Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það vinna ekki bara meðvirkir á Morgunblaðinu.

 

Meðvirkir sem réttlæta allan þann viðbjóð sem Stefán E. Stefánsson spyr Sönnu Magdalenu um hvort hún sé samþykk.

Skora á alla læsa, alla sem hafa vott af siðferðiskennd, og þaðan af meira, til að lesa þetta viðtal.

 

Stefán afhjúpar algjörlega hugsunarhátt samlanda okkar sem styðja voðaverk Hamas, og með bulli og vitleysu reyna að réttlæta voðaverk Íslamista um allan heim.

Eða það markmið þeirra að útrýma rúmlega 9 milljón manna þjóð, vegna átaka sem áttu sér stað fyrir rúmum 70 árum síðan.

Nauðganir, limlestingar, áður óþekktur óþekktur viðbjóður á 21 öldinni, aftaka barna með byssukúlum, það er þau sem voru heppin, sundurlimun með sveðjum í ungbarnarúmum, börn sem bera augljósleg merki um að hafa verið brennd lifandi.

Vörn Sönnu, Sólveigu Önnu og annarra sem styðja þennan viðbjóð, þessa viðurstyggð, er að þessi voðaverk þurfi að skoða í "sögulegu samhengi" svo ég vitni beint í viðtal Stefáns.

 

Stefán á miklar þakkir fyrir þetta viðtal.

En mér leikur forvitni á hvernig hann getur unnið á sama vinnustað og þeir blaðamenn Morgunblaðsins sem ganga meðvirkir í takt með Hamas og voðaverkum samtakanna, bæði þau sem voru framin í Ísrael þann 7. október 2023, eða tilgang þeirra, að kalla dauða og hörmungar yfir þjóð sína, vera tilbúin að fórna "mörg hundruð þúsund sak­laus­ir borg­ar­ar lét­ust. "Þetta voru nauðsyn­leg­ar fórn­ir," er haft eft­ir Sinw­ar.".

Að fórna heilu samfélagi milljóna til að ná fram pólitískum markmiðum sínum um að útrýma Ísraelsríki og íbúum þess, sem eru rúmlega 9 milljónir í dag.

 

Í ljósi aðstæðna þá skil ég á vissan hátt menn eins og Sinwar, biturð þeirra varð ekki til úr engu.

En ég skil ekki hina meðvirku á Morgunblaðinu, í alvöru.

 

Ofstæki brenglar fólki oft sýn.

Þess vegna eru eldri forystumenn félagsskaparins Ísland-Palestína með langa ferilsskrá þar sem þeir lofsama voðaverk, hvort sem það var hjá kínverskum kommúnistum eða tilraun Rauðu khmerarna til að útrýma borgarastétt landsins eftir valdatöku sína.

Búandi að arfleið fólks sem réttlætti voðaverk Stalíns.

 

En eiginlega finnst mér hinir meðvirku eiga sér enga afsökun.

Og í ljósi þess sem þeir réttlæta með skrifum sínum og fréttamennsku, vera í raun eitthvað úr ranni þess sem kennt er við mannvonsku.

 

Eiga ekki ofstækið sér til afsökunar.

Að baki býr eitthvað óeðli sem þrífst á þjáningum annarra.

Þar sem meint gæska er réttlæting.

En er í raun réttlæting illskunnar.

 

Það er þó gott að ennþá vinni ærlegt fólk á Morgunblaðinu.

Kveðja að austan.


mbl.is Sanna: Skoða þurfi barnagíslatöku í samhengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg blaðamennska.

 

Það er fáheyrt að borgarlegt blað eins og Morgunblaðið skuli gefa áróðursdeild Hamas samtakanna svona mikið pláss til að fegra voðaverk sín og ábyrgðina á þeim hörmungum sem íbúar Palestínu ganga í gegnum í dag.

 

Það er vitað að Hamas hefur undirbúið þetta stríð í mörg ár. Wall Street Journal afhjúpað samskipti æðstu yfirmanna samtakanna þar sem þeir á kaldrifjaðan hátt ræddu um hvernig fyrirhugaðar morðárásir á Ísrael yrðu að framkalla heiftarárásir á íbúa Gasastrandarinnar, og þeir gerðu sér fulla grein fyrir að slíkt myndi kosta tugþúsundir landa þeirra lífið.

"Í ein­um skila­boðum til Ham­as-liða í Doha vitn­ar Sinw­ar til sjálf­stæðis­bar­áttu ríkja á borð við Als­ír þar sem mörg hundruð þúsund sak­laus­ir borg­ar­ar lét­ust. "Þetta voru nauðsyn­leg­ar fórn­ir," er haft eft­ir Sinw­ar. Sýna mörg skila­boð, sem voru meðal ann­ars send til ým­issa sátta­semj­ara og er­ind­reka í samn­ingaviðræðum um vopna­hlé, að Sinw­ar sé full­ur sjálfs­trausts um að Ham­as geti haldið leng­ur út en Ísra­el. "Við höf­um Ísra­ela nákvæm­lega þar sem við vilj­um þá," sagði Sinw­ar í ný­leg­um skila­boðum til Ham­as-liða."

Já, lát hundruð þúsunda eru nauðsynlegar fórnir og við höfum Ísraela nákvæmlega þar sem við viljum hafa þá.

 

Í stríðsundirbúning sínum gerði Hamas meira en að grafa göng með tengingar við skóla og sjúkrahús þar sem hægt væri að gera árásir á væntanlega ísraelska hermenn, áróðursfólki var líka plantað um alla Evrópu, æft í frösum eins og "Palestína er ekki bara fyr­ir Palestínu­menn, við eig­um ekki í nein­um vand­ræðum með að búa með kristn­um mönn­um eða gyðing­um, all­ir sem eiga sér hlýju í hjarta geta búið þar, Jesús fædd­ist í Palestínu".

Hlálegur frasi í ljósi þess að Íslamistar hafa þurrkað upp byggðir kristinna og gyðinga við Miðjarðahafið, byggðir sem eiga sér mun eldri rætur en Íslam.

 

En frasar og áróður morðingja, þar sem stærst er ábyrgðin á mannfalli óbreyttra borgara Gasastrandarinnar, er yfirleitt í skúmaskotum alnetsins, líkt og hjá Breivik og skoðanabræðrum hans, sjaldgæft er að borgarlegur fjölmiðill gefi þeim vængi á miðlum sínum.

Réttlæti þannig meintar nauðsynlegar fórnir saklausra sem voru aldrei spurðir hvort þeir vildu deyja fyrir málstaðinn.

Líkt og fréttaritstjórn Morgunblaðsins gerir með því að birta þennan einhliða áróður Hamas samtakanna.

 

Mig langar að vitna í meðvirknina í þessu sorglega viðtali;

"Já já, við erum úti um allt, við erum með fólk í Kan­ada, Banda­ríkj­un­um, Bretlandi og víðar sem ræðir við fólk á göt­unni um þjóðarmorðið sem við vilj­um stöðva. Við vilj­um bara hafa frið, en ég bendi líka á að þegar ég segi „við“ vís­ar það til þess að allt góðhjartað fólk finn­ur til með Palestínu,“ svar­ar hann og fær í staðinn þunga­vigt­ar­spurn­ingu um hvernig fólk taki hon­um þegar hann gef­ur sig á tal við það. Hvort ein­hverj­ir reiðist ekki eða fyrt­ist við, hringi jafn­vel á lög­regl­una.".

Já, þungavigtarspurningin var að spyrja hann um viðbrögð fólks sem hann áreitti með áróðri sínum, en ekki að spyrja áróðursmanninn út í fullyrðingar hans, til dæmis ef hann vildi frið, af hverju væri hann ekki með risaborða með skilboðum til Hamas að sleppa öllum gíslum sem Hamas héldi föngnum?

Eða spyrja hann að ef honum er alvara að stöðva meint þjóðarmorð, af hverju krefst hann ekki að Hamas leggi niður vopn sín, hætti átökum innan um þjóð sína sem fellur umvörpum í þeim átökum?

 

Blaðamaðurinn hefði jafnvel líka geta spurt hann þeirrar þungavigtarspurningar, að fyrst hann væri fulltrúi Hamas hérna á Íslandi, hvort hann fyndi ekki til ábyrgðar, jafnvel samsektar vegna þessa meinta þjóðarmorðs, svona í ljósi þess að samtökin sem hann tilheyrir, hófu þessu átök, einmitt í þeim tilgangi að tugþúsundir samlanda hans myndu falla í þeim átökum.

Klassísku spurninguna um hver ber ábyrgðina á stríðshörmungum, sá sem hóf þau í þeim tilgangi að útrýma meintri óvinaþjóð, eða hin meinta óvinaþjóð sem bregst við með vopnavaldi því hún vill ekki láta útrýma sér.

Frömdu Bandamenn þjóðarmorð í Þýskalandi eða var ábyrgðin nasistanna sem hófu styrjaldarátökin meðal annars með einbeittum vilja sínum að útrýma slavnesku nágrönnum sínum í austri??

 

Og ekki hvað síst hefði blaðamaður Morgunblaðsins, þetta er jú borgarlegur miðill, geta spurt stærstu spurningarinnar, sem hefði afhjúpað innræti hins meinta friðeldandi áróðursmanns.

Varst þú einn af þeim sem hrópuðu og blístruðu í fögnuði Palestínuaraba víðsvegar í borgum Evrópu, þar á meðal í Reykjavík??

Daginn sem fréttirnar bárust af voðaverkum Hamas í Ísrael.

Stjórnlaus fögnuður fólks yfir drápum á óvininum þó það vissi að þau dráp myndu kosta þúsundir samlanda sinna sem hvergi gátu farið, líf og limi, sem og eyðingu byggðar þeirra.

Nei í meðvirkni sinni gerði blaðamaður Morgunblaðsins það ekki, vitið er ekki meira en guð gaf.

 

En vitið á að vera meira á fréttaritstjórn blaðsins.

Það á ekki að ganga í takt með morðingjum sem víla sér ekki fyrir að fórna "mörg hundruð þúsund sak­laus­ir borg­ar­ar", til að tryggja þær mannfórnir, láta liðsmenn sína fremja viðbjóðsleg hermdarverk svo ríkisstjórn Ísraels átti ekki aðra kosti en að taka slaginn í þéttbýli Gasa strandarinnar.

Rifjum upp hvaða mannlega viðbjóð fréttaritstjórnin er meðal annars að réttlæta;

"Videos filmed by Hamas include footage of one woman, handcuffed and taken hostage with cuts to her arms and a large patch of blood staining the seat of her trousers. In others, women carried away by the fighters appear to be naked or semi-clothed.

Multiple photographs from the sites after the attack show the bodies of women naked from the waist down, or with their underwear ripped to one side, legs splayed, with signs of trauma to their genitals and legs.

"It really feels like Hamas learned how to weaponise womens bodies from ISIS [the Islamic State group] in Iraq, from cases in Bosnia," said Dr Cochav Elkayam-Levy, a legal expert at the Davis Institute of International Relations at Hebrew University. "It brings me chills just to know the details that they knew about what to do to women: cut their organs, mutilate their genitals, rape. Itis horrifying to know this."".  BBC 3. des 2023, ég feitletra vísanir í myndskeið tekin af Hamasliðum á morðvettvangi og ljósmyndir af fórnarlömbum þeirra sem blaðmönnum voru sýndar.

 

Í nafni málstaðar má sem sagt nota konur sem vopn í stríði, nauðga þeim, limlesta.

Það er það sem Morgunblaðið er að segja með þessari frétt.

 

Og Morgunblaðið vill endurskrifa söguna, það voru Bandamenn sem frömdu þjóðarmorð í Þýskalandi.

Nýnasistarnir höfðu sem sagt rétt fyrir sér.

 

Spurningin er, hvenær tekur Mogginn viðtal við einn slíkan?

Svona ef blaðið ætlar að vera sjálfu sér samkvæmt.

 

Af sem áður var.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Ég hef bara verið handtekinn á Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eltingarleikurinn við skottið.

 

Þeir þóttu ekki sérstaklega gáfulegir hundarnir í sveitinni sem eyddu heilu og hálfu dögunum í að eltast við skottið á sjálfum sér.

En miðað við þetta viðtal við formann grunnskólakennara þá virðast þeir ekki hafa verið svo vitlausir, mætti jafnvel halda að þeir væru hámenntaðir.

 

Kjör verða ekki til með eilífum samanburði, að þessi fái svona mikið, því á ég að fá svona mikið, og þá er þetta seinna svona hærri tala en hjá fyrra svona.

Kjör verða heldur ekki til með peningaprentun, það þýðir ekki að segja að ég vil fá milljón, eða tvær milljónir, jafnvel margar milljónir, ef það er ekki innistæða fyrir þeirri kröfu.

Og eins og fjárhagsstaða ríkis og sveitarfélaga er í dag, þá er engin innistæða fyrir launahækkun opinbera starfsmanna.

Allt sem er knúið fram með verkföllum leitar beint út í verðbólguna, og það vita allir hvað það þýðir, eru vextir ekki nógu háir nú þegar??

 

Kjör verða til með verðmætasköpun og ef kennarar vilja hærri raunlaun, þá ættu þeir að krefja stjórnvöld um að bæta skilyrði atvinnulífsins, til dæmis með lækkun skatta eins og tryggingargjaldsins.

Og ef þeir eru nógu djúpir á því, vilja virkilega jákvæða kjaraþróun, þá krefja þeir næsta alþingi að segja upp EES samningnum sem fyrir löngu er orðinn dragbítur á þróun atvinnulífsins með öllu reglufargani sínu.

Einnig yrði ágætis kjarabót að loka landamærunum, á meðan fólk flyst hraðar til landsins en við náum til að byggja fyrir það þak yfir höfuð, þá er viðvarandi síþensla og hávextir.

 

En að fara í verkfall til að knýja fram kjararýrnun er ekki gáfulegt.

Svei mér þá.

Kveðja að austan.


mbl.is Kennarar vilja meira en milljón í laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núna er rétti tíminn til að ljúka stríðinu

 

Er haft eftir Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Stríði sem átti aldrei að verða, stríði sem átti löngu að vera lokið, stríði sem hefur þróast útí lönguvitleysu.

 

Þá þarf Blinken að standa við orð sín, gera harðlínumönnum í ríkisstjórn Ísraels það ljóst að áframhaldandi stuðningur Bandaríkjanna við ísraelsku hernaðarvélina sé háður því að Ísraelsmenn lýsi því yfir að gegn lausn gísla, jafnt lifandi sem látna, þá fari þeir frá Gasa fyrir fullt og allt.

Láti íbúana þar glíma við Hamas og morðingjasveitir þess.

 

Þarna reynir á forystu Bandaríkjamanna.

Vonandi bregst hún ekki.

Kveðja að austan.


mbl.is „Núna er rétti tíminn“ til að ljúka stríðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árásir á kennara.

 

Það eru margar hliðar á þeim vanda sem blasir við skólakerfinu í dag.

Og Morgunblaðið á hrós skilið fyrir umfjallanir sínar og viðleitnina til að reifa ólík sjónarmið, bæði með viðtölum og fréttaskrifum.

 

Eins má hrósa blaðinu fyrir málefnaleg efnistök varðandi grein Svandísar, því margt er til í því sem Svandís segir, og mjög ómaklegt að skella skuld á kennara vegna kerfis sem hefur algjörlega brugðist varðandi menntun barna okkar.

Því það er ekki nóg að hluti barna okkar fái góða menntun, öll börn, óháð þjóðerni og þjóðfélagsstöðu eiga að fá hana.

 

Sérstaklega vil ég hrósa Morgunblaðinu fyrir þessi orð, því það gleyptu svo margir við aulabrandara Einars borgarstjóra þegar hann gerði grín af fjarvistum kennara vegna veikinda;

"Rætt var á mbl.is í sept­em­ber við fjölda kenn­ara, sem hrak­ist hafa úr störf­um sín­um við grunn­skóla í Reykja­vík sök­um myglu. Í ljós kom að borg­ar­yf­ir­völd höfðu skellt skolla­eyr­um við ít­rekuðum ábend­ing­um þess sem sá um hús­næði skól­ans.".

Það eru nefnilega skýringar á öllu, og þarna liggur skömmin hjá borgaryfirvöldum.

 

Eflaust er grein Svandísar skrifuð sem hluti af kosningabaráttu hins deyjandi flokks hennar en þá hefur hún allavega gert þarft verk í þeirri baráttu.

Það eru ekki kennarar sem móta menntastefnuna, þeir þurfa að vinna eftir henni.

Það eru ekki kennarar sem þróa fávitanámsgögn eins og stærðfræðikennsluna sem átti að byggjast á að nemendur sjálfir uppgötvuðu formúlur og stærðfræði sem þurfti þúsundir ára og mestu hugsuði hvers tíma til að þróa og bæta.  Eða þá nálgun í lestrarkennslu að afleggja stafa og hljóðkennslu heldur að kenna orð með því að láta börnin þreifa á hlutum, teikna þá og föndra.

Það eru kennararnir sem þurfa að reyna að gera gott úr þessari forheimsku úr ranni froðu rétttrúnaðarins.

 

Eins eru það ekki kennarar sem bera ábyrgð á sístreymi erlends fólks til landsins, á þjóðarskiptunum sem eru að afleggja íslenska menningu og tungu.

Þeir fá bara alltaf ný og ný börn í bekkina sína, ómælandi á íslensku, ólesandi á íslenska texta.

Svo eru menn hissa á því að þessi sömu börn koma ekki vel út á Pisa könnunum.

 

Ábyrgðaraðilar þessarar hringavitleysu, hvað sem þeim gengur til, finnst auðvelt að frýja sig sök með því að skella skuldina á kennara, og því miður taka margir undir.

Minn mælikvarði eru ánægð börn sagði ein fótboltamamman við mig, sem í aukastarfi frá því að vera fótboltamamma, var kennari, og umræðan var Pisa könnun þegar tvítugir strákarnir okkar voru 12-14 ára að mig minnir. Og svo fylgist ég með hvernig þeim vegnar í lífinu, sé mörg af þeim fara til frekari náms og standa sig vel.

 

Sem foreldri tveggja stráka, aldnir upp í litlu samfélagi, get ég tekið undir þessi orð.

Þeir hlutu góða og kærleiksríka menntun, bæði í grunnskóla sem og í framhaldsskólanum hér í bænum.

Smár en góður, lífsglaðir krakkar sem virðast standa sig vel í því námi sem þau hafa farið í.

Af þeim er sómi, og þau eru rósir fyrir skólakerfi minnar litlu byggðar, bæði kennara sem og stjórnenda.

 

Þannig er þetta alls staðar þar sem vel er gert.

Og kennurum gert kleyft að sinna störfum sínum.

 

Fyrir það ber að þakka.

Sem og að andæfa því að sekir geti skellt skuld á þá sem litla eða enga sekt bera.

 

Þess vegna eiga bæði Mogginn og Svandís hrós fyrir skrif sín.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Segir að ráðist sé á kennara og hart sótt að þeim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiturbyrlun er ekki hluti af skyldum Rúv við land og þjóð.

 

Svo ég vitni beint í orð Stefáns; "Áfram mun­um við sinna okk­ar verk­efn­um og skyld­um við land og þjóð af metnaði og krafti líkt og und­an­far­in ár".

 

Byrlun sem aðeins tilviljunin ein kom i veg fyrir að varð að morði, kannski greip einhver vættur inní sem gat ekki hugsað sér að Ríkisútvarpið skipulegði morðatlögu að borgurum þessa lands.

Og Stefán Eiríksson hefur ekki axlað ábyrgð á.

Lítilmennska hans því algjör.

 

Þó stór miðað við þá smán að fulltrúar almennings, fulltrúar löggjafarvaldsins skulu framlengja ráðningartíma Stefáns Eiríkssonar til næstu 5 ára.

Í þeirri smán felst yfirlýsing að þessir fulltrúar almennings, þessir fulltrúar löggjafarvaldsins telji Ríkisútvarpið sé hafið yfir lög og reglur samfélagsins, það megi búa til fréttir, taka fólk og fyrirtæki fyrir og beita öllum ráðum til að ná höggi á viðkomandi.

Jafnvel reyna að drepa fólk, þar er engin afsökun að tilgangurinn hafi verið að reyna svæfa viðkomandi borgara svo hægt væri að stela síma hans og afrita.

 

Það er mikið að í samfélagi sem líður svona.

Kveðja að austan.


mbl.is Stefán endurráðinn til fimm ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins dauðir breytast ekki.

 

Hvort þeir gangi aftur eins og gamla Alþýðubandalagið í VG og nái í atkvæði sem eru ekki þessa heims, er alltaf fræðilegur möguleiki, en ólíklegur.

 

Flokkur sem vill lifa, og hefur lifað af í áratugi, upplifað tvenna tíma, á rætur aftur í sjálfstæðisbaráttu 19. aldar, var kjölfesta hægri fólks alla 20 öldina, og vill áhrif á þeirri 21., hann breytist, rær á þau mið sem hann telur gefa.

Og í anda hins sterka leiðtoga, sem losaði sig við ógnina af þessu leiðinda lýðræði sem prófkjör eru með því að boða til kosninga með engum fyrirvara, þá boðar Bjarni breytingar á Sjálfstæðisflokknum.

 

Út með miðaldra karlmenn fortíðarinnar, inn með ungt fólk nýrra tíma, það sem hann sagt hefði viljað fyrir síðustu kosningar, en prófkjörin voru ekki sammála um, raungerir hann núna með smölun trúnaðarfólks á kjördæmaþing.

Hefur húmor fyrir öllu saman; "... það hafa verið mjög ánægju­legt hve mik­ill kraft­ur hefði færst í öll kjör­dæm­in og hvað þing­in hefðu verið fjöl­menn. ... Alltaf sé hægt að gera ráð fyr­ir því að breyt­ing­ar verði þegar lífi sé hleypt í flokks­starfið með röðun, líkt og nú var gert".

 

Gott og vel.

Þannig vinna sterkir leiðtogar, og það er bara svo, ein af staðreyndum lífsins, að lýðræðið fúnkerar ekki án sterkra leiðtoga.

Annað er ávísun á upplausn og yfirtöku sterkra einræðisherra eða tyranna.

 

Tíminn einn veit svo hvernig tekst til með tiltektina, nái Bjarni varnarsigri þá getur hann afhent Þórdísi Kolbrúnu lyklavöldin, nái hann að sigra kosningarnar, það er að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram stærsti flokkurinn á þingi, þá verður Bjarni áfram óskoraður leiðtogi flokksins, og ræður sjálfur tímasetningu afsagnar sinnar sem formaður flokksins.

Tapi hann, þá tekur hann Þórdísi Kolbrúnu með sér í fallinu, þá hefur breytingin úr Sjálfstæðisflokki í landsöluflokk Samfylkingarinnar mistekist.

 

Sem Austfirðingur fagna ég að prófkjör voru ekki viðhöfð, þar með tókst að rjúfa ægiveldi Akureyringa á skipan framboðslista í Norðausturkjördæmi.

Ægiveldi sem hefur leitt til þess að forystufólk kjördæmisins keppa um fyrsta sæti á lista meðalmennskunnar, jafnvel þó flestir Akureyringar yrðu þráspurðir, þá þekkja þeir ekki nöfn þingmanna sinna.

Nema kannski Loga greyið, en það kemur ekki til að góðu.

 

Eftir langa eyðimerkurgöngu fáum við Austfirðingar loksins forystumann í kjördæmið, óska Jens Garðari alls hins besta í störfum sínum.

Megi svo fleiri flokkar fylgja þessu fordæmi.

Nefni engin nöfn.

 

En þetta var reyndar útidúr sem ég gat ekki stillt mig um.

Annars er það;

Kveðjan að austan.

 

 


mbl.is Finn kraft í öllum kjördæmum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tiltektin.

 

Það er athyglisvert að sjá hvernig Samfylkingin innan Sjálfstæðisflokksins hefur hert tökin á flokknum eftir að Bjarni Ben greip feginshendi útgönguleiðina sem Svandís Svarvarsdóttir bauð honum á nýliðnum landsfundi VinstriGrænna.

Réttmæta ástæðu til að slíta stjórnarsamstarfinu fyrirvaralaust, og boða til kosninga með svo skömmu fyrirvara að flokksvél allra flokka ræður skipan framboðslista, enginn tími fyrir þessi leiðindi sem prófkjör eru.

Og ekki hvað síst, enginn tími til að skipta um kallinn í brúnni, en öruggt var að það yrði gert á landsfundinum í byrjun næsta árs.

 

Allir með opin augu sjá að Bjarni hefur vaxið við þessi stjórnarslit, þreytan og slenið er víðsfjarri, gamli forystumaðurinn mættur, skeleggur og drífandi.

Óvissan hins vegar var spurningin um hvar stendur Bjarni í pólitíkinni innan flokksins, hingað til hefur hann brúað bilið milli Samfylkingarinnar innan flokksins, þeirra þingmanna sem vilja afleggja sjálfstæði þjóðarinnar og afhenda Brussel æðstu völd í lagsetningu og múlbinda síðan framkvæmdarvaldið til að lúta ordum að utan, kennda við tilmæli ESA, og síðan gamla Sjálfstæðisflokksins, hinna borgaralegu íhaldsþingmanna sem vita hvað felst í að vera sjálfstætt íhald.

 

Ætli tiltektin í dag sýni ekki hvar Bjarni stendur í þeim innanflokksátökum.

Íhaldsþingmönnum var slátrað svo það sé sagt hreint út.

 

Eftir stendur flokkur sem mun örugglega endurnýta frasa gamla Sjálfstæðisflokksins, þykist tala gegn þjóðarskiptunum, og í orði tala gegn inngöngu í Evrópusambandið, sem má vel að vera rétt, eftir samþykkt bókunar 35 þá glatar þjóðin sjálfstæði sínu, og slagur um formlega inngöngu ekki fyrirhafnarinnar virði.

Síðan verður talað um lægri skatta, minna regluverk og eitthvað bla bla sem stelpurnar geta örugglega lært eins og alla hina frasana sem liggja þeim á tungu.

Þannig verður reynt að bregðast við tangarsókn Miðflokksins á lendur borgaralegrar íhaldsmennsku.

 

Spurningin hins vegar er hversu trúverðugt það verður þegar litið er yfir valinn, þeir þingmenn sem gátu gefið slíkri sýnd trúverðugleik, þeim var öllum slátrað, gamli Sjálfstæðisflokkurinn á ekki lengur fulltrúa á framboðslistum flokksins?

Sem og það er spurning hvort fleiri fylgi í fótspor Sigríðar Andersen yfir í Miðflokkinn.

Hvort tiltektin verði búmmerang sem hitt flokkinn illa í kosningafótinn, að íhaldssamir kjósendur í eldri kantinum, sem reyndar eru kjarnafylgi flokksins, sjái lítinn sem engan mun að kjósa Kristrúnu og Samfylkinguna, eða Þórdísi Kolbrúnu og Samfylkingu hennar innan Sjálfstæðisflokksins??

Kjósi þá annaðhvort Miðflokkinn eða hinn nýja Lýðræðisflokk Arnar Þórs Jónssonar.

 

Þetta veit náttúrulega tíminn einn.

En fróðleg var tiltektin.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Reynslumiklir þingmenn fengu ekki sæti á lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrotið.

 

Stóra spurningin er samt um hvort gjaldþrotið er stærra??

 

Samfylkingarinnar, sem treystir sér ekki lengur í alvörustjórnmál, heldur treystir á þekktar persónur þjóðlífsins til að tryggja góð úrslit í komandi kosningum.

Eða almannavarna og sóttvarna þjóðarinnar þegar forystufólk þar nýtur sér störf sín þar til frama á vettvangi stjórnmálanna.

Eins og aumkunarverðustu áhrifavaldar samfélagsmiðlanna.

 

Þórólfur sagði vissulega að þetta væri ekki fyrir sig, en óskaði þeim Víði og Ölmu góðs gengis og sagði að framboð þeirra væri styrkur fyrir Samfylkinguna.

Sem er örugglega rétt, og væri styrkur fyrir hvaða flokk sem er, ef ekki væri sá hængur á að fólk sem fær athygli og umfjöllun fjölmiðla vegna starfa sinna í þágu almennings á hættutímum vegna náttúruváar eða heimsfaraldurs alvarlegra smitsjúkdóma líkt og kóvid veiran var, það á ekki að selja sálu sína stjórnmálaflokkum gegn öruggu þingsæti.

Því það skaðar ekki aðeins sitt eigið mannorð og æru, heldur stórskaðar það líka trúverðugleik þeirra embætta sem það gegndi.

Sem á hættutímum eru líklegast mikilvægustu embætti þjóðarinnar.

 

Þetta er svo sorglegt.

Þetta er svo mikið gjaldþrot stjórnmálanna.

En fyrst og síðast smækkun viðkomandi einstaklinga.

Smækkun sem vegur svo alvarlega að trúverðugleik þeirra embætta sem viðkomandi einstaklingar gegndu.

 

Og ég sem hélt að Kristrún væri leiðtogi.

Ha, ha, bjáninn ég.

 

Samt spyr ég, hvers á þjóðin að gjalda þegar fjöregg hennar er undir??

Sjálfstæði hennar og framtíð.

Er engin reisn eftir í stjórnmálum þjóðarinnar??

Eru þau orðin einn stór raunveruleikaþáttur í anda Survivor eða Bachelor??

Sýnd og froða án innihalds???

 

Stjórnmálin eru samt eins og þau eru.

Það minnkar samt ekki smán þríeykisins.

 

Aumingja þau.

Kveðja að austan.


mbl.is „Þetta er ekkert fyrir mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvirkni með morðóðum

 

Stríð ganga út á að drepa sem flesta andstæðinga þar til þeir gefast upp.  Hafi hvorugur aðilinn til þess burði þá semja stríðsaðilar um vopnahlé þar til næst eða þar til annar aðilinn treystir sér í nýtt stríð til að sigra hinn meinta óvin.

Þegar fjallað er um stríð er talað um mannfall, að svo og svo margir féllu á vígvellinum, í stórskotaárásum eða loftárásum, ekki að fólk sé drepið því tilgangurinn er jú að drepa það. Fólk er hins vegar drepið þegar stríðinu er lokið, til dæmis féllu þúsundir kínverskra hermanna við vörn Nanjing, en eftir uppgjöf þeirra þá drápu Japanir tugþúsundir þeirra, ásamt fjölda óbreyttra borgara.

Þarna aðgreinir sögnin að drepa muninn á mannfalli í bardögum og morðum eftir að bardögum er lokið.  Þegar er talað um fjöldamorðin í Nanjing er talað um drápin á óbreyttum borgurum og óvopnuðum hermönnum sem hafa gefist upp, inní þeirri tölu er ekki mannfall hermanna og óbreyttra borgara á meðan kínverskir hermenn vörðu borgina.

 

Af hverju þarf maður að fjalla um þessi augljósu sannindi eðlilegrar málnotkunar í pistli um fall eins af leiðtogum Hamas í bardögum í Rafah??

Jú, það er vegna þess að íslenskir blaðamenn, jafnt á Morgunblaðinu sem og á Ruv, hafa tekið einarða afstöðu með hinum fallna leiðtoga og voðaverkum hans.

Ekki í orði, þykjast alltaf fordæma morðárásir Hamas á Ísrael, en í verki með málnotkun sinni og fréttaflutningi.

Þegar fólk fellur í bardögum ísraelska hermanna og vígamanna Hamas, þá er það drepið, eins og um enga bardaga eða stríð sé að ræða.

 

Lægst lagðist líklega Rúv þegar fréttir af falli Yahya Sinwar bárust, að þá sagði fréttastofa þess að Sinwar hefði verið ráðinn af dögum.

Sem sagt þegar Rússar sátu um Berlín og tugþúsundir féllu, jafnt hermenn sem óbreyttir borgarar, að þá var allt þetta fólk ráðið að dögum.  Og á næsta ári þegar fall hennar er minnst, fall sem markaði endalok Þriðja ríki Hitlers, þá mun ríkisútvarpið tala um alla þá sem Rússar réðu af dögum í stríði þeirra við nasisma Þýskalands.

Það er stofnunin ætlar að vera sjálfri sér samkvæm í meðvirkni sinni með morðóðum.

 

Voðaverk Hamas, sem hinn fallni leiðtogi Yahya Sinwar bar meginábyrgð á, voru úthugsuð til að framkalla þau heiftarviðbrögð  Ísraela sem heimsbyggðin hefur verið vitni af síðan þau voru framin þann 7. október 2023, engu skipti að þau myndu kosta tugþúsunda samlanda hans lífið.

Því tilgangurinn var æðri, lokamarkmiðið, að útrýma rúmlega 9 milljóna manna þjóð gyðinga í Ísrael.

Og því markmiði átti að ná með sigri í áróðursstríðinu, að hinir meðvirku myndu ná að einangra Ísraela á alþjóðavettvangi, þeim myndi þverra stuðningur, einangraðir gætu þeir ekki haldið út lengi í stríði sínu við araba.

 

Í því samhengi skipti fall hans og annarra leiðtoga Hamas ekki máli, það koma alltaf aðrir í staðinn.

Aðrir sem viðhalda þeirri taktík að verjast innan um óbreytta borgara, að herja á innrásarlið Ísraela innan um óbreytta borgara, herja úr skólum og sjúkrahúsum, hreiðra um sig á svokölluðum "öruggum" svæðum, í þeim eina tilgangi að tryggja sem mest mannfall meðal samlanda sinna.

Í trausti þess að hinir meðvirku séu það heimskir að þeir sjái ekki í gegnum þessa viðbjóðslegu taktík.

Kaldrifjuð hernaðaráætlun, en hefur gengið eftir fram að þessu.

 

Þess vegna deyr fólk í hrönnum á Gasa.

Þess vegna er fólk farið að deyja í hrönnum í Líbanon, þar vegna þess að meint friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna gerði ekki minnstu tilraun til að stöðva eldflaugaárásir Hezbollah á norðurbyggðir Ísrael.

Og hinir meðvirku með morðæðinu kenna þeim sem ráðist er á, þeim sem á að útrýma, um mannfallið.

 

Ekki í mínútu benda þeir á Hamas eða Hezbollah sem ábyrgðaraðila stríðsins og mannfallsins.

Ekki í mínútu benda þeir á að Hamas er að berjast á Gasa, ekki í mínútu benda þeir á að Ísraelar hafa réttmæta ástæðu til að herja á Gasa á meðan fólkið sem Hamasliðar rændu í Ísrael eru ennþá í haldi á Gasaströndinni.

Og ekki í mínútu krefjast þeir að Hamas leggi niður vopn til að stöðva þjáningar samlanda sinna.

 

Svo maður spyr sig.

Hverjir eru í raun sekir??

Hverjir bera í raun ábyrgðina á þessum vítahring drápa og eyðileggingar???

 

Ég á vissan hátt skil Hamas og hvað þeim gengur til.

Ég er bara ekki sammála þeim um að öll meðul helgi tilganginn.

 

Ég á vissan hátt skil harðlínumenn innan ríkisstjórnar Ísrael, það eru viss rök fyrir því að láta hart mæta hörðu.

En það eru samt mörk á öllu og það er ekki endalaust hægt að drepa fólk, eða það hefði maður haldið.

Síðan; hvernig geta menn trúað því að vítahringur ofbeldis sé lausn á sambúðarvanda þjóða og þjóðarhópa??

 

En ég get ekki skilið hina meðvirku, heimsku þeirra, sem að mínu dómi er frumorsök þess ofbeldis og eyðileggingar sem heimsbyggðin hefur verið vitni af síðustu mánuði og misseri.

Ef heimsbyggðin hefði frá fyrsta degi fordæmt voðaverk Hamas, fordæmt gíslatöku þeirra, síðan fordæmt samtökin yfir hvern einasta dag sem þau héldu gíslum sínum föngnum, þá væri þessu stríði löngu lokið, og tugþúsundir sem eru særðir, dánir, væri heilir, væru lifandi í dag.

Í stað þess að láta hina meðvirku taka yfir umræðuna, fólkinu sem finnst allt í góðu að öfgamenn og morðingjar ráði framvindu heimsmála.

Eins og fólk fatti ekki að það endar alltaf á sömu vegu, með báli og brandi þar sem enginn er óhultur fyrir stríði og voðaverkum.

 

Þar liggur sekt hinna meðvirku.

Hún er algjör.

 

Hina má þó skilja á vissan hátt.

Kveðja að austan.


mbl.is Sinwar var skotinn í höfuðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband