10.3.2015 | 14:57
Jafnrétti eflir Landsbankann.
En réttlæti eflir þjóðina.
Óréttlæti er forsenda hagnaðar bankans, eitthvað skráð jafnrétti fær því engu breytt.
Á meðan blæðir almenning.
Réttlát fjármálastarfsemi.
Réttlát stjórnun.
Útópía raunveruleikans, ein af forsendum Hagfræði lífsins.
Okkar val.
Okkar valkostur.
Kveðja að austan.
![]() |
Jafnrétti eflir Landsbankann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.3.2015 | 13:25
Þegar skuld er töpuð.
Þá er hún afskrifuð.
Ekki nema að sá sem á skuldina getur keypt stjórnmálmenn til að setja hana á almannasjóði.
Þessi frjálshyggja, að taka hagsmuni hinna ofurríku fram yfir hagsmuni almennings, er fjármálstefna ESB í hnotskurn.
Og þeir sem vilja í ESB, og þeir sem styðja ESB, bera fulla ábyrgð á þeirri frjálshyggju.
Að eyða samfélögum svo þeir sem eiga pappírspeninga geti breytt þeim í raunverðmæti.
Á Íslandi fjárfestu peningaeigendur í Steingrími Joð og flokki hans.
Fyrir áttu þeir Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokkinn og hluta af Framsókn.
En gleymdu að fjármagna forheimskuna og lygina, og því fór sem fór.
Þjóðin sigraði í ICESavedeilunni, hin keypta lygi dugði ekki til.
Í dag ógna nýjar skuldir framtíð okkar og velferð, þar sem peningaeigendur bættu við í safn sitt bjánaframboðinu, og hinu sem er ekki þessa heims, og sáu til þess að Andstaða þjóðarinnar á engan málssvara á Alþingi.
Og uppkeyptir fjölmiðlar þegja.
Því skuldir eru ekki afskrifaðar.
Ekki þegar afskriftin er hærri upphæð en kostnaðurinn við að kaupa pólitískt kerfi heillar þjóðar.
Og prinsippsins vegna þá fær Reykjanesbær ekki afskrifað, ekki nema það sem fræðilega er ómögulegt að innheimta, þegar allt umfram nauðsynlega rennur í skuldahít sjálfstæðismanna.
Eins og það sé tilviljun að Reykjanes féll.
Eða Ísland frjálshyggjunnar 2008.
Eða það sé tilviljun að eina markmið formanns Sjálfstæðisflokksins, sjálfs fjármálaráðherra þjóðarinnar, sé að koma froðukrónueign á almannasjóði.
Langtímaskuldabréf, ríkisverðbréf, hvað sem allt þetta kjaftæði heitir.
En á það sameiginlegt með skuldum Árna Sigfússonar, að aðrir borga.
Ekki flokkurinn, ekki flokksmennirnir sem kusu feigð í stað framtíðar.
Og út í Móum þegir Davíð, reyndar síröflandi um hið fallandi ESB, eins og einhver ætli inní þá dauðahringekju.
Þegjandi þegir hann á meðan þjóðin er seld.
Á meðan hrægammar fljúga á braut, troðnir blóðpeningum þjóðarinnar sem hann afrekaði að leiða lengst allra forsætisráðherra.
Þegjandi á meðan sagan mun troða skítnum á ráðherratíð hans.
Því þögn leiðtogans er hið þegjandi samþykki sem dvergurinn sem á eftir kom réttlætti landsölu sína.
Og hinir flokkstryggu taka möglunarlaust við skuldabyrðinni, þeir vita sem er að megin hluti hennar lendir á öðrum en þeim.
Þeir eru eins og maðurinn sem bjargaði loftbelgnum með því að henda næsta manni út.
En hinn flokkstryggi, og formaður hans, sem og hinn þegjandi fyrrverandi, sem fær að vísu fyrir náð fjármagnsins og skáldsins sem keypti blaðið, að gjamma um ESB og Pútín, ásamt því að skrifa lofrullur um málhaltan fyrrverandi forseta í Villta vestrinu, gleyma einu.
Gleyma að sagan er aldrei til sölu.
Að sagan er ekki keypt.
Töpuð skuld sem sett er á almenning.
Er alltaf óhæfa, smán þeirra sem að komu.
Líka þeirra sem þögðu.
Smán þeirra sem gjömmuðu í flokkstryggð sinni og vesaldómi.
Enginn rífst við arfleið sína.
Kveðja að austan.
![]() |
Þurfa að snúast um afskriftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.3.2015 | 10:39
Ríkistekjur sjaldan meiri.
En þegar þjófar í þjónustu hrægamma, ráðstafa þeim
Þá visnar samfélagið smán saman upp.
Hvort sem það er heilbrigðiskerfið, vegakerfið, menntakerfið, eða fjárfesting í framtíðinni.
Froðukrónan étur upp samfélagið.
Vextir og vaxtavextir á tilbúnum skuldum fá hvern aur sem er afgangs.
Fjármálaráðherra kokkar hina eitruðu sýrusúpu í þágu aflandskrónueiganda, þeirra sem töpuðu á græðgifjárfestingum sínum haustið 2008, en fjárfestu í stjórnmálamönnum, bæði í hruninu líkt og Steingrími og Steingrími, sem og í núinu, Bjarna og Bjarna.
Þjóðin hefur sjaldan haft það betra, það er sá hluti hennar sem ekki er sjúkur, einstæður, eða glímir við ómegð, eða atvinnuleysi.
Hún fer í sólarlandaferðir, hún kaupir lúxus, það er þeir sem borga ekki skatta í boði frjálshyggjunnar, hún kaupir bíla.
En fjárfestir ekki í innviðum.
Með öðrum orðum, hún étur útsæði sitt.
Er södd og glöð.
Á meðan útsæðið dugar.
Á meðan ekki kemur morgundagurinn.
Sjaldan höfum við aflað eins mikið.
Sjaldan höfum við séð af eins miklu.
Útí loftið.
Í ekki neitt.
Á meðan grætur framtíðin.
Þjóðin telur ekki að hún sé þess virði að verja.
Hún dagar uppi.
Í vasa vogunarsjóða.
Og reyndar líka hinna ofurríku.
Þeirra sem eiga flokkinn.
Kveðja að austan.
![]() |
Ríkistekjur sjaldan meiri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.3.2015 | 22:51
Ber Árni hina raunverulegu ábyrgð??
Burtséð frá hrokanum sem skín út úr orðum manns sem taldi tekjur ekki þurfa að hamla framkvæmdargleði sína, enda höndlaði hann með annarra manna fé.
En stefna Árna lá alltaf fyrir.
Sem og fjárhagsstaða á hverjum tíma, og ríkisútvarpið sá samviskusamlega um að útvarpa.
Samt hlaut hann góða kosningu 2008, og hefði sjálfsagt unnið síðustu kosningar líka hefði ekki komið til klofningur í flokki hans.
Staðreyndin er sú að kjósendum Sjálfstæðisflokksins var slétt sama þó Reykjanesbær væri gjaldþrota.
Þeir kusu sinn flokk, sama hvað á gekk.
Ógæfa Reykjanesbæjar er aðeins sú, að þeir eru í meirihluta í byggðarlaginu.
Svo ef einhver á að axla ábyrgð, þá eru það kjósendur flokksins.
Ef það er eitthvað réttlæti í heiminum þá ætti þeir að vera skaðabótaskyldir gagnvart þeim minnihluta sem þeir svínuðu á.
En það er ekki svo því meirihlutalýðræði er ekki réttlátt.
Það endurspeglar aðeins skoðanir meirihlutans.
Við sjáum þetta í landsmálunum.
Núna þegar Landssalan hin síðari er komin á fullt skrið.
Almannasjóði á að skuldsetja svo hægt sé að greiða út verðlausa froðukrónur til handahafa þeirra, sem flestir eru kenndir við hrægamma.
Hinn almenni sjálfstæðismaður mun verja landssöluna fram í rauðan dauðann.
Og fagna því svo þegar almannafyrirtæki verða einkavædd undir yfirskininu; "grynnkum á skuldum".
Söguleg nauðsyn verður þetta kallað, líkt og kommar kölluðu hungursneyðina í Úkraínu á sínum tíma.
Við hin sitjum svo uppi með brúsann, og niðurbrotna almannaþjónustu og úrsérgegna innviði því froðukrónuskuldin mun sjúga til sín allt umframfé.
Hver er réttur okkar gagnvart hinum hundtrygga flokksmanni??
Sem er náttúrulega enginn.
En á það að vera svoleiðis um alla framtíð.
Eru stjórnmál aðeins spurning um nóga peninga til að heilaþvo lýðinn???
Mun hið skítuga fjármagn stjórna okkur um aldir og ævi??
Erum við aftur kominn á byrjunarreit fyrir daga lýðréttinda og mannréttinda??
Því auðræði, hin algjöru yfirráð hinna örfáu, leiðir alltaf til undirokunar og örbirgðar fjöldans.
Um annað kann sagan engin dæmi.
Reykjanes er aðeins upphafið af því sem koma skal.
Því þjóðin telur sig steingelda, sér ekki lífið sem hún þarf að vernda.
Kveðja að austan.
![]() |
Ég skal bera ábyrgð á þessu öllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.3.2015 | 15:52
Áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Áróðurinn er greinilega ekki að virka.
Kveðja að austan.
![]() |
Meirihluti andvígur einkavæðingu ríkisfyrirtækja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.3.2015 | 12:24
Þjóðinni er ætlað að blæða - aflandskrónueigendum að græða
Í guðanna bænum, þið sem eigið börn og barnabörn, þið sem ætlið að eiga heima áfram í þessu landi forfeðra okkar.
Lesið þessa frétt, lesið feisbókarfærslu Lilju, og reynið að skilja rök hennar og þær forsendur sem leiða til orða hennar sem ég gerði að fyrirsögn þessa örpistils.
Sumt á maður ekki að þykjast vita betur.
Sum á maður aðeins að skilja.
Allavega ef maður á líf sem þarf að verja.
Kveðja að austan.
![]() |
Sumir eru jafnari en aðrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.3.2015 | 08:49
Miðaldamenn ógna samfélögum fólks.
Á Íslandi hola þeir innviði samfélagsins svo þeir eru langt komnir með að umbreyta velferðarþjóðfélaginu í postulínsþjóðfélag frjálshyggjunnar.
Í hinum forna heimi Mið-Austur og Austurlanda eyðileggja þeir menningarverðmæti og sprengja fólk og fénað í tætlur.
Á Bandaríkjaþingi mæta þeir með snjóbolta og biblíur og berjast gegn vísindum.
"Afturhvarf mörg ár aftur í tímann" er aðeins byrjun á ferli sem endar á afturhvarfi um margar aldir.
Ef ekkert er að gert.
Ef enginn snýst til varnar.
Kveðja að austan.
![]() |
Afturhvarf mörg ár aftur í tímann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2015 | 18:53
Prentað í þágu hinna ofurríku.
Til að magna upp sýndarverð sýndarpappíra.
Molarnir eiga síðan að falla útí hagkerfið og koma hinu raunverulega hagkerfi til góða.
Á meðan skortir fé í alla innviði, vestræn þjóðfélag éta upp samfélagsfjárfestingu fyrri kynslóða.
Á meðan býr 20 til 30% fólks við sára fátækt, og er háð matargjöfum hjálparsamtaka.
Hin gjörspillta yfirstétt eyðir stórfé í að sannfæra lýðinn um að alltí sé í lagi.
En það er ekkert alltí lagi, postulínsþjóðfélag frjálshyggjunnar riðar til falls.
Og fellur saman innanfrá undan sínum eigin þunga almenningur spyrnir ekki við fótum og kemur af sér sníkjudýrum fjármagnsins.
Þeirra sem ekkert skapa, aðeins sjúga.
Reyndar væri Evrópa löngu fallin ef hún ætti sér einhvern óvin, því innra öryggi var það fyrsta sem var postulínshúðað af stjórnmálamönnum frjálshyggjunnar.
Ef ekki væri til kjarnorkuvopn, og Pútín dytti í hug að skreppa í helgarferð til Parísar, með nokkrum skriðdrekum, þá gæti hann það, en hugsanlega þyrfti hann að taka langt helgarfrí, kæmi ekki til Parísar fyrr en á þriðjudegi, ekki vegna sýndarvarna Vestrænna ríkja, heldur sökum fjarlægðar frá rússnesku landamærunum.
Veldi sem áður voru, eru ekki neitt, ekki einu sinni pappírstígrisdýr.
Á meðan er prentað og prentað.
Eins og enginn sé gærdagurinn, með sinni reynslu, með sinni sögu, með sínu Hruni.
Og á morgun eða hinn, það er þegar einhver bendir á að engin verðmæti eru að baki hinu háa hlutabréfaverði, þá hrynur allt sýndarhagkerfið, og almenningur verður aftur skuldsettur fyrir þeim kostnaði sem fellur á raunhagkerfið.
Nema, nema, hann segi hingað og ekki lengra.
Hugsanlegar, en ekki líklegt.
Auðurinn mun sjá til þess.
Kveðja að austan.
![]() |
Prentvélar ræstar við fögnuð fjárfesta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2015 | 09:11
Morgunblaðið á allan heiður.
Fyrir vandaða umfjöllun um loftlagsvána og fréttaflutning af málþinginu Heit framtíð, kalt stríð.
Minnir á þá gömlu góðu daga þegar ritstjórn blaðsins taldi það hlutverk sitt, fyrir utan að vera í bullandi pólitík, að fræða og upplýsa, bæði með ítarlegum fréttaskýringum sem og almennri umfjöllun um hin ólíklegustu málefni og fyrirbrigði.
Blaðamenn Morgunblaðsins eiga mikla þökk skilið, sem og ritstjórnin sem stýrir þessum fréttaflutningi, það er ekkert sjálfgefið að hægrisinnað blað segir sannleikann í málum þar sem hagsmunir auðs og fjármagns fara gegn þeim sannleika.
Ég ætla ekki fjalla efnislega um loftslagsbreytingar, skora aðeins á þá sem nefið reka í þennan pistil, að kynna sér þessa frétt sem ég tengi við, sem og aðrar þær fréttir sem vísað er á í tengslum við hana.
Það er þannig að þetta kemur okkur öllum við og við sem eigum líf sem þarf að vernda, getum ekki uppfyllt þá skyldu ef látum sem svo að þetta séu mál sem okkur komi ekki við.
Það eru börnin okkar og barnabörn sem munu upplifa Harmageddon ef allt fer á versta veg.
Nei, hér er að sjálfsögðu fjallað um frjálshyggjuvána, sem ein og sér er það alvarleg að loftlagsváin er aðeins daufar gárur í kaffibolla miðað við þá svörtu skepnu.
"Markaðstrúin er rót afneitunar" er yfirskrift þessarar fréttar og er þá vísað í Gavin Schmidt, forstöðumann Goddard geimrannsóknastofnunar NASA.
Þeir sem aðhyllist frjálshyggju hafi ekki getað sætt sig við þá staðreynd að markaðurinn hafi ekki sjálfur getað séð um að bæta upp neikvæð ytri áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda. Það hefur alltaf verið þessi hópur í Bandaríkjunum sem hefur verið svo uppfullur af kennisetningum hins frjálsa markaðar að hann hefur aldrei getað horfst í augu við að umhverfisvandamál séu vísbending um markaðsbrest og að markaðurinn sjái ekki um hlutina sjálfur á frábæran hátt.
Í þessi orð ætla ég að hnýta því mér finnst full mikli virðing sýnd þessum afglöpum sem ógna tilvist mannsins að láta þá komast upp með einhvera hugmyndafræðilega afsökun.
Þessir menn vita nákvæmlega allt um þá ógn sem blasir við, því bæði er þekking nauðsynleg forsenda trúverðugs fávitaháttar sem og árangursríkra blekkinga byggða á hálfsannleik og rangfærslna á staðreyndum.
Þeir þiggja hins vegar fé fyrir afstöðu sína og málflutning. Þeir eru málaliðar í þjónustu kolefnaiðnaðarins.
Taka aurinn fram yfir líf, svo einfalt er það.
Það er nefnilega mikill misskilningur að þeir sem knýja áfram hægriöfga séu einhverjir prinsippmenn eða eigi einhverja lífsskoðun aðra en veskið í rassvasa sínum.
Það er ekki svo, þeir þjóna.
Þjóna hinum ofurauðugu.
Ekkert annað.
Ef Exxon á sínum tíma tekið ákvörðun um að framtíð fyrirtækisins lægi í grænni orku, þá væru frjálshyggjumenn, allir sem einn miklir umhverfisverndarmenn.
Hugveitur þeirra og málgögn væru uppfull af fréttum um ávinninginn, um gróðann, um tækifærin sem fælust í orku og orkugjöfum sem væru sjálfbærir og ógnuðu ekki tilvist mannsins.
Og hægrimenn dönsuðu með.
Svo lítið skilur milli feigs og ófeigs.
En Ófeigur fékk að ráða.
Kveðja að austan.
![]() |
Markaðstrúin rót afneitunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2015 | 16:26
Hinn göfuglyndi stingur aftur.
Svona ef ske kynni að fyrri rýtingsstunga hafi ekki haft tilætluð áhrif.
Sem sannar að Bjarni er læs, á bókmenntir, sem reyndar er ákaflega sjaldgæft með hans líka úr geira frjálshyggjunnar, en Furstann hefur hann greinilega lesið.
Áður var vitað að hann þekkir til grískra sagna, um harðstjórann sem veitti öðrum harðstjóra lexíu um hvernig hann ætti að halda völdum. Trixið var einfalt, kennslan fólst í göngutúr út á akur með sigð í hendi, og þar var allt kornaxið sem stóð uppúr, afhausað, eða réttara sagt, kúttað niður í sömu hæð og restin. Fræði sem komu skýrt fram í skipun Ólafar Nordal í embætti innanríkisráðherra
Í Furstanum er tekið skýrt fram að orð móta ásýnd, ekki gjörðir, og dæmi tekin úr sögu Borgarættarinnar ítölsku.
Þess vegna kemur mærðin fyrst og síðan saltið í sárin, að traust skipti höfuðmáli, og því miður hafi Hanna Birna fyrirgert því trausti.
Kallast svona nett jákvæður stuðningur.
Í anda Borgara.
Hjörðin tekur undir, því það er í eðli hjarðar að fylgja, láta blekkjast, ekki spyrja spurninga, eins og um má lesa í Furstanum.
Spurninga sem Hanna Birna benti réttilega á, "af hverju ætti hún að fórna sinni pólitískri stöðu vegna málefnis einhvers "ómerkilegs" hælisleitanda"?
Eða hvernig stóð á því að fyrrverandi lögreglustjóri í Reykjavík var kominn með nýtt starf í Samfylkingarkerfi Reykjavíkur áður en hann sagði af sér af meintum prinsipp ástæðum?
Spurninga sem blasa við en eru ekki spurðar.
En má lesa um í Furstanum.
"Sett uppið" sem felldi Hönnu Birnu er svo augljóst, vitað var að hún myndi trúa sínu nánasta samstarfsfólki, og hún myndi verja það.
Ljónynjan myndi reyna fá skýringu á því sem hún skildi ekki, hún myndi á einhvern hátt ráðríkjast gegn embættismanninum sem með rannsóknina hafði að gera.
Og þá þurfti aðeins að tryggja, að annar embættismaður, sem reyndar er þekktur fyrir að halda kjafti, þagði til dæmis þegar þingmaður hótaði skattrannsóknarstjóra fangelsisvist ef hann kæmi upp um skattsvikara sem fóðra flokkinn, myndi hefja "algjörlega sjálfstæða rannsókn".
Sem gekk eftir og eftirmálin eru þekkt.
Enginn spyr af hverju aðstoðarmaðurinn sveik og blekkti Hönnu, enginn spyr af hverju allt gekk svo smúthh þegar gröf hennar var grafin.
Hvað fékk hann fyrir, hver var hans umbun?
Og út frá tölfræðilegum líkindum, þá er næstum því útilokað að fleiri séu læsir í forystusveit Sjálfstæðisflokknum, það er þegar sannarlega fannst einn, svo mjög er ólíklegt að Hanna Birna viti að hver gróf hennar gröf, og hrinti henni ofaní þar að auki.
Hvað þá að hún skilji hvað býr að baki hinu meintu göfuglyndi formannsins í hennar garð sem lesa má um í viðtalinu í Frjálsri verslun.
Vöndinn skal kyssa, og skóna skal sleikja.
Slíkt gæti tryggt fyrirgefningu og endurkomu.
Auk þess ávinnings að vera ekki axið sem höggvið er næst. Samanber að sá sem knékrýpur er ekki í áhættuhóp að vera höggvinn, eða í nútímanum, niðurlægður og smækkaður eins og henti þingflokk Sjálfstæðisflokksins.
Valdið er Bjarna, og göfuglyndi hans einnig.
Og sem aðdáandi Furstans, skrifa ég ekki þennan pistil til að gráta Hönnu, hún hjálpaði svo sem til við gröft sinn, heldur til að vekja athygli á hve klassísk rit þessi bók Machiavellis er, og tímalaus að auki.
Ásamt því að vekja athygli á því að ennþá eru lesnar bækur þó frjálshyggjan sem slík telur það algjöran óþarfa, enda lestur hvorki hagkvæmur eða líklegur til að auka tekjumöguleika fólks.
Að samt sem áður lesi formaðurinn, og nýti sér þann lestur sér til framdráttar.
Bókin lifir og á það skal bent.
Bækur fást á bókasöfnum, í bókabúðum, á bókamarkaði, eða heima hjá afa og ömmu.
Hún lifir í lestri okkar, og hún lifir í lifandi dæmum eins og þessi pistill fjallar um.
Dæmisögur, þekking, viska.
Hanna var hvort sem er óttalegur vargur, kvenmaður að auki.
Þess vegna gott viðfangsefni í þá dæmisögu sem lýst var hér að ofan.
Þegar skáldsagan varð raunveruleiki, og raunveruleikinn lygilegri en skáldsagan.
Og er því ekki trúað.
Eins og Borgia benti réttilega á, einn siðlausasti páfi Rómarkirkju, en vinsæll og vel liðinn meðal alþýðu manna.
Vissi sínu viti.
Og er ekki einn um það.
Kveðja að austan.
![]() |
Gerir ráð fyrir endurkomu Hönnu Birnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.10.): 555
- Sl. sólarhring: 668
- Sl. viku: 4247
- Frá upphafi: 1493527
Annað
- Innlit í dag: 498
- Innlit sl. viku: 3496
- Gestir í dag: 443
- IP-tölur í dag: 422
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar