Jæja, er það orðin pólitík að líða ekki þjófnað.

 

Skólastjórinn sem stal tugum milljóna, kallaði það arðgreiðslur, hann montar sig af hagnaði í dag.

Það er vissulega vel að græða, en að græða pening af fjárlögum ríkisins, það er siðleysi.  

Hjá venjulegu fólki heitir þetta rekstrarafgangur, sem er vel, og ekki nema gott um að segja.

En að græða á skólarekstri sem fjármagnaður er af ríkinu, og greiða sér þann gróða út i arð, það er ekki aumt, það er ekki siðleysi, jú reyndar vissulega en ekki bara það.

Slíkt er þjófnaður, og aum arfleiðs Sjálfstæðisflokksins að líða slíkan skít.

Minni á gott viðtal við Davíð Oddsson þegar hann sagði í tilefni af sorgarmálum flokksmanns hans, að þó menn fengju embætti út á flokkinn, þá gæfi það þeim ekki veiðileyfi á ríkissjóð. 

Kannski orðaði Davíð þetta almennar, en þetta var meiningin.

Það er sorglegt að það finnist fólk, til hægri, hvað þá hreintrúað einkarekstrarfólk líkt og drengirnir í Frjálshyggjufélagi Reykjavíkur, sem mælir þjófnaði Ólafs bót.

Og aumt er það stjórnvald sem hefur ekki fyrir löngu rekið manninn, og stefnt honum fyrir dóm til endurgreiðslu sjálftöku sinnar.

Og hvað er Mbl.is að hugsa að birta þessa sjálfsréttlætingu sjálftökumannsins.

Vina í gamla leiðtogann.

"Svona gerir maður ekki".

Kveðja að austan.


mbl.is Hagnaður af rekstri Hraðbrautar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú stendur upp á ráðuneytið að skýra mismun á þeirra tölum og ríkisendurskoðunar. Annars er eitthvað rotið í ráðuneyti Kötu litlu

Hamlet (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 00:57

2 identicon

Heill og sæll Ómar; sem jafnan - og svo, aðrir gestir þínir !

Ég má til, ágæti Austfirðingur, að leiðrétta þig, að nokkru.

Sunn- Mýlzka illfyglið; Davíð þessi Oddsson, og snata hirð hans, eru miðju- moðs úrkast. Alls ekki; Hægri menn, svo fram komi, ágæti drengur.

Raunverulegir Hægri menn; tortíma Vestrænu gerfi- lýðræði, hvar sem því verður við komið, Ómar minn.

Minni þig svo á; stórskotahríð mína (í orðum; reyndar), á Sýslumenn landsins - innheimtu bófa; Steingríms J. Sigfússonar, á síðu minni, fyrir stundu. Meðal annars.

Með kveðjum góðum; austur í fjörðu, sem víðar /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 01:43

3 identicon

Hvað hefur maðurinn gert ólöglegt? Nú keyrir skólastýra Hjallastefnuleikskólanna um á flottari bíl en nokkur leikskólastarfsmaður hefur efni á en skv. Frjálsri verslun var hún með flott forsætisráðherra laun á mánuði í fyrra. Á þá ekki að taka hana af lífi líka til að friða þessa réttsýnu fasista í ráðuneytinu?

Kristinn (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 01:49

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar.

Þó við SunnMýlingar eigum ekki okkar Njálu, þá eigum við Hrafnkötlu og Droplaugarsonarsögu, og margar aðrar sem ekki var hægt að skrá þar sem fiskroð var ekki hentugt, en nautgripi áttum við fáa. Og við erum ekki miðju moðsmenn þó við vegum með orðum og skynsemi, en ekki kröftum og fyrirgangi.

Svo kunnum við glímu.

Eins gæti ég aldrei samið jafn beinskeyttan pistil og þú gerðir um sýslumenn Óskar, hef einfaldlega ekki orðkynngi til þess.

En Davíð er Steingeit, og þó aðrir sem þekkja ekki til slíkra geita, skilji það ekki, þá stöndum við Steingeiturnar saman, og vitnum jafnvel í hvora aðra, þó sumir meira í aðra, en aðrir í suma.

Þannig er það bara Óskar, stundum spretta menn ekki úr sama jarðvegi, enda hin gróskusæla SunnMýlska mold, að ég tali ekki um þann eðaljarðveg sem Norðaustan áttin hefur mótað niður á fjörðum með útsynningi sínum og kuldagjósti, ekki víða að finna.

Eiginlega hvergi nema hér fyrir austan.

Samt hef ég fullan skilning á ykkur hinum, og ykkar sérvisku. Það grær víða gróska en í skjóli austfirska fjalla.

Svo er ég ekki hægri maður, þeir sem eru hér búandi eru allir aðfluttir, sumir komu jafnvel svo snemma eins og við landnám, aðrir seinna.

En aðfluttir samt.

Ég er Hriflungur og lít á Sjálfstætt fólk sem heimildarsögu sem skáldið festi á blað eftir tveggja vikna sagnaburð frá ólseigum sagnameisturum SynnMýlskra heiðarbýla, en smá hret skýrir þessa hlustun hans. Bókin hefði verið mun fyllri ef skáldið hefði lent í alvöru austfirskum hríðarbyl, jafnvel verið fullskrifuð áður en slotaði.

Við Hriflungar erum alltaf sérsinna, og sjálfstæðir, og höfum okkur það til ágætis að sjá eitthvað gott í öllu fólki, líka Davíð Oddssyni.

Mér vitanlega hefur hann aldrei sparkað í hund eða ómaga, hvað þá gamalmenni, eða selt land sitt. Tel hann reyndar vera beinskeyttasta varnarmann þjóðfrelsis í dag.

Segi þetta samt þó ég vit vel til þess að hann hafi oft og iðulega sparkað á pólitíska afkomendur okkur Hriflunga, vissulega höfðu þeir gott af því, enda soddan undanvillingar á köflum, en samt, af okkar kyni, og því aldrei gleymt.

Aldrei gleymt. Enda lágu hnútur til Davíðs mér mjög á tungu.

Alveg þar til að ég uppgötvaði vörn hans gegn ICEsave og AGS.

Og með fullri virðingu fyrir ykkur kúahirðum sunnlenskra slétta, þá hefur vörn ykkar, þó harðsnúin sé, ekki hindrað óvinafagnaðinn líkt því eins og Davíðsmúr, enda örugglega engin Steingeit komin af kúasmölum.

Kusuð þið ekki uppboðshaldara mann ársins????

Við skulum gæta að okkur Óskar, fornar sagnir greina frá miklum þjáningum mætra baráttumanna, og mætra þjóða. Ein skýring þess er notkun baksýnisspegils, löngu áður en Ford fann hann upp á T módel sitt.

Ég vil að drengirnir mínir verði afar, og deita þess vegna ömmu andskotans ef því er að skipta. Og stend með Steingeitum þessa heims.

Þoli hvorki kúgun eða ofríki, lem alla þá sem vilja þrælka mig og mína.

Davíð er ekki einn af þeim.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 02:57

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristinn.

Ef þú skynjar ekki muninn, þá hef ég fátt við þig að segja.

Tel samt að flest fólki geri það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 02:59

6 identicon

Hver er munurinn á rekstrarafgangi og hagnaði? Hann er enginn, hvoru tveggja er grundvöllur arðgreiðslna.

Þá fordæmir þú að skólastjórinn sé siðlaus maður að ætla sér að græða á rekstri skólans sem að miklu leyti sé fjármágnaður af fjárlögum ríkisins. Þetta er nú meira bullið. Þetta eru einmitt undirstöðurökin fyrir því hvort grundvöllur sé fyrir áframhaldandi skólastarfi hjá Hraðbraut samkvæmt ríkisendurskoðun, þ.e. að starfsemin sýni hagnað en ekki tap.

Dísa (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 03:04

7 identicon

Heill; á ný, Ómar minn - sem aðrir, þinna gesta !

Hnífilyrði mín; beindust aðeins, að þeim Sunn- Mýlingi, sem ég foragta, allt til anda slitra minna (þ.e.; DO).

Ykkur aðra; virði ég mikils, enda hafið margt til brunns að bera, ekki síður, en nágrannar ykkar, í Suðri - sem Norðri, og víðar um héröð.

Þakka þér fyrir; varðstöðu alla - hér eftir; sem hingað til, og þó við berum ei gæfu, til fyllsta samþykkis, ýmissa mála, mun ég ætíð virða þig - sem og viðleitni alla ódrepandi, að reisa land okkar, úr öskustó þeirri, sem það nú er í, að sönnu.

Með; sízt lakari kveðjum - en þeim fyrri, og öðrum /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 03:13

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Árið er að líða undir lok og maður upplifir funann í færlum þínum. Þetta átti að vera ehv. sætt, bara er það. ég er hreint út sagt eftir mig eftir lestur síðustu færslu,það stóð ekki ,,viðkvæmum bent á að málsgreinar í færslunni geta gert mann truflaðan af geðshræringu,,. Ómar þetta er mín aðferð í lok árs til að segja þetta er afbragð. Nú skal fara að sofa svo sveitakonan úr Hreppunum,sem kemur til mín í kaffisopa í fyrramáli,fái viðurgjörning góðan. Gleðilegt nýtt ár!!

Helga Kristjánsdóttir, 30.12.2010 kl. 04:51

9 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Tækniskólinn, sem áður var Iðnskólinn, er núna með tvo skólameistara sem samtals eru með 40 millj. laun skv. skattskrá. Þetta er sama rekstrarmódelið þegar íhaldið afhendir gæðingum sínum eignir almennings hvort sem það eru bankar eða skólar, það er hlaðið á þetta hálaunastjórnunardóti safnað skuldum hreinsað innan úr rekstrinum og síðan þegar það er komið í þrot þá er draslinu hent aftur í skattgreiðendur. Munurinn er sá að það er hægt að teygja þennan svindllopa lengur í skólakerfinu en samt er eins og þessi samtryggingarmafía fjórskipta einflokksins og gæðinga hans geti ekki alveg logið og þagað málin í hel, sbr. Hraðbrautina. Kannski gýs ýldufýlan úr Tækniskólanum upp í einhverri ruslveitunni á nýju ári.

Baldur Fjölnisson, 30.12.2010 kl. 08:41

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Dísa.

Hver er munurinn á himinn og hafi þegar hvorutveggja er blátt í fjarlægðinni??

Hagnaður, rekstrarafgangur, hvorutveggja lýsa sömu niðurstöðunni, tölunni sem er afgangs þegar öll gjöld hafa verið dregin frá tekjum.

Málið er að sá sem þiggur tekjur sínar úr almannasjóðum, hann hagnast ekki, hann skilar rekstrarafgangi.  Sé sá afgangur á eðlilegum forsendum, full þjónusta veitt og tekjugrunnur eðlilegur miðað við þá þjónustu sem veitt er, þá er eðlilegt að viðkomandi stofnun njóti, bæti þjónustu eða setji í einhverja uppbyggingu.  Sé slíkt ekki til staðar, þá renna viðkomandi fjármunir aftur í almannasjóði, þar sem ótal önnur verkefni þarfnast þeirra.

Þeir renna ekki í vasa forstöðumanna viðkomandi stofnanna sem einhverjar arðgreiðslur.

Hraðbraut er spenafyrirtæki, ekki einkafyrirtæki, það er almenningur sem fjármagnar það.  Skiptir engu hvort einhver hugmyndafræði stjórnmálamanna leyfi að það sé kallað einkafyrirtæki, það uppfyllir ekki forsenduna að afla sér fjár á almennum markaði.

Í mínum huga er það kristaltært að það er þjófnaður á almannafé að stinga undan fé undir fororði þess að um arðgreiðslur sé að ræða, skiptir engu máli þó maðurinn hafi þurft nokkru síðar að væla út fé, þetta hefði allt mátt vera afgangur af heilbrigðum rekstri þess vegna.

Þeir sem vilja græða pening, greiða sér út arð, þeir reka sín fyrirtæki á almennum markaði, í samkeppni við aðra.  Þeir nota sér ekki pólitísk tengsl til að koma sér á ríkisspena, geri þeir það þá lúta þeir lögmálum almannafyrirtækja, menn þiggja sín laun, og reka sína stofnun.

Almenningur er ekki að greiða skatt svo einkavinir pólitíkusa geti stolið þeim.

Það er ekkert flókið við það, en ég játa, það þarf visst siðferði til að skilja hvað má, og hvað má ekki.  Slíkt er eitthvað sem fólk hefur, og ekki hægt að rökræða um.

Þeim sem finnst þetta alltí lagi, þeim finnst þetta allí lagi.  Í þeirra augun eru svona skrif bull.

Og mér er slétt sama, mér finnst þetta ekki í lagi, og vil ekki sjá fulltrúa hinna neinsstaðar þar sem almannafjármunum er ráðstafað.  Hafi menn vilja til að féfletta almenning, þá geta menn gengið í mafíur, ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Hann er fulltrúi íhaldsmanna, ekki þjófa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 10:18

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Baldur.

Við skulum vona að skúmaskot verði þrifin, ýlda er heilsupillandi, og ýldufýla vond.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 10:20

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það hefur ekkert breyst á Íslandi. Við erum á hraðferð áleiðis að sömu lendingu og við náðum haustið 2008.

Þjóðarsálin er skemmd en ég er víst sá eini sem leyfir sér að nefna úrkynjun.

Árni Gunnarsson, 30.12.2010 kl. 11:11

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir góð orð Helga, þau hlýja manni sem sárt saknar neistans.

Ætlaði reyndar aldrei að eyða pistli dagsins í svona mál, en það var eitthvað við spunann í fréttinni sem fór óendanlega í taugarnar á mér.

Af hverju kann fólk ekki bara að skammast sín, og bætir fyrir brot sín.  Ég allavega erfi ekki neitt við batnandi mann, en kokið er fullt af þessu 2007 viðhorfi sjálftöku og sérhyggju.  Ekkert samfélag rekst á ræningjahugarfari og okkar ágæta íhald þarf að skynja að það er það sem á mest, og tapar því mestu í ræningjahendur.

Það á enginn að mæla svona bót, ekki frekar en þegar almannaeigur eru afhentar bröskurum sem leigja þær svo aftur til baka fyrir væna þóknun.  

Þetta er allt eitthvað svo aumt, og ég skil hvar á árunum 200-2008 skynsemi íhaldsmanna gekk fyrir björg siðlausrar græðgi.

Hvað er að því að hagnast af heilbrigðum rekstri???  

Eru Helgi í Góu eða þeir Fjarðakaupsfeðgar eitthvað verri þó þeir hagnist eins og fólk í stað þess að braska út i eitt, og láta fótspor sín þekkjast á rjúkandi rústum???

Sumt skilur maður ekki.  

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 11:32

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Árni.

Gaman að heyra í þér.

Ég get tekið undir þetta með þjóðarsálina, græðgisáratugurinn hefur leikið hana illa.  Það sem mig svíður mest er að samúð og samkennd með náunganum, að finna til með öðru fólki, að slíkt nær ekki að brjótast fram í aðstoð við þá sem fóru illa út úr Hruninu.

Vissulega erum við ennþá aumingjagóð, en aumingjarnir mega helst ekki vera mikið fleiri en þrír, eða þá búandi í fjarlægum löndum, annars fallast okkur hendur og hugur tæmist.

Í það tómarúm sækja málsvarar andskotans sem segja okkur að ekkert sé hægt að gera, fólk eigi að svelta í landi alsnægtanna, og búa úti á gaddi, ef það getur ekki greitt Hrunskuldir auðmanna.

En hvort skaðinn sé það mikill, að um úrkynjun sé að ræða, veit ég ekki.  Tel aðeins brýnt að skipta um þjóðarsál, því fólkið er gott, og framtíðin sem felst í ungviðinu, hún er björt og hlý.

Með nýrri þjóðarsál leysast mörg vandamál, spurningin er bara hvernig að slíkum skiptum er staðið.  Á ekki svar við henni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 11:40

15 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Sæll Ómar ! og annað gott fólk hér á strengnum.

"En að græða á skólarekstri sem fjármagnaður er af ríkinu, og greiða sér þann gróða út i arð, það er ekki aumt, það er ekki siðleysi, jú reyndar vissulega en ekki bara það. Slíkt er þjófnaður, og aum arfleiðs Sjálfstæðisflokksins að líða slíkan skít."

Skrifar þú Ómar ! (ásamt fleiru) þetta er greinilega einkafyrirtæki/opinbert samkrull á villigötum, og þá er stutt í spillinguna eða þjófnaðinn eins og má orða það líka og þú gerir, en án þess að þekkja til hlítar þennann skóla og rekstur hans gagnvart ríkinu (almannfé) þá get ég ekki annað en tekið undir það sem þú og fleiri segja hér varðandi siðleysi spillingu og/eða þjófnað, byggt á því litla sem ég lesið um málið.

Hitt er svo annað mál að hvort stofnanir okkar almennings/skattgreiðenda, velja að reka sína eigin stofnanir alfarið og hafa þá meiri stjórn á fjármálum hverrar og einnar stofnunar, eða velja að kaupa ýmsa þjónustu af einkafyrirtækjum, skiftir ekki öllu máli, það sem skiftir máli er að í báðum tilfellum sé þess gætt að fé almennings sé sem best varið, samhliða gæðum á þjónustunni.

Þetta er þegar gert á mörgum sviðum, bæði ríki og sveitarfélög kaupa vörur og þjónustu af einkaaðilum og fyrirtækjum, sem oftast nær á fyrirfram fastsettu verði gjarnan eftir útboði, meðan hér virðist allt hafa verið gert vitlaust og "aum arfleifð Sjálfstæðisflokksins" eins ÓG bendir réttilega á, græðgisfíknin er svo rík í okkur mannskepnum, að þessi möguleiki/freisting varð einfaldlega of stór fyrir viðkomandi til að standast sýnist mér, og það segir okkur aftur að slíka freistingu og spil með fé almennings á hvorki að líða, né gera mögulega.

M.ö.o. ef keypt er opinber þjónusta af einkaaðila, skal það gert á eins hagstæðu og hægt er, fyrirfram ákveðnu verði, síðan ber viðkomandi einkafyrirtæki ALLA ábyrgð á sinni afkomu, svo framarlega að báðir aðilar hafi staðið við sitt samkvæmt samningi, ekki þetta "spena" dæmi sem alltof oft er í notkun, meira en margann grunar held ég, en oftast í smáum stíl þannig að ekki lekur í fjölmiðla.

Ekki eins og virðist raunin með þetta Hraðbrautardæmi, þegar illa árar, eru vældar út viðbótargreiðslur af almannafé, þegar vel gengur fær "eigandinn" arð !! en er þetta ekki kjarninn í þessu sem þú ert búinn að vera "blogga" um AGS, Icesave ofl ofl. ?? Þegar vel gengur verða fjárglæframennirnir ríkari og ríkari, þegar svo allt "hrynur" tja !! hver fær þá reikninginn ?

Góðar stundir og haldið nú upp á áramótin með reisn og virðingu, eða bara dettið í það hressilega

MBKV að utan en með hugann hjá ykkur þarna heima

KH

Kristján Hilmarsson, 30.12.2010 kl. 12:32

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kristján, takk fyrir ítarlegri útlistun á margbreytileika þeirra sanninda sem ég reyni að benda góðu íhaldi á, almannasjóðir eru ekki féþúfur.

En saman mun það fara, að detta i það, og halda reisn og virðingu, hef gert það óslitið á þessum degi frá 1978, og held því áfram þó ómegðin breyti vissulega hegðunarmynstrinu.  Er ekki eins stífur seinni partinn, en held fast í þann sið að klingja koníaks og whiský glösum milli 14-16, þó reyndar þurfi glöggan til að sjá "hléið".  Svo skálar maður alltaf fyrir forsætisráðherra, sama hver á í hlut.

Þetta er dagur sátta og samlyndis, ekki deilna eða vígaferla.  

Klára slíkt í dag.

Heyrumst á morgun.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 12:49

17 identicon

Komið þið sæl; að nýju, gott fólk !

Ómar; Austfirðingurinn knái !

Öngvar sættir; skyldi bjóða, blóðhundum frjálshyggjunnar til handa - heldur; fullar hefndir, og verskuldaðar, til höfuðs illþýðis Íslands, í anda bræðra minna EOKA; á Kýpur - sem og Síkha, austur í Khalistan (Punjab; á Indlandi), svo fram komi.

Illþýðið; hefir unnið til maklegra málagjalda, fyrir löngu síðan, Ómar minn.

Með; ekki lakari kveðjum, en þeim fyrri /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 15:39

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar, ekki dreg ég úr rétti þess til maklegra málagjalda, þó ég hafi mína sérvisku um hver þau eru.  Illþýði er fátt verr gert en að bjóða því upp á mennsku og mannúð, að gera þau að gegnu og heiðarlegu fólki sem lifir í sátt við guð og góða menn.

Þetta vissi Hugo Óskar minn góður, enda var hefnd Valjean Javert lögregluforingja ofviða.

Þú ættir að lesa Norska skáldjöfurinn, Margréti Sandemo, hún skapaði eitt mesta illþýði bókmenntasögunnar, Þengil hinn illa, og hann var það slæmur að jafnvel Satan og Lúsífer urðu í gras að lúta, hvað þá að venjulegt kukl dygði á hann.

Það má margt læra af lausn  Margrétar, djúp speki þar að baki.  

En hvað um það, 31. des er alltaf dagur sátta og samlyndis, hvort sem skálað var fyrir Ólafi Jóhannessyni, Geir Hallgrímssyni, Gunnari Thoroddssyni, Steingrími Hermannssyni sem var minn uppáhalds skálafélagi, Þorsteini Pálssyni, Davíð Oddssyni, Halldóri Ásgrímssyni, Geir Harde eða Jóhönnu Sigurðardóttir, allar mínar skálar mæltar fram af heilindum og virðingu við embættið og lýðveldið.

Svo þykir mér koníak helv. gott.

Heyrumst Óskar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 16:09

19 identicon

Komið þið sæl; sem fyrr !

Verði þér; Koníakið að góðu Ómar minn, þó ekki þekki ég Stúku maðurinn, til slíkra drykkja - er því stórtækari, í reyk Tóbakinu, og svo Kaffinu.

En; fyrir mér, er 31. Desember, ekkert lakari dagur til hefnda, en hver annar, svo glöggt megir þú sjá, mín harðneskju viðhorf; óskoruð, Austfirðinggur góður.

Með; sízt lakari kveðjum - en áður; og fyrri /

Óskar Helgi

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 16:23

20 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja Óskar, stúkan skýrir vígmóð þinn, tel reyndar að þú vitnir í þína smærri bræður, Kahnar Mongóla væru nærri lægri, sérstaklega sá sem hét Timbuktú á lélegri íslensku (nenni ekki að fletta upp á réttri stafsetningu).

En ég hef ekki haft það vægi að lögsetja 31. des sem dag sátta og koníaks og whiskýdrykkju, tel samt að fleiri mættu fylgja fordæmi mínu. 

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 20:35

21 identicon

Og; sæl - sem fyrri, og áður !

@ Gamla góða Dittó merkið kemur sér oft vel, þegar menn hafa náð þeim grunni - að vera sammála um sumt, ósammála, um annað, Ómar minn.

Þakka þér fyrir; að vísa til hinna fornu Khana, austur í Mongólíu, vel við hæfi, í Vor veðráttunni hér - Vetrar fimbulkuldanum þar, eystra.

Reyndar, er Timbúktu, ein eldfornra borga, hins mikla menningarríkis; Malí, suður í Afríku, en það er ekki lakara, að minnast hennar einnig, að nokkru.

Með; sízt lakari kveðjum - en öðrum, fyrri /

Óskar Helgi 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 21:05

22 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ, Óskar, þetta kemur fyrir besta fólk, líka mig að gleyma að þið sunnlensku víðáttusléttubúar kunnið ekki Vaðlvísku.  Hefði átt að benda þér að fá tíma hjá Umrenningi, þeim mæta manni og búandi í einhverju rigningarbælinu (allavega rigndi alla vikuna þegar ég dvaldi þar), og sérfróðum mjög um þetta kjarnyrta tungutak sem er ein hliðargrein út úr austfirsku.

Annar sonur minn, er altalandi á Vaðlvísku, en á það til að vera sár þegar fólk bakkar þegar hann vill að videóupptakan sé spóluð áfram, þá segir hann alltaf, "nei bakkaðu, ég sagði bakkaðu afi".  Og afinn, ættaður úr Víkinni minni, hann skilur ekki nafna sinn.  Og bakkar í stað þess að spóla áfram.  Samt kenndi hann mér Vaðlvísku, sem svo sonur minn notar jöfnum höndum með íslensku.

Timur Lenk heitir Timbútu eitthvað í mínum munni þegar ég man kallinn en ekki þetta óskiljanlega nafn.  Þessi hjari veraldar (sem er reyndar mikil og fornfræg borg) hún heitir eitthvað allt annað þegar ég þarf að rifja upp nafnið hennar, byrjar samt á T, oftast. 

Ástæða þess að menn yfirleitt skilja mig á blogginu, er sú að ég nota Google til að þýða orð mín yfir á Íslensku, og útlensku þegar því er að skipta.  En ég taldi þig það fróðan um allskonar herskörunga til forna að þú kveiktir strax á honum Timur, haughausabyggjanda með meiru.

Indverjar hefðu kveikt, að ég minnist ekki á íbúa Bagdad, eða annarra forna menningarborga sem hann heimsótti með þessi áhugamál sín, að byggja haug úr hausum, hvítkalkaða sem gnæfðu yfir nærliggjandi umhverfi.  

Hann hefði ekki sætt sig við þessa lognmollu.

Og já Óskar, það er gott að vera ósammála, hinn möguleikinn þýðir alltaf einhverja martröð sem kennd var við hann Palla, það er lítt gaman að vera einn til lengdar.  Og vissulega er enn betra að vera sammála um annað, það auðveldar mjög umræðuna um það sem maður er ósammála, að þurfa ekki að ræða allt.

En samt sem áður þá er allt ærlegt fólk sammála um að lemja þá í hausinn sem vilja þrælka börnin okkar.  

Um það snýst barátta næstu ára, og áratuga, stríðið sem seinna meir verður kallað sjálft stríðið, því það var háð um framtíð heims og manna.

Og þar er enginn stikkfrí.

Biði að heilsa Óskar, er vonandi kominn með lágmarks heilastarfsemi í lokapistil ársins, ef ekki þá finn ég mér Loft til að þrasa við, þessi lognmolla er alveg skelfileg.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 23:42

23 identicon

Fíflin í kringum Ólaf Hauk Johnson:

Núverandi menntamálayfirvöld

ríkisendurskoðun

fyrrverandi menntamálayfirvöld

menntamálanefnd

fyrrverandi kennari skólans

fyrrverandi aðstoðarskólastjóri

starfsfólk sem er ósammála stjórnunarháttum

Skúli Helgason, formaður menntamálanefndar

DV

Sálin (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 07:57

24 Smámynd: Elle_

Alltaf er það sami slappleikinn í stjórnvöldum hér, Ómar, gegn þjófnaði úr ríkiskassanum, hvort sem það er Jóhanna og co. sem eyða herjum einasta götóttum eyri sem þau finna í ríkiskassanum, eftir að búið er að kasta gamalmennum og sjúklingum út á götuna, í Evrópufáráðið og ICESAVE eða hvort það er að taka á stjórþjófum og stoppa fjárdrátt úr bönkunm og ríkiskössum.  Skil ekki að nokkrum finnist eðlilegt og í lagi að maður borgi sér arð úr ríkiskassanum þó leið peninganna úr kassanum hafi kannski verið pínulítið óbein.  Já, kannski orðaði Davíð þetta almennar, en þetta var meiningin.   Skemmtilegt að lesa umræðurnar að ofan og svörin hans Ómars. 

Elle_, 31.12.2010 kl. 12:29

25 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle.

Vildi ljúka árinu og vökunni við að kvitta fyrir mig gagnvart þér.

Ég skal viðurkenna að þessi pistill var afleiðing pirrings sem hroki fréttarinnar vakti.

Hvort orðnotkun mín var rétt, eða fullrétt, eða órétt, ég skal ekki dæma.

Held samt að við viss skilyrði þá myndi ég ekki vera svona beinskeyttur,  Ég segi ekki alltaf það sem ég hugsa, vill stundum að það sem mér þykir miður, að það endurtaki sig ekki.  Er þá sáttur.

En hafi mér tekist vel til við að útskýra hugsun mína í varnarbaráttu minni hér að ofan, þá er það vel.  Þetta er allavega ekki eðlilegt.

En þar sem þetta er mitt síðasta innslag, minn síðasti þráður sem er ósvaraður, þá ítreka ég áramótaóskir mínar.

Gleðilegt ár Elle, megi eldmóður þinn brenna sem aldrei fyrr á nýju ári.

Kveðja að austan.

Ómar.

Ómar Geirsson, 1.1.2011 kl. 05:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 998
  • Frá upphafi: 1321550

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 837
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband