29.12.2010 | 09:30
Nú er komið nóg af skrípaleiknum.
Þó sekt fólk í ríkisstjórn Íslands hafi með logandi ljósum fundið manneskju, sem kann ekki að skammast sín, þá á þjóðin að kunna að skammast sín.
Og neita að skattfé þjóðarinnar sé varið í einelti og ofsóknir.
Forsendur á ákæru gagnvart ráðamönnum vegna Hrunsins voru alltaf vafasamar. Ekki verður séð að á ákveðnum tímapunkti hafi þeir haft upplýsingar sem kröfðust beinna aðgerða gegn bönkunum. Þeir fengu hæstu einkunn matsfyrirtækja, starfsemi þeirra og gildi var vegsömuð af stofnunum eins og OECD og ekki var þverfótað í ýmsum fundasölum þar sem háskólafólk og aðrir andans menn klöppuðu og klöppuðu fyrir snilld útrásarvíkinganna okkar.
Nöfn þessa uppklappara eru þekkt, það er fólkið sem stendur með stærstu steinana, tilbúið að grýta Geir.
Einnig verður ekki séð að nokkurt stjórnvald, að nokkur stjórnmálamaður hefði haft kraft og styrk, til að fylgja slíkri atlögu eftir. Okkar langöflugasti stjórnmálamaður, síðustu hálfa öldina eða svo, varð í gras að lúta fyrir einum anga útrásarinnar í fjölmiðlamálinu, og þó vildi hann ekki annað en að einstaka auðmenn gætu ekki keypt þá eins og annað í þjóðfélaginu.
Hvernig halda menn að léttari þungavigtarmenn, án nokkurs stuðnings í þjóðfélaginu, nema náttúrulega Ögmundar og hann getur ekki einu sinni varið Lilju, hefðu getað lagt risann allan þegar einn angi varð stjórnkerfinu ofviða?????
Þeir sem segja að þetta hefði verið hægt, að það hefði átt og það hefði verið hægt að snúa auðmenn niður á árinu 2006, þeir bulla. Þannig er það bara.
Þetta er eftirá skýring, sett fram af mönnum sem sögðu allt annað árið 2006, og hefðu þá verið þyngdin í mórölskum stuðningi við útrásarmenn.
Vissulega hefði verið gott að bankarnir hefðu verið lagðir þegar hægt var, en það voru engar forsendur fyrir því.
Þá er gripið til þeirra röksemda að afglöp hefðu átt sér stað í varnarbaráttu stjórnvalda á árinu 2008.
Eftirá er augljóst að margt hefði betur mátt fara, það er líkt og blinda hefði slegið allt stjórnkerfið og út á við látið eins og allt væri í stakasta lagi.
En þannig bregðast menn víst við bankakreppum, það er til einhver handbók þar sem kafli 1-10 fjallar um að láta eins og rótfast bjarg þó aðstæður séu líkt og kviksyndi.
Ekki aðeins íslensk stjórnvöld létu svona, það létu allir svona. Svo seint sem í nóvember 2008 þá gaf AGS út spá þar sem horfur ársins 2009 voru sagðar bærilegar. Þá var samt ljóst að bankakerfi Bretlands og Bandaríkjanna væri hrunin, aðeins leiktjöld ríkisvalds héldu þeim á floti. Og allir vita að horfur eru ekki bærilegar þegar tveir meginfjármálamarkaðir Vesturlanda eru rústir einar.
Og framtíð evrusvæðisins var mjög dökk.
Samt var ástandið Harderað, þetta var eiginlega allt í himnalagi og er enn.
Samt er evran að hrynja og ekkert fær henni bjargað.
Og fyrir þessi taktísku viðbrögð vill Alþingi Íslendinga ákæra.
Gott og vel, en þá eru allir sem ábyrgð bera ákærðir.
Annað er réttarhneyksli, Alþingi til skammar, og þjóðinni til háðungar ef hún lætur smán þess viðgangast.
Vilji menn gera Hrunið upp með eftirá ákærum, þá ákæra menn alla, eða engan. Allt annað er pólitískur skrípaleikur.
Og öllum til vansa og æruleysis að koma þar nærri.
Jafnvel þeim sem aðeins sinna vinnu sinni. Það er nefnilega til vinna sem hefur æruleysi og smán í för með sér. Sigríður Friðjónsdóttir er í einni slíkri.
Það má meira að segja færa rök fyrir að fjölmiðill sem útvarpar þessu væli hennar, að hann skíti sig líka út, í raun skitna allir út sem koma nálægt þessum skrípaleik.
Og það er nægur skítur í dag i þjóðfélaginu, þó við bætum ekki vitandi vits við hann.
Erlent stórveldi er með fólk á launum við að stela skattfé þjóðarinnar. Og þessir launamenn eru svo öruggir með sig að þeir mæta glottandi í vinnu hjá fjölmiðlum þjóðarinnar og tala um skuld, ekki meinta skuld, eða kröfu, nei þeir tala um skuld þjóðarinnar við breta.
"ICESaveskuldin" getur hækkað svo og svo mikið er næstum því daglega sagt í fréttatímum Ruv.
Þetta gera launamennirnir því þeir njóta verndar æðstu ráðamanna þjóðarinnar. Þeir eru svo öruggir að þeir fela ekki slóðina, landráð þeirra og svik blasa við öllum.
Og þjóðin ákærir Geir, manninn sem var sekur um það eitt, eins og margir aðrir, að trúa á hina nútímalegu útfærslu gullgerðamanna, í stað þess að nota blý til að búa til gull, þá var gullið búið til úr skuldum, með sama árangri, glópagulli.
Um þessa trú er Geir sekur eins og syndin en hann var ekki einn um hana. Fangarnir yrðu fleiri en fangaverðirnir ef allir ættu að sitja inni fyrir hana. Hinir trúuðu kusu Geir, því þeir voru meirihluti þjóðarinnar.
Lýðræðið kaus glópagullið, það var röng ákvörðun, en sá sem var kosinn, ber ekki ábyrgðina.
Rangar ákvarðanir eru alltaf teknar, það er lærdómur þeirra sem mótar framtíðina.
Og um það eiga átök dagsins að snúast, við getum ekki breytt sögunni, auðmenn voru ekki felldir 2006.
En við getum fellt þá 2011.
Því nútíðin ræður aðeins yfir framtíðinni, fortíðin er aðeins lærdómur.
Með því að láta launamenn breta ákæra Geir, þá er okkar eini lærdómur sá, að það er gott að láta ræna sig, og auðránið hið síðara verður fest í sessi.
Því sá sem berst alltaf við fortíðina, hann tapar framtíðinni.
Það er verið að ræna okkur núna.
Kveðja að austan.
Neitað um gögn tengd Geir H. Haarde | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 487
- Sl. sólarhring: 704
- Sl. viku: 6218
- Frá upphafi: 1399386
Annað
- Innlit í dag: 413
- Innlit sl. viku: 5268
- Gestir í dag: 380
- IP-tölur í dag: 375
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vel sagt... sammála.
Gunnlaugur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 29.12.2010 kl. 09:37
það sem ég ekki skil og mun seint skilja er, afhverju er enginn dreginn til ábyrgðar á íslandi fyrir augljóst klúður ?
Óskar Þorkelsson, 29.12.2010 kl. 09:45
Ágæti Ómar Geirsson - tek undir ALLT hjá þér og "glópagullið" er snilld.
Það er sorglegt ef þessi kona ætlar að þvinga út gögn sem henni ber ekki að fá - nógu mikil er skömm Alþingis og okkar allra að taka Geir einn fyrir þótt rkki bætist við fleiri mannréttindabrot gegn honum.
Bestu kveðjur til þín og gleðilegt nýtt ár og kosningar.
Ólafur Ingi Hrólfsson, 29.12.2010 kl. 10:12
Þetta er allt rétt hjá þér Ómar.
jónas þór (IP-tala skráð) 29.12.2010 kl. 11:07
Blessaður Óskar.
Hvað er svona augljóst við klúðrið????
Átti að túlka jákvæðar skýrslur OECD eða matsfyrirtækjanna, á þann hátt að allt sem sagt var í þeim, átti að túlka öfugt???
Og á hvaða forsendum??? Út frá skýrslu doktoranna, Jóns Daníelssonar og Gylfa Zöega, þar sem þeir færðu sterk rök fyrir að bankana átti að taka niður strax árið 2006. Hvaða spámiðil hundsaði Geir árið 2006 sem sagði honum frá þessari skýrslu sem var skrifuð í ársbyrjun 2009??? Væri ekki gott að hafa nafnið á honum og staðfestan spádóm hans áður en við tölum um eitthvað sem var augljóst árið 2006??
Hverjum fannst þetta augljóst???? Ég er ágætlega lesinn, en ég man ekki eftir hagfræðingi úr háskólasamfélaginu sem benti á hið augljósa fyrr en á vormánuðum 2008, það var Gylfi Magnússon, lektor, og það sem hann sagði var ekki augljósara en það, að síður dagblaðanna fylltust ekki af greinum annarra háskólamanna, virtra prófessora eða annarra sem tóku undir orð Gylfa.
Og hvað var svo augljóst, fólk talar um skýrslu Buiter og Sibert. Gott og vel, ekki veit ég til þess að þau hafi spáð falli bandarísku bankanna, sem féllu á undan þeim íslensku. Og dómgreind Buiters er ekki betri en það að í dag er hann hagfræðingur hjá gjaldþrota banka. Vissulega skal ég játa að það sem þau bentu á um skuldsetningu og stærð baklandsins var nokkuð ljóst, en það var ekki almannarómur, og ómarkvisst því sömu hættur blöstu við mun stærri þjóðum. Og á það var ekki minnst orð.
Eigum við að vitna í hagfræðing Danske banka, hann var sjálfur gjaldþrota, þurfti aumingjaaðstoð til að fegra bókhaldið.
Það dregur alltaf úr trúverðugleika manna þegar þeir eiga að benda á hóp grænna manna, og af tíu sem eru augljóslega grænir, benda þeir aðeins á einn eða tvö því þeir hafa hagsmuni af því.
Staðreyndin er sú að sú blekking sem réði hugum íslenskra ráðamanna, hún réði þjóðfélögum Vesturlanda, enda allflest komin í þrot, og hin sem það eru ekki, eru beint á leiðinni þangað.
Það var ekkert augljóst við þetta dæmi. Annað en að græðgin tók allt vit úr sambandi. Og ætla sér að taka einn úr, og segja, þú ert sekur, þegar svo margir voru sekir, það er skrípaleikur.
Og ennþá ömurlegri skrípaleikur því það sem átti að vera augljóst, að það blasir við öllum í dag. En samt er haldið á sömu braut.
Hrunverjarnir ráða öllu á Íslandi í dag. Og í stað þess að lofa mönnum gull og grænum skógum, þá lofa þeir fátækt og eymd. Þeir segja satt í dag, ljúga engu um þá örbirgð og þrældóm sem þeir bjóða þjóð sinni.
Og samt fara þeir með öll völd, ekki skjóli hægri manna eins og var, heldur í skjóli íslenskra vinstrimanna. Gagnrýni þeirra á hið augljósa, reyndist aðeins vera þrá eftir völdum. Aðeins Ögmundur Jónsson meinti brot af því sem hann sagði, en tekur samt völdin fram yfir staðfestuna gegn auðræningjum.
Það er aðeins ein leið til að gera Hrunið upp Óskar, og það er ekki að draga einhvern til ábyrgðar. Heldur að læra af Hruninu, láta það ekki endurtaka sig, og ekki hvað síst, bæta þolendum þess tjón sitt.
Kallast réttlæti.
Á meðan almenningur og fyrirtæki eru rænd af Hrunverjum, í umboði stjórnvalda, þá er ekki slíku réttlæti til að dreifa. Að láta ránið viðgangast, geri hvert og eitt okkar sekari en Geir Harde var nokkurn tímann.
Hann var í góðri trú, við vitum betur.
Á því er grundvallarmunur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.12.2010 kl. 11:27
Takk fyrir innlitið Gunnar, Ólafur og jónas. Og það er gott að vita að fleirum blöskri en mér, það er eins og fólk haldi að smánin hverfi ef allir þegja.
Það skiptir ekki máli hvar menn standa í pólitík, ef menn þekkja ekki muninn á réttu og röngu, þá í það minnsta eru menn ekki hæfir til að byggja upp eitthvað nýtt og betra á rústum þess gamla.
Pyttur sem Andstaðan hefur því miður fallið í.
Ég er ekki að krítísera að ákært sé fyrir Hrunið. Það er réttmæt skoðun sem ég hef fært rök fyrir að ég sé á móti, en aðrir hafa fært rök fyrir að þeir séu fylgjandi. Ekki nema gott um það að segja.
En það er ekki hægt að réttlæta þessa málsmeðferð, hún er röng, bæði siðferðislega og réttarfarslega, sekir menn geta ekki tekið einn út úr hópnum, ákært hann og um leið frýjað sig ábyrgð.
Það kallast alltaf, undir öllum kringumstæðum, réttarhneyksli.
Þjóð sem fellur svona á grundvallarprófi, hún getur varla gert kröfu til að teljast lýðræðisþjóð sem byggir tilveru sína á lögum og rétti. Enda líður hún landráðafólki að stjórna landinu. Og að auðrónar ræni hana.
Daginn sem hún fattar rangindi þessa skrípaleiks sem ákæran á hendur Geir Harde er, þá fattar hún kannski forsendur á bak við skuldleiðréttingu heimilanna, af hverju hún segir alltaf Nei í ICEsave, og af hverju hún lætur ekki ræna orkuauðlindum sínum.
Við skulum vona Ólafur að næstu kosningar verði eftir þessa föttun, annars eru þær ávísun á sama siðleysið, sömu upplausnina, því stuðningsmenn Hrunsins, og Hrunverja eru í öllum flokkum. En líka um leið andstæðingar þeirra.
Við erum í dag tvær þjóðir, og sú sem styður ræningjanna, hún stjórnar. En hvort um meirihluta sé að ræða, í því liggur efinn.
En augljóst er það ekki.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.12.2010 kl. 11:44
þér fer fram Ómar ! um leið og svona setning getur misskilist og einhverjum finnist ég sé þar með að segja "tími til kominn" eða eitthvað álíka, en svo er ekki, þér fer fram jafnvel þó ég hafi haldið að betri gætu innleggin þín ekki orðið en hingað til, einfaldlega vegna þess hversu góður þú ert að fá okkur til að sjá hlutina skýrt í gegn um "móðu" viðtekinna hefða og "isma" blindu.
þetta er svo innilega augljóst og satt sem þú segir, og sett fram þannig að sá sem ekki skilur, hlýtur að vera illa sokkinn í keldu flokksblindu eða einhvers verra.
Bara þetta hér t.d. : Því nútíðin ræður aðeins yfir framtíðinni, fortíðin er aðeins lærdómur. einfalt, augljóst og auðskilið.
En svo flýgur mér í hug eitt og annað í sambandi við þessa ákæru á Geir (eina ráðamanninn sem ákærður er) er þetta ekki einmitt svona sem mannskepnan gerir þegar ógæfur og hörmungar dynja yfir, sem rekja má til mistaka okkar sjálfra ? við finnum blóraböggul, "grýtum" hann/þá/þau og höldum svo áfram á feigðarbrautinni "alsaklaus" og frjáls frá eigin ábyrgð í öllu saman, í stað þess að gera eins og þú bendir á, draga lærdóm af fortíðinni, taka sjálfann sig til ábyrgðar og gera það eina rétta í nútíðinni til að framtíðinn geti orðið það sem við virkilega vonum að hún verði, smáatriðin eru í bloggunum þínum Ómar, en er svo hér skemmtilega samþjappað í innleggi nr.5 : "
Það er aðeins ein leið til að gera Hrunið upp Óskar, og það er ekki að draga einhvern til ábyrgðar. Heldur að læra af Hruninu, láta það ekki endurtaka sig, og ekki hvað síst, bæta þolendum þess tjón sitt"
Gaman og gott að sjá að þú ert í góðum gír Ómar, vona að hátíðirnar hafi farið vel með þig.
MBKV að utan en með hugann heima
KH
Kristján Hilmarsson, 29.12.2010 kl. 13:34
Takk Kristján, ég skal ekki misskilja þig, ekki núna, svona í jólaskapi á leið í áramótaafmælisfíling, og á alltaf eftir eina grein til að tæma hugann.
En samt, þú berð þess öll merki að hafa komið inní blogg mitt þegar ég var hættur að nenna að skrifa það, fyrsta árið eða svo þá lagði ég mig fram, og fitnaði því mitt eldsneyti er Nóa Síríus rjómasúkkulaði með rúsínum.
Ég náði tæplega þúsund flettingum á áramótagreinina mína í fyrra, Eigi skal slíta sundur friðinn. Auglýsti hana ekkert, var ekki inní Moggabloggaelítunni eins og núna. Gæðin er eina skýringin.
http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/998407/
Hún var góð. En vænst þykir mér um greinina sem ég skrifaði út frá hjartanu af takmarkaðri kunnáttu í stíl og tjáningu, en vildi samt hafa hana góða.
http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/956777/
Hér tókst mér að segja í fáum orðum margt um hlut sem mér fannst skipta máli.
Já, svona var þetta í þessa gömlu góða daga Kristján, þá riðu hetjur um héruð, íklæddir dýrindis litklæðum, skeiðandi á gæðingum, núna eru þetta slitnir kallar á aflóga bikkjum.
En stríðið er það sama.
Já, það er mannlegt að ráðast á Geir, hann er tákngerfingur enda visst ástand kennt við að Hardera. En daginn sem ég tek þátt í svona aðför, það er dagurinn sem ég týndi sálu minni.
Hún er það eina sem ég á, ásamt þeirri djúpstæðu sannfæringu að manninum sé áskapað að byggja börnum sínum lífvænlega framtíð.
Heyrumst, ég á eftir minn áramótapistil, þó engir eldar smíði hann núna eins og í fyrra.
En að kæfa heila kynslóð í skuldum, það er ekkert grín.
Og þarf að ræðast.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.12.2010 kl. 14:33
Skemmtilegt að bera saman þessar tvær greinar, hvernig hægt er að segja mikið í fáum orðum og/eða einnig í mörgum, sumir segja EKKERT í mörgum orðum, en þú ert ekki þar á meðal félagi, kannski það sé að mörgu leiti erfiðara að segja það sem manni býr í huga í mörgum orðum, þannig að aðrir skilji kjarnann ?
Njóttu vel áramóta (og afmælis skilst mér ) heyrumst á næsta ári.
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 29.12.2010 kl. 15:58
Blessaður Kristján, ekki gleyma áramótagreininni.
Eftir því sem ég orða hana oftar, því mun meiri líkur á að ég skrifi hana. Þó ýmislegt stúss komi í veg fyrir að hún verði djúp eða orðmörg, en sönn mun hún vera. Og þörf.
En ef hægt væri að frysta tímann, svona klukkan fjögur á gamlársdag, þá myndi ég góðglaður skrifa mína aðra Lilju, til heiðurs annarri Lilju. En realtíið bannar það víst, þykir ekki góð latína að yfirgefa gesti í miðjum fagnaði.
En góð krítík frá Norge frá fólki með hugann heima, er alltaf vel þegin, það eru svo margir hér heima með hugann úti, að bíða eftir leiðsögn frá Brussel. Eigum við ekki að kalla þetta svona flæði í hina áttina, svo jöfnuður náist.
Heyrumst ennþá á hina gamla,
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 29.12.2010 kl. 16:15
Engin hætta Ómar, hún verður lesin, krítik skaltu fá líka (að öllum líkindum góða)
Endurtek áramóta og afmælisóskir
Kveðja að utan
KH
Kristján Hilmarsson, 29.12.2010 kl. 18:59
Ómar, þetta er ekkert nema eftiráskýring eins og þú segir og ömurlegt einelti. Maðurinn gat ekki einn með neinu móti stoppað það sem ekki nokkur maður gat vitað. Hann rændi ekki bankana að innan, það voru ræningjar sem gerðu það. Og allir meðstjórnendur hans sleppa?!? Ógeðsleg aðför að einum manni og ætti að stoppa núna strax.
Elle_, 29.12.2010 kl. 19:38
Og ICESAVE-STJÓRNIN og vinnumenn sleppa, allavega enn og vonandi ekki lengi enn. Oft er Geir Haarde kennt um ríkisábyrgð á ICESAVE líka af útsendurum núverandi stjórnarflokka. Landskömm.
Elle_, 29.12.2010 kl. 19:48
Góð grein hjá þér Ómar og hverju orði sannara. Það má heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að þau gögn sem saksóknari Landsdóms er að óska eftir eru yfirheyrslur úr hrunskýrslunni. Þegar þær yfirheyrslur fóru fram var sagt að til að fá öll gögn upp á borðið yrðu framburðir manna ekki notaðir gegn þeim í réttarsal. Þetta var talið nauðsynlegt til að engu yrði haldið undan, enda tilgangur þeirrar skýrslu fyrst og fremst til að læra af mistökunum. Síðan sá Steingrímur J sér leik á borði og ákvað að nýta sér þessa skýrslu í pólitískum tilgangi, í stað þess að reyna að læra af henni. Þau brot sem hugsanlega er hægt að bendla við stjórnmálamenn úr þeirri skýrslu eru hégómi við hlið þeirra afbrota sem núverandi stjórn hefur stundað.
Gunnar Heiðarsson, 29.12.2010 kl. 20:04
Dettur einhverjum hér á landi annað í hug, en að meðan fólk sem var samsekt Geir í ríkisstjórninni og jafnvel fólk úr fyrri ríkisstjórnum, sem situr enn í ríkisstjórn og fyllir hálft alþingi. Að spillingar og hrunapakkið rói ekki öllum árum að því að þagga alt niður og fela sannleikann.
Því sannleikurinn í skjölum þessum nær einnig yfir restina af pakkinu sem sat í ríkisstjórn Geirs. Og samþingmenn og samflokksmenn sem tóku sér EINRÆÐISVALD til að fría "SÍNA" frá Landsdómi. (alþingi verður hér eftir skrifað með litlum, þar til hreinsað verður út þar)
Hér verður einungis SÝNDAR LÝÐRÆÐI og SÝNDAR RÉTTLÆTI við lýði þangað til að hver og einn einasti hruna raftur, óháð flokkum, verður brottrekinn úr ríkisstjórn og af alþingi.
Burt með 4flokka samspillinguna alla.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 29.12.2010 kl. 20:35
Og eftir fréttum í kvöld á almenningur víst að borga brúsann fyrir hina heilögu þrenningu í Kópavogi. Vessgú borga fyrir persónulegt meiðyrðamál bæjarstjórnarmanna. Enda þarna um láglaunafólk að ræða, lækni m.a.
Hrúturinn (IP-tala skráð) 29.12.2010 kl. 22:38
Blessaður Kristján.
Krítíkin verður góð, því pistillinn verður sannur (og líklegast saminn, ég hef tilkynnt það svo víða, að í versta tilfelli þá þurfa gestir og gangandi að njóta ekki návistar minnar í hálftíma eða svo á gamlársdag).
En hann verður varla góður, því mig vantar neistann, er hreinlega mjög lítt reiður þessa dagana, tel samt að dómarar hefðu mátt læra af hendi Guðs. En það er önnur saga.
Tek við heillaóskum þann dag sem þær passa, nákvæmlega eftir 22 tíma þegar þetta er skrifað.
Á meðan reyni ég að tjasla einhverju saman svo ég haldi heiðurssessinum, losna fyrir vikið við auglýsingarpistla mína.
Ranglát lög eiga aldrei að líðast og rest kemur 31. des.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 02:05
Blessuð Elle.
Það var reyndar sniðugt hjá ræningjunum að pikka upp Geir, og láta spunameistara sína klína þjófnaði sínum á hann "ekki" geranda í málinu.
Ekki það að ég hef fært rök fyrir algjörum afglapahætti stjórnvalda, en það þýðir ekki það sama að ef ég hefði verið í hans sporum, að ég hefði ekki verið sekur um sama afglapahátt. Þetta var jú það sem öll gáfuelítan mælti með.
Eða eins og Seðlabankinn sagði í nýju skýrslu sinni, farið eftir mætustu hagfræðikenningum þess tíma.
Það var bara raunveruleikinn sem brást, ekki fræðin.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 02:10
Blessaður Gunnar.
Það sem þú segir minnir mig dálítið á rök mín í árdaga Hruns fyrir sannleiksnefnd.
Taldi mikilvægara að læra en að dæma. Enda illa við gler og glerbrot.
En Steingrímur og co hafa vísast fjárfest í öryggishjálmum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 02:12
Blessaður Arnór.
Þetta er vissulega sjónarmið. En ég taldi að takmörkuðum kröftum Andstöðunnar væri betur varið í að móta nýja Sýn, og vinna að framgangi hennar hörðum höndum.
Vildi sannleiksnefnd til að læra af því sem miður fór, til að geta kortlagt fjármálasukk, og fjármálasukksaðferðir, og finna falið fé.
Og síðan taka í höndina á öllum, og bjóða þá velkomna í Nýtt Ísland. En lemja þá í hausinn sem vildu endurreisa Auðránið hið síðara.
Ég var talinn skrýtinn af Andstöðufólki, en hvar er byltingin stödd, hvar er hið Nýja Ísland??
En ég veit hvar Auðránið hið síðara er statt.
Og það segir allt um okkur sem dreymdi um nýjan og betri heim.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 02:17
Jamm Hrútur, verðum við ekki bara að setja hornin á þessa heilögu þrenningu????
Og alla hina sukkarana líka??
Og alla auðróna og auðræningja??.
Það má allavega spá í það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 02:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.