Frost á sér sínar skýringar.

 

Frostið í janúar er vegna þess að það er vetur.  Frostið í júlí vegna þess að kalt loft frá Norður Pólnum berst til landsins með sterkri hæð yfir Grænlandi.

Og hagnaður bankanna útskýrir frost efnahagslífsins.

 

Það er ekki skattastefna síðustu ríkisstjórnar, hún gerði aðeins illt verra, það var ekki niðurskurður síðustu ríkisstjórnar, hann gerði aðeins slæmt vont.

Mergsjúging bankanna er meginskýring þess að hér er allt í kyrrstöðu, og þeir sem halda öðru fram, þiggja sporslur frá þeim sem blóðmjólkunina stunda.

 

Og það er ekki lausn að skattleggja þennan hagnað, slíkt er aðeins sú skammtímalausn sem felst í næringu blóðmjólkunarinnar, og lýkur um leið og mjólkurkýrin hættir að mjólka.

Lausnin felst í því að skera niður vexti og aflétta skuldaáþján heimila og fyrirtækja.

Lausnin felst ekki í því að skera niður vaxtarbrodda eða eyðileggja heilbrigðiskerfið endanlega.

Skattalækkanir einar og sér duga ekki, þær fara beint í skuldahítina.  Þær eru líkt og að láta litla trillu fara í togkeppni við öflugan dráttarbát, þó trillan togi í rétta átt, þá verður dráttarbátur stöðnunar og samdráttar lítt var við það átak.

 

Ómenntað fólk, fólk frasa og bábilja stjórnar landinu í dag.  Það þekkir ekki hagsöguna, það þekkir ekki samtímasöguna, veit ekkert hvað er að gerast í þeim löndum Evrópu þar sem frösum þeirra er framfylgt.

Það skilur ekki þann vanda sem við er að etja, og er því ófært að koma með tillögur að lausnum sem virka, sem munu afþýða frostið í efnahagslífi landsins.  Í raun er það hluti af vandamálinu og ein forsenda endurreisnar landsins er að losna við þetta fólk af Alþingi.

 

Erfitt verk bíður þjóðarinnar því ítök vogunarsjóða og fjárbraskara eru rótföst á Alþingi, og ná til allra flokka sem þar sitja.

Það er áberandi að stjórnarandstaðan vælir yfir mörgu, og skammar fleira, en enginn úr hennar röðum hefur haft kjark til að benda í hið raunverulega vandamál þjóðarinnar.

Blóðmjólkun almennings, blóðmjólkun fyrirtækja, blóðmjólkun ríkissjóðs af hálfu fjármagns og fjármagnsafla.

Það er látið eins og hinar háu vaxtagreiðslur ríkissjóðs séu föst stærð sem hafi verið meitluð í steintöflur á svipuðum tíma og boðorðin tíu.  Óumbreytanleg, ekki mannanna verk.  Ekki eitthvað sem hægt er að takast á við, eitthvað sem hægt er að breyta.

 

Það eina sem í raun hefur breyst á Alþingi frá síðasta kjörtímabili er að flokkarnir hafa skipt um hlutverk, en ræðurnar eru þær sömu.

Núna hafa sjálfstæðismenn og framsóknarmenn gleymt öllu sem þeir sögðu um skaðsemi niðurskurðar og mikilvægi þess að bætt væri í til að vega á móti kreppunni.  Og fyrrverandi stjórnarflokkar hafa gleymt að þeir gerðu það sama fyrir ári síðan og þeir gagnrýna núna hástöfum.

Og þeir gerðu það líka árið áður, og árið þaráður, og árið þarþaráður.

Þar, þar, þaráður samdi Sjálfstæðisflokkurinn við AGS um að vernda fjármagn á kostnað þjóðar, eitthvað sem hann gleymdi nokkrum mánuðum seinna þegar flokkurinn lenti alveg óvart í stjórnarandstöðu eftir að Davíð og Styrmir stöðvuðu fyrirhugaða Evrópusambandsaðild flokksins á frægum landsfundi í janúar 2009.

 

Þá töpuðu Bjarni og Illugi fyrir gömlu mönnunum, í dag hafa þeir fengið tækifæri til að bæta fyrir það tap.

Með því að framkvæma alla meginvitleysu ESB í efnahagsmálum, með því að fórna samfélagi fyrir jafnvægi kreppunnar í fjármálum ríkisins.

Tilgangur Brussel er að halda áfram þar sem KarlaMagnús hætti, að skapa Evrópskt stórríki, tilgangur þeirra Bjarna og Illuga er að koma þjóð sinni í ESB.

Kreppan og fátæktin á að lemja fólk til hlýðni.

 

Frost á sér sínar skýringar.

Mannanna afglöp eiga það sér líka.

 

En það er engin skýring að við sem þjóð skulum sætta okkur við óhæfuna, og óhæfufólkið.

Spillinguna, sjálftökuna, sjúkleikann.

 

Sumt er ekki hægt að skýra.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Sex milljónir á klukkustund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 186
  • Sl. sólarhring: 230
  • Sl. viku: 3689
  • Frá upphafi: 1330519

Annað

  • Innlit í dag: 156
  • Innlit sl. viku: 3128
  • Gestir í dag: 146
  • IP-tölur í dag: 143

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband