20.10.2013 | 10:03
Heimili in memorium.
Verður grafarskrift ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Báðir ríkisstjórnarflokkarnir höfðu metnaðarfullar áætlanir um aðgerðir í þágu heimilanna.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði með ýmsum tilfæringum úr ríkissjóði að lækka höfuðstól lána um allt að 20% og Framsóknarflokkurinn ætlaði að ná sama árangri með því að semja við kröfuhafa þrotabúa gömlu bankanna um að þeir létu hluta af krónueign sinni í sjóð sem yrði nýttur til að lækka verðtryggð lán fólks.
Efndirnar reyndust síðan þær að skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins þýddu 20% lækkun á greiðslubyrði lána manns með 800 þúsund í mánaðarlaun, ef greiðslubyrði hans nam 20 þúsund á mánuði. Það fylgdi ekki sögunni hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefði auglýst eftir viðkomandi manni, líklegast hefur hann ekki verið til.
Fjögur þúsund krónur í skattalækkun af 800 þúsund króna mánaðartekjum var allt sem Sjálfstæðisflokkurinn gat boðið uppí sín stóru kosningaloforð.
Og þar með eru efndir ríkisstjórnarinnar upptaldar.
Blæðandi heimili komu henni til valda, blæðandi heimili munu ekki endurtaka þann leik.
Ekki vegna þess að útilokað sé að þau láti ekki aftur platast, heldur vegna þess að þeim hefur blætt út.
Hrakfarir Framsóknarflokksins í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa verið með þeim þvílíkum endemum að í raun er ekki einleikið.
Tónninn var sleginn með stofnun Hagræðingarnefndarinnar svokölluðu, svipu Vigdísar Hauksdóttur á meinta ofsækjendur sína, nefndar sem ekki var minnst orði á í kosningabaráttunni en átti að halda áfram þar sem Steingrímur varð að gefast upp við að skera niður í ríkisrekstri. Eins og svarið við Steingrími væri ýkt útgáfa af Steingrími.
Síðan var skipuð nefnd til að koma með tillögur um skuldaleiðréttingar heimilanna, og þar með viðurkennt að engin innistæða hefði verið að baki kosningaloforða flokksins, menn hefðu ekki haft græna glóru hvernig ætti að framkvæma þau. Til þeirrar nefndar hefur ekki spurst síðan, nema hún er sögð vera skoða allar tillögur, ítarlega, vandlega, ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardótturlega.
Loks var uppgjöf flokksins staðfest þegar forysta flokksins sagði ekki orð þegar formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir að ekkert væri í hendi í viðræðum við kröfuhafa, enda hefðu engar viðræður farið fram. Seinna kannski seinna, en seinna er ekki lækning handa þeim sem er að blæða út.
Endemin eru með þvílíkum endum að þau eru ekki einleikin.
Og fólkið sem barist hefur fyrir nýju og betra Íslandi þarf að fara að íhuga það.
Ríkisstjórnin fékk tækifæri og frið frá almenningi, og stjórnarandstöðu til að setja fram tillögur til lausnar á helstu vandamálum þjóðarinnar. Hún var sannarlega ekki bögguð á fyrstu mánuðina eftir að hún tók við.
Það er því athyglisvert að þegar fólki fór að lengja eftir aðgerðum, eða þó væri ekki nema tillögur að aðgerðum, að þá reyndist forsætisráðherra staddur í Kanada skálandi við þarlenda Íslendinga og það næsta sem heyrðist í honum var viðtal í erlendri fréttaveitu þar sem hann í anda Jóhönnu Sigurðardóttur mærði íslensku endurreisnina og þann árangur sem hefði nást undir dyggri leiðsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ekki nýtt ef aðeins er horft á embættið "forsætisráðherra Íslands", en nýtt fyrir þann einstakling sem þarna tjáði sig, því Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði verið einn harðskeyttasti gagnrýnandi á fullyrðingar fyrirrennara sína um árangur stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Ennþá athyglisverðara er að þegar fjármálaráðherra flutti líkræðu á Alþingi yfir loforðum Framsóknarflokksins í skuldamálum heimilanna að þá var forsætisráðherra í fríi á Flórída. Það fyrra gat verið tilviljun, en endurtekningin ekki.
Það er enginn svona mikill auli.
Ef við hefðum verið stödd í einhverju ríki Suður Ameríku á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar, þá vissum við svarið. Enn einn keypti Gosinn hefði afhjúpað sig, ríkari á kostnað þjóðarinnar sem hann sveik, í þágu þeirra sem maka krókinn á spillingu og óráðssíu.
En hið augljósa er ekki alltaf augljóst á Íslandi.
Það sannar hinn almenni sjálfstæðismaður sem gegnst núna með bros á vör undir stefnu Steingríms Joð Sigfússonar eins og enginn hafi verið gærdagurinn með allri fordæmingunni á hinni sömu stefnu.
Það sannar ritstjóri Morgunblaðsins sem í ótal leiðurum hélt því fram að skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar hefðu kæft allan vöxt og viðgang í efnahagslífinu en kallar núna núll komma eitthvað prósent skattalækkun upphaf af endurreisn. Ef það seinna er rétt þá var hið fyrra rangt því hin meinta skattpíning hefur ekki verið dregin til baka.
Það sannar hið íslenska andóf sem núna nær að sameinast um hatrið á Sjálfstæðisflokknum líkt og hann hafi verið í síðustu ríkisstjórn og bæri ábyrgð á öllu því sem hefði verið gert eftir Hrun.
Svo það þarf ekki að vera að Framsóknarflokkurinn hafi verið svar vogunarsjóðanna við kröfu heimilanna um skuldaleiðréttingu, skýringin á því sem er ekki einleikið, getur verið hreinn aulaskapur, vanhæfs fólks sem veit ekki hvað það er að gera.
Sem skiptir ekki máli, það er verið að þrælka þjóðina í dag.
Fyrirtæki og heimili eru rúin eigin fé, allar umfram tekjur þeirra fara í vexti og afborganir á tilbúnum hækkunum lána.
Og stjórnmálastéttin ætlar ekkert að gera í því.
Hvort sem hún er keypt eða algjörlega vanhæf.
Hún mun engu breyta, hún fékk sitt tækifæri í síðustu kosningum, hún fékk meðbyr til aðgerða, en hún þorði ekki gegn valdi fjármagnsins yfir íslensku þjóðlífi.
Það eina sem eftir stendur er vonin um Nýtt og Betra Ísland.
Sú von lifir í hjörtum okkar flestra, líka hjá þeim sem í afneitun halda að flokkarnir þeirra munu eitthvað gera, einhverju breyta.
Við erum í raun samherjar, ekki andstæðingar.
Við erum þjóðin sem vill gott samfélag, manneskjulegt samfélag.
Við vorum alin þannig upp, þannig ölum við börnin okkar upp.
Mistök voru gerð, mistök hafa verið gerð.
Við fáum því ekki breytt.
Það eina sem við sjálf fáum breytt, er viðhorfum okkar gagnvart því sem þarf að gera.
Hvort við stígum fram og reynum sjálf, eða hvort við höldum okkur til hlés og treystum á aðra.
Annað er ekki á okkar valdi.
Við höfum veturinn í vetur til að gera upp við okkur hvort við trúum á vonina, eða hvort við sættum okkur við vonleysið, að það fari eins og það fari.
Það er þetta eina litla orð; "TRÚ", sem á milli ber.
Ef við höfum ekki Trú á lífið og framtíðina, munum við ekkert gera.
Því trúlaus maður fær engu breytt.
Það er auðvelt að gagnrýna, það er erfitt að trúa.
Þar er efinn sem við þurfum öll að takast á við.
Og framtíð barna okkar veltur á þeirri glímu.
En því miður er engin önnur lausn.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 8
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 454
- Frá upphafi: 1412816
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 393
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð færsla hjá þér Ómar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.10.2013 kl. 11:51
"Báðir ríkisstjórnarflokkarnir höfðu metnaðarfullar áætlanir um aðgerðir í þágu heimilanna" - þetta tel ég ekki rétt - þeir sögðust ætla að gera þetta til að fá þitt atkvæði. mörgum var það ljóst í upphafi EN ...
Rafn Guðmundsson, 20.10.2013 kl. 13:19
Og við trúðum þeim Rafn Guðmundsson. Allveg þar til það kom í ljós að þeir ætluðu sér alltaf að halda áfram á sömu ógæfubraut og ríkistjórn Steingríms og Jóhönnu. Grátlegt Rafn - ekki satt?
Toni (IP-tala skráð) 20.10.2013 kl. 14:34
Hvað viltu að ég segi Rafn??, ef 20% niðurfelling skulda er ekki metnaðarfull, hvað er hún þá?? Ertu þá að vísa í að aðrar þjóðir voru með áætlanir um 30%, 40 %, 50%??? Farðu ekki svo fram úr þér að þú hættir ekki að skilja íslenskt mál.
Síðan ferðu rangt með, "þeir sögðust ætla að gera þetta til að fá þitt atkvæði", mér vitanlega sögðu þeir það ekki, og mér er það stórlega til efs að þú geti bent mér á slíkar yfirlýsingar fyrir kosningar. Vona að þú sért ekki að rugla saman ríkisstjórninni og meirihlutanum í borgarstjórn??
Ef þú ert að gefa í skyn að þú sért svo stórlega klár að hafa fattað að lítil meining hafi verið að baki, en til dæmis ég ekki, þá veit ég svo sem ekki heldur hvað ég á að segja.
Hér var bæði strax bent á að tillögur Sjálfstæðisflokksins fælu í sér þversögn sem gengi ekki upp, væri í raun ómerkilegasta lýðskrum sem sést hefði frá því að Eva Peron hefði verið upp á sitt besta.
Varðandi Framsókn þá dró ég ekki efa vilja þeirra til góðra verka, en leið þeirra væri ekki leiðin, eina raunhæfa væri að andæfa með krónunni að hætti Hægri Græna eða takast alveg á við vandann eftir aðferðafræði Lilju Mósesdóttur.
En ég játa að ég efast núna um tilgang Framsóknarflokksins, þó ég þannig sé taki ekki afstöðu til þess hér að ofan. Þeir mega mín vegna skera úr hvort þeir séu algjörir aular eða keypt leiguþý.
Hins vegar fjallar þetta uppgjör að ofan ekki um svikin loforð, heldur gagnslausa stjórnmálastétt sem fékk sitt síðasta tækifæri.
Og ég bendi á eina leiðina sem gengur upp.
Og einhver efi hlýtur að búa í brjósti þér Rafn, annars hefðir þú ekki kíkt á þennan pistil. Hann var ekki tengdur við frétt, og er aðeins fyrir áhugasama.
Einn daginn átt þú kannski líka eftir að trúa Rafn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.10.2013 kl. 14:53
Leiðtogar sjálfstæðisflokksins hafa með undanbrögðum sínum og yfirlýsingum verið að safna glóðum að höfði sér. Kannski þess vegna hefur hin almenni sjálfstæðismaður vera að fjarlægast flokkinn, það er jú víst ekki gott að brenna sig. En framsóknarflokkurinn verður að fara að setja sjálfstæðisflokknum afarkosti og þá að þeir sýni spilin eða það verða stjórnarslit, þ.e.a.s. hafi framsókn verið einhver alvara með þessu, já og vilji þeir ekki brenna sig á glóðunum. Verði einhver mótmæli við næstu þingsetningu (sem er óvíst þar sem fólk er einfaldlega búið að gefast upp) munu þau ekki vera friðsamleg og það er eitthvað sem stjórnvöld ættu að hugsa um og óttast, allavega eitthvað smá. Það er ekki ofsagt að það séu blikur á lofti. Ógnvænlegar blikur.
Toni (IP-tala skráð) 20.10.2013 kl. 14:57
Takk fyrir það Ásthildur.
Og takk fyrir innlitið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.10.2013 kl. 17:15
Blessaður Toni.
Ég get ekki talið mig með þessum "við" sem þú talar um, og Rafn líklegast ekki heldur.
Máli mínu til stuðnings langar mig að vitna hérna í 2 pistla þar sem ég hjó í hið algjöra lýðskrum Sjálfstæðisflokksins. Í þeim fyrri sem ég vitna í þá fjallaði ég um af hverju hinar meintu skattalækkanir kæmu aldrei til framkvæmda. Pistillinn heitir:
Raunveruleikinn leggur alltaf lýðskrumið.
og þar sagði ég meðal annars þetta.
Sá seinni hét
Þarf ekki að setja lög um lýðskrum??
og þar tók ég fyrir hinar arfavitlausu tillögur flokksins í skuldamálum heimilanna.
Reyndar dró ég kjarna þessarar vitleysu saman í þriðja pistlinum og ætla að nýta næstu athugasemd undir hann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.10.2013 kl. 17:36
Ef Sjálfstæðisflokkurinn verður stærsti flokkurinn.
Þá getum við kvatt Ísland í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.
Hvað við fáum í staðinn er svo spurningin.
Ástæðan er að flokkurinn stendur fyrir áður óþekktu lýðskrumi í vestrænni stjórnmálasögu.
Skattfé almennings á að nýta til að greiða hinar stökkbreyttu skuldir, á sama tíma ætlar flokkurinn að skera niður ríkisútgjöld um áður óþekkta tölu til að ná tafarlaust hallalausum fjárlögum, en jafnframt ætlar hann að verja grunnþjónustu ríkisins.
Þversagnir sem ganga ekki upp.
Hvað tekur við er spurning því þegar almenningur áttar sig á lýðskruminu og að það er allt í þágu hinnar ofurríku, þá mun hann rísa upp.
Og gamla Ísland mun líða undir lok.
Sigur Sjálfstæðisflokksins mun því verða bálför yfirstéttarinnar.
En hvað svo??
Það veit tíminn einn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.10.2013 kl. 17:37
Hins vegar er það rétt að ég hjólaði aldrei í Framsóknarmenn, ekki nema í miklu hófi. Þeir höfðu jú sama markmiðið þó aldrei skyldi ég Fjallabaksleið þeirra til að ná því.
En þessi aðvörunaroð mælti ég þegar ég ræddi lánleysi andstöðunnar í pistli sem hét:
Er þarna komin skýringin á tilurð hinna ótala framboða??
Og því miður voru þau réttari en mig grunnti.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.10.2013 kl. 17:44
Hins vegar var það alltaf á hreinu hvert mitt atkvæði fór. Það útskýrði í í pistli mínum;
Framboð um réttlæti.
Þar sem ég sagði margt, og þar á meðal þetta:
Blikur á lofti segir þú Toni.
En ef menn skilja ekki þetta hér að ofan, þá verða þær blikur til ills, ekki til góðs.
Og ekkert mun fá því breytt.
Kveðja að austan
Ómar Geirsson, 20.10.2013 kl. 17:48
Pistill og vísanir í eldri pistla þína Ómar segja kviknakinn sannleikann.
Fyrr en síðar mun fólk vakna til lífsins og þá mun allt fara að vonum
til lífsins og gróanda. Sérgæska hvers og eins er versta bölið.
Enn skal í heiðri haft til samfélags okkar sem þjóðar til lífsins:
"Gjör þú ekki það sem þú vilt ekki að aðrir menn gjöri yður."
Þessa mættu bankaræningjar og stórþjófar, varðir af leppum sínum innan ríkisvaldsins, minnast.
Vaxandi og viðurstyggileg misskipting er orðin til í samfélagi okkar sem þjóðar.
Svo mikil að er ískyggilega mikið farið að minna á það þegar sýslumenn og prestar
riðu um héruð og nauðguðu þeim sem minna máttu sín.
Sýslumenn kasta nú fólki út á gaddinn (það er nauðgun).
Af hverju þegir öll prestastéttin þunnu hljóði nú á dögum?
Eru prestar ekki kristnir?
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.10.2013 kl. 02:00
Hver er tilverugrundvöllur ríkisvaldsins, stjórnsýslu þess og stofnan ef það gegnur ekki erinda almennings?
Stefnir það markvisst að upplausn samfélagsins í slagtogi með stórþjófum og bankaræningjum og greifum?
Það líður að þáttaskilum í sögu okkar sem þjóðar ... vonandi vakna sem flestir og skynja samfélagslega ábyrgð sína.
Við búum á gósenlandi með 200 sjómilna landhelgi og aðrar verðmætar náttúruauðlindir.
Hvernig fær það þá staðist að öll okkar 320.000 manna þjóð geti ekki lifað mannsæmandi lífi?
Og þeim fer hratt fjölgandi sem það geta ekki. Hér vex gjáin enn milli almennings og örfárra ofurríkra þjófa.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.10.2013 kl. 04:01
Blessaður Pétur Örn.
Sannleikurinn gerir menn frjálsa er sagt en ég segi að trúin fær menn til að rétta úr bakinu, sérstaklega ef þeir þekkja Atla Kírópraktor.
En því miður er þjóðin hokin og því mun þessi spá mín rætast "En ef menn skilja ekki þetta hér að ofan, þá verða þær blikur til ills, ekki til góðs." eins og þegar ég benti á að gapið milli hagfræði Framsóknarflokksins og hagfræði Sjálfstæðisflokksins væri óbrúanlegt, og blanda af henni virkaði eins vel og eldsneyti gert úr blöndu vatns og olíu. Afleiðingarnar yrðu óskapnaður sem engu kæmi í verk og yrði rúinn trausti í haust.
Skoðanakönnun gærdagsins staðfesti það.
Hokin þjóð án trúar og vonar, leitar úr öskunni í eldinn, og úr eldinum í öskuna.
Ég fór aðeins á Feisið í morgun, las þar meðal annars yfirlesara þinn, sem varð þess valdandi að ég stofnaði nýja möppu sem hét gáfumenni, og stal tilvitnunum. En annað var ekki eins skemmtilegt. Ég las link á Jónas þar sem hann kallaði þjóðina aumingja fyrir að kjósa íhaldið yfir sig enn einu sinni. Og tæp fjórtán hundruð lækuðu. Orð sem hokið fólk vildi heyra.
Jónas notaði líka þetta orð þegar þjóðin sagði Nei við ICEsave, þá vorum við meiri aumingjarnir Pétur, og hundruð lækuðu.
Þegar stéttastríðið var sem hatrammast þá trúðu margir bláfátækir verkamenn að svarið við eymd kapítalismans væri eymd og manndráp kommúnista. Kreppan lék þá svo illa að þeir sáu ekki að svarið við eymd, væri ekki eymd.
Þegar kjör þeirra bötnuðu, og upplýsingaflæðið úr Gúlaginu jókst, þá snéru verkmenn baki við eymdarboðskap kommúnista, en eftir sátu gáfaðir menntamenn sem höfðu ekki siðferði til að skilja rangindi þjóðfélagstrúar sinnar. Hvað þá að þeir áttuðu sig á því að þeir væru verkfæri í höndum hins siðlausa stórkapítals.
Að tefla eymd gegn eymd er ættað úr ranni þess. Tryggir þeim deilur um keisarans skegg, og meðan ræðst enginn til atlögu gegn hinu svarta valdi.
Það sama er að gerast á Íslandi í dag Pétur, og það er ekkert sem við getum gert til að breyta því. Þú stöðvar ekki tryllta hjörð sem þráir að hlaupa fyrir björg.
Fólk vill ekki mannsæmandi líf fyrir sig og sína, það vill tuða. Við erum sjálfsagt ekki undanskildir með það tuð.
En samt höfum við skæruliðarnir áorkað miklu og getum verið stoltir að. Þó ég yfirgefi holuna í bili þá veit ég alltaf hvar hana er að finna. En ég hef áhuga að finna mér ný búsvæði, kanna lendur trúar og þekkingar. Finn loksins fyrir vott af þeim þroska sem þarf til að kafa dýpra í sumt sem við höfum rætt í gegnum tíðina. Eitt af þessu sumu er að gera aðra atlögu að Paine, en ég hef passað vel uppá blöðin sem þú lést mig fá á sínum tíma.
Grundvallarbarátta hefur verið háð áður, og af henni má læra.
Þó væri ekki annað en vígfimina.
Ég bið að heilsa þér í bili Pétur.
Njótum lognmollunnar áður en fárviðrið skellur á.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.10.2013 kl. 10:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.