20.8.2017 | 19:54
Tyrkland er einræðisríki.
Hugmyndafræðilega af sömu rótum og miðaldaríki Persaflóans, og samtökin sem tóku boðskapinn of bókstaflega, og við könnumst við sem ISIS.
Það er ekki svo langt síðan að tyrknesk stjórnvöld lokuðu fjölmiðlum og lögsóttu blaðamenn sem afhjúpuðu tengsl þeirra við ISIS, hvernig vopn og liðsauki flæddi óhindrað frá Tyrklandi, og til baka kom olía og annað sem fjármagnaði hryllingsherferð samtakanna í Sýrlandi og Írak.
Þá horfði Nató í hina áttina, sem í raun segir allt um leyndarþræði hagsmunanna, og þegar Erdogan og miðaldaklíkan í kringum hann datt í hug að setja á svið valdarán, þá var sú sviðsetning nýtt til að útrýma öllum pólitískum andstæðingum, á ekki síður skilvirkari hátt en hjá Stalín 1936-1938.
Og hryðjuverkastimplinum dælt í allar áttir.
Vissulega hafa voðaleg hryðjuverk verið frami í Tyrklandi, en þar sem spor alræðisstjórna hræða, þá er það í vægast sagt grunsamlegt, að fólk sem er fært um að skipuleggja flóknar árásir á almenning, að það skilji eftir öll skilríki í aðsetrum sínum, ásamt nafni og kennitölum allra sem áttu að vera viðriðin hið meinta hryðjuverk.
Ennþá grunsamlegra, þegar andlegir bræður tyrknesku miðaldamannanna, sem hefðu aldrei náð að leggja undir sig svona stór landsvæði í Sýrlandi og Írak án stuðnings tyrkneskra stjórnvalda, byrja allt í einu að ráðast á höndina sem fæddi þá og veitti þeim skjól.
Það er vitað að þegar tyrkneski herinn fór fyrst yfir landamæri Sýrlands undir yfirskininu að berjast við ISIS liða, að þá var sprengjunum beint að Kúrdum sem herjuðu á ISIS.
Sagan þekkir mörg svona dæmi um yfirskin en trúgirnin virðist ekki þekkja til þeirra.
Það er af sem áður var að þeir þóttu skrýtnir sem átu allt orðrétt upp eftir áróðri Göbbels.
Það er því miður að þessum hryðjuverkastimpli hefur verið klínt á alla sem tengjast andspyrnu Kúrdíska minnihlutans, líka þeirra sem hafa algjörlega starfað á löglegan hátt inna laga og reglna tyrkneska lýðveldisins.
Sem og þeirra sem andhæfa einræðinu, og andhæfa þeim beina vilja að færa klukkuna aftur á bak um 100 ár, að breyta lýðveldinu aftur í trúarveldi.
Allir settir undir sama hatt, og líkt og Stalín afgreiddi alla mögulega og ómögulegu andstöðu við sig sem gyðingalegt samsæri í þágu Þjóðverja.
Hin algjöra mótsögn, sem hugsandi fólk sá í gegnum, og hugsandi fólk á líka á sjá í gegnum þá mótsögn að miðaldamenn séu í baráttu við miðaldamenn. Og allir sem tengjast lýðræðinu eða nútímanum á nokkurn hátt, séu í bandalagi við þessa meintu miðalda andstæðinga miðaldamannsins Erdogans.
Og hugsandi fólk á að spyrja sig, af hverju líður Nató framferði tyrknesku einræðisstjórnarinnar, af hverju líður það sviðsett valdarán, og í kjölfarið ofsóknir á hendur tugum þúsunda meintra stjórnarandstæðinga, þar sem fólk er svipt atvinnu, mjög margir fangelsaðir, og alltof margir pyntaðir.
Ofsóknir sem þjóna þeim eina tilgangi að ganga af tyrkneska lýðræðinu dauðu.
Það er sem betur fer einn vestrænn stjórnmálamaður sem hamlar gegn einræðistilburðum Erdogans.
Og hann er sem betur fer kanslari Þýskalands.
Annars væri uppgjöfin algjör.
Kveðja að austan.
![]() |
Merkel: Tyrkir misnoti ekki alþjóðastofnanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.8.2017 | 10:12
Vinir og vandamenn Donalds Trump.
Eru ekkert sérstakir vinir.
Í raun hefur sala á blóðugum rýtingum og löngum hnífum stóraukist eftir að Trump komst til valda.
Og núna ætlar einn vinurinn að stofna sjónvarpsstöð, að sögn með því eina skilgreinda hlutverki að tala illa um aðra vini forsetans.
Ef marka má þessa frétt sakar hann þá um valdarán, að hafa bolað burt sér og öðrum raunverulegum stuðningsmönnum forsetans úr flokki repúblikana og eftir séu það sem hann kallar demókrata, en í fréttinni kallaðir hófsamari.
Og þá þarf að ausa aur, skíta út, allt að hætti þeirrar iðju sem nýfrjálshyggjan hefur ástundað af miklum krafti á Bandaríkjunum, allt frá því að hún braust til valda undir lok níunda áratugar síðustu aldar.
Þá var því spáð að ef lýðræði umbæri stjórnmálamenn sem ástunduðu vísvitandi blekkingar, aurburð, hálfsannleik ef ekki beinar lygar, kostaða af ríflegum fjárframlögum auðmanna og fyrirtækja þeirra, að þá myndi það upplifa sinn svanasöng.
Núna tæpum 40 árum seinna, hefur sá spádómur ræst.
Bandarísk stjórnmál eru farsi, forsetinn er trúður, og umhverfis hann er vargahjörð sem glefsar endalaust í andstæðinga sem meinta samherja.
Og herinn heldur uppi aganum.
Passar að fíflin fái engin raunveruleg völd.
En hvað gerist svo?
Hvað segir sagan um það?
Kveðja að austan.
![]() |
Valdameiri utan Hvíta hússins? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.8.2017 | 11:41
Það er vandlifað í þessum heimi.
Ef maður heitir Donald Trump, og vill vera maður sjálfur.
En fær ekki vegna þess að maður er forseti Bandaríkjanna.
Sjálfsagt að sýna kallinum vorkunn.
En eftir stendur að lýðræðið virkar ekki ef algjörlega vanhæfur einstaklingur, sem er augljóslega ga ga, getur nýtt fjármuni sína og markaðsþekkingu til að kaupa sér voldugasta embætti heimsins í dag.
Maður sem augljóslega stæðist ekkert persónuleikapróf sem bandaríska stjórnkerfið lætur væntanlegt starfsfólk sitt gangast undir til að athuga hvort það valdi starfi sínu.
Með almenna þekkingu sem mælist ekki. Er það sem kallaður var vitleysingur í gamla daga, á meðan mannamál var ennþá notað í samskiptum fólks.
Lýðræðið er dautt ef aurinn kemst upp með þau ósköp sem Trump er í embætti sínu.
Þannig að mikið er í húfi.
Síðan má spyrja, hvað er að fólki, sem telur sig sjálft sæmilega skynsamt, og að mestu með fullu viti, sem reynir að bera í bætiflákann fyrir Trump og reynir á allan hátt að afsaka framgöngu hans??
Burtséð frá því að í markaðssetningu sinni hafi Trump viðrað skoðanir sem ríma við þess eigið, að þá hlýtur það að hafa dómgreind til að sjá að ga ga og maðurinn með rauða hnappinn, er eitthvað sem á ekki að eiga samleið.
Hvað þá vit og skynsemi til að þekkja vitleysu og flumbrugang.
Trump gjaldfellir bandarískt lýðræði.
En að láta kallinn líka gjaldfella virðingu sína og vitsmuni, það er öllu óskiljanlegra.
Vonandi lifum þann dag, innan ekki svo langs tíma, að Mogginn ásamt öðrum fjölmiðlum sem telja sig virðulega, hætti að finna bætifláka, eða einhverja vitglóru í orðum og athöfnum þar sem enga vitglóru er að finna.
Og segi einfaldlega í fyrisögn; maðurinn er fífl.
Og málið ekki rætt frekar.
Því það þarf 2 til svo vitleysan þrífist, líka þann sem umber hana.
Og hans er sökin.
Kveðja að austan.
![]() |
Oftar kallað svarta rasista en hvíta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.8.2017 | 23:08
Af hverju hleypur hann ekki gegn spillingu?
Og sjálftöku þess fólks sem gerir út Engey ehf.
Þetta eru hvort sem er aðeins örfáir ættlaukar að viðhalda ítökum eldgamals fjármálveldis á fallandi fæti.
Sem lugu og blekktu sig til valda.
Reyndar er engin afsökun fyrir fíflin sem kusu Benna frænda og útbúið sem hann kallaði Viðreisn, þó reynt sé að leita að heimskari fólki sem kaus á móti kerfinu, og kaus Viðreisn, en það er engin afsökun fyrir restina að þjóðinni að sætta sig við þá blekkingu sem í raun var valdarán einnar auðfjölskyldu yfir stjórnkerfi landsins.
Að hlaupa síðan til stuðnings fórnarlamba niðurskurðarins er síðan ekki einu sinni kattarþvottur, heldur aðeins dæmi um firringu valdhafa sem ekki getur sett sig í spor náungans.
Skilur ekki af hverju heimurinn er eins og hann er, því sjálfur er hann alsæll með stöðu sína og laun.
Guðni er vissulega engin rebel, hann vann fyrir ICEsave þjófanna, og var heppinn að hér á landi giltu ekki bresk lög.
En hann hefur ekki vottorð uppá að vera bjáni, allavega ekki skjalfest.
Og áratugur niðurskurðar í þágu fjármagns, er áratugur þar sem lausnir og þekking eru þurrkuð út í nafni niðurskurðar og hagræðingar, og gjörspilltir, siðblindir stjórnmálamenn voga sér síðan að benda á undirmannað heilbrigðiskerfi í algjörri niðurníðslu, og segja að það þurfi að skerpa verklagsreglur.
Og afleiðingarnar eru þær sem við öll þekkjum, þó aumkunarvert sjálfstæðisfólk reyni endalaust að réttlæta ósómann.
Eitthvað sem forseti vor á að gera sér grein fyrir og skilja.
Hann var allavega kosinn út á eitthvað sem fólk túlkaði að hann væri ekki samdauna gjörspillingunni og sjálftökunni.
Hvað þá að hann gæfi sig út að kóa með niðurrifi Engeyinganna.
Eða afleiðinganna af því niðurrifi.
Og hafi hann ekki kjarkinn til að berjast gegn, þá gæti hann allavega verið heima hjá sér og lesið bók.
Kannski bók sem segir honum frá því að sjálfsvíg eða annar sjálfsskaði, er eitthvað sem hægt er að takast á við, líkt og krabbamein eða offitu.
Það þarf aðeins heilbrigðiskerfi sem er í stakk búið að takast við þessa sjúkdóma sem og aðra.
Þetta er ekkert vúdú, ekkert frekar en lækning við krabbameini.
Spurningin er bara í hvað þjóðarauðurinn er notaður.
Hvort hann er til dæmis til að flytja fjármuni úr landi, til dæmis til að byggja sumarvillur í Flórída, eða hvort hann sé auður sem við notum til að bæta og fegra mannlífið.
Og takast á við þau vandamál sem þjóðin glímir við.
Til dæmis til að lækna og líkna.
Sé það ekki gert, þá er full ástæða til að benda á að það sé ekki gert.
Og fáir eru betur til þess fallnir en sá sem þjóðin treysti til að vera sameiningartákn hennar.
Það tákn persónugerir ekki vandann með því að safna fyrir því sem við öll greiddum skatt til að yrði gert en var ekki gert.
Heldur fordæmir það þá sem ábyrgðina bera.
Fjölmiðlafíkn, eða fjölmiðlasirkus fær þar engu um breytt
Þetta er spurningin um að vera.
Kveðja að austan.
![]() |
Forsetinn hleypur fyrir PIETA |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.8.2017 | 17:47
Þegar þú segir að yfirmaðurinn þinn sé trúður.
Þó reyndar undir rós, þá er eðlilegt að þú sért rekinn.
Líklegast eðlilegasti brottrekstur Trump.
Eftir stendur að Morgunblaðið, og ritstjóri þess er eini staðfesti fjölmiðill hins vestræna heims sem ennþá heldur tryggð við Trump.
Og það er afrek út af fyrir sig.
Kveðja að austan.
![]() |
Steve Bannon tekur pokann sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.8.2017 | 16:56
Sá sem ekki má teikna, er mikill.
Og ennþá meir er heiður hans ef verðugir myrða óverðuga og kenna það við heiðursmorð.
Sem að öllu jöfnu væri nefnt sem dæmi um úrkynjun mannsandans, líkt og mannát, eða sá sérkennilegi siður hjá sumum þjóðflokkum í Austur Afríku, að fjarlægja kynfæri annarra, til að öðlast manndómsvígslu, nema það er ekki nefnt, því einhver, aðallega hundheiðnir sem tilheyra góða fólkinu, mega ekki á staðreyndir minnast.
Með þeim afleiðingum, að friðsöm hverfi, friðsöm samfélög, eru undirlögð hatri og heift.
Kvennakúgun og ofbeldi gagnvart öllum þeim sem líta á dagatalið og segja, nú er 21. öldin.
Svo vælum við og skælum þegar við erum drepin.
En við segjum ekki orð um heljargreipar öfga og haturs í samfélögum fólks, sem er alveg eins og við, með konum, körlum og börnum, en eru undirlögð kostunar miðaldamanna sem nota bene, eru í heilögu bandalagi við Auðinn okkar og hina Örfáu sem eiga hann.
Ofbeldið, kúgunin, morðin sem við fréttum, eru aðeins dropinn sem fyllir vatnið, við bendum á vatnið, og segjum, þetta er aðeins dropi.
Svo drepur hatrið og heiftin.
Og þeir sem ávinning hafa, segja, ekki benda á það.
Þetta gæti verið rasismi.
Þess vegna var Churchill mesti rasisti 20. aldar, hann réðist á hatur og heift nasismans, og uppskar dóm rétttrúnaðarins, að hann ætti ekki að ráðast á þá merku þjóð, Þjóðverja.
Í dag má ekki nefna Íslamista eða aðra öfgamenn, þeir eru múslimatrúar, og réttileg ábending um morðæði þeirra, er túlkuð sem árás á allan hinn múslímska heim.
Skiptir hina rétttrúuðu í hópi góða fólksins, sem nota bene hefur framfærslu sína af því að vera svona góð og réttsýn, að flest fórnarlömb miðaldamannanna, kostaða af Saudum og öðrum miðaldarríkjum Persaflóans (að ógleymdum Tyrkjum, en það má ekki nefna því þá verður Davíð ofsalega fúll, og ekki þjáist hann af rétttrúnaði) eru trúbræður þeirra, fólk eins og ég og þú, fólk sem á tilveru, á börn, og átti framtíð, þar til kostaðir öfgamenn réðust gegn þeim.
Svona er heimurinn í dag.
Kostuð skrípi stjórna öllu.
Líka viðbrögðum okkar gegn morðóðum öfgamönnum.
Í þágu auðs og gróða.
Sem aldrei fær nóg.
Fyrst voru fyrirtækin okkar yfirtekin og færð til þrælabúða þriðja heimsins.
Svo var velferðin okkar eyðilögð.
Bjarni Ben og Benni frændi eru ekki tilviljun.
Og núna erum við drepin.
Svo hægt verði að ganga að lýðræðinu dauðu
Og við látum þetta yfir okkur ganga.
Kveðja að austan.
![]() |
Tveir látnir eftir árásina í Turku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.8.2017 | 23:06
Launmorðingjar og glæpamenn.
Síðan byrjar söngurinn um að þetta hafi ekkert með trúarbrögð að gera.
Ekkert með innflytjendur frá Norður Afríku.
Við þurfum að standa saman, láta ekki sundra okkur og svo framvegis.
Og hvað svo??
Eru dagar, vikur í næstu fjöldaslátrun á saklausu fólki??
Og gerendurnir eru allir eins í útliti, kyrjandi sama sönginn, "einhver sem má ekki birta mynd af, er mikill".
Og þeir halda áfram að vera launmorðingjar og glæpamenn.
Og eina sem öruggt er að ekki verður ráðist að rótum vandans.
Að einhverjum óskilgreindum ástæðum sem þeir einir skilja sem vélaðir eru inní hið launheilaga bandalag fjármagns og stjórnmála sem öllu ræður í hinum vestræna heimi í dag.
Fyrir ekki svo mörgum árum, voru fáir svo vitlausir að sjá ekki augljós tengsl flæðandi fjármagns frá Sovétríkjunum og voðaverka hópa borgaraskæruliða, sem drápu mann og annan í þágu hinnar sósíalísku byltingar, eða hinna ýmissa vinstrisinnaða byltingarsamtaka í þriðja heiminum, sem allar sem ein ætluðu að koma á sósíalísku þjóðfélagi en dunduðu sér aðallega við að hrella náungann í nærumhverfinu.
Þegar múrinn féll, þá gerðist tvennt, byltingarhóparnir og þjóðfrelsishreyfingarnar hurfu eins og döggin í sólinn og vitleysingarnir um leið.
Hryðjuverk og byltingar þrífast ekki án kostunar, vitleysingarnir voru ekki svo vitlausir eftir allt saman, vitleysa þeirra var líka kostuð.
Og svona í framhjáhlaupi, friðarhreyfingarnar sem kröfðust einhliða afvopnunar vestrænna ríkja fyrir framan byssukjafta skriðdreka Varsjárbandalagsins, þær hurfu líka, sem og hinir aðeins fleiri vitleysingar sem héldu því fram að þessi samtök væru sjálfsprottin og hefðu ekkert með sovéskt fjármagn að gera.
Á þessum tíma var vissulega erfitt fyrir vestræn ríki að stöðva þetta fjárstreymi að austan, en engin dæmi eru um það að vestrænir stjórnmálamenn, nema náttúrulega kommúnískir jaðarhópar, hafi unnið með Sovétmönnun í útbreiðslu hryðjuverka, eða á annan hátt gert þeim auðveldara að dreifa fjármagni til áhugafólks um að drepa náungann.
En hvað gera okkar ágætu stjórnmálamenn í dag, fyrir utan að gjamma hin innantómu stóryrði??
Jú þeir keppast um að selja rótinni vopn.
Og lyfta ekki litla fingri til að stöðva fjárstreymið frá henni.
Og ekki bara það.
Hverjir voru helstu andstæðingar múslímsku miðaldaríkjanna við Persaflóann meðal Arabaríkjanna??
Jú, það voru veraldlegir einræðisherrar Sýrlands, Íraks og Líbýu, í öllu þessum löndum voru múslímskir miðaldamenn skotnir á færi létu þeir sjá sig innan landamæra viðkomandi ríkja.
Hver urðu örlög þessara einræðisherra??
Hver var átyllan sem notuð var til að hefja aðförina að þeim??
Var það ekki þegar Saudískir hryðjuverkamenn, fjármagnaðir af aðilum í tengslum við Saudíska konungsfjölskylduna, fóru með fullri vitneskju bandarískra leyniþjónustustofnana að læra fljúga (en ekki að lenda, þeir sögðust ekki þurfa þess) í Bandaríkjunum, og flugu síðan á Tvíburaturnana eins og frægt er.
Og daginn eftir tilkynnti þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að þessum hryðjuverkum yrði að svara með því að ráðast á Írak, og koma Saddam frá völdum. Einræðisherra sem hafði engin tengsl við hryðjuverkamennina, og drap alla skoðanabræður þeirra sem hann kom höndum yfir.
Samhengi hlutanna er því miður of augljóst.
Að trúa því í eina mínútu að þarna séu ekki dulin tengsl á milli, bendir til mikillar kostunar.
Meiri heldur en hjá Sovétinu á sínum tíma.
Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að svarið við hryðjuverkum er ekki að loka alla inni sem líkjast fyrrum gerendum, og eru sem heild sannarlega í áhættuhópi að vera hryðjuverkamenn morgundagsins.
Hvað þá að hrekja milljónir friðsamra borgara úr landi.
Allavega var enginn svo vitlaus á áttunda áratugnum, áratug hinna borgaralegu skæruliða, að leggja til að allir háskólanemar frá velstæðu fjölskyldum skyldu dúsa í fangabúðum því sannarlega komu allir meðlimir hinna meintu vinstrisinnaða skæruliðahópa frá velstæðum borgarafjölskyldum, en ekki frá verklýðsstéttinni sem þetta fólk þóttist vera að berjast fyrir.
Það var reynt að berjast við rótina, og sú barátta var kölluð Kalda stríðið.
Í dag er unnið með rótinni, hún kölluð mikilvægur bandamaður, og henni gert sem auðveldast að útbreiða miðaldaboðskap sinn.
Og það sem verra er, hin stanslausa síbylja um að hryðjuverkin tengist ekki Íslam eða múslímskum innflytjendum viðkomandi landa, fær fólk einmitt til að tengja þetta tvennt saman.
Og það mætti jafnvel halda að leikurinn sé til þess gerður.
Því það er bissness í ólgu og upplausn, sérstaklega ef þau leiða til vígbúnaðar og jafnvel styrjaldarátaka.
Svo má nýta svona hryðjuverk til að afnema borgarleg réttindi, og koma á lögregluríkjum.
Ferli sem þegar er hafið.
Það er ljótur skollaleikur leikinn í dag.
Leyndarþræðir hagsmuna knýr hann áfram
Og líf okkar og frelsi er undir.
Okkar allra, hvort sem við erum kristin, múslímsk eða án trúar.
Hvort sem við erum hvít, brún eða svört.
Þessi skollaleikur ógnar okkur öllum.
Og það sér ekki fyrir endann á honum.
Ekki á meðan persónur og leikendur komast upp með hann.
Komast upp með að sundra, tvístra, blekkja.
Og þeir eru hinir raunverulegu launmorðingjar og glæpamenn.
Feisum það.
Kveðja að austan.
![]() |
Launmorðingjar og glæpamenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
17.8.2017 | 10:00
Hægri höndin fordæmir hægriöfga.
Bendir réttilega á eðli þeirra og skapferli.
Er samt jákvæður, kallar þá trúða.
Spurning um dýpri merkinguna þar að baki.
Er vík milli vina, er verið að sneiða að höfðinu því án höfuðs er engin hægri hönd.
En Trump er samt ekki án vina.
Það er utan hægriöfgavina.
Á Íslandi koma menn honum til varnar.
Og Reykjavíkurbréfið mun einhvern hanska finna.
Jafnvel lúinn hrísvönd til að hirta þá sem gefa í skin að kallinn í Hvíta húsinu sé trúður.
Réttilega verður bent á að Trump sé misskilinn.
Réttilega verður hins vegar deilt um inntak þessa misskilnings.
Því sitt sýnist hverjum um þennan ágæta bissnessmann sem fór í víking og lagði undir sig voldugasta embætti vestrænna lýðræðisríkja.
Eftir stendur að það fækkar í vinahópi hægriöfga.
Allavega þar til næsta bylgja þeirra skellur á strendur lýðræðisríkja.
Hvað gerist þá??
Það er þekkt hvað gerðist síðast.
Kveðja að austan.
![]() |
Bannon segir hvíta þjóðernissinna trúða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.8.2017 | 19:08
Churchill bar mikla sök á seinna stríði.
Strax á fjórða áratugnum snérist hann gegn nasismanum, varaði við öfgum þeirra, kynþáttahatri og hernaðarhyggju.
Á sínum tíma var hann fordæmdur fyrir að leyfa Hitler, og hægri stefnu hans að njóta ekki sannmælis.
Það þurfti stríð til, beina árás hægri öfganna að fleiri hugsuðu, að fyrr hefði átt að snúast til varnar.
Hatrið og heiftin áttu ekki að umberast.
Á tímabili sagði sagan að Churchill hefði haft rétt fyrir sér.
Það var fyrir daga frjálshyggjunnar og endurreisn lénstímabils hins nýja, þar sem Örfáir eiga því sem allt, en restin berst um síminnkandi hlut af þjóðarkökunni.
Og hinir Örfáu fjárfestu í mönnum eins og Trump.
Og við lesum fréttaskýringu þar sem við lesum að Churchill bara mikla ábyrgð á seinna stríði.
Í Morgunblaðinu af öllum blöðum, eins og gleymd sé sú arfleið þegar ritstjórar Morgunblaðsins gáfu þjóðernisöfgum engan afslátt.
Það er af sem áður var.
Kveðja að austan.
![]() |
Hvað gekk á í Charlottesville? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.8.2017 | 13:11
Sameinaðir í fótbolta.
Enda hvað annað sameinar fólk á þessum antitímum þar sem fáfræðin og forheimskan ýta undir öfga og öfgafólk, sá sem hrópar hæst að náunganum á sviðsljósið þá og þá stundina.
Á Íslandi má jú nefna Fiskidagana á Dalvík og Gleðigönguna.
Og veðrið, ekki má gleyma því.
En global virðist fótboltinn vera það eina sem fær fólk til að gleyma sér, það hættir að sjá húðlit, eða heyra málhreim, það sér boltann, og fer að sparka ef það getur.
Það ræðir hann, jafnvel með handapati ef tungumál dugar ekki, jafnt við nágranna sína, sem og ókunna sem eiga leið fram hjá.
Og það horfir á hann, horfir á þá þá bestu takast á.
Þegar vel gengur gleðjast menn.
Fella tár ef miður gengur.
Fyrir ekki svo löngu las ég viðtal í blaðinu, við ungan mann sem ferðaðist um Afríku og tók myndir af fólki sparka bolta.
Í fátækt og örbirgð, á átakasvæðum og hörmungarsvæðum, einnig þar sem velsæld var og velmegun, í dreifbýli og þéttbýli.
Oftast aðeins bolti, sjaldnast eitthvað sem kallast útbúnaður, allavega á okkar mælikvarða.
En alls staðar bros og gleði.
Eins kona óminni eða alsæla frá misbitrum raunveruleik.
Auk margs annars, þá sönnuðu þessar myndir eitt.
Það er ekkert að fólkinu, þó margir reyni að telja okkur í trú um að svo sé, heldur það er eitthvað mikið að því fólki sem stjórnar því.
Sem samt í raun hefur líka gaman af fótbolta, og getur gleymt sér í spenningi leiksins.
Og hlýtur því að vera inn við beinið alveg eins og við öll hin sem elskum þessa tuðru.
Ágætis fólk.
Og vatnið er eins, himinn er eins, sama loft sem er lífgjafinn, í raun ekkert sem útskýrir af hverju þessi fallega álfa, byggð þessu brosmilda fólki, er eins sundurtætt af ófriði, tærð af spillingu og óstjórn.
Ef þessi ungi ljósmyndari hefði farið sömu erinda til Mið Ameríku, þá hefði hann tekið sömu myndirnar, af sama brosmildu fólkinu, spilandi fótbolta.
Alveg eins og unga fólkið sem spilar fótbolta saman í Bronx.
Bros og gleði.
Algleymi stundarinnar.
Samt er þetta unga fólk á flótta.
Samt er Mið Ameríka sundurtætt af afleiðingum misskiptingarinnar.
Samt er Afríka undirlögð af hrægömmum og hræætum sem sjúga út hverju örðu verðmæta, og ýta undir óstöðugleika og óstjórn um alla álfuna.
Afleiðingin er fólk á flótta.
Flótta frá Mið og Suður Ameríku til velstæðra nágranna í norðri.
Flótta frá Afríku yfir Dauðahafið til velstæðra nágranna í norðri.
Hatrið og heiftin segja að við eigum að loka þetta fólk úti, reisa veggi og múra, og senda þá heim sem sleppa yfir girðingarnar.
Og í antiheim þar sem samúð og samhygð hafa vikið fyrir sjálfhverfu og sérhyggju, þá er hatrið og heiftin kosin til valda, og vandinn á hverfa ef við bara lokum hann úti.
Eins og fólk þekki ekki þau sannindi sögunnar, að fólk sem getur ekki bjargað sér heima fyrir, það leitar alltaf þangað þar sem það telur björgina vera.
Hundrað í dag, þúsund á morgun, milljón að ári, og einn daginn láta múrar undan þrýstingnum, líkt og stífla heldur því aðeins ef frárennsli hennar hefur undan því vatni sem streymir í lónið.
Hatrið og heiftin leysa því engan vanda.
Þau gera hann aðeins óviðráðanlegan.
Og fáfræði og forheimska fær því engu breytt.
Líkt og maður sem fór nakinn á Suður pólinn og sagði, "hér er ekki kalt", að hann fraus í hel samt sem áður.
Afneitun er aðeins afneitun, hún er aldrei lausn, ekki einu sinni slæm lausn.
Hvað er til ráða?, hvað er þá hægt að gera??
Hversu rík sem við erum, þá þrýtur hjálpsemi okkar örendið einn daginn, því þegar við höfum reist hjálparbúðir fyrir milljón, þá koma níu milljónir í viðbót árið eftir. Náum við að hjálpa þeim, þá koma 90 milljónir árið þar á eftir.
Því hjálp fjarri heimahögum, er alltaf hjálp þó um langan veg sé að fara.
Dilema sem gengur augljóslega ekki upp.
Þá fara stjórnmálamenn að rífast.
Sumir kenna fólkinu um, því sé ekki viðbjargandi.
Aðrir kenna um spilltum stjórnvöldum, enn aðrir benda bendifingrinum á kerfið.
Einn skammar markaðskerfið, annar skammar það sem hann segir að sé sósíalískt, því viðkomandi stjórnvöld hafi reynt að stemma stigu við starfsemi hrægamma og blóðsuga.
Í raun vita þeir ekkert hvað hægt er að gera, vítahringur fátæktar, óstjórnar og örbirgðar virðist seint rofinn, þegar skarð kemur í hann, þá fylla tregðuöflin uppí það skarð jafnóðum.
Samt er fólkið gott.
Um það getur enginn efast sem sér það glaðbeitt gleyma sér við að sparka tuðru sín á milli.
Og það getur bjargað sér, fái það hið minnsta tækifæri til þess fyrir utanaðkomandi eyðingaröflum. Það vita þeir sem hafa starfað á vettvangi, og útbreytt þekkingu og menntun.
Vandi þess er sá sami og okkar sem höfum séð velmegunarþjóðfélög grotna niður innan frá.
Við erum líka á barmi upplausnar og óaldar.
Hvar sem við lítum í kringum okkur eru hnefar á lofti, á milli hópa, á milli samfélaga, á milli þjóða.
Og það er kynnt undir, það er kynnt hressilega undir.
Og við erum öll að vera fátækari og fátækari, á meðan Örfáir eru að verða ríkari og ríkari, og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun.
En það er ekki vandinn.
Það er afleiðing.
Alveg eins og það er afleiðing að gjörspilltir pótintátar stjórni þeim ríkjum þar sem fátæktin er mest.
Því vandinn er ekki á sviði stjórnmála eða hagfræði, hvað þá að hann snúist um þessa þjóðfélagsgerð eða hina.
Hann er ekki hugmyndafræðilegur.
Hann er vandi sem er í öllum samfélögum þar sem guð er dauður og tómið eitt nærir andann.
Hann er siðlegur, hann er heimspekilegur.
Hann snýr að okkur sem manneskjum, hvað við erum, hvað við viljum vera.
Það erum við sem kusum Mammonsdýrkendum til valda.
Það erum við sem leyfðum heimspeki þeirra, heimspeki dauðans að gegnsýra alla hugsun okkar og nálgun á samfélag okkar.
Heimspeki sem leiðir aðeins til eins, ólgu og upplausnar og að lokum, eyðingar, dauða.
Það er sama hverjir stjórna, sama hvaða skrautheiti menn hnýta á nöfn flokka sinna, hvort sem langafar þeirra hafa einu sinni verið vinstri menn eða hægri menn, að á meðan kerfið lýtur lögmálum Mammons, á meðan heimspeki hans gegnsýrir alla nálgun og athafnir stjórnmálamanna, þá er niðurstaðan alltaf, niðurstaða Mammons.
Auðsöfnun Örfárra, niðurbrot velferðar og velmegunar, í kjölfarið ólga, ringulreið, upplausn, átök.
Eyðing, auðn, dauði.
Og ekkert fær því breytt, nema breytingin sjálf.
Mammonsdýrkendur verði aftur gerðir að skógangsmönnum, en hornkerlingarnar, Mannúð og Mennska séu leitaðar uppi og boðnar velkomnar aftur í samfélag okkar.
Hafðar í hávegum, hlustað á þær.
Þá smá saman breytist allt.
Líka hjá þeim fordæmdu.
Er von??
Já, á meðan fótboltinn sameinar.
Hann sýnir að þrátt fyrir alla innrætinguna, að við séum ekki mennsk, heldur sálarlausir neytendur sem kjósum með buddunni, að þá erum við lifandi.
Lifandi fólk sem innst inni þráum bara það eitt að hafa í okkur og á, og lifa í þokkalegri sátt við annað fólk.
Hvar sem það býr, hvernig sem það er litinn, sama hvaða mál það mælir.
Við erum öll fólk.
Sem allavega elskum fótbolta, og gætum alveg fært eitthvað af þeirri ást yfir á náungann.
Því hann er jú forsenda þess, að við getum spilað fótbolta.
Já, náunganum er ekki alls varnað.
Án hans er enginn fótbolti.
Og ekkert mannlíf heldur
Kveðja að austan.
![]() |
Ógnað af Trump en sameinaðir í fótbolta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.9.): 23
- Sl. sólarhring: 408
- Sl. viku: 3500
- Frá upphafi: 1491178
Annað
- Innlit í dag: 19
- Innlit sl. viku: 2913
- Gestir í dag: 19
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar