25.9.2021 | 17:35
Kaustu rétt??
Er spurning sem ég spurði nokkra í bæjarferð minni sem og ferð minni á kjörstað.
Ekki að mér kæmi það nokkuð við, aðeins árétting á að það sem maður kýs, er rétt.
Sigmundur Davíð er bjartsýnn í þessari frétt.
Það er vel, líklegast hefur ekki nokkur flokkur háð ömurlegri kosningabaráttu en Miðflokkurinn, flokkurinn sem stóð vörð um sjálfstæði þjóðarinnar, féll í gryfju ömurlegustu frjálshyggju sem aðeins getur tengst einum Klausturdónunum, þingmanni sem gerir Hannes að hóflegum miðjumanni, jafnvel vinstrimanni.
Sigmundur hafði fjöregg að verja, en augljóst var að hann var ekki þarna langa lengi, á meðan fór sá kjaftforasti á kreik.
Fjöreggið var sjálfstæði þjóðarinnar, andstaða við reglufarganið og frjálshyggju hins frjálsa flæðis.
En kjóstu rétt, allavega fór mitt atkvæði ekki til svertunnar sem hafði yfirtekið Miðflokkinn.
Breytir samt því ekki, að ég veit, að það sem maður kýs, er rétt á þerri stundu sem er kosið.
Og að það sem aðrir kjósa, kjósa þeir rétt.
Eftir bestu samvisku og þeirri sýn sem þeir hafa á þjóðmál og stjórnmál.
Niðurstaðan kallast svo lýðræði.
Skyldan er svo þeirra sem fengu stuðning, að mynda starfshæfa ríkisstjórn.
Margir eru svartsýnir á flokkakraðakið, en munum eitt, þegar á reyndi í heimsfaraldrinum, þá voru allir flokkar samstíga.
Sýndu ábyrgð, létu ekki undan freistingu lýðskrumsins.
Nema kannski hluti Sjálfstæðisflokksins, en var það ekki aðeins öryggisventill fyrir meinta óánægju í samfélaginu?
Við eigum nefnilega þrátt fyrir allt mikið af góðu fólki í stjórnmálum.
Sýn þess og áherslur eru vissulega mismunandi, en þetta er gott fólk.
Vill vel, og bregst rétt við þegar ógn eða hætta steðjar að.
Hvort það dugi til að mæta áherslum nýrrar aldar, eða þeim ógnum sem smán saman byrja að skella á fjörur og ströndum landsins, skal ósagt látið.
Í raun veit aðeins tíminn þar um.
Kjósum samt.
Kjósum rétt.
Treystum svo fólkinu sem við kusum til að ná saman og breyta rétt.
Þau allavega reyna.
Tökum svo slaginn við niðurstöðuna.
Styðjum hana ef við erum sammála.
Reynum að breyta henni ef svo er ekki.
Þetta kallast lýðræði.
Það besta sem við höfum.
Kveðja að austan.
PS. Núna er kosningapistlum mínum lokið, þakka lestur og athugasemdir. Kveðjan að austan mun örugglega heilsa á ný.
![]() |
Telur líklegt að fylgið verði meira |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.9.2021 | 10:48
Það er réttur allra að eiga öruggt húsaskjól.
Segir Björn Leví Pírati, og mikið vildi ég að allir stjórnmálamenn tæku undir þessi orð hans.
Því þá væru íslensk stjórnmál hætt að snúast um víðáttuvitleysu, heldur um kjarna lífs og siðaðs samfélags.
Réttinn til að ala upp börnin í öruggu skjóli.
Því hvað sem menn bulla og sulla, afneita kynjum og kynferði, telja æxlun vera meinta kúgun feðraveldis, eða menn segja að tilgangur lífsins sé auðsöfnun, það er drifkrafturinn, þá er aðeins einn tilgangur með veru okkar hér á jörð.
Að geta af okkur líf, og koma því til manns.
Ég hef ekki alltaf verið beint sá jákvæðasti út í Pírata en þetta er rétt hjá Birni, og mikið vildi ég að hann sæi samhengi milli orða sinna og gjörða, en það er önnur saga.
Því það vill svo til, að þegar stjórnmál snúast um kjarna, tilgang samfélagsins og siðaða hegðun stjórnvalda og atvinnulífs gagnvart almenningi, þá finna menn leiðir og lausnir.
Ekkert svona vitrænt er rætt í íslenskum stjórnmálum í dag.
Eiginlega miðað við jólasveinaleikinn í aðdraganda kosninganna þar sem auglýsingastofur dældu frá sér loforðakosningaauglýsingum, þá mætti halda að þetta væru kosningar fíflanna, veruleikafirrts fólks sem hefði ekkert að segja.
Sem er fjarri lagi, það er mikið að góðu fólki í framboði, skýringanna er því að leita annað.
Vonandi tekst okkur að vinna okkur úr þessu hyldjúpa vitleysingapytti, í landi alsnægtanna, ástandið ekki að vera eins og það er.
Á öld skynseminnar á fíflska ekki að vera drifkraftur allrar stjórnmálaumræðu.
Og þess sjást skýr merki í síðustu skoðanakönnunum, Sjálfstæðisflokkurinn er að fá fylgi til baka frá Viðreisn, ekki vegna þess að hann er betur mannaður, þvert á móti, heldur vegna þess að hægri sinnaðir kjósendur óttast að Viðreisn verði lykill að glundroðastjórn glundroðaflokka.
Sem og að gamla góða Framsókn klikkar ekki á svona tímum, fylgi flokksins fer uppá við, taktík Sigurðar Inga, að vera hann sjálfur en ekki skítadreifari á aðra, er að virka.
Síðan vonar maður að kjósendur á vinstri vængnum sjái að þegar Merkel hætti í Þýskalandi, þá fengum við okkar eigin Merkel sem er Katrín Jakobsdóttir.
Því hvað sem verður sagt um vanda þjóðfélagsins, misskiptingu kjara eða annað, þá verður hann ekki leystur með rugli.
En kyrrstöðustjórn breytir engu, en hún grefur þó ekki dýpri gröf svo erfiðara verður eða jafnvel ókleyft að fá hér siðaða manneskjulegt þjóðfélag.
EES samingurinn verður að víkja, hann er rótin af flestu enda byggður af hugmyndafræði mannvonsku frjálshyggjunnar.
Hvort sem það er þögult samþykki núverandi ríkisstjórnar á hinni hægfara innlimun eða bein aðild eins og Samfylkingin og Viðreisn leggja til, þá verður ekki aftur snúið þegar heljargreip skrifræðisins hefur lagt allt hér í dróma, frjálshyggju eða markaðsvætt alla starfsemi hins opinbera, gert einstaklingnum eða smærri fyrirtækjum ókleyft að starfa á markaði reglugerðafrumskógarins.
Eins er það ótrúlegt að það skuli ekki vera rætt til þaula hvernig þjóðin geti orðið sjálfbær með mat, eigandi alla þennan hita og alla þessa orku, núna á tímum þar sem lofslagshörmungar eru síógn við matvælaframleiðslu heimsbyggðarinnar.
Eða við gerum okkur sjálfbær í orkuöflun og orkunotkun, hafa menn ekki heyrt um vetni eða rafmagn, án þess að við sem þjóðfélag séum færð aftur fyrir daga iðnbyltingarinnar.
Sem er megintrend allrar lofslagstrúboðsins sem núna tröllríður allir umræðu.
Jæja, þetta áttu bara að vera örfáar línu.
En endalaust er hægt að blása, en líka þakka.
Og Björn Leví á þökk fyrir þessi orð sín.
Mikið gæfi ég fyrir að ég upplifði allavega einar kosningar þar sem þessi mennska, rétturinn til að ala börn uppí öryggi, sé mál málanna.
Björn fær prik frá mér.
Kveðja að austan.
![]() |
Það er réttur allra að eiga öruggt húsaskjól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggfærslur 25. september 2021
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.5.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 38
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar