Höfuðlausn Árna felst í uppgjöri við Jóhönnu.

 

Feta þar í fótspor Nikita Kruschev sem treysti völd sín með því að gera upp við lygar Stalínstímabilsins.

 

Árni þarf aðeins að segja satt og rétt frá hvernig hlutirnir gengu fyrir sig í ríkisstjórn Jóhönnu, hvernig ráðherrar voru kúgaðir, hvernig var logið að þeim, hvernig hvert afglapamálið á fætur öðru var samþykkt vegna hagsmunagæslu auðtengsla flokksins.

Það er til dæmis óþarfi fyrir Árna að draga lengur þann kross sem Árna Páls lögin svonefndu eru, þegar ríkisstjórninni var skipað að gæta ýtrustu hagsmuna fjármálakerfisins eftir að Hæstiréttur hafði dæmt viðmið við gengisvísitölu ólögleg.

 

Vísir menn, eins og til dæmis stjórnmálafræðingar eða sá hópur sem gekk erinda auðtengslanna í formannskjörinu, gæti sagt að Árni kæmist ekki upp með þetta uppgjör sitt, flokkurinn myndi klofna, grið væru rofin.

Eða honum væri gert ókleyft að starfa áfram sem formaður flokksins.

 

Því er til að svara að auðtengslin rufu griðin þegar þau beittu Jóhönnu arminum úr launsátri gegn Árna, flokkurinn er klofinn, og Árni er aðhlátursefni.

Óstarfhæfur, aðeins formaður í sínu eigin umboði, því það var hans atkvæði sem tryggði honum formannstitilinn.

Láti Árni þetta yfir sig ganga, þá er endanlega úti um hans pólitíska framtíð, vís aftaka framundan.

 

Egill Skallagrímsson bjarg lífi sínum með dýru kvæði sem hann kenndi við höfuð sitt.

Hafði engu að tapa, það átti hvort sem er að taka hann af lífi.

 

Árni Páll hefur heldur engu að tapa.

En margt að vinna ef hann lætur sverfa til stáls.

Nýtt pólitískt líf, jafnvel forystuhlutverk í hinu nýja afli sem mun örugglega spretta upp úr hjaðningavígum hinna gömlu flokka.

Verkefnin eru ærin, það þarf að bjarga Íslandi úr höndum fjárglæpamanna og þjófa.

Sá sem stígur fyrstu skrefin mun annað hvort uppskera upphefð, eða byssukúlu, en í því er þó fólgið val, möguleiki, pólitískt framhaldslíf.

 

Árni Páll hefur ekki langan tíma til að yrkja sitt kvæði, og það verður að vera dýrt ort.

Núna um helgina, eða strax í næstu viku, sem þó er ekki gott því það verða svo margir búnir að hlæja að honum í millitíðinni, og hlægilegir menn eru til að hlæja að, ekki fylgja, þarf hann að tilkynna afsögn sína.

Og um leið kalla saman aukalandsfund þar sem gengið verður frá kjöri nýs formanns. 

Eftir almenna kosningu flokksmanna.

 

Hann á að fordæma vinnubrögð launsátursins, sem taka annarlega hagsmuni auðtengsla fram yfir hagsmuni flokks og þjóðar. 

Hann á að segja satt um Jóhönnu Sigurðardóttir, og ekki draga neitt undan, hvorki sína hlutdeild, eða annarra, en nota jafnframt um leið tækifærið til að útskýra þá stöðu sem hann var í og af hverju hann tók þær ákvarðanir sem hann tók.

Hann á um leið að boða harða andstöðu við vogunarsjóði, þjóna þeirra og leppa, við hina nýríku, og hina gömluríku, við auð og auðtengsl.

Að heimta Ísland úr ræningjahöndum.

 

Þetta er hans eini valkostur. 

Hans eina leið til að marka sér sérstöðu.

Píratar hafa yfirtekið hið kostaða lýðskrum og bullugang, hagsmunagæslan er í höndum ríkisstjórnarflokkanna, feigðin og fortíðin hjá þeim flokkum sem seldu sál sína AGS í síðustu ríkisstjórn, og endurreistu í óbreyttri mynd hið fallna efnahagskerfi auðs og auðmanna.

Það er annað hvort þetta eða daga upp sem einnota brandari fram að næstu kosningum.

 

Vissulega áhætta, vissulega efi, því vogunarsjóðir eru engir grínistar þegar hundruð milljarða er í húfi.

En um leið tækifæri, um nýtt líf, um nýja framtíð í íslenskum stjórnmálum.

Hvort sem það er innan Samfylkingarinnar eða utan.

 

Val sem er eiginlega ekki spurning um vit eða vitsmuni, því fáir eru svo óglöggir að þeir vita ekki til hvers öxin er þegar höfuð þeirra hefur verið lagt á höggstokkinn.

En val sem er spurning um manndóm.

Og dirfsku.

 

Sem reyndar í Árna Páls tilviki er ákveðin spurning.

Ákveðinn efi, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

 

Spurning sem aðeins Árni sjálfur getur svarað.

Maður eða stærsti brandarinn??

 

Og hefur ekki langan tíma til að svara.

Aðhláturinn sér til þess.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Segjast sjá fingraför Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börnin eru úti á túni.

 

Og ekki nema gott um það að segja.

Því einkenni barna er jú barnaskapur.

 

Hins vegar afsakar ekkert eldra fólk sem ver ekki framtíð barna sinna.

Núna þegar grímulaus hagsmunaöfl ýta undir ólgu og upplausn í þjóðfélaginu.

 

Svo vitni í kennslubók sögunnar, þá sigruðu falangistar ekki borgarastríðið á Spáni vegna hersnildar Franco, því sá ágæti maður kunni fátt annað en að binda bindishnút, og pússa skóna sína.

Þeir unnu vegna þess að hið íhaldsama fjármagn bar fé á hreyfingu anarkista, gerðu hana gildandi, og þar með var feigð hin unga lýðveldis ekki forðað.

 

Kennslubók sögunnar segir líka að sagan endurtaki sig.

Hver er vörn þjóðarinnar gegn auðræði sem vinnur gegn lýðræðislegum rétti launafólks með hótun um að verðtryggingin éti upp alla kjarbætur launþega?

Hver er vörn þjóðarinnar gegn Tortillakerfinu sem leyfir eignarhaldi að gufa upp í  skúffum skattapardísa og skattgreiðslum einhvers staðar á leiðinni þangað?

Hver er vörn þjóðarinnar gegn ásælni vogunarsjóða í skattfé landsmanna??

 

Eða svo ég dragi þetta saman; Hver er vörn þjóðarinnar gegn auðkerfinu sem setti okkur á hausinn haustið 2008, og náði eftir fjármálahrunið að stýra endurreisn efnahagskerfisins í sama farveg??

Anarkistar og bullukollar sem tala um bréf utanríkisráðherra sem aðför að þingræðinu??

 

Hvað hafa Píratar lagt til málanna, núna í dag, í gær, eða dagana þar á undan??

Eitt orð.

Ekkert.

 

Já, sagan endurtekur sig.

Kennslubók sögunnar lýgur ekki.

Því miður.

 

Því við fullorðna fólkið kunnum ekki að verja samfélag okkar, nútíð okkar eða framtíð.

Lifum í fortíðinni, tuði, röfli.

Verjum ekki lífið sem við sórum að vernda.

 

Því miður.

Kveðja að austan.

 


mbl.is 38% ungs fólks myndi kjósa Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir alvöru frambjóðendur?

 

Ef Sigríður Inga hefði verið alvöru frambjóðandi þá hefði hún ekki ráðist gegn Árna Pál með þeim hætti sem hún gerði.

Ef hún hefði verið alvöru frambjóðandi þá hefði notað önnur rök en þau sem hún notaði í útvarpsviðtali að hún hefði ákveðið að grípa tækifærið þegar það gæfist.  Svona tala egóistar sem í raun velja stjórnmálaflokk eftir framamöguleikum en ekki lífsskoðunum.

Ef hún hefði verið alvöru frambjóðandi þá hefði hún ekki stamað út sér þegar hún var spurð um hvort einhver málefnaágreiningur væri til staðar, að hún vildi skerpa áherslur í velferðarmálum. Hún hafði ekki hugsað svarið því hugur hennar var allur við stóra tækifærið sem henni var lofað.  Ef hún hefði verið búin að hugsa svarið, þá hefði hún ekki fallið í þá gildru að svara einhverju sem vel undirbúinn fréttamaður hefði getað afhjúpað með næstu spurningu; "Hvar sjást merki un hinn meinta málefnaágreining?, hvar sjást merki um að þú hafir barist fyrir hinum meintu skerpingum, og mætt andstöðu núverandi formanns?".

 

Málið er að það var bara einn alvöru frambjóðandi, mótframboðið var á vegum grímulausra hagsmunaafla, sem vildu refsa Árna Páli fyrir að vera ekki nógu leiðitamur.

Og í framboð var fengin dúkkulísa, sem átti að brosa og vera sæt.

Eftir stendur klofinn flokkur, eyðilagður formaður.

 

Og svipan sem allir óttast.

Kveðja að austan.


mbl.is Kaus ekki sjálfa sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. mars 2015

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (5956)
  • Screenshot (5957)
  • Screenshot (5952)
  • Screenshot (5951)
  • Screenshot (5886)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 115
  • Frá upphafi: 1470038

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 92
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband