Kynferðisbrot eru smánarblettur.

 

En hverra???

 

Það er ljótur ráður á þeim sem bera ábyrgð á einhverju sem miður fer að leitast til að minnka sína sök með því að benda á einhvern annan.

Í dag hefur bæði ráðherra og biskup þjóðkirkjunnar talað um kynferðisbrot sem smánarblett á samfélaginu og það er fullyrðing sem ég get ekki tekið undir.  

Samfélagið vill ekki svona brot og það líður ekki svona brot í löggjöf sinni.

 

Samfélaginu hefur hins vegar misjafnlega gengið vel að takast á við þau, en það hefur margt áunnist og viðhorfin í dag í samfélaginu er allt önnur en þau voru bara til dæmis um aldamótin, hvað þá ef við förum aftur til sirka 1985-1990 þegar umræða um kynferðisbrot voru ekki lengur tabú í opinberri umræðu.

Mig langar aftur að vitna í frétt á Mbl.is þar sem viðtal var tekið við Ólöfu Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðing hjá Barnahúsi og birt undir heitinu, Ábyrgð okkar allra að bregðast við.

 

"Ólöf segir að sem betur fer hafi margt breyst á síðustu árum. „Þetta er kerfið eins og það var á 7., 8., og 9. áratugnum, á þeim tíma þegar við hugsuðum að svona væri ekki til á litla Íslandi. En það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan og í dag erum við komin mjög langt miðað við margar aðrar þjóðir.“ Barnahús var stofnað árið 1998 og Ólöf segir að um það leyti hafi mikil framfaraskref verið stigin. Síðan bókin „Verndum þau“ kom fyrst út árið 2006 hefur Barnahús staðið fyrir yfir 100 námskeiðum fyrir fólk í barnastarfi, s.s. hjá íþróttafélögum, skólum, félagsmiðstöðvum og skátunum. Þá sækir allt starfsfólk KFUM og K námskeiðið áður en það hefur störf.".

 

Við erum að alhæfa út frá þjóðfélagi fortíðar og skíta út það sem hefur áunnist án þess að láta dæmi fylgja með um það sem er ámælis vert í nútíð, eða leggja til tillögur og fjármuni í það sem hægt er að bæta.

Ég sem foreldri veit að skóli barna minna er vakandi fyrir þessu og skólahjúkrunarfræðingur sendir upplýsingar til okkar foreldra um efni og námskeið sem tengjast svona málum.  

Einnig má minna á mjög gott starf samtakanna Blátt áfram sem hafa lyft grettistaki í að opna þessa umræðu og með kynningarstarfi sínu fyrir foreldra og skóla.  Starfsemi Barnahús hefur einnig verið til fyrirmyndar og lögreglan hefur leitast við að sérmennta lögreglumenn í að bregðast við á yfirvegaðan og faglegan hátt með hagsmuni foreldra að leiðarljósi.

 

Sumum finnst ekki nóg að gert því sífellt eru að koma upp dæmi um svona brot, en mannleg frávik, ónáttúra, öfgar eða annað er ekki á ábyrgð samfélagsins nema það ýti undir viðkomandi viðhorf, eða samþykkir þau á einhvern hátt.  Til dæmis með þöggun eða jafnvel kárínur gagnvart þeim sem rjúfa þá þöggun.

Fjöldamorðin í Útey eru til dæmis ekki á ábyrgð norsks samfélags, þau áttu sér stað þó þau væru algjörlega andstæð gildismati þess.

Höfum þetta á hreinu, áttum okkur á þessum mun.

 

En það er ofsalega þægileg lausn að draga fjöður yfir sínar eigin gjörðir, ábyrgð, þöggun eða sekt, með því að kenna samfélaginu um allt sem miður fer.

Íslenska kirkjan brást fyrst við alvarlegum ásökun um kynferðisbrot með því að reyna að þagga niður umræðuna, eða snúast gegn því fólki sem vogaði sér að tala um meint brot kirkjunnar manna gegn því sjálfu eða ættingjum þess.

Gott og vel, hún er að reyna að gera upp þá fortíð sína, en ég sætti mig ekki við að hún reyni að klína hluta af sekt sinni á mig og mína, á samfélag mitt sem er að reyna að læra og bæta sig.

 

Eins er það ráðherra Samfylkingarinnar sem hefur haft félagsmálaráðuneytið frá 2007, sem talar um svartan blett á samfélaginu.

Það var allt vitað um Karl Vignir 2007, það komst upp um hann í sambandi við umfjöllunina um Kumbaravog.  Samt var ekkert gert.  Það var ekki gerð tilraun til að rannsaka mál hans, það var ekki reynt að hafa upp á fórnarlömbum hans, ekki reynt að hjálpa, bæta úr, veita þeim réttlæti þó seint væri.

Mál hans varð þöggun að bráð, en það er á ábyrgð viðkomandi stjórnsýslu, sem á engan hátt hefur reynt að axla ábyrgð á þeirri þöggun.  

En talar um svartan blett á samfélaginu.

 

Og það er meinið í þessari umræðu, að þeir sem ábyrgðina bera, reyna að koma af sér sök.  

Með því að tala um samfélagið þá gefa þeir í skyn að aðrir hefðu brugðist eins við í þeirra stöðu.  En þetta er rangt, þessir aðrir voru ekki með ábyrgðina, það voru þeir.

Og þeir eiga að axla ábyrgð.

Biðjast afsökunar, lofa bót, betrun og yfirbót.

En í gjörðum, ekki orðum.

 

Stjórnkerfið fékk tækifæri til að sýna yfirbót þegar málefni Breiðavíkurheimilisins komst í hávegu.

Þá var það viðurkennt að kerfið hafði rænt tugi drengja framtíðinni eins og formaður Breiðavíkurdrengjanna benti á í mjög góðu viðtali.  Og hann spurði, hvernig er hægt að bæta fyrir brotna framtíð, þegar menn eru fyrirfram rændir tækifærum í lífinu??

Er það gert með bótum sem þeim munar um eða er það gert með táknrænum bótum ásamt innilegri afsökunarbeiðni??  Eða er það gert með aumingjahugarfarinu, að kerfið eyði stórfé í að meta meintan skaða einstaklingsins, eins og það sé hægt í svona málum, og síðan fái menn einhverja hungurlús í samræmi við matið??

Síðari kostinn taldi hann hneisu og í raun enn eina vanvirðinguna við alla þá drengi sem þjáðust á Breiðavíkurheimilinu.  

Að sjálfsögðu fór ríkisstjórn þá leið, þannig tókst kerfinu að græða á sínum eigin misgjörðum.  

 

Það er smánarblettur á samfélaginu, að láta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir komast upp með nánasarhátt sinn.  

Því það er smánarblettur á samfélagi að bæta ekki fyrir misgjörðir sem gerðar í þess nafni eða á þess vegum, á þann hátt að sómi sé að.  

Hrunið var þar engin afsökun, allir tug milljarðarnir sem hafa farið í óþarfa vexti handa fjármagninu sanna að ekki var það fjárskortur sem hamlaði sátt sem fórnarlömb harðræðisins gátu sætt sig við.

 

Það er líka smánarblettur á samfélaginu að ekki skuli vera settir nægir fjármunir í að hjálpa fórnarlömbum kynferðisbrota, hvort sem það er gagnvart börnum eða fullorðnum.  

Sú hjálp á að vera ókeypis og í boði þar til hennar er ekki lengur þörf.

Aðeins þannig getum við gefið skýra yfirlýsingu um að okkur sé ekki sama.

 

En það kostar, ég veit það.

Upphróp og hávaði kostar ekki neitt.

Og er góð leið til að fá útrás.

 

En hjálpar ekki neinum, því miður.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is „Smánarblettur á samfélaginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Þar sem ég get ekki að því gert að mér finnst Breiðavíkurdæmið vera að endurtaka sig, að það sé hneykslast á ljótleikanum án þess að mikið sé spáð í að bæta fyrir þau brot sem kerfið lét viðgangast á opinberum stofnunum sem Karl Vignir hafði aðgang að þá langar mig að rifja upp bloggfærslu mína frá 29.09 2009 þar sem ég bloggaði í kjölfar þeirrar sorglegu frétta að enn eitt fórnarlambið frá Breiðuvík hefði fallið án þess að upplifa uppreisn æru, að upplifa fá fyrirgefningu og yfirbót frá samfélaginu.

Færslan var um þessa siðferðislegu ábyrgð okkar sem þjóðar.

Þrettándi september 2009 var svartur dagur í sögu þjóðarinnar.

Þá féll fyrsti Breiðavíkurdrengurinn frá eftir að harmleikurinn í Breiðuvík komst í hámæli.

Og þessi maður féll frá borði óbættur.  Honum hafði engin manngjöld verið greidd fyrir þá vítisvist sem íslensk stjórnvöld höfðu gert honum að afplána í frosnu helvíti órafjarri hans heimili og aðstandendum.

Það er sorglegt því þjóðin skuldaði þessum manni miklar miskabætur.  Hvort þær hefðu dugað til að bjarga lífi hans, veit enginn.  

Í hans tilviki féllu stjórnvöld á tíma.  Og klukka tímans heldur áfram að tifa.  Enginn veit hver fellur næst frá án þess að hljóta sinn skaða bættan á þann táknræna hátt sem miskabætur eru.  

Og hvert fráfall er hneisa fyrir þessa þjóð.

Á meðan hún vissi ekkert, þá var afskiptaleysið skiljanlegt.  En í dag hefur þjóðin enga afsökun.  Og það þýðir ekkert að benda á ráðamenn.  Það erum við sem erum sek.  Því það erum við sem látum smánina viðgangast.

Sanngjarnar miskabætur eru ekki spurning um efni þjóðarinnar, heldur æru.  

Og ærulaus þjóð á litla framtíð fyrir sér, því svona meinsemdir grafa um sig í þjóðarsálinni.  Hvað verður það næst sem við horfum á með blinda auganu.

Hvaða svívirðu látum við næst viðgangast?

Í þessu tiltekna máli, hefur þjóðin ekki efni á því að vera fátæk.  Sumt er þannig vaxið að það verður að gerast.  

Sanngjarnar miskabætur, sem eru unnar í fullu samráði við Breiðavíkursamtökin, eru eitt af því.

Um það eigum við öll að geta vera sammála, þó axir séu á lofti í flestum öðrum málum.

Látum ekki annan dreng falla frá, án þess að hann hafi upplifað, að þjóðin meinti þá afsökunarbeiðni, sem forsætisráherra okkar flutti Breiðavíkurdrengjunum fyrir hönd þjóðarinnar.

Í þessu máli reynir á alla ærlega menn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.1.2013 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 4185
  • Frá upphafi: 1338884

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 3749
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband