Kreppan er búin!!!

 

Eða svo var mér sagt í fréttum Ruv í gær.   Heimildarmaður gleðifréttanna er doktor Gylfi Zöega, hagfræðiprófessor.  Rök hans voru að neyslan væri farin að stað, veltan væri að aukast, þjóðfélagið væri að taka við sér.  

Og er þá kreppan ekki búinn???

Eigum við þá ekki að fagna og þakka ríkisstjórninni árangurinn???  Hrósa Steingrími, hrósa Jóhönnu???

Og biðjast afsökunar á öllu svartsýnistalinu.  

 

Svarið er í stuttu máli eitt orð, Nei.  

Við höfum heyrt þennan frasa áður, oft áður.  Alvarlegast var þegar við þögðum 2007, þegar gleiðbrosandi ráðherra kom uppí þingstól Alþingis og sagði við áhyggjuraddir, "hvað er þetta strákar, sjáið þið ekki veisluna??".  Sem var alveg rétt, það var veisla, en veisluföngin voru öll fengin að láni. Það var ekki forsenda fyrir veislunni önnu en rangt skráð gengi og aðgangur að ódýru lánsfé.  

Og bóla sem sprakk með hávaða.  

En við þögðum, sögðum ekkert, og í dag vitum við að það var rangt.  

Þess vegna megum við ekki þegja núna, því úti er svikalogn, og stutt í fárviðrið.  

 

Meira um það seinna en víkjum fyrst að meinlokunni að eitthvað sem hér hafi gerst sé ríkisstjórninni að þakka.  Það er svipuð meinloka og þegar það skall á með eindæma tíðarfari í Ukraníu og metuppskera varð þar og íslenskir kommúnistar voru fljótir að mæta með mærðargreinar í Þjóðviljann og þökkuðu Stalín og samyrkjubúskap hans árangurinn.

Meinloka þeirra var að uppskeran varð þrátt fyrir Stalín og samyrkjubúskapinn, jafnvel það kerfisböl gat ekki eyðilagt  gjafir náttúrunnar.  En hún hefði verið miklu meiri ef bændur hefðu átt sínar jarðir í friði, kerfið dróg úr en bætti ekki við.

 

Eins var það hér eftir Hrun, grunnatvinnuvegirnir stóðu af sér Hrunið, þeir blómstruðu um leið og krónan féll.  Og þar sem fjármálakerfið var endurreist, og nóg að gera að gera upp gamla þrotabúið, þá var líka uppgangur í hjá pappírspésum ýmiskonar.  

Ef skuldir heimila og fyrirtækja hefðu strax verið aðlagaðar að raunveruleikanum á siðaðan hátt og ef ríkið hefði hindrað algjört hrun verktakageirans með framkvæmdum þá hefði viðsnúningurinn orðið strax í lok árs 2009 eða upphaf árs 2010.  Og þá raunverulegur viðsnúningur því útflutningurinn hefur aldrei skilað eins miklu í þjóðarbúið og síðustu ár.  

Í stað þess var ríkisstjórnin dragbítur með skatthækkunum sínum og að flækjast fyrir endurskipulagningu skulda raunhagkerfisins.  Sem og ætlaði hún að gera landið beint gjaldþrota með ICESave samningi sínum.  

Ríkisstjórnin dróg úr, tafði fyrir en henni tókst ekki að eyðileggja áhrif hins góða árferðis.  Hún gat ekki eyðilagt útflutninginn með því að innleiða evru og hún gat ekki komið ICEsave skuldum einkabanka á ríkissjóð.  

Hún hafði ekki mátt til að eyðileggja batann, en hún reyndi.  Og hefði tekist það ef Ólafur hefði ekki vísað ICEsave til þjóðarinnar.  ICEsave er ástæðan fyrir því að það er ekki ennþá búið að semja við Evrópusambandið og ICEsave er skýring þess að aflandskrónurnar eru ekki orðnar að evrum með ríkissjóð sem skuldara.  

Það eina sem má þakka Jóhönnu og Steingrími fyrir er hvað þau hafa verið óttalegir aular í öllum sínum stjórnarathöfnum, því þegar stefnan er ill, sem samningurinn við AGS er, þá er eins gott að mestu bjánar norðan Alpa, og þó víðar væri leitað, sjái um framkvæmd hennar. 

Hefði Sjálfstæðisflokkurinn verið í ríkisstjórn, þá væri þjóðin þegar í skuldaánauð hins alþjóðlega fjármagns og við öll farin að pakka niður.  Hann er hæfari og þegar stefnan er ill, þá er niðurstaðan ill.  Eitthvað sem hinn almenni Sjálfstæðismaður getur ekki feisað.  

 

En víkjum þá að Kreppunni sem á að vera búin ef marka má Gylfa prófessor og Steingrím efnahagsráðherra.  

Steingrímur veit ekki betur en ég skil ekki virtan prófessor að láta svona vitleysu út úr sér.  

Kreppunni hefur aðeins verið frestað fram yfir kosningar.  Lífskjörin í dag eru tilbúin á meðan aflandskrónurnar eru látnar bólgna út með vaxtastefnu Seðlabankans.  Þúsund milljarða evruskuld mun eyðileggja fjárhag ríkisins, þjóðin verður gjaldþrota og mun sjá eftir öllum sínum eigum í hendur alþjóðlegs fjármagns.  Og það verður ekkert eftir í samfélagslega þjónustu, hugsanlega mun kerfið ganga á meðan útflutningurinn er í botni en við erum ekkert eyland þó við séum eyja og verð á útflutningi okkar fer þegar lækkandi. Og það er aðeins byrjunin því sama svikalognið er í Evrópu, en evrukreppan þar verður ekki mikið lengur falin með orðum.  

Fólk verður hrætt og dregur úr eyðslu sinni og ferðalögum.  

Hvað verður þá um íslenskt efnahagslíf???

 

En það þarf vissa heilbrigða skynsemi að sjá að opinn eldur og bensín enda alltaf með stórbruna og slík heilbrigð skynsemi er ekki til staðar í Háskóla Íslands sem studdi bæði ICEsave samningana og telur að dauðadæmd evra sé lausn á efnahagsvandræðum íslensks efnahagslífs.  

En ég veit að Gylfi Zöega sat tíma hjá þeim mæta manni, Doktor Gylfa Þ. Gíslasyni hagfræðiprófessor þar sem Gylfi ræddi mikið í Almennri þjóðhagfræði um forsendur hagvaxtar.  

Lykilatriði þar er heilbrigð fjárfesting og heilbrigð skuldastaða fyrirtækja og almennings.  Ekki einkaneysla drifin áfram á loftinu.  Í þvi samhengi var Gylfa Þ. tíðrætt um hagbóluna í Austur Evrópu uppúr 1970 sem var drifin áfram af erlendum lánum en ekki samkeppnishæfu efnahagslífi.  Hagbólan sprakk þegar það þurfti að endurgreiða lánin og afleiðingin var til dæmis uppreisnin í Póllandi kennd við Lec Walessa og Solidarity.

Það eru engar forsendur fyrir hagvextinum, þetta er aðeins bóla sem eftir að springa mjög fljótlega.  Aukin einkaneysla án aukins útflutnings þýðir aðeins eitt, þjóðin stendur ekki skil á lánum sínum.  Og þjóðin þarf að takast á við aflandskrónurnar, hvernig sem hún gerir það.  

Það gildir jafnt um þjóðir sem fyrirtæki eða heimili, það er ekki hægt að eyða meir en er aflað og það þarf að standa skil á lánum.  

 

Síðan er hægt að skrifa langt mál um hvaða hópar þjóðfélagsins eru komnir út úr kreppunni, eru það ekki þeir sem fengu skuldir sínar afskrifaðar??  En hinn almenni skuldari situr eftir í súpunni?? 

Eins má spyrja hvort klofin þjóð sé laus úr kreppu, og næst sátt um ríkisstjórn hinna ríku???  Það mælist hagvöxtur í löndum sem AGS hefur eyðilagt innviði og fólk fær ekki aðra þjónustu en þá sem það borgar fyrir, eftir að skattar þeirra hafa runnið í vasa erlendra skuldaeiganda.  En hve lengi sættir almenningur sig við slíkt ástand, er ekki mjög dulinn kostnaður þjóðfélagsólgu sem á eftir að koma fram???

Dugar að hinu ríku verði ríkari og almenningur nærist á brauðmolum sem falla af veisluborði þeirra til að hægt sé að tala um hagvöxt????

Þeir sem hafa lágmarksþekkingu á sögu vita að svarið er augljóslega Nei.  

Það er enginn langtímahagvöxtur nema sátt ríki um þjóðfélagsskipan og að allir meginhópar samfélagsins sjái sér hag í að taka þátt samfélaginu og uppbyggingu þess.  Og í þjóðfélagi skuldaánauðar er engin slík sátt.  

Bara það eitt, alveg óháð ytri aðstæðum, ætti að fá menn til að skilja að Kreppan er ekki búinn fyrr en slík sátt hefur náðst.  Deilur og sundrung hamla hagvexti.  

Það er ekki hægt að skála í kampavíni fyrr en skuldamál almennings hafa verið leyst á viðunandi hátt.  Þetta skilur siðuð manneskja og þetta skilur hagræn manneskja.  

Sagan lýgur ekki, sátt er lykill að framþróun og velmegun.  

 

Kreppan er ekki búin, hvernig sem á það er litið.

Alvarlegast er samt að hundsa algjörlega það sem er að gerast út í hinum stóra heimi.  Skynsamt fólk sér að það eina sem hægt er að segja um núverandi fjármálakreppu er að hún er erfið og það er engin lausn í sjónmáli.  

Allt tal um hagvöxt á næstu árum er því hreinn og klár bjánaskapur eða barnaskapur, eftirþví hvað fólk vill vera beinskeytt.  

Ég ætla að enda þenna pistil á að vitna í orð breska seðlabankastjórans, Mervyns King, tekin af bloggsíðu Einars Björns Bjarnsonar, en hann heldur úti bestu bloggsíðu landsins um efnahagsmál og þá fókusar hann sérstaklega á vanda evrusvæðisins.  Bloggsíða sem allir ættu að lesa sem vilja fylgjast með hvað er að gerast í Evrópu, því ekki upplýsir Ruv okkur eða auðmiðlar Jóns Ásgeirs.  

""“When this crisis began in 2007, most people did not believe we would still be here. I don’t think we’re yet half way through this. I’ve always said that and I’m still saying it. My estimate of how long it will take to recover is expanding all the time." “We have to regard this as a long-term project to get back to where we were, but we’re nowhere near starting that yet. We’re in a deep crisis with enormous challenges.”

"“In the last six weeks... I am struck by how much has changed since we produced our May inflation report,” - "Over two years now we have seen the situation in the euro area get worse and the problem being pushed down the road.” "I have no idea what is going to happen in the euro area." - "It is impossible to imagine a situation in which you just do not know what the situation will be in a part of the world that is close to you and is half of your trade. And that makes it impossible to engange in any sensible forecasting.""

 

Það er engu hægt að spá í dag.

Við lifum fordæmalausa tíma.  Áður hefur svona kreppa alltaf leitt til átaka og upplausnar, ekki hagvaxtar og velmegunar.  

Svona kreppa var aðdragandi seinna stríðs, við vitum ekki hvað verður úr þessari.  

En við vitum að ef við hinn venjulegi maður trúir öllu bullinu og bábiljunum sem hinir ofurríku láta leppa sína matreiða ofaní okkur, þá er endirinn óumflýjanlegur.

Endirinn verður Endir.  

 

Það er aðeins við sem getum breytt því en til þess verðum við að hætta að væla og skæla og gera það sem þarf að gera.

Að taka málin í okkar hendur úr höndum hinna vanhæfu.  Þeir þjóna hinum ofurríku og kerfi þeirra, Nýfrjálshyggjunni.  

Við þurfum að endurheimta samfélög okkar og leggja grunn af Nýju og betra samfélagi byggt á mannúð og mennsku.  

Aðeins þannig komum við í veg fyrir átök og upplausn, að viðurkennum að allt líf á rétt til lífs, líka hinu fátæku og smáðu.  Það var þess vegna sem okkur var sagt að við ættum að gæta bróður okkar.  Ekki vegna þess að við værum svo endilega góð í okkur heldur vegna þess að það er forsenda lífsins.  

Allt annað leiðir til eins.

Endinn.  

 

Það er ekkert val.

Kveðja að austan. 

 

 

 

 


mbl.is 112 fyrirtæki gjaldþrota í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB hótar og hótar.

 

En íslenski evrópusambandsaðildarsinninn segir, að sambandið meini ekkert með hótunum sínum.  Þær séu aðeins til að róa og er þá lítlega átt við að verði menn mjög æstir, þá verði þeir látnir róa, hvernig sem það er svo sem gert á fundum. 

En hótanir ESB þarf ekkert að óttast.

Þess vegna um að gera að halda áfram að ræða við þá fyrirhugaða aðild að sambandinu.  

Láta eins og ekkert sé.  

 

Hinsvegar virðist enginn spyrja sig hvernig ríkjasamband það er sem beitir hótunum sem samningatækni.  Ekki efnisatriðum málsins, ekki fyrirliggjandi rökum, ekki vilja til að ná viðunandi lausn fyrir báða deiluaðila.

Heldur hóta smærri aðila ef það fær ekki sitt fram.  

Er þetta lýðræðisleg vinnubrögð eða er þetta eitthvað sem smáþjóðir heimsins upplifðu á fjórðaáratugnum??

Með öðrum orðum vinnubrögð einræðisríkja, einræðisstjórna, valdaríkja sem aðeins notuðu vald, sem aðeins skildu vald.

 

Í ljósi þess að það á að fórna lýðræðinu í Evrópu í þágu evrunnar þá ætti vinnubrögð ESB í makríldeilunni ekki að koma á óvart.  Lýðræði er ekki í hávegum haft í Brussel í dag.

Og sama hvað menn mútaðir af sjóðum ESB tala hér um að svart sé hvítt, þá er svart svart, og ESB er alvarleg ógn við lýðræðið og lýðræðisleg vinnubrögð í Evrópu.  Það lýtur fástjórn þar sem takast á annarsvegar skrifræði Brussel og valdakjarni Berlínar.  

Einu áhrif sem önnur ríki hafa er að veðja á annan hvorn hestinn eða skapa sér þá stöðu að í stuðning þeirra sé boðið.  Annar valkostur er ekki í stöðunni.  

 

Það að umræðan á Íslandi snúist um Evrópusambandið eins og það var á uppgangsárum þess sýnir mátt peninga.  Mátt gullasnans sem klýfur hæstu borgarmúra og veikir varnir verjanda.  

Þess vegna var gaman að hlusta á Boga Ágútsson hæðast að Evrunni og leiðtogafundi ESB sem á að vera í dag, í morgunútvarpi Rásar 2.

Skýr dómgreind fjölmiðlamanns er svo sjaldgæf að það er eins og öðlast óvænt 21 ára gamlan Skota að verða vitni að henni.  

Líklegast er þarna verkefni fyrir gullasnann, Ruv getur ekki verið þekkt fyrir að rétt sé sagt frá um málefni evrunnar og getuleysi leiðtoga Evrópusambandsins við að kljást við vanda hennar.  

 

Hvað sem öðru lýður þá er alltí góðu útí Brussel og ekkert að marka hótanir sem þaðan berast.  

Og Ólaf þarf að hrekja frá Bessastöðum fyrst hann er svo ósvífinn að tala um lýðræði og rétt almennings að hafa áhrif á örlög sín. 

Hvort gullinu takist það er spurning en það mun þá aðeins finna sér nýja leið.

 

Því Ísland skal í ESB með góðu eða illu.  

Líklegast illu ef Bessastaðir verða ekki keyptir.  

 

En sjáum til.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Óttast ekki refsiheimildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins kom orð af viti frá Merkel.

 

Það er rétt hjá henni að ekki væru til fljótlegar eða einfaldar leiðir á skuldavanda Evrópuríkjanna.  Og það þarf að takast á  við vandann frá grunni ef það á að sigrast á honum.

Þetta er kannski ekki mikil speki, en þar sem höfuðvandi Evrópu í dag liggur í afarheimskum stjórnmálamönnum sem hafa ekki vott af sens fyrir þeim vanda sem álfan glímir við þá út af fyrir sig er um stórfrétt að ræða.

Það að Merkel segi eitthvað af viti.  

 

Það eitt og sér dugar ekki, hún þyrfti að segja af sér strax á morgun og hleypa vitibornu fólki að stjórn mála.  Það hlýtur til dæmis að vera einhvers staðar í Þýskalandi bóndi á eftirlaunum sem gæti tekið að sér að benda á hið augljósa.

Að niðurskurður á bústofni leiðir alltaf til þess að bóndi bregður búi, það er ef hann er ekki dauður úr hungri áður.  

Og hann myndi líka benda á að það sem drepur þrótt úr búfénaðinum, minnkar afurðir og veldur ótímabærum dauða, að það þurfi að fjarlægja, jafnvel þó það sé vottað af færustu sérfræðingum. 

Búvit er nefnilega ekki kennt í skóla, til að búa þarf búvit, annars lenda menn í að þurfa að bregða búi.

 

Þessi einfalda skynsemi er stjórnmálamönnum Evrópu ofviða.  

Hvort heimska þeirra sé meðfædd eða keypt af þeim sem maka krókinn á kreppunni er ekki gott að segja, líklegast er þó að peningar og hagsmunir komi við sögu.

Vandi Evrópu er ekki skuldavandi, heldur gjaldmiðilsvandi.  Álfan notast við gjaldmiðil Þýskalands og hann er að drepa niður allt mannlíf í álfunni.  Það eyðir jú mannlífi að eyða innviðum samfélaga með stöðugum niðurskurði.  

Vandi Evrópu er ekki leystur fyrr en evrunni er kastað, en það eitt og sér dugar ekki til.  Frjálst flæði fjármagns úr einu hagkerfi í annað, sem skilur eftir sviðna jörð í því landi sem það yfirgaf, mun eitt og sér alltaf valda ólgu og upplausn því fólk sættir sig ekki við hina sviðnu jörð.  Nítíu og níu prósent almennings sættir sig ekki við þetta ægivald hinna eitt prósentu.  

Síðan er sjálft kerfið rangt, kerfi sem lágmarkar kostnað endar alltaf með því að það er enginn kostnaður.  Og þar með ekkert mannlíf, og þar með engin framleiðsla því neitandinn er dáinn, var skorinn niður sem óþarfa kostnaður.  

 

Hugsanlega veit gamli bóndinn þetta ekki en hann er skynsamur og mun sjá þetta um leið og honum er bent á samhengi hlutanna. 

En hann myndi leggja niður evruna á morgun og fara svo í smiðju hagfræði lífsins til að græða aftur upp efnahaginn og mannlífið.  

 

Merkel mun aldrei skilja þetta.  Enda er hún frumvandi þess sem veldur kreppunni miklu í Evrópu.

Henni þarf að skipta út.

Strax.

Annars munu vopnin tala á morgun eða hinn. 

Því fólk lætur ekki rústa samfélögum sínum án þess að verja sig og sína.  

 

Nema jú kannski á Íslandi, við ætlu að kjósa aftur yfir okkur Hrunstjórn Sjálfstæðisflokksins því við vorkennum svo froðukrónueigendunum.  

En við erum líka dálítið spes við Íslendingar.  

 

Við vorkennum auðmönnum.

Þeir eiga svo bágt greyin.

Kveðja að austan.


mbl.is Engar „töfralausnir“ til, segir Merkel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðfélag sérhyggjunnar, græðginnar

 

Og heimskunnar, segir upp lögreglumönnum, slökkviliðsmönnum, fólkinu sem heldur samfélaginu gangandi, svo hinir ofurríku geti haldið áfram að vera ofurríkari.  

Það skilur ekki að samfélögin eru hornsteinn þjóðfélagsins, í þeim fóstrar fólk börnin sín, enda samfélag ekkert annað en heild heimila á ákveðnum  stað.  

Samfélag án innviða er dauðdæmt samfélag.  

 

Það tók hina ofurríku aðeins 30 ár að eyðileggja Bandaríkin.  Voldugasta ríki heims sem hafði þróast og dafnað alla síðustu öld, í átt til velmegunar og velsældar, drifinn áfram af borgarlegum kapítalisma og siðfræði hins siðaða manns.  

Allt þar til að hinu ofurríku fannst ekki nóg að eiga aðeins 30% af þjóðarauðnum og lögðu drög að arðráninu mikla, að ræna sína eigin þjóð.  Til þess fjármögnuðu þeir hagtrúarbrögð, kennd við Nýfrjálshyggju þar sem  lögmálum hagfræðinnar var snúið á hvolf.  Lærdómur sögunnar hundsaður og sú samfélagssátt sem tryggði öllum líf og lífsgæði, var rofin. 

Þessi samfélagssátt kom ekki til að ástæðulausu, hún var svar hinnar siðvæddu borgarastéttar við um 200 ára átakferli þjóðfélaga Vesturlanda þar sem stéttirnar áttu stöðugt í átökum og vígaferlum.  Öld átakanna er þessi tími kallaður og lauk með samfélagsáttinni sem við köllum velferðarkerfi Vesturlanda.  

Þar sem öllum er tryggður lágmarks afkoma, menntun og heilsugæsla.  Og skapari velmegunarinnar er hinn kapítalíski markaður.  

 

Þessa sátt, þessa velmegun gerði Nýfrjálshyggjan að sínum sérstaka óvini og með því að höfða til hinna lægstu hvata mannssálarinnar, hvatanna sem sjá ekkert annað en sinn eigin rass, náði hún völdum.  

Og  árangurinn blasir við öllum í dag.

Arðrænd skuldum vafin þjóðfélög þar sem innviðir samfélaga eru miskunnarlaust skornir niður því ekki má skerða hár á höfði hinna ofurríku sem sífellt sösla undir sig stærri hlut af þjóðarauð Vesturlanda.  

Og nýjar átaklínur, því hinir rændu snúast alltaf til varnar, að lokum.  

 

Ný öld átaka er framundan, og hún verður ekki háð með sverðum eða lensum.  

Slík vopn eru á þjóðminjasafninu en nýjustu drápstólin ekki, þau búa yfir áður óþekktum drápsmætti sem maðurinn hefur aldrei áður kynnst.  Ef þau verða notuð er ljóst að maðurinn er blindgata þróunarinnar líkt og risaeðlurnar forðum daga.  

Enda er Nýfrjálshyggjan blindgata mannlegrar hugsunar, siðferðisleg úrkynjun hennar er ættuð úr neðra, ef það er þá ekki verið að ljúga uppá andskotann.  Jafnvel hann er ekki svo heimskur að telja fólki í trú um að forsenda markaðshagkerfis sé að allt sé leyfilegt ef hinir ofurríku græði á því.  

Hann veit eins og er að slíkt endar aðeins á einn veg, veg sem er kallaður Endir.  Og þar með útum nýjar og ferskar sálir til að pína og kvelja í helvíti.  

 

Nei, það er ekkert sem útskýrir Nýfrjálshyggjuna, af hverju við leyfðum henni að yfirtaka hugmyndaheim okkar, af hverju við leyfðum mannlegri úrkynjun sem við höfðum fram að þessu lokað inná hæli, að taka yfir stjórn þjóðfélaga okkar.  

Jafnvel botnlaus græðgi getur ekki skýrt hina óendanlega heimsku.  

 

En Tómhyggjan getur það.  

Þessi Tómhyggja að við stingum hausnum í sandinn, förum út í búð og verslum með Visa eða eyðum frítíma okkar í að grilla og leika okkur.  

Í stað þess að rísa upp á afturfæturnar, og verja framtíð barna okkar.  

 

Á laugardaginn þarf að verja Bessastaði fyrir atlögu 1001 milljarði sýndarkrónubraskarana.  

Í haust þarf að safna liði og koma Hreyfingu lífsins á fastan grundvöll.  

Næsta vor þarf Hreyfing lífsins að leggja undir sig Alþingi, að fá 62 af 63 þingmönnum.  Krónubraskararnir mega kaupa einn þingmann því það er jú lýðræði.  

Síðan þarf að safna liði meðal fólks um allan heim og marsera eftir lagi Cohen, "first we take Manhattan, then we take Berlín".  

 

Það er ekkert annað í boði, á meðan við dvöldum í sandinum með haus okkar, þá náði hin algjöra heimska völdum og  ógnar tilveru barna okkar. 

Við sem eigum líf sem þarf að verja, verðum þvi að gera það sem þarf að gera.

Og munum gera það.  

 

En byrjum á að verja Bessastaði.  

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Borgin Stockton lýsir sig gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síhissa snillingar.

 

Láta það alltaf koma sér jafnmikið á óvart að kostnaðarþrýstingur leitar út í verðlag.  

 

Aðeins útflutningurinn og einokunarstarfsemi gat borið launahækkanir síðustu kjarasamninga.  Verslun og þjónusta átti ekki annan valkost annan en þann en að velta launahækkuninni útí verðlagið.  

Vaxtahækkanir Seðlabankans þjóna líka sama tilgangi, að hækka verðlag, fyrirtæki sem geta ekki búið til peninga, þau mæta hærri vöxtum með hærra verði.  

Og ekki má gleyma Skattmanni sem vinnur ötula að því að lækka tekjur ríkissjóðs með því að hækka skatta.  Og hækka flutningskostnað, hækka launakostnað, allt leitar út í vöruverðið.  

 

Gömul saga og ný sem aðeins síhissa snillingar fatta ekki.  

Ekki frekar en tölfræðin sem mælir aukinn kaupmátt, hún mælir hann dag frá degi uppávið þó veski launamanna segir aðra sögu.  

 

Ég mæli verðbólguna á mjög einfaldan hátt, á hverju sumri þarf að kaupa nýja fótboltaskó á tvo stráka.  Þeir hækkuðu um 25% milli ára, það er mín verðbólga.  

Ekki óskeikul mæling enda er ég ekki síhissa snillingur.  Eða síljúgandi tölfræði hagstofunnar.

Ég er ekki heldur í sjálftökuliðinu sem fékk skuldir sínar afskrifaðar og er komið á flug í nýrri lánaneyslubólu.  

 

Ég er aðeins venjulegur maður, ekki síhissa heldur sífátækari.  

Og ég er ekki sá eini.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Vísitala neysluverðs hækkar óvænt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræði auðnar og dauða.

 

Þessi sem er langt komin með að rústa efnahagslífi Evrópu segir að það kosti að svelta ekki gamalt fólk. Segir að það kosti marga milljarða.  Gefur jafnvel í skyn í þessari frétt  að um kosningasukk sé að ræða.

Eitthvað sem sterkt stjórnvald geri ekki.  

 

En hagfræði dauðans áttar sig ekki á að þessi sanngjarna breyting kostar ekki krónu, að því gefnu að skriffinni Seðlabankans fái hvort sem er kaup þegar hann millifærir þessa peninga úr prentvélinni yfir í hagkerfið.

Það er slaki, fólk hefur ekki vinnu, mörg þjónustan berst í bökkum.  Það er mikill afgangur af utanríkisviðskiptunum og krónan þolir alveg meiri umsvif. 

Meiri umsvif lifandi fólks.

 

Á meðan það er slaki þá kostar svona aðgerð ekki neitt.

Hún eykur hins vegar umsvif og grósku.

Hún skapar þá tilfinningu að ríki þjóð hafi efni á að hugsa um eldra fólk á mannsæmandi hátt. 

Hún er allt það sem skynsamt stjórnvald gerir.

 

Og fyrir hana á ríkisstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hrós skilið.

Það er þó einhver ærleg taug til í þessu fólki.

 

Allavega árið fyrir kosningar.

Kveðja að austan.


mbl.is Breytingar kosta marga milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokaorrustan um Ísland er hafin.

 

Aðdragandi hennar var þetta þing sundurlyndis og glundroða sem nú er að ljúka.  Þing sem verður ekki minnst fyrir aðfarar sinnar að sjávarútveginum eða stjórnarskránni eða vegna þess að því tókst henni einu sinni að hundsa ákalla skuldsettra heimila heldur vegna þess að þetta var þingið sem gerði ekkert til að hindra Vána sem blasir við þjóðinni, skuldaánauð barna okkar.  

Hefur einhver heyrt minnst á ICEsave nýlega????

Samt er vitað að þau Jóhanna og Steingrímur sitja á svikráðum við þjóð sína og ætla að koma skuld einkabanka yfir á þjóð sína.  Halda menn að þau séu hætt???

Að sjálfsögðu ekki, svikull svíkur á meðan hann hefur til þess minnstu tök.  Hann aðeins lærir af mistökum sínum og útfærir ný svik á þann hátt að nú skal það takast.  

 

Svikráðin hófust um leið og þjóðin hafnaði síðustu ICEsave svikum.  Þau komu uppá yfirborðið síðasta haust þegar aðförin að Árna Pál Árnasyni hófust.  Hann þurfti að víkja því hann var ekki tilbúinn að svíkja.  Viljugur svikamaður þurfti að fá forræði ICEsave deilunnar við Evrópusambandið.  

Næsta skrefið var að skipa trúverðugan enskumælandi bjána yfir málsvörn Íslands.  Og útbúa eitthvað sem virtist vera, já trúverðug málsvörn, en málsvörn sem hafði samt það eina hlutverk að mæla með formlegri aðkomu ESB að ákæru ESA gegn íslensku þjóðinni.  

Munum að ákæra ESA snérist um tvennt.  Að eftirátúlkun ESB á regluverki sínu væri æðri íslenskum lögum og að ákvæði EES samningsins um neyðarrétt EFTA ríkja væri ekki virkur gengi hann gegn hagsmunum framkvæmdarstjórnar ESB.  Á meðan skrípaákæran var á forræði ESA var fátt um málið að segja, nema þá að krefjast opinberar rannsóknar á mútgreiðslum eða meintum þrýstingi sem útskýrði gjörðir embættismanna ESA.  

En þegar ESB var formlega orðin aðili ákærunnar þá var ljóst að um beina aðför ríkjasambandsins var að ræða  á hendur löggjafarvaldi íslensku þjóðarinnar.  ESB  var að krefjast forræði yfir Alþingi Íslendinga.  Einhver hefði nú mótmælt en ekki svikulir stuðningsmenn ESB, þeir eru í bandalagi með framkvæmdarstjórn ESB.  

 

Síðan tók við þögnin eins og ekkert væri að gerast.  

Svikalogn sem var afhjúpað í Pressunni 12. júní síðastliðinn.  Þar sagði einfaldlega;  "Ísland mun una niðurstöðu EFTA dómstólsins: Samningsstaða Íslands í tveimur köflum birt.".

"Í kafla 9 er lýst endurbótum á innlendri löggjöf, stjórnsýslu og breytingum á eftirliti með fjármálaþjónustu sem gerðar hafa verið í kjölfar efnahagshrunsins. Lögð er áhersla á að allir aðilar máls virði væntanlega niðurstöðu EFTA dómstólsins um framkvæmd tilskipunar um innstæðutryggingar. Icesave málið verður flutt í september en ekki er vitað hvenær niðurstöðu er að vænta."

Einfaldara getur þetta ekki verið.

 

Ég er einn af þeim sem vildi láta strax reyna á dómsstóla EES samningsins því ég trúði að Evrópa væri réttarríki og að dómsstólar sambandsins dæmdu eftir lögum og reglum réttarríkisins.  Slíkt er jú alltaf gert hjá siðuðum þjóðum.  

Jæja, ég skal viðurkenna að ég hafði rangt fyrir mér.  

Viðbrögð ESB við evrukreppunni er öll af ætt einræðis og kúgunar, þar sem skuldum sýndarfjármálakerfisins er miskunnarlaust komið á almenning.  

Það geisar stríð í Evrópu milli fjármagns og fólks og í þessu stríði er engu eirt, þar á meðal  reglum siðmenningarinnar um réttarríki og forsendur þess. 

 

Gunnar Tómasson hagfræðingur benti á þessa einföldu staðreynd i Silfri Egils nýlega, að dómur EFTA dómsins væri fyrirfram ákveðinn og hann færi ekki eftir efnisatriðum málsins og lögum þar um, heldur væri hann í þágu fjármagns og framkvæmdarstjórnar ESB sem liði ekki andóf íslensku þjóðarinnar gegn ICEsave samningnum.  

Fyrst að þjóðin felldi samningana, þá væri eina ráðið að fá fyrirfram ákveðinn dóm og skuldbindandi yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um að þau myndu lúta hinum keypta dómi.  

Eina vandkvæðið er forsetinn og því var gerð aðför að honum með sýndarframboði Þóru Arnórsdóttur.  Síðan á ekki að spyrja þjóðina álits.  

 

Ef yfirtaka Bessastaða gengur ekki upp, þá er plan B tilbúið.  Þekki það ekki en veit að á því verður keyrt.  

Það kallast Lokaorrustan um Ísland.  

Þegar sú orrusta er sett í samhengi við fyrirhugað evruskuldbréf froðukrónanna er ljóst að núna í sumar og haust ræðst framtíð þjóðarinnar.  

Gífurlegir hagsmunir eru í húfi.  

ESB ætlar sér að knésetja þjóðina en hið óþekkta afl, hagsmunir þeirra sem vilja sína 1.000 milljarða út úr hagkerfinu, mun ráða úrslitum.  

 

Það á fjölmiðlana, það mútar fjölmiðlamönnum, það heldur úti her þjóðþekktra einstaklinga til að skapa úlfúð og upplausn í samfélaginu.  Það kaupir umræðu eins og "þetta er allt Davíð Oddssyni að kenna", það lætur umræðuna snúast um algjör aukaatriði eins og hið meinta stríð við sægreifa eða stjórnarskráar eitthvað eða að Ísland sé eina landið í heiminum sem er spillt og því beri því að ganga í hið óspillta ESB eða það ræðst að krónunni og telur fólki trú um að evran sé eins og draumavisakortið, að þú tekur bara út og borgar svo úttektina með Euro.

Eða allt það sem sundrar almenningi og fær hann til að sitja hjá í stríðinu mikla um framtíð barna okkar.  

Því ef við töpum stríðinu þá er hlutskipti barna okkar skuldaánauð um ókomna framtíð.  Hlutskipti sem þau munu ekki sætta sig við.  

Þau munu rísa upp og þá mun blóð fljóta eins og í öllum öðrum uppreisnum kúgaðs fólks gegn arðráni og kúgun.  

 

Þess vegna er valið svo einfalt fyrir okkur sem eigum líf sem þarf að vernda.

Annars vegar er það flokkur lífsins sem setur baráttu gegn skuldaánauð barna okkar á oddinn.

Svo eru það hin, sem gera það ekki.

Og lífið mun sér farveg og að lokum mun flokkur lífsins ná hér völdum.  Því lífið vill ekki skuldaánauð barna sinna, lífið mun sá í gegnum hinn keypta áróður froðukrónubraskarana.  

Við þekkjum hina keyptu þegar þeir fara að tala um Davíð Oddsson, stjórnarskrána eða sægreifa.  Ekki það að margt mjög gott fólk hefur látið blekkjast til að tala um allt annað en það sem í raun skiptir öllu, en rótin sem stýrði hinu góða fólki í ranga átt, hún er keypt.  

Hún er gerð út af auðræðinu sem engu eyrir.  

 

Og við þurfum ekki lengur að ræða aðildina að ESB.  Evrópudraumurinn var yfirtekinn af siðlausu peningavaldi og það er ESB sem stendur fyrir aðför að framtíð barna okkar.  

Böðull er aldrei valkostur fyrir þá sem eiga líf sem þarf að vernda.  

Það er hinn fullkomna mótsögn að segjast vera á móti skuldaánauð barna okkar og á sama tíma sjá aðild að ESB sem lausn á vanda þjóðarinnar.  Þá eru menn að tala um ESB sem var, en er ekki lengur. 

 

Lokaorrustan er hafin.

Og við munum sigra hana.

 

Hreyfing lífsins mun sjá til þess.

Kveðja að austan.

 


 


mbl.is Ólafur Ragnar heldur forystunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve langt er hægt að toga asnaeyru???

 

Áður en fólk áttar sig á að það er ekki með asnaeyru, enda fólk en ekki asnar, og því ekki hægt að teyma það endalaust með lygum, svikum og undirmálum.  

Að það þurfi að vera ákveðið samræmi milli orða og gjörða.  

 

Pabbi gamli sagði mér frá því þegar Eysteinn Jónsson mætti samviskusamlega fyrir hverja kosningar í Víkina mína fögru og lofaði  gömlu mönnunum (kynslóð afa míns) höfn.  Sem að sjálfsögðu kom aldrei enda vissu menn þá sem ekki er vitað í dag, að það er ekki hægt að reisa höfn á sandi.  En alltaf kom Eysteinn, og alltaf dugði honum að lofa höfn, og alltaf var hann kosinn út á þetta glæsilega loforð.

"Afhverju" létu gömlu mennirnir alltaf spila svona með sig spurði ég Pabba??  "Hefur þú séð Eystein blaka eyrunum" spurði pabbi á móti.   Augljóst samhengi, sá sem gat blakað eyrum, hann gat byggt höfn á sandi, úr sandi.  Tek það fram að þetta var fyrir daga Árna Johnsen, sem hefði byggt höfnina og farið létt með.  

 

Núna þegar ég fylgist með fögnum íbúa míns litla byggðarlags við enn einum loforðum um núna skuli svo ráðist í gerða Norðfjarðarganga, bara þegar við erum búinn með það sem við viljum gera, er mér spurn hvort nýjir eyrnablakameistarar séu fæddir.  Eitthvað hlýtur að útskýra viljann til að trúa hinu margsvikna.

Skoðum nokkrar staðreyndir.  

Þegar orðið Norðfjarðargöng og samgönguáætlun var gúglað saman fyrir nokkrum vikum þá kom upp frétt frá árinu 2008, þar sem ný samgönguáætlun var kynnt.  Þar kom fram að

"gert er ráð fyrir að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hefjist 2009. „Veittar eru í það verk 600 mkr. árið 2009 og 1.700 mkr. árið 2010."

Þetta er sami textinn og  notaður er í dag nema að 2009 er orðið að 2013 og upphæðirnar hafa eitthvað hækkað í takt við verðbólgu. 

 

Og þessu fylgir smáaletur sem má lesa um í frétt Ruv; "Tvennum jarðgöngum flýtt".  Þar er haft eftir Ólínu Þorvarðardóttur að  "Forsendan fyrir þessu er auðvitað sú fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin hefur kynnt og það viðbótarfjármagn sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður fái annars vegar með veiðigjaldinu og hins vegar vegna sölu á eigum bankanna.".

Forsenda þessarar gleði íbúa Neskaupstaðar er annars vegar sala á banka sem mun ekki eiga sér stað og aðför að sjávarútveginum sem þeir mótmæltu harðlega á borgarfundir þar sem frasinn, "Hvað höfum við gert ykkur" fékk vængi.  Þessi mótmæli gleymdust um leið og blóðpeningarnir voru gerðir að beitu nýrra jarðganga.  

 

Og hverjar eru líkurnar á því að hinn meinti ofurskattur skili sér í ríkiskassann???  Forsendur hans er besta ár sjávarútvegsins í áratugi þar sem saman fór hagstætt gengi og mjög góð verð á afurðum greinarinnar.  En það þarf mikinn skort á raunveruleikaskyni að framreikna þetta góðæri.  Aðeins fyrir þremur dögum síðan var yfirvofandi heimskreppu frestað þegar Grikkir kusu "rétt".

"Robert Zoellick, framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, er ómyrkur í máli og segir að vandamál Grikkja gætu jafnvel hrundið af stað annarri heimskreppu.".

En aðeins um gálgafrest.  Jafnvel asni með ofsaleg löng eyru veit að hátt afurðaverð og heimskreppa fer ekki saman.

 

Samt fagna menn; blóðpeningum, sviknum loforðum sem þarf ekki einu sinni að umorða, og um leið afneita menn þeirri augljósu staðreynd að loforðin eru reyst á sandi.   

En menn segja ekki orð um gjörðir þeirra manna sem enn einu sinni lofa öllu fögru en á sama tíma tryggðu atkvæðasnapi fjármuni í framkvæmdir strax. 

Ríkisfjármögnun Vaðlaheiðarganga brýtur gegn lögum um ríkisábyrgð, hún sniðgengur stjórnsýslureglur um samgönguframkvæmdir, allur málatilbúnaður byggist á lygi, forsendurnar um meinta arðsemi ganganna eru falsaðar.

Hún er stjórnsýsluspilling af verstu gerð.  

En hún er í hendi, hún er ekki loforð um fjármagn, hún er fjármögnun.  

 

Það er hið hlálega í málinu, það er fagnað vegna einhvers sem á að gerast í framtíðinni og mjög hæpnar forsendur liggja að baki, en það er þagað vegna þess sem er gert.  

Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur aldrei vakið máls á að fyrst það er hægt að fjármagna Vaðlaheiðargöng strax, þá sé það sama hægt vegna jarðganga sem þola ekki bið.  Sé ekki hægt að fjármagna bæði göngin strax, þá hljóta stjórnvöld að láta jarðgöng sem þola ekki bið hafa forgang fram yfir göng sem stytta akstur milli byggða um nokkrar mínútur.   

Sveitarfélagið þagði þegar tillaga um flýtifjármögnun Norðfjarðarganga var lögð fram, það þagði þegar hún var felld af sama fólki og tryggði Vaðlaheiðargöngum ríkisfjármögnun.

Þess vegna hljóta menn að spyrja hvort hér fyrir austan hafi þróast nýt tegund af asnaeyrum sem þola óendanlegt tog eða er hér sorglegt dæmi um leikreglur hins gamla þjóðfélags sem steytti á skeri haustið 2008.  

 

Að það þori enginn að leggjast gegn spillingu þingmanna sinna.

Að hinir gjörspilltu haldi öllu í heljargreipum valds síns með hótunum að ef þið ekki þegið, þá fáið þið aldrei neitt, nema jú auðvita að borga skatta.  Í þessu samhengi skulum við ekki gleyma að fyrirtæki í Fjarðabyggð fjármagna Norðfjarðargöng  með skattgreiðslum sínum.  

 

Þetta litla dæmi um svona stórt mál, sýnir að það skiptir engu hvaða forsendum flokkarnir velja þingmenn sína, það eru sjálfar forsendur flokkanna sem eru rangar.

Tilurð þeirra snýst um að þjóna hagsmunum, þeir þjóna valdi og fjármagni.  

Við þurfum flokka sem þjóna fólki og þjóna samfélögum.  

Þar er meinið, það er vandinn.  Það er ekki gert í dag.

Það er ofsalega auðvelt að skella skuldinni á þingmenn en málið er að asnaeyrun eru ekki góð sem leiðarvísir þegar kemur að því að greiða atkvæði.  

Þingmenn endurspegla okkar viðmið, ekki öfugt. 

 

Þjóðin getur ekki endalaust skellt skuldinni á flokkana.

Hún þarf að líta í eigin barm.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Flokkarnir verði að vanda valið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirrt þjóð.

 

Ræðst á gullgæsina sem heldur uppi lífskjörum í landinu.

Gerir sér ekki grein fyrir að mein sjávarútvegsins er ofurskuldsetningin sem er afleiðing 20 ára kvótabrasks.  

Mein sjávarútvegsins er að hann hefur skuldsett sig fyrir sýndarverðmæti kvóta í stað tækja og tóla.  Ómæld verðmæti hafa farið í súginn því flotinn hefur notast við úrelt skip, skip sem gera ekki það besta sem nútímatækni býður uppá.  

Styrkur hans hefur falist í kraftmiklum stjórnendum og öflugu sölukerfi.  

Og hann er sjálfbær, rekinn með því markmiði að menn hagnist á honum.  

 

Ofurskatturinn vinnur gegn sjálfbærni greinarinnar og tekur ekki á meinsemdinni sem kvótabraskið er.  

Hann skaðar raunsjávarútveginn en lætur skaðsemi sýndarsjávarútvegsins í friði.  

Kunnuglegt stef frá ógæfusambandinu á meginlandinu sem er á fullu að eyða raunhagkerfi Evrópu í tilraun sinni að bjarga sýndarfjármálakerfi fjármálabraskarana.

Það er eins og fólk átti sig ekki á því að við lifum á mat en ekki pappír, að við notum vörur og þjónustu, ekki pappír og exel.  

Allt sem við gerum til að skaða raunhagkerfið, skaðar lífsgrundvöll okkar og lífsafkomu.  

 

Heimskan er síðan algjör þegar haft er í huga að málsmetandi menn um alla Evrópu, jafnt stjórnmálamenn, fjármálamenn eða fréttaskýrendur töluðu í fullri alvöru um að fjármálakerfi Evrópu myndi hrynja ef gríska þjóðin hafnaði föðurlandsvikurum í þvinguðu kosningunum síðustu helgi.  

Alvarleiki málsins fólst ekki í að ein lítil þjóð gæti haft svona afdrifarík áhrif á gang himintunglanna, heldur að menn skyldu í alvöru setja málið upp í þessu samhengi og í framhaldi ræða fullum fetum setningu herlaga til að hindra algjöran glundroða. 

 

Það er eitthvað mjög mikið að út í hinum stóra heimi í dag og óttinn við allsherjar hrun eykst með hverjum deginum.  

Þá snýst umræðan á Íslandi um ráðstöfun meints hagnaðar sjávarútvegsins næstu árin.  

Þó við séum eyland þá erum við ekki svo mikil eyja að alvarleg kreppa í Evrópu hafi ekki áhrif á útflutningstekjur okkar.  

Þess vegna á þjóðin að borga skuldir sínar hratt niður og búa sig síðan undir langan og mikinn harðindavetur sem gæti varað heila kynslóð ef fram heldur í Evrópu eins verið hefur.  

 

Dagurinn í dag er ekki tími ofurskatta og eyðslu, dagurinn í dag er tími þess að menn safni í sarpinn skipum og tækjum og treysti grundvöll innlendrar framleiðslu svo þjóðin hreinlega lifi af komandi heimskreppu.  

Lífsspeki DúDú fuglsins er ekki tímabær í dag.  Ætli menn sér að verða heimskir, þá velja menn sér tíma þegar ytri skilyrði eru hagstæð og líkur á stöðugleika í heiminum.  

Þjóðin á að snúa bökum saman um það sem skiptir máli.  Að vernda sjálfa sig og framtíð barna sinna.  Ekki láta froðukrónueigendur stýra umræðu upplausnar og sundurlyndis, með því eina markmiði að keyptir stjórnmálaflokkar afhendi þeim 1.000 milljarða evrubréf á silfurfati.  Með börnin okkar að veði.  

 

Það eru mútuþegar sem keyra þessa umræðu áfram.

Undir er annarsvegar framtíð barna okkar, hins vegar framtíð froðukrónunnar.  

Í alvörunni, það er enginn svona heimskur að trúa bullinu um "arðinn til þjóðarinnar" eða "hneyksli að auðlindagjaldið skuli ekki vera miklu hærra" eins og haft er eftir Þór Saari í morgunsárið.  

Þetta er áunnin heimska hagsmuna og fjármagns, til þjónkunar þeirra sem vilja sína 1.000 milljarða og engar refjar. 

Það er tími til kominn að við í Andófinu áttum okkur á því hverjir eru húsbændur þeirra sem hæst gjamma.   

 

Undir er framtíð barna okkar. 

Á þessum tímum eiga börn hinna veruleikafirrtu enga framtíð aðra en þjáningar skuldaánauðarinnar.

Því í dag mun veruleikafirrt þjóð aðeins uppskera eitt, þrældóm og örbirgð Nýfrjálshyggjunnar.  

 

Höfum þetta í huga.

Látum ekki spila með okkur endalaust.

 

Eitt Hrun er einu Hruni of mikið.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Frumvarp um veiðigjöld að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halló, það kostar 10,5 milljarða að gera Norðfjarðagöng.

 

Ekki 3,7 milljarða.

Er það syndaaflausn fyrir hina gjörspilltu sem ákváðu að lána 8,5 milljarða til Vaðlaheiðarganga sem nákvæmlega stytta leiðina milli Húsavíkur og Akureyri um 5 mínútur að teknu tilliti til tafar við tollhlið, að þeir ætli að bora sirka 2 kílómetra á næstu 2 árum???

Er þetta hugsað sem skjól fyrir íbúa Norðfjarðar ef til kjarnorkustyrjaldar kemur????  Allir inní göng, það er búið að bora smá holu, en ekki í gegn.  

Er ekki takmörk fyrir lýðskrumi hinna gjörspilltu sem taka atkvæðasnap í stóru byggðarlagi fram yfir líf og limi fólks í samfélagi sem borga upp Norðfjarðargöng á um það bil einu ári með sköttum sínum????

 

Hvað er lengi hægt að spila sig hálfvita án þess að fólk sjái í gegnum hálfvitaskapinn???

Hvað duga 3,7 milljarðar í framkvæmd sem kostar 10,5 milljarða???

Er þetta syndaaflausn þegar næsta rúta fýkur út af og lánið muni þá ekki bjarga mannslífum??

 

Hvenær fýkur næsta rúta út af á fjallvegi þar sem vetrarveður leyfa ekki daglegar samgöngur fólks sem sækir vinnu sína í næsta byggðarlag???

Það er ekki rök í málinu að fólk eigi ekki að fara á fjallið, að það eigi að láta næstu vakt í álverinu vinna 24 tíma í strait, það er þannig að það veit enginn um næstu vindhviðu, vindmælirinn sýnir kannski ásættanlegan vind, en næsta fjallaskarð er bara ekki inní þeirri mælingu.  

Forsenda Fjarðaáls, sem skapar ómældan gjaldeyri í þjóðarbúið, var að samgöngur á MiðAusturlandi yrðu færðar í nútímahorf, með öðrum orðum að þær yrðu færðar frá fjallaskörðum niður á láglendi. 

 

Það er gjaldeyrisöflunin sem ræður kaupmætti þjóðarbúsins, ekki kaffidrykkja 101 Reykjavík, ekki 5 mínúta tímasparnaður við að fara Vaðlaheiðargöng í stað Víkurskarðs.  

Fjarðarál skapar  gjaldeyri og það er ekki forsvaranlegt að fólk sem heldur starfseminni þar gangandi sé í lífshættu við að sækja þar vinnu.  Aðeins geðsjúklingar eða siðlausir villimenn telja það eðlilegt að taka styttingu á rúnt milli byggðarlaga um 5 mínútur, fram yfir samgöngubót sem kemur nauðsynlegri umferð úr 630 metra hæð niður á jafnsléttu.  

Jú, og hinir gjörspilltu sem taka atkvæði fram yfir mannslíf.  

Sem og samlandar okkar sem er það ofviða að mótmæla augljósu ranglæti og skilja svo ekkert í að þeir voru rændir af útrásarvíkingunum.  

Það er þannig að sá sem hugsar ekki, að sá sem skilur ekki, sá sem finnur ekki til með öðrum, að hann er dæmdur til að verða undir í lífsbaráttunni, að enda sem skuldaþræll krónubraskara og fjármagnseiganda.  

Tómhyggjan elur aðeins af sér fórnarlömb.  

 

Og hinir gjörspilltu gera út á hana.  

Þeir blekkja með yfirlýsingu um að þeir setji brotabrot kostnaðar við lífsnauðsynleg jarðgöng eins og að jarðgöng í annan endann, sem enda inní ekki einu sinni miðju fjalli, að það sé frétt, að það sé tíðindi.  

Og hinir tómu fagna, klappa, hrópa húrra, en á meðan fer lifandi fók á rútum yfir fjallveg í misjöfnum vetrarveðrum, með þá einu vitneskju, að öllum er sama þó illa fari.  

Hinir gjörspilltu og hinir tómu ráða för.  

Vissulega getur það hætt að sækja vinnu yfir Skarðið, en við hvað á það þá að vinna???  Og ekki rekur Fjarðaál sig án starfsmanna, það var vitað þegar álverið var reist.  Enda öllu fögru lofað um samgönguúrbætur.  

 

Heimskan, tómhyggjan, gjörspillingin er eina skýring þess að Norðfjarðargöng eru látin bíða á meðan ríkissjóður fjármagnar gælugöng kennd við Vaðlaheiði.  

Og aðeins siðblindan telur slíkt eðlilegt.  

En hvað með restina af þjóðinni, sem er hvorki gjörspilltur stuðningsmaður fjórflokksins eða siðblindt afkvæmi tómhyggjunnar, hvað finnst henni???

Af hverju segir hún ekki neitt???

Getur hún ekki sett sig í spor náungans, eða er henni alveg sama á meðan ranglætið snerti ekki hennar eigin rass???

 

Hvað með fjölmiðil eins og Morgunblaðið sem þykist taka sig alvarlega????

Hefur hann enga skoðun ef málið snertir fleiri en Jóhönnu Sigurðardóttir???

Eða þarf ritstjórinn að skora pólitískar keilur til að láta sig mál varða???

Er hann jafn aumur og þeir sem hann skammar blóðugum skömmum???

 

Eða hvað með forseta vorn sem ætlar fram til að verja rétt þjóðarinnar gegn stjórnsýsluspillingunni??'

Fylgdi með í smáaletrinu að rétturinn takmarkaðist við byggðarlög með meir en tíuþúsund íbúa???

Eða sannleiksleitendurna í blaðamannastétt Reykjavíkur, sem mega ekki sjá spillingu án þess að fordæma hana.  Var skilyrði þess að hin meinta spilling væri falin í skurði Rarik sem grafin væri í 101 Reykjavík, nær vitund þeirra ekki út yfir Öskjuhlíðina????

 

Yfir hvaða mörk þarf rangsleitni og spilling að fara til að hinir gjörspilltu þurfi standa skil á gjörðum sínum???

Eru mörkin Öskjuhlíðin, Árbærinn, Hellisheiðin, eða er miðað við 5.000 íbúa, 10.000 þúsund íbúa eða jafnvel 100.000 þúsund íbúa????

Er nauðsynleg forsenda að tengja Davíð Oddsson við gjörðir hinna gjörspilltu til að vel meinandi fólk rétttrúnaðar vinstrimennskunnar láti sig málið varða???

Eða sægreifa, eða útrásarvíkinga???, mun þá hið réttsýna íslenska Andóf láta í sig heyra????

 

Af hverju er ranglæti látið viðgangast í Íslandi á 21. öldinni.  Ranglæti sem 1.100 ára saga landsins kann fá dæmi um, jafnvel þegar konungsvalið var sem spilltast.  

Allavega er ljóst að það er engin innistæða fyrir kjöri Ólafs Ragnars ef hann samþykkir Vaðlaheiðarstjórnsýsluspillinguna.  Og það er ljóst að hið íslenska andóf, sem hugsar ekki út fyrir 101 Reykjavík, að það á enga siðferðislega innistæðu fyrir gagnrýni sinni á fjórflokkinn.

Því spilling er spilling, sama hvar fórnarlamb hennar býr.  

Þögnin gagnvart Vaðlaheiðargjörspillingunni segir því allt sem segja þarf um þá sem hrópa hæst.

 

Þeir eru hávaði um ekki neitt.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is 3,7 milljörðum varið í Norðfjarðargöng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 481357019 18489425845017321 4323732982186496416 n
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot 2025-09-19 at 16-13-03 Bandaríkin beittu aftur neitunarvaldi
  • Screenshot (5956)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.10.): 42
  • Sl. sólarhring: 883
  • Sl. viku: 1635
  • Frá upphafi: 1495841

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 1379
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband