30.12.2012 | 11:09
Hugrekki, kjarkur, þor.
Hefur gert manninn af því sem hann er.
Í árdaga þróunar okkar hélt hann niður úr trjánum og hélt á vit framtíðarinnar. Hinir kjarklausu sátu eftir og eru kallaðir apar í dag.
Fyrir ekki svo löngu, kannski 40.000 árum síðan, fúlsaði ung ófrísk kona við matnum sem henni var borin, gat ekki hugsað sér að borða hann, sá fyrir sér hið ófædda barn á disknum. Hún hafði kjark til að rísa upp gegn hefðinni, hafði hugrekki til að standa við sannfæringu sína og maki hennar neyddist til að útvega annað kjöt á diskinn. Tími mannætunnar var liðinn, stærsta einstaka skref í þróun siðmenningarinnar hafði verið stigið.
Næsta skref sem vert er að tala um var stigið fyrir um 2.000 árum síðan, í harðbýlu landi sem laut erlendri valdsstjórn. Þar reis maður upp fyrir samtíð sína, afneitaði hinum viðteknu aðferðum við lausn deilna og ágreinings, að láta vopnin tala, og sagði að það væri árangursríkara að við værum góð við hvort annað, að við elskuðum náunga okkar eins og okkur sjálf og gerðum ekki öðrum það sem við vildum að væri ekki gert við okkur sjálf.
Hann hafði Hugrekki til að standa með lífinu gegn dauðanum.
Kjark til að standa við sannfæringu sína.
Þor til að deyja fyrir hana.
Bylting lífsins var hafin, lífið krafðist þess að fá að lifa, fá að lifa af deilur og ágreining höfðingjanna.
Í 2.000 ár hefur þessi boðskapur lífsins verið helsta ógn valds og valdsmanna. Þeir reyndu að innlima hann í veraldlega stofnun, sem átti að þjóna hinu veraldlegu valdi, þeir skrumskældu hann frá því að fjalla um fegurð lífsins sem við lifum yfir í að fjalla um sælu hins næsta, og þeir misbeittu honum til að ógna öðru lífi.
En allt kom fyrir ekki, boðskapurinn lifði, hann lifði í hjarta og sál hins venjulega manns sem þekkti muninn á réttu og röngu, og reyndi að breyta rétt. Að elska lífið, að elska náungann.
Og á öllum tímum hefur verið til hugrakt fólk sem hefur haft kjark og þor að standa með trú sinni, að sýna rétta breytni í verki.
Það var kristið fólk sem reis upp gegn því mannníði sem þrælaverslun og þrælahald er og sagði við samborgara sína, svona gerum við ekki náunganum, við byggjum ekki velmegun okkar á eymd og þjáningum náungans. Það notaði ekki rök auðsins eða hagfræðinnar, það notaði rök mennskunnar gegn illskunni. Það sagði, svona gerum við ekki.
Það var kristið fólk sem reis upp gegn því mannníði sem frjálshyggjan skóp í verksmiðjuborgum Englands á fyrri hluta 19. aldar. "Ég þekki ekki þessi hagfræðilegu rök" sagði ein baráttukonan sem sagði frá eymd verkafólksins, "ég er kristin manneskja".
Það var kristið fólk sem leiddi andófið gegn kynþáttahyggjunni sem gegnsýrði allt mannlíf í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Það var trúin sem gaf fólk kjark til að rísa upp gegn kúguninni á þann eina hátt sem ofbeldið gat ekki svarað, hún gaf því hugrekki til að breyta rétt. Og þar með virkaði ekki svipa ofbeldismannsins ekki lengur.
Það var kristið fólk sem reis upp undir merkjum Hvítu Rósarinnar, einu skipulögðu andspyrnunnar gegn ægivaldi nasismans í Þýskalandi. Þörfin til að breyta rétt var sterkari en óttinn við dauðann. Þetta unga fólk, sem hafði það eitt til saka unnið að segja satt um ómennskuna og hvetja samlanda sína til að breyta rétt, að sína kjark til að vera mennsk, var handtekið og stefnt fyrir dóm þar sem ómennskan ákærði mennskuna, dæmdi hana seka og kvað upp dauðadóm. Unga fólkið féll en orð þess lifa.
""En hugsjónina????". "Ég myndi gera þetta aftur því lífsskoðun yðar er röng. Ég tel sem fyrr að ég hafi unnið þjóð minni gagn. Ég iðrast þess ekki og tek afleiðingunum." "Þjóðin vill frið. Að mannleg reisn verði aftur virt. Þjóðin vill Guð, samvisku og samkennd". ... "Það sem við skrifuðum hugsa margir en þora ekki að segja"."
Kristið fólk hefur risið upp á öllum tímum gegn ómennsku og mannníði, því boðskapur lífsins hefur lifað í hjörtum þess.
En kristið fólk hefur ekki risið upp á Íslandi gegn þeirri ómennsku sem viðgengst í þjóðfélaginu í dag.
Það þegir, hefur ekki kjark til að segja satt.
Í dag þegar þúsundir líða skort í landi alsnægtanna, tugþúsundir hengjast í skuldaól verðtryggingarinnar, sjálf þjóðin reyrð föst á fórnaraltari vogunarsjóðanna, þá þegir kirkjan um óréttlætið. Í stað þess að fordæma níðið þá mjálma prestar í kirkjum landsins um andlegar eigur þegar fólk er rænt sínum veraldlegu.
Þeir tala ekki um hugrekki, um rétta breytni, um hvað má ekki gera náunga sínum, þeir tala ekki um þjóðfélag mennskunnar og mannúðar, þeir tala ekki um sjálft lífið og framtíð þess, lífið sem á allt sitt undir réttri breytni á tímum sundrungar og átaka, þeir tala ekki um neitt sem máli skiptir því þeir óttast svo mjög að styggja höndina sem fæðir þá.
Og með þögn sinni afneita þeir boðskap mannsins sem þeir sóru að fylgja.
Þeim skortir hugrekki til að breyta rétt. Hafa ekki kjark til að segja satt. Hafa ekki þor til að standa með þjóð sinni gegn fjármagninu sem fer rænandi og ruplandi um byggðir landsins.
Veita ekki leiðsögn á tímum þar sem kristið fólk þarfnast leiðsagnar.
Þegja þegar þarf að segja að svona geri maður ekki öðru fólki.
Að maður svelti ekki samlanda sína í landi alsnægta, að maður hengi ekki fólk í skuldaról verðtryggingarinnar.
Það þarf ekki að þekkja hin hagfræðilegu rök, það dugar kristinni manneskju að vita að þetta er rangt.
Og það fyrirgerir sálarheill sinni ef það lítur undan á meðan náunginn er beittur rangindum. Það er ok kristninnar sem það getur ekki vikist undan. Því trúin gerir kröfu um rétta breytni gagnvart náunganum.
"Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig, Ekkert annað boðorð er þessum meira."
Röng breytni er ekki valkostur.
Sem betur fer fyrir fjármagnið telja fæstir sig kristna á Íslandi í dag, kirkjan er fyrir hefðina, svona ef ske kynni þá skírum við börn okkar, og kirkjan veitir fallega umgjörð þegar við jörðum ástvini okkar.
Annars er þjóðfélagið hundheiðið og dýrkar peninga, siðlausa græðgi og síngirni.
Þess vegna kemst fjármagnið upp með verðtrygginguna eftir Hrunið, alla mannvonskuna þegar fólk er hrakið af heimilum sínum, alla blóðmjólkunina í vexti og verðbætur á meðan þeir sem standa höllum fæti eru látnir éta það sem úti frýs.
Fólk umber þetta því það ætlar sjálft að hafa það gott, gefur skít í náungann.
Þjóðfélagið lýtur Mammon, hugmyndafræðingar hans stjórna öllu í þjóðfélaginu og móta það eftir sínu höfði.
Það snýst ekki um kjarkleysi að fólk rís ekki upp, fólk er samdauna ástandinu því það þekkir ekki muninn á réttu og röngu. Það reynir því aldrei á hugrekkið að sýna rétta breytni.
Fólk sem emjar undan verðtryggingunni, gerir það vegna þess að verðtryggingin bitnar á því. Um leið og aðstæður þess breytast, þá dásamar það hana, hún á að tryggja því öruggt elliskjól.
Fólk sem berst gegn rangindum verðtryggingarinnar það hikar ekki við að styðja lýðskrumara sem beita sér fyrir aðför að lífi og kjörum fólks á landsbyggðinni undir yfirskyni meintrar baráttu við sægreifa.
Fólk sem berst gegn sinni eigin skuldaþrælkun, styður Evrópusambandið og evruna út í eitt þrátt fyrir að evran hafi lagt í rúst lífskjör tugmilljóna í sambandinu eftir að fjármálakreppan skall á 2008.
Fólki finnst aðeins rangindi röng á meðan þau bitna á því sjálfu.
Að rangt sé rangt, og rétt sé rétt, óháð aðstæðum þess, það er því fyrirmunað að skilja.
Þess vegna dafnar frjálshyggjan, þess vegna dafnar hið blóðuga fjármagn, þess vegna líðst þrælahald alþjóðavæðingarinnar.
Þess vegna er heimurinn á heljarþröm.
Því fólk skilur ekki inntak boðskap lífsins.
Fólk vill vel en styður illt.
Ástandið væri ekki félegt ef manneskjan væri ekki í eðli sínu góð, með fallega sál, með bjarta áru.
Þó hið rökræna skilji ekki Boðskap lífsins, þá skilur sálin hann.
Þess vegna dó boðskapur lífsins ekki út, hann lifir í hjörtum okkar.
Bíður þess að springa út í Byltingu lífsins.
Bíður þess að einn stígi fram og játist honum, svo næst, og næsti og næsti.
Ferli sem er löngu hafið. Hófst fyrir 2.000 árum síðan.
En vantar samt herslumuninn að verða raunverulegt afl í mótun tímans, í mótun þeirrar framtíðar sem við innst inni viljum börnum okkar og barnabörnum.
Herslumun sem verður ekki nema ég og þú, við öll sem eigum líf sem þarf að vernda, stígum fram og styðjum þennan boðskap.
Fylkjum okkur um Aðferðafræði lífsins, Hagfræði lífsins, sem Boðskapur lífsins mótar og þróar. Allir eiga rétt til lífs, það á ekki að gera öðrum það sem maður vill ekki að manni sjálfum sé gert, maður á að líta eftir bróðir sínum, maður á að elska náunga sinn. Er ekki flókið, er svo einfalt.
Til þess þarf aðeins kjark, þor, hugrekki.
Til að breyta rétt, til að hafna röngu.
Þetta afl myndast þegar við hættum að benda á aðra, hættum að treysta á aðra.
Þegar við sjálf stígum fram.
Við hið venjulega fólk.
Hættum að láta ráðskast með okkur, hættum að láta aðra móta samfélag okkar.
Við getum þetta, eina hindrunin er óttinn, óttinn að vera til.
Hugrekkið sem þarf til að yfirvinna þennan ótta býr innra með okkur.
Það varð til um leið og við ólum lífið sem þarf að vernda.
Við þurfum aðeins að opna skápinn sem við geymum það í og hleypa því út.
Þá fær ekkert staðist okkur, okkur hina venjulega manneskju.
Því við erum lífið sem vill lifa af.
Og við munum lifa af.
Þá og þegar við stígum fram.
Og myndum aflið sem ekkert fær sigrað.
Lífið sjálf.
Kveðja að austan.
28.12.2012 | 15:35
"Það krefst hugrekki að sýna rétta breytni."
Haft eftir prédikara í þeirri stórgóðu mynd The Help sem sýnd var á Stöð 2 um jólin.
Þessi mynd var um hetjur hverdagsins sem héldu reisn sinni í þrúgandi andrúmslofti kynþáttahyggju og kynþáttafordóma.
En The Help var ekki síður um fórnarlömb þessarar kynþáttahyggju, ungu stúlkurnar sem lifðu ekki lífinu vegna þeirra þröngu skorða sem samfélagið setti þeim. Heimavinnandi húsmæður, komandi samt ekki nálægt heimilishaldi eða barnauppeldi, nutu þjónustu vinnufólks sem var óæðri verur samkvæmt gildum samfélagsins.
Það er ömurlegt að alast upp í samfélagi sem kennir þér að fyrirlíta og koma illa fram við náungann, samfélagi sem réttlætir slæma meðferð á ódýru vinnuafli með tilvísun í að það "eigi ekkert betra skilið".
Þetta er meiri rottan var mér hugsað um aðalrótina þegar hún undir skinhelgi hræsninnar vísaði í meinta smithættu þegar hún kynnti tillögur sínar um sérstök salerni handa vinnukonum á betri heimilum. Vissulega var hún rotin, en fyrst og síðast fórnarlamb, hún var eins og svarta húshjálpin sagði við hana, "guðlaus kona", og hvaða kristin manneskja vill fá þann dóm??? Að leiðin upp metorðastigann í samfélaginu sé beina leiðin til helvítis samkvæmt kenningum þeirrar trúarbragða sem samfélagið játar.
Það er ekkert grín að alast uppí samfélagi sem hatar þá sem þjóna þér. Samfélagi sem beitir kúgun og ofbeldi til að halda niður hluta íbúanna. Samfélagi sem notar illmælgi, róg, níð, til að lýsa hinum kúguðu, til að réttlæta meðferð þeirra, til að réttlæta hin bágu kjör. Og ef þú meðtekur þessi gildi samfélagsins, þá hefur þú skaðað sálarheill þína og mennsku og hlýtur fordæmingu þeirra sem þekkja muninn á réttu og röngu.
Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti að vera dæmdur svona fyrirfram úr leik sem manneskja, sem mennsk vera.
Já, myndin fjallaði ekki síður um fórnarlömb en hetjur, fórnarlömb sem svona aðstæður hafa skapað á öllum tímum, um allan heim.
Fórnarlömb mannfyrirlitningu og fáfræði, kynþáttahaturs og stéttaníðs.
Okkur er tamt að hugsa um þá sem verða fyrir barðinu en minna um þá sem gera. Við sjáum þjóðfélagsstöðu þeirra og velmegun, en spáum ekki í að þetta fólk hefur fyrirgert sálarheill sinni, mennsku sinni. Og það fékk aldrei tækifæri til að þekkja muninn á réttu og röngu, því var strax í uppeldinu kennd röng hegðun, rangt gildismat.
Það er nefnilega þannig að kynþáttahyggja spratt ekki upp af sjálfu sér.
Í Evrópu, fyrir landafundina, var svart fólk ekki litið hornauga. Enda sá sjálfsagt fólk lítt mun á svörtum og hvítum eins og hreinlæti var háttað á þeim tímum. Það var ekki fyrr en svart vinnuafl var flutt til Ameríku sem þrælar, að kynþáttahyggjan festi rætur. Hún var einskonar réttlæting á hinni illu meðferð sem talin var nauðsynleg til að ná sem mestu út úr vinnuaflinu með sem minnstu tilkostnaði.
Þetta var áður en frjálshyggjan kom með hina hagfræðilegu réttlætingu á illri meðferð vinnuafls.
Ef vinnuaflinu var ætlað lægstu hvatir, það væri jafnvelgt dýrslegt í eðli sínu, þá mátti meðhöndla það sem skepnur. Ekki það að gróðahyggjan þyrfti réttlætingu, heldur hinn skinheilagi hræsnari sem las uppúr biblíunni um rétta breytni og kristið siðgæði og horfði síðan á eymdina og kúgunina allt í kringum sig.
Tvöfeldnin var of mikil svo það þurfti að réttlæta hana á einhvern hátt. Kynþáttahyggjan varð til, sumir voru æðri öðrum, hinir óæðri voru svo óæðri að þeir áttu ekkert gott skilið. Eða þannig.
Fáfræði og fordómar eru eiginlega varnaviðbrögð samfélags sem fer illa með náungann.
"Bóndinn er slægur, hálfsiðuð skepna, hjartalaus og sneyddur sómatilfinningu", hann er "blendingur, millistig milli manns og dýrs". Hér er ekki verið að tala um svarta þræla heldur bændur í ánauð lénsþjóðfélagsins.
Og verksmiðjuaðallinn í hinu nýju iðnaðarborgum Englands vandaði ekki verkafólki sínu kveðjurnar. Það var latt og lastafullt, iðjuleysi og skortur á döngun skýrði bág kjör þeirra.
"Þeir þrífa sig ekki einu sinni" sagði Íslendingur einn eitt sinn við mig um svarta byggingarverkamenn sem hann hafði kynnst í Suður Afríku, taldi það réttlæta kynþáttaaðskilnaðinn þar í landi.
Dæmin úr nútímanum eru nærtæk.
Hver hefur ekki heyrt um spillta lata Grikkjann sem lifir á kerfinu og borgar ekki skatt. Hann á fátt annað skilið en aga evrunnar, eymdina og örbirgðina sem henni fylgir. Þegar hlustað er á lýsingar þýska ráðamanna fattar maður að þetta tungutak er þeim tamt, það eru ekki svo mörg ár síðan að þeir notuðu svipað orðfæri um annan hóp fólks sem átti niðurbrot samfélaga sinna skilið. Var spilltur, úrkynjaður, mengaði samfélagið.
Samfélag sem var gegnsýrt af orðræðu kynþáttahyggju lætur ekki svo glatt undan, nýir tímar, ný fórnarlömb, en sama orðfærið, sami kuldinn gagnvart þeim sem níðst er á.
Á Íslandi þekkjum við mætavel þennan hroka og mannfyrirlitningu.
Fórnarlömb Hrunsins er hædd, niðurlægð. Ekki bara í gjörðum kerfisins, heldur líka í orðum þeirra sem styðja helförina gegn heimilum landsins.
"Óráðssíufólk", "flatskjáakynslóðin", og mesta fyrirlitningin af öllu, "fólkið sem tók lán". "Sjálfsskaparvíti", "getur sjálfum sér um kennt".
Þeir, sem réttlæta aurasýki sína og mannfyrirlitningu með níðumræðu um skuldara landsins sem áttu enga aðra valkosti en að taka lán með verð eða gengistryggingu, ef þeir á annað borð ætluðu að lifa í landi feðra sinna og mæðra, geta ekki afsakað sig með uppeldinu eins og aumingja hvítu húsmæðurnar í Jackson Mississippi, eða að rasismi hafi verið landlægur í landinu um aldir eins og Þjóðverjar grípa gjarnan til þegar þeir útskýra yfirgang sinn og níðingsskap gagnvart veikari nágrönnum sínum.
Þeir geta ekki vísað í hagfræðileg rök eða efnahagslega skynsemi, Hrunið afhjúpaði öll þau falsrök.
Þeir eiga sér enga afsökun.
Aðeins hugarfar nánasarinnar útskýrir hugarfar þeirra og orðræðu.
Nánasarinnar sem veit ekkert hræðilegra en að glata aur úr veski sínu. Styður því efnahagslega hryðjuverkastarfsemi verðtryggingarinnar sem kostar hana þúsundir áður en yfir líkur.
Nánösin á sér enga afsökun, fordæming hennar er sjálfsskaparvíti.
Hún er ekki fórnarlamb, hún er gerandi.
Í kristnu samfélagi á hún sér enga réttlætingu, allt Nýja Testamentið er stöðug fordæming á hegðun hennar og innræti.
"Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig, Ekkert annað boðorð er þessum meira."
Vergangur heimila landsins er ekki í þessum anda.
Helför evrunnar á hendur grískum almenningi er ekki í þessum anda.
Aðeins hundheiðið þjóðfélag sem blótar Mammon réttlætir verðtrygginguna, réttlætir níðingsskap á hendur fólki vegna tilbúins gjaldmiðils.
Þetta veit kristið fólk. En því skortir hugrekki til að sýna rétta breytni.
Afsakar svo hugleysi sitt með allskonar sjálfsblekkingum og sjálfsréttlætingu, en veit innst inni að það breytir rangt.
Að það styður óréttlæti vegna þess að það hefur ekki kjark til að rísa upp úr flatneskju hins þegjandi samþykkis.
Hefur ekki kjark til að segja, "að svona gerir maður ekki".
Það þegir því um hinn raunverulega vanda en finnur sér allskonar tittlingaskít til að nöldra yfir. Til að kenna "hinum" um.
Í hnotskurn má segja það um íslenska þjóðmálaumræðu að hún kennir alltaf öðrum um. Hún lýtur aldrei í eigin barm, á eigin sök, hún höndlar alltaf bjálka annarra.
Og hún lætur það líðast að nánösin blóðmjólkar heimilin sem ala upp framtíð landsins.
Kjarkleysið, að þora ekki að breyta rétt, er eini vandi þjóðarinnar.
Við vorum ekki alin upp við að horfa í hina áttina þegar náungi okkar á í neyð.
Við vorum ekki alin upp til að lúta stjórn níðinga sem engu eira í þágu fjármagns og gróða.
Við erum ekki svona, við höldum það bara.
Við erum fólk, góðar manneskjur.
Og nú er okkar tími runnin upp.
Fólkið sem reis upp fyrir okkar hönd, því er þrotinn kraftur því við þorðum ekki að styðja það.
Við óttuðumst aðhlátur myrkraraflanna, við óttuðumst að verða skotspæni keyptra sérfræðinga sem verja hina efnahagslegu hryðjuverkastarfsemi, sem verja hina efnahagslegu heimsku sem blóðmjólkun heimila og fyrirtækja er.
Við vorum hrædd við "góða fólkið", góða samfylkingarfólkið sem er alltaf svo gott við fólkið nógu langt í burtu, að það myndi hlæja að okkur, gera grín að okkur þegar við segðum að svona er ekki gert við náungann í næsta húsi, að þetta er ekki rétt breytni þó að ríkisstjórn góða fólksins sé við völd. Við vorum hrædd að það myndi útskúfa okkur úr sína fína góða samfélagi, samfélagi hins rétthugsandi fólks.
Við erum eins og hvítu húsmæðurnar í Jackson Mississippi sem vissu innst inni að framkoma þess og breytni við litað vinnuafl sitt var röng, ókristileg, en þær þorðu ekki að segja skoðun sína og meiningu því þær óttuðust félagslega útskúfun.
Við eins og þær, höfum ekki hugrekki til að sýna rétta breytni.
Þess vegna er þjóðfélagið á heljarþröm, reyrt niður á fórnaraltari dýrkenda Mammons, bíðandi eftir að amerísku vogunarsjóðirnir komi með krumlur sínar og taki úr því hjartað, heimili landsins.
Vegna þess að okkur skortir kjark til að vera þær manneskjur sem við erum.
Gott fólk sem þekkir muninn á réttu og röngu, og vill breyta rétt.
En þorðum ekki að hjálpa Liljum Vallarins þegar þær risu upp og gagnrýndu óréttlætið.
Nú er komið að okkur.
Við getum ekki lengur flúið inní heim sjálfsblekkingarinnar.
Við getum ekki lengur afsakað okkur með því að við erum bara venjulegt fólk. Ekki fræg, ekki góða fína fólkið, ekki fólkið sem er sjálfskipað að leiða baráttuna gegn ranglæti eða yfirgang valdaafla og valdsmanna.
Það eru aðeins við, það er enginn annar.
Það er enginn annar sem mun verja lífið sem við ólum. Og varnarlaust á vergangi getum við ekki skilið það eftir.
Kjarklaus, hrædd, það skiptir ekki máli.
Frumhvötin sjálf, að verja líf sitt er öllu sterkari.
Og það eina sem getur hamið og komið böndum á óargadýrin er krafa um rétta breytni, rétta hegðun.
En við getum ekki krafist þess af öðrum ef við höfum ekki sjálf það hugrekki sem þarf til að sýna slíka breytni.
Við erum upphaf og endir alls.
Við hin venjuleg manneskja.
Okkar tími er kominn.
Sá tími er upphaf af endalokum græðgi, siðblindu, mannvonsku.
Öld samhygðar og samkenndar mun renna upp.
Þó fyrr hefði verið.
Kveðja að austan.
23.12.2012 | 10:30
Liljur Vallarins fölna.
En vonin lifir í afskekktum dal þar sem Valkyrjur vallarins hlúa að henni og fóstra.
Orðin sem tjá von okkar um betri framtíð.
Framtíð sem Steinn Steinar lagði Jesú ungum í munn.
Og þá verða allir menn svo góðir,
sagðir þú, ,,svo góðir,
eins og blómin.
Og þá þurfum við ekki framar að hræðast myrkrið
því þá verður aldrei nótt
þegar búið er að frelsa heiminn.
Þetta er vonin, sem lifir í afskekktum dal á tímum þar sem dýrkendur Mammons fórna fólki á altari fjármagnsins, fórnarhnífur vaxta og verðtrygginga sýgur hvern blóðdropa úr heimilum landsins, eftir er örvæntingin og ótti, örvænting um skjólið, ótti um hvernig hægt er að fæða og klæða börnin svo vel séð.
Á tímum hjáguðanna, á tímum miskunnarlaus fjármagns, á tímum grimmra peningaafla, þá er vonin um hið góða, um hinn góða heim, það ljós sem að lokum mun vísa hinum örvænta, hinum óttaslegna veginn í átt að Samstöðu, og Samhygðar, sem að lokum mun yfirbuga hina grimmu dýrkendur Mammons.
Þessi von var kveikt í fjarlægu landi fyrir um 2.000 árum og hefur lifað í hjörtum manna síðan.
Hún er kveikjan, hún er uppsprettan, hún er hin óendanlega orka sem býður þess að vera virkjuð af fólki, sem á sér aðeins eina ósk, að sakleysið sem það skóp fái tækifæri til að lifa og dafna í samfélagi þar sem friður og sáttin eru öxullinn sem allt mannlíf hverfist um. Aðeins þannig getur það verið visst um að lífið sem það ól geti vaxið og dafnað og sjálft alið af sér líf.
Af fólki sem sameinast um lífið, myndar Samstöðu um lífið.
Samstaðan um lífið, sem mun kvikna í okkar litla landi fyrst allra, mun móta Hagfræði lífsins, Aðferðafræði lífsins, Leiðarljósin sem lýsa upp myrkrið, leysa upp myrkrið, sem siðblind græðgi og sérhyggja Mammons óf um allt þjóðlíf, um allt mannlíf hér á landi eftir Hrun.
Okkar harmur er brot af heimsins harmi kvað Steinn, ljósið sem vinnur á okkar harmi, mun líka vinna á heimsins harmi.
Ekkert verður til af sjálfu sér, allt á sér sína sköpun, sitt upphaf.
Samstaðan um lífið sprettur ekki upp af sjálfu sér, hún á sér sitt upphaf, raddir sem töluðu um frelsi á meðan rödd Mammons talaði um skuldaok, raddir sem töluðu um fagurt mannlíf, meðan rödd Mammons bauð upp á niðurskurð, fátækt, örbirgð, jafnt efnis sem huga.
Á skarnhaugnum sem seldi þjóð sína í hendur á erlendum lánardrottnum útrásarinnar spruttu upp blóm, fegurstu Liljur, önnur benti á leiðir út úr skuldaþrengingunum og gaf tóninn gegn skuldaþrældómnum, "Ég segi Nei barna minna vegna". Hin talaði rödd réttsýnarinnar og fegurðarinnar með tærri rödd hreinnar sálar.
Tvær Liljur, sitt hvor hliðin á sama peningnum, þegar raddir þeirra runnu saman þá heyrðist ómur þess sem þjóðin þurfti að heyra. Að myrkur Mammons væri mannanna verk, það væri mannanna að hrekja það á brott með skynsömum leiðum sem hagfræðin þekkti, og það væri okkar mannanna að vefa nýtt þjóðfélag þar sem leiðarljósið væri virðing og umhyggja, fyrir hvort öðru, fyrir landinu okkar, fyrir sögu okkar og menningu og þeim gildum sem áar okkar höfðu að leiðarljósi þegar þeir reistu landið við eftir aldalanga stöðnun og deyfð.
Liljurnar blómstruðu og þeir heyrðu sem þráðu að heyra hin tæra tón.
Allt er forgengilegt, allt á sér sinn tíma.
Núna hafa Liljur Vallarins fölnað, fnykurinn sem leggur af skarnhaugnum hefur kæft þær.
Græðlingur þeirra lifir í afskekktum dal þar sem Valkyrjur Vallarins hlúa að honum í akri vonar og trúar.
Græðlingur innan um aðra græðlinga sem munu til samans mynda það afl, þann kraft sem þarf til að hinn venjulegi maður endurheimt samfélag sitt úr höndum Mammons.
Þó Liljurnar hafi fölnað þá er það okkar að blómstra.
Því við öll erum innst inni eins og hið fegursta blóm.
Sem býður þess að spretta upp á móti sólinni og lífinu.
Vökvað af almættinu sem er uppspretta kærleikans, verndari sakleysisins.
Það er okkar að mynda Samstöðuna um lífið.
Og það munum við gera með hækkandi sól.
Allt á sér sitt upphaf.
Okkar upphaf er þegar liðið.
Við erum ekki lengur sáðkorn lífsins, við erum græðlingar sem sprettum upp um allt samfélagið.
Fólkið sem á líf sem þarf að vernda og hefur viljann til að vernda það.
Við erum blómin.
Blóm lífsins.
Og vonin er okkar.
Samstaðan um lífið.
Kveðja að austan.
22.12.2012 | 10:50
Hagfræði fyrir byrjendur.
Er að skilja af hverju það er ekkert val að frysta verðtrygginguna og vinda svo ofan af skuldum heimila og fyrirtækja svo þjóðfélagið nái að vaxa og dafna í framtíðinni.
Hagfræði fyrir byrjendur er að skilja að það er framtíðin sem borgar skuldbindingar fortíðar, ef skuldbindingar fortíðar eru svo íþyngjandi að þær draga úr vexti og viðgangi hagkerfisins, þá fást þær ekki greiddar, þrátt fyrir alla pappíra þar um.
Því pappír greiðir ekki skuldir, verðmæti gera það.
Hér á eftir kemur pistill næstum því óbreyttur frá mars 2009, gæti hafa verið skrifaður í dag, nema í dag er vitað að hugsun hans var rétt, þá var það spá um hvað myndi gerast ef ekki væri tekist á við skuldavandann á raunsæjan og siðlegan hátt.
"Vandi heimilanna er gríðarlegur. Seðlabankinn áætlar varlega að 30-40% allra heimila sé með neikvæða eiginfjárstöðu eða við að verða það. Þegar áhrifa tekjuskerðinga vegna launalækkunar eða atvinnuleysis ásamt hinnar gríðarlega hækkunar á framfærslu vegna gengishrunsins, er ekki varlega áætlað að 50-60% allra fjölskyldna í landinu sé að horfast í augun á miklum vanda. Margir munu verða gjaldþrota en enn fleira fólk mun verða bundið í skuldaklafa og þrældóms það sem eftir er sinnar ævi ef það reynir að standa í skilum við sína lánardrottna. Slíkt mun aðeins leiða hörmungar yfir þjóðina.
Ljóst er að vandinn er það mikill að það er allra hagur að hann sé leystur með ráðum sem duga. Hálfkák sem vekur vonir mun aðeins gera illt verra. Því ekkert mun fara verr með fólk í miklum erfiðleikum en brostnar vonir. Það sem þarf að gera tók ég lauslega fyrir í síðustu "Blessunar" grein minni. Aðgerðirnar þurfa bæði að vera almennar (Frysting "Hrun" verðbóta) og sértækar eins og sú greiðsluaðlögun sem ríkisstjórnin boðar.
Ríkisstjórnin hefur hafnað Frystingu veðtryggingarinnar. Segir það of dýrt og komi þeim ekki að gagni sem mest þurfi á hjálpinni að halda. Segist frekar ætla að meta stöðu hvers og eins skuldara. Þetta hljóma ágætlega og gæti verið skynsamlegt ef um takmarkaðan vanda er að ræða.
En það er Neyðarástand, ígildi afleiðinga hamfara. Það þarf gífurlegar hamfarir í einu landi til að 50-60% allra heimila eigi við mjög erfiðan greiðslu- og eignavanda að ræða. Hver telur sig hafa þann mátt og það siðferði að hann geti valið og hafnað beiðnum frá fólki í neyð? Hvernig á að velja og hafna?
Og það er líka gífurlegur kostnaður í því fólgin að neyta fólki um aðstoð. Lánin hverfa ekkert við það að fólk fari í gjaldþrot. Og við bætist hinn félagslegi kostnaður. Og hann getur varað í áratugi.
Á Íslandi var eignabóla eins og í svo mörgum öðrum löndum. Í kreppu leiðréttist eignarverð. Seðlabanki Íslands áætlar t.d að húsnæðisverð falli um 25% og þá er reiknað með að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hindri kerfishrun. Annars verður verðfallið miklu meira, getur orðið meira en 50% á dýrum eignum. Allstaðar útí hinum stóra heimi þá lækka skuldirnar ekki með lækkandi eignarverði og því er talað um kreppu og greiðsluerfiðleika almennings. En hvergi á byggðu bóli hækkar skuldir fólks á móti þessari eignarrýrnun. Hvergi nema á Íslandi þar sem slíkt er talið vera lögmál Guðs, byggt á boðorðunum tíu.
En verðtryggingin var aldrei hugsuð til að mæta svona kerfishruni. Að viðhalda henni við þessar aðstæður er það sama að viðhalda ójafnvægi og við ójafnvægi þá lætur alltaf eitthvað undan. Verði það ekki til að hrekja gjaldþrota fólk úr landi í þúsunda tali, þá mun þetta sama fólk endalaust reyna að rétta hlut sinn með kaupkröfum langt umfram það sem framleiðniaukning atvinnulífsins gefur tilefni til. Með öðrum orðum, til staðar verði raki og fúkki sem mygla verðbólgunnar mun þrífast í næstu áratugina.
Það er sama þó öðru verður haldið fram, svona verður þetta bara. Smásálarskapur og lítilmennska okkar í dag mun skapa ómælda erfiðleika í framtíðinni.
En Jóhanna Sigurðardóttir má eiga það að hún rökstyður sitt mál og bendir á að hún vilji nota takmarkaða fjármuni í að reyna hjálpa þeim sem mest þurfi á hjálpinni að halda. Hún er með engin ódýr rökbellibrögð eins og Árni Páll Árnason spurði í grein sinni í Fréttablaðinu hvort fólk vildi virkilega að hjálpa fólki sem skuldaði 125 milljónir. Eins og það væri málið.
En svona útúrsnúningur og afbakanir eru ættaðar úr búðum Frjálshyggjunnar. Þegar hún sjálf hefur ekki vald til að hundsa réttmætar kröfur almennings, þá notar hún röktækni lágkúrunnar og sjálfselskunnar til að afvegleiða umræðuna og hindra framgöngu góðra mála. Pétur Blöndal notaði þessa tækni þegar hann kvað í kútinn, illu heilli fyrir þjóðina, hugmyndir þeirra Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega um eignarhlut sjóða í fasteignum fólks þegar það gæti ekki greitt nema hluta lána sinna. Á að hjálpa ríka fólkinu spurði Pétur kotroskinn og benti síðan fávísum blaðamönnum á að almenningur myndi aldrei sæta sig við nema fólkið borgaði markaðsleigu á eignarhlut ríkissjóða. En enginn var að tala um leigu nema hann og þá bábilju tóku fjölmiðlakjánar upp.
Lærisveinn Péturs skrifaði grein um vaxtabætur í Viðskiptablað Morgunblaðsins í gær. Þar sagði hann þetta út frá eigin brjósti en lét hljóma sem frétt.
Munurinn á þessu aðgerðum er hins vegar mikill, því 20% niðurfærsla yfir alla línuna er hugsuð fyrir alla. Þá myndu þeir fá mest sem skulda mest, en væntanlega eru það í flestum tilvikum þeir sem jafnframt eiga mest og þéna mest. Aðstoð í gegnum vaxtabótakerfið nýtist hins vegar fyrst og fremst þeim sem á þurfa að halda og eiga minnst.
En stöldrum aðeins við þessa röksemdarfærslu. Kaupir fólk þetta. Má ekki bjarga þjóðfélaginu vegna þess að einhver fær hjálpina sem á hana ekki skilið?
Á þá þetta "efnaða" fólk enga hjálp að fá. Þó lendir það í sömu hörmungum og við hin og ber engu meiri ábyrgð á því sem gerðist. Hefur það ekki greitt skatta eins og aðrir þegnar þessa lands? Það vill oft gleymast að maður með milljón á mánuði greiðir hærri upphæð til samfélagsins en maður með 300 þúsund á mánuði. Á hann ekki sömu kröfu til aðstoðar og við hin því hann hefur haft meiri tekjur en við?
Ókei, segjum að við hjálpum honum ekki. Þetta er ekki Íslendingur, þetta er annars flokks Íslendingur. Má hann þá flytja úr landi? Hvað ef þetta er þvagfæraskurðlæknirinn hans pabba eða gjörgæsluskurðlæknirinn sem tjaslar saman börnum okkar eftir umferðaslys? Má hann samt missa sig?
En ef maki hans er hjúkrunarfræðingur eða leikskólakennari? Og börnin hans leikfélagar barnanna okkar? Eru þau ekki Íslendingar? Hafa þau ekki sömu réttindi og við hin?
Og hvað með foreldra viðkomandi. Kannski venjulegt alþýðufólk, sem alltaf hefur greitt sína skatta og skyldur, og þau unnu hörðum höndum svo börnin gætu fengið þá menntun sem fátæktin meinaði þeim um. Hafa þau engan rétt? Eru skilaboð þjóðfélagsins til þeirra eftir allt þeirra fórnfúsa starf að börn þeirra og barnabörn séu einskis virði sem þegnar þessa lands?
Það má vera að einhver smásálin svari öllum þessum spurningum játandi. En hver er hagur hennar að hrekja þetta fólk úr landi? Hverfa skuldir þessa fólks við brottflutning eða gjaldþrot þess?
Hver tekur við að greiða þær???????? Þær hverfa ekki þó fólk sé gert upp. Heldur fólk virkilega að það finnist einhver kaupandahópur af eigum þessa fólks og yfirtaki skuldir þess? Er það þá huldufólk eða álfar?
Ef ekki þá þarf að afskrifa skuldir og finna nýja kaupendur. Er allt í lagi að gefa þeim eftir skuldina? Bara ekki þeim sem þurfa á skuldinni að halda? Bara þeim sem vilja gera góð kaup?
Bara þeim sem vilja gera góð kaup segir frjálshyggjan því hún hugsar sig og sína. Auðmenn og þjóna þeirra.
Þegar fólk grípur röksemda sjálfselskunnar og spyr hví á ég að hjálpa þessum þá gerir það slíkt í annarlegum tilgangi. Því þú spyrð ekki þegar þú hjálpar.
Þú hjálpar.
Siðleysið sem þessi röktækni höfðar til er siðleysi frjálshyggjunnar.
Þjóðin má aldrei gleyma því.
Púkinn sem kom henni á heljarþröm er sívinnandi við að tryggja yfirráð sinna gömlu herra. Hans vopn er sundrung og úlfúð. Á meðan endurreisir hann ríki græðginnar og siðvillunnar því þannig heldur hann að þeir "ríku" vilji hafa þjóðfélag framtíðarinnar.
Í fyrsta lagi er það ekki rétt.
Og í öðru lagi þá á að kveða hann í kútinn en ekki láta glepjast af úrtölum hans."
Við vitum hvaðan púkar eru ættaðir og hver tilgangur þeirra er með að glepja okkur.
Þeirra leið liggur til Heljar, og þeir sem fylgja þeim stefna sömu leið.
Þjóð sem fylgir þeim stefnir í glötun síngirni og upplausnar.
Við sjáum þetta í dag.
Það þarf ekki lengur að rífast.
Við þurfum að hlusta á okkar innri mann, breyta rétt, gjöra rétt.
Hjálpa öðrum því um leið hjálpum við okkur sjálfum.
Því við erum eitt.
Ein þjóð í einu landi.
Deilum sömu kjörum.
Og til að komast að þurfum við aðeins að læra hagfræði fyrir byrjendur.
Hún er ekki flókin, hún er angi af hagfræði lífsins.
Lífsins sem við viljum vernda og sjá dafna.
Við eigum öll líf sem þarf að vernda.
Verndum það.
Kveðja að austan.
21.12.2012 | 08:57
Frysting verðtryggingarinnar er ekki val.
Frysting verðtryggingarinnar, frá þeim tíma er hagkerfið var í jafnvægi fyrir hrun, er ekki valkostur í stefnu stjórnmálaflokka. Málið snýst ekki um hvort þjóðin hafi efni á slíkri gjörð og það snýst ekki um hvort það sé réttlætismál eða þá að gerðir samningar eigi að standa.
Ekkert að þessu skiptir máli því það er ekki val hvort verðtryggingin sé fryst eður ei.
Frysting verðtryggingarinnar er það eina sem getur bjargað þessari þjóð frá glötun. Hún er upphaf allrar samfélagssáttar og hún er upphaf þess að þjóðin vilji takast á við aðsteðjandi vanda og leysa hann í sameiningu.
Standi þjóðin ekki saman þá er þjóðarvá í vændum og ekkert getur hindrað yfirvofandi hrun þess samfélags sem við þekkjum og vorum svo stolt af. Vissulega voru skuggar í því samfélagi og það villtist af leið á meðan mýrarljós græðgi og sérhyggju var sá ljósgjafi sem lýsti upp efnahagslífið. En lífið er ekki fullkomið og önnur samfélög eiga líka við sinn vanda að glíma.
En þjóðin stóð saman á erfiðleikatímum og það var hugsað um þá sem áttu undir högg að sækja sökum aldurs, sjúkleika eða annars sem gerði fólk erfitt fyrir í sinni lífsbaráttu. Staða foreldris skipti ekki máli þegar kom að því að mennta börnin og öll börn nutu sömu heilsugæslu.
En núna vilja græðgiöflin rjúfa þessa sátt. Þau höfða til síngirni fólks og öryggisleysis. Segja að þjóðin hafi ekki efni á að hjálpa unga fólkinu. Það sé of dýrt og það verði á kostnað ellilífeyri þess. Segja að það eigi að standa við gerða samninga.
Og það er rétt. Það á að standa við gerða samninga. Og það eru til æðri samningar en sú kvöð að undirgangast verðtryggingu lána ef þú vilt flytja að heiman og stofna til þinnar eigin fjölskyldu. Uppfylla þannig þá kvöð sem náttúran leggur á allt líf og kallast að viðhalda tegundinni.
Þessi samningur er sjálfur grunnsáttmáli samfélagsins. Að allir eigi sama rétt til lífs og gæða samfélagsins og á erfiðleikatímum þá stöndum við öll saman og hjálpumst að. Þessi sáttmáli milli einstaklinga innbyrðis og milli einstaklinga og stjórnvalda er óskráður en það vita allir af tilvist hans. Hann er sáttmálinn sem heldur samfélaginu saman og kemur í veg fyrir illdeilur og bræðravíg.
Og þessi sáttmáli krefst þess að Verðtryggingin sé fryst meðan hinar efnahagslegu hamfarir ganga yfir.
Það er ekki val. Þetta er eitt af því sem verður að gerast.
Lítum á forsögu þeirrar stöðu sem núna er uppi í samfélaginu.
Vegna óhóflegs innstreymis erlends lánsfjár þá ríkti eignabóla á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi eignabóla var ekki á ábyrgð unga fólksins heldur á ábyrgð bankanna sem lánuðu því pening og ríkisvaldsins sem leyfði henni að fara úr böndunum. Unga fólkið átti ekki val með að kaupa hús utan bólusvæða því störfin og menntunin var á höfuðborgarsvæðinu. Og það hafði ekki val um hvort það tæki lán með verðtryggingu eður ei.
Vildi það búa á landi feðra sinna og stofna þar fjölskyldu, þá varð það að kaupa húsnæði á þeim kjörum sem bauðst. Hinn valkosturinn var að setjast að erlendis og slíkt er ekki valdkostur fyrir þjóð sem vill vaxa og dafna.
Enda var ekki rætt um hættur efnahagslífsins, það var sagt traust af stjórnvöldum og bönkum og fólk fékk ekki lán nema það stæðist greiðslumat. Og þeir sem vissu að borgin var reist á sandi, bæði innan bankanna og stjórnkerfisins, þögðu um vitneskju sína.
Því er það ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að ungt fólk hafi getað hagað sínum málum á neinn annan hátt en það gerði.
En efnahagslífið stóð ekki á traustum fótum og í ársbyrjun 2008 gerðu bankarnir atlögu að íslensku krónunni með þegjandi samþykki ríkisvaldsins. Þetta gerðu þeir til að fegra sína stöðu en skeyttu engu um hag viðskiptavina sinna, þar á meðal alls þess fólks sem skrifaði undir verðtryggð lán sín í þeirri góðri trú að hlutirnir væru í lagi.
Og það var ekki bara þannig að ríkisvaldið lét þetta áhlaup bankanna viðgangast, heldur þagði það yfir vitneskju sinni um yfir vofandi hrun.
Stjórnvöld rufu sáttmála sinn við unga fólkið í landinu.
Eignir þess féllu í verði á sama tíma og lánin þess hækkuðu. Fólk sem gerði samninga sína í góðri trú út frá eignastöðu sinni og greiðslugetu, var allt í einu orðið eignalaust í þeirri merkingu að virði eigna þess dugði ekki fyrir skuldum. Og þegar áhrif efnahagshamfaranna bætast ofaná þessa stöðu þ. e. atvinnuleysi, tekjumissir eða tekjulækkun og gífurleg hækkun vöruverðs þá ræður þetta unga fólk ekki lengur við sínar skuldir.
Það missir heimili sín ofaná þá óáran sem annars ríkir. Og það er ekki verið að tala um nokkur þúsund einstaklinga í vandræðum, rúmlega helmingur heimila landsins er þegar kominn með neikvæða eiginfjárstöðu og þúsundir eru atvinnulausir og ennþá stærri hópur lifir í stöðugum ótta um að missa vinnu og í kjölfarið allt sitt.
Ef samfélagssáttmálinn helst rofinn og þjóðin neitar að aðstoða þetta unga fólk, þá mun annað að tvennu gerast. Það sem gerðist í Færeyjum þar sem heil kynslóð flutti úr landi eða það sem gerðist í Finnlandi í upphafi tíunda áratugarins en þar varð fátækt landlæg í hópi þess fólks sem missti vinnu og heimili. Félagsleg vandamál, misnotkun áfengis og eiturlyfja, stóraukin sjálfsmorðstíðni, geðræn vandamál, þunglyndi; eða allt það sem fylgir slömmi og útskúfun.
Og börnin lenda á vergang vímaefnaneyslu og afskiptaleysis. Börnin sem eiga að erfa landið.
Þetta er gjaldið ef við trúum stjórnmálamönnum sem aðeins telja sig hafa hagsmuni fjármagnseiganda að verja.
Og þeim má ekki trúa. Þjóðarvá getur aldrei verið valkostur.
Steingrímur Joð Sigfússon kvaðst skilja þennan vanda og vildi geta hjálpað en kvaðst ekki vera töframaður. Þar með misskildi hann hlutverk sitt gjörsamlega. Töframenn skapa ekki peninga en þeir geta skapað sýn á það sem þarf að gera.
Fengið fólk til að trúa því að hið ómögulega sé hægt.
Einu sinni var Steingrímur gæddur þeim töfrum.
En það þarf ekki töfra til. Heldur viljann til að hjálpa þjóð sinni. Hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda.
Faðir, sem horfir uppá alvarlega veikt barn sitt, byrjar ekki að ræða við móðir þess hvort þau hafi efni á að hjálpa barni sínu. Hann reynir að gera það sem þarf að gera, til að barn hans fái hjálp. Kannski er það honum fjárhagslega ofviða, kannski reynist björgin í óséðri framtíð. Skiptir ekki máli. Ef barninu verður ekki bjargað, þá er það ekki þess að hann reyndi ekki.
Hann gerði það sem hann gat.
Það sama áttu stjórnvöld að gera.
Þau áttu að lýsa því strax yfir að fólk héldi heimilum sínum og hefði þar skjól á meðan hamfarirnar gengu yfir.
Það má vera að það sé ekki hægt að bjarga öllum en engan á að afskrifa fyrirfram. Það veit engin hvað óráðin framtíð ber í skauti sér. Og ef öllum er ekki bjargað þá er það ekki vegna þess að viljann hafi skort. Það var eitthvað annað sem brást.
En hvað kostar þetta spyr fólk. Og svarið er það að þetta kostar minna en að bjarga fjármálakerfinu og þetta er peningur sem kemur til greiðslu á löngum tíma því verðtryggðu lánin eru til langs tíma.
Og það kostar miklu meira að aðhafast ekkert eða grípa til ráðstafana sem ekki ná utan um vandann.
Þá fyrst mun þjóðfélagið sjá kostnað. Kostnað sem það hefur ekki efni á því hann verður ekki bara fjárhagslegur, hann verður líka metinn i mannslífum og mannlegum harmleikjum.
En mesti kostnaðurinn er samt sá að rjúfa grunnsáttmála samfélagsins því án hans mun þjóðfélagið aldrei ná sér á strik á ný.
Það verður engin viðreisn án samstöðu og sáttar.
Sú leið að hjálpa einum en hafna öðrum mun aðeins leiða til bræðravíga. Og stjórnvöld munu ekki geta biðlað til þjóðarinnar um stuðning við erfiðar ákvarðanir. Stjórnvöld sem sjálf reyndust ófær um að gera það sem þurfti að gera. Og þau öfl sem þrífast á sundrungu og óánægju munu blómstra.
Loks mun þjóðin skiptast upp í ólíka hópa sem munu berjast sín á milli og engu eira í þeirri baráttu. Slíkt er ætíð afleiðing þess að rjúfa sátt og frið.
Þetta vissi Þorgeir Ljósvetningagoði og þetta vita allir vitrir menn.
En þeir sem telja samning um greiðslu verðbóta á neyðartímum, æðri sjálfum sáttmála þjóðarinnar, nota það sem rök að þjóðin verði að takast á við erfiðleika sína núna en ekki velta byrðum verðtryggingarinnar á skattgreiðendur framtíðarinnar. Þeir sem þessu halda fram eru ekki þeir sem glíma við afleiðingar verðtryggingarinnar og þeir eru ekki að ala upp börn. Þá vissu þeir að börnin okkar vilja frekar halda heimilum sínum og losna við þær afleiðingar sem upplausn fjölskyldna og samfélags hefur í för með sér. Þeirra draumur er ekki að enda sem áfengissjúklingar eða fíkniefnaneytendur.
Þegar þau verða eldri og þekkja sögu þess skuldabréfs sem ríkissjóður gaf út á skattgreiðendur framtíðarinnar til að stuðla að framtíð þeirra og fjölskyldna þeirra, þá munu þau stolt greiða þá milljarða inn í lífeyriskerfið sem þarf til að afar þeirra og ömmur bíði ekki skaða að.
Þeir milljarðar eru lítið gjald fyrir framtíð einnar þjóðar sem setti sér það takmark að engin mundi farast í þeim hörmungum sem yfir dundu. Efnislegar eigur mega glatast en ekki mannslífin og ekki sáttmáli þjóðarinnar um eina þjóð í einu landi þar sem öllum er tryggður réttur til lífs og framtíðar.
Engum má fórna svo aðrir hafi það aðeins betra. Við erum öll á sama bátnum og við munum öll komast af. Græðgin og síngirnin munu þurfa að leita á önnur mið til að finna sér fórnarlömb.
Að halda í heiðri æðsta sáttmála þjóðarinnar er hennar eina lífsvon og í þeim sáttmála er framtíð hennar fólgin.
Þeir sem skilja ekki þessi einföldu sannindi og telja sig hafa vald til að fórna meðbræðrum sínum, þeir eiga ekki erindi í Íslensk stjórnmál.
Því það er ekkert val. Við erum ein þjóð.
Kveðja að austan.
19.12.2012 | 22:44
Það lækar enginn þessa frétt, um kreppujól á Spáni.
En það lækuðu margir fréttina um ummæli utanríkisráðherra Eistlands sem kvað stuðning við ESB vera mikinn meðal þjóðar sinnar.
Ekki ætla ég að draga í efa að maðurinn hafi sagt satt til um það, en hins vegar efast ég alvarlega um veruleikaskyn hans þegar hann sagði umsjónarmanni Spegilsins að ákvarðanataka væri sameiginleg í sambandinu og að smáþjóðir kæmu að málum við ákvarðanatöku. Rödd þeirra heyrðist, þær hefðu áhrif.
Eina skýringin sem mér datt í hug var að maðurinn hefði alist upp í Sovéska kommúnistaflokknum en þar lærðu menn svona rullu utanbókar því að forminu til var Eistland sjálfstætt ríki sem hafi eigin stjórn á sínum málum.
Vera landsins í Sovéska ríkjasambandinu var sjálfstæð ákvörðun því þar var hag þess best borgið. Og þar höfðu smáþjóðir svo sannarlega áhrif á ákvörðunartökuna í Kreml.
Þá urðu menn ungir að læra þessa þulu utanbókar því ef ske kynni að þeir fengju metorð innan flokksins og yrðu sendir erlendis, til dæmis sem ráðherrar hins frjálsa eistneska sovétlýðveldis, að þá urðu þeir að geta flutt þessa þulu án þess að stama, en slíkt er alltaf hættan ef menn þurfa að ljúga miklu upp í opið geð á öðru fólki. Sem glottir þegar það hlustar á fjarstæðuna.
Og samt held ég að það sé minni fjarstæða að smáþjóð hafi haft minni áhrif innan Sovétríkjanna en að Eistar komi nálægt einhverri ákvörðun innan ESB.
Jafnvel Frakkar standa svo illa að þeir hlýða Þjóðverjum möglunarlaust.
En íslenska evrutrúboðið lækar á svona bull, því það vill sjálft trúa að einn fyrir alla og allir fyrir einn gildi í Brussel.
Það lækar hinsvegar ekki á raunveruleikann, á svona frétt um kreppujól.
Um þjóðfélag sem er á heljarþröm vegna evrunnar.
Um mannlegar þjáningar, um mannlega niðurlægingu.
Um brotið samfélag.
Ástandið er ennþá verra í Grikklandi, þetta hefur blaðamaður Wall Street Journal eftir grískum eftirlaunaþega, manni sem upplifði hernám Þjóðverja á sínum tíma, er að upplifa annað hernám í dag.
Hernám evrunnar.
Ég ætla að hafa orð hans sem mín lokaorð í þessu átakabloggi mínu þar sem ég hef fylgst vel með fréttum og látið "hina" röddina heyrast.
Það hefur gengið mjög vel, ég duglegur að blogga, fólk duglegt að lesa, um 750 ip tölur að meðaltali á dag, síðustu viku.
Núna er jólin að koma og ófriðurinn að kominn í jólaskap. Ég hendi kannski inn einhverjum gömlum pistlum um verðtrygginguna, þarf að finna þá og rifja upp hvað ég sagði fyrir 2- 3 árum síðan.
Það hefur kannski einhver gaman að lesa þá ef hann nennir ekki að þurrka af eða skúra gólf, eða annað sem húsbóndinn á heimilinu skipar.
Ég myndi samt þurrka af.
Takk fyrir mig og gleðilegan jólaundirbúning.
Já þetta sagði Grikkinn, sárara og beiskara getur ein lýsing ekki orðið, ekki í byrjun 21. aldar, aldar sem átti að vera upphaf nýrra og betri samfélags, betri heims þar sem mannréttindi og lýðréttindi væru virt.
"No one talks or laughs anymore' on the metro. 'It's like a cemetery,' said Sotirios Tzovaras, a retired civil servant.".
Það hlær enginn lengur í Grikklandi í dag.
Og það er ekkert gleðilegt við það.
Kveðja að austan.
![]() |
Spánverjar herða sultarólina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2012 | 15:28
Er fólk ekki orðið leitt á svona fréttum???
"Lokaaðvörun til Íslands."
"Íslensk stjórnvöld verða að innleiða tilskipun ..." .
Hvernig getur sjálfstætt ríki búið við svona sífelldar hótanir???
Sérstaklega þar sem þær eru síðan notuð sem rök af Evrutrúboðinu um að landið sé hvort sem er ekki sjálfsætt, og því sé það aðeins formsatriði að sækja um.
EES samningurinn var gerður á sínum tíma svo latir útflytjendur þyrfti ekki að leita sér nýrra markaða þar sem vörur þeirra voru ekki tollaðar.
Einhverjar hundruð milljónir voru í húfi, uppfært í dag, einhverjir milljarðar.
Menn gleyma oft að fyrir EES höfðum við fríverslun við Evrópusambandið í gegnum EFTA, aðeins örfáir tollflokkar voru undir, tengdust helst einhverri sérvisku í sjávarútvegi.
Hvað hefur áunnist annað en allsherjar hrun fjármálakerfisins sem má alfarið rekja til heimskulegra reglna ESB um fjármálaviðskipti.
Hvernig halda menn að frjálst flæði fjármagns milli landa gangi upp, þegar ekki er hægt að flytja meir úr landi en þjóð aflar með útflutningi sínum????
Er þetta frjálsa flæði ekki meginskýring á hávaxtastefnu Seðlabankans sem hefur þegar kostað þjóðina hærri upphæðir í gjaldeyrisútstreymi en hinn meinti tollaávinningur af EES samningnum mun skila í 100 ár???
Af hverju spyrja menn ekki svona spurninga??
Vantar vit eða vantar vilja???
Eða eru allir sáttir við þessar lokaaðvaranir???
Kveðja að austan.
![]() |
Lokaaðvörun til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2012 | 14:02
Enda ekki góðu vanir.
Það er aumt að Evróputrúboðið finni ekki aðra til að dásama sælu ESB aðildar en útkjálkaríki sem þekkja fátt annað en aðra sælu, sælu Sovétsins.
Þegar búið er að drepa alla döngun úr fólki, þá er gott að komast í náðarfaðm aumingjastyrkja, að telja það rök að fá styrki úr sameiginlegum sjóðum sambandsins.
Og innri markaðurinn hefur reynst ákveðnum þjóðfélagshópi Eystrasaltsríkjanna mjög vel, en vekur minni hrifningu þar sem þessi hópur ber niður.
Af hverju er enginn fenginn frá þeim löndum sem lent hafa illa út úr evrukreppunni, af hverju er fenginn frá löndum þar sem fylgi við ESB er í sögulegu lágmarki??
Nú þegar í upphafi evrukreppunnar sem enginn sér fyrir endann á.
Bata er spáð, ef hann verður, í fyrsta lagi 2015, raunsærri spár gera ráð fyrir 2018, raunsæ spá spáir ekki bata, Evrópa er föst í ónýtum miðstýrðum gjaldmiðli og alla hagvísitölur eru á fallandi fæti.
Hvernig verður stuðningurinn við ESB þegar kreppan verður farin að bíta, þegar hinn stöðugi niðurskurður markar allt mannlíf. Þegar síðasta ungmennið verður án vinnu????
Það er fokið í flest skjól þegar eini stuðningurinn mælist á landsbyggð í landi sem þekkir ekkert annað en kúgun og arðrán, fyrst undir stjórn Rússakeisara, síðan undir stjórn Stalíns, það þarf ekki mikið jákvætt svo samanburðurinn komi jákvætt út.
En Eistar höfðu það einu sinni gott, það var þegar þeir voru sjálfstæð þjóða á millistríðsárunum, í um 30 ár. Þá báru þeir sjálfir ábyrgð á örlögum sínum, voru ekki styrkþegar eða í því hlutverk að útvega ríkari þjóðum ódýrt vinnuafl.
Þeir voru sínir gæfusmiðir, og uppskáru gæfu.
Þeir höfðu annan metnað en að vera láglaunavinnuafl undir stjórn herravalds.
Og ég er viss um að það sé ekki einu sinni að marka skoðanakannanir sem sýna hinn jákvæða stuðning, menn fengu ekki styrkinn nema vera tölfræðilega jákvæðir.
Þessi stuðningur er tölfræðileg jákvæðni, ekki raunveruleg.
Því það er ekkert jákvætt við það að eiga allt sitt undir brauðmolum úr hendi hins ríka.
Ef svo væri þá hefði alþýða Evrópu ekki gert uppreisn gegn því þjóðskipulagi.
Og hún mun rísa aftur upp ef svo fer sem horfir.
Því við erum frjáls, fæddumst frjáls, og munum deyja frjáls.
Það má hið skítuga fjármagn vita.
Kveðja að austan.
![]() |
Sáu kostina við aðildina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2012 | 10:08
Rökrétt niðurstaða að hækka lánshæfiseinkunn Grikkja.
Bæði eru þeir búnir að endursemja um hluta skulda sinna, fengu eitthvað afskrifað, sem og hitt, evrópski seðlabankinn ætlar að borga restina.
Evrópski seðlabankinn hefur gefið það út að hann ætli að kaupa skuldabréf ríkja sem geta ekki greitt sínar skuldir sjálf, og þar með ættu kröfuhafar að geta andað rólega.
Þar með er ljóst að viðkomandi ríki eru ekki sjálfstæð lengur, ekki í fjármálalegu tilliti og sá sem stjórnar ekki sínum fjármálum, er háður þeim sem það gerir, verður að lúta vilja hans í öðrum málum.
Evran var sem sagt 10 ár að gera það sem skriðdrekum mistókst á 5 árum.
Svo gera menn grín að pappírspeningum, að þeir séu ekki verðmæti eins og gull. En þeir eru sterkari en stál ef það tekst að pranga þeim inná þjóðir og fá þær til að afsala sér sínum eigin gjaldmiðli.
Eftir stendur sú spurning, af hverju var þetta ekki gert strax.
Af hverju þurfti að beygja grísku þjóðina í duftið með tilheyrandi hörmungum fyrir grískan almenning.
Lærðu menn ekkert af Auswitch??? Eru útrýmingarbúðir leyfilegar ef menn sleppa gasinu en setja þess í stað heila þjóð í slíkar aðstæður. Er hægfara útrýming mannlífs leyfileg ef gerandinn er gráðugt siðlaust fjármagn??? Er slíkt aðeins bannað ef menn ganga gæsagang og segja Heil????
Vita menn ekki að gasið var endastöð, að Auswitch hófst ekki þegar búðirnar voru reistar 1940??
Auswitch átti sér sitt upphaf, þegar hópur fólks taldi sig hafa rétt til að níðast á öðrum hópi og hlaut til þess samþykki heillar þjóðar. Auswitch var endastöð ferlis sem hófst 1933 með ofsóknum, kúgunum, eyðingu mannlífs.
Og Auswitch var endastöð vegna þess að annað fólk þagði, gerði ekkert, leit bara undan.
Auswitch átti sér sína byrjun, og ef við sleppum hinum brotnu gluggum kristalnæturinnar, þá sjáum við sama ferlið og á sér stað í Grikklandi í dag. Grískur almenningur er hæddur, hann er sagður spilltur, gefið í skyn að þarna sé "óæðri" menning, að fólk eigi þetta skilið á einhvern hátt.
Það þarf ekki mikla söguþekkingu til að vita að allt þetta hefur verið sagt áður.
Og þeir sem vörðu við á þeim tíma, sögðu að ofsóknirnar væru aðeins upphaf af einhverju ennþá hörmulegra, að illskan léti ekki staðar numið fyrr en hún væri komin á endastöð, þeir voru líka hæddir og fordæmdir, fyrir að skilja ekki að þetta væri allt "eðlileg afleiðing" af framkomu og atferli hinna óæðri, að valdið væri aðeins að gera það sem það þyrfti að gera. Og mætti gera.
Þeir voru ekki hæddir og fordæmdir af gerendum óhæfuverkanna, þeir áttu nóg með sínar ofsóknir og undirbúning frekari óhæfuverka, nei, það voru þeir sem litu undan sem hrópuðu hæst.
Alveg eins og í dag, það voru þeir sem litu undan því í hjarta sínum voru þeir sammála ofsóknunum, sáu ekkert rangt við að öðrum væri gert illt í nafni einhvers isma eða hugmyndafræði.
Það einkennir nefnilega þá sem styðja isma, þeir vilja öðrum illt, annars væru þeir ekki sífellt að styðja illvirkin, að styðja aðfarir að saklausu fólki sem hefur ekki gert þeim neitt.
Næst þegar við heyrum einhvern réttlæta herferð Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á hendur saklausu fólki, með tilvísun í spillingu, að fórnarlömbin eigi taksteríngarnar skilið vegna eigin vanhæfis, erfðagalla eða annað sem evrutrúboðið á Íslandi notar til að réttlæta óhæfuna, munum þá að fyrir innan dragtina eða jakkafötin býr spillt sál, illgjörn, sál sem finnur ekki til með öðru fólki, er sama þó fjármagnið leiki það grátt.
Munum að allt á sitt upphaf, og í því upphafi mátti spá fyrir endalokin.
Auswitch átti sitt upphaf sem var afskiptaleysi gagnvart kúgun og ofríki valds gegn ákveðnum hópi. Það var í upphafinu sem hægt var að stöðva Auswitch, það var of seint þegar fyrsti gasklefinn var byggður.
Í dag erum við vitni að öðru upphafi sem mun enda með ósköpum því illskan lætur ekki stöðvast fyrr en á endastöð.
Endastöð illskunnar er þegar hún er stöðvuð með valdi. Hún stöðvar sig ekki sjálf, hún á sér ekki takmörk.
Það er rangt að níðast á heilli þjóð vegna vanhæfni stjórnenda hennar. Þjóð í fjárhagserfiðleikum á að hjálpa, ekki kúga, ekki ræna, ekki svipta hana tilverugrundvelli sínum.
Evrópusambandið afhjúpaði sig þegar það beitti íslenskan almenning fjárkúgunina kennda við ICEsave. Afhjúpaði sig sem verkfæri siðblindra manna sem bera enga virðingu fyrir lífi og tilverugrundvelli fólks.
Aðfarir sambandsins í Grikklandi koma því ekki á óvart, og það kemur ennþá minna á óvart að íslenskir stuðningsmenn ICEsave fjárkúgunarinnar tali sífellt um spillinguna og vanhæfnina sem átti að hafa verið til staðar í Grikklandi. Þeir réttlæta aðförina að grísku mannlífi, eru ónæmir fyrir þjáningum hins venjulega Grikkja.
Enda vildu þeir íslensku þjóðinni sömu örlög.
Sagan þekkir þetta fólk.
Þegar skriðdrekar Stalíns eða Hitlers lögðu undir sig ríki, þá mætti það alltaf til að leggja hinu erlenda valdi lið við að ofsækja og níðast á náunganum, samborgurum sínum. Sagðist gera það í nafni hugsjóna en í raun þjónaði það aðeins sínu innræti.
Það þarf mjög sérstakt innræti til að styðja fjárkúgun gegn sinu eigin landi. Það þarf mjög sérstakt innræti til að hlakka yfir þjáningum grísks almennings.
Innræti sem hefur alltaf komið þessu fólki á spjöld sögunnar.
Í spjaldskrá sem enginn hampar seinna meir.
Þessi pistill fór út um víðan völl, átti að vera stuttur, en spurningin sem spurð var í upphafi hans kveikti þessar hugrenningar sem á eftir fylgdu.
Því stjórnmál í dag eru sögð snúast um fjármál, efnahagsmál, að þetta verði að vera svona eða hins veginn, það þurfi verðtryggingu, niðurskurð, lækka laun þeirra sem lág laun hafa fyrir, svo gangverkið, hið alþjóðlega hagkerfi gangi.
En þetta er röng nálgun, þau snúast ekki tæknilega nálgun efnahagslegra vandamála, þau snúast um hvað máttu gera öðrum í nafni einhvers, nafni einhverra hagsmuna, í nafni einhverra stjórnmálaskoðana.
Og þegar menn gera öðrum það sem þeir vilja ekki að þeim sé sjálfum gert, þá eru þeir á rangri braut.
Rangri braut sem á sér aðeins eina endastöð, að þeir sem vita að það má ekki gera náunganum hvað sem er, þó það sé réttlætt með einhverri nauðsyn, stöðva hina röngu vegferð.
Rangur verknaður leiðir alltaf til einhvers verri.
Við þekkjum hvernig síðustu vegferð illskunnar lauk.
Látum hana ekki endurtaka sig.
Stöðvum hana í tíma.
Við verðum að stöðva hana í tíma.
Það er svo mikið í húfi.
Sjálf framtíð barna okkar.
Við eigum öll líf sem þarf að vernda.
Kveðja að austan.
![]() |
Hækka lánshæfiseinkunn Grikkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.12.2012 | 07:01
Lítil frétt um litla karla í erfiðleikum.
Afhjúpar veruleikafirringu smáþjóðar sem ræðst á höndina sem fæðir hana.
Smærri gerast atvinnurekendur ekki en í trilluútgerð þar sem grásleppan hefur verið bjargræðið hjá mörgum á tímum þar sem hinum smáa er bannað að sækja björg í bú sökum hættu á ofveiði sem skaðar mjög veiðigetu fljótandi iðjuvera sem kallaðir eru frystitogarar.
Á vísan er ekki að róa, grásleppan lætur stundum ekki sjá sig og þegar hún veiðist, þá vill hún oft seljast illa. Þó var lagt af stað fyrir síðustu vertíð með ágætis væntingar sem ballest en það gekk ekki eftir.
Grásleppan selst illa.
"Selst illa" hljómar um allan sjávarútveginn.
Og hvernig bregst 101 Reykjavík við, hagkerfi innflutnings og eyðslu???
Jú út frá meintum hagnaði fyrri ára er lagður á ofurskattur á þessar slæmu söluhorfur.
Gerist firringin meir, er heimskan algjör???
Er sjálfskaparvíti þjóðarinnar algjört???
Ég spyr.
Kveðja að austan.
![]() |
Grásleppukarlar leituðu til Bjargráðasjóðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.10.): 0
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 1410
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1206
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar