8.2.2015 | 01:02
Bjarni á frændgarð að verja.
Og einhverjir aðrir velunnarar hans eiga hagsmuna að gæta.
Eðlilegt að hann kunni ekki við þau dólgslæti að satt sé ekki látið kjurt liggja.
Óþarfi að skamma Bjarna vegna þessa.
Hann er jú það sem hann er, og fór ekki leynt með það í aðdraganda kosninganna.
Hlaut kosningu og er fjármálaráðherra í dag.
Sómi Sjálfstæðisflokksins, sverð hans og skjöldur.
Óþarfi að leggja það honum til lasts að vera illa við ferðatöskur sem opna leyndarhjúp skattsvika og undanskota, enda kallast slíkt sjálfsbjargarviðleitni í flokki hans.
Enda fimmta ess-ið sem er hornsteinn flokksins (hin voru sómi, sverð, skjöldur, Sjálfstæðisflokkur).
Og þessi óvild var þekkt og er þekkt, án þess að það komi niður á fylgi Bjarna meðal flokksmanna sinna. Sem og er flokkur hans stærsti flokkur landsins.
Bjarni laug aldrei neinu, ólíkt svikastóðinu í forystu Vinstri Grænna.
Hefur aldrei þóst vera annað en hann er.
Og óvild hans við ferðatöskur fullar af seðlum má örugglega rekja til snemm-æskuminninga, þegar Marlon Brando í hlutverki guðfaðirins var alltaf að höndla með slíkar töskur.
Og sló síðan menn í hausinn með beisboltakylfu.
Þess vegna er þetta eiginlega bögg hjá mér að minnast á frændgarð hans. Eða aðra máttarstólpa fjáröflunar flokksins.
Mér til afsökunar þá vil ég nefna að ég var eiginlega ekki að bögga Bjarna, enda skil ég mjög fælni hans við ferðatöskur fullar af seðlum, ég sá jú líka Guðfaðirinn og var þá samt miklu eldri en Bjarni, og var heldur ekki sama um slíkar töskur, ég er svona meira að stríða því ágætu íhaldsfólki sem bloggar hér á Moggablogginu, og hefði ekki haldið vatni, líklegast hreinlega pissað á sig, ef Steingrímur hefði látið þvílíka meinta fælni út úr sér.
Eða nýtt orðið siðferði sem skjaldborg um skattsvik auðs og auðmanna.
Ég man nefnilega þá tíð þegar þeir þekktu muninn á réttu og röngu.
Eða þegar Mogginn leiftraði af blossum sem beindist á slíkt auma yfirklór þeirra skötuhjúa, Steingríms og Jóhönnu.
Ég man reyndar líka þá tíma þegar maður fór til læknis án þess að verða brók á eftir. Og börn krabbameinssjúklinga erfðu eigur foreldra sinna, ekki Skattmann í nafni heilbrigðiskerfisins.
Eins og ég viti ekki að þegar maður er gamall, þá man maður svo margt.
Þó ég reyndar muni ekki Halaveðrinu mikla 1920 og eitthvað.
Að nýta slíkar minningar til að bögga heiðvirt íhaldsfólk, gleðigjafanna sem halda lífi í þessum ágæta bloggvettvangi, er reyndar ósvinna, og liggur við að ég endurskrifi þennan pistil afturábak.
Og endi á fyrirsögn sem tekur fram að Bjarni þekki ekki frændgarð sinn.
Og að tillitsemi við SamfylkingarJónanna, þá Ólafsson og Jóhannesson, þá vilji hann ekki senda út ferðatöskur fullar af seðlum, enda slíkar töskur yfirleitt notaðar undir ótollað brennivín og skítuga sokka.
Og hið nýuppgötvaða siðferði hafi ekkert með hagsmuni að gera.
Og þögn íhaldsbloggara hafi allt með réttlátan svefn eldri borgara að gera.
Liggur við en samt ekki.
Vorkenni samt fólkinu sem þarf að þegja en þorir ekki að segja.
Eins og Davíð sagði að gefnu tilefni, að lítið þyrfti til að gleðja hann Vögg gamla.
Jóhanna dugði til þess.
Vöggur átti því sínar stundir.
Og er því ekki óglaður í dag, minningarnar um Jóhönnu sjá til þess.
Þó skattsvikarar njóti þá er óþarfi að spilla þeirri gleði.
Enda geri ég það ekki.
Segi aðeins góða nótt.
Með kveðju að austan.
![]() |
Bjarni: Greiðum ekki með ferðatöskum af seðlum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2015 | 11:49
VG - "VAR MEÐ" þegar flokkurinn var í ríkisstjórn.
Sem telur, ekki hvað menn segja þegar þeir hirða laun fyrir að vera á móti.
VG stóð fyrir stóriðjustefnu sem gerði meira að segja Jón Gunnarsson, stóriðjupáfa, að sporgöngumanni.
VG stóð fyrir endurreisn fjármálakerfis í þágu peningamann en á kostnað almennings og þjóðar.
VG stóð sig svo vel í því hlutverki að þáverandi formaður flokksins gortaði sig af því að til greina hefði komið að gera hann að landsstjóra AGS í Grikklandi, en ekki varð úr því ESB ákvað að skipa einn úr sínum röðum í það embætti.
VG gerði allt sem Sjálfstæðisflokknum barst kjark í að gera, þar á meðal að sækja um aðild að ESB.
Þegar núverandi formaður flokksins lætur eins og árin 2009-2013 hafi aldrei átt sér stað, þá fetar hún í þekkt spor hægri öfgamanna sem láta alltaf sem svo að helfarir þeirra hafi aldrei átt sér stað.
Hún hefur ekki manndóminn sem gömlu Stalínistarnir hafa, að vera stolt af óhæfunni, telja hana sögulega nauðsyn á hinni þyrnum stráðu braut að alsælunni.
Þeir voru og eru hugsjónamenn og þora því að kannast við verk sín.
Hún er málaliði, og þeir eiga sér aldrei fortíð.
Nema afreksskrána í skjalahirslum þeirra sem efni hafa á þjónustu fólks sem á sál til sölu.
Fjölmiðlarnir sem lúta sömu húsbændum munu láta formann VG komast upp með fölsun sína.
Þeir vita eins og er að núna er hlutverk VG að halda utan um óánægjuna, ásamt Bjartri framtíð og Pírötum.
Þannig er tryggt að ekkert breytist.
Því þeir sem þjóna "verða með" þegar þeir stjórna.
Sniðugt, og virkar.
Kveðja að austan.
![]() |
VG stimplaðir sem á móti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2015 | 10:56
Það þarf sérstakt hugarfar að breyta því sem virkar.
Breytinganna vegna.
Tilgangurinn er ekki að bæta, heldur að breyta, af því bara.
Þetta hugarfar getur verið úr ranni frjálshyggjunnar, kennt við uppáhalds ess-in hennar þrjú; Sérhyggju, samviskuleysi, siðblindu.
Það getur verið úr ranni forheimskunnar, há-in hennar þrjú; hégómi, heimska, hroki.
En tengist aldrei viti, skynsemi eða heilbrigðri hugsun.
Út um allt samfélagið eru svona breytingar, breytinganna vegna.
Illa ígrundaðar, mismunandi misheppnaðar, ætíð dýrari en það sem fyrir var.
Hvað græddi samfélagið á að leggja niður Landakotsspítala eða Sankti Jósefsspítala?? Eða á allri hagræðingu Steingríms Joð á heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar?
Hver er ávinningurinn við að minnka kostnað örlítið á einu stað en magna hann uppi á öðrum, hvort sem það er hjá þeim aðila (ríki eða sveitarfélagi) sem ætlaði sér að spara aurinn, eða þeim aðilum sem nutu þjónustunnar og höfðu greitt fyrir hana með skattpeningum sínum??
Hvernig er hægt að líta á allt báknið sem heldur utan um skrifræði breytinganna, hagræðingarinnar eða endurskipulagningarnar sem meintan sparnað, eða góða nýtingu skattpeninga?
Er ekki tími til kominn að tengja við þá einföldu staðreynd að ágallar hins nýja kerfis Ferðaþjónustu fatlaðra eru ekki tilfallandi, heldur óhjákvæmilegir, vegna þeirra vinnubragða að ekki er byggt á genginni reynslu og þekkingu, heldur er öllu því sem læra má á, hent út um gluggann, og þess í stað er vit Exelsins látið um að móta hið nýja, hið hagkvæma, og raunveruleikanum síðan skipað að beygja sig undir forsendur hans og framkvæmd.
Nema raunveruleikinn á alltaf síðasta orðið.
Og orðið klúður kemur æ og æ upp í umræðunni.
Og gerir á meðan enginn er lærdómurinn.
Að skera niður, að hagræða, að endurskipuleggja.
Þessar þrjár sagnir munnræpast frá því sem næst öllum stjórnmálamönnum okkar í dag nema vera skyldi Ögmundi Jónassyni, enda er þegar búið að taka frá pláss í hillum Þjóðminjasafnsins þegar hann lætur af þingstörfum. Í hilluplássi sem ætlað er steingervingum, geirfuglum og öðrum fornum fyrirbærum.
Kristallast í hinu vanheilaga bandalagi forheimskunnar og frjálshyggjunnar.
Bandalaginu sem stýrir hinum vestræna heimi í dag.
Heilbrigð hugsun búhyggjunnar: að bæta og betra, að sá og uppskera, að byggja upp; er argasta níð og ónefni hjá hinni sömu munnræpu.
Eitthvað sem er úrelt, tengist fortíð, eitthvað sem ól upp og fóstraði þá kynslóð sem er uppúr miðjum aldri og þaðan af eldri.
Eitthvað sem nútímamaðurinn lætur aldrei bendla sig við.
Á tímum þegar guð og góðir siðir eru á safni en peningar og græðgi á stalli.
Þess vegna er hugarfarið sem ég minnist á hér að ofan, almennt, þó það sé vissulega sérstakt.
Svo almennt að stjórnmálamennirnir sem ábyrgðina bera, skera sig ekki á nokkurn hátt úr, hvorki úr hópi annarra stjórnmálamanna eða frá kjósendum sínum.
Mötun hinna nýju trúarbragða, peningahyggjunnar, er það djúprist að enginn efast lengur um að Mammon sé æðstur guða, og þjónar hans auki auðlegð og hagsæld með niðurskurði sínum, hagræðingu og endurskiplagningu.
Og mistökin, klúðrið, verri þjónusta, dýrara bákn, verri lífskjör, skuldaánauðin, sífelldar fjármálakreppur; aðeins þyrnar á hinni dýrlegu braut til himnaríkis peninga og peningamanna.
Þyrnar sem ekki eru einstakir í sögu hinnar algjöru heimsku hugmyndakerfanna, sæla öreiganna í Sovétinu á sínum tíma átti að nást í gegnum fátækt, örbirgð og kúgunar fjöldans.
Enda eru þær systur, alræði öreiganna og alræði peninganna.
Og stefna að algjörum yfirráðum örfárra yfir fjöldanum.
Áttu það sammerkt að hefja sinn ferill á því að lýsa því yfir að guð kristinna manna væri dauður.
Enda þrífst alræði ekki í heimi þar sem fólk trúir á guð og góða siði. Hvað þá að það telji sig skylt að gæta bróður síns.
Ekkert er nýtt undir sólinni, og Mammon mun falla af stalli líkt og frændi hans Marx gerði á sínum tíma.
Einn daginn verður aftur tekin upp sú iðja að bæta og betra.
Að byggja upp, að hlúa að, að sá og uppskera.
Skynsemin mun kasta tötrum sínum og betlistaf og verða aftur gildandi við stjórn samfélags okkar.
Peningahyggjan mun víkja, frjálshyggjan deyja.
Og hin tilbúnu vandamál hagræðingarinnar og niðurskurðar verða minning ein.
Og fyrirsögn fréttarinnar stytt í;
"Engin vandamál".
Því sem betur fer er heimskan algjör lúser.
Kveðja að austan.
![]() |
Engin vandamál á landsbyggðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2015 | 20:42
Grikkir eru ekki sjálfstætt ríki.
Og óþarfi að ítreka þá lygi.
Eða endurróma vælið um að Evrópa sé svo vond við þá.
Grikkir gáfu upp sjálfstæði sitt þegar þeir tóku upp evru.
Og á meðan þeir hafa evruna, þá lúta þeir stjórn Evrópska seðlabankans.
Hver sem hvatinn er að baki þessu væli, líkt og hægt sé að kjósa sig frá afborgunum á hinu evrópska skuldabréfi, þá er óþarfi að skrumskæla raunveruleikann að hætti kommúnískra blaðamennsku, líkt og Sovétið sé ennþá meðal vor.
Og að Mogginn heiti Euro-Pravda.
Og birti fréttir af grenjandi Grikkjum í bónarleiðangri um skuldaniðurfellingu.
Grikkir kusu evruna, og þar með kusu þeir yfirráð Brussel, og þrældóm hinnar evrópsku myntar.
Vælið í þeim er líkt og það væl að gráta yfir gjalddaga Snufflána, eins og að hægt sé að eyða peningum, en ekki að standa við afborgunina.
Sem er eins og hjá snuff-framleiðindum, "ekki taka tvö", og óþarfi að ræða það meir.
Nema ef Marta Smarta hefur tekið yfir fréttaflutning Mbl.is, og bindisleysið og leðurjakkinn sé frétt í sjálfu sér.
Sem er frétt, þó ekki sé hún stór, eða merkileg ef raunveruleikinn en ekki sýndin stjórni fréttamati Moggans.
En að skálda fyrirsögn, eins og gert er í þessum pistli, að Seðlabanki ESB hafi snúið baki við Grikkjum, þegar þeir neita að borga.
Það er ófrétt, og í mesta lagi á heima á bloggi Heimssýnar.
Þræðir þess bloggs liggja jú til Brussel.
Og fjórða ríkið á það sameiginlegt með þriðja ríkinu, að geta ekki höndlað sannleikann.
Hvað þá áróðursmaskínur þess.
En Mogginn???
Undir stjórn Davíðs????
Þetta er eins og úldinn hákarl.
Ekki kæstur.
Ekki ætur.
En vísar í minnið um það sem var, í minningunni um góðan mat.
Um fréttamennsku þegar Styrmir var og hét.
Og öllu var ekki stjórnað frá Brussel.
Kveðja að austan.
![]() |
Seðlabankinn snýr baki við Grikkjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2015 | 20:20
Mogginn á heiður skilið.
Fyrir góðan fréttaflutning.
Þar sem kattarþvottur ógæfumanna sem kenna sig við stjórnmál, fær ekki athygli.
Heldur staðreyndir málsins.
Sem eru mjög einfaldar.
Gott kerfi var eyðilagt vegna auragræðgi.
Það fyndna er að sú auðn er í boði Gnarrista.
Og óþarfi að þegja yfir því.
Kveðja að austan.
![]() |
Við erum gríðarlega ósátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2015 | 18:33
Hvað var þetta með ferðaþjónustu fatlaða??
Virkaði hún ekki??
Var verið að gleyma fólki í fyrra eða hittifyrra??
Eða þar áður??
Eða eyðilagði frjálshyggjan það sem virkaði vel??
Til að spara pening, til að reka það fólk sem sinnti starfi sínu vel
Það kallast raðmorð þegar sama morðið er endurtekið aftur og aftur.
En á Íslandi er blaðamenn svo tómir, að þeir sjá hið endurtekna atferli.
Búa til svona frétt.
Finna dólg þegar glæpurinn liggur hjá hugmyndafræðinni.
Sem er að eyða því sem vel er gert.
Og benda ekki á fíflin sem ábyrgðina bera.
Og samviska þjóðarinnar þegir, því ekki er hægt að hengja glæpinn á frjálshyggju Valhallar.
Líkt og hún þagði þegar brotin voru framin af félaga Stalín.
Og þegir í dag þegar glæpir evrunnar koma til tals.
Þess vegna þjást fatlaðir, ekki vegna þess að öllum sé ekki sama, heldur vegna þess að engum er að kenna.
Eða hver gagnrýnir Gnarrinn og það skrípi sem óx út af tómhyggju hans??
Ég bara spyr?
Og spyr af hverju hinir sjálfskipuðu gagnrýnendur þegja.
Vissulega eru þetta íhaldsmenn, sem fyllast heilagri vandlætingu, en líkt og kommarnir forðum, þá er hneykslun þeirra bundin við að þeirra menn sáu ekki um glæpinn.
Ísfirðingurinn fékk ekki atkvæði til að gera það sem hin Bjarta framtíð geri í dag.
Sem aftur vísar í löstinn stóra, afbrýðissemi.
Sem skýrir fjölda blogga við þessa frétt.
Að Dagur gerði sem Halldór átti að gera.
Að leggja í auðn sem hægt var að bjóða út.
Og vitgrannir fjölmiðlamenn vitna í Dag, og þeir vitna í Halldór.
En enginn spyr af hverju???
Því þá væru þeir ekki vitgrannir.
Héldu ekki vinnunni.
Og engum væri um að kenna.
Og bloggið þegði.
En glöpin væru þau sömu.
Þau heyrðust bara ekki.
Kveðja að austan.
![]() |
Mál Ólafar kornið sem fyllti mælinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2015 | 14:50
Frjálshyggjan afhjúpar sig.
Góð þjónusta sem virkar, sem hefur tekið áratugið að byggja upp.
Fagþekkingu og mannleg samskipti.
Er eyðilögð á einni nóttu með siðlausu útboði.
Í anda þess lögmáls að taka "cheapest bid" svo ég vitni í Thatcher.
Um leið afhjúpast eðli bjánaframboðsins, kennt við Birtu og framtíð.
Það var vitað að það var kostað skrípi úr sjóðum ESB.
En kannski var ekki vitað að það var einnig úr ranni siðblindunnar.
Frjálshyggjunnar sem eyðir því sem byggt hefur verið upp.
En það er vitað í dag.
Tárin eru til vitnis.
Kveðja að austan.
![]() |
Brotnaði niður og fór að gráta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2015 | 22:49
Verður restin af ritstjórninni skotin á morgun??
Við hverju bjuggust menn??
Fyrirgefningu???
Á morðum og voðaverkum.
Blaðið á í stríði.
Einn daginn föttum við að það sama gildir um okkur líka.
Stríði við öfga og voða.
Stríð sem aðeins annar aðilinn sigrar.
Vonandi mannkynið.
Kveðja að austan.
![]() |
Óánægja með nýjustu útgáfuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2015 | 17:07
Spreki kastað á umræður.
Ég segi bara, mikið vildi ég að forystufólk úr Sjálfstæðisflokknum væri ennþá valið úr hópi fullorðna, en ekki misgamalla íhaldsdrengja, eða það sem Björn Bjarnason bendir réttilega á, úr hópi fávísra.
Viti borið fólk bauð sig fram í prófkjörum flokksins, fólk sem hafði mótaðar tillögur um hvernig hægt væri að takast á við lykilvandamál þjóðarinnar eins og arðrán verðtryggingarinnar, eða skuldaánauð almennings eða fyrirtækja.
Sumt af þessu fólki kom úr röðum okkar Moggabloggara, höfðu þar sýnt hæfni sína til að takast á við málefnalega umræðum, að setja fram skoðanir, færa rök fyrir þeim, og takast á við rök andstæðra sjónarmiða.
Og það kolféll allt með tölu.
Árangri náði fólk sem myndaðist vel, og gildir það um kvenþingmenn flokksins með einni undantekningu, hún myndaðist ekki vel, og fólk sem talaði ekkert um hinn brýnu vandamál þjóðarinnar.
Það áþreifanlegasta sem þessir útvöldu sögðu í prófkjörsgreinum sínum var að þeir ætluðu að lækka ekknaskattinn. Eða hvað sem hann hét.
Annars auð bók, og jú frasinn um stóriðjuna.
Treyst var á leiðsögn mótorhjólagaursins í leðurdressinu, sem hafði lært að setja brilljantín í hárið, og fella eitt tár.
Eins og Cry Baby í myndinni um Cry Baby.
Og jú lesa uppúr þeim ræðum sem að honum voru réttar, af þeim sem eiga flokkinn.
Punktur.
Björn Bjarnason, sem sagan mun telja einn af albestu ráðherrum lýðveldistímans, hvort sem það var í ráðuneyti menntamála eða dómsmála, enda var hann fullorðinn þegar hann fékk forfrömun sína, gaf flokknum eina einfalda einkunn.
Fávitar, eða var það fávís, man það ekki, svo langt síðan ég las fréttina.
Í grundvallarmáli er engin stjórn, og fávísin lekur út.
Íslamsitar unnu skelfileg hryðjuverk í París.
En þau eru hjóm eitt ef í kjölfarið fylgja ofsóknir á hendur samborgurum okkar.
Fólki sem er nákvæmlega eins og ég og þú.
En játar aðra trú.
Björn er hógvær, hefur alltaf verið orðvar maður.
Ef hann hefði sagt hug sinn, þá hefði hann sagt flugvélabensín á eldinn.
Eða púður, eða dýnamít, eða eitthvað sem springur með enn meiri látum.
Hann vill ekki að flokkur sinn taki upp gyðingaofsóknir hinar nýju.
Hann vill ekki að flokkurinn verði það sem faðir hans kvað eftirminnilega í kútinn á fundi hjá Stúdentafélagi Reykjavíkur, þegar hann sagði þjóðernissósíalisma vera ógn við grundvallargildi flokksins.
En Björn tala Albaníutungumál, það er hann gagnrýnir Albaníu þegar hann þorir ekki í Kína.
Enda eðlilegt, formaðurinn er frændi hans og þar að auki úr þeim ættlauk sem höndlar með fjármuni ættarinnar.
Það sem hann sagt vildi hafa er ákaflega skýrt.
Ef Ásmundur hefur ekki sagt af sér á morgun, þá er Bjarni ekki formaður.
Þá er flokkurinn forystulaus.
Og gat ekki orðað hlutina betur.
Þó á Albanísku væri.
Sumt er ekki flókið.
Sama á hvað tungumáli það er sagt.
Kveðja að austan.
![]() |
Sakar Ásmund um fávisku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2015 | 14:41
Fáfræði og fordómar forsetans.
Leka af hverri setningu í þessu viðtali Morgunblaðsins við Forseta ASÍ.
Hann er líkt og hægri öfgamenn Evrópu sem kenna innflytjendum um allt sem miður fer, þegar skýringa er að leita hjá þeirri hugmyndafræði sem leyfir fjármagni og auð að blóðsjúga samfélögin sín.
Þegar verkafólk missir vinnuna vegna útvista starfa þeirra til þrælabúða Asíu, þá er hrópað múslimi, og þá er sökudólgurinn fundinn. Eða aðeins fyrr þegar hrópað var gyðingur þegar fólk missti vinnuna í kreppunni miklu því öllu skipti að viðhalda kaupgetu gjaldmiðla sem aðeins auðurinn átti.
Með því að sökudólgavæða læknana er athyglinni beint frá hinni misheppnuðu frjálshyggjutilraun sem verkalýðshreyfingin undir forystu Gylfa hefur samsinnað sig við.
Tilraun sem formaður Verkalýðsfélags Akranes lýsti með þeim orðum að fyrst hirða þeir sem kringum kjötkatlana sitja, allan afraksturinn, en síðan væri kastað 2-3% til launafólks, og það sagt að sætta sig við það, annars færi stöðugleikinn á hliðina (endursagt eftir lélegu minni).
Tilraun sem hefur skilað þeim árangri að eftir um 30 ára fylgispekt við frjálshyggjuna, þá komast atvinnurekendur upp með að greiða laun sem duga ekki fyrir lágmarksframfærslu, og víða í Evrópu og Bandaríkjunum væri skortur ef ekki kæmi til öflugt starf hjálpar og mannúðarsamtaka. Eins og það sé stöðug kreppa eða stöðugt stríðsástand.
Tilraun sem hefur stóraukið hlut fjármagns á kostnað launa og gert hina ofurríku margfalt ríkari.
Sem er ekkert annað en þjófnaður frá almenningi fyrri tilstuðlan gjörspilltra keyptra manna, hvort sem þeir eru í stjórnmálum, taka að sér að svíkja verkalýðinn, eða skapa akademíska umgjörð um hinn löghelgaða þjófnað (á lénstímanum þegar fólk var formlega í ánauð, þá bullaði akademían um guðlega skipan sem enginn mætti rísa gegn).
Og Gylfi forseti er samsekur í þessum glæp.
Í þessu viðtali er ekkert minnst á sjálftöku fjármagns eða forstjóra.
Ekkert minnst á skuldaánauð verðtryggingarinnar, eða óeðlilegt vaxtastig.
Ekkert minnst á hvað það er óeðlilegt að þeir sem störfin vinna séu afgangsstærð og fái borguð laun sem gera þeim hvorki kleyft að lifa að deyja.
Aðeins ískur fáfræðinnar og fordóma.
Verkafólki att á þá einu stétt sem þjóðin getur ekki verið án og á ekki nokkurn möguleika að finna valkost við.
Og þá einu stétt sem getur beint labbað inní miklu betur launað störf í öðrum löndum, að ekki sé minnst á aðbúnað og vinnuaðstöðu.
Hvaða tilgangi þjónar þetta??
Hvaðan kemur öll þessi fávísi og fordómar??
Stjórnmálamenn okkar hafa spilað rússneska rúllettu með heilbrigðiskerfið of lengi.
Allt hefur verið skorið inn að beini, starfsfólk er komið að því að gefast upp vegna óhóflegs vinnuálags.
Verstur er læknaskorturinn, og alvarlegast er að engin endurnýjun hefur orðið í stéttinni í fjöldamörg ár, þannig að eftir 10-15 ár verða fleiri læknar á hjúkrunarheimilum, sem vistmenn, en starfandi á spítölum landsins.
Þessi rússneska rúlletta er búinn með öll sín tómu skothylki.
Næsta skot, er sjálft dauðaskotið.
Þegar frjálshyggjumennirnir í Sjálfstæðisflokknum gáfu eftir því þeir óttuðust að fylgi flokksins mynd deyja út, þá taka þeir við, forseti ASÍ og framkvæmdarstjóri Samtaka Atvinnulífsins.
Og reyna sitt ýtrasta að hleypa af.
Hvílíkur félagsskapur.
Hvílíkt ógæfufólk.
En í okkar boði.
Því við þegjum.
Eða það sem verra er, tökum undir hrópin;
"Múslimi, gyðingur, læknir.
Burt með þetta lið".
Fordómar forsetans eru ekki sáðir í ófrjóan akur.
Kveðja að austan.
![]() |
Hvað halda menn að gerist núna? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.10.): 6
- Sl. sólarhring: 740
- Sl. viku: 3617
- Frá upphafi: 1493724
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 3042
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar