Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eltingarleikurinn við skottið.

 

Þeir þóttu ekki sérstaklega gáfulegir hundarnir í sveitinni sem eyddu heilu og hálfu dögunum í að eltast við skottið á sjálfum sér.

En miðað við þetta viðtal við formann grunnskólakennara þá virðast þeir ekki hafa verið svo vitlausir, mætti jafnvel halda að þeir væru hámenntaðir.

 

Kjör verða ekki til með eilífum samanburði, að þessi fái svona mikið, því á ég að fá svona mikið, og þá er þetta seinna svona hærri tala en hjá fyrra svona.

Kjör verða heldur ekki til með peningaprentun, það þýðir ekki að segja að ég vil fá milljón, eða tvær milljónir, jafnvel margar milljónir, ef það er ekki innistæða fyrir þeirri kröfu.

Og eins og fjárhagsstaða ríkis og sveitarfélaga er í dag, þá er engin innistæða fyrir launahækkun opinbera starfsmanna.

Allt sem er knúið fram með verkföllum leitar beint út í verðbólguna, og það vita allir hvað það þýðir, eru vextir ekki nógu háir nú þegar??

 

Kjör verða til með verðmætasköpun og ef kennarar vilja hærri raunlaun, þá ættu þeir að krefja stjórnvöld um að bæta skilyrði atvinnulífsins, til dæmis með lækkun skatta eins og tryggingargjaldsins.

Og ef þeir eru nógu djúpir á því, vilja virkilega jákvæða kjaraþróun, þá krefja þeir næsta alþingi að segja upp EES samningnum sem fyrir löngu er orðinn dragbítur á þróun atvinnulífsins með öllu reglufargani sínu.

Einnig yrði ágætis kjarabót að loka landamærunum, á meðan fólk flyst hraðar til landsins en við náum til að byggja fyrir það þak yfir höfuð, þá er viðvarandi síþensla og hávextir.

 

En að fara í verkfall til að knýja fram kjararýrnun er ekki gáfulegt.

Svei mér þá.

Kveðja að austan.


mbl.is Kennarar vilja meira en milljón í laun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núna er rétti tíminn til að ljúka stríðinu

 

Er haft eftir Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Stríði sem átti aldrei að verða, stríði sem átti löngu að vera lokið, stríði sem hefur þróast útí lönguvitleysu.

 

Þá þarf Blinken að standa við orð sín, gera harðlínumönnum í ríkisstjórn Ísraels það ljóst að áframhaldandi stuðningur Bandaríkjanna við ísraelsku hernaðarvélina sé háður því að Ísraelsmenn lýsi því yfir að gegn lausn gísla, jafnt lifandi sem látna, þá fari þeir frá Gasa fyrir fullt og allt.

Láti íbúana þar glíma við Hamas og morðingjasveitir þess.

 

Þarna reynir á forystu Bandaríkjamanna.

Vonandi bregst hún ekki.

Kveðja að austan.


mbl.is „Núna er rétti tíminn“ til að ljúka stríðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árásir á kennara.

 

Það eru margar hliðar á þeim vanda sem blasir við skólakerfinu í dag.

Og Morgunblaðið á hrós skilið fyrir umfjallanir sínar og viðleitnina til að reifa ólík sjónarmið, bæði með viðtölum og fréttaskrifum.

 

Eins má hrósa blaðinu fyrir málefnaleg efnistök varðandi grein Svandísar, því margt er til í því sem Svandís segir, og mjög ómaklegt að skella skuld á kennara vegna kerfis sem hefur algjörlega brugðist varðandi menntun barna okkar.

Því það er ekki nóg að hluti barna okkar fái góða menntun, öll börn, óháð þjóðerni og þjóðfélagsstöðu eiga að fá hana.

 

Sérstaklega vil ég hrósa Morgunblaðinu fyrir þessi orð, því það gleyptu svo margir við aulabrandara Einars borgarstjóra þegar hann gerði grín af fjarvistum kennara vegna veikinda;

"Rætt var á mbl.is í sept­em­ber við fjölda kenn­ara, sem hrak­ist hafa úr störf­um sín­um við grunn­skóla í Reykja­vík sök­um myglu. Í ljós kom að borg­ar­yf­ir­völd höfðu skellt skolla­eyr­um við ít­rekuðum ábend­ing­um þess sem sá um hús­næði skól­ans.".

Það eru nefnilega skýringar á öllu, og þarna liggur skömmin hjá borgaryfirvöldum.

 

Eflaust er grein Svandísar skrifuð sem hluti af kosningabaráttu hins deyjandi flokks hennar en þá hefur hún allavega gert þarft verk í þeirri baráttu.

Það eru ekki kennarar sem móta menntastefnuna, þeir þurfa að vinna eftir henni.

Það eru ekki kennarar sem þróa fávitanámsgögn eins og stærðfræðikennsluna sem átti að byggjast á að nemendur sjálfir uppgötvuðu formúlur og stærðfræði sem þurfti þúsundir ára og mestu hugsuði hvers tíma til að þróa og bæta.  Eða þá nálgun í lestrarkennslu að afleggja stafa og hljóðkennslu heldur að kenna orð með því að láta börnin þreifa á hlutum, teikna þá og föndra.

Það eru kennararnir sem þurfa að reyna að gera gott úr þessari forheimsku úr ranni froðu rétttrúnaðarins.

 

Eins eru það ekki kennarar sem bera ábyrgð á sístreymi erlends fólks til landsins, á þjóðarskiptunum sem eru að afleggja íslenska menningu og tungu.

Þeir fá bara alltaf ný og ný börn í bekkina sína, ómælandi á íslensku, ólesandi á íslenska texta.

Svo eru menn hissa á því að þessi sömu börn koma ekki vel út á Pisa könnunum.

 

Ábyrgðaraðilar þessarar hringavitleysu, hvað sem þeim gengur til, finnst auðvelt að frýja sig sök með því að skella skuldina á kennara, og því miður taka margir undir.

Minn mælikvarði eru ánægð börn sagði ein fótboltamamman við mig, sem í aukastarfi frá því að vera fótboltamamma, var kennari, og umræðan var Pisa könnun þegar tvítugir strákarnir okkar voru 12-14 ára að mig minnir. Og svo fylgist ég með hvernig þeim vegnar í lífinu, sé mörg af þeim fara til frekari náms og standa sig vel.

 

Sem foreldri tveggja stráka, aldnir upp í litlu samfélagi, get ég tekið undir þessi orð.

Þeir hlutu góða og kærleiksríka menntun, bæði í grunnskóla sem og í framhaldsskólanum hér í bænum.

Smár en góður, lífsglaðir krakkar sem virðast standa sig vel í því námi sem þau hafa farið í.

Af þeim er sómi, og þau eru rósir fyrir skólakerfi minnar litlu byggðar, bæði kennara sem og stjórnenda.

 

Þannig er þetta alls staðar þar sem vel er gert.

Og kennurum gert kleyft að sinna störfum sínum.

 

Fyrir það ber að þakka.

Sem og að andæfa því að sekir geti skellt skuld á þá sem litla eða enga sekt bera.

 

Þess vegna eiga bæði Mogginn og Svandís hrós fyrir skrif sín.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Segir að ráðist sé á kennara og hart sótt að þeim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiturbyrlun er ekki hluti af skyldum Rúv við land og þjóð.

 

Svo ég vitni beint í orð Stefáns; "Áfram mun­um við sinna okk­ar verk­efn­um og skyld­um við land og þjóð af metnaði og krafti líkt og und­an­far­in ár".

 

Byrlun sem aðeins tilviljunin ein kom i veg fyrir að varð að morði, kannski greip einhver vættur inní sem gat ekki hugsað sér að Ríkisútvarpið skipulegði morðatlögu að borgurum þessa lands.

Og Stefán Eiríksson hefur ekki axlað ábyrgð á.

Lítilmennska hans því algjör.

 

Þó stór miðað við þá smán að fulltrúar almennings, fulltrúar löggjafarvaldsins skulu framlengja ráðningartíma Stefáns Eiríkssonar til næstu 5 ára.

Í þeirri smán felst yfirlýsing að þessir fulltrúar almennings, þessir fulltrúar löggjafarvaldsins telji Ríkisútvarpið sé hafið yfir lög og reglur samfélagsins, það megi búa til fréttir, taka fólk og fyrirtæki fyrir og beita öllum ráðum til að ná höggi á viðkomandi.

Jafnvel reyna að drepa fólk, þar er engin afsökun að tilgangurinn hafi verið að reyna svæfa viðkomandi borgara svo hægt væri að stela síma hans og afrita.

 

Það er mikið að í samfélagi sem líður svona.

Kveðja að austan.


mbl.is Stefán endurráðinn til fimm ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins dauðir breytast ekki.

 

Hvort þeir gangi aftur eins og gamla Alþýðubandalagið í VG og nái í atkvæði sem eru ekki þessa heims, er alltaf fræðilegur möguleiki, en ólíklegur.

 

Flokkur sem vill lifa, og hefur lifað af í áratugi, upplifað tvenna tíma, á rætur aftur í sjálfstæðisbaráttu 19. aldar, var kjölfesta hægri fólks alla 20 öldina, og vill áhrif á þeirri 21., hann breytist, rær á þau mið sem hann telur gefa.

Og í anda hins sterka leiðtoga, sem losaði sig við ógnina af þessu leiðinda lýðræði sem prófkjör eru með því að boða til kosninga með engum fyrirvara, þá boðar Bjarni breytingar á Sjálfstæðisflokknum.

 

Út með miðaldra karlmenn fortíðarinnar, inn með ungt fólk nýrra tíma, það sem hann sagt hefði viljað fyrir síðustu kosningar, en prófkjörin voru ekki sammála um, raungerir hann núna með smölun trúnaðarfólks á kjördæmaþing.

Hefur húmor fyrir öllu saman; "... það hafa verið mjög ánægju­legt hve mik­ill kraft­ur hefði færst í öll kjör­dæm­in og hvað þing­in hefðu verið fjöl­menn. ... Alltaf sé hægt að gera ráð fyr­ir því að breyt­ing­ar verði þegar lífi sé hleypt í flokks­starfið með röðun, líkt og nú var gert".

 

Gott og vel.

Þannig vinna sterkir leiðtogar, og það er bara svo, ein af staðreyndum lífsins, að lýðræðið fúnkerar ekki án sterkra leiðtoga.

Annað er ávísun á upplausn og yfirtöku sterkra einræðisherra eða tyranna.

 

Tíminn einn veit svo hvernig tekst til með tiltektina, nái Bjarni varnarsigri þá getur hann afhent Þórdísi Kolbrúnu lyklavöldin, nái hann að sigra kosningarnar, það er að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram stærsti flokkurinn á þingi, þá verður Bjarni áfram óskoraður leiðtogi flokksins, og ræður sjálfur tímasetningu afsagnar sinnar sem formaður flokksins.

Tapi hann, þá tekur hann Þórdísi Kolbrúnu með sér í fallinu, þá hefur breytingin úr Sjálfstæðisflokki í landsöluflokk Samfylkingarinnar mistekist.

 

Sem Austfirðingur fagna ég að prófkjör voru ekki viðhöfð, þar með tókst að rjúfa ægiveldi Akureyringa á skipan framboðslista í Norðausturkjördæmi.

Ægiveldi sem hefur leitt til þess að forystufólk kjördæmisins keppa um fyrsta sæti á lista meðalmennskunnar, jafnvel þó flestir Akureyringar yrðu þráspurðir, þá þekkja þeir ekki nöfn þingmanna sinna.

Nema kannski Loga greyið, en það kemur ekki til að góðu.

 

Eftir langa eyðimerkurgöngu fáum við Austfirðingar loksins forystumann í kjördæmið, óska Jens Garðari alls hins besta í störfum sínum.

Megi svo fleiri flokkar fylgja þessu fordæmi.

Nefni engin nöfn.

 

En þetta var reyndar útidúr sem ég gat ekki stillt mig um.

Annars er það;

Kveðjan að austan.

 

 


mbl.is Finn kraft í öllum kjördæmum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tiltektin.

 

Það er athyglisvert að sjá hvernig Samfylkingin innan Sjálfstæðisflokksins hefur hert tökin á flokknum eftir að Bjarni Ben greip feginshendi útgönguleiðina sem Svandís Svarvarsdóttir bauð honum á nýliðnum landsfundi VinstriGrænna.

Réttmæta ástæðu til að slíta stjórnarsamstarfinu fyrirvaralaust, og boða til kosninga með svo skömmu fyrirvara að flokksvél allra flokka ræður skipan framboðslista, enginn tími fyrir þessi leiðindi sem prófkjör eru.

Og ekki hvað síst, enginn tími til að skipta um kallinn í brúnni, en öruggt var að það yrði gert á landsfundinum í byrjun næsta árs.

 

Allir með opin augu sjá að Bjarni hefur vaxið við þessi stjórnarslit, þreytan og slenið er víðsfjarri, gamli forystumaðurinn mættur, skeleggur og drífandi.

Óvissan hins vegar var spurningin um hvar stendur Bjarni í pólitíkinni innan flokksins, hingað til hefur hann brúað bilið milli Samfylkingarinnar innan flokksins, þeirra þingmanna sem vilja afleggja sjálfstæði þjóðarinnar og afhenda Brussel æðstu völd í lagsetningu og múlbinda síðan framkvæmdarvaldið til að lúta ordum að utan, kennda við tilmæli ESA, og síðan gamla Sjálfstæðisflokksins, hinna borgaralegu íhaldsþingmanna sem vita hvað felst í að vera sjálfstætt íhald.

 

Ætli tiltektin í dag sýni ekki hvar Bjarni stendur í þeim innanflokksátökum.

Íhaldsþingmönnum var slátrað svo það sé sagt hreint út.

 

Eftir stendur flokkur sem mun örugglega endurnýta frasa gamla Sjálfstæðisflokksins, þykist tala gegn þjóðarskiptunum, og í orði tala gegn inngöngu í Evrópusambandið, sem má vel að vera rétt, eftir samþykkt bókunar 35 þá glatar þjóðin sjálfstæði sínu, og slagur um formlega inngöngu ekki fyrirhafnarinnar virði.

Síðan verður talað um lægri skatta, minna regluverk og eitthvað bla bla sem stelpurnar geta örugglega lært eins og alla hina frasana sem liggja þeim á tungu.

Þannig verður reynt að bregðast við tangarsókn Miðflokksins á lendur borgaralegrar íhaldsmennsku.

 

Spurningin hins vegar er hversu trúverðugt það verður þegar litið er yfir valinn, þeir þingmenn sem gátu gefið slíkri sýnd trúverðugleik, þeim var öllum slátrað, gamli Sjálfstæðisflokkurinn á ekki lengur fulltrúa á framboðslistum flokksins?

Sem og það er spurning hvort fleiri fylgi í fótspor Sigríðar Andersen yfir í Miðflokkinn.

Hvort tiltektin verði búmmerang sem hitt flokkinn illa í kosningafótinn, að íhaldssamir kjósendur í eldri kantinum, sem reyndar eru kjarnafylgi flokksins, sjái lítinn sem engan mun að kjósa Kristrúnu og Samfylkinguna, eða Þórdísi Kolbrúnu og Samfylkingu hennar innan Sjálfstæðisflokksins??

Kjósi þá annaðhvort Miðflokkinn eða hinn nýja Lýðræðisflokk Arnar Þórs Jónssonar.

 

Þetta veit náttúrulega tíminn einn.

En fróðleg var tiltektin.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Reynslumiklir þingmenn fengu ekki sæti á lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrotið.

 

Stóra spurningin er samt um hvort gjaldþrotið er stærra??

 

Samfylkingarinnar, sem treystir sér ekki lengur í alvörustjórnmál, heldur treystir á þekktar persónur þjóðlífsins til að tryggja góð úrslit í komandi kosningum.

Eða almannavarna og sóttvarna þjóðarinnar þegar forystufólk þar nýtur sér störf sín þar til frama á vettvangi stjórnmálanna.

Eins og aumkunarverðustu áhrifavaldar samfélagsmiðlanna.

 

Þórólfur sagði vissulega að þetta væri ekki fyrir sig, en óskaði þeim Víði og Ölmu góðs gengis og sagði að framboð þeirra væri styrkur fyrir Samfylkinguna.

Sem er örugglega rétt, og væri styrkur fyrir hvaða flokk sem er, ef ekki væri sá hængur á að fólk sem fær athygli og umfjöllun fjölmiðla vegna starfa sinna í þágu almennings á hættutímum vegna náttúruváar eða heimsfaraldurs alvarlegra smitsjúkdóma líkt og kóvid veiran var, það á ekki að selja sálu sína stjórnmálaflokkum gegn öruggu þingsæti.

Því það skaðar ekki aðeins sitt eigið mannorð og æru, heldur stórskaðar það líka trúverðugleik þeirra embætta sem það gegndi.

Sem á hættutímum eru líklegast mikilvægustu embætti þjóðarinnar.

 

Þetta er svo sorglegt.

Þetta er svo mikið gjaldþrot stjórnmálanna.

En fyrst og síðast smækkun viðkomandi einstaklinga.

Smækkun sem vegur svo alvarlega að trúverðugleik þeirra embætta sem viðkomandi einstaklingar gegndu.

 

Og ég sem hélt að Kristrún væri leiðtogi.

Ha, ha, bjáninn ég.

 

Samt spyr ég, hvers á þjóðin að gjalda þegar fjöregg hennar er undir??

Sjálfstæði hennar og framtíð.

Er engin reisn eftir í stjórnmálum þjóðarinnar??

Eru þau orðin einn stór raunveruleikaþáttur í anda Survivor eða Bachelor??

Sýnd og froða án innihalds???

 

Stjórnmálin eru samt eins og þau eru.

Það minnkar samt ekki smán þríeykisins.

 

Aumingja þau.

Kveðja að austan.


mbl.is „Þetta er ekkert fyrir mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvirkni með morðóðum

 

Stríð ganga út á að drepa sem flesta andstæðinga þar til þeir gefast upp.  Hafi hvorugur aðilinn til þess burði þá semja stríðsaðilar um vopnahlé þar til næst eða þar til annar aðilinn treystir sér í nýtt stríð til að sigra hinn meinta óvin.

Þegar fjallað er um stríð er talað um mannfall, að svo og svo margir féllu á vígvellinum, í stórskotaárásum eða loftárásum, ekki að fólk sé drepið því tilgangurinn er jú að drepa það. Fólk er hins vegar drepið þegar stríðinu er lokið, til dæmis féllu þúsundir kínverskra hermanna við vörn Nanjing, en eftir uppgjöf þeirra þá drápu Japanir tugþúsundir þeirra, ásamt fjölda óbreyttra borgara.

Þarna aðgreinir sögnin að drepa muninn á mannfalli í bardögum og morðum eftir að bardögum er lokið.  Þegar er talað um fjöldamorðin í Nanjing er talað um drápin á óbreyttum borgurum og óvopnuðum hermönnum sem hafa gefist upp, inní þeirri tölu er ekki mannfall hermanna og óbreyttra borgara á meðan kínverskir hermenn vörðu borgina.

 

Af hverju þarf maður að fjalla um þessi augljósu sannindi eðlilegrar málnotkunar í pistli um fall eins af leiðtogum Hamas í bardögum í Rafah??

Jú, það er vegna þess að íslenskir blaðamenn, jafnt á Morgunblaðinu sem og á Ruv, hafa tekið einarða afstöðu með hinum fallna leiðtoga og voðaverkum hans.

Ekki í orði, þykjast alltaf fordæma morðárásir Hamas á Ísrael, en í verki með málnotkun sinni og fréttaflutningi.

Þegar fólk fellur í bardögum ísraelska hermanna og vígamanna Hamas, þá er það drepið, eins og um enga bardaga eða stríð sé að ræða.

 

Lægst lagðist líklega Rúv þegar fréttir af falli Yahya Sinwar bárust, að þá sagði fréttastofa þess að Sinwar hefði verið ráðinn af dögum.

Sem sagt þegar Rússar sátu um Berlín og tugþúsundir féllu, jafnt hermenn sem óbreyttir borgarar, að þá var allt þetta fólk ráðið að dögum.  Og á næsta ári þegar fall hennar er minnst, fall sem markaði endalok Þriðja ríki Hitlers, þá mun ríkisútvarpið tala um alla þá sem Rússar réðu af dögum í stríði þeirra við nasisma Þýskalands.

Það er stofnunin ætlar að vera sjálfri sér samkvæm í meðvirkni sinni með morðóðum.

 

Voðaverk Hamas, sem hinn fallni leiðtogi Yahya Sinwar bar meginábyrgð á, voru úthugsuð til að framkalla þau heiftarviðbrögð  Ísraela sem heimsbyggðin hefur verið vitni af síðan þau voru framin þann 7. október 2023, engu skipti að þau myndu kosta tugþúsunda samlanda hans lífið.

Því tilgangurinn var æðri, lokamarkmiðið, að útrýma rúmlega 9 milljóna manna þjóð gyðinga í Ísrael.

Og því markmiði átti að ná með sigri í áróðursstríðinu, að hinir meðvirku myndu ná að einangra Ísraela á alþjóðavettvangi, þeim myndi þverra stuðningur, einangraðir gætu þeir ekki haldið út lengi í stríði sínu við araba.

 

Í því samhengi skipti fall hans og annarra leiðtoga Hamas ekki máli, það koma alltaf aðrir í staðinn.

Aðrir sem viðhalda þeirri taktík að verjast innan um óbreytta borgara, að herja á innrásarlið Ísraela innan um óbreytta borgara, herja úr skólum og sjúkrahúsum, hreiðra um sig á svokölluðum "öruggum" svæðum, í þeim eina tilgangi að tryggja sem mest mannfall meðal samlanda sinna.

Í trausti þess að hinir meðvirku séu það heimskir að þeir sjái ekki í gegnum þessa viðbjóðslegu taktík.

Kaldrifjuð hernaðaráætlun, en hefur gengið eftir fram að þessu.

 

Þess vegna deyr fólk í hrönnum á Gasa.

Þess vegna er fólk farið að deyja í hrönnum í Líbanon, þar vegna þess að meint friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna gerði ekki minnstu tilraun til að stöðva eldflaugaárásir Hezbollah á norðurbyggðir Ísrael.

Og hinir meðvirku með morðæðinu kenna þeim sem ráðist er á, þeim sem á að útrýma, um mannfallið.

 

Ekki í mínútu benda þeir á Hamas eða Hezbollah sem ábyrgðaraðila stríðsins og mannfallsins.

Ekki í mínútu benda þeir á að Hamas er að berjast á Gasa, ekki í mínútu benda þeir á að Ísraelar hafa réttmæta ástæðu til að herja á Gasa á meðan fólkið sem Hamasliðar rændu í Ísrael eru ennþá í haldi á Gasaströndinni.

Og ekki í mínútu krefjast þeir að Hamas leggi niður vopn til að stöðva þjáningar samlanda sinna.

 

Svo maður spyr sig.

Hverjir eru í raun sekir??

Hverjir bera í raun ábyrgðina á þessum vítahring drápa og eyðileggingar???

 

Ég á vissan hátt skil Hamas og hvað þeim gengur til.

Ég er bara ekki sammála þeim um að öll meðul helgi tilganginn.

 

Ég á vissan hátt skil harðlínumenn innan ríkisstjórnar Ísrael, það eru viss rök fyrir því að láta hart mæta hörðu.

En það eru samt mörk á öllu og það er ekki endalaust hægt að drepa fólk, eða það hefði maður haldið.

Síðan; hvernig geta menn trúað því að vítahringur ofbeldis sé lausn á sambúðarvanda þjóða og þjóðarhópa??

 

En ég get ekki skilið hina meðvirku, heimsku þeirra, sem að mínu dómi er frumorsök þess ofbeldis og eyðileggingar sem heimsbyggðin hefur verið vitni af síðustu mánuði og misseri.

Ef heimsbyggðin hefði frá fyrsta degi fordæmt voðaverk Hamas, fordæmt gíslatöku þeirra, síðan fordæmt samtökin yfir hvern einasta dag sem þau héldu gíslum sínum föngnum, þá væri þessu stríði löngu lokið, og tugþúsundir sem eru særðir, dánir, væri heilir, væru lifandi í dag.

Í stað þess að láta hina meðvirku taka yfir umræðuna, fólkinu sem finnst allt í góðu að öfgamenn og morðingjar ráði framvindu heimsmála.

Eins og fólk fatti ekki að það endar alltaf á sömu vegu, með báli og brandi þar sem enginn er óhultur fyrir stríði og voðaverkum.

 

Þar liggur sekt hinna meðvirku.

Hún er algjör.

 

Hina má þó skilja á vissan hátt.

Kveðja að austan.


mbl.is Sinwar var skotinn í höfuðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum á maður ekki að þegja.

 

Og eftirhreytur Hrunins eiga ekki að smána okkur, okkur sem erum ennþá íslensk í landi okkar, okkur sem eigum minningar um ránið og ruplið  í aðdraganda Hrunsins sem gerði þjóð okkar gjaldþrota.

Þar að baki voru margar leikfléttur, hvernig eitthvað sem var einskis virði, varð með tilbúnum kaupum gerenda Hrunsins að marg-milljarða milljóna króna virði.

Ein leikfléttan, eitt ránið var hvernig innherjakaup komu vesælli byggingarvörubúð upp fyrir skýin, svo jafnvel himnaríki náði ekki að fanga hinn braskaða veldisvöxt.

 

Í raunheimi féllu skuldir á almenning, en braskaralýðurinn sem upphóf verðmæti úr engu, og ef hann var ekki fullgráðugur, gat selt loftbóluna og varð ríkur á eftir.

Það þarf ekki að ræða sárindin, svívirðuna, eða hvernig lítilsgilt fólk í stjórnmálastétt okkar gekk í takt við að selja þjóð okkar í skuldaþrældóm ICEsave og ESB.

Þeir ræflar bjóða ennþá fram í dag, hvort sem við tölum um Viðreisn eða Samfylkinguna.

 

Það er hins vegar óþarfi hjá Morgunblaðinu að hæða lesendur sína, að hæða hina ennþá íslensku mælandi þjóð með svona fréttum.

Hvernig Hrungróðinn leitar út í hagkerfi veruleikafirrtra auðmanna, þeirra sem stálu, rændu, og hafa ekki einu sinni sómann til að halda sig til hlés á meðan þjóðin gerir ekki upp við Hrunið og Hrunverja.

 

Því væntanlegar kosningar snúast akkúrat um það og ekkert annað.

Að þjóðin losi sig við heljargreip þeirra flokka sem vildu selja hana í skuldaánauð og skuldaþrældóm Góða fólksins, og land okkar og þjóð yrði hjálenda hins evrópskra miðstýringarvalds kennt við Brussel.

Þá þarf Mogginn, með allan sinn bakgrunn að hæða okkur hin, við sem fæddumst íslensk, og erum það ennþá, hugsanlega ennþá meirihluti þjóðarinnar, þó líklegast ekki, en samt sá markhópur sem ennþá heldur íslensku blaði á lífi, og örugglega skiptir það máli að blaðið var einu sinni borgarlegt, með svona frétt.

 

"Hí á ykkur, ég seldi, ég græddi, fyrir mig eru milljónir eins og þúsund kallar hjá ykkur".

Eða eitthvað þannig.

Samt ekki skrýtið hjá blaði sem gengur í takt með morðingjum Hamas, vegsamar atlögum Íslamista að nútímanum, spyr ekki eðlilegra spurninga, af sem áður var.

Af sem áður var.

 

Það þurfti frétt í hinni innantómu kjaftasíðu Moggans til að Kveðjan frá austan sæi ástæðu til að pistla, þar að baki liggur langvinn gremja um upphafningu Hrunverja, og svo er reyndar alltaf gaman að lesa slúðrið.

Það hefur ekki breyst, hin sorglega breyting er yfirtaka kellinganna á fréttamennsku Morgunblaðsins, að blaðið sé hætt að verja vestræn gildi, að það lúti í gras í fréttamennsku sinni með morðæði Íslamistanna í Hamas, og þar með systrasamtaka þess voðafólks, Al-kaida, Ríki Íslams, eða hvaða heit sem morðóðir Íslamistar kjósa að kenna sig við.

Kellingarnar dansa í takt með miðaldaskrímslunum, sem hata allt sem þær standa fyrir.

Viljugri meðreiðarsveinar mannhaturs eru vandfundnir, nema kannski hjá þeim mannlega viðbjóði sem veitist að íslensku stjórnkerfi og ráðafólki þjóðar okkar, undir hrópunum; Free Palestína, sem útleggst á mannamáli; Við drepum og útrýmum níu-milljóna þjóð, hún má hins vegar ekki drepa okkur.

 

Af sem áður var með Morgunblaðið.

Ver ekki lengur borgarleg gildi, hæðist að áskrifendum sínum með þeirri frétt sem þessi pistill er tengdur við, og fékk Kveðjuna að austan til að skilja að stundum á maður ekki að þegja.

 

Takturinn með Hamas og morðingjum Íslamista, er hins vegar óskiljanlegur.

Gleymum því aldrei að borgarlegir fjölmiðlar nágrannalanda okkar hafa afhjúpað ógnarstjórn Hamas á Gasa, hvernig venjulegt fólk, fólk sem situr upp með drápin, átökin, eyðilegginguna, er misþyrmt eða drepið ef það segir sannleikann við fréttafólk vestrænna fjölmiðla.

Sem bendir puttann á meistrím fjölmiðla auðs og auðfyrirtækja þar sem eigendur þeirra sækja auð og gróða í átök og hörmungar meintra átakasvæða, sem líkt og Gasa ströndin var friðsæl þar til morðæðið blés til stríðsátaka sem hafa kostað tugþúsundir lífið, limlest og sært hundruð þúsunda. Algjör eyðilegging, lífið sem var, horfið.

 

Að baki þeirri svívirðu er meðvirknin, og þá er ég ekki að tala um meðvirkin innlends viðbjóðs Rúv og samtakanna Ísland-Palestína, sem telur morð á óbreyttum borgurum, að dráp á saklausum unglingum á friðartónleikum til stuðnings friðar í Palestínu, sem telur viðbjóðsleg morð á börnum vera part of the game; fyrir æðri dómi mun sá viðbjóður þurfa að svara til saka.

Heldur meðvirkni þeirra sem eiga að vita betur, hafa vald til að segja satt, en gera það ekki, það er jú gróði í átökum og hörmungum.

Fólkið sem veit betur, fær laun frá alþjóðasamfélaginu, en lætur eins og að baki hörmungunum á Gasa sé engin saga, aðeins einn her sem sækir að sínu fólki og drepur, að engir gíslar hafi verið teknir, aðeins illvilji ráðist á íbúa Gasa, án nokkurrar ástæðu, þar sé ekkert Hamas sem verst innan um óbreytta íbúa Gasa strandarinnar, að Íslamistar Hamas sé aðeins þjóðsaga, og gíslarnir hafi aldrei verið til.

 

Á þessa meðvirkni veðjuðu foringjar Hamas, þeirra skipun var að drepa sem flesta óbreytta íbúa handan Gasa strandarinnar, þeirra von var að ríkisstjórn Ísraels myndi fyrirskipa allsherjar árás á landið, þar ætluðu þeir að verjast með her sinn, og þar ætluðu þeir að nýta sér þéttriðið net jarðgagna til að koma upp á yfirborðið í skólum, á sjúkrahúsum, á þegar yfirlýstum griðasvæðum Ísraelshers, vitandi að það myndi kosta dráp tugþúsunda, algjörlega eyðingu byggðar og innviða, en það væri aðeins fórnarkostnaður þess að fá hina meðvirku til að benda á gyðingana í Ísrael, en ekki voðaslóð Íslamista um gjörvöll Mið-Austurlönd.

Meðvirkni sem gekk eftir.

En meðvirkni sem afsakar ekki Morgunblaðið og kellingarnar sem ganga í takt með Hamas.

 

Þar eru mörkin sem maður á kannski ekki að þegja yfir, en hefur samt oftast þagað, því hvernig getur grjótvala í lygnum læk hamlað árstreymi ofsarigningarinnar??

Hvernig rífst maður við hagsmuni þeirra sem græða á mannlegum viðbjóði og djöfulskap??

Hvernig grætur maður þegar vígi mennskunnar falla??

Svo maður smækki tilefnið; Að kellingar Morgunblaðsins gangi í takt með Hamas??

 

Jú, það þurfti montfrétt um Hrunverja sem hæddi okkur hin með að flagga auð sínum innanlands í stað þess tóms himingeymisins sem ekkert nemur, ekkert er mælt, svona fræðilega, en hjá svívirti þjóð, eyðir auðnum í útlöndum, lifir þar sínu flottræfilslífi.

Sem á að vera frétt í slúðurblaði.

En ekki Morgunblaðinu.

 

Þar lágu mörkin.

Mogginn með sína sögu getur betur en þetta.

 

Ef ekki, þá á maður ekki að þegja.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Inga Lind greiddi 380 milljónir fyrir glæsiíbúðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar fáviskan ein er eftir.

 

Það er sorglegt að lesa ákall Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um stöðvun átaka í Líbanon, flótti, vergangur, dauði.

Og hann réttilega óttast að Líbanon endi eins og Gasa.

 

En eins sorgleg og þessi lýsing er á skelfingum og hörmungum óbreyttra borgara Líbanons, þá er sú sorg aðeins arða í skriðu hinnar raunverulegu sorgar, að alþjóðasamfélagið kosti atvinnugóðmenni sem sjá spón úr aski hverfa ef þeir segja satt og rétt frá.

Hjá þeim er sökin Ísraela, að úr djúpi áður óþekktrar mannvonsku ráðist þeir á friðsöm nágrannaþjóðir sínar, steypi þar öllu í bál og brand.

 

Ósögð er sú staðreynd að árásir og síðan innrásir Ísraela í Líbanon er svar við síárásum hryðjuverkasamtaka Hisbollah á landamærahéruð Ísraels, síárásum sem hin meintu atvinnugóðmenni gerðu engar athugasemdir við.

Samt myndu þau aldrei sætta sig sjálf við morðárásir hryðjuverkamanna sem beindust að þeim og fjölskyldum þeirra, þeir myndu aldrei snúa við hinum vanganum og ganga yfir lík og dauða ástvina sinna.

Það eru aðeins gyðingarnir sem eiga að sætta sig við slíkar morðárásir, að snúa hinum vanganum.

 

Í þessum tvískinnungi liggur smán atvinnugóðmennisins Matt­hew Holl­ingworth, lands­stjóra Matvæla­áætl­un­ar Sam­einuðu þjóðanna (WFP) í Líb­anon, sem sagði að hann og hans líkar þyrftu að gera allt til að koma í veg fyrir að Ísraelar sprengi Líbanon upp líkt og þeir gerðu á Gasa.

Því ef hann óttaðist þessa sýn, og þó hann heyktist á að fordæma morðárásir Hamas, þá átti hann frá fyrsta degi að krefja alþjóðasamfélagið að stöðva síárásir Hisbollaha á Ísrael, fyrr eða síðar myndi sterkara herveldið svara fyrir sig á þann eina hátt sem herveldi geta, að sprengja upp óvininn sem varpar sprengjum yfir landamærin til að drepa og eyða.

 

Líkt og Bretar gerðu í seinna stríði, líkt og Rússar gerðu í seinna stríði.

Því ekkert ríki sættir sig við síárásir yfir landamæri sín, hvorki í nútíð, fortíð eða framtíð.

Þar brugðust atvinnugóðmennin, þar fórnuðu þeir saklausu íbúum Líbanons fyrir sína eigin kostuðu góðmennsku, sem þeir byggja líf sitt og afkomu á.

 

Eins sorgleg og hræsni þeirra og tvískinnungsháttur er, eins sorglegt og að alþjóðasamfélagið skuli ekki stöðva Íran og dótturhryðjuverkasamtök þeirra á Gasa, í Líbanon eða Jemen, þá nær orðið fáviska ekki yfir þá afstöðu, að gera ekki neitt,að fórna lífi og limum saklausra svo hægt sé að maka krókinn á hörmungum þeirra.

Þetta er jú bara sjálfsbjargarviðleitni sníkjudýra, þekkt frá fyrstu þróun lífsins.

 

Orðið fáviska í fyrirsögn er eina sem skýrir blaðamennsku Góða fólksins á Morgunblaðinu.  Og vísa þá í þessi orð í frétt Mbl.is;

"Stríð Ísra­els í Gasa, sem hófst eft­ir árás Ham­as á Ísra­el fyr­ir ári, hef­ur orðið meira en 41.900 manns að bana. Með stríðsrekstr­in­um hafa Ísra­el­ar aðallega drepið óbreytta borg­ara, að sögn heil­brigðisráðuneyt­is­ins sem er á yf­ir­ráðasvæði Ham­as.".

Já Ísraelar hafa aðallega drepið óbreytta borgara í stríði sínu við Hamas og núna Hisbollaha.

 

Sem er vissulega rétt, en hvernig er hægt að berjast við óvin sem verst innan um óbreytta borgara??

Óvin sem nýtir sér örugg byrgi jarðgangna á meðan þegnar hans eru óvarðir á yfirborðinu, og nýtir sér þessi jarðgöng til að dúkka upp á yfirlýstum öruggum svæðum, í skólum og sjúkrahúsum, ræðst þar á innrásarliðið, skýtur þar eldflaugum yfir landamærin á Ísrael.

Eða loksins þegar matvæla og neyðaraðstoð var leyfð í gegnum landamærahlið, skaut markvissum eldflaugum á landamæraeftirlit Ísraela.

 

Hvernig getur Mogginn verið svona heimskur, tekið svona eindræga afstöðu með hryðjuverkum og dauða??

Vita hinir vesælu blaðamenn ekki að því hvað er að gerast í heiminum í dag, og í gær, og mun gerast á morgun ef enginn verst miðaldaskríl Íslamista??

Vita þeir ekki hvað systursamtök Hamas gerðu í Írak og Sýrlandi, dauðann og djöfulinn sem fylgir hverju þeirra fótspori??

Eða hafa þeir ekki heyrt um leiðtoga Írans, sem telja að almenningi, hvort sem það er á Gasa, eða í Líbanon, megi fórna píslarvættisdauða til að ná fram hinu göfuga markmiði að útrýma 9 milljóna þjóð gyðinga.

Hugsanalega yrði hundum og köttum samt hlíft.

 

Þegar borgarlegt blað eins og Morgunblaðið bregst, gengur erinda morðóðra Íslamista, upphefur morðæði þeirra, fordæmir vörn þeirra sem á að útrýma, þá gengur það um leið gegn mennskunni, framtíðinni, þeirri framtíð að börn okkar séu laus við öfgafólk og miðaldaskríl.

Hvort sem það eru steinrunnir leiðtogar sem vilja endurreisa forn ríki með morðum og drápum líkt og við sjáum í Kreml, eða Íslamistar sem vilja snúa klukkunni mörg hundruð ár til baka.  Með morðum, með drápum, með að afmennska helming mannkyns líkt og Talibanar gera í Afganistan, og þá með góðu samþykki Íslamista Mið-Austurlanda og þeirra sem hafa hreiðrað um sig í Evrópu.

Þá segir það einfaldlega, það er engin framtíð í mennskunni.

Illmennin eiga að erfa heiminn.

 

Af sem áður var með Morgunblaðið, gegnir eru ritstjórar hins borgarlega íhaldsblaðs sem var klettur gegn einræði og ómennsku.

Aðeins fáviskan ein er eftir.

Erinda morðóðra, sem fórna sínu eigin fólki til að geta útrýmt öðru fólki, eru erindi Morgunblaðsins i dag.

Án sæmdar, aðeins smánin ein er eftir.

 

Svei attan.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Óttast að Ísraelar fari eins með Líbanon og Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.1.): 18
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 2658
  • Frá upphafi: 1412716

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 2320
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband