Hagsmunasamtök heimilanna á villigötum.

 

Hagsmunasamtök heimilanna benda réttilega á að lífeyrissjóðirnir bæta upp sín eigin afglöp með því að blóðmjólka heimili landsins.  

En þau eru útí fjósi bjánaumræðunnar þegar þau álykta  

"Stjórn HH skorar á alla stjórnarmenn, forstjóra og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða sem bera ábyrgð á því hvernig fór að segja af sér,".

Hvað kemur Hagsmunasamtökum heimilanna við hverjir sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna eða hvaða menn þeir ráða í vinnu við að stýra sjóðunum???  

Vissulega geta einstaklingar inna HH haft skoðanir á stjórnarfyrirkomulagi lífeyrissjóðanna en þá viðra þeir þau sjónarmið á viðeigandi vettvangi.

Innan HH eiga þeir að hafa vit á að berjast fyrir heimili landsins en ekki að skapa gegn sér óvinafagnað sem lætur umræðuna snúast um allt annað en þau brýnu hagsmunamál sem þetta fólk tók að sér að berjast fyrir.

 

Um hvað eiga Hagsmunasamtök heimilanna að álykta þegar þau benda á hin meintu afglöp.  

Jú, þau eiga að krefjast þess að frekari afglöp eigi sér ekki stað í framtíðinni.

 

Það felst í orðinu blóðmjólkun að það er stundarredding sem skaðar til lengri tíma. 

Lífeyrissjóðirnir eiga ekki að skaða heimili landsins þó þeir geti fegrað bókhald sitt tímabundið.

Heilbrigð skuldastaða heimilanna er forsenda þess að hagkerfið gangi til lengri tíma litið og blóðmjólkun þeirra skaðar því framtíðar ávöxtun sjóðanna því án heilbrigðs hagkerfis er engin ávöxtun.

Svo einfalt er það.

 

Ef mennirnir sem sáu ekki bóluhagkerfið þenjast yfir þolmörk og gerðu ekkert í að vernda eignir sjóðanna, sjá ekki heldur skaðsemi þess að heil kynslóð fólks í þeirra eigin samfélagi sé gerð að skuldaþrælum til lífstíðar, þá eru þeir afglapar og eiga að taka poka sinn.

 

En það er þannig með afglöp að það er ekki svo augljóst að fólk sjái þau.

Málflutningur HH á því að vera á þeim nótum að upplýsa  samfélagið um langtíma skaðsemi verðtryggingarinnar og um skaðsemi skuldaþrælkunarinnar.

Rökin eru því ekki fyrst og fremst fjárhagsleg heldur líka samfélagsleg og þau eiga að taka tillit til alls kostnaðar, jafnt í núinu sem í framtíðinni.

Rökin eiga líka að vera siðferðisleg, þau eiga að benda á að afglapar sem tapa svona miklum peningum í vasa auðmanna, að þeir eiga að gera allt sitt, sem þeirra mannlegur máttur býr yfir, til að bæta fyrir tjón sitt.

Og að koma heimilum landsins aftur á réttan kjöl, er grundvöllur þess að þeir fái æru sína aftur.

 

Hagsmunasamtök heimilanna hafa því miður misst dálítið sjónar á þeim markmiðum sínum. 

Þau hafa bæði misst sig í tölulegu tuði yfir meintu svigrúmi banka til afskrifta eða látið gerendur Hrunsins komast upp með að stýra umræðunni með því að ráða Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að bulla um meintan kostnað við skuldaleiðréttingu.

Og á meðan umræðan snýst um það sem ekki skiptir máli, þá er ekki nema von að árangur af baráttu samtakanna sé lítill.   Eða hreinlega enginn.

 

Núna er samt lag því af einhverjum ástæðum þá er Útburðurinn kominn í umræðuna og þingmenn farnir í alvöru að ræða um raunverulegt réttlæti í skuldamálum heimilanna.

Það er því eins og að pissa í skóna sína að falla fyrir spunataktík Samfylkingarinnar og tala um afsögn út af gjörðum í fortíð þegar gjörðir í nútíð eru það sem máli skiptir fyrir heimili landsins.  Það er ekki hægt að breyta hinu liðna en hið liðna á ekki að vera skálkaskjól óhæfuverka og afglapa dagsins í dag.

Aðeins þeir sem eru á móti raunverulegu réttlæti, hafa hag af að öll umræða snúist um fortíð en ekki nútíð.  

Og þessir þeir, eru stuðningsmenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

 

Spurningin er hvort þessir þeir móti hernaðartaktík HH og ef svo er þá munu HH engum árangri ná í hagsmunabaráttu sinni fyrir heimili landsins.

Og það getur verið skýring þess heimili landsins eru ennþá í spennutreyju Hrunskuldanna þó maður skyldi ætla að hagsmunasamtök sem höfða til tugþúsunda ættu að hafa sigur í þeirri baráttu.

Ekki er andstæðingurinn svo burðugur, búinn að tapa hundruðum milljörðum og hefur sannarlega afskrifað hundruð milljarða handa skjólstæðingum sínum án þess að nokkur milljóneri hafi þurft að þola Útburð.

Ef fjármálamafían er ekki með tapaðan málstað í áróðursstríðinu, þá spyr ég hvað er tapaður málsstaður????  Allavega þarf sérstaka hæfileika til að tapa stríðinu.

Hæfileika sem fimmta herdeildin sérhæfir sig í.

 

Og á meðan þurfa þúsundir barna að þola Útburð.

Villigötur eru því ekki líðandi þegar það er haft í huga.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Alþingi geri úttekt á lífeyrissjóðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Kona af erlendum uppruna, og algjörlega mállaus á íslensku, var sökuð um að bera nýfætt barn út. Hún fær væntanlega á sig dóm, þó ekki sé ljóst hvernig atburðarrásin var í þessu Kex-máli.

Bankar og lífeyrissjóðir bera út börn á kolólöglegan hátt, en sleppa við dóm?

Það er víst ekki á valdi HH eins og sér, að gera eitthvað í þessum alvarlegu mannréttindabrotum sem viðgangast á Íslandi.

Ný framtíð er með fund í kvöld fimmtudag kl. 20.00, í Muffins Bakery Hamraborg 3, Kópavogi.

Þar verður eftirfarandi útskýrt:

1.     Hvernig framkvæmd verðtryggingar er lagabrot.

2.     Hvernig hægt sé að hverfa frá verðtryggingu.

3.     Hvernig hægt sé að ná sáttum við fjármálageirann.

4.     Hvernig hægt sé að stöðva útþenslu bankanna.

Sýnt verður dæmi um rétt reiknaðar verðbætur, hvernig slík lán lækka stöðugt frá fyrsta gjalddaga.

Vakin verður athygli á mikilvægri réttarstöðu fólks með gengistryggðu lánin.

Ef einhver dugur væri í ríkisfjölmiðlunum, og þeir vinna samkvæmt lögum, þá mæta þeir og gera sanna frétt um þennan fund, og sýna í fréttum RÚV!!!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.2.2012 kl. 13:37

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Anna.

Ég fékk rúma 900 gesti í dag svo við höfum allavega gert okkar besta til að kynna þenna fund.

Ég með að ergja fólk og þú að vekja athygli á fundinum.

Gangi ykkur vel.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.2.2012 kl. 00:02

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Er spurningin um misnotkun eða rétta notkun á lífeyrissjóðum ekki hagsmunamál heimila? Síðast þegar ég vissi eiga öll heimili lífeyrissparnað og/eða -réttindi.

Það er einn maður öðrum fremur sem tapaði hvorki af húsinu sínu né lífeyrissparnaði í hruninu. Það er fjármálaverkfræðingurinn og bankastjórinn sem stofnaði sinn eigin prívat lífeyrissjóð, og veitti sjálfum sér veðlán úr sjóðnum út á fasteignina sína. Hann á ennþá húsið, og sjóðinn, og það besta: bæði eru óaðfararhæf!

Þessi maður er "set for life" eins og það er kallað á engilsaxnesku. Lífeyrissjóður hans mun a.m.k. alltaf sjá honum fyrir húsnæði. Ef starfstekjur hans það sem eftir er starfsæfinnar duga ekki til framfleyta honum er húsið það stórt að hann getur alltaf selt það seinna meir og minnkað við sig til að losa pening í ellinni.

Þar sem bæði eru óaðfararhæf getur hann farið í gjaldþrot með sínar skuldir hvenær sem er, og samt haldið bæði húsi og sparnaði, með því að leigja af sjálfum sér.

Ég myndi gjarnan vilja fá að herma eftir þessum fyrrum bankastjóra og háskólakennara í fjármálaverkfræði.

P.S. Fyrst að Anna er að vekja athygli á fundi langar mig að vekja athygli á þessum:

Laugardagsfundur: Lífeyrissjóðirnir í ólgusjó

Lífeyrisstjóðakistan

Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur, tekur á einu heitasta málefni samfélagsumræðunnar í dag á næsta laugardagsfundi, sem fram fer þann 11. febrúar n.k.

Að undanförnu hefur Ólafur Ísleifsson verið ómyrkur í máli þegar kemur að lífeyrissjóðunum en í erindi sínu mun hann m.a. ræða þær hættur sem steðja að lífeyrissjóðum landsmanna og nauðsynlegar úrbæturí ljósi nýútkominnar skýrslu um þessi mál.

Fundurinn hefst á erindi Ólafs Ísleifssonar kl. 13:00 en í framhaldinu má búast við líflegum og upplýsandi umræðum. Fundinum verður slitið kl. 15:00

Allir velkomnir. Sjá viðburð á Facebook.

 Sjá heimasíðu Grasrótarmiðstöðvarinnar: www.grasrotarmidstodin.is

Guðmundur Ásgeirsson, 10.2.2012 kl. 02:23

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Hagsmunir heimilanna er að fá leiðréttingu á Hrunskuldunum, og losna við verðtrygginguna sem er skipulögð eignaupptaka.

Þið krefjist afsagnar þeirra sem standa í vegi fyrir þessum baráttumálum ykkar.  Þá vísið þið í meint afglöp fortíðar sem hafa bitnað á umbjóðendum okkar og setjið þau í samhengi við áróðurinn gegn heimilum landsins í dag.

Áróður sem meðal annars er kostaður af þessum afglöpum.

Þetta er allt annað samhengi, það setur áhersluna á nútíð og framtíð með tilvísun í fortíð. 

HH setur fortíð í öndvegi og rífst um hana, og á meðan ná samtökin engum árangri.

Enda hver er árangurinn???

Gengisdómurinn en hann var Hæstaréttar, ekki ykkar.

Þetta er ekki illa meint en þegar líf er í húfi þá mega menn ekki vera vitlausir.  Og taktík HH er hrein og klár heimska.

En gætið að ykkur með Ólaf greyjið, hann er ekki ykkar maður.

Sem segir allt um taktíkina.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.2.2012 kl. 08:59

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Takk fyrir. Ég mætti á fundinn í Kópavogi. Ég verð alltaf betur og betur meðvituð um hvernig lögbrotin eru hreinlega kúguð í gegn, með þöggun fjölmiðla, og vegna afskipta/sinnuleysis almennings.

Útskýringar á vinnubrögðum bankanna eru hrikalega Villta-Vesturs-líkar! 

Það voru of fáir á fundinum, og ekki í neinu samræmi við þá auglýsingu sem sá fundur fékk á þínu bloggi! Sannleikann forðast íslendingar flestir, en krefjast samt réttlætis???

Betur má ef duga skal!

Annars ætti bara að taka kosningaréttinn af þessum afskipta/sinnulausa almenningi. Eru allir kannski á deyfandi þunglyndis og kvíðalyfjum, sem deyfir almenning svona hrikalega fyrir því sem er raunverulega að gerast?

Er Actavis að gera íslendingum eitthvað gott á Íslandi?

Ég veit ekki hvað er að?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.2.2012 kl. 17:44

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Anna.

Ef ég hefði einhverjar væntingar um að fólk hjálpaði sér sjálft, þá væri ég ekki hér.

Rökin fyrir réttlæti eru það sterk að það eina sem hindrar að þau nái fram að ganga, erafskiptaleysii þeirra sem málið varða.

Ég sagði það einhvern tímann fyrir langa löngu, og hef ítrekað það nokkrum sinnum þegar um það hefur verið spurt, að ég myndi aldrei lyfta litla fingri til að hjálpa þeim sem vilja ekki hjálpa sér sjálfir.  Einu sinni er nóg til að uppfylla mínar samfélagslegar skyldur .

Ég er ekki hér vegna þess að fólk láti sig líf sitt og limi varða, ég er vegna þess að það gerir það ekki. 

Ég geri það vegna þess að ég vill verða afi, svo gengu auðmenn of langt, þeir misbuðu réttlætiskennd minni.  En samt, ég hefði ekki lagt af stað út í stríðið ef ICEsave hefði ekki komið til.

Og ég er eða réttara sagt hef verið aðeins í ICEsave stríði, annað er svona uppfylling til að halda síðunni lifandi.

En það sem gerðist í Breiðagerði, það hreyfði við mér á þann hátt að þegar mér var bent á að siðuð manneskja léti þetta ekki kjurt liggja, þá varð ég að gera mitt,.

Og þetta mitt er bloggtörn mín síðustu 3. vikna, með hléum því ég reyndi að hundsa hugsunina að mér bæri skyldu til að gera eitthvað.  En það gekk ekki til lengdar.

Lesturinn hér er sóttur, með kjafthætti og óvenjulegri nálgun á málefni sem ég blogga um.  Eða eitthvað, veit ekki alveg hvað hreyfir IP tölurnar, veit að það tengist ekki því sem ég er í raun að segja.

Þetta er meira eins og samlíf, ég uppfylli eftirspurn fyrir kjafthátt, og um leið þá kem ég mínu að, aftur og aftur eins og ég væri síendurtekin Kóka Kóla auglýsing.

En það sem ég segi, eða það sem þú segir, per se skiptir ekki máli.

Ef Ný framtíð vildi að fólk mætti þá hafði það ekkert að segja að treysta á mátt góðs málefnis.  Það er staðreynd að þeir sem eiga hagsmuna að gæta, mæta á það lægsta af því lægsta, síðu Jónasar DV stjóra sem sérhæfir sig í framgangi niðurrifs og þrælkunar þjóðar sinnar.  Ef þú vilt auglýsa, þá biður þú Jónas um náð og segir honum að þetta þjóni hagsmunum Brussel eða þetta snúist um eitthvað neðan beltis.  Þá kveikir hann og auglýsir, og þá færðu fólk á fund.

Ef Ný framtíð vill ekki ná árangri með því að taka sér stöðu með sora og lágkúru, þá verða þeir að sækja sér athygli, og það er viss kúnst.

En í raun auðveld, mínar IP tölur eru yfir 500 í dag, og ég fer létt á topp tíu á blogginu þegar ég vil.  Samt blogga ég ekki í þágu vinsælda eða ákveðins málsstaðar, í þeirri merkingu að aðrir samsinni sig við það sem ég er að segja.

Spáðu því í hvað samtök, sem vissu hvað þau væru að gera, myndu ná miklum árangri er þau beittu sér í þeim raunveruleika sem Ísland er í dag????

Þetta snýst allt um sjóvið og að skapa þrýsting, að telja stjórnvöldum í trú um að einhver standi  að baki baráttu þinni, það er að þessi einhver sé almenningur sem hefur verið rændur.

Það eina sem má aldrei gera, er að trúa því að venjulegt fólk geri eitthvað í sínum málum.

Ef þú fattar það, og fattar hvar þetta fólk er, þá nærð þú árangri.

Ef þú trúir að það sem þú ert að gera sé einhvers virði, þá sættir þú þig við raunveruleikann eins og hann er, og vinnur eftir honum.

Annað er ávísun á tóma sali Anna mín.

Því miður en svona er lífið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.2.2012 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 83
  • Sl. sólarhring: 388
  • Sl. viku: 5574
  • Frá upphafi: 1327398

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 4979
  • Gestir í dag: 74
  • IP-tölur í dag: 74

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband