór að birta til, þá skall kreppan mikla á, og hún lék efnahag Þýskalands grátt.
Það sama má segja um þessa fullyrðingu;
Kaupmáttur gullmarksins hrundi 1929, framleiðslan stóð ekki undir honum, aðeins örfáir nutu hans.
1938 var hann almennur, auk þess sem ýmis afþreying og annað var ódýr, fólk hafði efni á að taka sér sumarfrí og velsæld var almenn, ekki fámenn eins og í öðrum vestrænum löndum.
Um þetta ber samtímaheimildum saman. Íslendingar sem dvöldust í Þýskalandi á þessum tíma, hvort sem það var við nám eða störf, báru vitni um uppganginn, og þeir sem ferðuðust til Englands á sama tíma, sáu æpandi mun á mannlífi þar og í Þýskalandi.
Og heima fyrir naut nasisminn víðtæks stuðnings vegna hinna bættu lífskjara.
Það verður nefnilega að skoða aðstæður sem voru við upphaf valdatöku hans, ekki aðstæður í Þýskalandi keisaratímans þegar veldi og auður Þjóðverja stóð traustum fótum eftir langt hagsældartímabil.
Og um það ætla ég að fjalla í næsta innslagi.
Kveðja á meðan.
Ómar Geirsson, 2.1.2014 kl. 10:53
Kreppan mikla fór illa með þýskan efnahag.
Um það má lesa í Sögu mannkyns, 13. bindi, Stríð á Stríð ofan.
Þetta er tímapunkturinn sem Keynískur uppgangur áranna 1933-1939 á að vera borinn saman við.
Atvinnulífið var rjúkandi rúst, og ekkert sem benti til mikilla breytinga, sérstaklega vegna þess að alþjóðleg viðskipti drógust saman um 60-70% þegar að Kreppan mikla breiddist út um hagkerfi heims.
Framleiðslugetan var til staðar, en engin eftirspurn dreif hana áfram.
Þýsk stjórnvöld sköpðuðu þá eftirspurn, og þess vegna fór atvinnulífið í gang.
Fyrst með miklum opinberum framkvæmdum, síðan með hervæðingunni sem hófst 1936.
Kenísk örvun virkar á meðan það eru ónýttir framleiðsluþættir en hún sem slík býr ekki til eitthvað úr engu. Innlend aðföng og kaupmáttur hagkerfisins gagnvart erlendum hagkerfum setja henni skorður.
Og þegar hagkerfið er ríkisstýrt, eins og var í Þýskalandi, þá er það pólitísk ákvörðun hvernig aðföngum er ráðstafað.
Sem skiptir miklu máli því fallbyssur eða herskip eru ekki neysluvörur, og framleiðsla á hergögnum er endapunktur, en ekki eitthvað sem viðheldur hringrás efnahagslífsins. Öll aðföngin sem fóru í Bismarck svo dæmi séu tekin, fóru ekki í neytendavörur sem gengu kaupum og sölum.
Eftir aðeins þriggja ára hernaðaruppbyggingu var þýski herinn sá öflugasti í Evrópu árið 1939, samhliða tókst að halda uppi þokkalegum lífskjörum. Eða eins og einn þýskur hershöfðingi sagði; "We are winning the war with washing machines." Um hernaðaruppbygginguna má lesa í þessari grein;
Þetta er önnur mynd og mun raunverulegri en hin marxíska skrumskæling. Sem lýsir í raun gráma Stalínismans en blæbrigðum þýska nasismans.
Einnig verður að athuga hvernig ástandið var í öðrum vestrænum löndum og í þeim samanburði kemur Þýskaland vel út.
Ágallarnir þar voru ekki meiri en annars staðar.
En uppgangurinn hins vegar miklu meiri.
En var þetta skuldsettur uppgangur, og þá í hvaða merkingu?
Um það fjallar lokainnslag mitt um Þýskaland millistríðsáranna.
Kveðja á meðan.
Ómar Geirsson, 2.1.2014 kl. 11:52
Þessi tilvitnun er úr bók breska sagnfræðingsins A.J.P. Taylor, Hitler og Seinni heimsstyrjöldin, þar sem Taylor tekst á við þá goðsögn að Þjóðverjar hafi leynt og ljóst stefnt að stríði 1939, og þá vegna þess að efnahagur þeirra hefði verið blaðra sem allt loft var að streyma úr.
Þessi Schact sem hann minnist á hét Hjalmar Schact, og var efnahagsráðherra þýsku nasistastjórnarinnar 1934-1937, oft nefndur heilinn á bak við efnahagsstefnu hennar . Um hann má lesa hér í Wikipediu.
Ómar Geirsson, 2.1.2014 kl. 14:31
Þjóðsöguna um Harding er gerð góð skil í grein eftir Thomas E. Woods og heitir Warren Harding and the Forgotten Depression of 1920. Og má lesa til dæmis á þessum link.
http://www.firstprinciplesjournal.com/articles.aspx?article=1319&theme=home&page=1&loc=b&type=ctbf
Þar er því slegið fram að sú kreppa afsanni þá fullyrðingu að ekki sé hægt að vinna bug á kreppu án þess að beita annað hvort stjórnvaldsaðgerðum eða peningalegum ráðum til að vinna bug á kreppum.
Wood lýsir kreppunni svona.
Hann fer rétt með atvinnuleysið en ýkir fall þjóðarframleiðslu. Á Wikipediu má lesa þetta um þessa kreppu.
Til samanburðar má lesa þetta um eftirstríðs kreppuna 1945.
Þjóðarframleiðslan féll um 12,7% en atvinnuleysi varð óverulegt, 5,7%.
Það sem gerði kreppuna 1921 svona alvarlega var verðhjöðnunin. Sú mesta á einu ári í sögulegu samhengi.
Um alvarleika verðhjöðnunar má lesa í þessari ágætu samantekt Economics Helps; http://www.economicshelp.org/blog/glossary/deflation/
Og nánar er farið út í hana í Wikipedíu; http://en.wikipedia.org/wiki/Deflation
Það þarf því ekki að efast um að kreppan 1921 var alvarleg en spurningin er hvernig tók efnhagslífið við sér?
Wood þakkar skattalækkunum samhliða niðurskurði á ríkisútgjöldum;
Spurningin er; stenst þetta skoðun staðreynda eða er þetta helgisögn??
Batamerki sáust strax á bandarísku efnahagslífi seinni parts sumar 1921, að þakka þann bata skattalækkunum sem samþykktar voru apríl sama ár er vægast sagt hæpið, áhrifa þeirra var ekki farið að gæta.
Það sama gildir um minnkun ríkisútgjalda, það er ekki rifist um að til skamms tíma hafa slíkar aðgerðir neikvæð áhrif á efnahag, en deilt er um áhrif þeirra til lengri tíma. Þó gengið sé út frá jákvæðum áhrifum, þá er tímalengdin talin í misserum (ársfjórðungum) en ekki mánuðum.
Fullyrðingin um tafarlaus áhrif af efnahagsráðstöfunum Hardings eru því augljóslega rangar, og fullyrðingin um annað afskiptaleysi stjórnvalda sömu leiðis.
Og um það verður fjallað um í næstu athugasemd, þegar birtir af nýjum degi.
Á meðan, kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.1.2014 kl. 18:03
Eða það styttir upp, allavega hef ég tíma til að klára þessa umfjöllun mína um Harding.
Í greininni í Wikipediu um Kreppuna 1921 er bent á nokkuð augljósan hlut, ríkisstjórn Wilson forseta hafði þegar hafið aðlögun hagkerfisins að raunveruleikanum eftir stríð.
Um þetta þarf ekki að deila, þegar mynd um ríkisútgjöld eru skoðuð þá sést að gula súlan, hernaðarútgjöldin drógust strax saman eftir stríð.
Hins vegar sést varanleg aukning til menntunar og heilsugæslu, sem afsannar þá fullyrðingu að Harding hafi skorið niður raunútgjöld.
Þetta sést ennþá betur þegar hlutfall ríkisútgjalda af þjóðartekjum er skoðað, það helst stöðugt allan þriðja áratuginn, en er mun hærra en áratuginn þar á undan.
Enda svo ég vitni aftur í Daniel Kuhen, "Kuehn notes that the Harding administration raised revenues in 1921 by expanding the tax base considerably at the same time that it lowered rates"
Jafnvægi Hardings er jafnvægið sem náðist þegar búið var að leysa upp herinn og borga hermönnum eftirlaun. Hann hækkaði skatta, hann lækkaði þá ekki, og hann jók umsvif ríkisins og markaði því nýtt hlutverk í stefnumótun í samfélaginu.
Hann skipti sér af, þvert á það sem Wood heldur fram.
Má þar nefna uppbyggingu vegakerfisins;
Afskipti af vinnumarkaði;
Fyrsta vísinn af nútíma velferðarkerfi;
Fjármögnun á húsnæði að frumkvæði Hoovers sem var viðskiptaráðherra;
Að ekki sé minnst á aðra athafnasemi Hoovers.
Ekkert af þessu er í anda Laizze fair, heldur má tala um for-keynisma.
En hvort þessi keynismi hafi dugað til að rífa upp efnahagslífið (skattalækkanir á krepputímum þjóna sama markmiði) má deila um, kreppan var djúp og batinn kom snöggt.
Þess vegna er full ástæða að skoða þá fullyrðingu Woods að ríkisstjórn Hardings hafi ekki beitt peningalegum aðgerðum (monatorisma) til að örva efnahaginn.
Að ekki sé minnst á hina raunveruleg ástæðu batans, en um það fjalla ég í næsta innslagi.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 2.1.2014 kl. 21:43
Þessa mynd vantaði hér að ofan en hún sýnir ríkisúgjöld í hlutfalli af GDP.
Þriðji áratugurinn er stöðugur með rétt rúmlega 10%
Mun hærri toppur sést á seinni stríðsárunum enda sú styrjöld mun umfangsmeiri. Þau eru síðan aðlöguð að friðartímum án þess að nokkur hafi búið til þjóðsögu um áhrif niðurskurðar.
Þetta er bara það sem gerist eftir styrjaldir, og má sjá betur þegar sagan er skoðuð á lengri tímabili, topparnir eru frelsisstríðið á átjándu öld, þrælastríðið á þeirri nítjándu og fyrra og seinna stríð á þeirri tuttugustu.
Ómar Geirsson, 2.1.2014 kl. 21:50
"Instead of “fiscal stimulus,....Despite the severity of the contraction, the Fed did not move to use its powers to turn the money supply around and fight the contraction ” segir Wood og tekst algjörlega að hundsa peningastefnu bandaríska seðlabankans.
Það voru hans aðgerðir sem ollu kreppunni vill Friedman meina;
Og hefur eitthvað fyrir sér í því, þegar seðlabankinn lækkaði vextina, þá kom batinn snöggt. Og peningamagn í umferð var aukið;
Rímar þetta við það sem segir í grein Wikidediu um verðhjöðnun, að ráðið gegn henni sé að auka peningamagn í umferð.
En málið er miklu einfaldara en þetta.
Hinn skjóta bata og í kjölfarið nokkuð stöðugan hagvöxt allan þriðja áratuginn má rekja til þekkts fyrirbrigðis í hagsögunni, og það er jákvæð áhrif innleiðingar nýrrar tækni.
Hagvaxtarskeið hafa alltaf fylgt í kjölfar meiriháttar tækninýjunga.
Gufuvélin, járnbrautin, skipaskurðir, tölvubyltingin, að ekki sé minnst á upphaf fjöldaframleiðslunnar.
Um þetta má lesa í Sögu mannkyns sem ég vitnaði í hér að ofan þegar ég fjallaði um efnahag Þýskalands á fjórða áratugnum;
Sumt er ekki flókið þó hagfræðingar þjáist af þeirri áráttu að flækja einföld orsakasamhengi.
Í reynd var aðeins spurning um hvað stjórnvöld gerðu til að skemma fyrir hagvextinum, ekki hvað þau gerðu til að hann átti sér stað.
Þar voru að verki kraftar sem þau höfðu engin áhrif á.
Tæknibylting sem skilaði sér í aukinn framleiðslu.
Af þessu slepptu Helgi þá vona ég að ég þurfi aldrei að ræða við þig aftur um þjóðsöguna um Harding og hinar meintu skattalækkanir hans.
Ég hafði þó uppúr þessu fróðleik um tímabil sem ég hafði áður lítt nennt að kynna mér. Og hafði því trúað ýmsu sem ekki var alveg rétt. Eins og til dæmis þeirri fullyrðingu að stjórnartímabil repúblikana hafði verið í anda Laizze fair, að sjálfsögðu var það mikil einföldun, og margt gott gerðist á þriðja áratugnum sem lagði drög að nútíma þjóðfélagi.
Meginmálið er samt að þessi tími kemur aldrei aftur, og ráðin sem þá voru notuð, eiga ekki við nútíma þjóðfélag. Það verður aldrei snúið aftur til tímans fyrir velferð, þó hinir Örfáu hafi af því beina hagsmuni og rói að því öllum árum.
Hjóli tímans verður ekki snúið við, og hreinn barnaskapur að leggja slíkt til.
En ég á eitt meginþema eftir, og það er orsakir kreppunnar miklu, og áhrif örvunaraðgerða til að leysa þá kreppu. Sem og svara því hvað núverandi örvunaraðgerðir hafa skilað.
Þá muntu til dæmis komast að því að Hoover og Roosevelt áttu það sameiginlegt að stuðla að keynískri örvun, en féllu báðir á grunnforsendunni, hækkuðu skatta og skáru niður til að ná markmiðinu um hallalaus fjárlög.
Þá vissu menn kannski ekki betur, en menn vita betur í dag.
Það er ekkert sem afsakar stefnu ESB, hvort sem hún er framkvæmd á Íslandi eða í Evrópusambandinu.
Það er vitað að þessi stefna dýpkar kreppu, og eykur misskiptingu og fátækt, sem aftur leiðir til þjóðfélagslegrar ólgu.
Fyrir utan að vera hundheiðin illska.
En það er önnur saga, og meira um þetta á morgun.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.1.2014 kl. 22:17
Sæll Ómar og gleðilegt ár.
@16: Hér vantar allt innihald - athugasemd þín geymir ekkert annað en gífuryrði. Hættu svo vinsamlegast að gera mér upp skoðanir - þú gerir þetta í sífellu.
@17: Ekki leggja mér orð í munn - ég segi hvergi að aukin umsvif ríkisins séu orsök kreppunnar miklu. Ég segi hins vegar að kreppan mikla hafi staðið jafn lengi og raun bar vitni vegna afskipta hins opinbera. Orsök kreppunnar miklu er svo önnur umræða sem ég er fyllilega tilbúinn að eiga við þig seinna.
@22: Einföld lýsing á staðreynd getur vart flokkast sem marxísk, demókratísk eða eitthvað annað. Skuldir jukust t.d. og skuldir þarf að borga - fyrr eða síðar. Hvað er marxískt við það?
@23: Taflan þín og textinn við hana sýna að hið opinbera niðurgreiddi frístundir og ferðalög fólks. Hér ferð þú að tala um annað - eins og svo oft áður.
@24: Ég talaði bara um skuldasöfnun Þjóðverja en hvergi um utanríkisviðskipti þeirra þannig að tilgangurinn með þessu innslagi er afar óljós í besta falli og í litlum sem engum tengslum við fyrri umræðu okkar.
@25: Ályktanir þínar hér eru að öllu leyti rangar. Eftirvæntingar fólk spila stóra rullu í því hvort fólk ákveður að efna til útgjalda eða ekki. Ef þú átt von á tekjuaukingu frá og með feb. (t.d. launahækkun) getur þú leyft þér að eyða í dag!! Harding jók kaupmátt fólks með því að leyfa því að halda eftir meira af því sem það vinnur sér inn. Nokkuð sem nánast öllum finnst fáránlegt í dag. Verðhjöðnunin er forsenda bata í kreppu!!!
Verðhjöðnun er ekki bara verðhjöðnun - orsakir hennar skipta máli. Vilt þú halda því fram að verðlækkun vöru vegna þess að hagkvæmara er að framleiða hana sé slæmt?! Á þriðja áratugnum jókst framleiðsla verulega og USA greiddi niður sínar skuldir í stað þess að safna þeim. Fullyrðingar Woods eru því réttar vegna þess að í kreppunni miklu gerðu menn einmitt þveröfugt við það sem Harding gerði og sú kreppa stóð lengi með tilheyrandi skuldasöfnun og félagslegum vandamálum. Hoover skipti sér meira segja að launum starfsmanna í einkageiranum í kreppunni miklu þannig að hann og Roosevelt áttu margt sameiginlegt þó úr sitthvorum flokknum væru. Afskipti þeirra voru alltaf af hinu slæma.
@26: Þessi útgjaldaauking var ekki af hinu góða enda þarf hið opinbera að taka af einum til að geta látið annan fá. Harding lækkaði skattprósentuna sem leiddi til meiri efnahagsumsvifa. Þetta er einfalt prinsip úr viðskiptum - ef þú lækkar verð á einhverju mun eftirspurn eftir því að öðru jöfnu aukast. Af hverju heldur þú t.d. að ferðamönnum hafi fjölgað svona mikið hérlendis? Varð landið allt í einu fallegra eftir árið 2009? Er skýringin kannski einhver önnur? Annars var það Hoover sem var primus motor í öllum útgjaldaaukningum - hann varð forseti seinna og klúðraði öllu sem hægt var að klúðra. Harding var ekkert sérstaklega hrifinn af Hoover en það er önnur saga.
@27: Tengist ekki umræðunni.
@28: Seðlabankinn skipti sér ekki að til að byrja með. Það gerði hann hins vegar seinna og sáði þar með fræjum kreppunnar miklu. Bæði Krugman og Woods hafa rétt fyrir sér og þeirra fullyrðingar eru ekki mótsagnakenndar. Það sem m.a. gerðist á þriðja áratugnum var að framleiðsla jókst verulega án þess að verð lækkaði. Verðlækkun átti sér ekki stað vegna aukins peningamagns í umferð - þetta rýrði auðvitað lífskjör fólks miðað við það sem hefði getað verið.
Árið 1931 var 2 milljarða dollara halli á fjárlögum en á undanförnum árum hafði ameríska ríkið ekki verið rekið með halla.
Þó skattar hafi verið hækkaðir mikið árið 1931 lækkuðu tekjur ameríska ríkisins árið 1932 og kreppan dýpkaði auðvitað.
Eftir stendur að þú sagðir að ofan að ég hefði farið með rangt mál varðandi kreppuna miklu og það hefur þú hvergi hrakið.
Eftir stendur sömuleiðis að þú vilt skuldsetja framtíð barna okkar. Ekki reyna að flýja frá afleiðingum þinna skoðana. Skuldasöfnun er slæm og hefur afleiðingar. Ábyrgð þín og þinna skoðanasystkina verður mikil og öllum sýnileg þegar allt hrynur loksins.
Ef þú vilt meira að Harding hafi ekki lækkað skatta mátt þú auðvitað vera á þeirri skoðun. Hann lækkaði skattaálögur sem skilaði sér í meiri efnahagsstarfsemi og meiri verðmætasköpun sem skilaði hinu opinbera auknum tekjum. Menn geta auðvitað kallað það auknar álögur en eftir stendur að fólk hélt eftir meiru af því sem hann vann sér inn. Þetta eru svona útúrsnúingar a la Stefán Ólafsson.
Ef þú ætlar þér að líta algerlega framhjá árangri Harding þá er það auðvitað þitt mál. Eftir stendur samt að hann kvað slæma kreppu í kútinn með niðurskurði ríkisútgjalda og lækkun skatta og gerði það á mjög skömmum tíma. Seinna beittu fyrst Hoover og síðar Roosevelt öðrum aðferðum sem ekki virkuðu. Með því einfaldlega að líta á útkomuna er hægt að sjá hvað virkaði og hvað ekki. Ef þú vilt loka augunum fyrir því sem virkaði þá er það þér auðvitað frjálst en dæmir um leið allan þinn málflutning vegna þess að hann er ekki í samræmi við veruleikann.
Vel má vera að markmið Hoover og Roosevelts hafi verið hallalaus fjárlög en þeir ráku ameríska ríkið með miklum og viðvarandi halla og virkaði sú ráðstöfun greinilega ekki. Hér er málflutningur þinn ekki í samræmi við það sem í raun gerðist.
Annars finnst mér það merkileg afstaða að reyna stöðugt að útskýra sumt í burtu - eins og góðan árangur Harding. Hvað veldur?
Helgi (IP-tala skráð) 3.1.2014 kl. 07:32
Helgi, áður en ég tek lokaumfjöllun mína um Kreppuna miklu, með vísan í heimildir, þá verð ég að tjá vonbrigði mín með þessi orð þín.
"@16: Hér vantar allt innihald - athugasemd þín geymir ekkert annað en gífuryrði. Hættu svo vinsamlegast að gera mér upp skoðanir - þú gerir þetta í sífellu. "
Hver eru gífuryrðin??
Ég er að tjá viðbrögð mín við endurtekinni atlögu þinni á viðteknar staðreyndir, og bregst síðan við áskorun þinni um tilvísun í heimildir.
Ég gerði það að gefnu tilefni, eftir að ég lagði það á mig að útskýra í athugasemdum 12-14 hina hefðbundnu nálgun á Kreppuna miklu, af hverju hún hefði stafað og af hverju viðbrögð klassískrar hagfræðinnar að hækka skatta og skera niður ríkisútgjöld til að ná hallalausum fjárlögum hefði verið röng. Eitthvað sem eykur vandann þegar orsök kreppu er skortur á eftirspurn eða liquidity problem eins og þeir segja á enskunni. Það að auka vandann er almennt orðalag yfir dýpkun kreppunnar sem aftur leiðir til minni tekna ríkisins sem aftur kallar á hærri skatta og aukinn niðurskurð ef markmiðinu um hallalaus fjárlög er haldið til streitu. Gagnröksemdin er ekki sú að fyrsta að markmiðið náðist ekki að þá hafi þeir ekki skorið niður og aukið skatta til að ná hallalausum fjárlögum.
Svona gagnályktun kallast bull og það er ekki gífuryrði að segja frá því.
Ekki frekar en að hrista hausinn yfir síendurteknum fullyrðingum um að peningaprentun sé skuldasöfnun eftir að það hefur verið útskýrt ítarlega að svo sé ekki. Hún getur verið útþynning á gjaldmiðli, hún getur verið eignartilfærsla, en hún er aldrei skuldasöfnun ríkissjóðs eða seðlabanka.
Hins vegar er skuldum hlaðið á ríkissjóð þegar hann er látinn fjármagna kostnaðinn við fjármálakreppur, en ekki seðlabankinn, og þegar hann er látinn fjármagna halla sinn með skuldabréfaútgáfu.
Þá skuldasöfnun er ég að gagnrýna, og þess vegna er svo hlægilegt að lesa síendurteknar fullyrðingar um afleiðingar viðkomandi skuldasöfnunar, og þegar ljóst er að um síbylju er að ræða, þá er umhugsunarefni hvernig á að bregðast við.
Ef þú telur þá umhugsun gífuryrði þá skaltu leggja á þig að lesa rökin sem ég færi fyrir máli mínu en ekki afgreiða þær þannig að þú þurfir ekki að lesa heimildirnar sem ég vísa í því þú vitir betur. Það má vera að þú vitir betur Helgi en helstu sérfræðingar heims, en þá skaltu koma með þau dæmi, og rökstyðja mál þitt, ekki fullyrða út í loftið.
Gott dæmi um slíkan málflutning þinn má finna hér í andsvari þínu hér að ofan. Fullyrðingu Dan Kuhen um að Harding hafi aukið skatttekjur ríkisins með því að breikka skattstofna (expanding the tax base) svarar þú ekki með endurteknum fullyrðingum um "Hann lækkaði skattaálögur sem skilaði sér í meiri efnahagsstarfsemi og meiri verðmætasköpun sem skilaði hinu opinbera auknum tekjum". Annað hvort breikkaði hann skattstofna eða ekki. Það vita allir hvað breikkun skattstofna þýðir og viti menn það ekki, þá eiga menn ekki að taka þátt í umræðu um skatta og áhrif þeirra.
Að lækka skattprósentur en þétta glufur á móti, það er að fækka undanþágum og/eða leggja viðkomandi skatt á fleiri hópa eða vörur eða þjónustu, er þekkt leið til að auka tekjur ríkissjóðs, og að mínum dómi skynsamleg, þó ég þekki vissulega til ágreinings þar um. En ég tel að það sé ekkert samhengi á milli hárra skattprósenta og hárra skatta, það er í merkingunni skatttekjur, og er í kjarna alveg sammála rökum Andrew Millon um að lægri prósentur skili hærri tekjum.
En hann breikkaði skattastofnana segir Daniel Kuhn, og það er skattahækkun.
Annað ennþá sorglegra dæmi er hvernig þú afgreiðir greiningu Miltins Friedmans og Önnu Schwartz um hina alvarlegu verðhjöðnun hafi mátt rekja til mistaka við peningastjórn Seðlabankans; "consider mistakes in Federal Reserve policy as a key factor in the crisis." með þessum orðum: "Eftirvæntingar fólk spila stóra rullu í því hvort fólk ákveður að efna til útgjalda eða ekki."
Hvor skyldi hafa rétt fyrir sér, rökstuddar skoðanir Friedmans eða órökstudd fullyrðing sem reynir að aðlaga staðreyndir að fyrirfram ákveðinni skoðun??
Það er staðreynd að bandaríski Seðlabankinn brást við verðhjöðnuninni með lækkun vaxta, og hann jók peningamagn í umferð. Friedman segir að það hafi snúið við hinum neikvæða spíral, þú segir að eftirvæntingar fólks um komandi skattlækkanir, sem voru ekki skattalækkanir, hafi ollið viðsnúningnum.
Rökvillan er svo algjör þegar þú segir að Woods og Krugman hafi haldið fram sama hlutnum, þegar annar segir að ekki hafi verið gripið til peningalegra aðgerða, en hinn segir að það hafi verið gert.
Loks er það þessi fullyrðing hérna, "Verðhjöðnunin er forsenda bata í kreppu!!! ", hver er rökstuðningurinn??? Ég vísaði þér á Wikipediu þar sem allir meginskólar hagfræðinnar telja verðhjöðnun ákaflega hættulega, og við henni þurfi að bregðast. Meir að segja Hayek tók það fram að hann væri jafn mikið á móti verðhjöðnun og verðbólgu, svo fáir eru eftir til að verja verðhjöðnunina.
Harding hefði varla verið að skera niður og "lækka" skatta ef hann hefði verið hrifinn af henni. Seðlabankinn hefði varla lækkað vexti ef hún hefði verið æskilegt markmið.
En þú telur hana forsendu bata.
Hví í fjandanum var ekki gripið til þeirra ráða eftir seinna stríð þegar miklu stærra stríðshagkerfi var aðlagað að friðartímum??
Þú biður ekki aðra um rökstuðning, ef þú treystir þér ekki sjálfur til að rökstyðja hluti.
Já, og eitt enn, ég er orðinn þreyttur á að ég geri þér upp skoðanir, vinsamlegast nefndu þau dæmi, ég mun þá annað hvort leiðrétta mig, eða færa rök fyrir rökstuðningi mínum.
Þú nefnir að þú "segir hvergi að aukin umsvif ríkisins séu orsök kreppunnar miklu.", að ég sé að gera þér upp þá skoðun.
Ég tel að þú hafir víðsvegar í málflutningi þínum undanfarna mánuði haldið þessu fram, tengt kreppur við umfang ríkisrekstrar og skuldasöfnun ríkissjóða. Eins tel ég að ef það sé rétt að niðurskurður ríkisútgjalda er lækning á kreppum, að þá sé það vegna þess að ríkisútgjöld eru orsakavaldur, samanber að sýklalyf lækni því aðeins ef sýklar valdi sjúkdómi.
En ég ætla ekki að elta ólar við það.
Spyr því kurteislega, hvað olli Kreppunni miklu, hvað olli núverandi kreppu??
Þar með tekst þér að leiðrétta mig ef ég hef gert þér upp skoðanir.
Við skulum hafa þetta á hreinu Helgi, ég vil ekki gera fólki upp skoðanir, og ég ástunda ekki gífuryrði í málflutningi mínum.
Ég reyni að halda mig við staðreyndir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 3.1.2014 kl. 11:08
Þá er það Kreppan mikla og þeir félagar, Hoover og Roosevelt.
Það eru skiptar skoðanir um ástæður Kreppunnar miklu og af hverju hún varð svona djúp. En um atburðarrásina þarf ekki að rífast. Ég ætla að vitna í Sögu mannkyns, þar er atburðarrásinni lýst ágætlega á íslenskri tungu.
Það er broslegt að halda fram að skattahækkanir einar og sér geti valdið slíkri kollsteypu í hagkerfi þar sem ríkisútgjöld voru rétt rúmlega 10%, en um það er ekki rifist að þær gerðu vont verra.
Ástæðan er sú að við verðfallið á hlutabréfamarkaðnum myndaðist neikvæður spírall gjaldþrota og atvinnuleysis, ásamt því að aðgerðir bandaríska seðlabankans ýttu undir skort á peningum í hagkerfinu.
Skattahækkanirnar juku á þann skort, það sama gildir um niðurskurð ríkisútgjalda.
Þessi klausa er tekin úr grein eftir Kimberly Amadeo á síðunni About.com US Economy og útskýrir ástæðuna að venjuleg kreppa varð að heimskreppu. Milton Friedman útskýrir þetta ágætlega;
Eins má lesa um Kreppuna miklu á About.com í þessari grein hérna,
http://useconomy.about.com/od/grossdomesticproduct/p/1929_Depression.htm
Þar meðal annars vitnað í lærisvein Friedmans, Ben Bernanke þar sem hann dregur saman helstu mistök seðlabankans;
Til upplýsingar er gott að lesa sér til um hvað þetta liquidy er og linkur á það er hér;
Ómar Geirsson, 3.1.2014 kl. 15:15
Sjónarmið út af fyrir sig, en það er ekki þannig að önnur ríki hafi ekki reynt að framfylgja þessum grunnráðum Laizze fair. Vitna í það Sögu mannkyns;
Það er vissulega rétt að þýska kreppan fékk ekki að hafa sinn gang, þjóðin greip inní, hún þoldi ekki frekar hörmungar.
Það er eitt að hafa þvílíkan illvilja að leggja slíkar hörmungar á þjóð sína, annað að hafa afl til að framkvæma þær.
Það er ekki að ástæðulausu að Friedman hafði þessi orð um austurríska skólann;
Og þegar ekkert velferðarkerfi er, fólk verður beinlínis að svelta í atvinnuleysi sínu og örbirgð, þá grípur fólk til varnar.
Páll Vilhjálmsson bendir á þennan raunveruleika hallalausra fjárlaga í bloggpistli í dag; þó hann fatti ekki að evruhörmungarnar séu bein afleiðing af þeirri stefnu, þá fattar hann afleiðingarnar;
Á kreppuárunum var svona ástand ávísun á mikla þjóðfélagslega ólgu og jafnvel blóðuga byltingu, að hætti kommúnista.
Síðan voru ekki allir illmenni, Hoover var mannúðarsinni, og hafði víða komið að mannúðarmálum á ævi sinni. Sannarlega bjargað milljónum frá bráðum hungurdauða.
Aðgerðarleysi að hætti austurríska skólans var ekki í eðli hans, hann reyndi það sem hann gat innan marka kröfunnar um hallalaus fjárlög.
Fjármálaráðherra hans, Andrew Millon hafði vissulega þetta innræti, en hann naut ekki til þess pólitísks stuðnings.
Það er þannig með útópíu að það þarf algjört einræðisvald að framkvæma hana.
Og það einræðisvald var ekki til staðar í Bandaríkjunum þegar Hoover var og hét.
En lausnin var ákaflega einföld, tryggði samfelldan hagvöxt í áratugi, og krafðist ekki blóðfórna almennings.
Víkjum þá að Roosevelt og líkindum hans við Hoover.
Kveðja á meðan.
Ómar Geirsson, 3.1.2014 kl. 15:45
Recession of 1937–1938
May 1937 –
June 1938
1 year
1 month
4 years
2 months
19.0%[32]
(1938)
−18.2%
The Recession of 1937 is only considered minor when compared to the Great Depression, but is otherwise among the worst recessions of the 20th century. Three explanations are offered for the recession: that tight fiscal policy from an attempt to balance the budget after the expansion of the New Deal caused recession, that tight monetary policy from the Federal Reserve caused the recession, or that declining profits for businesses led to a reduction in investment.[33]
Það er staðreynd að New Deal hafði jákvæð áhrif á hagkerfið, en það varð afturkippur í kreppunni 1937-1938.
Bestu að ég vitni í Sögu mannkyns, hún útskýrir ástæðurnar ágætlega;
Bandaríkin sukku ekki í skuldir, þær greiddust hægt og rólega niður eins og sjá má á skuldamyndinni i athugasemd 27.
Það er röng fullyrðing að ríkisútgjöld hafi viðhaldið kreppunni, staðreyndir segja einfaldlega annað.
Ég á eftir eina athugasemd um áhrif örvunaraðgerðanna sem gripið var til í kjölfar fjármálakreppunnar 2008, hún kemur á eftir ef tími vinnst til.
Kveðja á meðan að austan.
Ómar Geirsson, 3.1.2014 kl. 15:57
Örvunaraðgerðir virka Helgi, 50 ára saga Keynismans, samfellt hagvaxtarskeið án alvarlegrar fjármálakreppu, sannar það. Dæmin eru ótalmörg, þeirra frægust Marshalaðstoðin og uppbygging Vestur Evrópu eftir stríð.
Þegar monartorimsinn tók yfir Keynismann, þá fór að halla undan fæti, en það er ekki eingöngu honum að kenna, heldur líka frjálshyggjunni sem honum fylgdi.
Varðandi spurningu þína um hvort núverandi örvunaraðgerðirnar hafi virkað í USA þá er svarið Já, þær hafa virkað;
Ómar Geirsson, 3.1.2014 kl. 19:15
@30: Ég veit varla hvar ég á að byrja. Hættu að leggja mér orð í munn. Lestu bara í rólegheitum það sem ég segi :-) Ég hef hvergi sagt að peningaprentun sé skuldasöfnun. Peningaprentun hefur hins vegar verið kölluð skattur.
Já, annað hvort voru skattstofnar breikkaðir eða ekki. Já, annað hvort var álagningarprósenta lækkuð eða ekki. Þú talar viljandi um annað en ég, ef menn lækka álagningarprósentu eru menn að lækka skatta. Vel má vera að slíkt hafi í för með sér að fleiri greiði skatta og það er þá bara eins og það er og afleiðing meiri efnahagslegrar starfsemi í hagkerfinu sem er jákvæð. Það sem þú ert að segja er að ef skattprósenta sé hækkuð þannig að færri greiði skatta þá sé um skattalækkun að ræða. Flott lógík það!! Þegar við ræðum um hlutverk USA seðlabanka í kreppunni skiptir máli hvort við erum að tala um aðdragandann eða hvað bankinn gerði í kreppunni sjálfri. Hér ruglar þú því saman. Er það viljandi eða óviljandi?
Krugman og Woods eru ekki að tala um sama tímabilið - Krugman talar um tímabilið eftir að batinn var kominn fram. Lestu í rólegheitum það sem ég skrifa sem og það sem þú skrifar áður en þú byrjar að setja þig á háan hest og tala um rökvillur. Svo byrjar þú aftur á gamalkunnu þema - skiptir um umræðuefni :-) Þetta er orðið nokkuð fyrirsjáanlegt. Við skulum taka þetta með verðhjöðnunina seinna.
@31: Kimberly Amadeo hefur algerlega rangt fyrir sig, peningamagn í umferð frá 1921-1930 jókst um 61,8%. Samt vantar fé samkvæmt þessari ágætu konu. Merkilegt. Skýringar Friedman á kreppunni miklu eru langt í frá gallalausar, hann lítur alveg framhjá nokkrum mikilvægum atriðum. Við erum sammála um skaðsemi skattahækkana Hoovers en alveg ósammála um hlutverk hins opinbera í efnahagslífinu. Ef skorið er niður hjá hinu opinbera ásamt skattalækknunum verður tímabundin niðursveifla en efnahagslífið réttir fljótt úr kútnum - þetta sáum við nýlega í Puerto Rico.
@32: Hér áttar þú þig ekki á því hvers vegna heimsviðskipti fóru ekki aftur í gang og er það hér algert lykilatriði. Friedman getur sagt það sem hann vill um austurríska skólann - staðreyndin er sú að Mises spáði rétt fyrir um kreppuna miklu hvort sem Friedman líkaði það betur eða verr. Sama hugsun í hagfræði spáði réttilega fyrir um hrunið 2007/2008. Austurríski skólinn hefur trekk í trekk sannað sig. Bernanke var alveg clueless varðandi hrunið 2007/2008 þar til það skall á. Ég efast raunar um að Bernanke hafi aðhyllst sömu hagfræði og Friedman enda Bernanke keynsisti.
@33: Er það staðreynd að New Deal hafði jákvæð áhrif? Hvernig? Atvinnuleysi var gífurlegt að skuldir jukust. Finnst þér það jákvætt? Jú, skuldir USA jukust verulega í kreppunni - það er ekki von á góðu þegar þú getur ekki farið rétt með einfaldar staðreyndir og lesið út úr myndum sem þú sjálfur birtir. Skuldir voru hins vegar greiddar niður á þriðja áratugnum. Skoðaðu myndina sem þú birtir í 27 og þá sérðu þetta.
Hvar segi ég að ríkisútgjöld hafi viðhaldið kreppunni? Þarna gerir þú mér enn og aftur upp skoðanir - þetta getur bara ekki verið slys eða misskilingur þegar þetta gerist svona oft hjá þér. Ég tala um að ríkisafskipti hafi lengt hana og viðhaldið henni. Ríkisafskipti og ríkisútgjöld eru ekki það sama!!
Helgi (IP-tala skráð) 3.1.2014 kl. 19:26
Blessaður Helgi.
Núna kann ég betur við innslag þitt.
Hér að ofan hef ég rakið þær staðreyndir sögunnar sem ég þekki, og síðan þær skoðanir og/eða ályktanir sem ég dreg af þeim.
Aðrir, þar á meðal þú geta svo dregið sínar ályktanir, og ekkert nema gott um það að segja. Ég geri hins vegar þá kröfu til þín, að þú rökstyðjir mál þitt þegar þú heldur fram öðru en ég í sambandi við staðreyndir eða atburði, heimildir mínar þurfa ekki alltaf að vera réttastar, ég nýti Wikipediu mikið í tilvitnunum því hún er handhæg, en ekki gallalaus.
Eins geri ég kröfu til þín að þú rökstyðjir hagfræðilegar fullyrðingar þínar þegar þær ganga gegn almennri þekkingu hagfræðinnar.
Annars er öll umræða marklaus.
Ég ætla ekki að rífast um skoðanir þínar þegar þú tekur fyrir innslög mín hér að ofan, aðeins fara yfir athugasemdir þínar, útskýra það sem kallar á frekari útskýringu, spyrja þig um rök fyrir fullyrðingum sem stangast á við mína þekkingu, sem og benda á staðreyndarvillur og/eða rökvillur þar sem við á.
Þegar ég geri slíkt, þá geri ég sömu kröfur til mín, að vísa í heimildir máli mínu til stuðnings.
Áður en ég geri þetta, sem tekur örugglega einhvern tíma því flóafriðurinn er ekkert sem hægt er að treysta á, þá ætla ég að fjalla um síðasta innslag þitt, og þá út frá þeim vinnubrögðum sem ég ræddi hér að ofan.
Veit ekki hvað það tekur mörg innslög, hef aðeins lesið það lauslega, en það fókusar á svo marga grunnþætti að öruggt er að þau verða nokkur.
Síðan tek ég fyrir andmæli þín í númer 29.
Á meðan er það kveðja.
Ómar Geirsson, 4.1.2014 kl. 11:57
Í það fyrsta vil ég biðja þig afsökunar á þessari fullyrðingu; "Það er röng fullyrðing að ríkisútgjöld hafi viðhaldið kreppunni, staðreyndir segja einfaldlega annað".
Það er rétt að þú talaðir um ríkisafskipti, og í sjálfu sér er það rétt að afskipti ríkisvaldsins voru röng framan að kreppunni.
Allt sem ég skrifa hér að framan, bæði í pistli mínum og athugasemdum er að benda á það.
Þú ert að benda á það líka, vildir skattalækkun í upphafi kreppunnar.
Eitthvað sem var ekki gert, og getur alveg notið vafans.
Líkt og kenning kommúnista um að ef allt hefði verið þjóðnýtt eftir kauphallarhrunið 1929, þá hefði ekki orðið nein kreppa því hún hefði stafað af spákaupmennsku og sjálfseyðingarhvöt kapítalismans, og vitnað í kenningar Marx máli sínu til stuðnings.
Eins gátu anarkistar haft rétt fyrir sér að kreppan stafaði að kúgun yfirstéttarinnar í gegnum ríkisvaldið, og því væri lausnin á henni að leggja niður hið miðstýrða ríkisvald.
Margar aðrar kenningar hafa verið settar fram sem njóta vafans því þær hafa ekki verið afsannaðar með framkvæmd sinni.
En mér til afsökunar á hinni röngu fullyrðingu, og ég tek það fram að hún er jafn röng fyrir það því þú notaðir orðið ríkisafskipti, vil ég benda á ótal innslög þín um ríkið og ríkisútgjöld þar sem þú notar slíkt sem útgangspunkt sem orsakavald kreppu og telur það kreppulausn að skera slíkt stórlega niður.
Eins var ég að fjalla um halllaus fjárlög, skaðsemi þeirra þegar að fjármálakreppur draga úr innlendri eftirspurn, og reynslulærdóm sögunnar þar um.
Eitthvað sem er staðreynd, og þú af einhverjum ástæðum hefur ítrekað kosið að gera ágreining um.
Þú virðist ekki átta þig á því að þó ég geti ekki afsannað að skattalækkun samhliða niðurskurði á ríkisútgjöldum hefði leyst kreppuna áður en hún varð að kreppunni miklu, vegna þess að það var ekki gripið til þeirra aðgerða, að þá get ég sannað að stefnan um hallalaus fjárlög, ásamt rangri peningastjórnun bandaríska Seðlabankans dýpkuðu kreppuna, það er jú þessi skaðlegu ríkisafskipti, og hún leystist ekki fyrr en ríkisútgjöld voru aukin.
Um þann raunveruleika hef ég verið að ræða allan tímann, og vægast sagt þurft að glíma við ýmsar rangfærslur frá þér um þessar staðreyndir sem ég get sannað, og afsannað rangfærslurnar.
En það afsakar ekki að ég fari rangt með orð manna.
Og fyrst ég er byrjaður að benda á hvað ég fer rangt með, þá sagði ég einhvers staðar hér að ofan að kreppan 1921 hafi ekki verið kreppa, heldur samdráttur, að þá er það heldur ekki rétt. Og ef ég hefði ekki lagst í lestur á Harding og Hoover, þá hefði ég líka slegið fram hinum viðtekna sem pólitískir andstæðingar þeirra hafa klínt á þá, að þeir hafi ýtt undir afskiptaleysi ríkisvaldsins í anda Laizze fair stefnunnar, sem er ekki rétt. Heldur rangt.
Þegar ég sagði kreppuna 1921 frekar í ætt við samdrátt, þá hafði ég það í huga hvað þjóðarframleiðslan minnkaði lítið, á línuriti er hún aðeins smá gára innan um allar hinar gárurnar, en ég var búinn að gleyma verðhjöðnuninni miklu, sem er í eðli sínu stórhættuleg, og það hefði verið auðvelt að klúðra málum algjörlega 1921.
Sem var sem betur fer ekki gert því þá má guð vita hvað ítökum kommúnistar hefðu náð í hinum vestræna heimi.
Hafi mér orðið á á fleirum stöðum, sem ég veit ekki fyrr en ég les innslög þín í botn, þá mun ég leiðrétta mig þegar ég tek athugasemd 29 fyrir.
En víkjum þá að öðru.
En í öðru innslagi.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 4.1.2014 kl. 12:29
Hérna hinsvegar ætla ég að gera athugasemd.
Ég hef séð þessa fullyrðingu þína áður um að peningaprentun sé skattur, en ekki beðið þig um að rökstyðja hana, ekki frekar en þegar þú sagðir að peningaprentun væri þjófnaður.
Peningaprentun er hvorki þjófnaður eða skattur, ekki samkvæmt viðtekinn hagfræði, og núna vil ég rökstuðning, með tilvísun í austurríska skólann. Ég vil losna við afbakanir þínar á peningaprentun í eitt skipti fyrir allt.
Varðandi það að ég sé að leggja þér orð í munn, þá er maður ekki að leggja manni orð í munn að hann hafi ýtt undir rasisma, þegar hann málflutningur hans ýtir undir árásir á litað fólk, þó hann sjálfur hafi ekki notað orðið rasismi (ath þetta er dæmi, ekki að ég sé að segja að þú hafir nokkurn tímann stundað slíkan málflutning enda veit ég engin dæmi til þess).
Í hvert skipti sem ég tala um keynisma fjármagnaðan með peningaprentun, þá ferð þú að tala um skuldir;
Þetta eru bara dæmi af mjög mörgum um þennan málflutning þinn frá því að þú komst fyrst í heimsókn á bloggið mitt.
Af hverju ertu að ræða við mig um skuldasöfnun þegar ég ítrekað bendi þér á að ég er að tala gegn skuldsetningu almannasjóða.
Af hverju Helgi??. Jú það er í hvert skipti sem ég byrja að tala um peningaprentun. Þess vegna legg ég þér þessi orð í munn.
Og þú getur ekki hafa misskilið mig, að ég telji peningaprentun ígildi skuldasöfnunar, ég veit hvað þetta þýðir þó það sé á enskri tungu; "Where does the money come from to purchase these assets? The Fed has the ability to simply create it. This unique ability is a function of all central banks. It has the same effect as printing money". Seðlabankarnir eru eins og gullnámurnar í gamla daga, og ríki sem réðu yfir gullnámum, tóku ekki gullið að láni þegar þeir grófu eftir því og veittu því útí hagkerfið.
Ég hef margoft útskýrt þetta fyrir þér, hvers eðlis peningaprentun er, og hvenær hún á við. Það er þegar það verður markaðsbrestur, þegar einkageirinn heldur ekki uppi eftirspurn. Sem er keynískt sjónarmið eða þegar skortur er á peningum í hagkerfinu, sem er monartorískt sjónarmið.
Dæmin eru óteljandi, hér eru nokkur;
Og ég kalla það andpeningaprentun þegar ríkið er látið skuldsetja sig til að takmarka peningamagn í umferð til að halda uppi verði gjaldmiðla.
Og viðbrögð þín er að kalla slíka skuldsetningu peningaprentun, sem hún er ekki þó menn þurfi ekki að nota hugtakið andpeningaprentun. Og mótrök þín gegn peningaprentun eru ótal útgáfur af orðalagi eins og þessu;
Nei, Helgi, ég lagði þér ekki orð í munn, ég endursagði aðeins þín orð. Sem ég í sífellu hef þurft að þola endurtekin aftur og aftur þrátt fyrir útskýringar mínar.
Þú þarft ekki að vera sammála því að grípa til peningaprentunar, og austurríski skólinn hefur sínar skoðanir á henni.
En þú getur ekki haldið þig við sömu síbyljuna án þess að á einhverjum tímapunkti segi maður hingað og ekki lengra.
Þess vegna er gott að fá þá játningu þína, sem ég mun geyma, að þú hafir aldrei sagt að peningaprentun sé skuldasöfnun.
Þá er ég vonandi laus við þessa síbylju og gangi þér vel að rökstyðja að hún sé skattur.
Ætla samt að benda þér á að ef þú tengir hana við óðaverðbólgu, þá er henni ekki beitt sem hagstjórnartæki við þær kringumstæður.
Sem þú vissir ef þú hefðir nennt að kynna þér orð Bernanke sem ég vísaði þér í hér að ofan.
Og svona að gefnu tilefni, þá er Ben Bernanke monatoristi í húð og hári, og monatorisminn er afrakstur kenninga Miltons Friedmans.
Þegar þú fullyrðir að hann sé Keynisti, þá sannar aðeins eitt, að þú þekkir ekki muninn á Keynisma og Monatorisma.
En þá er þetta frá, og þá kemur að næsta efnisatriði.
Á meðan er það kveðjan að austan.
Ómar Geirsson, 4.1.2014 kl. 14:20
Ég reikna með að þú hafir ruglast á að ég nota orði skattur bæði í merkingunni skatthlutfall, og í merkingunni skatttekjur, þó mig minnir að ég hafi séð það og útskýrt þegar ég átti við skatttekjur.
Allavega finnst mér það fyndið að þú skulir grípa þennan misskilning til að tala gegn skattalækkunarfræðum, það er í prósentum, því það er augljóst að ég er að taka undir þann fræga frasa að 75% skattur af engu, er 0.
Alvarlegra er að þú virðist ekki átta þig á umfjöllunarefninu.
Ef skattprósenta er hækkuð, en um leið leyfðir frádráttarliðir (glufur) sem voru ekki áður, þá getur slík aðgerð leitt til lækkunar á skatttekjum ríkisins.
Frádráttarliðirnir yfirgnæfa þá prósentuhækkunina.
Dæmi um slíkt er þegar einstaklingur getur dregið frá kostnað við menntun barna, við heilsugæslu, vaxtakostnað vegna húsnæðiskaupa, framlög til góðgerðarmála og svo framvegis.
Ég hef ekki hugmynd um hvort Andrew Millon hafi fækkað slíkum glufum þegar hann lækkaði skattprósentuna, Daniel Kuhn talar um breikkun skattstofna.
Þá er ákveðin skattur útvíkkaður á fleiri vörur og þjónustu.
Sem dæmi um slíkt er þegar söluskatturinn var aflagaður, skattprósenta hans var há, en margir vöruflokkar undanþegnir honum, og virðisaukaskatturinn var tekinn upp, þá var prósentan lægri, en undanþágum fækkað. Þess vegna var hann kallaður matarskatturinn á sínum tíma.
Annað dæmi er þegar vörugjöld voru lögð á nokkrar iðnaðarvörur sem voru í samkeppni við innlendan iðnað, ríkið jók nokkrum sinnum skatttekjur sínar með því að fjölga þeim vörum sem vörugjaldið var lagt á.
Þó skattprósentan sé ekki hækkuð, þá aukast tekjur ríkisins af viðkomandi skatti.
A la skattahækkun.
Og þetta sagði Daniel Kuhn, "Kuehn notes that the Harding administration raised revenues in 1921 by expanding the tax base considerably at the same time that it lowered rates" ".
Þetta er annað hvort rétt eða rangt, ég reikna með því að hann hefði ekki sagt það sem fræðimaður, ef hann hægt hefði verið að afsanna það með beinum rökum. Hins vegar túlka fræðimenn hlutina oft á mismunandi vegu, og skemmta sér svo við að rífast um þær túlkanir.
Tilvitnað svar þitt hér að ofan sýnir í fyrsta lagi að þú virðist ekki gera þér grein fyrir hvað útvíkkun skattstofna þýðir (expanding the tax base ) og þú kemur ekki með tilvitnun í heimild sem dregur þessi orð Kuhn í efa.
Og þar með stendur fullyrðing Daniels Kuhn, skattar í merkingunni skatttekjur, lækkuðu ekki við skattabreytingar Hardings.
Þjóðsaga Helgi, þjóðsaga.
Þar til annað kemur í ljós.
Ef þú ert í vandræðum með rök, og athugaðu að rök eru tilvísun í staðreyndir eða aðrar túlkanir í aðgengilegum heimildum, þá gætirðu emailað Thomas Wood og spurt hann um heimildar sínar. Það er fyrir utan þær sem hann nefnir í heimildarskrá.
Hugsanlega gæti líka Geir frjálshyggjugúró hjálpað þér, hann er fróður um þessa kreppu.
Ég hef ekkert á móti fróðleik og ég lem ekki hausnum í þekktar staðreyndir, en ekki bjóða mér aftur uppá svona málflutning eins og þú gerðir í þessum tilvitnuðum orðum þínum.
En því miður er þetta aðeins byrjunin á rangfærslum Thomas Wood.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 4.1.2014 kl. 14:54
Veistu það Helgi, þessi klausa þín hefði verið ágæt, ef þér hefði borið gæfa til að lesa Woods, og koma með tilvísun í texta hans þar sem hann einmitt slær því fram að peningalegar aðgerðir hafi örvað efnahagsbatann líkt og þau Friedman og Schwartz halda fram. Eitthvað á þá leið að á árinu 1922 hafi Seðlabankinn lækkað vexti og aukið peningamagn í umferð.
Ég skal reyna finna þá texta þar sem hann talar um peningalegar aðgerðir, fyrir utan þá texta sem ég peistaði hér að framan þegar ég rökstuddi mitt mál.
Eins og til dæmis þennan;
En absence eyðileggur alveg þá tilvitnun. Það má samt reyna betur;
Hardly noitceable er heldur ekki sterk tilvísun í þessu samhengi, og hvergi er minnst á árið 1922.
Síðasta tilvitnunin sem ég fann er því miður litlu skárri;
Það er ekki hægt að misskilja hvað refrained from employing any of the macroeconomic tools þýðir.
Og í alvöru talað, ég reyndi mitt besta til að finna fót fyrir orðum þínum.
En þegar ég kynnti mér hugsunarhátt frjálshyggjutrúboðsins þá datt ég inná þessa síðu hérna;
Kveðja að austan.
PS. Þú skalt ekki láta þig dreyma um Helgi að ég hafi ekki gögn sem sýna þessi peningalegu afskipti, bæði um aukningu á peningamagni í umferð, og eins lækkun skammtímavaxta. Monartoristarnir halda þeim vel til haga, því án þeirra væri Milton Friedman trúður, sem hann er ekki, hvað sem hann annars er.
Og árið var ekki 1922, heldur 1921 sem stefnubreytingin varð.
Ekki síðri kveðja en fyrr.
Ómar Geirsson, 4.1.2014 kl. 17:13
En hvað skyldi Thomas Wood vera??, því þetta er aðeins byrjunin á andsvari mínu.
Spáðu í það í kvöld og nótt, ég kem svo aftur inn í fyrramálið, ef flóafriðurinn helst.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.1.2014 kl. 17:15
@36 0g 37: Þú ert maður meiri að viðurkenna þetta og ég tek afsökunarbeiðni þína að sjálfsögðu gilda. Þakka þér.
@36: Mér finnst svolítið furðulegt að biðja mig um rökstuðning, ég rökstyð nánast allt sem ég segi og segist vilja tækla hitt seinna sem ég rökstyð ekki eins og t.d. verðhjöðnun. Hvernig var t.d. athugasemd nr. 1? Sumt af því sem ég segi gef ég mér að þú vitir og þess vegna útskýri ég ekki eða rökstyð. Það er sjálfsagt að gera þar bragarbót á.
Peningaprentun hefur verið kölluð skattur (líka þjófnaður sem ég er raunar hrifnari af) vegna þess að hið opinbera fær lán hjá seðlabankanum. Hann býr til peninga sem hið opinbera notar og eykur þar með peningamagn í umferð sem fyrr eða síðar leiðir til verðbólgu. Þar sem hið opinbera notar þetta nýja fé fyrst nýtur það meiri kaupmáttar en þeir sem seinna nota féð. Allt verður dýrara fyrir almenning - eyðsla hins opinbera er á kostnað kaupmáttar almennings. Verðbólga er líka slæm fyrir fyrirtæki því erfiðara verður fyrir þau að plana framtíðina. Á að ráðast í fjárfestingu eða ekki? Hvernig verður kaupmætti almennings háttað?
Þegar hið opinbera tekur lán hjá seðlabanka þarf það að borga þetta lán til baka. Hvernig gerist það? Það leggur á skatta. Viðkomandi ríki er lagalega skylt að greiða seðlabankanum þetta fé til baka. Það fé er tekið af einkageiranum - þeim hluta hagkerfisins sem býr til verðmæti.
Það að reka opinbera sjóði með halla er ekkert annað en skuldsetning þeirra - þó þeir slái lán hjá seðlabankanum því greiða þarf það fé til baka. Ég er alfarið á móti hallarekstri opinberra sjóða því ég vil ekki lifa á kostnað annarra.
Ef einkageirinn heldur ekki uppi eftirspurn er það vegna einhverra inngripa hins opinbera. Neytendur vita alveg hvað þeir vilja kaupa og ef þeim er þrýst til að drekkja sér í skuldum og endalausri neyslu hefur slíkt afleiðingar. Sparnaður er nánast horfinn sem leiðir til minni fjárfestingar sem þýðir minni hagvöxtur seinna. Að ofan benti ég þér að neikvæðar afleiðingar opinberra skulda (1).
Þú talar um að seðlabankarnir prenti peninga þegar skortur er á þeim í kerfinu. Það var enginn skortur á þeim á árunum fyrir kreppuna miklu heldur var of mikið af þeim og slíkt leiddi til bólu á hlutabréfamarkaðinum sem sprakk að lokum auðvitað alveg eins og dot com bólan og húsnæðisbólan. Sú bóla sem nú er verið að búa til mun að endingu líka springa. Svo þarf þá líka einhverja misvitra einstaklinga til að ákveða hvort skortur sé á þeim og þá hve mikill. Það hefur gengið mjög illa!! Hvað eiga peningar að kosta? Vita nokkrir einstaklingar það? Nei!! Markaðurinn veit það og sagan sýnir okkur að tilraunir í A-Evrópu til að miðstýra efnahagslífinu eru dæmdar til að misheppnast.
Það er hægt að hafa mörg orð yfir skuldasöfnun og ég nota það sem hentar umræðunni hverju sinni. Sumir kalla peningaprentun örvunaraðgerðir á meðan aðrir kalla hana þjófnað. Ég haga orðum mínum eftir samhengi.
@39: Þú gefur þér að Harding hafi þétt glufur. Ég veit ekkert um það. Þegar Kuhn talar um "expanding the tax base" er ekki sjálfgefið að glufur hafi verið þéttar. Ef álagningarprósenta er lækkuð leiðir það að öðru jöfnu til aukinna efnahagslegra umsvifa í hagkerfinu sem skilar hinu opinbera auknum tekjum og fleiri greiða skatta vegna þess að fleiri hafa vinnu o.s.frv. Ef álagnignarprósenta er lækkuð heldur fólk eftir hærra hlutfalli af sínum tekjum þó vel megi vera að það borgi hærri upphæð en fyrr vegna aukinna tekna. Hið opinbera hefur hærri tekjur af sköttum og einkageirinn heldur eftir hærra hlutfalli af sínum tekjum vegna lægri álagningarprósentu. Menn geta svosem kallað þetta skattahækkun en þá verða menn jafnframt að tala um skattalækkun ef skattprósenta er hækkuð og skatttekjur ríkisins dragast saman við það. Þú og fleiri eruð að rugla saman skatttekjum og skattprósentu. Það gerist iðulega að ef álagningarprósenta er lækkuð aukast skatttekjur vegna aukinna efnahagsumsvifa. Aukin efnahagsleg umsvif í hagkerfinu er af hinu góða.
Ég er ekki í neinum vandræðum með rök og stunda ekki útúrsnúninga.
Fyrir nokkrum árum hefði ég sjálfsagt tekið undir obbann af því sem þú segir en þegar maður sér svona mikið misræmi milli kenninga og veruleikans verður maður að endurskoða kenninguna - ekki veruleikann :-)
Annars finnst mér þú taka ansi stórt upp í þig að saka Tom Woods um rangfærslur.
Helgi (IP-tala skráð) 4.1.2014 kl. 17:30
Sæll. Ég var búinn að svara þér en sú athugasemd hefur dottið út eða ekki komist inn :-(
@39: Varðandi Kuhn þá gefur þú þér að glufum hafi verið lokað. Ég veit ekkert um það og finnst það raunar ólíklegt - virkar ekki stíll Mellon.
Ef álagningarprósenta er lækkuð leiðir það að öðru jöfnu til aukinna efnahagslegra umsvifa í hagkerfinu sem þá skila hinu opinbera hærri skatttekjum. Fleiri einstaklingar fara að vinna og greiða skatta og meiri hvati verður að stofna fyrirtæki þegar menn sjá að þeir mega halda eftir hærra hlutfalli tekna sem þeir afla ef í fyrirtækjarekstur er ráðist. Fleiri greiða skatta - expanding the tax base. Einkageirinn greiðir kannski meira vegna aukinna tekna en hann heldur eftir hærra hlutfalli af sínum tekjum. Ef þú og Kuhn viljið kalla lækkun álagningarprósentu skattahækkun vegna aukinna skatttekna hins opinbera þá þið um það. Þá verðið þið líka að að kalla hækkun álagningarprósentu skattalækkun ef hún skilar minni skatttekjum. Hljómar það ekki kjánalega? Auðvitað og þar með fellur þessi málflutningur um sig sjálfan.
@38: Peningaprentun má kalla skatta og líka þjófnað. Ég sjálfur er hrifnari af því að tala um þjófnað því hið opinbera rýrir viljandi kaupmátt almennings til að geta sjálft eytt. Hið opinbera slær lán hjá seðlabanka sínum. Seðlabankinn býr til peninga og lætur ríkið hafa. Þar sem hið opinbera notar peningana fyrst hafa þeir meiri kaupmátt en þegar aðrir fá þá í hendur. Meira magn peninga í umferð þýðir fyrr eða síðar verðbólga. Neysla hins opinbera er þá á kostnað kaupmáttar almennings. Þjófnaður á kaupmætti almennings til að fjármagna opinbera neyslu. Líka má kalla þetta skatt á almenning til að fjármagna opinbera eyðslu.
Það vill svo skemmtilega til að ég veit upp á hár hvert peningamagn í umferð var á árunum fyrir kreppuna miklu og hver aukningin var. Frá ársbyrjun 1921 til júní 1921 til sama tímabils næsta ár jókst peningamagn í umferð um rétt 4,1%. Hardly noticeable eins og Woods talar um. Frá ársbyrjun 1922 til júní 1922 til sama tímabils næsta ár (1923) jókst peningamagn í umferð um 9,81%. Þarna á milli er verulegur munur. Ég þarf ekkert að lesa Woods, hef aðra og mun betri ritrýnda heimild :-)
Við sjáum þarna að peningamagn í umferð fer ekki að aukast neitt að ráði fyrr en eftir batann. Krugman og Woods hafa báðir rétt fyrir sér eins og ég sagði í 29 og þú gerir svo lítið úr í 30. Þú virðist ekki alltaf skilja það sem þú ert að segja og vitna í.
Þegar hið opinbera slær lán hjá seðlabanka sínum er einmitt um lán að ræða sem hinu opinbera er skylt að greiða til baka. Ameríska ríkið skuldar ameríska seðlabankanum langtum meira en Kínverjum og Japönum til samans. Það fé þarf að greiða til baka. Það fé greiðir ameríska ríkið einungis til baka með því að rífa það af einkageiranum - þeim hluta efnahagsgeirans sem framleiðir verðmæti. Áttar þú þig ekki á því hvernig þetta gengur fyrir sig?
Mér dettur ekki annað í hug en þú hafir gögn sem sýna aukingu peningamagns í umferð en þau gögn sanna einmitt það sem ég held ég hafi sagt að ofan varðandi orsakir kreppunnar miklu. Opinber afskipti bjuggu kreppuna miklu til og sáu síðan til þess að hún varð löng og slæm. Ég skil ekki hvernig þú getur gert ágreining við mig um þetta. Í des. 1929 náði atvinnuleysið hámarki, rétt rúmum 9%. Næstu 6 mánuðina lækkaði það órleglulega þar til það var komið niður í rétt rúm 6% í júní 1930. Gott dæmi þess að markaðurinn jafnar sig ef hann fær til þess tækifæri. Þá koma svo mikil opinber afskipti. Veistu hver þau voru? Eftir það rauk atvinnuleysi upp.
Seðlabanka heimsins á að leggja niður sem allra fyrst enda eru þeir meiriháttar vandamál. Menn segja að þeir hafi bjargað okkur frá algeru hruni 2008 en það er ekki rétt - þeir björguðu okkur frá nauðsynlegri leiðréttingu. Þegar þú bjargar einhverjum banka ertu að veikja bankakerfið að innan, þú hjálpar þeim sem ekki kunna að reka banka að halda áfram rekstri. Eru ekki góðar líkur á að þeir haldi áfram að gera sömu mistök? Gerir hið opinbera það sama við t.d. hárgreiðslustofur eða fatahreinsanir? Tilvist seðlabanka sem lánveitanda til þrautarvara ýtir undir áhættuhegðun bankamanna því þeir vita að þeim verður bjargað ef allt fer í steik. Seðlabankar veita almenningi sömuleiðis falska öryggiskennd.
Ef þú vilt eyða tíma í að hamast í Woods máttu það auðvitað en ég fæ mínar tölur ekki frá honum :-)
Ég reikna með að verðbólgan fari af stað í USA í ár og því er ekki svo langt í að þú sjáir kenningar þær er þú aðhyllist hrynja með miklum hvell. Verið er að eyðileggja gjaldmiðla og fara kanarnir þar fremstir í flokki. Mér finnst hræðilegt að horfa á þessa frábæru þjóð fremja nánast fjárhagsleg sjálfsmorð :-(
Helgi (IP-tala skráð) 4.1.2014 kl. 20:07
Ó, athugasemdin sem ég hélt að hefði dottið út er nú nr. 42. Margt í 42 og 43 er afskaplega svipað - afsakaðu að þetta skuli fara inn tvisvar.
Helgi (IP-tala skráð) 4.1.2014 kl. 20:09
Blessaður Helgi.
Þú ert eins og vínið sem batnar með aldrinum, innslögin þín nálgast alltaf raunveruleikann betur og betur þegar staðreyndir sækja að trúnni.
Ég þarf ekki mikið meir að angra þig með trúarriti Woods, þú hefur greinilega kynnt þér rit monartorista sem nýta sér staðreyndir til að rökstyðja skoðanir sínar. Það er því hægt að fara að draga saman um lokaniðurstöðu um kreppuna 1920 sem var alfarið mannanna verk eins og Friedman bendir réttilega á.
Ég ætla í þessari athugasemd að taka fyrir rökstuðning þinn um að peningaprentun sé skattur, en áður vil ég aðeins til gamans svona til að minnka glottið sem er á mér núna að minnast á þetta sem þú kallar hardly noticable; "Frá ársbyrjun 1921 til júní 1921 til sama tímabils næsta ár jókst peningamagn í umferð um rétt 4,1%" (takk annars fyrir töluna, ég hafði aðeins línurit fyrir framan mig), að árleg aukning peningamagns í umferð (USA) eftir fjármálakreppuna 2008 náði rétt mest um 3% 2009 minnir mig. Mig minnir líka að þú kallir það stjórnlausa peningaprentun sem sé ávísun að nýju Hruni. Það er greinilega ekki sama hver á í hlut.
En það rökstuðningur þinn á þeirri fullyrðingu að peningaprentun sé skattur.
Ég bað um rök, ekki skoðanir. Ég þekki skoðanir þínar, og er reyndar feginn að þú skulir geta fjallað um þessi mál án þess að orðið "skuld", komi fyrir í öðru hverju orði, en lengra nær það ekki.
Þú vísar ekki í nein fræði, í bland við staðleysu eins og þessa "Neysla hins opinbera er þá á kostnað kaupmáttar almennings. Þjófnaður á kaupmætti almennings til að fjármagna opinbera neyslu. Líka má kalla þetta skatt á almenning til að fjármagna opinbera eyðslu. " kemur rökvilla eins og þessi; "Meira magn peninga í umferð þýðir fyrr eða síðar verðbólga", þetta er rökvilla í fræðum peningaprentunarinnar því henni er beitt þegar það er skortur á eftirspurn, en andstæða hennar er beitt þegar það er þensla. Staðleysan er að peningaprentun hefur ekkert með neyslu hins opinbera að gera, það er pólitísk ákvörðun.
Loks tókst þér að afhjúpa fáfræði þína um peningaprentun með því kalla hina tilbúnu peninga skuld, það sem verður til uppúr engu, er ekki skuld, nema svo sé ákveðið.
Og þar með er það ekki peningaprentun.
Þú fattar þetta samhengi þegar þú talar um útþynningu gulls eða silfur, kóngarnir sem blönduðu ódýrum málmum saman við mynt sína, voru ekki að auka skuldir sínar, heldur lækka þær, og þaðan hled ég að þjófnaðar konseptið þitt sé komið. En þér virðist vera fyrirmunað að skilja það þegar pappírspeningar eiga í hlut.
Rök þín fyrir skuldinni eru svo athyglisverð;
Keynísk nálgun á sveiflujöfnun kveður á um halla á fjárlögum á samdráttartímum en afgang á þenslutímum, ekki um hækkun eða lækkun skatta.
Lagaleg skyldan sem þú vísar í er hugverk monartorista sem láta ríkissjóð vera stuðpúða á milli Seðlabanka og hagkerfisins. Margt var ekki gáfulegt í gamla daga, en enginn var svo vitlaus þegar hann gróf eftir gulli, að senda ríkissjóði viðkomandi lands kröfu um að hann skuldaði gullið.
Það eru vissar skýringar á þessari heimsku, líkt og það eru skýringar á umskurði kvenna eða banni við svínakjötsáti, en kemur hvorki nútímanum eða raunveruleikanum neitt við.
Og fyrir nútímamanninn er það lífsspursmál að losna við þá forneskju að skuldsetja almannasjóði þegar veita þarf nýjum peningum inní hagkerfið.
Andstaða við þessa skuldsetningu er rauði þráðurinn á bloggi mínu og þú kannski áttar þig á að þegar þú ætlaðir að sýna mér fram á að þú hefðir aldrei sagt að peningaprentun væri skuldsetning, að þá gerðir þú það í röksemdarfærslu þinni hér að ofan.
En einhver hagskóli gæti haldið því fram að peningaprentun væri skattur, þó þér tæki ekki að rökstyðja það Helgi, og ég var að biðja þig um tilvísun í þann skóla.
Þá sé ég rökin, hvort þau byggjast á staðreyndum og rökleiðslu út frá þeim, eða fyrirfram ákveðinni skoðun þar sem það er tekið með sem hentar, öðru sleppt, og staðreyndir aðeins látnar þjóna málstaðnum.
Það er hagtrú en ekki hagfræði.
Woods útlistaði til dæmis ágætlega nálgun austurríska skólans í ritgerð sinni, um það má lesa hér;
Áframhaldið má svo lesa í grein hans. Gat samt ekki rekist á að hann hafi talað um peningaprentun sem skattlagningu en alveg eins og þú gast lesið út úr orðunum hardly noticeable að þau hafi innfalið viðurkenningu á því sem hann kallaði refrained from employing any of the macroeconomic tools—..... inflationary monetary policy, að þá ættir þú ekki að vera í vandræðum með að benda mér á það dæmi.
Eða úr öðrum ritum austurríska skólans.
Ég get bent þér á þessa útskýringu á About.com;
Ómar Geirsson, 5.1.2014 kl. 10:53
@45:
Ef þú skilur ekki einfalda útskýringu þýðir ekki að kalla eftir rökum. Það er staðreynd, sem þú hefur viðurkennt (þetta er gott dæmi um það að þú snýrð við blaðinu þegar þér hentar til að reyna að koma höggi á þann sem þú ræðir við og þetta er ekki í fyrsta skipti sem þú geirr þetta), að með því að auka peningamagn í umferð fer verðbólgan fyrr eða síðar af stað. Verðbólga rýrir kaupmátt almennings. Þá muntu samt reyna að útskýra þetta í burtu því þú ert einn af þeim sem ekki getur viðurkennt að þú hafir rangt fyrir þér og reynir stöðugt að fá veruleikann til þess að falla að þínum kenningum en ekki öfugt. Hugmyndir Keynes biðu endanlegt skipbrot á 8. áratugnum þegar saman fór bæði verðbólga og atvinnuleysi í USA. Þú lætur veruleikann hins vegar ekki trufla þig. Slíkt leiðir fyrr eða síðar til árekstra.
Lagalega skyldan sem ég vísa í hefur ekkert með einhvern skóla hagfræðinnar að gera. Merkilegt að þér skuli takast að misskilja það. Skuld er skuld og skuld þarf að greiða til baka - það er bara svo einfalt.
Peningaprentun í USA núna nemur hundruðum milljarða dollara á ári. Það má auðvitað deila um það hvort slíkt sé stjórnlaust eða ekki.
Þú segir (45):" Staðleysan er að peningaprentun hefur ekkert með neyslu hins opinbera að gera, það er pólitísk ákvörðun." Þessi ágæta málsgrein þín lýsir mikilli vanþekkingu og er einfaldlega röng. Nokkur erlend ríki og bandaríski seðlabankinn hafa keypt skuldabréf bandaríska fjármálaráðuneytisins og gera því þannig kleift að ausa fé og um leið að bæta á skuldabáknið þarlendis.
Í einni tilvitnun þinni kemur fram að seðlbankinn geti "unprint" money. Þetta er fræðilega séð auðvitað hægt en í dag er bandaríska seðlabankanum það lífsins ómögulegt og í ár munu þeir þurfa að herða á peningaprentuninni. Ekki gleyma því að ég hafi sagt þetta!!
Það styttist stöðugt í hrun og er það í boði keynsista eins og þín.
Þú vilt skuldsetja opinbera sjóði á krepputímum og velta byrðinni á afkomendur okkar eins og þú segir að ofan (45): "Keynísk nálgun á sveiflujöfnun kveður á um halla á fjárlögum á samdráttartímum en afgang á þenslutímum, ekki um hækkun eða lækkun skatta." Svo hefur þú undanfarið verið að reyna að hengja alla þessa skuldasöfnun á Friedman og talað um að fjármagnið stjórni og fleira slíkt. Skuldasúpan er á ábyrgð skoðanasystkina þinna - menn flýja ekki frá afleiðingum sinna skoðana.
Já, skattstofnar breikka þegar fleiri greiða skatta og það er ekkert endilega svo slæmt. Annars varst það þú sem gafst þér að glufur hefðu verið þéttar - ekki ég. Ef þú vilt kalla lækkun álagningarprósentu skattahækkun þá máttu það alveg mín vegna Ómar en hafðu þá í huga hina hliðina á þeim pening sem ég nefni að ofan. Þú lítur alveg framhjá öllu sem kastar rýrð á þinn málflutning og tekur 180° beygjur þegar þér hentar svo þú getir haldið áfram. Það finnst mér frekar ómálefnalegt og barnalegt.
Hafðu það gott þarna fyrir austan Ómar :-)
Helgi (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 11:47
Helgi, hvað segðir þú ef hingað inná síðuna mína kæmi maður og segði okkur báða vera á algjörum villigötum, að lífskjör á Vesturlöndum hefði stórlega versnað frá lokum seinna stríðs, en að á sama tíma hefði lífskjör batnað stórlega í kommúnískum hagkerfum, færi þar fremst í flokki Norður Kórea og Albanía.
Sérstaklega hefði hagvöxturinn í kommúníska ríkinu Albaníu verið mjög mikill á þessari öld.
Segjum sem svo að þú hefðir kurteislega beðið hann um rök, vitandi það að viðkomandi maður ætti erfitt með að sanna mál sitt, allavega miðað við þekkingu þína á hagtölum og sögulegum atburðum, að þá hefði hann svarað um hæl, hér er brot úr ræðu Kim il um hin stórkostlegu lifskjör í Norður Kóreu, þar sem líka kemur fram að að afi hans Kim il hefði fundið upp rafmagnið og það væri síðan alvitað með hin góðu lífskjör í Albaníu.
Jæja, þú ert kurteis maður, og segðir að tilvísun í orð væri ekki nóg, þú gætir hins vegar sent honum mynd sem sýndi stöðugan hagvöxt í Bandaríkjunum frá seinna stríði, og þar sem tímabilið frá 1940-1980 væri með mestan sögulegan hagvöxt þar í landi frá 1854. Og þú kóperaðir hana eins og ég geri hér að neðan til að sanna mál þitt,
Síðan fyndir þú tilvitnun í sögubók þar sem uppfinning rafmagnsins væri eignuð Thomas Edisson, sem hefði verið upp á undan afa núveran Kim Il, og eins læsir þú í sögu mannkyns að kommúnistastjórnin í Albaníu hefði fallið í upphaf tíunda áratugarins, en þá hefði landið verið talið fátækasta landið í Evrópu. Hins vegar gætir þú ekki afsannað þetta með lífskjörin í Norður Kóreu, því þarlend stjórnvöld birtu ekki opinberar hagvaxtartölur, þú vissir hins vegar að þar hefði verið hungursneyð nýlega en hins vegar væri ekki vitað um hungursneyð í vestrænum löndum frá hungursneyðinni miklu á Írlandi um miðbik 19. aldar.
Og svarið sem fengir væri að þú skyldir ekki einfalda útskýringu og þar að leiddi þýddi ekki fyrir þig að kalla eftir rökum.
Svaraðu mér ærlega Helgi, hvernig myndir þú svara??
myndirðu benda á að þú vissir að þetta væri bull, þú gætir sannað aukningu þjóðartekna, bæði heildaraukningu sem og per mann, í vestrænum löndum frá 1945, sem og að þú gætir vitnað í fréttir hjálparsamtaka sem hefðu veitt nauðstöddum bjargþurftir á meðan á hungursneyðinni stóð, þú gætir vitnað í skýrslur alþjóðlegra stofnanna sem hefðu metið lífskjör í Norður Kóreu ein þau lélegustu í heiminum, og langt fyrir neðan almenn lífskjör í vestrænum löndum, en þú gætir ekki tekið afstöðu til gagna sem þér væri neitað um??
Eða myndir þú bara hrista hausinn??
Ég spyr því ég er að glíma við þessa klemmu, þegar einhverju er ítrekað haldið fram sem stenst ekki viðurkennda þekkingu, en neitað um rökstuðning með tilvísun í þekkt fræði.
Ég ætla samt ekki að gefast upp, ætla að nýta mér þessa mynd hér að ofan til að sýna að keyníska tímabilið frá 1938 til 1984, er mesta hagsældarskeiðið í sögu Bandaríkjanna, og þó ég nenni ekki að finna gögn yfir önnur vestræn lönd, þá gildir það líka um þau. Þau ríki Asíu sem beittu keynískum aðferðum þróuðust líka miklu hraðar en önnur ríki í þeirri álfu, er ég þar að tala um Suður Kóreu, Japan og Taiwan.
Einnig vil ég vísa í myndina sem er neðst í athugasemd 27, sem sýnir opinberar skuldir í USA í hlutfalli af þjóðarframleiðslu, að hún sýnir mjög háan topp í kjölfar kreppunnar miklu sem náði hámarki í lok seinna stríðs, að hann var næstum alfarið fjármagnaður með peningaprentun. Samt er skuldastaðan komin niður í um 30% í upphafi áttunda áratugarins, þrátt fyrir lífskjör almennt hafi stórbatnað á þessu tímabili, hvort sem það er mælt í þjóðarframleiðslu per haus, almennum mælikvörðum eins og hlutfall fátækra af heildarmannfjölda, vísitölur neysluvarnings eins og bílar eða sjónvörp per íbúa, og svo framvegis.
Á sama tíma eykur ríkisvaldið hlut sinn af þjóðarframleiðslu frá því að vera um 12% 1922 í um 35% 1980.
Á þessu tímabili var verðbólga, mismikil þó ég nenni ekki að peista tölur þar um, og samt slærð þú því fram Helgi að lífskjör hafi rýrnað, "um þjófnað á kaupmætti almennings", og svo framvegis.
Hvað get ég eiginlega sagt við þig Helgi minn, ef kemur með svona fullyrðingar án þess að vitna í gögn eða hagfræðileg rök máli þínu til stuðnings??
Það er margbúið að segja þér að ef peningaprentun örvar ekki framleiðsluþætti, að þá er hún tilgangslaus. Örvun framleiðsluþátta þýðir að tekjur ríkisins aukast, þetta er sama speki og að láta niður eina kartöflu, og gera sér vonir um að fá allavega eina upp til baka í uppskeru.
Uppbygging Evrópu eftir stríð var fjármögnuð með peningaprentun, á sama tíma voru útgjöld ríkisins aukin með stórauknum almannatryggingum, og því sem við köllum velferðarkerfi í dag. Ef allt þetta væri skuld eins og þú segir, miðað við efnahaginn 1945, þá væru þjóðarskuldir margfaldar á við þjóðarframleiðslu, eða menn hefðu ekki haft efni á uppbyggingu velferðarkerfisins.
En þetta gerðist þannig að efnahagsreikningurinn var þaninn út, og þannig komu tekjur á móti kostnaði.
Varðandi að peningaprentun leiði sjálfkrafa til verðbólgu, þá í fyrsta lagi gildir það samband ekki þegar skortur er á fjármunum í hagkerfinu, ef þú gerðir ekki annað en að lesa Friedman þá myndir þú átta þig á þessu orsakasamhengi.
Síðan væri hægt að halda peningaörvuninni frá hagkerfinu eins og þýsk stjórnvöld gerðu á sínum tíma, þar var ekki verðbólga þrátt fyrir mikið magn ríkisverðbréfa.
Loks er það ranghugmynd að verðbólga skerði sjálfkrafa lífskjör.
Þó verðbólga hafi verið mismikil á eftirstríðsárunum, þá er það staðreynd, sem ég vona að þú ætlir ekki að fara að afneita, að lífskjör almennings á Vesturlöndum bötnuðu mikið á árunum eftir stríð, og þjóðartekjur per mann hafa aukist á þessu tímabili til dagsins í dag.
Á Íslandi var til dæmis mikil verðbólga meginhluta lýðveldisins, en án þess að ég ætli að ná í töflu þar til vitnis, þá hafa rauntekjur hækkað mikið frá 1945.
Eftir rúmlega 1.000 ára stöðnun í Evrópu, þá tók efnahagslíf álfunnar fyrst almennilega við sér á 17. öld, en sú öld var öld verðbólgunnar sem stafaði af peningaprentun þess tíma, mikils innflutnings á silfri frá Ameríku.
Hagfræði Keynes beið ekki skipbrot áttunda áratugnum, henni var framfylgt alveg til seinna hluta kjörtímabils Ronalds Regans, þá tók við monartorisminn, sem leggur áherslu á peningaúrræði í gegnum Seðlabanka, en ekki sveiflujöfnun í gegnum fjárlög ríkisins.
Helgi, að leggja saman keynisma og monartorisma, er það sama og að fullyrða að Hoxa stjórni ennþá Albaníu.
Hér getur þú lesið þér til um monartorisma;
Ómar Geirsson, 5.1.2014 kl. 16:56
@47:
Sæll.
Þetta er hurð sem opnast í báðar áttir.
Hvað segir maður við mann sem endurskilgreinir hluti eftir behag? Hvað á maður að segja við aðila sem lokar augunum fyrir stórum gloppum í eigin málflutningi og lætur eins og þær séu ekki til staðar þó búið sé að benda honum á þær? Hvað segir maður við mann sem kemst í mótsögn við sjálfan sig og sér ekkert athugavert við það? Hvað segir maður við mann sem segir hluti sem eru rangir - ekki túlkunaratriði heldur beinlínis rangir og byggir stóran hluta síns málflutnings á slíku? Hvað segir maður við mann sem sér ekkert athugavert við að fara með staðlausa stafi? Hvað segir maður við fólk sem segir upp vera niður og niður vera upp?
Hvað segir maður við mann sem nennir ekki að kynna sér merkingu algengra hugtaka? Hvað segir maður við mann sem ekki getur notað hugtök rétt? Hvað segir maður við mann sem hengir bakara fyrir smið? Hvað segir maður við mann sem leggur öðrum orð í munn? Hvað segir maður við mann sem kannast ekki við afleiðingar eigin skoðana? Hvað segir maður við mann sem segir annan fara rangt með staðreyndir en hrekur hvergi? Hvað segir maður við mann sem víkur af umræðuþræðinum þegar hann er kominn í öngstræti og skiptir um umræðuefni? Hvað segir maður við mann skilur ekki mikilvæg hugtök? Hvað segir maður við mann sem les ekki almennilega það efni sem hann ber á borð? Hvað segir maður við mann sem ruglar saman hlutum?
Svaraðu mér ærlega Ómar, hvernig myndir þú tækla slíkt - sérstaklega í ljósi þess að þér finnst gaman að skiptast á skoðunum við þennan aðila og þú veist að viðkomandi vill vel?
Hvað segir maður við mann sem getur ekki viðurkennt, ekki einu sinni fyrir sjálfum sér, þegar hann hefur verið málaður út í horn?
Hvað er til ráða?
Hafðu það gott :-)
Helgi (IP-tala skráð) 5.1.2014 kl. 18:15
Blessaður Helgi.
Ég verð að játa að ég átti ekki von að þú gætir hjálpað mér út úr þessari klemmu, og vonandi verð ég búinn að finna svarið þegar ungi komminn mætir á svæðið, því miður leitar unga fólkið á ný mið draumóra þegar það upplifir hnökra kapítalismans.
En hins vegar get ég auðveldað greitt úr spurningu þinni, enda vanur maður að takast á við slíka umræðu.
Lífið var ekki alltaf leikur í ICEsave umræðunni og þó að allir hafi ICEsave Lilju kveðið hafa eftir að dómur EFTA dómsins lá fyrir, þá var það ekki svo í upphafi.
Þá var mikilvægt að kunna tæknina við að leiðrétta ranghugmyndir og misskilning þeirra sem notuðu orð en ekki rök, máli sínu til stuðnings.
En ég má ekki vera að því núna, geri það í fyrramálið.
Á meðan er það kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.1.2014 kl. 22:58
Góðan daginn Helgi.
Ekki stendur á mér að gefa þér eins ærlegt svar og ég get um það sem ég kann í þessum fræðum og vonandi verður þú fróðari á eftir.
Þegar ég var 14 ára lærði ég fyrstu grundvallarregluna í debati þegar ég rökræddi eitthvað kommúnískt mál við stærðfræðikennara minn, sem var jafn meitlaður í framsetningu og hann var í stærðfræði. Og það var sú bitra staðreynd að sá sem hefur tök á rökræðunni, hann getur unnið rökræður þó hann hafi rangt fyrir sér. Þó grunnforsendan sé röng hefur rökleiðslan sigur.
Það er ekki nóg að þú vitir að þú hafir rétt fyrir þér, það er ekki nóg að þér finnist þú hafir málað viðkomandi út í horn með málflutningi þínum, öðrum verður að finnast það líka, og sérstaklega mikilvægt að sá sem þú ert að tala við upplifi þá tilfinningu líka.
Og þetta getur verið snúið Helgi. En frá 14 ára aldri hef ég töluvert spáð í þetta og þjálfað mig í þessu, og iðulega prófað aðferð stærðfræðikennara míns, að taka rökræðu út frá röngum forsendum sem og að taka andstæðan pól við viðmælanda minn, þó ég hafi þess vegna alveg verið sammála honum. Slíkt er reyndar ættarfylgja okkar Vaðlvíkinga, að eiga erfitt að vera sammála síðasta manni.
Og þessi þjálfun hjálpaði mér yfir marga brimskaflana í upphafi ICEsave deilunnar þegar rök andstæðinganna voru, að fyrst að öll Evrópa er á móti okkur, og virtir fræðimenn staðfesta þann málflutning að ríkið sé í ábyrgð ef tryggingasjóðir falla, að þá hafi þið molbúarnir rangt fyrir ykkur þegar þið haldið öðru fram.
Þá kom að annarri grunnreglunni, sem er að það hjálpar mjög í rökræðum að hafa rétt fyrir sér.
Vegna þess að í debati, þegar tveir takast á með orðum, og orðum er hægt að stjórna eftir vild, þá skiptir miklu máli að koma umræðunni í þann farveg að menn láti staðreyndir takast á. Og það er þriðja reglan.
Og hún er snúin.
Í ICEsave deilunni voru við örfá sem tókust á við breiðan hóp andstæðinga sem töldu málstaðinn sín meginn og við værum að lemja hausnum við stein. Rökin; Evrópa getur ekki haft rangt fyrir sér, við vísuðum í lagaskýringar Stefáns og Lárusar. Og við lögðum þau hægt og rólega í rökræðunni, því á rökfærslu okkar og þeirra var einn reginmunur, við peistuðum rök, þau vísuðu í orð.
Við vissum hvenær við höfðum þau undir þegar við tókum eftir að fólk sem hingað til hafði tjáð sig með þeim rökum að því fyndist þetta ósanngjarnt og jafnvel ranglátt að þjóðin væri í ábyrgð, að það vísaði í rök okkar, og hinir sem vísuðu í almannaróm eða orð ráðamanna, þeim fækkaði stöðugt því flest fólk gerir greinarmun á rökum og orðum.
Þá reyndi á áróðursmeistara ICEsave sinna, þeir fundu á þeirri hundalógík að íslensku lögfræðingarnir væru sveitamenn sem notuðu heimatilbúna lögfræði. Sérstaklega var Magnús Helgi skæður, hann notaði þá tækni að koma með yfirlæti inná síður með moðsuðu hálfsannleiks og tilvísun í almannaróm, og passaði sig á því að koma ekki til baka og svara fyrir sig þegar að honum var sótt.
Þá reyndi á þessa þriðju reglu, hvernig náði maður Magnúsi svo maður gæti málað hann út í horn?? Ég reyndi allskonar tilbrigði, stríddi honum, skammaði hann, reyndi að rökræða, en hann hvarf alltaf þegar spjótin stóðu á honum, fór hins vegar mikinn á síðum þar sem honum var ekki mætt.
Svo ég stúderaði hann betur, las prófælið hans og komst að hann var með master gráðu í einhverjum fræðum svo ég ákvað að ögra honum á akademískan hátt, spurði hann kurteislega að maður með hans menntun ætti að geta gengið í eitt skipti fyrir allt frá mér afdalabúanum með því að peista til mín lagarökin sem lægju að baki þeirri almennu fullyrðingu Evrópu að einstök ríki væri í bakábyrgð fyrir tryggingarsjóði sína.
Magnús féll í gildruna, hann lét reyna á rök sín, kom með þrjár tilvitnanir, þá fyrstu í lögin um íslensku tryggingarsjóðinn þar sem stóð skýrt að sjóðurinn væri sjálfseignarstofnun, önnur var tilvitnun í orð Þórólfs Matthíassonar þar sem hann fullyrti að það væri ekki spurning að þjóðin væri í ábyrgð, og sú þriðja var tilbrigði við hana.
Með öðrum orðum þá eitthvað er, þá afsannaði hann sinn eigin málflutning og leið kveikti ég á perunni að það lægi ekkert að baki fullyrðingu Evrópusambandsins, það væri ekki einu sinni vafi í lagatextanum, fyrst að þeirra stuðningsmenn höfðu ekkert í höndunum.
Og ég gekk úr skugga um það á tvennan hátt, ég fór inní evrópska reglugerðarsafnið og las í fyrsta sinn lögin beint, en ekki í gegnum Stefán og Lárus, og ég lagði allan minn kraft í að draga Magnús Helga sundur og saman í háði, eitthvað á þá leið að hann hefði eiginlega staðfest þann orðróm að eftir hippabyltinguna að þá hefðu akademísk fræði orðið undir í háskólanum í Lundi, en þaðan kom prófgráða Magnúsar.
Vissi að hann myndi annaðhvort negla mig, eða þegja.
Sem er lykilatriðið þegar þú ert að mála menn útí horn Helgi, að þeir eigi ekki annað svar en þögnina, eða orðaútúrsnúning.
Og það er fjórða grunnreglan í rökræðunni, náðu tökum á ögrunum. Eitthvað sem Hómer kenndi þegar hann sagði frá því hvernig Akkilles náði að ögra Hektor, helsta bardagamanni Trjójumanna þannig að Hektor mætti honum í einvígi, sem átti ekki minnsta möguleika að vinna. Hektor vissi það og hafði því alltaf forðast bein átök við Akkiles, en Akkiles vissi að ef honum tækist að ögra honum nógu mikið, þá færi hann úr orðum í rök.
Ef þú hefur rétt fyrir þér Helgi, þá er sigurinn þinn, þú peistar bara rök þín á móti orðum þess sem þú hefur málað út í horn.
Og bein tilvitnun í evrópska lagtextann var okkar straumhvörf, síðan rákum við bara flóttann. Í smá tíma héngu ICEsave sinnar á orðaútúrsnúning, nýttu sér það að í germönskum málum er hægt að snúa út úr skilyrðingu, en Loftur Altice tók þá lagtextann á rómönskum málum, en latínan er miklu rökréttara mál, og afhjúpaði þá hundalógík, að Not þýddi ekki Not.
Sem kemur aftur að því að hafa rökin á hreinu og fylgja þeim eftir í botn. Og orð eru ekki rök, þeim er hægt að stjórna, ef svo væri þá væru allir með 10 á prófum. Vígamenn ICEsave sinna enduðu í öruggu skjóli jábræðra sinna þar sem trú en ekki rök réði skoðunum manna. Þegar þeir létu sjá sig í almennri umræðu voru þeir strax hraktir á flótta, þeirra eina vopn voru skæruliðaárásir, koma með innslög, en gerðu ekki tilraun til að verja þau.
Og fyrst að ég er byrjaður að uppfræða þig þá ætla ég að fara aðeins nánar út í nokkur tilbrigði rökræðunnar, annars vegar gildruna sem þú þarft að varast, sem og hvernig þú undirbyggir rökfærslu þína.
Um það fjallar næsta innslag mitt.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 6.1.2014 kl. 08:52
Víkjum fyrst að því hvernig menn verja vafasaman málstað.
Lykilatriðið er að láta ekki hanga sig á staðleysum, eða fullyrðingum sem þú getur ekki staðið við. Það sem þú segir, verðurðu að geta rökstutt, þín duga ekki ef þau ganga gegn þekktum staðreyndum.
Í ICEsave deilunni var mikill munur á rökfærslunni, ég tel að við eigum að borga vegna þess að það er fjárhagslega hagstætt til lengri tíma, eða vegna þess að ég tel að það sé siðferðileg skylda þjóðarinnar vegna einhvers, og þeirri rökfærslu að þjóðin eigi að borga vegna lagalegrar skyldu EES samningsins.
Sú fyrri er sjónarmið, og um sjónarmið er tekist á, og þú eyðileggur aðeins rökfærslu þína ef þú ferð augljóslega rangt með staðreyndir, eða þú fullyrðir eitthvað sem þú getur ekki fært rök fyrir.
Gæfa okkar ICEsave andstæðinga var hroki ICEsave sinna, þeir fullyrtu strax að okkur bæri lagaskylda til að greiða, og þannig máluðu þeir sig út í horn. Þeir sem tóku málefnalega afstöðu í þeirra hópi, án allra rangfærsla, urðu undir, sem betur fer, því það var miklu erfiðara að eiga við þá.
Ég man eftir einum ICEsave sinna, Einari Karli sem fór einu sinni ýtarlega yfir ICEsave málið, færði rök fyrir því sjónarmiði að þjóðin ætti að semja, og hann skoraði á okkur andstæðingana að koma með gagnrök í málinu, ef hann hefði rangt fyrir sér, að sýna þá fram á það. Ég man að ég mætti og áður en ég las greinargerð hans, þá tók ég þá vígstöðu að yrði nú ekki mikið mál að afhjúpa rangar grunnforsendur sem rökleiðslan byggði á. Og ég var rétt hálfnaður þegar ég tók það fram, að mér hefði skjátlast, Einar fór ekki með rangt mál varðandi staðreyndir, og hann hélt rökleiðslu sinni út í gegn án staðleysa eða fullyrðinga sem hann gat ekki staðið við.
Með öðrum orðum, okkar greindi á um nokkur grundvallarsjónarmið, en hvorugur gat hankað hinn á rangfærslum svo við skildum sáttir við að vera ósammála.
Einar játaði svo að hann hefði haft rangt fyrir sér þegar dómur féll, hann reifst ekki við rök. Af hverju, jú ein lykilforsenda hans var að dómur gæti fallið gegn okkur.
En fram að því gat hann staðið við sjónarmið sín, hann féll aldrei í þekktustu gildru rökfærslunnar, að nota staðleysu, eða fara rangt með staðreyndir, til að verja málstað sinn. Jafnvel þó þú sért að verja það sem rétt er, en verður það á að falla í þessa gildru, þá ertu búinn að eyðileggja rökleiðslu þína í rökræðu.Og ert tapari í augun annarra.
Önnur gildra, mun lúmskari, sem eyðileggur líka rökleiðslu, er að fullyrða eitthvað sem þú getur ekki rökstutt með tilvísun á annað en þín eigin orð.
Dæmi um þetta er sú fullyrðing þín hér að ofan að "Verðbólga rýrir kaupmátt almennings", maður lætur ekki svona út úr sér án þess að vera tilbúinn að rökstyðja hana með dæmum ef þess þarf. Það er ákaflega auðvelt að peista hagvöxt og kaupmáttaraukningu í verðbólguríkjum eins og Íslandi, eða sýna stöðugan lífskjarabata í Evrópu á eftirstríðsárunum, þrátt fyrir stöðuga verðbólgu, jafnframt er mjög auðvelt að sýna fram á hnignun hagkerfa í ESB eftir fjármálahrunið en þar er barist gegn verðbólgu með áherslum á jafnvægi í ríkisfjármálum og stöðugu gengi.
Þú ert ekki alltaf að ræða málin í löngum þræði sem enginn annar les, ef þú værir staddur í orrahríð vígvalla bloggheimsins, þá ertu strax afgreiddur ef þú getur ekki fylgt svona fullyrðingu eftir. Það er að segja að ef þú gerir meiri kröfu til málflutnings þíns en þær að það nægi að þú vitir hið rétta, en þú getir ekki sannfært nokkurn annan um málflutning þinn.
Og ég reikna með að þú hafir meiri metnað en þann en að vera Jón Frímann bloggheimsins. Maðurinn sem allir gera grín að.
Einar Karl féll ekki í þessa gryfju taparans, hann fullyrti ekki það sem hann gat ekki staðið við. Það er að segja, ekki í þessari rökfærslu.
Þá þjónaði engum tilgangi að skylmast við hann, og eftir það tókumst við bara á um sjónarmið, og höfðum báðir gaman að.
Og þá er komið að því hvernig maður undirbyggir rökfærslu sína, þegar maður tekst á við viðteknar skoðanir.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 6.1.2014 kl. 09:37
Hvernig ögrar þú umræðunni, ræðst til dæmis gegn hinu viðtekna og kemst upp með það?? Það er meira en að segja það.
Þú þarft að segja þér markmið, þú þarft að vita hvað þú ert að gera, og þú þarft að undirbyggja það.
Þegar ég tók til varnar í ICEsave deilunni þá setti ég mér eitt markmið, fyrir utan að vinna deiluna, og það var að sjá til þess að öllum væri ljóst að um glæpsamlegt athæfi væri að ræða, og það yrði að láta glæpahyskið sæta ábyrgð. Aðeins því síðastnefnda er ólokið, sem skýrir að ég held þessari bloggsíðu minni opinni, hún er tilbúin þegar aðstæður breytast.
Það er ofsalega auðvelt að hrópa "landráð", "fjárkúgun", en það er öllu erfiðara að gera það á þann hátt að fólk haldi áfram að lesa, hvað þá að aðrir sem hógværari eru í umræðunni, taki upp svipaðar skilgreiningar í umræðunni.
Fyrsta skrefið var að byggja upp lestur, og ég lærði fljótt að að ef ég fór fram úr mér, þá droppuðu IP tölurnar niður, meir um helming til dæmis þegar ég sagði eitthvað misjafnt um Steingrím.
Tímasetningin skipti öllu, vera inní hringiðu umræðunnar, og hafa styrkinn til að fylgja málinu eftir. Hafa gagnrökin á hreinu, og hafa styrkinn til að mæta þeim sem afgreiddu strax svona umræðu sem kverúlantaspeklúsjónir sem ekkert skynsamt fólk læsi, hvað þá tæki undir. En féllu í þá gryfju að mæta á svæðið til að segja mér að þeir læsu ekki svona pistla. Og þar með gefa mér öll sóknarfæri heims ef ég hafði rökin mín meginn.
Spurningin var að ögra á þann hátt að fólk gæti ekki þagað. Og væri svo reitt, að það héldi áfram að lesa pistla mína, síleitandi að höggstað til að hefna fyrri harma.
Ég lét orðið landráð koma fyrir hér og þar í pistlum sem voru hefðbundnir að öðru leiti, og fólk gat almennt tekið undir, eða vera á móti, án þess að hneykslast um of. Svo lét ég skotið vaða, Orðið landráð kom fyrir í pistlinum, færði fyrir því almenn rök, svona líkt og þú ert duglegur við Helgi, en lét rökstuðninginn bíða. Að sjálfsögðu mættu nokkrir inn til að tjá mér vanþóknun sína og hneykslun, ég þessi mæti málefnalegi maður hefði gjaldfellt mig eða núna hefði algjöri asninn endanlega skrifað sig út úr umræðunni. Og svo framvegis.
En ég beið með rökstuðninginn, sagði aðeins að það væri ekki mér að kenna að þau Jóhanna og Steingrímur hefðu framið landráð.
Þar til að heimspekingur nokkur, þekktur fyrir málefnalega umræðu, mætti inn og sagðist skilja rök mín, en af hverju fullyrti ég að þetta væri landráð??
Þar með var tímasetningin komin, ég benti honum á að það væri ekki mér að kenna þó ég segði mann vera þjóf ef hann stæli úr búð, verknaður hans væri skilgreindur sem þjófnaður i hegningarlögunum, og ég peistaði þá grein. Og eins gæti ég ekki gert neitt að því að það athæfi sem ég hefði lýst í pistli mínum væri landráð, ég hefði ekki samið þau ákvæði hegningarlaganna þar sem þessu athæfi væri lýst sem landráðum, og svo peistaði ég loks lögin. Og heimspekingurinn varð að játa að þetta væri rétt orðanotkun.
Það sama gerði ég þegar ég talaði fyrst um glæpsamlegt athæfi, þegar á mig var ráðist, þá var ég tilbúinn með lagatexta, um fjarkúgun. Þar sem hann var ekki nógu skýr á íslensku, þá sótti ég hann í enska lagasafnið, þar sem fjárkúgun var nákvæmlega lýst.
Og bað svo fólk að rífast við lagatextann, en ekki við mig, og ef það sæi málsbætur, þá gæti það sagt dómaranum frá því þegar þar að kæmi.
Þegar seinni ICEsave samningurinn fór í þjóðaratkvæði, þá var þessi orðanotkun mjög algeng í umræðunni, hafði áður aðeins verið á jaðrinum þar sem enginn las.
Undirbúningurinn, vera tilbúinn, það er lykilatriðið, ég myndi til dæmis í þínum sporum ekki slá því fram að ríkið skapi ekki verðmæti, ef þú notar síðan rök sem afsanna fullyrðingu þína. Vestræn ríki með stóran ríkisgeira, eru í toppsætum lífskjaralista heimsins, og hafa verið það í áratugi. Skynsamlegra hefði verið að reyna að keyra á löndum eins og Singapúr og Hong Kong, jafnvel Nýja Sjálandi, og treysta á þekkingarleysi þeirra sem þú ræður við.
Það þarf meir en kjark til að ráðast á hið viðtekna, það þarf líka rök og kunna að verja þau, annars er betur heima setið.
Loks á ég eftir eitt innslag um hvernig rök mæta rökum.
Á meðan er það kveðjan.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 6.1.2014 kl. 10:13
Ég veit það Helgi, að þú veist það að þú gafst upp hérna að ofan, það er erfitt að lesa töflu þar sem Keyníska hagskeiðið er með mestan samfelldan hagvöxt í sögu Bandaríkjanna og lýsa því síðan sem einhverjum hörmungum. Ég ætla reyndar að taka það fram að það hvarflar ekki að mér að það sé Keynismanum sem slíkum að þakka, aðrir kraftar eru þar að verki.
En það er lífsins ómögulegt að halda því fram að peningaprentunin sem í fyrsta lagi var notuð til að koma Bandaríkjunum út úr kreppunni, í öðru lagi til að fjármagna stríð Vesturveldanna, í þriðja lagi til að fjármagna uppbyggingu Vestur Evrópu og í fjórða lagi til að endurreisa heimshagkerfin að hún væri þess eðlis að hún drægi úr lífskjörum vegna verðbólgu eða skuldasöfnunar samkvæmt lógíkinni að peningaprentun væri skuld sem þyrfti að borga til baka, hvað þá að hún stæli kaupmætti almennings.
Línuritið í athugasemd 47 afsannar það. Og það er ekki hægt að pesta öðru línurit sem sýnir eitthvað annað.
Þú hefðir getað reynt að finna flöt þar sem þú segðir þetta heildarvöxt, en vegna verðbólgunnar, eða skuldasöfnunarinnar, þá hefði lífskjör sem slík verið léleg, svipuð rökleiðsla og marxískir hagfræðingar notuðu til að koma gráma Sovétsins yfir á Þýskaland nasismans. En ég held að þú hafir áttað þig á því að þá hefði ég bara dundað mig við að peista til þín töflur um kaupmátt, aukningu á neysluvörum og svo framvegis.
Og þar með áttirðu að hafa vit á að þegja, og það var það sem ég reiknaði með, þekki minn mann orðið. Þess vegna útbjó ég dæmisöguna mína um unga kommann, ég ögraði þér til að halda áfram, samanber þriðju regluna. Og það er ekki hægt að segja að þú hafir valdið mér vonbrigðum.
Þú hefur líka gott af þessu, ég hef tekið eftir því að þér hefur farið mikið fram frá ég varð fyrst var við þig hér í bloggheimum. Gerir færri mistök, ert beinskeyttari.
Ég ætla því að taka nokkur dæmi um umræðu þar sem rök takast á. Rök í þeirri merkingunni að þú getur vísað í heimild máli þínu til stuðnings. Fer á handahlaupum en þetta er samt ekki afgreitt í fáum orðum.
Sjónarmiðum um lagaskyldu ríkissjóða að taka á sig peningaprentun sem skuld, hefur verið haldið fram í umræðunni sem skýring þess að gríski ríkiskassinn var skuldfærður fyrir aðstoð Evrópska Seðlabankans við gríska banka. Og örugglega stóð eitthvað um það í reglugerð Evrópska seðlabankans. Rökin að annað ýtti undir verðbólgu, þynnti út evruna og svo framvegis.
Þegar að stærri upphæðir voru í húfi, það er sjálft bankakerfi kjarnalandanna, Frakklands og Þýskaland, þá voru gífurlegir fjármunir prentaðir, afhentir bönkunum beint, án þess að ríkissjóðir væru skuldfærðir. Og það skipti engu máli þó þetta væri brot á ótal reglugerðum. Evrusinnar hömruðu á þessum rökum þegar maður hamraði á meðferðinni á Grikkjum, það væri ekki hægt að búa til peninga úr engu, að ef þeir væru prentaði, þá yrði að skuldfæra þá.
Þeir segja annað í dag, eða réttara sagt þeir þegja í dag, þeir geta ekki rifist við þann raunveruleika að evran var prentuð í margföldu magni miðað við grísku aðstoðina, ekkert var skuldfært á ríkissjóði, og það sem verra var, engin verðbólga fór að stað. Það er verðhjöðnun í Evrópusambandinu.
Lendir þú í debati við evrusinna um þetta þá peistar þú fréttirnar um bankabjörgun Evrópska seðlabankans, og spyrð hann af hverju það var ekki hægt að gera slíkt hið sama fyrir Grikki. Svari hann þér að það hafi verið gert því peningar geti ekki orðið til úr neinu, einhver þurfi að skulda þá, þá peistar þú til hans þessum link um peningastjórnun,
Ómar Geirsson, 6.1.2014 kl. 11:21
Blessaður Helgi.
Þá er það athugasemdir um athugasemdir í tveimur innslögum.
Fyrst skal taka staðhæfinguna um að Keynísk örvun hafi verið beitt til að fjármagna uppbyggingu Þýskalands úr rústum kreppunnar, uppbygging sem var einstæð hjá vestrænum löndum, en átti sér samsvörun í Sovétríkjunum.
Þessi keyníska örvun er staðreynd, þýska ríkið fjármagnaði hana með halla á fjárlögum (sem er Keynísk örvun, peningaleg örvun er þegar peningamagn í umferð er aukið), án þess að verðlag fór úr böndunum, og án þess að safna skuldum í öðrum hagkerfum. Þú komst mér á óvart með marxískri nálgun þar sem mannlíf og efnahagslíf í Þýskalandi á þessum árum var litað gráum tónum, sem var einfaldlega ekki rétt.
Og þar sem heimild þín var Wikipedía, þurfti ég að koma með aðra heimild sem er viðurkennt sagnfræðirit, ásamt því að fylla upp myndina með öðrum heimildum.
Þetta segir þú í athugasemdum þínum;
Þessi einföldu staðreyndir eru marxísk því hlutirnir eru slitnir úr samhengi í þágu stjórnmálaskoðana þeirra sagnfræðinga sem settu hlutina svona upp. Þeir eru slitnir út frá raunveruleika þess tíma sem var kreppa um allan heim, svona svipað og þeir segja að upplýstu kóngar upplýsingaraldarinnar eins og Friðrik mikli hafi ekki verið upplýstir því þeir gerðu hitt og þetta sem er ekki neitt sérlega upplýst, en gleyma að geta þess að svona var tíðarandinn en hins vegar gerðu þeir ýmislegt sem aðrir gerðu ekki, og þess vegna eru þeir kenndir við upplýsingu. Eða þegar femínískir sagnfræðingar gagnrýna gjörðir fortíðar út frá femínískum sjónarmiðum, á tímum þar sem enginn vissi hvað femínismi er.
Keyníksa nálgunin, það er halli á fjárlögum sem fjármagnaði uppbyggingu efnahagslífsins er staðreynd, alveg óháð því hvort stríðsiðnaðurinn dafnaði á kostnað almennrar neyslu, og þjóðarframleiðslan jókst um 8-10% árlega óháð því hvort fólk stóð í biðröð eða ekki, en það er ekki hægt að láta kommúnista komast upp með falsanir sínar, og þar sem þessi þráður er minnisbanki þekkingar fyrir mig, og tilvísun ef ég þarf að vísa í þessi þekkingarbrot, þá ákvað ég að svara þessu ítarlega.
Það eina sem viðkemur umræðu okkar er hin meinta skuld, ég hef aldrei borið á móti skuldaaukningunni, það er í eðli fjárlagahalla að hann er skuldsettur, en málið er hvort hann er fjármagnaður með erlendri skuldasöfnun, eða innlendri, og þá hvort hann sé fjármagnaður með skuldum sem hverfa með útþenslu efnahagslífsins, eða eru látnar hverfa með stjórnvaldákvörðun, eða hvort hann sé fjármagnaður með lántöku sem greidd er til baka af rauntekjum ríkisins.
Skuldasöfnunin var innlend, ekki erlend, og ég vitnaði í heimildir þar um.
Hún jók ekki verðbólguna, dró ekki fé úr efnahagslífinu, og þó stríðið hefði ekki hafist, þá höfðu þýsk stjórnvöld alla burði til að takast á við hana, í versta falli hefðu þau hankerað hana eins og þau hankeruðu gyðingana.
Erlend skuldasöfnun er hins vegar allt annars eðlis og dæmi um hana er lántaka Austur Evrópuríkja í lok sjöunda áratugarins og í upphafi þess áttunda, hún skilaði ekki tilætlaðri arðsemi, og varð til þess að þau lentu í greiðsluerfiðleikum.
Sem aftur dró úr hagvexti, og þar með lentu þau í vítahring.
Ég geri mér alveg grein fyrir því Helgi að þú veist ekki hvað Keynísk örvun er, og þú áttar þig ekki á hver er munurinn á erlendri og innlendri skuldasöfnun, hvað þá að þú vitir að greinarmunur er gerður á fjármögnun fjárlagahalla með lántökum í hagkerfinu eða lántökum í Seðlabanka, svo það er alveg tilgangslaust að segja þér þetta, en vegna þess að þetta er gagnabanki, þá þarf þetta að koma fram.
Eins er það varðandi kreppuna miklu, þú ert fastur í skuldasöfnuninni sem átti sér stað í upphafi kreppunnar, og vitnar þá í skuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Það er eins og þú áttir þig ekki á hvað felst í þessari lýsingu sem ég tók uppúr sögubók AB.
Ég hefði svo sem getað bætt við að skatttekjur fóru úr rúmum 2 milljörðum dollara, niður í tæpan milljarð.
Þegar þjóðarframleiðsla fellur um tæpan helming, og skatttekjur minnka um rúman helming, þá snaraukast skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu,þó ekkert sé bætt við skuldasúpuna. Það er það sem gerðist í upphafi kreppunnar, og síðan hélt það skuldahlutfall nokkurn veginn stöðugt.
Skuldirnar jukust ekki svona mikið vegna aukinna ríkisútgjalda, þau aukast sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, en það er vegna þess að þjóðarframleiðslan dróst svona mikið saman.
Ef þú skoðar myndin yfir helstu útgjaldaliði, þá sérðu að aukningin var aðallega í útgjöldum til velferðarmála, og það var til að hindra að atvinnulausir syltu í hel.
Hvernig átti að skera niður þau útgjöld Helgi??, aðeins illmenni gera slíkt, og þau réðu ekki í Bandaríkjunum, hvorki þá eða seinna. Þetta var kristið fólk, siðað fólk, það reynir að hjálpa, og miðað við þá takmörkuðu fjármuni sem var í boði, þá gerði það sitt besta.
Það var vissulega hægt að skera niður herinn, en sem betur fer fyrir heimsbyggðina, var það ekki gert, hinn frjálsi heimur hefði tapað seinna stríðinu ef það hefði verið raunin.
Það var líka hægt að skera niður menntamálin, en það er eins og að éta útsæðið.
Það er útópía að tala um niðurskurð við þessar aðstæður, það var ekkert afl til þess.
Og rökin sem þú notar Helgi til þess eru röng, það var ekkert skorið niður 1921, ríkisútgjöldin voru hærri eftir stríð en fyrir, þróun sem var reyndar um allan heim, og um það er ekki hægt að deila. Raunniðurskurður er aðeins þegar útgjöldin eru lægri en þau voru fyrir stríðsátökin
Eftir stendur eitt stórt gagnrýnisatriði, sem ekki nokkur maður deilir um í dag, ekki einu sinni þeir sem endurtaka sömu heimskuna, að það var rangt að hækka skatta. Það jók vandann, og enginn reynir að verja það í ljósi reynslunnar.
Hvort skattalækkun hefði virkað, má deila um, í mínum huga er það ekki spurning að svo hefði verið, hún er jákvæð örvun og menn eiga hiklaust að beita henni þegar hagkerfi er á heljarþröm, en á meðan hún skilar sér, að að fjármagna hallann á þann hátt að hann taki ekki fjármagn úr hagkerfinu.
Skuldabréfaútgáfa til fjárfesta er til dæmis leið til þess, bein fjármögnun Seðlabanka er önnur, aðalatriði er að jákvæð áhrif skattalækkunarinnar séu ekki þurrkuð út með niðurskurði.
Og áður en þú byrjar á enn einu skuldatuði að þá hefur skuldaaukning sem fellur ekki á gjalddaga fyrr en eftir ákveðinn tíma, til dæmis langtímaskuldabréf, engin áhrif á nústöðu hagkerfis.
Áhrifin verða ekki fyrr en fjármunir eru teknir út úr hagkerfinu vegna þeirra. Þú kallar slíkt að skuldsetja framtíð barna okkar, en ertu svo grænn að halda að það sé einhver framtíð hjá börnum sem fá ekki að borða vegna þess að fyrirvinnan er atvinnulaus, fá ekki menntun vegna þess að skólar eru lokaðir, fá ekki læknisþjónustu vegna þess að foreldrarnir höfðu ekki efni á því??
Stærsti hluti bandarísku þjóðarinnar var undir fátækramörkum á þessum tíma, börnin áttu enga framtíð, skuldasöfnun í tilbúnum peningum í Seðlabanka til að koma hjólum atvinnulífsins aftur á stað, svo fólk fái vinnu, börnin fái næringu og menntun, er fullkomlega réttlætanleg, þó hún hugsanlega dragi úr einhverri neyslu í framtíðinni.
Börnin sem sultu í kreppunni miklu, eru flest komin á elliár, eða gengin á vit feðra sinna, samdrátturinn vegna skuldaaukningar kreppuáranna er hins vegar ekki ennþá kominn fram.
Síðan er það rugl að skuldasöfnunin vegna framkvæmda og velferðarinnar hafi dýpkað kreppuna, framlengt hana, því þegar skuldasöfnunin jókst loksins í rauntölum, svo einhverju næmi, þá endaði kreppan mikla.
Það er ekki hægt að komast í meiri mótsögn við staðreyndir en þú gerir Helgi, og þó þér tókst það í umfjöllun þinni um New Deal.
Og þar með er komið að seinni hluta umfjöllunar minnar um athugasemdir þínar.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 6.1.2014 kl. 17:50
Þetta eru rökin þín fyrir því Helgi að New Deal hafi ekki heppnast.
Hvað ertu að segja með þessu??,. kanntu ekki að lesa tölur um þjóðarframleiðslu??, kanntu ekki að lesa línurit um atvinnuleysi???
Hvað lestu út úr þess grafi hérna um atvinnuleysi??
Er ekki atvinnuleysið að minnka í kjölfar New Deal???
Eykst það ekki svo aftur í kjölfar þess sem líst er hér að ofan í Sögu Mannkyns;
Þetta var vegna sömu hagstjórnar og magnaði upp kreppuna á sínum tíma, það er það fór saman niðurskurður, skattahækkanir og það var klippt á peningamagn í umferð.
Það má sjá það síðastnefnda á þessari mynd;
Sömu hagstjórnarmistökin og voru gerð á árunum 1930 til 1931. Sem reyndar réttlætir það að þú skulir hafa spyrt þá saman Hoover og Roosevelt, þeir voru aldir upp í sömu hugmyndafræðinni, klassískri hagfræði sem lagði áherslu á jafnvægi í ríkisfjármálum.
En sá sem kennir New Deal um þennan samdrátt, hann er annað að tveggja, að ljúga eða lætur mata sig á lygi.
Roosevelt sá að sér enda ný risakreppa í uppsiglingu, og þá gerðist það sem lýst er í Sögu mannkyns hér að ofan;
Þetta er hlutlaus texti yfir það sem gerðist, og að sjálfsögðu styðst hann við hagtölur. Ég peistaði mynd um GDP hér að ofan, kannski var hún of smá, ég trúi allavega ekki að þú kunnir ekki að lesa svona línurit. Þess vegna reyni ég núna að peista hana í stærri upplausn;
Hvað er svo flókið við að lesa að efnahagurinn tók strax við sér í kjölfar New Deal, hvað eiga svona rangtúlkanir að þýða Helgi??
Ég peisaði til þín gögnum svo þú hættir þessu bulli, sæir að þú væri að láta mata þig á röngum upplýsingum.
Menn rífast ekki við gröf, menn rífast ekki við tölulegar staðreyndir.
En kannski var þetta ekki það lægsta af lágu í rökleiðslunni þegar þú afneitaðir batanum vegna New Deal.
Líklegast er þetta botninn;
Gerir þú þér ekki grein fyrir að Kimberly og Ben Bernanke er að vitna í rannsóknir Miltons Friedmans og Önnu Schwartz, rannsóknir sem Friedman fékk svo Nóbelinn fyrir. Jafnvel hörðustu andstæðingar Friedmans úr röðum keynista eða sósíalista draga ekki þessar rannsóknir í efa.
Samt þykist þú geta gert það Helgi án nokkurs rökstuðnings!!
Rökin um aukningu peningamagns í umferð á áratugnum fyrir kreppu, eru ekki rök í þessu samhengi. Svona fyrir utan að þessi aukning peningamagns helst í hendur við hagvöxtinn á þessum árum og það sem var umfram hann, var til að hindra að dollarinn styrktist of mikið, að þá er verið að ræða hvað gerðist í aðdraganda kreppunnar, og eftir að hún hófst.
Svona rökstuðningur er jafn fáránlegur eins og að segja að þjóðarframleiðslan hefði ekki dregist saman eftir að kreppan skall á því hún hefði aukist um 50% á árunum 1921-1929.
Línuritið hérna að ofan um samband peningamagnsins og sveiflur í GDP, sýnir þetta svart á hvítu, en ég átti ekki að þurfa að peista það, maður þykist ekki vita betur um tölfræði nóbela en þeir sjálfir, ekki nema að maður hafi um það haldbær gögn.
Bara að láta detta sér þetta í hug Helgi, það er ekki útskýranlegt.
Austurríska hagfræðin rífst ekki um þessa tölfræði Friedmans, ekki frekar en aðrir hagfræðiskólar, hún bendir aðeins á að kreppan hefði átt að hafa sinn gang.
Það er allt annað sjónarmið, skaðlegt segir Friedman og nær að sameina Keynista og Marxista að baki sér, en það getur enginn sannað neitt, því það var ekki gert.
En að afneita tölulegum staðreyndum dettur engum í hug, nema að þér tókst það Helgi.
Það heitir ekki að mála sig út í horn í rökræðum, það heitir að taka ekki þátt í rökræðum.
Sem er ekki rétt lýsing á málflutningi þínum, þú reynir einmitt að rökræða, en þú þarft að læra að hætta að rífast við staðreyndir, og kynna þér málin, þegar þú finnur að þú skilur ekki hagfræðileg hugtök, eða átt ekki svör sem þú getur ekki rökstutt með tilvísun í ytri heimildir.
Það eru ekki öll svör rétt á prófum, aðeins rétt svör eru rétt á prófum, það er þegar próf mæla staðreyndir og þekktar kenningar.
Hafðu það hugfast í framhaldinu, þú getur miklu betur en þetta.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.1.2014 kl. 23:12
@55:
Ég nenni ekki að rífast við þig um þetta Ómar enda er það eins og tala við vegg.
Þú lítur algerlega framhjá allri þessari skuldasúpu sem varð til og lætur eins og hún skipti ekki máli. Skiptir núverandi skuldasúpa hins opinbera hérlendis, rúmir 2000 milljarðar, engu máli? Skuldasúpan fyrir vestan haf er samt öllu alvarlegri og mun fljótlega leiða til hruns þrátt fyrir örvunaraðgerðir Seðlabankans fyrir vestan. Þetta þarf að borga til baka hvort sem þú áttar þig á því eða ekki.
Þegar þú kemst í mótsögn við sjálfan þig og telur þá að þú getir haldið áfram að rökræða um efni! Þá er rökræðum lokið hjá öllum - nema þér!! Ég er búinn að taka í sundur stein fyrir stein það sem þú segir.
Svo bíð ég spenntur að sjá hvernig þú greinir komandi hrun (eftir að það verður) - vilt þá sjálfsagt meiri keynsiska örvun. Keynsíska örvunin þín verður beinlínis örsök komandi hruns.
Svo snýrð þú öllu á hvolf þegar þú sakar mig um að afneita tölulegum staðreyndum!! Þegar þú horfir á þetta graf þitt í upphafi athugasemdar þinnar sérð þú frábæran árangur New Deal. Hvernig er það hægt? Mönnum ber ekki saman um það hvers vegna kreppunni miklu lauk en bersýnilegt er að það er ekki New Deal að þakka og sýnir þetta graf þitt það greinilega. Svo verður þú að átta þig á því að New Deal byrjaði áður en Roosevelt tók við völdum - það er hins vegar ekki tekið fram í þínum sögubókum.
Þegar ég segi að Kimberly Amadeo hafi rangt fyrir sér er hún sennilega að tala um aðeins annað tímabil en ég - hún er að öllum líkindum að tala um 1929-1932 - (þú tiltekur það hvergi), ég kannast alveg við þessi rök Friedman. Friedman notaði þessi rök að verulegu leyti til að sýna fram á gagnsleysi Seðlabanka en hann var á móti tilvist þeirra enda hlutverk þeirra að vera lánveitandi til þrautavara. Samt fóru þúsundir banka á hausinn þó hlutverk Seðlabankans væri að verja þá falli. Svo var Bernanke ekki lærisveinn Friedman - Bernanke er keynsisti en Friedman tilheyrir hinum svokallaða Chicago-skóla. Hér er enn eitt vindhöggið hjá þér.
Textinn sem þú vitnar í að ofan er ekki hlutlaus texti - hann lítur algerlega framhjá ýmsum mikilvægum atriðum. Hann er líka glöggt merki persónudýrkunar - menn snúa alltaf blinda auganu að öllu sem aflaga fór hjá Roosevelt í stað þess að horfa hlutlægt á hans feril. Sagnfræðingar eru farnir að taka eftir þessu.
Ég hef lesið tvær mjög góðar bækur um kreppuna miklu sem fara mjög vel í það sem gerðist áður en hrunið varð og hvað gert var á 4. áratugnum. Grunnristar sögubækur fyrir almenning fara augljóslega ekki í þau atriði sem skipta máli - og sést það greinilega á málflutningi þínum.
Helgi (IP-tala skráð) 10.1.2014 kl. 05:15
Blessaður Helgi:
Það er gott að þú sért hættur að rífast við veggi, þá er þessari löngu ritdeilu okkar lokið, hvað mig varðar þá hafði ég ánægju af henni, og hún varð mér hvati til að afla mér þekkingar um rökin að baki trúboði nýfrjálshyggjunnar. Það er ekki þannig að ismar vísi ekki í einhvern raunveruleika, þeir verða ismar við það að skrumskæla raunveruleikann og þvingan inní fyrirfram ákveðinn hugmyndaheim sinn. Og kosturinn við rökleiðslu þeirra, að gefa sér fullyrðingu sem staðreynd (marxisminn gaf sér að vinnan væri forsenda verðmætasköpunar) og tala sífellt í hringi útfrá þeirri fullyrðingu þannig að rökin fyrir fullyrðingunni, er fullyrðingin sjálf, er sá að þegar glímt er við slíka hringavitleysu, að þá getur þekkingaröflun teygt sig um svo vítt svið þar sem ismar svara alltaf staðreynd með nýrri staðleysu.
Ekki það að ég ætli að þú skiljir orð af því sem ég segi hér að ofan, en þeir sem hafa glímt við marxíska rökræðu þekkja tilvísanir mínar. En á þessum tímapunkti hefði ég aldrei nennt að lesa mér til um austurríska skólann eða monartorismann nema vegna þess gersemi sem þú ert Helgi minn. Og síðan er ég þakklátur fyrir það að þú leiddir mig inná slóðir hinnar tæru illsku sem knýr trúboðið áfram með fjárframlögum sínum, það er langt síðan ég gerði mér grein fyrir henni á siðferðislegum og trúarlegum forsendum, en aldrei gert úr því að nálgast hana á hagfræðilegum forsendum fyrr en ég fór að kafa dýpra í ritsmíð Thomas Woods.
Gjöf skal gjalda og ég ætla því að lokum að leiðrétta verstu ambögur þínar hér að ofan, því miður fyrir þig Helgi ert þú ekki alltaf í vernduðu umhverfi eins og á þessari bloggsíðu. Fólk sem fer rangt með staðreyndir, gerir sig bert að því að skilja ekki einföldustu hugtök sem það notar, eða setur hlutina í rangt orsakasamhengi, það fer alltaf illa út úr rökræðum, það er gert grín að vanþekkingu þess eða hreinlega afgreitt sem vitleysingar sem ekki er vert að eyða orðum að. Samt geta sjónarmið þess verið réttmæt, og það sem það vildi sagt hafa átt fullan rétt á sér. Svo dæmi sé tekin þá er gagnrýni þín á skuldsetningu almannasjóða fullkomlega réttmæt, hún er eitt form arðráns hinna ofurríku í Bandaríkjunum, er þar afleiðing af hægri popúlisma. Skiptir engu þó þú teljir hana afleiðing keynískra stjórnmálamanna sem hafa ekki sést á valdastólum í þrjá áratugi, gagnrýnin er réttmæt fyrir það.
Og hún á líka rétt á sér þegar hún beinist af sama lýðskrumi kratismans, sem hægt og rólega reyndi að kæfa öll efnahagsumsvif með ofurskattprósentum í bland við skuldsetningu opinbera geirans.
Þú þarft ekki Helgi að flækja þig meir í rökræðu þinni, þú hefur þetta aðeins bak við eyrað þegar þér finnst ganga illa á vígvellinum, að á þessum þræði hefur þú tilvísanir í þekktar staðreyndir og skilgreiningar, ásamt minni góðlátlegu kennslu í rökræðum.
Áður en þú lést vitleysuna hérna að ofan út úr þér, var ég búinn að benda þér á hvar þér varð á, og hvar þú gast leitað þér upplýsinga. Það gildir ennþá og ég ætla aðeins að tengja orð þín við þær athugasemdir og ef þú vilt ná meiri árangri, þá kynnir þú þér það í góðu tómi.
Það er ekki nóg að hafa lært að nota orðið mótsögn í rökræðu og afhjúpa síðan þekkingarskort sinn við að kalla eitthvað mótsögn sem maður getur ekki fært rök fyrir. Að segja einhverja vitleysu eru ekki rök, maður þarf að geta vísað í þekktar staðreyndir, og þá í heimildir ef þess er krafist, í þekkt orsakasamhengi, og þá heimildir ef þess er krafist, og maður þarf að vera tilbúinn að mæta mótrökum sem setja staðreyndir í annað samhengi en maður gerði sjálfur. Án þess að ég vilji vera leiðinlegur við þig Helgi, þá er eina röktilvísun þín í öllu þessu langa máli hér að ofan, að þú hafir lesið tvær bækur og þær segi sko annað en þekkt viðurkennd sagnfræðirit.
Og þú verður að kveikja á perunni með það Helgi, að þó þú skiljir ekki það sem við þig er sagt, að þá gera aðrir það sem þekkinguna hafa, og þeir sjá strax vankanta rökfærslu þinnar.
Þar sem við erum hættir að spjalla, þá tíni ég þetta til í rólegheitum, í nokkrum innslögum, og meiningin er að setja svo punktinn yfir i-ið um þjóðsöguna um Harding að því loknu.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 13.1.2014 kl. 16:47
Það var ekki að ástæðulausu sem ég sagði þér þetta Helgi, og þú hefðir aðeins átt að staldra við, og íhuga hvað ég var að reyna að segja þér. Þá hefðir þú ekki gert svona lítið úr sjálfum þér eins og þú gerðir hér að ofan þegar þú reyndir að afneita raunveruleikanum um New Deal.
Hvernig gat þér yfirsést að að New Deal er tímasett inná grafið, og eftir þriggja ára samdráttarskeið, þá tekur hagvöxturinn við sér og fer strax á fyrsta ári New Deal í tæp 10%, síðan rétt um 8%, árið þar á eftir í um 13%. Eftir kosningarnar 1936 er skorið niður á fjárlögum, og skattar hækkaðir, hvorutveggja jafn rangt, og snöggur samdráttur verður í hagkerfinu, niðursveifla uppá 18%. Sem líkur þegar aftur er gripið til örvunaraðgerða studdar af peningastefnu Seðlabankans. Þá fer rauða línan aftur uppá við, og næsti samdráttur verður ekki fyrr en seinna stríði líkur.
Nákvæmlega sömu sögu er hægt að lesa úr þessu grafi;
sem sýnir samband hagvaxtar og peningamagns í umferð.
Samt ertu að reyna halda einhverju öðru fram Helgi, án þess að hafa nokkuð annað til þín máls en þín eigin orð, órökstudd, enda finnirðu enga einustu fræðibók í hagfræði sem afneitar þessu sambandi, hagfræðingar rífast ekki um tölulegar staðreyndir, þeir rífast um túlkun þeirra, forsendur þeirra og svo framvegis.
Það er rétt að mönnum ber ekki sama um af hverju kreppunni lauk, en það er ekki vegna þess að þetta graf sýnir það, ef þú ert með undir höndum hagfræðibók sem afneitar samfellunni milli New Deal og raunverulegra talnagagna, þá er hún skrifuð að fræðilegum hálfvita, sem enginn tekur mark á.
Réttmætar spurningar eru hvort henni hefði lokið fyrr ef eitthvað annað hefði verið gert??,eða hefðu einhver önnur úrræði virkað betur???, slíkum spurningum velta menn upp, og njóta vafans að geta sagt eitthvað sem raunveruleikinn hefur ekki prófað.
Og sú umræða er alltaf til góðs, því menn eiga að efast, menn eiga að spyrja, menn eiga að gagnrýna.
En menn eiga ekki að rífast um staðreyndir, það er hægt að draga þær í efa með nýju gögnum, nýjum upplýsingum, og eins geta hinar nýju upplýsingar verið það afdráttarlausar, að þær fella hinar gömlu að stalli sem staðreyndir.
En raunveruleikinn rífst ekki um að aðgerðir Roosevelt virkuðu. Þær uppfylltu bæði skilyrði Keynismans;
Voru sem sagt bæði peningalegs eðlis eins og grafið hér að ofan um sínir, og þær voru efnahagslegar þar sem fjárlög voru umfram tekjur.
Og þær skiluðu mestum þekktum árangri bandarískrar hagsögu. Um það er heldur ekki deilt.
En eitt er að gera lítið úr sjálfum sér með því að rífast við tölfræðilegar staðreyndir en annað er að nota hælkróka til að bæta í þegar vondur grunur læðist að vitleysunni.
Hvernig gastu látið þetta út úr þér???;
Svona í ljósi þessara tilvitnunar minnar um Hoover;
Hér er lið fyrir lið rakinn aðdragandi New Deal, aðgerðir sem Hoover beitti sér fyrir, og skýrir af hverju New Deal skilaði strax árangri. Því það er sama hvað efnahagsaðgerðir eru öflugar, það tekur alltaf tíma fyrir þær að snúa samdráttarhjólinu við.
Og ástæða þess að ég peistaði þetta var að þú dróst þá saman í dilk Hoover og Roosevelt, og ég tók undir þá skoðun þína, þeir hefðu ekki verið svo ólíkir eftir allt saman. Rangar hagfræðikenningar urðu Hoover að falli, en Roosevelt þjáðist af sömu meinlokunni, og þó ég þekki ekki til þá efa ég ekki að ungir hagfræðingar úr röðum Rebúblikana hefðu líka kynnt sér keynískar kenningar og lagt þær til sem leiðir til lausnar. Og mér þætti líklegt að ef þessir tveir menn hefðu haft hlutverkaskipti, það er Roosevelt verið forseti í upphafi kreppunnar, þá hefði hann brugðist alveg við eins og Hoover gerði, og Hoover hefði síðan fylgt því eftir og fengið heiður sögunnar.
Það er ekkert svarthvítt til í sögunni, nema hjá þeim sem túlka hana eftir á út frá pólitískum trúarbrögðum, en af hverju ert þú að slá þennan varnagla að ég verði að átta mig á að New Deal á sinn aðdraganda, og um það sé ekki getið í mínum sögubókum??
Svona í ljósi þess að öll athugasemd 31 fjallar einmitt um þessi blæbrigði sögunnar??
Það eina sem mér dettur í hug er að þú hafir ruglast þegar ég peistaði texta úr Ritröð AB, Sögu mannkyns og þú hafir í fljótfærni þinni haldið að þetta væri það eina sem sagt væri um kreppuna.
Látum það vera en þú ræðst ekki að þekktu viðurkenndu sagnfræðiriti án þess að geta rökstutt það á nokkurn hátt annað en þann að sagnfræðibækur séu "Grunnristar sögubækur fyrir almenning fara augljóslega ekki í þau atriði sem skipta máli ", ekki nema að það sé einlægur ásetningur þinn að gera þig að fífli.
Sem ég vona ekki.
Sagnfræðibækur eru ekki fræðibækur um einstök atriði sögunnar, heldur segja þær frá helstu atburðum, og reyna að setja þá í rökrétt samhengi tíma og aðstæðna.
Þær þurfa bæði að fara rétt með staðreyndir, og þegar þær vísa í kenningar, þá þarf ítarleg heimildarskrá að liggja fyrir. Hver setning á sér heimild, og lesendur geta sannreynt þær.
Þessi ritröð Almenna bókafélagsins, sem var borgarlegt forlag, er mjög góð, hún er samnorrænt verkefni, og hefur staðist tímans tönn. Varðandi Kreppuna miklu þá tekur hún það fram að ástæður kreppunnar séu umdeildar, enda ekki sagnfræðibókar að útskýra hagfræðilegar deilur. En hún rekur atburðarrásina nokkuð vel, enda slíkt hægt í 16 binda sagnfræðiriti, en í lok hverrar bókar er tilvísanir í rit sem gefa ítarlegri mynd. Það er rétt að ekki er sagt mikið um Hoover, hvorki gott eða slæmt, en slíkt á sér þá eðlilegu skýringu að Roosevelt fékk heiðurinn að efnahagsbatanum, og hann varð síðan forsetinn sem leiddi Bandaríkin út í nýja heimsstyrjöld. En það er rugl að um einhverja persónudýrkun sé að ræða, vankantar stefnu hans eru rakin og það er ekki dregin fjöður yfir að hann bar ábyrgð á afturbatanum 1937-1938. Eins og kemur skýrt fram í textanum sem ég sló inn.
Og þetta var sagt um aðdraganda valdatöku Roosevelts.
Þetta er forsaga heimskunnar sem fékk Roosevelt til að skera niður og hækka skatta eftir kosningarnar 1936.
Og segir söguna eins og hún var, óháð persónum hennar og leikendum.
Því þetta er sagnfræði, en ekki pólitík.
Og menn ráðast ekki á viðurkennd sagnfræðirit án þess að geta heimilda um ambögur þeirra.
Sem þú gerðir ekki Helgi, heldur sagði þína persónulegu skoðun á bók og ritröð sem þú hefur aldrei lesið.
Slíkt gerir maður ekki.
Ekki ef maður ætlar að láta taka sig alvarlega.
En næsta ambaga er í næstu athugasemd.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 13.1.2014 kl. 20:44
Helgi, þú hefðir átt að lesa það sem þú sagðir fyrst um hana Kimberley okkar;
Þú ert að vísa í athugasemd 31 þar sem ég vísa í þessi orð Kimberly;
Og útskýri síðan frekar orð hennar með tilvísun í Milton Friedman;
Og hnykki á þeim með því að vísa í aðra grein eftir Kimberly þar sem hún hefur Bernanke sem heimildarmann, en hann aftur byggir mál sitt á rannsóknum Friedmans sem hann seinna fékk Nóbelinn fyrir því þær voru grunnurinn að peningamagnskenningu hans.
Hvar er þetta fólk að tala um áratuginn milli 1920 og 1930??, kenning Friedmans er að ef Seðlabankinn hefði ekki magnað upp kreppuna, þá hefði fallið á Wall Street aðeins leitt til venjulegs samdráttar, en ekki þeirrar djúpu kreppu sem varð.
Ég reikna með að þú hafir ekki kveikt á perunni í hvað Kimberley var að vísa þegar þú sagðir að hún "hefur algerlega rangt fyrir sig, peningamagn í umferð frá 1921-1930 jókst um 61,8%.", en þú fattar ekki að játa uppá þig þessi einföldu mistök.
Flækir þig aðeins meir í vanþekkingu þinni í stað þess að kynna þér málin, og bæta úr. Hélst líklegast að þú væri að rífast við Keynisma en fattar ekki að þessi sjónarmið eru öll monartorísk.
Og staðfestir það í þriðju ambögu þinni hér að ofan.
En á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 13.1.2014 kl. 21:14
Í athugasemd 54 sagði ég þér frá einfaldri staðreynd sem blasir við öllum þeim sem lesa rökfærslu þína. Rifjum upp þau orð;
Í stað þess að íhuga þau og reyna skilja pointið í þeim, þá ákvaðstu að sanna þessi orð mín svo ekki væri nokkur leið til að efast um þau.
Í þessari setningu hérna;
Og í þessari hérna;
Þú virðist bæði halda að peningalegar aðgerðir séu keynískar, sem og að þú hefur ekki hugmynd um að peningamagnskenning Friedmans það er Monetarismi felst í beinum afskiptum seðlabanka af peningamagni í umferð.
Samt peistaði ég á þig tilvísanir þar sem þú gast lesið þér til um keynisma og um monetarisma.
Eða þessa beina tilvitnun í umfjöllun Friedmans um Kreppuna miklu.
Hvernig Helgi sem þessi orð Friedmans eru túlkuð, þá er ekki hægt að túlka þau sem svo að hann hafi lagst gegn seðlabönkum, talið þá gagnslausa og að þeir ættu aðeins að vera lánveitendur til þrautavara.
Hann bendir einfaldlega á að þegar þeim er beitt rangt, þá valda þeir skaða, þegar þeim er beitt rétt, þá geta þeir komið í veg fyrir alvarlegar fjármálakreppur.
Og lagði þar með drög að því sem kallað er Monetarism á engilsaxneskri tungu; http://en.wikipedia.org/wiki/Monetarist.
Friedman er guðfaðir monatorismans og eins og segir hér að ofan þá snúast kenningar hans um að stilla efnahaginn af með því að stjórna peningamagni í umferð.
Ekki með því að gera ekki neitt, heldur með virkum inngripum sjálfstæðs seðlabanka sem bæði nýtir sér stjórntæki peningaprentunar og vaxtaákvarðana.
Monartorisminn á það sameiginlegt með Keynismanum að nýta sér miðstýrð stjórntæki til að jafna út efnahagssveiflur, en hann leggur grunnáhersluna á peningalegar aðgerðir, þó hann útiloki ekki fisical policy, en Keynisminn nálgast efnahagskreppur út frá inngripum ríkisvalds, þar sem ríkisvaldið örvar eftirspurn með ýmsum aðgerðum eins og skattalækkunum, ríkisútgjöld umfram tekjur, skattastýringu eins og að veita skattaafslátt vegna fjárfestinga og svo framvegis.
Monatoristar hafa stjórnað seðlabönkum Vesturlanda frá því uppúr 1980 eins og kemur fram í greininni á Wikipedíu.
Alan Greenspan, þeirra frægasti maður stjórnaði Bandaríska Seðlabankanum út frá kenningum monatorismans, og að sjálfsögðu völdu repúblikanar eftirmann Greenspan úr sínum röðum, monatoristann og markaðsmanninn Ben Bernanke.
Bernanke hélt ræðu fljótlega eftir að Bush yngri útnefndi hann formann stjórnar Seðlabankans, þar ræður hann peningastefnu Seðlabankans í fortíð og nútíð, helstu áhrifavalda, þróun stefnunnar, og helstu áskoranir.
Nálgun hans er öll monatorísk, það má sannreyna á þessum link hér;
Það er rétt að æstustu fylgismenn andkristinnar kalla Bernanke keynista, líkt og þeir kalla kristna íhaldsmenn sósíalista, en það hefur ekkert með skilgreiningar að gera, segir aðeins um myrkrið sem þeir tilheyra.
Keynistar gagnrýna monartorista harðlega og á svipuðum forsendum og austurríski skólinn, monartorisminn leiðir til verðbólu peningalegra eigna.
En að öðru leiti er nálgun keynista og austurríska skólans gjörólík, líkt og himinn og haf var á milli Churchils og Stalíns þó báðir leggðust gegn Hitler.
Peningalegar aðgerðir Bandaríska Seðlabankans er ekki Keynismi og Keynismi ríkisstjórnar Baraks Obama er ekki bóluvaldur peningalegra eigna.
Um það og skuldsetningu almannasjóða ætla ég að fjalla um í lokainnslagi mínu um ambögur þínar Helgi.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 14.1.2014 kl. 09:22
Ekki veit ég hvað ég hef oft sagt þér Helgi að skuldasöfnun bandaríska ríkisins undanfarna þrjá áratugi hefur ekkert með Keynismann að gera, hvað þá núverandi skuldsetning ríkissjóðs Íslands.
Síðustu Keynísku aðgerðirnar í USA voru í forsetatíð Ronalds Regans; hann lækkaði skatta en jók jafnframt útgjöld alríkisins;
Þá hófst reyndar núverandi skuldasöfnun, en samkvæmt Keynismanum átti að nota góðærið til að jafna út hallann, líkt og var gert á keynísku áratugunum þar á undan.
Og ég ætla að taka fram að ég nenni ekki að peista aftur skuldatöflu bandaríska alríkisins, hana má nálgast hér að ofan, en allt sem ég segi á samsvörun þar.
En það var ekki gert, repúblikanar viðhéldu fjárlagahallanum í trausti þess að bættur efnahagur myndi þurrka hann út. Það var aðeins í stjórnartíð Bill Clintons að skattar voru hækkaðir til þess að lækka ríkisskuldir, annars viðhéldu repúblikanar eyðslustigi umfram tekjur ríkisins.
Hvað sem þessi samsuða hét, þá var það ekki keynismi, og pólitísk stefnan var ætíð sú að draga úr umsvifum ríkisins og auka hið svokallað frelsi markaðarins.
Hvort það gekk eftir, það er svo önnur saga, á því eru margar hliðar.
Keynísk nálgun miðast öll að jafnvægi, þar á meðal ríkisfjármála. Sama gildir reyndar um monatoríska nálgun, en það er óumdeilt að bandaríski seðlabankinn beitti monatorískum aðgerðum allan níunda, tíunda og fyrsta áratug þessarar aldar.
Og fyrstu viðbrögðin við fjármálakreppunni 2008 voru monatorísk, Seðlabankinn prentaði peninga til að bjarga fjármálakerfinu en dældi því ekki að öðru leiti út í atvinnulífið. Fyrsta örvunaraðgerðin í anda keynisma er ekki fyrr en í febrúar 2009; "The plan's main purpose was to instill the confidence needed to restore economic growth. Monetary policy had done all it could, and it was clear fiscal policy was needed."
Og hverjar voru þessar aðgerðir sem samtals námu 720 milljörðum dala??
Það var skattalækkun uppá 288 milljarða, er hún bóluvaldandi á peningamarkaði??
Það voru 224 milljarðar í atvinnuleysisbætur, menntun og heilsugæslu, er það bóluvaldandi á peningamarkaði??
Það voru 275 milljarðar í atvinnuskapandi aðgerðir, er það bóluvaldur??
Það er rétt að þessar aðgerðir auka fjárlagahallann, en þegar hagkerfið dregst saman, þá dragast tekjur ríkisins saman sem því nemur. Ef þessar aðgerðir draga úr samdrætti, þá aukast tekjur ríkisins á móti.
Og það gerðu þær sannarlegar, til skamms tíma allavega, um þær tölur er ekki hægt að deila, svo kostnaður ríkisins nettó ekki þessir 700 milljarðar, líklegast var um ágóða að ræða miðað við hvað fjárlagahallinn hefði orðið ef ekkert hefði verið gert.
Þetta er eina ábyrgð keynismans á núverandi kreppu, keynísk viðhorf stjórna ekki varnarviðbrögðum Bandaríska Seðlabankans og Bandarísku alríkisstjórnarinnar.
Ég benti þér á þetta hér að ofan;
Ómar Geirsson, 14.1.2014 kl. 10:19
Þetta var upphafið að þessum löngum rökræðum okkar sem hafa skilað þessari lokaathugasemd minni.
Vanþekking þín á hvað gerðist á kreppuárunum ásamt ítrekuðum fullyrðingum þínum á kreppuráðum Hardings, niðurskurði ríkisútgjalda og skattalækkunum.
Ég hef aldrei nennt að spá í hina meintu kreppu í upphafi annars áratugar síðustu aldar, þetta var aðlögun úr stríðshagkerfi yfir í normalt ástand, almennt má segja að sú aðlögun tókst bærilega á Vesturlöndum, með Þýskaland sem undantekningu, og annar áratugurinn var gróskutími sem að miklu leiti má rekja til tækninýjunga í framleiðslugreinum.
Eiginlega skiptir ekki máli hvað menn gera, svo fremi sem menn skemma ekki fyrir, að það er alltaf uppgangur í kjölfar tækninýjunga.
Hin meinta kreppa var aðeins gára á línuriti þjóðarframleiðslunnar, miklu mun minni en var eftir seinna stríð. En var hún svona lítil vegna réttra viðbragða Hardings?? Hefði hún orðið verri ef eitthvað annað hefði verið gert, og var eitthvað annað gert en að aðlaga stríðshagkerfið??
Ef friður kemst á eftir stríðsátök, þá eru herir aðlagaðir friðartímum, sem þýðir á mannamáli, að dregið er úr útgjöldum ríkisvaldsins, og stríðsskattar eru dregnir til baka.
Gert í öllum vestrænum löndum, af mismunandi stjórnvöldum, og enginn talar um sérstakt efnahagsaðgerð, ekki frekar en það er merkileg læknisaðgerð að fjarlægja botnlanga ef hann springur.
En ég ákvað að gefa þessu tækifæri Helgi, lesa mér til um þetta því eitthvað hlaut að vera til í þessu, kannski kauphallarhrun, fjöldagjaldþrot eða eitthvað sem sagan hafði ekki síðan hátt um því vel tókst til með að snúa samdrættinum uppí hagvöxt.
Og eins og ég rakti hér að ofan, þá komst ég að því að þessi kreppa var í raun alvarleg, um margt ekki ólík þýsku kreppunni á sama tíma, nema að það voru ekki prentaðir peningar, heldur var verðhjöðnun látin hafa sinn gang, og hjólin fóru að snúast. Lærdómurinn: það virkar ekki að prenta peninga út á verðmæti sem eru ekki til.
Eða skattalækkanir og niðurskurður ríkisútgjalda virka.
Hefði ekki spáð meira í þetta ef mér hefði ekki leikið forvitni á að vita í hverju þessi meinti niðurskurður væri fólginn. Hvað var hægt að skera niður í samfélagi sem eyddi aðeins 10% af þjóðartekjum sínum í samneyslu??, og þess vegna fór ég að gúgla til að fá upplýsingar þar um. Fékk upp gröf um samneysluna, og skattbyrðina, og sá hvorki hinn meinta niðurskurð, nema í hermálum, og aukningu skatttekna af þjóðarframleiðslu. Sem sagði mér aðeins það að það hefðu verið gerðar gagnlegar breytingar á skattkerfinu þegar skattprósentur voru lækkaðar fyrst að skatttekjur jukust í kjölfarið. Og sú skattaukning fór í aukna samneyslu, sem ekki rímað við kenninguna um niðurskurð.
En ég vildi vita nákvæmlega hvað var skorið niður, og datt einna helst í hug að áhugamenn um Harding vissu það. Og gúglaði þá eftir leitarorðinu, "forgotten depression", og það leiddi mig á slóð Thomasar Woods, hans nafn kom oftast fyrir í fræðum innvígðra.
Ekkert fékk ég að vita um niðurskurðinn, en ég fékk að vita margt um þjóðsöguna um Harding.
Í upphafi ritgerðar sinnar; Warren Harding and the Forgotten Depression of 1920, dregur Woods fram meginlínur hennar;
Það var ekki gripið til keynískra eða monatorískra aðgerða, heldur aðeins skattalækkana og niðurskurðar á ríkisútgjöldum. Og ég hefði trúað því þar sem ég reiknaði með að mennt gætu sagt rétt frá staðreyndum ef hann hefði ekki misst það út úr sér að batinn hefði strax orðið sýnilegur seinnihluta sumars 1921.
Þetta gekk ekki upp, Harding er ekki settur í embættið fyrr en í ársbyrjun 1921, og það tekur tíma að setja fram lög, og fá þau samþykkt. Hvað sem Harding gerði, gat það ekki verið farið að virka í ágúst 1921, ekki nema að kreppan hafi verið feik, sem hún sannarlega var ekki.
Síðan er það eðli skattalækkana, að það tekur tíma fyrir þær að hafa áhrif, skattalækkun sem er x upphæð á ársgrundvelli, er x/3 á fjórum mánuðum, og ef hún er varla komin til framkvæmda, þá eru bein áhrif hennar að sjálfsögðu ekki komin fram.
Niðurskurður ríkisútgjalda sígur hins vegar strax í, ríkið tekur peninga út úr hagkerfinu, og til skamms tíma hefur slíkt samdráttaráhrif.
Samdráttaráhrif sem jákvæð áhrif skattalækkunarinnar eiga að vega upp til lengri tíma litið. Um þetta eru allir hagfræðingar sammála, líka þeir austurrísku, þeir segja einfaldlega, tökumst á við vandann strax, fáum samdráttinn og síðan hagsæld sem byggði er á traustari verðmætasköpun. Sem er alveg sjónarmið út af fyrir sig.
En þegar Woods segir að það sem varla var komið til framkvæmda, hafi strax skilað árangri, þá er hann annað hvort að skauta framhjá aðgerðum sem þegar hafa átt sér stað, eða hann lítur framhjá öðrum aðgerðum.
Sem þýðir á mannamáli að hann er að ljúga til að fegra mynd Hardings.
Þar með las ég neðri hluta greinar Wikidedíu um kreppuna 1920-1921, og fékk strax staðfestingu á grunsemdum mínum. Vitnaði í það hér að ofan, ætla ekki að endurtaka það hér.
En ætla að draga það saman.
Ef Thomas Woods hefði tekið þessa þætti með þá hefði umfjöllun hans verið heiðarleg, það er ekki hægt að rífast um að Harding kláraði að aðlaga hagkerfið að friðartímum, og hann gerði gagnlegar umbætur á skattakerfinu. Gerði það skilvirkara og jók þar með skatttekjur ríkisins.
Sannleikurinn hefði ekki dregið úr því sem Harding gerði vel.
En monatorískar aðgerðir sköpuðu kreppuna og þær snéru hana niður. Samsvörun þeirra á breytingu á þjóðarframleiðslunni eru algjörar, eins og þetta línurit sýnir;
En sannleikurinn hefði eyðilagt þjóðsöguna um Harding, sýnt fram á að raunveruleikinn var miklu flóknari en sú einfalda mynd að niðurskurður ríkisútgjalda og lækkun skatta sé lausnin á fjármálakreppum.
Að hagkerfi séu látin aðlaga sig með verðhjöðnun að jafnvægisástandi sem síðan leggi drög að nýju hagsældarskeiði. Og ekki sé gripið inní verðhjöðnunina með peningalegum aðgerðum seðlabanka eða eftirspurnaraðgerðum fjármagnaða í gegnum ríkissjóði.
Og þegar ekkert dæmi var til um það, þá var það búið til.
En af hverju??
Í hvaða tilgangi??
Hverjir hafa beina hagsmuni af lyginni??
Hverjir kosta hana??
Um það ætla ég ekki að hafa mörg orð, en nokkur:
En á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 14.1.2014 kl. 12:12
Jæja, það liggur við að ég fari að trúa mínum orðum bókstaflega, að tilvísun mín sé ekki hugmyndafræðileg, heldur vísun í eitthvað sem raunverulega á sér tilveru.
Ég hafði loksins komið mér að efninu sem hefur staðið til langa lengi, klára þjóðsöguna um Harding og tengja hana við hin raunverulegu markmið hennar.
Löng athugasemd númer 62 var frá, lokasetning athugasemdar númer 63 var í sjónmáli, þá fraus vafrinn, einn forrita, og ég náði ekki að peista það sem ég hafði skrifað í athugasemd 63, og þegar ég hafði endurræst vafrann, þá var athugasemd 62 dottinn út líka. Eins og eitthvað hefði gripið inní, hef aldrei á mjög löngum bloggferli, með hátt í 2500 blogggreinar auk tífaldan þann fjölda í athugasemdum, lent í þessu áður, að glutra niður seifaðri færslu, og að allt sem ég gerði fyrir frostið í vafranum, var þurrkað út úr minni tölvunnar.
Lærdómurinn er að afgreiða þetta í snarhasti, og fara að huga að öðru.
En þessi athugasemd fjallaði um niðurstöðu mína eftir að ég hafði kynnt mér skrif laizze-fair-sinna um Harding. Það var ekki þannig að ég tæki því ekki trúanlegt að hann hefði snúið niður hina alvarlegu verðhjöðnun, sem reyndar var algjörlega af mannavöldum, með niðurskurði ríkisútgjalda og skattlækkunum.
Það eina sem ég var forvitinn um, var að vita hvað hann hefði skorið niður, eitthvað sem gögn um Harding minntust ekki á. Þá datt mér í hug að leita á náðir frjálshyggjunnar, og gúglaði eftir leitarorðinu "forgotten depression", því ég hafði oft heyrt minnst á þann frasa, þó ég hefðí aldrei spáð innihald hans. Reiknaði hreinlega með að menn færu rétt með staðreyndir.
En gúglið gaf mér nokkur þúsund síður, þar af rúmlega 1000 þar sem Thomas nokkur Woods kom við sögu, og grein hans, sem einmitt hét þessu nafni; Warren Harding and the Forgotten Depression of 1920.
Skemmtileg grein þar sem margt var sagt, en ekkert minnst á í hverju hinni meinti niðurskurður Hardings var fólgin. Sem var spurning í mínum huga því grafið í athugasemd 26 sýndi ekki annan niðurskurð en hernaðarútgjöld, og grafið um hlutfall skatttekjur af þjóðarframleiðslu sýndi hærra skatthlutfall eftir stríð en fyrir.
Það má segja að Woods hafi dregið fram kjarna greinar sinnar í þessari athugasemd;
Sem innihélt eina rökvillu sem allir með lágmarks þekkingu taka eftir. Ef ekkert annað hefði verið gert en að lækka skatta og skera niður ríkisútgjöld þar á móti, þá gat hagkerfið ekki tekið strax við sér sumarið 1921. Vegna þess að Harding var ekki settur í embættið fyrr en snemma árs 1921, og það hlaut að taka tíma að leggja fram frumvarp og fá það samþykkt, auk þess virka svona skattalækkanir ekki aftur á bak. Ég gúglaði tímasetningu frumvarpa hans, og sá að þau voru lögð fram í apríl, og þar með sá ég að Woods laug til um grunvallarforsendu.
Skattalækkanir, eins ágætar og þær eru, þurfa tíma til að hafa jákvæð áhrif, niðurskurður tekur strax fjármagn úr hagkerfinu, og eykur þar með samdrátt. Kreppan verður alltaf dýpri til að byrja með, en ef skattalækkanir hafa jákvæð áhrif, þá vinna þær smán saman gegn samdrættinum, og samkvæmt kenningu austurríska skólans, þá verður vöxturinn heilbrigðari, og varanlegri en bati vegna fisical inputs ríkisvaldsins.
Ef hagkerfið tók við sér strax um sumarið, þá var skýringin önnur en laizze fari stefna Hardings.
Þar með tók ég að lesa ítarlega um þessa kreppu, og bar saman nokkrar greinar á Wikipediu, afraksturinn kom fram í athugasemd 26 og 27, óþarfi að rekja það aftur.
Staðreyndir málsins má draga saman í nokkrum liðum:
Og það er það sem skýrir batann sumarið 1921 sem Thomas Woods eignar Harding.
Hefði Thomas Woods sagt heiðarlega frá staðreyndum mála, þá hefði það staðið eftir að Harding gerði gagnmerkar breytingar á skattkerfinu, gerði það skilvirkara og jók tekjur ríkisins af sköttum. Og hann skar niður stríðshagkerfið og hagvöxtur var almennt góður á stjórnarárum hans.
Og ekkert meir um málið að segja.
En öll grein Thomasar Wood er afneitun á raunverulegum staðreyndum og það sem verra er að laizze fair sinnar blása hana út sem einhverja staðreynd um það sem gerðist á þriðja áratug síðustu aldar.
Og nýta lygina til að gagnrýna það sem gert var eftir Kreppuna miklu, ásamt því að undirbyggja þann áróður að "aðferðir" Hardings væru það eina sem dygði gegn fjármálakreppunni í dag.
Svo það sé dregið saman, að þá leggja þeir það til sem aldrei hefur verið gert, ljúga því til að það hafi verið gert einu sinni með árangri, og nota lygina sem réttlætingu þess að það verði gert aftur, fyrst að það heppnaðist svo vel á fyrri hluta 20. aldar, þegar umsvif ríkisins og uppbygging þjóðfélagsins var allt önnur en er í dag.
Að verðhjöðnun án afskipta ríkisvaldsins, ásamt því að leggja af velferðarkerfið, sé eina leiðin til að ná varanlegum efnahagsbata.
Svona lygi, og svona bull, fær ekki vægi nema einhver kosti útbreiðslu þess í gegnum hugveitur frjálshyggjunnar, og að akademían sé svo undir hæl fjármagnsins að hún þori ekki annað en fjalla um þetta trúboð eins og um fræði væri að ræða.
Spurningin er hverjir standa að baki útbreiðslu þjóðsögunnar um Harding, hverjir hafa hag af þeirri hugsun sem hún boðar.
Um það fjallar lokaathugasemd mín.
Á meðan er það kveðjan.
Ómar Geirsson, 14.1.2014 kl. 21:35
Jæja, draugagangurinn leikur ekki á endemum, það sem ég leitaði að með því að margendurræsa vafrann og tölvuna, ásamt því að skoða söguna lið fyrir lið í dag, dúkkaði alltí einu upp hér að ofan.
Og merkilega nokk hvað þessar tvær athugasemdir eru líkar, þó báðar séu gerðar á handahlaupunum, ætla því að láta þær báðar standa.
Eftir stendur það sem eftir átti að koma, og vonandi kemst það til skila án frekari draugagangs.
Kveðja á meðan.
Ómar Geirsson, 14.1.2014 kl. 21:46
Hverjir kosta lygina, hverjir hafa hag af henni??
Aldrei þessu vant ætla ég að láta það vera að fjalla um hina Örfáu, samþjöppun auðs þeirra og gróðafíkn. Þeir eru aðeins verkfæri, öflin að baki eru miklu svartari en það, má rekja til svörtustu forneskju áður en mannúð og mennska fékk vægi í hinum kristna siðmenntaða heimi.
Til að byrja með ætla ég að fjalla um hvernig lygin var notuð til að ærumeiða heiðarlega borgarlega íhaldsmenn, og viðbrögð þeirra við hinni samfélagslegu upplausn kreppuáranna.
Woods slær tón sem ég heyrði ítrekað hjá þér Helgi, og hef rekist á víða í skrifum laizze fair sinna;
Hér eru lögð drög að ærumeiðingum Hoovers, hver var hann ægilegi glæpur?? Varla getur það verið verklegar framkvæmdir sem hann beitti sér fyrir?? Svo veikir á sinni eru frjálshyggjumenn ekki að þeir skilji ekki að uppbygging innviða eru forsendur framfara og hagvaxtar. Asnakerrur á moldarvegum sjá ekki um flutninga í nútíma hagkerfi, og verksmiðjur eru ekki knúnar með vindmyllum.
Uppbygging þjóðvegakerfisins og Hoover stíflan er ekki skýringin, nærtækara er að benda á íhlutun ríkisstjórnar Hardings um styttingu vinnutímans, auk fyrsta vísisins að velferðarkerfinu. Allt rakið hér að ofan.
Auk þess að Hoover reyndi að bregðast við þjáningum fólks eftir að kreppan mikla skall á. Og framdi þann höfuðglæp að auka ríkisútgjöld í stað þess að láta niðursveifluna, og hungrið og þjáningarnar hafa sinn gang.
Það er sagt um Hoover að hann hafi gerst fráhverfari laizze fair með aldrinum, og mikið til í því. En menn gleyma af hverju, hugsjón hans var ekki allsnægtir hinna auðugu, heldur frelsi mannsins frá fátækt, og hann taldi frjálst markaðskerfi vera bestu leiðina til þess. Þessi orð eru höfð eftir honum;
Annmarkar hins frjálsa markaðar komu í ljós, og hann reyndi að bregðast við.
Bakgrunnur Roosevelt var svipaður, hann var íhaldsmaður af gamla skólanum, og það var raunveruleikinn sem fékk hann til að bregðast við neyðinni með íhlutun ríkisvaldsins. Ekki sósíalískar skoðanir eins og mætti halda af hælníðbítum hans.
Í sögu mannkyns er ágætis klausa sem útskýrir vel það ástand sem þessir hæglátu kristilegu íhaldsmenn gátu ekki hundsað, enda andstætt þeirra siðferði og lífsskoðunum að hundsa. Ég ætla að hafa þessa frásögn eftir;
Varanleg aukning ríkisútgjalda var fyrst og fremst vegna velferðarmála, auk verklegra framkvæmda, sem byggðu upp innviði samfélagsins og Bandaríkin njóta ennþá góðs af.
Ekki laizze fair, heldur kristin sjónarmið mannúðar og mennsku og tókst ekki verr en það að við tók áratuga hagvöxtur og næsta fjármálakreppa varð ekki fyrr en 2008, og þá varð hvorki þetta fjöldaatvinnuleysi eða sú neyð sem lýst er hér að ofan.
Hvaða afl ræðst svona á kristin lífsgildi og kristna siðfræði, á siðfræði mennsku og mannúðar?? Og rægir heiðarlegt fólk fyrir að reyna bregðast við neyð náungans?? Fyrstu viðbrögð Hoovers heppnuðust ekki, en í stað þess að gefast upp, þá var haldið áfram að reyna. Og það tókst 1933 þó hægt gengi í byrjun.
Ef rökin byggðust á staðreyndum, ekki þjóðsögu, þá mætti íhuga þau. Það er ef fólk lítur á afleiðingar verðhjöðnunar sem valkost.
En hvað felst í verðhjöðnun??
Í verðhjöðnuninni 1920-1921 þá lækkuðu laun það mikið að milljónir fullvinnandi manna fóru niður fyrir fátækramörk. Og enginn veit hvar það hefði endað ef seðlabankinn hefði ekki aukið peningamagn í umferð og lækkað vexti. Nema laizze fair gengur út frá einni grundvallarkenningu um samkeppnislaun, að aukinn fólksfjöldi keyri þau niður þar til þau duga rétt fyrir nauðþurftum verkafólks, í góðæri. Hungur og vosbúð sjái svo um að fækka verkafólki í kreppum. .
Og hagfræðikenningin segir að það megi ekki grípa inní það ferli, eða eins og Woods segir;
"The absolute freedom of prices and wages to fluctuate is essential to the accomplishment of this task, since wages and prices are indispensable ingredients of entrepreneurial appraisal".
Kaldhæðnin er síðan algjör þegar hann lætur þetta úr úr sér; "We do not in fact need the violent expropriation of any American in order to achieve prosperity, thank goodness".
Hvað er þvinguð undirboð launa annað en ofbeldisfull eignaupptaka, en vinnandi fólk er víst ekki fólk í augun manna eins og Woods. Heldur kostnaður, afgangsstærð sem má missa sig á samdráttartímum.
Woods þekkir alveg raunveruleik verkafólks á dögum laizze fari stefnunnar í Englandi á 19. öld, eina landið þar sem stefnunni hefur verið framfylgt ómengað. Þá vann fólk langan vinnudag, stundum alla daga vikunnar, við hörmulegar aðstæður, fyrir hungurlaun, án nokkurra réttinda, og þegar átti að bæta kjör þess, voru viðbrögð laizze fair hagfræðinga ætíð þau að ekki mætti vinna gegn "The absolute freedom of prices and wages to fluctuate is essential to the accomplishment of this task, since wages and prices are indispensable ingredients of entrepreneurial appraisal".
Á aðra milljón Íra voru látnir deyja úr hungri vegna þessara viðhorf mannvonskunnar, tugir milljóna dóu á Indlandi úr hungursneyðum þar sem ríkisvaldið brást hlutverki sínu að koma í veg fyrir slíkar hungursneyðar, vegna hugmyndafræði þessarar sömu ómennsku.
Þetta veit Woods, samt gerir hann það sem ég lýsti hér að ofan;
Eða svo ég vitni í lokaorð Woods;
Þetta er tilgangur hans, að það verði gripið til þessara aðgerða, að lækka skatta og skera niður ríkisútgjöld og láta síðan verðhjöðnunina hafa sinn gang. Í kreppu þar sem allt fjármálakerfið var undir, og fjöldaatvinnuleysi og gjaldþrot blasti við.
Í raun að endurreisa þjóðfélagið fyrir daga velferðarkerfisins, fyrir daga reglusetninga um lágmarks laun og félagsleg réttindi, daga þar sem launafólk stóð berskjaldað á víðáttum kreppunnar og átti ekki annars úrkostar en að bjóða laun sín niður úr öllu valdi, ef þá það á annað borð fékk vinnu.
Og éta síðan það sem úti frýs ef það missti atvinnuna, eða gat ekki unnið sökum heilsuleysis eða öldrunar.
Þegar lifandi fólk var afgangsstærð í sveiflujöfnun hins frjálsa markaðskerfis.
Á nítjándu öld vissu menn ekki betur, mannvonska og mannhatur réði þá gjörðum þeirra sem knúðu áfram ómennsku laizze fair hagkerfisins.
Ómennska sem réttlæt var með gervihagfræði Adam Smith um hina ósýnilegu hönd markaðarins, og með tilvísuna í mannfjöldakenningar Malthusar, ómennskan væri afleiðing náttúrlegra lögmála hagfræðinnar, sem ekki væri hægt að efast um frekar en þyngdarlögmál Newtons.
Í dag vitum við betur, og þegar menn stefna að sama þjóðfélagi, með lygina sem röksemd, þá er ljóst að ómennskan á sér dýpri rætur en í mannhatri og mannvonsku.
Aðeins tær illska getur útskýrt þessa aðför að siðuðu samfélagi fólks.
Hún er aflið sem kostar, sem dreifir út boðskapinn, mengar stjórnmál, knýr áfram umræðuna.
Og varðandi fólkið sem lætur glepjast, þá skulum við vona Helgi að það sér skröksaga hjá Jóhannesi að það verði látið gjalda fylgispektar sinnar á dómsdeginum mikla, þá og þegar hann rennur upp.
Það er í sjálfu sér nóg refsing að upplifa afleiðingar endaloka siðmenningarinnar.
Þó ekki sé verið að bögga fólk fyrir hinum æðsta dómi.
Allt hefur sinn tilgang.
Líka þjóðsögur.
Líka þessi umræða, hún þaggaði niður í bloggi mínu í bili að minnsta kosti.
Það er ekki á hverjum degi sem maður uppgötvar tilvist hinnar tæru illsku, mann hefur sett hljóðan af minna tilefni.
Ég er ekki að sneiða að þér Helgi, það eina sem ég er að benda þér á, er að þú ert ekki í góðum félagsskap. Og vonandi uppgötvar þú það fyrr en seinna.
En sú uppgötvun kemur innan frá, orð annarra duga ekki á þá blekktu.
Nema kannski Orðið sjálft, en það er önnur saga.
Ekki sögð hér.
Eiginlega veit ég ekki hvað ég á að segja næst.
En takk fyrir umræðuna, gagnlegri umræðu hef ég ekki átt um ævina.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.1.2014 kl. 23:46
Sæll.
Ef vandinn var skortur á fé eru það mjög undarleg rök sem styðjast ekki við staðreyndir. Nú er t.d. ameríski Seðlabankinn að dæla fé inn í kerfið en ekkert virkar. Þessar stimulus kenningar falla algerlega á prófi raunveruleikans. Peningamagn í umferð nú er t.d. um þriðjungi meira en árið 2000. Hvar er batinn?
Segjum að peningamagn í umferð hafi verið 100 árið 1921. Svo jókst það um rúm 60% og var orðið 161 í júní 1930. Ef það síðan minnkaði um 30% og var orðið 30% minna 1932 var peningamagn í umferð samt mun meira en fyrir hrun (113). Þessi rök ganga einfaldlega ekki upp. Af hverju var þetta peningamagn, sem var í umferð 1932, ekki nóg þá en meira en nóg nokkrum árum fyrr? Endurreisnin hófst með mun minna peningamagn í umferð en var síðan allt í einu ekki nóg seinna. Þetta er algerlega þráðlaust.
Þú getur kallað árangur Harding þjóðsögu en aðalspurningin er auðvitað hvers vegna þér er svona í nöp við Harding? Hann náði góðum árangri, kvað slæma kreppu í kútinn á stuttum tíma og um það verður ekki deilt. Ekki geta keynsistar státað sig af slíkum árangri - þess vegna er það sjálfsagt skýringin á því hve miklu hornauga þú lítur árangur Harding. Það að útskýra í burtu góðan árangur Harding er meira en lítið skrýtið.
Það sem þú áttar þig ekki á er að keynsismi varð hugmyndafræðilega gjaldþrota á 8. áratugnum þegar saman fóru bæði mikið atvinnuleysi og mikil verðbólga.
Ef þú skilur illa grein Woods skal ég með glöðu geði hjálpa þér að greiða úr þeim flækjum :-) Þú getur svo auðvitað lagt annan skilning í orðið "óveruleg" en maður er svo sem orðinn vanur slíku hjá þér þannig að ég kippi mér ekki lengur upp við slíkt :-)
@64: Þú virðist hafa lent í svipuðum tölvuhremmingum og ég gerði fyrr - þurfti að nánast tvírita eina athugasemd mína. Það er verra þegar tæknin fer að hrekkja okkur. Kannski tæknin sé orðin þreytt á þessu karpi okkar? :-)
Hafðu það gott þarna fyrir austan.
Helgi (IP-tala skráð) 15.1.2014 kl. 06:20
Blessaður Helgi.
Mér datt einmitt í hug að þú hefðir lent í sama púka og ég, og kannski kom það vel á vondan.
Þetta er endapunkturinn, og ég ítreka, að samræða okkar er aðeins form fyrir mig í ákveðnum tilgangi.
Ég tæki það nærri mér ef þú tækir einhver orð til þín, það var aldrei meiningin.
Ítreka aðeins að þetta svokallaða karp okkar er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert í mörg ár.
Aðeins hvað varðar Harding vin okkar, hugsanlega var eitthvað neikvætt í gildismati mínu, hann er jú kandídat inn á topp tíu listann yfir spilltustu forseta Bandaríkjanna. En ég ætla kannski ekki að segja að jákvæðnin sé að drepa mig, en ég sé hann í öðru ljósi eftir þetta debat okkar
Hann minnir mig dálítið á Jón Þorláksson, íhaldsmaður sem var barn síns tíma, en vildi vel fyrir núið og framtíð.
Ég þarf ekki frekari hjálp hjá þér til að skilja Woods, á vissan hátt var hann vendipunktur minn og ég veit ekki hvert hann leiðir.
En á meðan ég spái í það, þá bið ég þig vel að lifa, máttu eiga frjó samskipti við menn og málefni um ókomna tíð.
Hafðu það gott sömuleiðis.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.1.2014 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.