Rökin fyrir sannleiksnefnd.

Kosturinn við svona myndrænan pistil eins og þinn er sá að hann vekur ýmsar hugrenningar og maður freistast til að velta upp hlutum.

Ég skil alveg (og hef alltaf gert) hvað þú meinar með uppgjöri við gerendur Hrunsins.   Munurinn á mér og mörgum öðrum er kannski sá að ég hatast (ef maður má nota svoleiðis orð) við siðleysi Nýfrjálshyggjunnar eins og við pestina og mér er líka ljóst að mín kynslóð lifir á örlagatímum, og ögurstundin nálgast óðfluga.  Siðleysið, græðgin, sérhyggjan, ásamt algjöru tillitsleysi við örlög og kjör náungans, í samblandi við Tregðuna (þ.e. það lögmál að niðurrif er miklu auðveldara en uppbygging) hafa skapað þær aðstæður að raunhæf tortíming mannkyns er möguleg.  Allir þessir þættir hafa verið til staðar áður, en í dag er tæknin slík, að mannkynið getur loksins gengið frá sér.  

Og þetta EF, er of hættulegur möguleiki til að feður og mæður geti leyft hann hjá sér.  Þess vegna skiptir svo miklu máli, að það sem gert er, virki til góðs.  Gefi einhverja von til framtíðar, og jafnvel hjálpi til að skapa betri framtíð.  

Síðan hef ég ákveðnar lífsskoðanir sem gera mér mjög frábitinn lögmálinu, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.  Og ég tel líka að það þarf "siðferðisbyltingu" (ekkert kyn-eitthvað eða svoleiðis, heldur spá betur í kenningar meistarans frá Nazeret um hvað menn vilja sjálfum sér og öðrum, muna eftir dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, láta það eiga sig að brjóta mikil gler í vandlætingu sinni og hugleiða aðeins hlutskipti sinna minni bræðra, og sína miskunn) og hún mun leiða til bættra vinnubragða.  Ég hef sagt að núna sé þörf á sömu byltingu mannsandans og þegar menn sáu praktíkina við að hætta borða hvora aðra. 

Victor Hugo spáði mikið í þetta og skapaði eina fallegustu mannlýsingu sem ég hef lesið, en hún var lýsing hans á "herra Karl Franz Bienvenu Myriel biskup í Digne" og lífi hans.  Um hann má lesa í fyrsta kafla Fyrstu bókar undir heitinu "Réttlátur maður".  Þessi ágæti biskup mat mikils mátt fyrirgefningarinnar sem "refsingu" iðrandi syndara.  Og hann hafði lítið álit á réttlæti án miskunnar.  Taldi vænlegar að byggja upp betri heim og fá þar með færri syndir.  

Speki mín um "Mannúð og Mennsku" byggist meðal annars af kynnum mínum af þessum aldna heiðursmanni.

En burtséð frá því þá er leið mín um sannleiksnefndina líka skynsamlegri heldur núverandi hrunadans uppgjörsins og hún er líklegri að geta af sér betri framtíð.  Það er svo ótalmörg dæmi úr sögunni sem hægt er að týna til máli mínu til stuðnings, dæmi sem ættu að fá menn til að íhuga að vilji til réttlætis á ekki að leiða menn út í fúamýri og detta þar ofaní keldu sem svo margir hafa dottið ofaní áður á sömu vegferð til réttlætis.

Mig langar til að nefna tvö dæmi til íhugunar.

Það fyrra er hin sorglega saga Haiti.  Þegar ég var drengstauli eða rétt rúmlega það, þá las ég þrjár bækur eftir danskan rithöfund þar sem hann rakti sögu þrælahalds í Dönsku Indíum, þær hétu ef ég man rétt, Þrælaskipið, Þrælavirkið og Þrælaeyjan.  Og ég get ekki gleymt þeirri grimmd sem var lögfest til að halda svörtu þrælunum niðri til að hindra uppreisnir þeirra.  Ótrúlegur óhugnaður.  Og þetta var svipað annarsstaðar, til dæmis á Haiti þar sem Frakkar fóru með stjórn.  Og á Haiti tókst eina þrælauppreisnin undir mjög hæfs herforingja.  Og þeir hvítu þrælaeigendurnir sem tókst ekki að forða sér beið hrikaleg örlög.  Í raun þau sömu og þeir höfðu sýnt þrælum sínum.  Mér er minnistætt mynd sem ég sá í grein þegar ég var að lesa um þrælauppreisnina á Haiti þar sem meðhöndlun franskra hermanna, sem féllu lifandi í hendurnar á uppreisnarmönnunum, var sýnd og hún passaði mjög vel inn í dönsku lýsingarnar.  

Og var þetta ekki réttlæti???  Kannski, en þeir kúguðu tóku upp háttsemi þeirra sem kúguðu þá, og það var leiðsögnin inn í hina nýju framtíð svörtu íbúa Haiti.  Þegar síðasti Frakkinn var dauður, þá tóku hinir nýju stjórnendur við að pína sína eigin þegna og héldu því áfram langt fram yfir 1970, í rúm 150 ár.  Til hvers var verið að gera byltingu, ef aðeins var skipt um húðlit á illmennunum???? 

Hitt dæmið er árangur Kýrosar Persakonungs við að sameina ólík ríki í Austurlöndum nær eftir fall Assiríuríkis.  Assiríumenn voru þekktir fantar og fúlmenni og byggðu þar á hefð svæðisins.  En þeir gengu of langt og ríki þeirra var lagt í rúst.  Persar komu út sem sigurvegarar og byggðu ríki sem hefði staðið um langa framtíð ef ekki hefði komið til grikkur tilviljana og Alexander mikli fæddist inní Makedónísku hirðina, en ekki til dæmis sem eyjarskeggi á Krít (þá hefði hann orðið sjóræningi).   En Kýros sýndi sigruðum þjóðum umburðarlyndi og miskunn.  Og það dugði.

 

Dæmin sem ég síðan notað sem grunnrökstuðning fyrir sannleiksnefndinni eru síðan stefið um Enron og Mandela sem ég hef svo oft minnst á áður við þig.  Til upprifjunar þá er Enron klassískt dæmi þar sem valdhafarnir hengja nokkra fallna félaga sína, og það er gert til að róa lýðinn á meðan þeir halda áfram að styrkja sín völd og halda áfram sinni iðju.  Forsprakkar Enron voru akkúrat dæmdir um leið og Wall Strett fékk í gegn afnám helsta lærdóms Kreppunnar miklu, en það var bannið við Afleiðuviðskiptum.  Og þau viðskipti eru það skrímsli sem fór með fjármálamarkaðina.  Og tapið er almennings.    Ef almenningur hefði ekki verið svona auðblekktur og fylkt sér á bak við fólk sem vildi tafarlausar aðgerðir gegn græðgiblekkingarbrögðum fjárúlfa,  í stað þess að halda að opinber tyftun fallinna auðmanna hefði einhvern annan árangur í för með sér en þann að hinir sem stóðu og véluðu sín braskarabrögð, yrðu bara gætnari, og eða beittu afli sínu til að breyta lögunum, þeim til hagsbóta, þá hefði Hrunið mikla ekki átt sér stað.  Og við megum aldrei gleyma því að við erum aðeins að sjá toppinn á ísjakanum, með gífurlegri skuldsetningu almannasjóða  tókst að stoppa í lekann, en sjálft fleyið, fjármálakerfið er morkið og mun gefa sig, ef ekki verður um algjöra uppstokkun að ræða.  

Og sú uppstokkun mun ekki eiga sér stað meðan endalaust er hægt að blekkja með þessum árþúsunda gömlu trikkum að hengja nokkra fallna til að létta þrýsting á kröfunum um grundvallarbreytingar.  Því það eru ekki gerendurnir sem skipta máli, heldur kerfið sem skóp þá.

Og Mandela, hann sá þetta fyrir, enda hafði hann nægan tíma til að hugsa málin á meðan hann dúsaði í dýflissum aðskilnaðarstefnunnar.  Og hann hafði persónuleika til að sannfæra landa sína um gildi þess að byggja upp nýja og betri framtíð, í stað þess að fara í blóðugt uppgjör við fortíðina.  Uppgjör sem enginn vissi hvað kæmi út úr og enginn vissu hver stæði uppi sem sigurvegari.  Því gerendur fortíðar hafa bæði völd og fjármuni til að kaupa sig inn í raðir byltingarmanna.  

Þess vegna bauð Mandela fyrirgefningu gegn iðrun og upplýsingar um alla glæpina sem framdir voru.  Þar með voru allar rotturnar flæmdar úr skúmaskotum sínum, sem annars voru tilbúnar að nýta sér öll tiltæk ráð til að fela og hylma yfir sína starfsemi, og hindra að réttlætið næði til þeirra.  Og til þess höfðu þeir mörg vopn, en þeir áttu ekkert vopn gegn sakaruppgjöfinni, segðu þeir ekki sjálfir frá, þá voru þeir öruggir um að aðrir segðu til þeirra.  

Í þessu var snilldin fólgin.  Öfl sem gátu hindrað framtíðina voru strax brotin á bak aftur.

Og við hefðum betur farið þessa leið.

Arinbjörn.  Ég varaði strax í haust við því sem myndi  gerast ef veikburða andstaða myndi krefjast "réttlætis" og það réttlæti væri í því fólgið að gera upp við einstaklinga en ekki kerfið.  Og allir mínir spádómar hafa komið fram.  Hugsanlega verða einhverjir fallnir menn teknir og stungið í grjótið, og þá fyrst og fremst fyrir atburði sem áttu sér stað síðustu mánuði Hrunsins, þegar þeir háðu örvæntingarfulla baráttu fyrir tilveru fyrirtækja sinna, en Kerfið sjálft, og hugmyndasmiðir þeirra stálu byltingunni.  Og það var fyrirséð.  Eina sem ég sá ekki fyrir og gat ekki ímyndað mér, voru svik VinstriGrænna, og þau svik hafa flýtt fyrir endurreisn velferðarkerfis auðmanna og fjárspámanna.  

En þetta var samt óumflýjanlegt á meðan Andófsöflin voru leidd áfram af fólki sem hafði annað hvort ekki kynnt sér söguna, eða vildi ekki læra af henni.  Alveg eins og endurreisn Íslands fer eftir þrautreyndum lögmálum mistaka og örbirgðar, í stað þess að hlusta á unga fólkið sem hefur kynnt sér mistökin og lært um leiðir sem virka.

Og ástæða þess að það var ekki hlustað á þetta unga fólk var sú að Byltingin skynjaði ekki sinn vitjunartíma.  Gamla kerfið náði strax vopnum sínum á ný, það ýtti undir úlfúð og deilur.  "Trúverðugir" hagfræðingar eins og Þorvaldur Gylfa og Gylfi Magg bentu á íhaldið og Davíð, og á meðan voru varnir landsins gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þess samkrulls innlends og erlends auðvalds, sem hann stendur fyrir, fyrir bí.  Þorvaldur hrópaði spilling og lýðurinn klappaði, og á meðan voru dyrnar opnaðar fyrir gjörspilltasta kúgunarvaldi heims. 

Og í stað þess að bæta heiminn, þá er Andófið, eða sá hluti þess sem týndist ekki í Holtaþokunni, í frelsisbaráttu.

En það eina sem við þurftum að átta okkur á að stjórnmál eru lyst hins mögulega.  Þú boðar ekki uppgjör við fjórflokkinn, og þá sérstaklega ráðandi hluta hans (Framsókn og Íhaldið), nema þú hafir til þess afl.  Bolsévikar gátu það því þeir höfðu einn mesta hersnilling mannkynssögunnar í sínum röðum, en íslenska Andófið átti ekki sinn Totskí, og því fór sem fór.

En það var lag til breytinga, það sáu allir gjaldþrot gamla kerfisins, líka íhaldið.  Og Helför Alþjóðagjaldeyrissjóðsins bitnar á allflestum, líka hefðbundnum atvinnurekendum.  Og unga fólkið var með lausnirnar, það er þær hagfræðilegu.  

Það þurfti bara stjórnmálaafl sem kom með hugsjón um betri framtíð.  Og framtíðarsýn.  Og boðaði þannig vinnubrögð að fólk skynjaði það ekki sem ógn ( til dæmis er það ógn fyrir venjulegan mann að sjá þjóðfélagið leysast upp í bræðravíg en slíkt var óumflýjanlegt ef fjórflokkurinn átti að hengjast upp á afturlappirnar, því auðvita verjast menn)  , heldur valkost.  

Valkost um eitthvað annað og betra.  Ný vinnubrögð og nýja þjóðfélagsgerð.  Til dæmis að við værum eitt í kreppunni, og tækjum á okkur byrðarnar sameiginlega.  

Rannsókn sem byggðist á sakaruppgjöf hefði verið sterkasta vopn byltingaraflanna.  Það er erfitt að vera á móti sannleikanum, þá á ég við að það er erfitt að spilla slíkri leið (það hefði verið reynt að klappa upp hengingar sem hið endalega réttlæti) og erfitt að verjast afleiðingum hennar.  Þegar sannleikurinn liggur fyrir, um undanbrögð og skattaskjól, hagsmunatengsl og óeðlilega fyrirgreiðslu, allt hluti sem eru á gráa svæðinu og erfitt að dæma sem bein lögbrot, þá er hægt að verjast slíku í framtíðinni.  Og helstu ógnvaldar hinnar nýju skipan, réttláts þjóðfélags frjálsra og jafnrétthárra manna, án afskipta auðmanna, stæðu vængstýfðir á eftir og ættu mjög erfitt um vik að skemma og eyðileggja, hvað þá að bjóða þrælasölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins upp í dans.

En hvað um hina brotlegu auðmenn???  Eðli málsins vegna þá skila þeir illa fengnu fé, en það sem þeir hafa eignast með lögmætum viðskiptum er þeirra.  Vilji þeir iðrast og nota það til góðs, samfélagi sínu til heilla (ekki til áhrifa), þá ættu þeir að vera velkomnir, það segir allavega biskupinn í Digne, en ef þeir vilja svalla ærulausir í útlöndum þá mega þeir það mín vegna.  

Aðalatriði málsins er sá að sú leið sem ég bendi á, gerir þá áhrifalausa við mótun hins nýja samfélags, og það eitt skiptir máli.  Þannig séð er mér alveg sama um þá á meðan þeir flækjast ekki fyrir.  Hið nýja Ísland er stærra en svo að það velti sér upp úr svalli ærulausra manna.  En það er nógu stórt til að leyfa öllum, og þá meina ég öllum, að iðrast og bæta sig.  Líka þeim sem eru núna dæmdir margar ára fangelsi vegna fíkniefnadjöfulsins og afleiðinga hans.  

Við erum öll ein fjölskylda, líka þeir sem villtust.  Í spjalli mínu við Guðmund um daginn, þá benti ég á að heilbrigt þjóðfélag einbeitti sér að því að slökkva á villuljósum, í stað þess að tukta þá til sem villtust.  Þeim á að bjarga, og sú björgun byggist á iðrun og fyrirgefningu.  Sú leið segir reyndar Sarúman hvíti í Hringadróttinssögu, Hilmi snýr heim á, á blaðsíðu 289, að sé sú miskunnarlausasta gagnvart brotamönnum, því slæm samviska þolir illa að horfast í augun á sjálfri sér.  Þannig að það má alltaf deila um hver sé þyngsta refsingin.

En sú skynsamlegasta er sú sem er liður í því að skapa nýja og betri framtíð fyrir börnin okkar.  Og oft hefur verið þörf, en núna er nauðsyn.

Arinbjörn.  Við höfum svo sem rætt þetta áður.  Máttur spjallsins er að velta fyrir sér hlutunum, hvorugur er í þeirri stöðu að hafa áhrif á gang mála.  En að orða hugsanir er til alls fyrst, á tímum þar sem menn virðast ekki þekkja leiðina.  Pistill þinn um hina sundruðu þjóð segir allt sem segja þarf.  

En af hverju er mér svona tíðrætt um þennan áherslumun okkar á "uppgjörinu" og "réttlætinu".   Í mínum huga, eins og ég reynt að rökstyðja, þá eru ekki margar leiðir að okkar sameiginlega markmið, hún er aðeins ein.  Eða það kennir sagan.

Og að rökstyðja mál sitt þannig að aðrir skynji og samþykki forsendurnar, það er gáfa sem ekki er öllum gefin.  Mér vitanlega hefur mér ekki tekist að fá einn einasta mann til að skipta um skoðun eða áherslu í þessu máli.  Ég er greinilega ekki í takti við samtíð mína.  Sjálfsagt of mikið í fortíðinni.  Og meðan hef ég séð lítinn tilgang í að halda mig við alvöruna, að höggva mann og annan eins og ég hef gert frá því í maí, er aðeins fingraæfingar, sem vissulega hafa tilgang, en snúast ekki um það sem máli skiptir, umræðu um einhverja viti borna leið til framtíðar. 

Þess vegna bíð ég eftir leiðtoganum eins og þú.  Eða þá að stríðið verði svo hatrammt að gamlir menn þurfa að gera það litla sem þeir geta til að hindra þrælkunina.  Sé samt ekki hvað það er.  

En ég hef gaman af þessu spjalli okkar.  Vissulega er ég orðmargari en þú, en við erum að ræða um eitthvað sem skiptir máli.  Og það mættu fleiri gera.  En ég er ekki sammála þér um BH í þeirri merkingu að ég vil meina að uppistöðu er um gott fólk að ræða, en villuljósið var of sterkt.  Það villuljós hét deilur og það náðuð þið ekki að höndla.  En það má alltaf reyna aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 85
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 5402
  • Frá upphafi: 1338860

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 4750
  • Gestir í dag: 61
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband