12.8.2019 | 08:50
Börnin og bábiljan.
Það er kúnst að rífast við staðreyndir ef fólk af einhverjum ástæðum kýs að afneita þeim.
Í dag er Trump forseti Bandaríkjanna af öðrum ólöstuðum kóngurinn, það er snilld hvernig hann lætur staðreyndir ekkert flækjast fyrir þegar hann segir það sem stuðningsmenn hans vilja heyra.
Hins vegar er það ekki eins vel heppnað hjá forystu Sjálfstæðisflokksins að fara gegn grunngildum stuðningsmanna flokksins um mikilvægi sjálfstæði lands og þjóðar með bulli og bábiljum, svo þeir sjá engan mun á málflutningi sinna manna og Evrópusinnanna í Viðreisn og Samfylkingunni.
Hverjum datt í hug sá barnaskapur að láta iðnaðarráðherra fullyrða að orkupakkinn snérist um neytendavernd þegar hann fjallar um tengingar milli landa (cross border) og stofnunar yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER? Og af hverju hafði hún ekki dómgreind til að láta ekki svona vitleysu út úr sér??
Hvernig dettur mönnum í hug að bjóða fullorðnu fólki uppá þá vitleysu að það sé hægt að samþykkja mikilvægt regluverk Evrópusambandsins með þeim fyrirvara að ekki sé ætlunin að fara eftir því?? Auðvitað er slíkt hugsað til að slá ryki í augun fólks og það má vel vera að einhver fyrir utan Halldór Blöndal trúi slíku, en það afsakar samt ekki forheimskuna. Þeir sem stjórna landinu á komandi árum munu virða reglugerðina, enda ekki stætt á öðru. Treysti þeir sér ekki til þess þá þurfa þeir fyrst að segja upp EES samningnum.
Og af hverju er formaður utanríkismálanefndar ekki stöðvuð áður en hún síendurtekur vitleysu sína um að Íslendingum sé ekki skylt að leggja sæstreng, því regluverkið fjallar ekki um skyldur einstakra ríkja til að tengja raforkumarkaði sína við hinn sameiginlega evrópska raforkumarkað.
Markmið regluverksins er að koma á einum sameiginlegum (single) raforkumarkaði á evrópska efnahagssvæðinu og til að ná því markmiði eru lagagreinar um hina svokallaða kerfisáætlun þar sem fyrirhugaðar tengingar milli landa eru settar inná að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í lagatextanum er skýrt tekið fram að fyrirtæki á markaði sjái um undirbúning, fjármögnun og framkvæmd slíkra tenginga.
Þess vegna er ekki hægt að vera meira út úr kú en formaður utanríkismálanefndar með þessum orðum sínum í Morgunblaðinu í dag. Þar sem hún fjallar um bábiljur sem eru hvergi til nema í hennar eigin huga.
"Þar var gefið í skyn að markmið þriðja orkupakkans fæli í sér að Íslendingum væri skylt að leggja sæstreng til Evrópu. Markmið orkupakkans er vissulega að efla innri markaðinn sem við höfum verið partur af síðan 1993 en breytir engu um að endanlegt vald um millilandatengingar er hjá hverju landi fyrir sig".
Markmið orkupakkans er ekki að efla hinn innri markað. Svo enn og aftur sé vitnað í orð Evrópusambandsins, "The aim is to make the energy market fully effective and to create a single EU electricity market. ... one on conditions for access to the network for cross-border exchange of electricity .. and one on the establishment of the Agency for the Cooperation of Energy Regulators ACER .. ".
Hann kveður ekki á um skyldur ríkja til að leggja slíkar tengingar, heldur miðast allt regluverkið við að þau geti ekki hindrað slíkar tengingar telji markaðurinn þær hagkvæmar og er tilbúinn að ráðast í þær.
Ef hið endanlega vald væri hjá einstökum ríkjum, og þar með allt regluverkið einskis nýtt hjal, þá stæði slíkt skýrum stöfum í einhverjum liðnum, svo fyrirtæki á markaði hefðu ekki lögmætar ástæður til að ætla að þeim væri heimilt að ráðast í slíkar framkvæmdir. Menn hætta ekki fjármunum sínum í eitthvað sem geðþótti getur breytt á síðustu stundu eftir því sem pólitískir vindir blása á hverjum tíma.
Sem og það er augljóst að þá þyrfti ekki að setja sérlög um að slík framkvæmd væri háð undangengnu samþykki Alþingis. Sbr ef það er bannað að keyra yfir á rauðu ljósi, og einhver unglingurinn fer að rífast um það, þá er ekki sagt bara víst á móti, heldur flett uppí umferðarlögunum og honum sýnt hvar það stendur að það sé bannað.
Þetta er ástæðan fyrir því að okkar helsti sérfræðingur í Evrópurétti, prófessor Stefán Már Stefánsson segir að það þurfi að semja um slíkar hindranir fyrirfram ef þá það er á annað borð hægt. Augljós staðreynd sem formaður utanríkismálanefndar kýs að rífast við með þeirri lygi að tala um "samdóma áliti fræðimanna sem komu fyrir utanríkismálanefnd.". Það hvílir engin leynd yfir þeim fréttum þar sem annað kom fram.
Það er hægt að gera betur, það er til dæmis hægt að ræða um innihald orkupakkans, og hvað hann mun þýða fyrir íslenskan raforkumarkað í nánd og lengd.
Kosti hans og galla, áhrif hans á íslensk fyrirtæki og almenning.
Þetta getur varla verið svo hræðilegur óskapnaður að það megi ekki segja satt orð um innihald hans, eða láta eins og það sé ekki í honum sem er í honum.
Líkt og hlutverk og tilgangur ACER, hins yfirþjóðlega boðvalds Evrópusambandsins yfir raforkumarkaði einstakra ríkja.
Vissulega er það rétt að margt í regluverkinu um þá stofnun virkjast ekki fyrr en þegar einkafyrirtæki vilja koma tengingum inná kerfisáætlunina, annað ekki fyrr en millilandatengingu er komið á.
Breytir samt ekki þeirri staðreynd að regluverkið færir ACER boðvald yfir Orkustofnun, sem annars á að vera óháð íslenskum stjórnvöldum á allan hátt nema þann að þau eiga að fjármagna stofnunina.
Orkupakki 4 skerpir hins vegar þetta boðvald yfir innri málum, óháð millilandatengingum.
Eitthvað sem þarf ekki að deila um.
Af hverju má ekki viðurkenna það??
Af hverju þessi afneitun??
Af hverju þessi barnaskapur??
Erum við jú ekki öll fullorðið fólk??
Eða hvað??
Kveðja að austan
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.8.2019 | 23:41
Þarna komst upp um strákinn Tuma.
Messa Bjarna í Valhöll staðfesti einn hlut.
Fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki hugmynd um innihald þess regluverks sem hann er að samþykkja.
"Bjarni sagði umræðuna um sæstreng annað mál og að hans mat væri að sæstrengur sé ekki raunhæfur valkostur, við höfum nóg með að koma orkunni milli landshluta. Jafnframt taldi hann ódýra orku vera hluta af samkeppnisforskoti Íslands sem ekki væri vilji til þess að afsala landinu.".
Auk stofnunar ACER, Orkustofnunar Evrópu sem verður húsbóndi Orkustofnunar, þá fjallar orkupakki 3 um tengingar milli landa, og ef einkafyrirtæki vilja leggja sæstreng til Íslands, þá eru skýr ákvæði í reglugerðinni um hvernig staðið er að slíku verki.
Hvergi í reglugerðinni er kveðið á um að þau þurfi að spyrja Bjarna Benediktsson um hvort hann telji slíkt "raunhæfan valkost".
Fyrir utan orðið raforka, er aðeins eitt orð gegnumgangandi í öllum reglugerðunum um raforkumarkaðinn, og það er orðið "markaður".
Það er einn samkeppnismarkaður, markaðsverð, markaðslausnir, fyrirtæki á markaði og svo framvegis.
Og til að hindra að einstök stjórnvöld eða stjórnmálamenn séu með puttana í ákvarðanatökunni, eða flækjast fyrir markaðnum og ákvörðunum hans, er ACER stofnað. Það leggur línurnar, það tekur við kvörtunum einkafyrirtækja vegna hindrana, og það sér til þess að einstök aðildarríki virði regluverkið og fari eftir því.
Markaðurinn leitar með vöru sína þar sem verðin eru hæst hverju sinni, og því er barnaskapurinn svo ótrúlegur þegar fólk eins og Bjarni Benediktsson sem er tilbúinn að slátra sínum eigin flokki fyrir þetta regluverk Evrópusambandsins skuli síðan segja; "Jafnframt taldi hann ódýra orku vera hluta af samkeppnisforskoti Íslands sem ekki væri vilji til þess að afsala landinu".
Því það er akkúrat það og ekkert annað sem hann er að gera með því ganga Evrópusambandinu á hönd í þessu máli.
Þetta er eiginlega of barnalegt fyrir strákinn Tuma.
Það býr eitthvað undir.
Eitthvað sem skýrir þessar árásir á heilbrigða skynsemi.
Og það er tími til kominn að það sé upplýst.
Kveðja að austan.
![]() |
Orkupakkinn takmarkað framsal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.8.2019 | 13:35
Hlustið á okkur í guðanna bænum.
Gæti verið yfirskrift þeirrar undirskriftarsöfnunar sem Kári Jónsson stendur fyrir innan Sjálfstæðisflokksins þar sem þess er krafist að fram fari atkvæðagreiðsla innan flokksins fyrir samþykkt eða synjun þriðja orkupakka Evrópusambandsins, sem ríkisstjórn Íslands vill innleiða.
Og af hverju vill hann að sé hlustað??
Jú svo vitnað sé í hans eigin orð; "Að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn inn í einhverja vegferð sem hann hefur aldrei verið á áður að standa ekki í lappirnar þegar fullveldi þjóðarinnar er annars vegar. [...] Ég bara get ekki þolað að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn á þennan stað, það bara gengur engan veginn,".
Stór orð um lítið mál sem snýst um neytendavernd að sögn Þórdísar Kolbrúnar iðnaðarráðherra. Sem er ekki satt nema að hluta.
Á vef Alþingis má sjá hvaða tilskipanir varðandi raforkumarkað er verið að innleiða.
1.Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.
2.Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009 frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1228/2003.
4.Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 543/2013 frá 14. júní 2013 um af-hendingu og birtingu gagna á raforkumörkuðum og um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009.
Hin meinta neytendavernd er viðbót frá 2013 en sjálft regluverk orkupakkans er frá 2009 og fjallar augljóslega um stofnun ACER og tengingar yfir landamæri.
Stjórnvöld halda því sem sagt fram að viðbótin sé aðalatriði, en meginefni tilskipunarinnar sem verið er að innleiða, eigi ekki við Ísland þar sem landið er ekki tengt hinum innri raforkumarkaði ESB.
Fullyrðing sem slík er röng því regluverkið miðast ekki bara við þegar komnar tengingar, heldur er líka hugsað til að auðvelda nýjar tengingar, enda ekki annað hægt ef tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja hindrunarlaus raforkuviðskipti yfir landamæri með því markmiði að koma á einum sameiginlegum raforkumarkaði á evrópska efnahagssvæðinu.
Og þegar stjórnvöld gátu ekki lengur staðið á staðleysunni, þá var á síðustu stundu tilkynnt að meðfram samþykkt orkupakkans yrði sett lög sem banna lagningu sæstrengs til Íslands nema að undangenginni samþykkt Alþingis.
Fyrir utan að það má setja stórt spurningarmerki við gáfnafar og skýrleika fólks sem ætlar sér fyrir hönd þjóðar sinnar að innleiða skuldbindandi regluverk og setja síðan sérlög sem eiga hindra virkni viðkomandi regluverks, þá er ljóst að regluverk sem er hugsað til að koma í veg fyrir slíkar hindranir, líður þær ekki. Enda allt regluverkið tilgangslaust ef það dugar að innleiða það en engin skylda sé að fara eftir því.
Stjórnvöld halda samt fram þeim firrum og vísa í þau rök að orkupakkinn skyldi ekki íslensk stjórnvöld að tengjast hinum sameiginlega raforkumarkaði með því að leggja sæstreng. Sem er rökleysa, regluverkið miðast við að markaðsöfl, ekki einstök stjórnvöld, sjái um slíkar tengingar, telji þau slíka tengingu hagkvæmar, þá má ekki hindra markaðinn í að leggja slíkar tengingar.
Einkafyrirtæki sem sjá hagnað í að leggja sæstreng til Íslands hafa því lögmætar ástæður til að ætla að leyfi fengist fyrir slíkri framkvæmd, enda ljóst að ekkert fyrirtæki leggur milljarða í undirbúning á slíku verkefni, ef það er háð pólitískum geðþótta á hverjum tíma hvort leyfi fáist. Nú þegar er vitað að breskt einkafyrirtæki er langt komið með að undirbúa og fjármagna lagningu sæstrengs til Íslands, aðeins er beðið eftir samþykkt regluverksins þar um.
Ef Alþingi neitar slíkri beiðni, með þeim rökum að það vilji ekki regluverkið sem það er nýbúið að samþykkja, taki gildi, þá er allavega ljóst sú ákvörðun mun verða íslenskum skattgreiðendum mjög kostnaðarsöm vegna væntanlegra skaðabóta ásamt því að slíkt hlýtur í kjölfarið vekja upp spurningar hvort Íslandi sé áfram stætt að vera í EES, ef það telur sig geta handvalið þá löggjöf sem það kýs að fara eftir.
Eiginlega er útilokað að þingið fari í slíka vegferð þó öðru sé haldið fram.
En það er enginn sæstrengur, um það þarf ekki að deila.
Það breytir því samt ekki að ACER mun samt hafa ákveðið boðvald yfir Orkustofnun, enda gerir regluverkið ráð fyrir að hinn svokallaði Landsreglari, sem í okkar tilviki verður Orkustofnun, hafi algjört sjálfstæði gagnvart innlendum stjórnvöldum, þau sjái um að tryggja honum fjármuni af fjárlögum, en hafi að öðru leiti ekkert boðvald yfir honum. Hans leiðsögn komi hins vegar frá ACER, þó ESA verði að forminu áhrifalaus milliliður.
Og yfirþjóðlegt valdboð ACER, óháð millilandatengingum, er svo skerpt í orkupakka 4. Í greinargóðri samtekt Arndísar Ásdísar Kolbeinsdóttur á innihaldi orkupakka Evrópusambandsins, sem hún setti inná síðuna Orkuna okkar, má lesa þessi orð;
"Í orkupakka 4, sem ESB hefur þegar gefið út en er væntanlega ekki kominn inn á borð sameiginlegu EES nefndarinnar virðist stefnt markvisst og ákveðið að tengingu allra ríkja innan svæðisins og mikil áhersla á mikilvægi miðstýringar í orkumálum innan ESB, þ.e. umtalsvert aukin völd ACER og óháðra eftirlitsaðila undir stjórn ACER. Einn orkumarkaður með miðstýrðu valdi og eftirliti. Athyglisvert er að í kynningarriti ESB um orkupakka 4 er sýndur sæstrengur milli Skotlands og Íslands.".
Þetta ásamt markaðsvæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar er stóra ástæða þess að hinn óbreytti sjálfstæðismaður sættir sig ekki við stefnu flokksforystunnar.
Sumir kjósa að yfirgefa flokkinn, aðrir reyna að bjarga því sem hægt er að bjarga, eins og þessi undirskriftasöfnun er dæmi um.
Hvort flokksforystan láti segjast er önnur saga, ljóst er allavega þetta mál er flokknum mjög erfitt.
Eins er ljóst að í dag er flokkurinn án formanns, hugur Bjarna Benediktssonar er greinilega komin á önnur mið, aldraður frændi hans á eftirlaunum er sá eini sem virkilega reynir að halda uppi vörnum fyrir regluverkið, sem og að sannfæra eldri kjósendur flokksins um að ótti þeirra af afsal fullveldis sé ástæðulaus.
Kannski Björn taki bara að sér formennskuna í haust og láti þar með gamla draum sinn rætast.
Unga fólkið nær allavega engu sambandi við eldri kjósendur flokksins, gerir í raun fátt annað en að hæða þá og lítilsvirða.
Það hlustar ekki.
Það fer gegn samþykktum landsfundar.
En treystir það sér gegn Kára ef hann nær nægum fjölda undirskrifta??
Er firringin slík að því fær ekkert haggað??
Kemur í ljós.
En þögnin mun ekki lægja öldurnar.
Blekkingar munu ekki fá grasrótina til að styðja flokksforystuna.
Aðeins heiðarlegt samtal mun það gera.
Sem verður alltaf með þeirri niðurstöðu að flokksmenn vilja hafna regluverkinu.
Því kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru ekki kjósendur Viðreisnar.
Þar er hnúturinn, þar er meinið.
Forystan er i vitlausum flokki.
Kveðja að austan.
![]() |
Forystan einangruð í afstöðunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.8.2019 kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
8.8.2019 | 18:05
Á lýðskrum sér engin mörk??
Ekki nokkur maður skal draga það í efa að Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannesson og Bjarni Benediktsson vilji vel.
En velvilji slær aldrei út raunveruleikann.
Sigurður Ingi ber ábyrgð tillögum þeirrar öfgafrjálshyggju að engan vegaspotta megi leggja án þess að fjárfestar fái að vera milliliður hjá þegar ofskattpíndum ökutækjaeigendum. Eitthvað svo augljóst að því lengra sem þú býrð frá borgarkjarna (lesist Reykjavík), því meiri eru höftin að njóta eðlilegra samgangna.
En húsbóndahollur Sigurður veit eins og er að þegar fjöldinn blæðir, þá græðir fjárfestirinn.
Katrín Jakobsdóttir er hins vegar í ábyrgð fyrir þeirri afglöp (sem ráðherra VG ber ábyrgð á) að ekki var snúist til varnar samkvæmt ákvæðum EES samningsins að semja um fyrirfram að sérstaða Íslands sem eylands þýddi að frjáls innflutningur á sýklum yrði ekki leyfður.
Vissulega voru afglöpin fyrri ríkisstjórnar, en sem forsætisráðherra gat hún sagt í kjölfar dómsins á innflutning á sýklum, að slíkt yrði ekki liðið. Til dæmis eru til forn lög um skóggang sem kveða á um að varmenni skulu yfirgefa samfélag siðaðs fólks, og teljast réttdræpir útlagar.
Ef orðið "réttdræpir" er tekið út fyrir sviga, þá nær þess löggjöf algerlega yfir fólkið hjá Samtökum atvinnulífsins sem og útibús þess á Alþingi, kennt við Viðreisn, og það eina sem rifist væri um hvort varmenni nútímans væru skömminni skárri en varmenni fortíðar. Og þá rífast þeir eingöngu sem enga söguþekkingu hafa, það er augljóst að afkastamikill vígamaður, nær aldrei þeim skaða sem innflutningur á frjálsum sýklum er.
Katrín, sem ekkert hefur gert til að mæta varmönnum Íslands, hún á allavega að hafa þá sómatilfinningu að funda ekki með fórnarlömbum varmennanna, ódýr innflutningur á sýklum mun ganga að íslenskum landbúnaði dauðum.
Og landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein í NorðAusturkjördæmi.
En til að skilja þetta þarf fólk að kunna að skammast sín.
Ef það kynni það þá væru Sóttvarnir ríkisins kvaddar út í hvert skipti sem þingmenn Viðreisnar og líklegast Samfylkingarinnar sæjust á þingi.
Svona í ljósi þess að líklegast duga ekki forn lög um skóggangsmenn gagnvart nútíma varmönnum.
Afsakar samt ekki að þeir skuli sækja á, en réttur fólks til búsetu og þess að lifa í landi feðra sinna, skuli lúta í gras fyrir hinu frjálsa flæði EES samningsins.
Og að hæða fórnarlömbin eins og Katrín gerir í þessu viðtali, og talar örugglega samhljóða fyrir munn allra ráðherra, er fyrir utan allan þjófabálk.
Átthagafjötrar veggjaldanna, dauðinn gagnvart íslenskum landbúnaði, slíkt einfaldlega drepur hinar dreifðu byggðir landsins, og mikið dreifðari geta þær ekki verið en í NorðAusturkjördæmi.
En varaldarsagan á örugglega til dæmi um slík öfugmæli, og þá er full ástæða að vitna í þriðja ráðherrann, fjármálaráðherrann sjálfan sem fékk þau atkvæði sem þurfti til að flokkur hans, þrátt fyrir sögulegt afhroð, væri stærstur á þingi.
Ég er ekki Samfylkingin sagði Bjarni, ég er ekki Viðreisn, þið getið þið treyst því að ef þið kjósið mig, þá mun regluverk Evrópusambandsins um raforkumarkað ekki vera lögfest í íslenska löggjöf.
Sem Bjarni reyndar laug til um, fékk Sigurð Inga til liðs við sig um þá lygi, og Katrín, hver sem hennar afstaða var í upphafi, fórnaði ekki völdum fyrir hagsmuni almennings og þjóðar.
Og þetta aumkunarverða fólk mætir á fund með sveitarstjórnarmönnum í NorðAusturkjördæmi, því kjördæmi sem á líklegast mest undir að regluverk Evrópusambandsins sem kennt er við Orkupakka 3 verði ekki innleitt í íslenska löggjöf.
Nógu samt eru hinar dreifðu byggðir brenndar á fyrrum svikum Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins undir forystu Valgerðar Sverrisdóttur, með samþykkt fyrri orkupakka.
Við öll á landsbyggðinni greiðum hærra raforkuverð þess vegna, og sökinni er ekki ESB flokkunum, Viðreisn og Samfylkingunni að kenna, hvað þá viðrinunum í Pírötum, aðeins Samfylkingin var á þingi þegar sú ánauð var samþykkt.
Evrópusinnarnir á þingi, í vanheilögu bandalagi við fólkið sem hagsmunir einkavæðingarinnar hafa keypt, ætla að samþykkja þetta regluverk Evrópusambandsins.
Hver skiptin á milli hjá ríkisstjórnarflokkunum er algjört aukaatriði, ríkisstjórn Íslands ætlar að samþykkja regluverk sem kveður á um einn sameiginlegan evrópskan raforkumarkað, um stofnun yfirþjóðlegrar valdastofnunar ESB sem mun stýra íslenskum raforkumarkaði, og þar sem allt regluverkið kveður á um markaðslausnir, einkavæðingu, og markaðsverð þar sem sá sem hæst býður, hann fær raforkuna.
Svo það sé sagt á mannamáli, að þegar þetta regluverk tekur gildi, þá líða ekki mörg ár þar til raforkuverð til hinna dreifðu byggða fer uppúr öllu valdi.
Að ekki sé minnst á gjaldþrot þeirra fyrirtækja sem hafa lágt raforkuverð sem rekstrarforsendu.
Í ljósi þessa fundar þá er ljóst að allavega íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki fundið mörk lýðskrumsins.
Það afsakar samt ekki sveitarstjórnarmennina sem hitta þetta fólk án þess að hafa með sér lögreglu og önnur þau tæki sem borgararnir hafa sammælst um og fjármagnað til að hindra að ræningjar og ruplarar leggi byggðir landsins í eyði.
Og jafnvel þó fulltrúar slíks lýðs hafi boðað til fundar og vísa í titla sína sem framkvæmdarvald íslenska lýðveldisins, þá á þetta fólk engra griða að njóta.
Samgöngur í vasa auðmanna.
Frjáls innflutningur á sýklum.
Landsala á orkuauðlindum þjóðarinnar.
Allavega þurfti minni sök í árdaga þjóðarinnar til að menn yrðu dæmdir til skóggangs.
Dugði samt ekki til, þjóðin missti sjálfstæði sitt.
Það var þá.
Í dag er sá tími að fólkið sem studdi bresku fjárkúgunina sem kennd er við ICEsave, eða vill afhenda fjárfestum orkuauðlindir þjóðarinnar með innleiðingu orkupakka 3, að það stjórnar Lýðveldinu Íslandi.
Glæpir þess og aðför að almenningi er því óátalið, því þriðja valdið er undir hæl þess.
En samt eru mörk á öllu.
Sveitarstjórnamenn hinna dreifðu byggða eiga ekki að mæta til fundar við þetta fólk.
Og þó þeir séu svo aumir í flokkshollustu sinni, þá afsakar það ekki orðræðu þess valds sem lét þá mæta og sleikja skóför valdafólksins að sunnan.
Niðurlæging landsbyggðarinnar er eitt, en að virða engin lögmál þess að lýðskrum eigi sér mörk, er annað.
Við hin niðurlægðu sem búum fyrir utan póstfangið 101 Reykjavík, tilheyrum jú lýðveldinu Íslandi, þó okkar fulltrúar séu ekki betri en þeir eru, þá má stundum satt kjurt liggja.
Og öll erum við skynsemisverur, mannfræðingar hafa aldrei haldið öðru fram en að íslenska þjóðin sé hluti af stofni hins vitborna manns, homo sapiens.
Þess vegna erum við ekki þjóðin sem á það skilið að stjórnmálamenn telja sér það helst til tekna að hafa brotið áður þekkt mörk lýðskrumsins.
Á einhverju eru takmörk.
Og þau mörk á að virða.
Orkupakki 3 gengur frá landsbyggðinni, hann vegur að fyrirtækjum okkar, eða því að þrátt fyrir allt er ekki svo dýrt að kynda hús í hinum dreifðu byggðum.
Hann afhendir auðmönnum orkufyrirtækjum okkar í nafni hins frjálsa flæðis hins frjálsa markaðar.
Hann afsalar valdinu yfir orkuauðlindum þjóðarinnar til Brussel.
Bara hann eitt er öfugmæli við orð forsætisráðherra.
Í stærra samhengi boðaðar stefnu ríkisstjórnarinnar um einkavinavæðingu vegarkerfisins, sem og uppgjafarinnar gagnvart frjálsum innflutningi á sýklum í boði varmanna, þá er ljóst að jafnvel Svarti dauði er ekki slík byggðarógn og núverandi ríkisstjórn Íslands.
En ef forsætisráðherra er að vísa í að þegar byggð er í rúst í norðri, að þá fái auðmenn allt fyrir lítið, þá er það vissulega ekki óskynsamlega mælt.
Þá reynir hinsvegar á sveitarstjórnamenn að láta ekki slíkt yfir sig ganga.
Allavega þá er um mótsögn að ræða.
Fólk sem ver byggðir sínar hlustar ekki á kjaftavaðal stjórnvalda sem vilja byggðirnar dauðar.
Og sá sem vill eyða á aldrei að komast upp með þau orð sem Katrín Jakobsdóttir gerir í þessari frétt.
Það eru engin tækifæri í dauðum byggðum.
Jafnvel þó í norðri séu.
Kveðja að austan.
![]() |
Fólk sér tækifæri í norðrinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.8.2019 | 01:28
Ríkisútvarpið tók loksins til máls.
Um orkupakka 3 í dag.
Umdeilt regluverk sem hefur sviðið fylgi ríkistjórnarflokkanna þannig að það stefnir í hrun, sérstaklega hjá Sjálfstæðisflokknum.
Regluverk sem fjallar um hindrunarlaus raforkuviðskipti yfir landamæri með því að koma á einum samevrópskum raforkumarkaði, og til að hafa umsjón með og stjórn á, stofnun ACER sem verður yfirþjóðlegt tæki Evrópusambandsins til að ná þeim markmiðum.
Og augljóst mál að ríkisfjölmiðli ber skylda til að fjalla um, til að upplýsa um innihald regluverksins, sem og hvað þýðingu það hefur fyrir íslenskan raforkumarkað, fyrir almenning og fyrirtæki hans.
Hvað felst í hinum samevrópska raforkumarkaði, hver eru áhrif hans á íslenskan raforkumarkað, til skamms eða langs tíma??
Burtséð frá hinu pólitíska þrasi, hverjar eru staðreyndir málsins??
Þó formaður utanríkismálanefndar, þó formenn stjórnarflokkanna, þó aðrir stuðningsflokkar orkupakkans á Alþingi, segi að málið sé fullrætt, þá hefur sú umræða ekki síast út í þjóðfélagið nema á þá í gegnum misvísandi fullyrðingar stjórnmálamanna.
En frétt dagsins, sú fyrsta í langan tíma þar sem orð stjórnmálamanna var ekki útgangspunkturinn, fjallaði ekkert um neitt af því sem rakið var hér að ofan.
Hún fjallaði um þöggun á dómara sem vogaði sér að leiðrétta augljósar rangfærslur stjórnvalda og meirihluta Alþingis um að EES ríki geti innleitt regluverk Evrópusambandsins, og sett síðan samhliða lög sem hindra að farið sé eftir viðkomandi regluverki.
Rök dómarans voru ekki krufin, honum var ekki þakkað að sinna þeirri lýðræðislegri skyldu hvers borgara að nýta þekkingu sína til að koma í veg fyrir að staðleysa sé forsenda löggjafar sem mun hafa gífurleg áhrif á nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar, heldur var hann settur í gapastokk fyrir það eitt að segja satt.
Og maður getur spurt sig, hvenær hafa blaðagreinar í dagblað með tiltölulega litla útbreiðslu, verið tilefni þess að sérstök fréttaskýring sé samin um að viðkomandi einstaklingur megi ekki skrifa slíkar greinar sökum starfa sinna??
Hvaða þungi var í greinum Arnars Jónssonar sem kallaði fram þessi harkalegu viðbrögð, að sjálfur ríkisfjölmiðillinn var látinn ganga erinda þeirra hagsmuna sem sjá mikinn hagnað í markaðsvæðingu orkuauðlinda þjóðarinnar???
Og hvernig dettur starfsfólki Ruv að láta nota sig eins og húsbóndi þeirra héti Pútin eða Erdogan??
Sannleikurinn getur sviðið.
Og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að hagsmunirnir haldi úti gjammandi lögfræðingum á samfélagsmiðlum eða kaupi Stundina eða Kjarnann til að níða niður þann sem sagði að keisarinn væri nakinn.
En það er þjóðin sem borgar starfsmönnum ríkisútvarpsins laun, ekki auðmennirnir, ekki hagsmunirnir sem vilja féfletta okkur hin.
Þetta er svo aumt að í raun er það skammaryrði að vera starfsmaður Ruv og sitja undir svona misnotkun þegjandi.
"Ég get ekki lesið þessar lygar lengur" sagði sjónvarpsþula í ríkissjónvarpi Rúmeníu í árdaga byltingarinnar gegn alræðisstjórn kommúnistaleiðtogans Nicolae Ceausescu, og enginn veit hvort hún lifði þann dag af.
En lygarnar stóðu bara í henni, hún gat ekki meir.
Starfsfólk ríkisútvarpsins hefur samt ekkert lært, eins og páfagaukar lásu þeir endalaust upp fréttir þar sem fjárkúgun breta var kölluð ICEsave skuldbindingar þjóðarinnar, líka eftir að dómur féll gegn þeirri fjárkúgun, í dag vinnur það svipuð skítverk í orkupakkamálinu.
Hvernig getur þetta fólk horfst í augu við okkur hin??
En skítur og hroði kæfir ekki sannleikann, kæfir ekki heiðarleikann.
Eða hindrar borgara þessa lands að snúast til varnar þegar að þeim er sótt, þegar vegið er að lýðræðinu, eða sjálfstæði þjóðarinnar.
Það hefur sýnt sig áður, það sýnir sig í dag, og mun svo verða á meðan sjálfstætt fólk byggir þetta land.
Við erum eins og við erum, en okkur þykir vænt um landið okkar, sjálfstæði þess, og um hvort annað.
Og þetta viðhorf er auðlind, ekki síður en fiskurinn okkar eða raforkan.
Í raun sú verðmætasta.
Skýring tilveru okkar og sjálfstæðis.
Þess að við erum þjóð.
Hafi Arnar Jónsson mikla þökk fyrir skrif sín.
Kveðja að austan.
1.8.2019 | 14:54
Það er þarft að kunna að skammast sín.
Og þeir sem það kunna, þeir skammast sín, í stað þess að mæla hegðun sinni bót.
Hún getur átt sér skýringar, og örugglega hafa margir ekki verið síðri í hegðun sem full ástæða er að skammast sín fyrir.
Og með því að skammast sín, þá er hugsanlegur möguleiki að aðrir skammist sín líka, jafnvel þó seint sé.
Þetta vita allir sem hafa þurft að skammast sín, og lært á eigin skinni, að í raun er engin önnur yfirbót í boði.
Hvenær hins vegar skömm Alþingis linnir er annað mál.
Og hræsnin í kringum siðanefnd Alþingis og Klausturmálið bendir til að aðeins yngra fólk getur gert sér von um að upplifa þá stund, við sem eldri erum þurfum víst að sætta okkur við að Alþingi er ekki vel skipað í dag.
Fólk sem gerir ekki greinarmun á hleruðu fyllerí og opinberum athöfnum, er ekki líklegt til að breyta skömminni sem meginhluti þjóðarinnar hefur á þingheimi okkar.
Upphlaup, upphrópanir, dægurþras, en þögn um það sem máli skiptir.
Alþingi fékk verkefni eftir Hrun, en það brást algjörlega.
Það voru áhugasamtök út í bæ sem felldu hin ólöglegu gengislán, og björguðu þar með tugþúsunda manna frá vergangi, það var uppreisn fjöldans sem varði þjóðina gegn fjárkúgun breta kennda við ICEsave.
Alþingi hins vegar bauð innlenda og erlenda hrægamma velkomna og greiddi götu þeirra á alla lund. Auðmenn og fyrirtæki þeirra fengu skuldir sínar afskrifaðar, börn í vanda voru hins vegar borin út á götu. Þó var samanlagður vandi foreldra þeirra álíka og ein afskrifuð skuld auðmanns, en upphrópanir á Alþingi voru um iðnaðarsalt eða eitthvað álíka sem fjölmiðlar auðsins blésu upp, en hlutskipti barna sem sættu Útburði var aldrei ræddur.
Hvað þá að einhver hefði efasemdir um að endurreisa hið fallna kerfi hins frjálsa flæðis, reglur voru vissulega hertar, en aðeins í þá veru að festa í sessi arðrán leiguliðans, hindranir á götu ungs fólk að eignast sitt eigið húsnæði slógu elju Góða fólksins í Reykjavík við að hindra umferð á götum borgarinnar.
Og ennþá er róið í sömu knérum.
Núna á að afhenda spariútgáfu hrægammanna, hinum svokölluðum fjárfestum, orkuauðlindir þjóðarinnar í gegnum innleiðingu á markaðspökkum Evrópusambandsins kennda við orku.
Markaðurinn á að ráða, markaðurinn á að eiga, markaðurinn á að stjórna.
Markaðurinn á að féfletta okkur hin.
Um það er næstum því þegjandi þverpólitískt samkomulag, þögnin aðeins rofin til að ljúga að þjóðinni.
Með því að kalla markaðsvæðinguna neytendavernd, með því að fullyrða að það sé hægt að samþykkja markaðspakkann, en setja svo lög eftir á um að ekki eigi að fara eftir þegar samþykktum lögum.
Sú lygi kemst ekki til kasta siðanefndar, enda sögð opinberlega, óhleruð, og lygararnir með öllu ódrukknir.
Þar með forsendur hræsni og yfirdrepskapar ekki til staðar.
Það á ekki að kalla ráðherra druslu, það á ekki að kalla ráðherra gungu.
Og það á ekki að kalla ráðherra tík.
Slíkt er alltaf dónaskapur, og kyn þess sem segir, eða kyn þess sem verður fyrir, er ekki aukaatriði málsins, það er ekki atriði málsins.
Það á heldur ekki að ljúga blákalt.
Slíkt er ekki einu sinni dónaskapur, slíkt er hrein vanvirða.
Markaðsvæðing orkuauðlinda þjóðarinnar er pólitísk afstaða, stefna sem á að ræðast á sínum forsendum.
Út frá forsendum hins frjálsa flæðis, út frá forsendum þess valdaafsals sem á sér stað með samþykkt orkupakkans.
Treysti þingmenn sér ekki til að réttlæta stuðnings sinn við þetta regluverk Evrópusambandsins, þá eiga þeir að þegja.
Ekki ljúga.
Það þarf enga siðanefnd til að benda á að þingmenn eigi ekki og megi ekki ljúga uppí opið geð á kjósendum sínum, uppí opið geð á þjóð sinni.
Það er ekki viðurkennd hegðun í daglegu lífi.
Og Alþingi er þar ekki undanskilið.
Það er mál að linni.
Kveðja að austan.
![]() |
Drusla í lagi en ekki tík? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.7.2019 | 01:04
Þegar morð eru frétt.
Og morðingjarnir vísa í réttlætingu um að þeirra morð séu réttlætanlegri en þeirra sem þeir ætla að drepa, þá er sjálf siðmenningin í húfi.
Hún lifði þó í tíuþúsund ár.
En þolir hún þetta lýðskrum??
Kveðja að austan.
![]() |
Barr fyrirskipar aftökur fimm fanga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.7.2019 | 18:18
Birgittu fórnað.
Fjármagn og fjárfestar eiga mikið undir að orkupakki 3 sé samþykktur á komandi aukaþingi.
Varnir þjóðarinnar gagnvart einkavæðingu orkufyrirtækja og lagningu sæstrengs sem mun sjálfkrafa kalla á mun hærra orkuverð, gufa upp við samþykkt þessarar reglugerðar Evrópusambandsins.
Þess vegna var ættarvitinn til í Sjálfstæðisflokknum, þess vegna hafnar keypt fólk Birgittu.
Leiðtogans sem gerði Pírata að trúverðugu stjórnmálaafli.
Vegna þess að ólíkt Helga, Birni og öllum hinum, þá var sál Birgittu ekki til sölu í þessu grundvallarmáli sem mun marka endalok sjálfstæðis þjóðarinnar ef keyptir stjórnmálamenn fá frítt spil um að véla um fjöregg þjóðarinnar.
Pólitískur dauðadómur Birgittu innan Pírata var færsla á Feisbók þar sem hún benti á að þrátt fyrir hærra matvælaverð, og ýmsan annan kostnað, þá vægi ódýra orka þar uppá móti, að Ísland væri þrátt fyrir allt ekki svo dýrt land.
Hún sagði satt og fyrir það var hún veginn.
Viðrini umræðunnar þola ekki slíkt tal.
Eftir stendur það aumkunarverða fólk sem þykist vera á móti hinu og þessu og segist síðan kjósa Pírata.
Heldur ekki vatni þegar siðanefnd Alþingis setur ofaní hina keyptu vegna kjafthátts þegar einstaklingur er þjófkenndur, vegna þess að hann nýtti sér götótt regluverk. Það er svo auðvelt að hrópa spilling og þjófkenna, í stað þess að takast á við reglur sem í raun þingmenn Pírata hafa ekki síður nýtt sér eins og aðrir þingmenn á löggjafar þingi okkar.
Upphrópanir lýðskrumsins stjórnað úr vasa fjármagnsins.
Þess fjármagns sem kaupir upp land okkar.
Þess fjármagns sem knýr áfram samþykkt Orkupakka 3.
Spilar á tilfinningar fólks.
Gerir út á heimsku þess.
Snurðulaust ef það væri ekki til fólk eins og Birgitta.
Þess vegna er henni fórnað.
Það má jú ekki ógna fíflunum.
Kveðja að austan.
![]() |
Nýtur ekki almenns trausts innan flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.6.2019 | 17:48
Hver er neyðarhemill lýðræðisins??
Það er ef stjórnvöld eða meirihluti Alþingis bregðast skyldum sínum til dæmis vegna spillingar, hagsmunatengsla, gerræðislegra vinnubragða, afsala gæðum og gögnum landsins til erlends valds, eða annað sem telst óeðlilegt en þjóðin hefur engin tök á að bregðast við sökum þess að viðkomandi einstaklingar hafa stjórn á framkvæmdavaldinu og löggjafarþinginu.
Í gegnum tíðina hafa borist fréttar utan frá hinum stóra heimi þar sem forsetar hafa verið settir af að skipan stjórnlagadómsstóla, hæstaréttar eða annarra apparat sem fylgja sjálfstæði dómsvaldsins.
Eins hafa forsetar leyst upp ríkisstjórnir, rofið þing og boðað til kosninga.
En ef valdaklíkan á Íslandi ræður bæði ríkisstjórn og Alþingi, hefur tangarhald á fjölmiðlum (mjög algengt að þetta fari saman í spillingar og einræðisríkjum) þá getur hún gert ýmsan skandal milli kosninga, suma jafnvel óafturkræfa.
Stjórnarskráin er enginn hemill, við sjáum það í orkupakkamálinu, hún er einskis nýtt plagg á meðan ekkert vald verndar hana.
Lýðræði byggist á trausti, að menn virði leikreglur, virði sjálfstæði dómsstóla, virði lögin og svo framvegis.
En hvað gerist þegar þetta traust er rofið??
Þegar þáverandi dómsmálaráðherra kaus að skipa hluta af dómurum Landsréttar eftir geðþótta, en ekki gildandi lögum, þá braut hún lög, og vanvirti sjálfstæði dómsstólsins, og vegna pólitískra refja hélt hún embætti sínu. Eftir sat lamað dómskerfi, því enginn vissi hvaða hagsmunum hinir ólöglegu skipuðu dómarar voru háðir, og það þurfti dóm að utan til gerræðið sætti afleiðingu.
Ekkert afl innanlands stöðvaði gerræðið og þessa vanvirðingu á leikreglum lýðræðisins.
Þessi spurning verður ennþá áleitnari þegar mikill meirihluti þingmanna ætlar fullum fetum að innleiða regluverk frá Evrópusambandinu sem endanlega markaðsvæðir raforkuna okkar, og þrýstir henni inn á sameiginlegan raforkumarkað Evrópu undir boðvaldi yfirþjóðlegrar stofnunar, Orkustofnunar Evrópu ACER.
Afleiðingarnar af þessu eru skýrar. Stórhækkun raforkuverðs að meðaltali, gífurleg hækkun á álagstoppum eins og í kuldaköstum, fjöldagjaldþrot í þeim atvinnugreinum sem treysta á stöðugt framboð á ódýrri innlendri orku, einkavæðing orkufyrirtækja og ekki hvað síst, stóraukinn þrýsting á allskonar virkjanir því innlent regluverk vegur einskis gagnvart hinu yfirþjóðlega. Svo eitthvað sé nefnt.
Ekkert af þessu hefur verið rætt í aðdraganda kosninga, hvorki fyrir þær síðustu, þar síðustu eða þegar hinir orkupakkarnir voru samþykktir.
Samt er slík samræða við þjóðina, að setja fram skýra stefnumörkun um grunnmál samfélagsins, líklegast mikilvægasta óskráða regla lýðræðisins, sé hún ekki virt, þá er nær að tala um gerræði en ekki lýðræði.
Og ef menn tala mannamál, venjulega íslensku alþýðufólks, þá er slíkt í raun valdarán, völdum er rænt frá þjóðinni í nafni milliríkjasamnings sem þjóðin hefur aldrei á nokkrum tímapunkti fengið tækifæri til að greiða atkvæði um.
Í þessu samhengi öllu skiptir ekki máli hvort þetta er til hagsældar fyrir þjóðina eða ekki, það felst í lýðræði að ræða svona mál, gera grein fyrir stefnu sinni, og láta reyna á fylgi hennar í kosningum.
Það litla sem menn þó vissu um afstöðu allra núverandi stjórnarflokka, var að þeir voru á móti þessu regluverki, það er markaðsvæðingu orkunnar og hinu yfirþjóðlegu forræði.
Þegar á reynir eftir kosningar, er algjörlega skipt um skoðun, og slíkt er andlýðræðislegt í grundvallaratriðum. Er í raun fals og blekking, eins og það sé þegjandi samkomulag stjórnmálaflokkanna að sumir segist vera með, aðrir á móti, atkvæði skiptast eftir skoðunum kjósenda, en síðan skipta þau í reynd engu máli, það er þegar búið að ákveða að regluverkið verði samþykkt.
Í reynd er kosningar gerðar marklausar, í raun er aðeins kosið um andlit og nöfn, hinir undirliggjandi þræðir valdsins hafa þegar ákveðið allt sem máli skiptir.
Þó þetta allt sem rakið er hér að ofan er dregið saman, þá er kannski ekki víst að þörf sé á neyðarhemil, óneitanlega eru þetta áður þekkt vinnubrögð, og í reynd hefur þróun vestræns lýðræðis verið í þessa áttina.
Eins og Arnar Þór Jónsson orðaði það svo vel í blaðaviðtali þar sem hann lýsir þróun Evrópusambandsins "Lýðræðisleg vinnubrögð hafi þannig til að mynda vikið fyrir valboði ofan frá. Dómstólar og eftirlitsstofnanir taka ákvarðanirnar og stýra ferlinu, en ekki kjósendur og lýðræðislega kjörin löggjafarþing".
Það væri frekar þörf á neyðarhemil ef upp kæmi það ástand ef upp kæmist að landið væri orðið útbú glæpasamtaka sem hefðu gert það að miðstöð peningaþvættis eða eiturlyfjasölu líkt og var í Panama á sínum tíma áður en Bandaríkin gripu inní. Eða þegar stjórnmálastéttin tók ákvörðun að selja landsmenn í skuldaþrældóm breta þarna um árið.
Og þá var gripið inní, neyðarhemillinn reyndist vera forsetinn á Bessastöðum, en reyndar var þá ekki brúða í forsetasætinu.
En þessi hugsun um neyðarhemilinn hefur samt leitað æ sterkar á mig síðustu daga, og það var ekki fyrr en Sigurður Ingi samgönguráðherra hélt sína frægu ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins og uppskar mikið klapp, sem ég skyldi hvað var að angra mig.
Til upprifjunar enn og einu sinni hvað ESB segir að sé í þriðja orkupakkanum; "The aim is to make the energy market fully effective and to create a single EU .. electricity market. ... one on conditions for access to the network for cross-border exchange of electricity .. and one on the establishment of the Agency for the Cooperation of Energy Regulators ACER ..".
Endursögn Sigurðar Inga er svohljóðandi; "Með orkupakka þrjú mun ekkert breytast nema að eftirlit Orkustofnunar verður betra og hagsmunir neytenda betur tryggðir,".
Þetta er ekkert grín, hann sagði þetta.
Hann minnist ekki á að markmiðið sé einn orkumarkaður (single electricity market), reglur um aðgang að tengingum milli landa (cross-border exchange) kallar hann reglur um tryggja betur hagsmuni neytenda og Orkustofnun Evrópu ACER kallar hann Orkustofnun Íslands. Og að regluverkið um ACER fjalli þá um hvernig eftirlit Orkustofnunar verði betra.
Allt í einu kom uppí huga mér Sýn úr einni myndinni um Ástrík og Steinrík, þar sem Sjóðríkur hafði bruggað seið sem gerði þá sem drukku, bernska, og þeir böbluðu.
Böbluðu svona barnamál, eða bernskumál.
Og að mér lagðist hræðilegur grunur, er þetta raunin??
Það var alltaf óskiljanlegt hvernig fullorðið fólk talaði eins og krakkar í þessu máli, og þó maður hafi skrifað það á ungan aldur bæði iðnaðarráðherra og formanns utanríkismálanefndar, þá var það samt aðeins tilraun til að skýra hið óskýranlega. Báðir þessir einstaklingar eru jú um og yfir þrítugt, og vart hægt að tala um krakka lengur.
Og hvernig sem er litið á Sigurð Inga, þá er ekkert barnalegt við útlit hans eða talsmáta.
Samt talar hann bernskumál þannig að útskýring hans um orkupakka 3 er með öllu óskiljanleg, nema vegna þess að maður veit um hvað hann er að tala. Svona eins og þegar eins og hálfs árs gamall frændi minn sýndi mér hest, og sagði "ho ho". Þá sagði ég, "a ha, hestur".
Þetta gæti alveg verið plott í Bond mynd, sérstaklega á meðan Blofeld var og hét.
Hann var það djöfullegur að hann hefði alveg getað ákveðið að bernska ríkisstjórn Íslands til að græða nokkra milljarða á einkavæðingu Landsvirkjunar, það var nefnilega mikill misskilningur að hann hafi alltaf verið annað hvort að leggja undir sig heiminn eða starta þriðju heimsstyrjöldinni.
En í raunveruleikanum?????????
Allavega aldrei gerst áður.
En hvað ef þetta er skýring á hinu óskiljanlegu tali ráðamanna um orkupakkann.
Að nútímatækni hafi verið notuð á einhvern hátt til að ná valdi yfir ríkisstjórn og þingi.
Hvað er þá til ráða, hver er neyðarhemillinn??
Síðan má spyrja hvort það skipti einhverju máli hvort ytra afl hafi náð að bernska ráðafólk okkar, eða það hafi sjálft kosið að bernska sig, til að geta látið alla þá vitleysu út úr sér sem það hefur gert í þessu máli?
Skiptir skýringin máli, er ekki aðalatriði málsins það að einhver mörk eiga að vera á árásum á staðreyndir í grundvallarmálum eins og þessu, og ef þau mörk eru rofin, að þá grípi sjálfkrafa neyðarhemill inní??
Og ef fólki finnst engin mörk vera á slíku, að stjórnmálamenn megi ljúga og blekkja eins og mikið og ímyndunarafl almannatengla leyfir þeim, að það sé hluti af lýðræðinu, er þá samt ekki einhver mörk á bablinu.
Á hinu óskiljanlegu bernskumáli sem notað er til að lýsa orkupakka 3, svona í ljósi þess um hvað hann er.
Svo ég spyr enn og aftur, hvar eru mörkin, og hvar er neyðarhemillinn??
Því við erum ekki í bíómynd.
Hvað þá teiknimynd.
Við erum í raunveruleikanum.
Og hann á ekki að vera eins og bíómynd, hvað þá teiknimynd.
Jafnvel þó einhverjir telji sig geta grætt milljarða á slíkum farsa.
Þá er bara slíkt ekki í lagi.
Kveðja að austan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
8.6.2019 | 11:31
Þetta er eins og ís á vatni sem er að bresta??
Fyrst koma fíngerðar sprungur sem breiðast út, brak heyrist og svo pomm, það sem virtist traustur ís, er orðinn að þúsund brotum, misstórum, og sá sem treysti á ísinn, fellur niður um hann.
Hver man ekki eftir hinum ógleymanlegu atriði í lokaatriði loka myndarinnar um Hobbitann þar sem Þorinn barðist við Azog höfðingja drýslanna??
En bardagi þjóðarinnar við Alþingi og fjárfesta um yfirráðin yfir orkuauðlindum þjóðarinnar er því miður ekki eins sjónrænn og hann er ekki fiction, hvað þá að megi horfa á hvíta tjaldinu.
Samt sem áður fékk ég þessi hughrif þegar ég las þessa frétt Mbl.is, svona á fjórða valdið að virka.
Segja frá efnisatriðum málsins, kynna staðreyndir, segja frá hvað er að gerast annars staðar, og ekki hvað síst, út frá þekktum staðreyndum og því sem þegar hefur gerst, lýsa því sem líklegast mun gerast.
"Þá krefst ESA skýringa á því hvernig ráðstöfun nýtingarréttar vatnsfalla og rekstur virkjanna er háttað, jafnframt hvers vegna réttindin og rekstur virkjana sé ekki boðin út innan EES-svæðisins á grundvelli þjónustutilskipunar Evrópusambandsins.".
Það er eins og allur málflutningur stjórnvalda sé að bresta eins og ís á vatni, heldur ekki neinum rökum, barnaskapurinn og lygarnar blasa öllu læsu fólki við.
Eftir ítarlegt viðtal Morgunblaðsins við Arnar Þór Jónsson héraðsdómara þar sem hann bendir blaðamanni kurteislega á að orkupakki 3 fjalli um tengingar yfir landamæri ásamt regluverki þar um, og það sé engin dæmi um að einhliða fyrirvara haldi, þá er aðeins hægt að deila um eitt þegar stjórnmálamenn tala um aukið sjálfstæði Orkustofnunar, gegnsæi ársreikninga eða bætt neytendavernd.
Og það hvort viðkomandi sé raðlygari eða svo bernskur að hann skilji ekki einfalt lagamál. Jú reyndar hvort hann sé fífl, og þá hvort að sé hægt að affífla hann, en látum það liggja milli hluta.
Núna útskýrir Morgunblaðið hvað gerist þegar það er búið að markaðsvæða orkuna, og hvernig stofnanir regluveldisins berja EES ríki til hlýðni með regluverkinu.
Þar má segja að undanhald Norðmanna er ekki samkvæmt áætlun.
Og hér verður ekkert undanhald, fjárfestarnir sem fjármagna afstöðu stjórnvalda, sjá til þess að svo verði. Aðeins verður rifist þegar útdeiling gæðanna hefst, hvort þessi fái meiri en hinn og svo framvegis. Þó munu Píratar ekki rífast mikið, þeim mun duga ókeypis netáskrift í nokkra mánuði.
Núna mætti ætla að einhver gripi inní umræðuna og segði; "ókei, við vorum að ljúga, en rafmagn er vara (til dæmis haft eftir Þórdísi Kolbrúnu) og vöru á að selja á markaði þeim sem býður best. Landsvirkjun er svo fjöregg þjóðarinnar og þjóðin hirðir þá arðinn.
Í það fyrsta að fólk sem hefur þegar logið öllu, það virkar ekki beint trúverðugt þegar það talar um Landsvirkjun sem fjöregg þjóðarinnar, en það getur réttilega bent á að því verði fleygt út af þingi í næstu kosningum, og þjóðin geti þá kosið þá sem hún telur sig geta treyst til að gæta fjöreggsins.
Þá í öðru, skiptir það ekki máli, regluverkið sér til þess.
Á þetta höfum við bloggararnir marg bent á, en orð okkar hafa ekkert vægi í opinberri umræðu. Og smærri fjölmiðlar eins og Bændablaðið hafa ekki slíkt vægi því miður.
Þess vegna væri óskandi að blaðamaður Morgunblaðsins myndi kynna sér umfjöllun Bændablaðsins um stríð ESB við einstök aðildarríki um losa um tök ríkisfyrirtækja á raforkuframleiðslu, og hvernig því lauk með fullum sigri regluveldisins.
Meir að segja Frakkland þurfti að lúta í gras, og svo reyna raðlygararnir að telja íslensku þjóðinni í trú um að hún geti staðið gegn því, og haft sigur.
Með einhliða fyrirvörum sínum, með því að hundsa regluverkið, með því að hundsa úrskurði ESA, með því að hundsa dóma og sektargreiðslur. Og raðlygararnir sjá um varnirnar. Trúlegt eða hitt þó heldur.
Þá brestur ísinn endanlega undan landsölufólkinu og þegar það verður dregið á þurrt, þá mun það standa berstrípað frammi fyrir alþjóð og aðeins nakin hagsmunagæslan fyrir þá fjárfesta sem ætla sér að græða á orkunni okkar, stendur eftir.
Fólkið sem seldi auðlindina.
Grenjandi krakkar í bland við raðlygara.
Slíkur er nefnilega máttur staðreynda og vandaðar fréttaumfjöllunar.
Einu sinni sagði þjóðskáldið, "Íslands óhamingju verður allt að vopni".
Í dag má snúa þessu við, það fellur með þjóðinni þegar Morgunblaðið uppgötvar á ný tilgang sinn og hlutverk.
Verður risinn sem það einu sinni var.
Þjóðinni verður allt að gæfu.
Kveðja að austan.
![]() |
Er rafmagnsframleiðsla þjónusta? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.9.): 98
- Sl. sólarhring: 228
- Sl. viku: 4468
- Frá upphafi: 1488703
Annað
- Innlit í dag: 94
- Innlit sl. viku: 3897
- Gestir í dag: 90
- IP-tölur í dag: 86
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar