25.2.2018 | 11:05
Lágstéttin kom Trump til valda.
Hann launaði henni greiðann með því að gera þá ríku ennþá ríkari.
Samkvæmt mottóinu, að þegar þú átt ekki aura þinna tal og allar hirslur erlendis eru fullar, þá gætir þú alveg ráðið innlenda í vinnu.
Sérstakleg þegar þú ert búinn að taka af þeim sjúkratrygginguna, afnema lágmarkslaun og gera þá á allan hátt samkeppnisfæra við þrælavinnuafl global hagkerfisins.
Hvort þessi forsenda Trump gangi upp, að molarnir skríði um fátækrabælin á eftir að koma í ljós.
Hann allavega stóð við loforð sitt að lækka skatta hinna ríku, og hann stóð við loforð sitt að svipta fátæklinga heilbrigðisþjónustu.
Það er ekki svo að hann logið sig til valda. Hann laug vissulega öllu mögulegu en það sem hann sagði konkret hefur hann reynt að efna.
Vandinn er bara að það er bein fylgni milli samþjöppunar auðs og aukinnar fátæktar, því auður sem slíkur er takmörkuð auðlind, og því færri sem eiga hann, því fleiri eiga hann ekki. Og auður hinna Örfáu hefur þá tilhneigingu að leita þangað þar sem mesta skammtímagróðann er að hafa.
Og til hvers að nota innlenda þræla þegar þeir erlendu eru ódýrari??
Sem er líklegast skýring þess að þegar fjöldinn fékk vægi, þá var það hans fyrsta verk að afnema þrælahald, og byggja þess í stað upp samfélag sem byggðist á velmegun og velferð.
En það var þá, síðan hefur margur dropinn fallið til sjávar.
Auðurinn snérist til varnar, gerði bandalag við andskotann og síðan á níunda áratug síðustu aldar hafa kostaðir stjórnmálamenn undir merkjum frjálshyggjunnar markvisst unnið að auknu frelsi auðsins á kostnað fjöldans.
Globalvæðingin er bein afleiðing þess.
Globalvæðing er fínt orð yfir nútímaþrælahald, í engu siðlegra en gamla þrælahaldið kennt við Rómverja.
Og globalvæðingin étur upp velmegun og velferð fjöldans.
Vörn lágstéttarinnar hefur brotist fram í þeirri tilhneigingu að kjósa þjóðernissinna, það er flokka eða stjórnmálamenn sem á einn eða annan hátt segjast andvígir globalvæðingunni, og vilja það sem kalla má, framleiðsluna heim.
Aðeins í Bandaríkjunum hefur henni tekist að koma slíkum stjórnmálamanni til valda.
Auðkýfingi vissulega, lýðskrumara vissulega, fasista vissulega.
En fyrst og fremst andófsmanni gegn kerfinu, gegn elítunni.
Þess vegna er svo fróðlegt að fylgjast með þróuninni í Bandaríkjunum.
Það er allavega ljóst að Trump er að reyna að framkvæma þá stefnu sem hann boðaði en árangurinn er undir öflum sem hann hefur enga stjórn á.
Hvernig bregðast stórfyrirtækin við ákalli hans um að koma heim með framleiðslu sína, og á hvaða kjörum fyrir verkafólk verður það gert??
Mun auðstéttin nýta skattaafslætti sína innan hagkerfisins, eða safna bara auðnum í sjóði??
Skynjar hún alvörun að baki ákalls Trumps, að þetta sé hennar síðasta tækifæri áður en kutar verða brýndir?
Því Trump vakti upp vonir og væntingar um betri tíð, og sagan kennir að þegar slíkar vonir bregðast, að þá rumskar fjöldinn.
Og eitt sem öruggt er að hann mun ekki kjósa auðkýfing næst til að vega kerfið.
Og bandaríkjamenn hafa áður bylt.
Kveðja að austan.
![]() |
Skattabreytingar skiluðu Buffett 29 milljörðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2018 | 17:52
"Ekkert mikilvægara en öryggi barnanna okkar"
Þess vegna fjölga repúblikanar byssunum, auka þannig óttann og um leið margfalda gróða kostunaraðila sinna.
Og það er stutt í að það flóttafólk frá Sómalíu sem sleppur í gegnum kynþáttargleraugun að því finnist að það sé komið heim, eða réttara sagt hafi ekki farið neitt.
Vélbyssur seldar með bjórdósum og vopnaðir verðir út um allt.
Skólarnir eins og virki, allir dauðhræddir.
Hvernig gat siðmenningin hrunið svona í Bandaríkjunum??
Hvaða óendanlegu illskuöfl og flærð býr þar að baki??
Og hvernig gat fólk orðið svona heimskt að kaupa að illa launaður öryggisvörður, þó hann sé kallaður lögga, vopnaður skammbyssu, stöðvi illvilja vopnaðan stríðstólum.
Að kaupa þau orð að stjórnmálamaðurinn, og flokkurinn hans telji ekkert mikilvægara en öryggi barna þess, jafnvel mikilvægara en fjárframlögin frá framleiðendum drápstólanna.
Við lifum jú ekki fáfræði og hindurvitni hinna myrku miðalda.
Og jafnvel þá reyndu menn að berjast gegn hugmyndafræði djöfulsins, menn gerðu hana ekki að sinni, húm var ekki leiðarljósið.
Það var ekki allt leyfilegt jafnvel þó mætti græða á fólskunni, illskunni, mannvonskunni.
Ómennskan þurfti að virða ákveðin mörk.
Mörk sem gróðinn afmáir í dag.
Við lifum ótrúlega tíma.
Þar sem fólk getur sagt hvað sem er.
Bullað út í eitt.
Í valdastóli en ekki í ga ga húsum.
Það er stutt síðan að froðufellandi vitfirringur æsti upp þjóð til voðaverka.
Úr valdastól, ekki í spennitreyju.
Ekki meir var sagt eftir þann hildarleik.
Nú græða menn á dauð barna okkar og komast upp með það.
Og orðfærið er æ oftar laust við alla skynsemi, allan sið.
Það eina sem truflar er að börnin vilja ekki deyja, og þau mótmæla.
En þau ættu frekar að spyrja mömmu sína og pabba, og ekki hvað síst, afa sína og ömmur, af hverju kjósið þið vitfirringuna yfir okkur.
Hún er á ykkar ábyrgð.
Það er nefnilega hollt að líta í sinn eigin barm.
Kveðja að austan.
![]() |
Lögreglumaður við hvern skóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2018 | 10:09
Fréttir af landsfundi VG, eða þannig, og annað.
Og í fyrsta sæti er????
Gamla fólkið, --Nei nei neineinei.
Öryrkjar, láglauna fólkið; --Neineineinei.
Jöfnuður, réttlæti, bræðralag, - Nei hvernig látið þið ykkur detta það í hug.
Vogunarsjóðirnir!!! Já--, þeir borga svo vel, þar eru peningarnir.
Loksins eftir öll þessi ár fáum við loksins að þjóna þeim á ný.
Lengi lifi fjármagnið, lengi lifi Friedman, lengi lifi Mammon.
Og þar með vaknaði ég, svona létt martröð, eða þannig.
Samt þegar ég leit út um gluggann, og sá rigninguna, hráslagann, þá hugsaði ég, hefur í raun ekkert breyst?? Ekki að það var líka rigning í gær, heldur að fyrirsagnirnar eru þær sömu, orðræðan sú sama.
Endalaust verið að rífast um fjármagnið, fjármálakerfið, hagsmuni þess, umgjörðina, leikreglur, eignarhald.
Og núna þegar þjóðin upplifir fordæmalaust góðæri, þá er talað um stöðugleika gjaldmiðilsins, þörfina fyrir að safna í sjóði, spara hagræða.
Og mikilvægi þess að GERA EKKERT.
Það hafi aldrei verið mikilvægara að gera ekki neitt.
Ekki byggja vegi, ekki byggja sjúkrahús, ekki gera við leka, ekki hindra skemmdir á sameiginlegum eigum þjóðarinnar.
Við erum eins og nirfillinn sem nýtti góðærið til að safna gulli í kistil sem hann gróf síðan í jörðu, í stað þess að byggja upp, stækka bústofninn, brjóta nýtt land undir ræktun.
Eins og það sé hægt að lifa á gulli sem grafið er í jörðu.
Og enginn talar um að það sé vitlaust gefið.
Að krónan okkar er vitlaust skráð, hún ýtir undir eyðslu á rándýru glingri en velferðin, velferð barna okkar, foreldra okkar, okkar sjálfra þegar slys eða sjúkdómar hafa gert sig heimakomin, hún er hornreka.
Velferðin er afgangsstærð, eitthvað sem kemur síðast, og það er hún sem veldur óstöðugleikanum, fjárlagahallanum, þrýstingnum á krónuna.
Hún er ekki lengur forsenda siðaðs samfélags, límið sem heldur því saman.
Hún er afgangsstærð.
Og á hana er ráðist, daginn út og daginn inn.
Aðallega af köllum í Armani jakkafötum, með axlasig af því að halda á úttroðnum skjalatöskum með bónusgreiðslum, ofurgreiðslum, kaupaukagreiðslum.
Í þeirra augum er velferðin ógn. Hún ógnar stöðugleikanum, krónunni, sjálftökunni.
Ekki í eina sekúndu hvarflar að þeim að hin úttroðna skjalataska eigi einhvern hlut að máli. Að hún taki of mikið til sín, að þeir gætu þurft að gefa eftir.
Þeir tala samt um velferðina, þó það sé bara til að hnýta í hana.
En stjórnmálamenn okkar tala bara um fjármagnið, svona þegar þeir eru ekki að rugla tóma steypu um allt og ekkert.
Fjármálakerfið, einkavæðing, vinavæðing, óvinavæðing, eignarhald.
Alfa og omega, hinn nýi guð.
Samt lofuðu stjórnmálamenn okkar að breyta þessu. Tíu fingur upp til guðs, bara ef við treystum okkur til að kjósa þá einu sinni enn.
Og þeir lofuðu að mynda ríkisstjórn sem myndi gefa uppá nýtt,.
Sem myndi gera landið byggilegt, byggilegt öllum.
Og sjá til þess að sameign okkar, innviðirnir yrðu ekki myglu og hrörnun að bráð.
Yrðu ekki rústir einar eftir þá áralanga stefnu að ekkert mætti gera.
Já, þeir lofuðu og lofuðu, og lofuðu og lofuðu.
Og eru ennþá að lofa.
Það er allt og sumt.
Ennþá að lofa.
Það er meinið.
Kveðja að austan.
![]() |
Segir þjónustu við vogunarsjóði í 1. sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2018 | 22:09
Æskan gegn ellinni.
Æskan vill lifa.
Ellin, í fyrsta sinn í gjörvallri sögu mannkyns, vill lifa æskuna.
Þess vegna ræður fólkið sem hagnast á morðum barna.
Þess vegna ræður fólkið sem afneitar lofslagsvánni.
Fólkið sem með heimsku sinni og skeytingarleysi vill koma heiminum í bál og brand.
Svo heldur ellin sunnudagsboð fyrir barnabörn sín.
Brosir, og segir, við elskum ykkur.
Það er nú það.
Kveðja að austan.
![]() |
Krakkarnir eru það sem hefur breyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2018 | 18:32
Sömdu góðglaðar fyllibyttur þessa tilkynningu??
Nýbúnar að skála, og einhver sagði, "Yess", og annar sagði, "eigum við samt ekki að segja fólki að við séum ekki góðglaðir??".
"Ekki bara að skála fyrir gróða okkar og kaupauka".
Bjarni er jú í pólitík.
Sem reyndar er ekki innan gæsalappa því það er staðreynd að fjármálaráðherra lifir flóknu lífi, og margir kraftar toga í hann eins og hver fyrir sig gæti slitið hann.
En sem þjóð getum við ekki spáð í fjarveru Bjarna, eða návist hans.
Hann og hans fólk mun örugglega græða, enda til hvers ættu fjármálamenn að fjárfesta í völdum í stjórnmálaflokki, ef þeir hefðu engan arð af fjárfestingu sinni?
Og Bjarni er aðeins eitt atkvæði, elliæru gamalmennin sem tryggja þingstyrk Sjálfstæðisflokksins, eru jú staðreynd sem aðeins tíminn vinnur á.
Alvarlegra er sú staðreynd að ennþá vinni vinnufólk hrægammanna fyrir ríkissjóð Íslands, og stæri sig af því að þjóðin fái hlut af þeim ofurgróða þegar allar eignir eru sognar út úr Arion banka.
Reyndar var það algilt í löggjöf vestrænna ríkja að svona landráðafólk var skotið fyrir ekki svo löngu, enda er samkeppni þjóðanna þess eðlis að ríki sem hyglar landráðafólki, að það lifir ekki svo lengi að geta sett löggjöf sem bannar þetta frelsi einstaklingsins að geta selt fjöldann í eigin þágu, en samt, það er óþarfi að monta sig að gjörningi sínum.
Gróði þess er ekki dreginn í efa, skjól Sjálfstæðisflokksins ekki heldur.
En forsendan er glæpsamleg.
Að stigaukning mergsjúgingarinnar, þess að selja eigur og skilja bankann eftir eins og innantóma skel, að hún skili sér hlutfallslega í ríkissjóð, að eftir því sem tjón samfélagsins eykst, þá aukist hinar meintu tekjur ríkissjóðs.
Eins og samfélagið hafi tekjur af því að brenna til grunna sínar eigin byggðir. Og þá er vísað í táknrænar líkingar.
Seinna meir mun fólk spyrja sig hvaða úrkynjun leiddi til þess að 75% þjóðarinnar leyfði Örfáum að blóðsjúga samfélag sitt, án þess að gripið væri til vopna.
Og land og þjóð varin.
En í dag lúta allir höfði.
Auðurinn hefur tjáð sig.
Hann ræður.
Og við þjónum honum.
Sama hvað við segjum annað.
Kveðja að austan.
![]() |
Ríkissjóður selur 13% hlut í Arion |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
23.2.2018 | 14:49
Að velja stjörnur.
Bæði nútíðar sem og framtíðar, er akkúrat það sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík gerir í dag.
Og þess vegna dálítið skrýtið að afneita því.
Það er ekki eins og að Kjartan og Áslaug séu stjörnur, þó vissulega hafi þau reynslu.
Þá reynslu að skila engum árangri.
Eyþór er stjarna.
Og þar að auki ekki vitlaus.
Sem og að pólitískir öfgar hafa aldrei hrjáð hann.
Hvort restin að framboðslistanum verði stjörnur, mun bæði þeirra gæfa og gjörvuleiki skera úr um.
En þeim sem var fórnað voru ekki stjörnur.
Höfum það á hreinu.
Kveðja að austan.
![]() |
Velur ekki bara stjörnur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.2.2018 | 09:36
Það er ójafn leikur.
Að ætlast til að skammbyssa stöðvi sjálfvirkan hríðskotariffil.
Og 99.99 prósent af þeim sem ætlast til þess að öðrum, myndu aldrei gera það sjálfir.
Slíkt er aðeins á færi fagmanna, sérþjálfaðra í átökum.
Og slíkir fagmenn eru ekki illa launaðir aðstoðarmenn fyrir utan skólabyggingar.
Vilji menn sjá hvernig slíkum vopnum er varist, þá geta menn skoðað öryggissvæði Nató í Afganistan.
Þau eru eins og virki miðalda, og þungvopnaðir menn gæta allra hliða.
Og það er sama hvað hinir kostuðu talsmenn drápstóla segja, ef menn vilja hafa þau í umferð, þá þarf virki til að verjast þeim.
Hins vegar er það athyglisvert að menn telji sig þurfa að eiga slík árásarvopn til að verjast, og að það sé aðför að frelsinu að meina þeim um það.
Hvað segir það um viðkomandi land??
Ríkir stríðsástand þar eins og í Sýrlandi??
Eða hefur ríkisvaldið hrunið eins og í Sómalíu??
Að sjálfsögðu ekki.
Þetta er aðeins spurning um gróða, gróða helsjúkra manna, það er ef maður telur tæra illsku vera sjúkdóm.
Og óttavæðing samfélagsins er aðeins kling kling í gullkistli þeirra.
Þetta eru mennirnir sem góðgjarnt íhaldsfólk lítur upp til.
Telur þá föðurlandsvini.
Og varðmenn frelsisins.
Kýs þá til valda.
Þetta eru mennirnir sem stjórna Bandaríkjunum í dag.
Sem réttlæta morð á ungmennum með því að það er margt annað sem drepur.
Til dæmis SMS. Það er SMS undir stýri.
Það er svona með mennskuna.
Hún er ekki allra.
Kveðja að austan.
![]() |
Aðhafðist ekkert er árásin var í gangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.2.2018 | 22:46
"Þau hata frelsi einstaklingsins"
Það frelsi að geta labbað út í næstu búð og keypt drápsvopn til að drepa mann og annan.
Sjaldan hefur frelsiskrafa frjálshyggjunnar verið betur orðið, það má ekkert fyrir þessum bölvuðum lögum og reglum.
Nema náttúrulega í landi frelsisins, þar sem digrir sjóðir vopnaframleiðanda tryggja frelsið, frelsið til að kaupa drápstál, til að drepa.
Eða eru þessar byssur notaðar til annars??
Það athyglisverða í þessari frétt er samt félagsskapurinn sem kaus að hlusta á þessi afhjúpandi orð mannsins sem er beint ábyrgur fyrir voðaverkunum í bandarískum skólum, að hann er ekki að tala á fundi hjá Ku Klux Klan eða öðrum sambærilegum mannahaturs samtökum, heldur er hann eins og segir í fréttinni að ávarpa "alþjóðlega ráðstefnu íhaldsmanna.".
Þar sem honum var boðið að tala.
Hann notaði ekki hríðskotabyssu til að fá áheyrnina, og honum var ekki hent út.
Hvaða samtök skyldu þetta vera??
Eru þau svo alþjóðleg að Íslendingar eigi aðild að þeim??
Eða umgangast íslenskir stjórnmálamenn aðila sem telja sig í góðum félagsskap með þessum siðblinda manni?
Og félögum hans í Samtökum byssueigenda í Bandaríkjunum.
Verður svo næsta mál á dagskrá frelsið til að gera plánetuna óbyggilega?
Eða frelsið til að koma öllu í bál og brand svo hægt sé að selja fleiri drápstól?
Merkilegt þetta frelsi annars.
Misjafn er félagsskapur þess.
Ef mannkynið nær að lifa það af, mun það eftir nokkrar aldir vekja svipaðan hroll og orðið plága gerði fyrir daga nútíma læknavísinda??
Svona eins og Svarti dauði??
Eða er það gísl??
Fórnarlamb eins og öll þau börn sem hafa verið drepin fyrir tilverknað þessara frelsisunnanda, bæði beint og ekki hvað síður óbeint.
Veit ekki, en hitt veit ég þó, að það eru ekki margir áratugir síðan að enginn ærlegur íhaldsmaður hefði nauðgað frelsishugtakinu líkt og gert er í samtökum þeirra í dag.
Hvað þá hlustað á aðra gera það í þeirra nafni.
Enda voru íhaldsmenn skjólvörnin gegn Helinu, hvort sem það kom frá alræði kommúnismans eða mannhatri nasismans.
Og eru það í dag.
Því það er gjörðin, ekki orðin sem gera manninn að því sem hann er.
Og engin orð fá því breytt.
Kveðja að austan.
![]() |
Segir gagnrýni á NRA skammarlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.2.2018 | 20:19
Þeir fiska sem róa.
Á þau mið sem afla er að fá.
Það er nefnilega ekki nóg að róa og róa, og koma alltaf tómhentur í land.
Það má vel vera að fiskurinn sé vitlaus þegar hann færir sig til, en það breytir því ekki að ef hann gerir svo, þá þarf að elta hann á hin nýju mið.
Og leggja veiðarfærin þar, en ekki þar sem hann var.
Fiskurinn nefnilega ræður.
Ekki veiðimaðurinn.
Kveðja að austan.
![]() |
Framboðslistinn samþykktur í Valhöll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.2.2018 | 16:13
Hvert er gjaldið?
Til að ráðherra brjóti vísvitandi lög?
Hvað kostar dómarasæti??
Á meðan þessum spurningum er ekki svarað er Landsréttur spilltur dómur.
Og spilling hinna flokksskipuðu er spilling allra.
Það er nefnilega ekki eins og fjármálaráðherra sagði við annað tækifæri í morgun, "hverjar eru sannanirnar?", þegar hann varði þann ósóma að fyrrum aðstoðarmaður hans sem tók þátt í þeirri stefnu að gefa vogunarsjóðum hundruð milljarða á kostnað þjóðarinnar þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hvarf frá markaðri stefnu um stöðugleikaskatt, réði sig beint í vinnu hjá hinum sömu vogunarsjóðum eftir að hlutverki hans var lokið í fjármálaráðuneytinu.
Svona spyrja aðeins þeir sem eru samdauna spillingunni.
Sem hafa hag af spillingunni.
Annað hvort þekkir þú rétta hegðun, eða ekki.
Annað hvort gjörir þú rétt eða ekki.
Og ef ekki, þá svarar þú spurningunni hér að ofan.
Það er ef þú ert flokksskipaður dómari.
Kveðja að austan.
![]() |
Landsréttur metur Arnfríði hæfa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.9.): 55
- Sl. sólarhring: 599
- Sl. viku: 3929
- Frá upphafi: 1490799
Annað
- Innlit í dag: 50
- Innlit sl. viku: 3288
- Gestir í dag: 49
- IP-tölur í dag: 49
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar