29.1.2013 | 14:39
Hugleiðing um Ábyrgð
Hver er ábyrgð fólks sem miskunnarlaust leggur líf almennings í rúst með kaldrifjuðu samstarfi við yfirböðla hins venjulega manns, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Og hver er ábyrgð fólks, sem á einni nóttu gleymdi öllu sem það hafði sagt frá upphafi síns pólitíska ferils, og tók upp tungutak Nýfrjálshyggju og mannhaturs????
Og sveik um leið hugsjónir sínar og lífsskoðanir.
Og ef maður kafar ennþá dýpra í hugtakið ábyrgð og spyr sig um ábyrgð þeirra sem leggja skuldahelsi auðmanna á komandi kynslóðir, hvað svar fær maður þá?
Hver verður þeirra dómur þegar þeir standa naktir fyrir hinum æðsta dómi, hvernig munu þeir geta varið gjörðir sínar??
Jakobína Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur og ötull baráttumaður Andstöðunnar, skrifaði grein í Morgunblaðið 19. nóvember 2008. Þar fjallaði hún meðal annars um ábyrgð, og spurði hver gæti sett lög sem kvæðu á um ábyrgð barna hennar á viðskiptum breska og hollenskra sparifjáreiganda við banka í heimalandi þeirra??? Hver er ábyrgð þeirra sem slíkt gera????
Hvernig er hægt að finna saklausan aðila, sem gat ekki haft nein áhrif á þessi viðskipti, og láta hann bera tjónið af frjálsum og óþvinguðum viðskipum þessara aðila???
En grein Jakobínu er tær snilld, og hana ættu allir að lesa, og spyrja síðan stuðningsmenn Samfylkingarinnar og VinstriGrænna, sem til dæmis komu úr röðum uppeldisstétta, hvernig getið þið gert saklausum börnum þetta???? Hvað þarf siðleysið að vera yfirgengilegt, til þess að þið rumskið og segið "Við gerum ekki svona"?
En gefum Jakobína orðið, feitletranirnar eru mínar.
Annað orð sem ég vil ræða hér og hefur fengið undarlega merkingu í munni ráðamanna er orðið ábyrgð. Merking orðsins verður ekki til í einangrun heldur verður merking þess til við gefnar forsendur.
Sá sem ber ábyrgð þarf að hafa vald, valkosti og upplýsingar eða aðgang að þeim fyrirbærum sem gefa tilefni til ábyrgðar.
Hollendingurinn sem lagði inn fjármuni á reikninga Icesave gerði það með það í huga að fá góða ávöxtun. Hafi vextirnir verið hærri en stýrivextir í Hollandi þýðir það að Hollendingurinn var að fá greitt fyrir að taka áhættu.
Þegar Hollendingurinn ákveður að eiga viðskipti við Icesave hefur hann vald, valkosti og getur leitað sér upplýsinga um öryggi fjárfestingarinnar og regluverkið í kringum Icesave-reikninga. Bæjarfélög í Hollandi eru að sýsla með almannafé og ábyrgð þeirra liggur m.a. í því að velja þeim trygga geymslu og ávöxtun. Þessi rök gilda einnig um Landsbankann, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnina. Þessir aðilar hafa vald, valkosti og upplýsingar.
En hvað með börnin mín, hafa þau völd, valkosti og upplýsingar í þessu samhengi? Vissu þau að Hollendingurinn var að fara að gera vonda fjárfestingu og höfðu þau þann valkost eða vald til þess að stöðva hann? Nei. Af hverju bera þau þá ábyrgð? Hvers vegna eru þau bótaskyld?
Hvert sækir þessi furðulega hugmynd um ábyrgð barna minna lögmæti sitt? Jú, stjórnvöld hafa ákveðið að taka þetta fyrirbæri, þ.e.a.s. börnin mín og Hollendinginn sem vildi góða ávöxtun, og troða þeim inn í regluverk. Þetta regluverk skapar réttlæti sem engin fordæmi eru fyrir.
Hvað þýðir þetta fyrir börnin okkar? Geta atburðir verið að gerast hvar sem er í heiminum og þau dregin til ábyrgðar með því að spyrða þau við atburðinn í regluverki?
Með því að gefa þessari framkvæmd réttmæti er verið að skapa samfélag meðal þjóðanna þar sem einstaklingar eru rúnir allri vernd. Sakleysið er svívirt.
Sjálf mennskan er í húfi og allt það fólk sem styður þessa svívirðu, hefur gefið frá sér hluta af mennsku sinni. Og þar með látið frá sér sina dýrmætustu eign.
Og kannski er sú afmennska stærsti glæpur ICEsave málsins. Svo margt gott fólk hefur kastað sér fyrir björg æruleysisins við að ganga erinda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gegn þjóð okkar.
Einfaldara hefði verið að biðja Óbermin að yfirgefa landið.
Það þurftu bara að segja "bless, sjáumst aldrei aftur".
Og staðið eftir sem heilar manneskjur.
Kveðja að austan.
(Pistill frá 29.1109, á við þegar menn frýja sig ábyrgð)
![]() |
Stærstu mistökin að leyfa Icesave-málinu að verða til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.1.2013 | 09:04
Fölsk söguskýring.
Ekki ætla ég að draga úr alvöru málsins þegar íslensk stjórnvöld sættu fordæmalausri árás fjármálaafla haustið 2008.
Ég dreg orð Geirs Harde í efa þegar hann lýsir þeim þrýstingi sem ríkistjórn Íslands sætti af hálfu glæpalýðs sem gisti þá æðstu embætti Evrópusambandsins og beittu fyrir sig bresku og hollensku stjórnvöldum.
Við þurfum ekki annað en að skoða rústir Grikklands til að skilja að mikill illvilji og ómennska réði ríkjum í Brussel, og ræður enn.
Aðeins lítilmenni ráðast á smáþjóðir þegar þær standa höllum fæti vegna hamfara, vitna í Michael Hudsons; "undir stjórn manna sem dytti aldrei í hug að leggja slíkar byrðar á eigin þegna. Um leið og þessar þjóðir lækka skatta og auka á fjarlagahallann reyna þær að kúga peninga út úr smærri og veikburða þjóðum".
En réttlæting Geirs er röng. Honum bar skylda til að verja þjóð sína með öllum tiltækum ráðum réttarsamfélagsins, aðeins ósigur gat bundið endi á það ferli, ekki fyrirfram uppgjöf. Og þetta veit Geir, og í stað þess að játa, og segja að sér þyki það leitt, þá reynir hann hina alþekktu leið stjórnmálamannsins, að hagræða sannleikanum.
"Hvers vegna var ekki farið með málið fyrir dóm á þessum tíma? Við gátum ekki gert það. Þeir, sem gerðu kröfur á okkur, hefðu þurft að eiga frumkvæðið að því".
Hver vitiborinn maður veit að þegar ráðist er á hann með kúgun og ofbeldi, þá er það ekki sjálfdæmi ofbeldismannsins sem ákveður hvort hann verði látinn sæta ábyrgð gjörða sinna.
Það er lög og réttur sem ákveða það.
Alþjóðasamfélagið lærði af síðasta yfirgangi alræðisins. Í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna má lesa þessa klausu.
" Article 39. The Security Council shall determine the existence of any threat to the peace, breach of the peace, or act of aggression and shall make recommendations, or decide what measures shall be taken in accordance with Articles 41 and 42, to maintain or restore international peace and security.[6]"".
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er til að taka á þeirri hegðun sem Geir lýsir.
Í stofnsáttamála Nató er líka klausa sem segir að árás á eitt aðildarríki er árás á öll. Ísland er stofnaðili Nató, íslensk stjórnvöld gátu krafist neyðarfundar þar sem Geir hefði haldið ræðu um þann raunveruleika sem við blasti íslenskum stjórnvöldum, jafnvel með þeim orðum sem hann notar í dag í viðtölum við fjölmiðlamenn.
Hann gat vitnað í bresk lög sem banna skýrt fjárkúgun, hann gat vitnað í EES samninginn, hann gat vitnað í lög og reglur Evrópusambandsins.
Hann gat gert allt nema gefist upp.
Því eins og Margrét Tatcher sagði þá er ein uppgjöf aðeins ávísun á nýja kúgun. Og hún neitaði að láta undan kúgurum þess tíma, hryðjuverkamönnum sem rændu flugvélum, fengu lausnargjald og héldu svo áfram og rændu þeirri næstu, og þeirri næstu. Eða alveg þar til Margrét sagði Nei. Síðan hefur enginn kúgari rænt flugvél.
Geir ber það fyrir sig að í EES samningnum er ekki gert ráð fyrir þeirri uppákomu að ESB ríki fari með ofríki og lögleysu á hendur EFTA þjóð. Eins og það glæpur eigi að viðgangast ef nákvæm útfærsla á honum er ekki tilgreind í lagatexta.
Mátti kúgari til dæmis dreifa blásýru í neðanjarðarlestarkerfi Tokyo borgar vegna þess að engum hafði dottið í hug að orða kúgun hans í lagatexta???
Svarið er auðvita Nei, og sama svar gilti gagnvart kúgun breta og ESB, Nei.
Ef þessir aðilar hefðu beitt áhrifum sínum í þá veru að EFTA dómur hefði ekki þorað að koma saman, vegna formgalla, þá var málið sjálfdautt. Krafa án fullnustu dóms er alltaf fjárkúgun.
Og samkvæmt breskum lögum voru bresk stjórnvöld sek um glæp. Og það átti að lögsækja þau.
Málið er að menn verjast alræði.
Þegar hinn siðaði maður skyldi það loks í sept 1939, þá hafði hann þegar næstum tapað styrjöldinni við illskuöflin því svo margir höfðu gefist upp fyrir kúgun og hótunum, kúgarinn fitnaði, siðmenningin tapaði.
Látum ekki þá sögu endurtaka sig.
Reynum aldrei að réttlæta uppgjöf fyrir kúgun og ofbeldi.
Gefist menn upp þá er það vegna þess að menn gáfust upp, ekki vegna þess að þeir þurftu þess.
Munum það,.
Gleymum því aldrei.
Kveðja að austan.
![]() |
Vildi fara með málið fyrir dóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.1.2013 | 06:44
Þjóðarvörn.
Er rétt heiti á þeirri frétt að EFTA dómurinn hafi kveðið upp lögfræðilegan dóm en ekki pólitískan.
Það var vörn þjóðarinnar sem skilaði þessum áfangasigri, því stríðinu er ekki lokið.
Og sönnun þess eru vörn þeirra sem sviku þjóð sína á ögurstund hennar.
Nú á að fagna, ekki leita sökudólga, segir sökudólgur númer eitt sem beitt öllu sínu pólitíska afli og öllum sínum pólitískum trúverðugleika, sem var þá töluverður, til að fá óséðan Svavarssamning samþykktan innan ríkisstjórnar, og á Alþingi.
Engin auðmýkt, engin afsökun, enginn lærdómur.
Enda til hvers ætti það að vera, þessi atlaga að þjóðinni mistókst, en það er langt síðan að sú næsta var hömruð.
Evruskuldabréfið, yfir 1.000 milljarðar, verður látið falla eftir næstu kosningar. "Gjöreyðing efnahagslífsins" blasir við þjóðinni, vogunarsjóðirnir eru langtum meiri ógn en ICEsave var nokkurn tímann.
Og þegar viðbrögð valdaklíkunnar við ICEsave dómnum er íhuguð, þá læðist að mér sá grunur að ICEsave ferlið allt hafi verið rekið svona klaufalega til að halda þjóðinni upptekinni frá hinni raunverulegri ógn.
Vogunarsjóðunum.
Ég er ekki að tala um meint axarsköft og afglöp þeirra Jóhönnu og Steingríms, heldur um það fólk sem stendur þeim að baki og hefur tengslin við hið myrka afl fjármálamafíunnar. Að Steingrími og Jóhönnu hafi verið att út í foræðið, og þurfti ekki mikið til, af þeim sem höfðu meiri hagsmuni að gæta en þá að bretar gætu fjárkúgað landsmenn.
Hvarflar að mér en skiptir ekki öllu máli.
Það sem skiptir máli er sú einfalda spurning; Hvaða þjóð sameinast um glæpalýð???
Áttu Norðmenn að fagna með Kvisling þegar Þjóðverjar voru hraktir úr landi. Endurreisa aftur ríkisstjórn þeirra sem sviku þjóð sína á ögurstundu þegar erlent ógnarvald sótti að þeim????
Varnarræða Jóhönnu í Ruv í gær hefur verið flutt áður, aðeins meir syngjandi, en næstum sömu orðin.
"Hvað áttum við að gera? Alþjóðasamfélagið þrýsti á okkur, við gátum ekki varið okkur, við gátum ekkert gert annað en gefist upp!"
En sleppt því að minnast á hið raunverulega, að þau hefðu ekki haft kjark til að verja þjóðina, og haldin slíkri valdagræðgi að þau viku ekki fyrir fólki með manndóm, að þá var ekkert sem réttlæti beinan stuðning þeirra við hið erlenda vald sem réðist á þjóðina.
Kvisling og félagar voru ekki réttaðir fyrir uppgjöfina eða aumingjaskapinn, þeir voru réttaðir fyrir samvinnuna.
Og það sama þarf að gerast hér á Íslandi.
Það verður engin þjóðarsátt fyrr en fólkið sem sveik, axlar ábyrgð á gjörðum sínum.
Sú ábyrgð er ekki að segja af sér, það dugði ekki Kvisling, heldur að mæta réttarkerfi þjóðarinnar og verja mál sitt þar gagnvart þeim lagargreinum sem banna hegðun þeirra.
Aðeins að uppkveðnum dóm er hægt að sættast, er hægt að fyrirgefa.
En aðeins heimsk þjóð lætur illvirkja halda áfram illvirkjum sínum.
Það er ekki til alvarlegri glæpur en að selja náungann í þrældóm.
Hvað þá að selja þjóð sína.
Salan til breta mistókst.
Salan til vogunarsjóðanna hefur verið handsöluð.
Og þjóðin verður afhend í þrælabúðir þeirra eftir kosningar.
Ég fagna því ekki.
Kveðja að austan.
![]() |
Þjóðarsigur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2013 | 21:10
Lífsháskinn.
Hér á þessu bloggi hefur aftur og aftur verið minnst á þann háska sem blasir við þjóðinni.
Ég hef vitnað í önnur orð sem hugsanlega yrði meir tekið mark á en orðum mínum.
Vandamálið sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir er að landið framleiðir ekki nægan gjaldeyri til að standa undir skuldbindingum gagnvart erlendum kröfuhöfum og jöklabréfaeigendum. Skuldbindingarnar nema í dag um 1.200 milljörðum króna og við eigum ekki gjaldeyri til að mæta þeim. Gjaldeyrisforðinn (sem er tekinn að láni) og jákvæður viðskiptajöfnuður standa sennilega undir greiðslum sem tengjast afborgunum af erlendum lánum atvinnulífsins og opinberra aðila næstu ár en rétt svo. Til að borga kröfuhöfum þyrftum við að hafa í handraðanum á næstu árum um 1.200 milljarða króna aukalega í erlendum gjaldeyri. Við þá upphæð bætast síðan árlega um 70 milljarða vextir og arður af hlutbréfum í bönkunum. Upphæðin fer því hækkandi eftir því sem tíminn líður bak við gjaldeyrishöft.". (Tryggvi Þór Herbertsson - Að steðjar vá.)
Við erum að ræða um gjöreyðingu efnahagslífsins svo ég vitni áfram í Tryggva.
Og sú eyðing mun eiga sér stað eftir kosningar ef þjóðin iðkar áfram það sem hún kann best, að verja ekki sig og sína.
Ég hef oft og iðurlega bloggað um verðtrygginguna og illu áhrif sem hún hefur á samfélag okkar, ásamt því að stórskaða allt efnahagslífið.
Hún er ræningjatæki sem ein og sér hefur stolið yfir 400 milljörðum frá Hruni, úr vasa almennings í vasa fjármálamafíunnar. Hún blóðmjólkar samfélagið og á sér enga efnahagslega réttlætingu.
Ég hef vitnað í okkar mætasta þingmann, Lilju Mósesdóttur, og haft þessi orð eftir henni.
"Við munum ekki komast upp úr kreppuhjólförunum og losna við gjaldeyrishöftin nema skrifa varanlega niður skuldir heimila og fyrirtæka og þar með eignir aflandskrónueigenda og kröfuhafa. ".
Þessar ógnir ásamt tilraunum stjórnvalda til að láta þjóðina borga skuldir einkabanka eru hluti af árás fjármálamafíunnar á landið eftir Hrun.
Árás sem hagfræðingurinn Michael Hudsson lýsti með þessum orðum.
""Ísland hefur orðið fyrir árás - ekki hernaðarárás, heldur fjármálaárás. Afleiðingarnar eru jafn banvænar þrátt fyrir það. Fleiri verða veikir, lifa í örvæntingu og deyja fyrir aldur fram ef þjóðin neitar ekki að greiða til baka megnið af þeim lánum sem prangað hefur verið inn á hana á síðustu átta árum. En leiðin til bjargar er þyrnum stráð. Voldugir skuldunautar á borð við Bandaríkin og Bretland munu siga áróðursmeisturum sínum, sem og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum á Íslendinga og krefjast þess að þeir verði hnepptir í skuldafangelsi með því að þvinga þá til að greiða skuldir sem þessar þjóðir myndu aldrei greiða sjálfar."."
Betur hefur lífsháski þjóðarinnar ekki verið orðaður.
Og örlögin sem bíða hennar.
"Lausn nýfrjálshyggjunnar á þessu vandamáli er að selja eignir með gríðarlegum afföllum til alþjóðlegra arðræningja og brjóta niður félagslegt kerfi þjóða, einmitt þegar þær þurfa mest á því að halda.
Markmið þeirra er að tryggja völd sín í samfélaginu. Umfram allt vilja þeir hámarka vald skulda umfram verðmætasköpun. Þess vegna er verðtrygging lána notuð til að tryggja að bankarnir hagnist á hruni efnahagslífsins, en ekki almenningur, sem greiða þarf jafnt skuldirnar sem og kostnaðinn af hækkandi verðlagi og hruni krónunnar. ..... Því verra sem efnahagsástandið er, því sterkari eru lánveitendurnir. Þetta er ávísun á efnahagslegt sjálfsmorð þar sem dýpkandi kreppa hneppir æ fleiri í skuldafangelsi." ".
Allt þetta hef ég sagt með mínum orðum og fært rök fyrir að ógnarvald standi að baki. Ógnarvald sem vílar sér ekki fyrir að eyðileggja samfélög og þjóðir í þágu gróða síns og auðs.
Ógnarvald sem herjar á Vesturlönd, og í raun heiminn allan.
Ógnarvald sem þegar hefur valdið hungursneyð í hluta Evrópu þannig að hjálparstofnanir mega hafa sig allar við að halda lífi í fátæku fólki.
Ógnarvald sem hefur ráðist á innviði samfélaga, stuðlað af atvinnuleysi, hrakið fólk á flótta frá löndum sínum.
Það sjúkasta við þetta ógnarvald er að við erum samdauna hugmyndafræði þess.
Við tölum um alþjóðavæðingu þegar í raun er um taumlausa gróðahyggju sem byggist á arðráni og kúgun fátækari þjóða, og um leið afleggingu framleiðslu Vesturlanda því engin heilbrigð atvinnustarfsemi getur keppt við samnefnara hins lægsta. Verksmiðja án öryggisbúnaðar, brunavarnar, þar sem fólk vinnur fyrir hungurlaunum langan vinnudag án þess að njóta nokkurra félagslegra réttinda.
Það keppir enginn við þrælahald, menn útrýma því. Nema í dag, við köllum það alþjóðavæðingu.
Önnur birtingarmynd þessa sjúkleika er umræðan í dag eftir ICEsave sýknu EFTA dómsins.
Sýknan er lagatæknileg og fyrirfram sögðust lögspekingar ekki geta spáð fyrir um niðurstöðu dómsins.
Enginn kom með þau rök að ESB hefði ekki þann rétt að setja almenning í ábyrgðir fyrir einkabanka. Hvorki siðferðislega né samkvæmt þeim mannréttindum sem þjóðir heims hafa fest í löggjöf sínar og alþjóðasáttmála.
Enginn.
Enginn minntist á að ESB hefði ekki réttarheimild til að ákveða innlánstryggingar með ríkisábyrgð, þar geta menn lagt það til, en lagasetningin er í höndum þjóðþinga EES ríkjanna.
Og enginn talar um það í dag þegar sigurinn mikli vannst. Aðeins lagatæknileg rök, og jafnvel það sjónarmið að það hafi verið tæpt.
Siðferðislegar forsendur um hvað má og hvað má ekki, eru horfnar úr umræðunni.
Valdið virðist mega allt, bara ef það setur lögin áður en það níðist á fólki.
Þetta er hið alvarlega í málinu, þetta er lífsháskinn sem Vesturlönd glíma við.
Þennan lífsháska hafa menn ekki séð í um 80 ár, frá því að alræðisstjórnir Hitlers og Stalíns drottnuðu yfir stórum hluta Evrópu.
Þá var fólk samdauna og leyfði illskunni að vaxa og dafna án þess að grípa inní.
Og við vitum hvernig sú saga endaði.
Með átökum og hörmungum.
Á þetta hef ég bent í pistlum mínum, og því miður er ég að sjá spár mínar rætast.
Það snýst enginn gegn vogunarsjóðunum því hið þegjandi vald er í vasa þeirra.
Og Rauði Krossinn hefur þegar varað við átökum og óeirðum í Evrópu.
Samskonar aðvörun og var gefin áður en allt spratt í loft upp í Arabaheiminum.
Enda ekki gefin út í loftið, á bak við þessi orð "að Evrópa þurfi þess vegna að búa sig undir uppreisnir, eins og þær sem skekið hafa Norður-Afríku" eru ábendingar og mat þúsunda tengla Alþjóðaráðsins sem meta ástandið á þennan hátt.
Alvara lífsins blasir við okkur og við þegjum, við gerum ekki neitt.
Annað en að muldra og kvarta og nýta sundrunguna sem okkar eina vopn gegn ógnaraflinu.
Það er eins og staðreyndir eða raunveruleiki sé fólki almennt ofviða.
Við horfum á ógnaröflin eyðileggja framtíð barna okkar..
Og við þegjum.
En það þegja ekki allir.
Stund sannleikans er runnin upp.
Ekki hjá mörgum.
En fleiri en einum, fleiri en tveimur.
Og þeim mun aðeins fjölga.
Kveðja að austan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.1.2013 | 20:19
Maðurinn sem á æðstan heiður skilið.
Er Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands.
Hann, ásamt félaga sínum, Lárusi Blöndal hæstaréttarlögmanni, sem líka á æðstan heiður skilið, risu upp gegn lygum valdaelítunnar sem hafði breitt út þann orðróm að þjóðin yrði að borga vegna þjóðréttarskuldbindinga sinna, það er EES samningsins, og mótmæltu þeirri sögn að tilskipun ESB um innstæðutryggingar innfæli ábyrgð ríkisins ef allsherjar bankahrun yrði.
Þeir voru hæddir, svívirtir, gert lítið úr þeim af lélegum lögfræðingum í Kastljósi eða Speglinum, fengu sjálfir aldrei færi á að útskýra rök sín fyrir þjóðinni.
Því þjóðin les ekki greinar, hún trúir lygum Ruv.
Það var bloggheimurinn, netheimurinn sem hélt orðum Stefáns og Lárusar lifandi, og smán saman náðu rök þeirra í gegn.
Og þeim stjórnmálamönnum sem lugu beint um greiðsluskyldu þjóðarinnar fækkaði, þó Steingrímur og Jóhanna hafi varið málstað breta fram á síðasta dag.
Vendipunkturinn var líklegast þegar Sigurður Líndal kom þeim til varnar þegar honum ofbauð skrif Jóns Baldvins Hannibalssonar um þá félaga og rassskellti Jón opinberlega í grein sem hét Úr þrasheimi stjórnmálamanns. Orð hans um Jón Baldvin ná kjarna málsins og eiga allt eins við önnur handbendi breta, sem notuðu stöðu sína og áhrif til að blekkja þjóðina til fylgist við ICEsave fjárkúgunina.
"En Jón Baldvin hefur kosið að taka sér stöðu með harsvíruðustu öflum í Bretlandi, með Brown forsætisráðherra og Darling fjármálaráðherra í fremstu röð, sem láta einskis ófreistað að knésetja íslenzku þjóðina. Og þetta gerir hann af slíkum ákafa að hann skirrist ekki við að styðja mál sitt við uppspuna og ósannindi málstað þeirra til stuðnings. Hér verður að hafa í huga að maðurinn er fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands og sendiherra sem hafði þá æðstu starfsskyldu að gæta hagsmuna Íslands. ".
Uppspuni og ósannindi einkenndi málflutning íslenskra stjórnvalda.
Á þetta bentu Stefán og Lárus í eftirminnilegustu grein sinni, Í hvaða liði eru stjórnvöld.
"Við undirritaðir höfum ítrekað sett fram þessar gagnstæðu skoðanir og engin rök hafa enn komið fram sem hnekkja þeim. Í máli sem varðar hagsmuni fyrir okkur Íslendinga upp á 650 milljarða króna er ekki boðlegt að láta við það sitja að fullyrða að til séu þungvæg rök gegn því sem við höldum fram en ekki sé hægt að segja frekar frá þeim rökstuðningi.".
Þungbær rök, færustu sérfræðingar, en aldrei nöfn, aldrei röksemdir þeirra.
Íslenska þjóðin stendur í mikilli þakkarskuld við þá félaga, og ætti að sýna þeim fyllsta sóma.
Þeir eru mennirnir sem risu upp meðan aðrir þögðu.
Þeir þorðu að segja satt, meðan stjórnvöld lugu.
Þökkum þeim fyrir.
Þeir eiga alla þökk skylda.
Kveðja að austan.
![]() |
Víðtækt vald til að ráða bót á hruni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2013 | 17:38
Steingrímur, sjáðu sóma þinn að segja af þér.
Þú ert löngu rúinn trausti, dæmdur vaxtaþjófur.
Núna uppvís að þrælasölu, og söluvarningurinn var þjóð þín.
Þú átt þér enga afsökun.
Þér var treyst, þú brást.
Sýndu einu sinn þann manndóm sem þú fékkst í heimanfylgju, og segðu að þér með góðu.
Ekki neyða Ólaf til að reka þig.
En vittu, miðað við ykkar fyrri viðskipti, þá mun hann ekki skorast undan ábyrgð sinni.
Þú átt val.
Það val að vera á undan Ólafi.
Og þú átt möguleika að endurheimta æru þína á ný.
Eftir að þú hefur afplánað þann dóm sem lög ætla verknaði þínum.
Kveðja að austan.
![]() |
Vonast til að lánshæfismatið hækki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2013 | 17:16
Menn selja ekki landa sína í skuldaþrældóm.
Og sleppa með afsökunarbeiðni.
Rifjum upp Örlagadóm.
Eins er ljóst að það innlenda stjórnvald, sem samþykkti óséðan samning við breta um greiðslu á lögleysunni, að það hefur bæði brotið ákvæði hegningarlaga um fjárkúgun sem og ákvæði hegningarlaga um landráð.
Eins er ljóst að þeir innlendu fræðimenn, til dæmis hjá Lagastofnun Háskóla Íslands, sem tóku undir það sjónarmið breta að krafa þeirri byggðist á EES samningnum, að þeir eru allavega sekir um yfirhilmingu, og að öllum líkindum hafa þeir brotið þetta ákvæði landráðakafla hegningarlaganna; "Sé þetta í því skyni gert að koma erlendu ríki til þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins á annan hát.". Í ICEsave samningnum voru skýr ákvæði um slíka skerðingu, bæði var dómsvald framselt til breskra og hollenskra dómsstóla sem og að stjórnvöld viðkomandi ríkja fengu íhlutarrétt yfir fjármálastjórn íslenska ríkisins. Eins voru eigur ríkisins lagðar að veði vegna ICEsave skuldbindinganna.
Og að lokum er það ljóst að þeir innlendu aðilar sem vegna annarlegs stuðnings við breta fullyrtu að kröfur þeirra byggðust án vafa á lagalegum grunni, að þeir haf brotið 86. gr, 87 gr. og 88. gr hegningarlaganna sem fjalla um meint landráð. Sérstaklega má nefna 88. gr, þar sem stendur; "Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið eða hlutist til um málefni þess".
Um túlkun á þessari grein þarf ekki að deila, brotið er augljóst, það er aðeins spurning hvar á að hýsa allt brotafólkið eftir að dómur hefur fallið.
Í þessu samhengi er rétt að minna á þá fréttamenn sem lásu upp fréttatexta sem innhélt þessa fullyrðingu, "... samkvæmt ICEsave skuldbindingum vegna EES samningsins ....".
Falli dómur með íslenska ríkinu, þá þurfa þeir að sæta ábyrgð, annars gilda ekki lög í landinu.
Dómur sem sýknar íslensk stjórnvöld af kröfu ESA er því örlagadómur fyrir marga landa okkar, þó íslenska þjóðin fagni slíkum dómi.
Það er ljóst að eitthvað af hinum nýju framboðum mun kæra hina seku þingmenn, hina seku ráðherra, hina seku elítu, og öll þau handbendi sem bretar notuðu við að fá fjárkúgun sína samþykkta.
Samtökin Já Ísland munu leysast upp, hætt verður við aðildarumsóknina að ESB, ekki nema menn ætli að halda áfram aðlögunarferlinu úr fangaklefum Litla Hrauns, skipta þarf um forystu hjá Samtökum Atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, hjá Alþýðusambandinu auk þess sem Samfylkingin og VinstriGrænir hljóta að verða lögð niður.
Afsökunarbeiðni án athafna sem sýna sanna iðrun, er einskis verð.
Það eina sem Samfylkingin og VinstriGrænir geta gert, er að leggja niður starfsemi sína eða breyta flokkunum í góðgerðarfélög sem einbeittu sér að safna fé handa fórnarlömbum Hrunsins, þeim sem ríkisstjórnin neitaði um réttlæti.
Aðeins slík gjörð myndi milda dóm þjóðarinnar.
En ekkert fær mildað ákvæði laga um landráð, ekkert fær mildað ákvæði laga sem banna fjárkúgun.
Lögin munu hafa sinn gang, réttlæti er líka fyrir háa líkt og lága súpuþjófa.
Gleymum því ekki að við erum réttarríki.
Kveðja að austan.
![]() |
Ætlið þið að biðjast afsökunar? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2013 | 13:51
Lýðræðinu er ógnað.
EFTA dómurinn var ekki bara dómur í ICEsave, hann var líka dómur yfir því fólki sem ætlaði að borga bretum ICEsave án þess að leita fyrst með málið til dómsstóla.
Hann er dómur yfir dómgreindarleysi þess, og hann er áfellisdómur yfir ríkisstjórn Íslands sem alla tíð tók undir lagarök breta um greiðsluskyldu íslensku þjóðarinnar, og vísaði þá í EES samninginn.
Það út af fyrir sig er næg ástæða fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir að segja af sér.
En síðan varðar öll framganga hennar í málinu við þau ákvæði hegningarlaga sem taka á óeðlilegri samvinnu við erlend ríki eða erlent vald og kennt er við landráðakafla hegningarlaganna.
Slíkt lætur sjálfstætt ríki aldrei líðast og núna þegar allar réttlætingar stjórnvalda eru fallnar um sjálft sig, þá verða ráðaherrar í ríkisstjórn Íslands að sæta ábyrgð. Að það sé réttað yfir þeim samkvæmt íslenskum lögum um hinn meinta glæp sem blasir við að þeir hafa framið.
Við erum að tala um samning þar sem dómsvaldi var útvistað, erlend ríki fengu yfirstjórn fjármála ríkisins, og þjóðin var skuldbundin til að greiða í beinhörðum gjaldeyri upphæðir sem engin sjálfstæð þjóð getur staðið undir.
Til að kóróna landráðin voru eigur íslensku þjóðarinnar lagðar að veði, og í skuldabréfinu var gjaldfellingarákvæði sem komu til framkvæmdar ef einn gjalddagi á einu skuldabréfi ríkisins, eða ríkisfyrirtækja, fór fram yfir eindaga.
Þetta er fyrsta samkomulagið sem ríkisstjórn Íslands samþykkti án þess að hafa hugmynd um kvað hún var að skrifa undir.
Núna þegar ríkisstjórnin, stendur dæmd fyrir þjóðinni, þá lætur hún eins og ekkert hafi í skorist. Eins og landráð séu dagleg brauð, eins og skuldaþrældómur þjóðar sé ekkert til að æsa sig yfir.
Firringin er algjör, ósvífnin að sitja áfram á sér engin fordæmi í samanlagðri lýðræðissögu Vesturlanda.
Ef við það er unað, þá er Ísland ekki lýðræðisríki, og ljóst að þau erlendu öfl sem reyndu fjárkúgunina, hafa tögl og haldir í stjórnkerfi landsins.
Þá er ljóst að Ísland er ekki lengur sjálfstætt ríki.
Þjóðin hlýtur að krefjast afsagnar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þjóðin hlýtur að krefjast þess að lög gildi um glæpi stjórnmálastéttarinnar eins og aðra sem brjóta lög landsins.
Þjóðin má ekki þegja, ekki núna, annars eru örlög hennar ráðin í þrælanámum vogunarsjóðanna.
Ef ekki á að sjóða upp úr verður forseti Íslands að grípa inní.
Nýta það vald sem stjórnarskráin felur honum á neyðarstund þjóðarinnar, og setja ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur af.
Og skipa utanþingsstjórn flekkslaus fólks sem ekki kom nálægt ICEsave fjárkúgun breta.
Hlutverk hennar er að tryggja að farið sé eftir lögum landsins og réttað sé yfir öllum gerendum ICEsave fjárkúgunarinnar.
Og boða til kosninga.
Annað er ekki í stöðunni.
Forsetinn á ekkert val.
Kveðja að austan.
![]() |
Eigum ekki að leita sökudólga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2013 | 12:14
Verður veislan á Litla Hrauni??
Ef Össur heldur að hann, Jóhanna og Steingrímur sleppi, þá er það mikill misskilningur.
Það reyndu þetta margir í stríðslok, að fagna hæst, en náungi þeirra vissi betur, hann vissi hvernig þeir höfðu þjónað hinu erlenda valdi.
Norðmenn gerðu upp við þetta fólk á skýran og skilmerkilegan hátt.
Það munu við Íslendingar gera líka.
Kveðja að austan.
![]() |
Við höldum veislu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2013 | 12:09
ESA tók þátt í grímulausri fjárkúgun.
Að undirlagi Evrópusambandsins.
Það er glæpur, glæpsamlegt athæfi.
Umfangið ígildi þjóðarmorðs. Íslenska þjóðin hefði verði rúinn inn að skinni, innviðir hennar hrunið. Þjóðin gerð upp.
Ákæra ESA var ekki lögfræði, hún var pólitík, pólitík fjárkúgarans.
ESA á að sæta ákæru stríðsglæpadómsstóls Sameinuðu þjóðanna, öðrum sem hyggjast fjárkúga þjóðir til varnaðar.
Rökin eru þau að fjárkúgun gagnvart þjóð er hryðjuverk, og þegar hryðjuverkamenn njóta skjóls í einstökum ríkjum, þá er svar alþjóðasamfélagsins að ákæra þá og draga fyrir dóm stríðsglæpadómsstólsins.
Hryðjuverk eiga hvergi að líðast, og þau eru ekki bara bundin við AlKaida.
Reglur réttarríkisins krefjast þess að ESA sæti ábyrgð.
Og íslenska þjóðin á að krefjast þess.
Fjárkúgun er glæpur.
Glæpur eiga ekki að borga sig.
Jafnvel þó menn séu með hvítan flibba á vettvangi glæpsins.
Það er tími til kominn að hvítflibbar séu látnir skilja að þeir séu ekki hafnir yfir lög.
Kveðja að austan.
![]() |
ESA: Dómurinn var nauðsynlegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.10.): 0
- Sl. sólarhring: 25
- Sl. viku: 1880
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1591
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar