Örlagadómur.

 

Dómur EFTA dómsins í ICEsave er örlagadómur þar sem loksins, loksins verður skorið úr um lögmæti þess að ESB þjóð geti krafið EFTA þjóð um bætur vegna innstæðutryggingakerfis Evrópusambandsins.

Krafa breta var alltaf fjárkúgun samkvæmt breskum og íslenskum lögum, þeir löghelguðu hana ekki fyrir dómi áður en þeir hófu innheimtuaðgerðir sínar.

Innheimtuaðgerðir þeirra voru líka brot á stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins sem bannar fjandasamlegar aðgerðir einnar aðildarþjóðar gagnvart annarri.  

En það hefur aldrei verið skorið úr því hvort sjálf krafan, sjálf fjárkúgunin, hafi byggst á lögum og reglum Evrópusambandsins.

 

Fallist EFTA dómurinn á málflutning EFTA ríkjanna, sem sér vitandi hafa aldrei heimilað stofnunum Evrópusambandsins einhliða rétt til að ákveða ríkisábyrgðir EFTA ríkjanna, hvorki takmarkaðar eða ótakmarkaðar eins og ábyrgð á innlánstryggingum er, þá  er ljóst að lögleysa breskra stjórnvalda var algjör, þau eru skaðabótaskyld og þeir ráðamenn breskir sem ábyrgðina bera, sekir um tilraun til ráns og gripdeilda. 

Ótýndir þjófar eins og sagt er.

Eins er ljóst að það innlenda stjórnvald, sem samþykkti óséðan samning við breta um greiðslu á lögleysunni, að það hefur bæði brotið ákvæði hegningarlaga um fjárkúgun sem og ákvæði hegningarlaga um landráð.  

Eins er ljóst að þeir innlendu fræðimenn, til dæmis hjá Lagastofnun Háskóla Íslands, sem tóku undir það sjónarmið breta að krafa þeirri byggðist á EES samningnum, að þeir eru allavega sekir um yfirhilmingu, og að öllum líkindum hafa þeir brotið þetta ákvæði landráðakafla hegningarlaganna;     "Sé þetta í því skyni gert að koma erlendu ríki til þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins á annan hát.".  Í ICEsave samningnum voru skýr ákvæði um slíka skerðingu, bæði var dómsvald framselt til breskra og hollenskra dómsstóla sem og að stjórnvöld viðkomandi ríkja fengu íhlutarrétt yfir fjármálastjórn íslenska ríkisins.  Eins voru eigur ríkisins lagðar að veði vegna ICEsave skuldbindinganna.

Og að lokum er það ljóst að þeir innlendu aðilar sem vegna annarlegs stuðnings við breta fullyrtu að kröfur þeirra byggðust án vafa á lagalegum grunni, að þeir haf brotið 86. gr, 87 gr. og 88. gr hegningarlaganna sem fjalla um meint landráð.  Sérstaklega má nefna 88. gr, þar sem stendur; "Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið eða hlutist til um málefni þess".

Um túlkun á þessari grein þarf ekki að deila, brotið er augljóst, það er aðeins spurning hvar á að hýsa allt brotafólkið eftir að dómur hefur fallið.

 

Í þessu samhengi er rétt að minna á þá fréttamenn sem lásu upp fréttatexta sem innhélt þessa fullyrðingu, "... samkvæmt ICEsave skuldbindingum  vegna EES samningsins ....".  

Falli dómur með íslenska ríkinu, þá þurfa þeir að sæta ábyrgð, annars gilda ekki lög í landinu.

 

Dómur sem sýknar íslensk stjórnvöld af kröfu ESA er því örlagadómur fyrir marga landa okkar, þó íslenska þjóðin fagni slíkum dómi.

Það er ljóst að eitthvað af hinum nýju framboðum mun kæra hina seku þingmenn, hina seku ráðherra, hina seku elítu, og öll þau handbendi sem bretar notuðu við að fá fjárkúgun sína samþykkta.

Samtökin Já Ísland munu leysast upp, hætt verður við aðildarumsóknina að ESB, ekki nema menn ætli að halda áfram aðlögunarferlinu úr fangaklefum Litla Hrauns, skipta þarf um forystu hjá Samtökum Atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, hjá Alþýðusambandinu auk þess sem Samfylkingin og VinstriGrænir hljóta að verða lögð niður.

Ekkert nýtt stjórnmálaafl mun láta slíkt tækifæri sér úr greipum renna.  Það verða allir að lúta landslögum, líka þeir sem völdin hafa.  

 

Augljóst mál, þess vegna er það jafn augljóst að EFTA dómurinn mun ekki dæma íslenska ríkinu í vil.  Þessi réttarhöld er leikrit með fyrirfram skrifuðu handriti.

EFTA dómurinn er ekki sjálfstæður dómsstóll, hann er leppur undir hæl Evrópusambandsins, alveg eins og ESA.

Eina spurningin hvernig snýr hann sig út úr dilemmunni, að kveða upp dóm sem á sér enga tilvísun í réttarheimild eða í EES samninginn sem er skýr um að hann sé á milli sjálfstæðra EFTA ríkja annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar.  

EFTA dómurinn hefur ekki vald til að skerða þetta sjálfstæði, hvernig sem hann reynir það.

Allar tilraunir í þá átt er skýrt brot á EES samningnum, á stjórnarskrám EFTA ríkjanna, og hvað Ísland varðar, skýrt brot á landráðakafla hegningarlaganna.

 

Þetta þýðir að ef íslenski dómarinn í EFTA dómnum ætlar að láta íslensku valdaelítuna sleppa við að sæta ábyrgð gjörða sinna, þá er hann sjálfur sekur um landráð.

Vissulega nýtur hann friðhelgi en það er hvergi kveðið á um það friðhelgi í lögum um landráð, hvergi kveðið á um slíkt friðhelgi í stjórnarskrá Íslands.  

Enda ætti hverju heilvita manni að vera ljóst að dómari getur ekki farið til útlanda og dæmt þar þjóð sína í sektir án lagastoða, eða kveðið upp dóm sem skerðir sjálfstæði þjóðar hans.

Þá þyrftu menn ekki her til að leggja undir sig aðrar þjóðir, dygði bara að múta dómaranum.

 

EFTA dómnum er því vandi á höndum, vandséð hvaða Salómonsdóm hann getur fellt.

Langlíklegast er að hann fallist á kröfu ESA í einhverri myndi og treysti svo á að handbendi breta á Alþingi Íslands fallist á dóminn og snúist ekki til varnar eftir ákvæðum EES samningsins og ákvæðum alþjóðalaga.   Að það verði ekki gefinn út alþjóðleg handtökuskipun á einstaka meðlimi dómsins.

Mörgum finnst þetta eflaust skrýtin fullyrðing en menn vilja alltaf gleyma því að fjárkúgun, hvort sem hún er innlend eða alþjóðleg, varðar allstaðar við lög og dómur sem reynir að löghelga slíka fjárkúgun án tilvísun í skýr lög og að þau lög hvíli á réttarheimild, hann er samsekur, og ef fjárkúgunin beinist gegn sjálfstæðu ríki, þá er gjörningurinn ígildi hryðjuverks.  Kúgun og hótanir gagnvart sjálfstæðu ríki til að ná fram ólögmætum markmiðum er skilgreint sem hryðjuverk.

Ekkert stjórnvald sjálfstæðs ríkis myndi líða slíkan dóm nema íslensk stjórnvöld, því þau styðja hina meintu hryðjuverkamenn.

 

Samt getur EFTA dómurinn ekki sett hvaða vitleysu sem er í dóm sinn, Evrópa er ennþá réttarsamfélag og í slíku samfélagi gilda strangar reglur, til dæmis um réttarheimild viðkomandi dóma.  Héraðsdómur í Noregi ákveður til dæmis ekki að setja af bresk stjórnvöld þó einhver breskur unglingur hafi migið á tröppur ráðhús í einhverju bæjarfélagi.

Að dæma gegn íslenska ríkinu setur allt réttarkerfi Evrópu í uppnám, því ef fordæmi er komið fyrir ólöglegum dómi, þá verður alltaf spurt, hvert verður næsta fórnarlamb lögleysunnar.  Auk ýmsa praktískra spurninga.

Mega stærri þjóðir Evrópusambandsins innheimta fjárkröfur hjá smáríkjum með hótunum án þess að fá þær löghelgaðar fyrst fyrir dómi??  Hver er þá stærðarmörkin á slíkum rétti??? Fer hann eftir fermetrafjölda eða íbúafjölda???  Og hver eru mörkin á stærð smáríkisins, sem nýtur ekki lagaverndar, er það líka fermetrafjöldi eða íbúafjöldi. 

Þarf að setja reglugerð um umgjörðina á slíkum fjárkúgunum??  Og svo framvegis.

 

Eins er það vald reglugerðavalds ESB til að ákveða ríkisábyrgðir einstakra aðildarríkja, án þess að taka það fram í reglugerð sinni, er þetta vald ótakmarkað, eða gildir það aðeins gagnvart smáríkjum??  Má hún skaða fjárhagslegt sjálfstæði einstakra ríkja, má taka allar eigur viðkomandi þjóðar uppí skuld, og svo framvegis???

Þarf reglugerð um slíkar ríkisábyrgðir???, ef það er geðþótti framkvæmdarvaldsins þá er ljóst að aðildarríki Evrópusambandsins hafa afsalað sér fullveldi sínu til Brussel, langt fram yfir það sem kveðið er á um stofnsáttmála sambandsins.

Og er það alltí lagi, gilda engir sáttmálar lengur, er búið að afnema lýðræðið og réttarríkið í Evrópu.  Taka upp alræðisvald skriffinnana í Brussel, alræðisvald Evrópudómsins til að dæma óháð gildandi lögum og reglum???

 

Málið er nefnilega miklu flóknara en það virðist í fljótu bragði. 

Það er ekki svo einfalt að hlífa íslensku stjórnmálastéttinni, íslensku valdastéttinni við ábyrgð sína í ICEsave.

Rangur dómur, án tilvísunar í lög og réttarheimildir, opnar flóðgátt spurninga og vafamála, auk þess að vega að undirstöðum réttarsamfélagsins sem Evrópa byggist á.

Sumir segja að það ferli sér þegar hafið, að fámenn valdaklíka hafi afsalað vald til Brussel langt umfram það sem leyft er í stjórnarskrám viðkomandi ríkja.  Það hafi verið gert til að reyna að bjarga evrunni.  

En það er himinn og haf milli slíks valdaafsals og þess glundroða sem getur hlotist af röngum dómi í ICEsave.

 

EFTA dómnum er því mikill vandi á höndum og vandséð hvernig hann getur landað Salómonsdómi sem nær bæði að bjarga bretum og bandamönnum þeirra á Íslandi, án þess að valda lagalegri upplausn í Evrópu.

Dómur hans er því örlagadómur í margskonar skilningi og það eina sem ljóst er að ICEsave málinu er ekki lokið við uppkvaðningu dómsins.

 

Vissulega vonar maður það að hann dæmi rétt, eftir lögum og reglum. 

Sýknar íslenska ríkið eins og Ísland, Noregur og Liechtenstein gera kröfu um. 

En maður óttast annað.  

 

En það gilda lög í landinu.

Og það er það eina sem skiptir máli þegar upp er staðið.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Kveða upp Icesave-dóm 28. janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Þetta er aldeilis frábær samantekt hjá þér. Það þyrfti að fá einhvern til að þíða þessa grein og stikla á því sem snýr að Evrópulöndum. Einnig má hnýta við smá samantekt á fullveldisafsali ESB ríkja  til Brussels varðandi skipun um björgunarpakka þeirra til fjármálakerfisins. Dagblöð ESB ríkja og lesendur þeirra gætu kjamsað á þeim upplýsingum í nokkra daga til að átta sig á að þessi pakki er einungis til að bjarga bankakerfi Þýskaland og efnahag þess ríkis.

Það þarf líklega að hraða uppbyggingu nýs fangelsis hér á Íslandi og stækka um helming á kostnað Luxuss 1. áætlanna, því það er augljóst að  rúmþörfin mun margfaldast þegar landráðsdómar falla í tugatali á komandi ári og næsta.

Eggert Guðmundsson, 3.1.2013 kl. 15:27

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Versta útkoman fyrir Evrópusambandsríkin væri að vinna málið því þá yrðu þau gjaldþrota. (Fara í ruslflokk við að bæta við sig ríkisábyrgðum upp á samtals 83% af þjóðarframleiðslu.)

En ef þau tapa því yrði það ekki mikið skárra því þá gripi líklegast um sig skelfing og bankaáhlaup. (Þegar innstæðueigendur fá fréttir af því að innstæðurnar þeirra séu í raun ótryggar.)

Guð hjálpi þeim því þau vita ekki hvað þau eru að gera.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.1.2013 kl. 16:05

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Eins og Guðmundur bendir á, er eiginlega alveg sama hvernig dómur ESA fellur.  ESB mun verða í slæmum málum.  Það um það.

Fyrir Ísland skiptir þetta engu máli því neyðarlögin tryggðu það að þrotabú einkabankans bæri endurgreiðsluábyrgð sem ljóst er að mun standast.

Fyrir okkur hin er það eina sem eftir stendur; viljum við draga fyrir landsdóm þá stjórnvaldsaðila sem vildu hengja þessa ábyrgð á íslenskan almenning?

Kolbrún Hilmars, 3.1.2013 kl. 16:42

4 identicon

Það verður enginn "örlagadómur", þó neikvæður yrði, nema hjá þeim sem gefst upp. Við erum réttlætismegin í þessu máli. Þjóðarskuldir eru helsta dánarorsök barna í þriðja heiminum, þjóðarskuldir sem sliga þjóðir og valda þess ekki er eftir peningur í uppbyggingarstarfsemi, og börnin verða sjúkdómum og hungursneið að bráða. Flestar þessar þjóðarskuldir renna til fyrrum nýlenduherra í Evrópu, sem "slepptu" þessum þjóðum eftir aldalöng arðrán og kúgun í krafti kynþáttahaturs og yfirburðakomplexa og veittu þeim "lán" til að standa svo á eigin fótum, í góðri trú að yrði sem yrði. uppbygging gengi hægt eftir að þjóðunum hafi systematískt verið rústað um aldir og allur kraftur úr þeim, og við tók áratugalöng skuldaþrælkun þessara þjóða. Þetta ER sannleikurinn! Og sannleikurinn mun sigra og þjóðarskuldir gerðar ólöglegar. Kynnið ykkur átök eins og makepovertyhistory.org og sjáið hvað margir góðir og valdamiklir menn eru tilbúnir að leggja málinu lið gegn fyrrum nýlendukúgurunum og núverandi lánardrottnunum í Evrópu, menn eins og Bill Gates, fleiri miljarðamæringar og fyrrum forsetar og ótal helstu trúarleiðtogar heims. Verum þeirra megin, Guðs og sannleikann, en ekki Evrópu og arðráns hennar á mannkyninu. Gefumst ekki upp! Þökkum fyrir að vera eyland og bera ekki ábyrgð á þjóðarmorðum og arðráni Evrópu, tví-heimsálfa landa og með Indjánablóð í æðum í bland meira að segja samkvæmt rannsóknum íslenskrar erfðagreiningar. Við eigum von. Evrópa hefur fyrirgert rétti sínum. Hún mun stórtapa ef hún dirfist að þjarma að okkur. Við eigum volduga vini sem standa með okkur. Þeir eru aðrir en íslenskur almenningur heldur. Það voru þeir sem hjálpuðu okkur að vinna þorksastríðin og komu í veg fyrir ýmislegt sem Evrópa plottaði gegn okkur. Og Guð er með þeim sem eru í liði með okkar minnstu bræðrum.

New World Order...Death to the Old World Order: a Euro-centric world of injustice! (IP-tala skráð) 3.1.2013 kl. 19:41

5 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Þetta er allt rétt hjá þér IP-tala skráð. Réttlætið er það sem skiptir máli og það réttlæti  fyrirfinnst einungis hjá hverjum og einum einstaklingi.

Lög ríkja eru byggð  á trúarbrögðum og siðfræði margra alda, lög sem boða réttlæti þeirra og jöfnuð. Réttlæti er stundum bara sumra og því skulum við berjast fyrir réttlæti allra. 

Ég tek undir skrif Guðmundar hérna fyrr á síðunni og er sammála honum um að Íslandi verði ekki dæmt á grundvelli ESB reglna, því það þýddi endalok bankakerfis ESB. Um þetta skrifaði ég á mörgum pilsasíðum 2008 og 09.

IP-tala , Ég er svolítið forvitinn um vin okkar íslendinga,þann volduga sem hjálpaði okkur í síðustu stríðum.

Ég vona að það sé ekki Guð. Því ef það er hann, þá vill hann að við hjálpum okkur sjálf. 

Sem við að sjálfsögðu gerum.

Ef ekki, þá hver er hann?

Eggert Guðmundsson, 3.1.2013 kl. 21:36

6 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Frábær pistill hjá þér að vanda, Ómar.

Magnús Óskar Ingvarsson, 3.1.2013 kl. 21:46

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið góða fólk.

Guðmundur, ég held að það sé búið að breyta reglunum, svo það er spurning með áhrif dómsins á núverandi kerfi.

En í þessum pistli fókusa ég á hlut sem alltof lítið er ræddur, og það er skorturinn á réttarheimild ESB til að setja reglur sem innihalda beinar eða óbeinar ríkisábyrgðir.

Þetta væri eins og þú fengir alltí einu á þig körfu uppá húsið þitt því þú hefðir valdið nágranna þínum sálartjóni með því að ganga reglulega í gulri skyrtu.  Eitthvað sem þú vissir ekki að væri bannað, enda ekki bannað en í reglugerð um almennt heilbrigði var varað við áreiti sem valdið gæti öðrum tjóni.

Svo þegar nágranni þinn fór á taugum, út af álagi í einkalífi og vinnunni, þá ákvað hann að kæra þig á grundvelli þessarar reglugerðar og fékk á þig dóm út frá óbeinni sönnunarfærslu.

Þyldi réttarþjóðfélagið slíkan dóm, byggðan á geðþótta, ekki ákvæðum laga???

Þetta er að mínum dómi grunnveikleiki málatilbúnaðar ESB, fjárkúgun þeirra er ekki í neinum takti við eðlilegar leikreglur réttarríkisins.  

Skaðabótaábyrgð þarf að vera þekkt fyrirfram, og hún þarf að styðjast við lagaheimildir.  

ICEsave málið uppfyllir hvorugt skilyrðið.

Annars vil ég segja það að það er viss gálgahúmor í greininni, en að baki sú djúpa alvara, að menn eigi ekki að komast upp með ofbeldi og fjárkúgun.

Hvað þá að styðja slíkan gjörning.

ICEsave stríðið er rétt að byrja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.1.2013 kl. 23:01

8 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Í djúpri alvörunni er ábyrgð, eða sama ábyrgð og  þegar þú skammar drengina þína fyrir einhvern hlut sem þeir hafa gert rangt, að þínu áliti. Hver og einn býr til sitt réttlæti og samsvarar því við samfélag sitt. Réttlæti manna býr við réttlætiskennd hvers og eins og samfélagið reynir að sameina þetta réttlæti með lögum. 

Með lögum skal land byggja.

Uppeldið er djúp alvara og samfélagsleg ábyrgð felst í uppeldinu og rótfestu réttlætisins fyrir alla.

Eggert Guðmundsson, 3.1.2013 kl. 23:20

9 Smámynd: Steingrímur Helgason

Algjörlega kórrétt greiníng hjá þér.

Steingrímur Helgason, 4.1.2013 kl. 00:35

10 identicon

Hvenær á að lögsækja Gordon Brown og breska ríkið fyrir að misnota hryðjuverkalögin og hæðast þannig að vestrænni siðmenningu og öryggi jarðarbúa?

Anna (IP-tala skráð) 4.1.2013 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 60
  • Sl. sólarhring: 187
  • Sl. viku: 5377
  • Frá upphafi: 1338835

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 4735
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband