30.5.2024 | 16:12
Forsetinn og sjálfstæðið
Það eru mætar manneskjur sem Mbl.is bauð til sín í kappræður, af öllum yrði sómi á Bessastöðum.
Ég hef verið spurður hvað ég myndi kjósa ef ég væri ekki svona pólitískur, það er harður andstæðingur frjálshyggjunnar sem kennd er við hið Frjálsa flæði Evrópusambandsins, og þar með greiða þeim eina atkvæði sem hefur risið upp til varnar sjálfstæði þjóðarinnar.
Ég skal fúslega játa að ég gæti alveg hugsað mér að greiða Katrínu Jakobsdóttur atkvæði mitt, Katrín á allar þakkir fyrir að tryggja þjóðinni stjórntæka ríkisstjórn á tímum þar hávaði, froða og algjört innihaldsleysi er valkosturinn. Katrín stóð sig líka afburðavel sem leiðtogi á kóvid tímanum, og ekki síður núna þegar Reykjanes er í útþenslu jarðhræringanna. Mér finnst enginn stækka við það að gera lítið úr Katrínu og störfum hennar, það vill bara svo til að fólk er ekki alltaf með sömu sýn í stjórnmálum, og fólk þarf að una andstæðingum sínum sannmælis.
En líklegra væri samt að ég ætti í erfiðleikum að gera uppá milli tveggja karla, þeirra Baldurs Þórhallssonar og Jóns Gnarr.
Baldur hefur komið mér á óvart í þessari kosningabaráttu (ég er ekki að tala um gleymsku), breyttist úr þurrum fræðimanni í forsetaframbjóðanda með mikla útgeislun, fróður og málefnalegur. Kannski sá frambjóðandi sem mér finnst líkastur Ólafi Ragnari, maður fróðleiks og þekkingar. Það er alltaf gaman að monta sig að því að eiga gáfaðasta þjóðhöfðingja Norðurlanda en á það benti einhver Norðurlandabúi sem öfundaði okkur af Vigdísi Finnbogadóttur.
Jón Gnarr hins vegar er öðruvísi frambjóðandi og þó fylgi hans hafi goldið fyrir sterkasta trendi núverandi kosningabaráttu, að kjósa gegn, þá tel ég hann eiga fullt erindi á Bessastaði, því á bak við grímu grínistans er djúphugull maður, mannvinur, og já; öðruvísi. Það er því miður skortur á brosum í heiminum í dag, og bæta þar úr, gæti verið mikilvægt framlag okkar til heimsþorpsins.
Ég hygg að ég hefði kosið Jón Gnarr, að öðrum ólöstuðum.
Meinið er að maður hefur ekki efni að láta sig dreyma á tímum þegar auður í bandalagi við Brusseldáta sækir að sjálfstæði þjóðarinnar.
Beint stjórnarskráarbrot er í undirbúningi á Alþingi, líklegast það stærsta sem hægt er að fremja, að samþykkja að íslensk lög gildi ekki lengur á Íslandi, heldur lög og reglur Evrópusambandsins.
Samningur sem upphaflega snérist um tolllítinn aðgang að mörkuðum Evrópuríkja, hefur snúist uppí valdaafsal þannig að ekki er lengur hægt að tala um sjálfstæði og sjálfstæða þjóð.
Í raun verðum við í sömu sporum og öll hjáríkin sem fylgdu Napóleon keisara eða Þriðja ríkinu. Sjálfstæð að nafninu til, en ordurnar koma að ofan.
Í raun erum við að ræða um bein landráð stjórnmálastéttar okkar sem klædd er í froðu orðavaðals um lög og reglur Evrópusambandsins séu íslensk því Alþingi samþykki þau á færibandi.
Líkt og vissulega verið hefur, en núna er það fest í lög að komi upp ágreiningur milli sannarlegra innlendra laga og tilskipana Evrópusambandsins, þá lúffi íslensk lög.
Sem þýðir á mannamáli að lögin koma að utan, að dómurinn komi að utan, þó vissulega séum við með Alþingi og dómsstóla að forminu til.
Svona líkt og við vorum með undir stjórn Danakonungs áður fyrr á öldum þegar Ísland var hjálenda Dana.
Við höfum sem sagt ekki gengið götuna til góðs líkt og þjóðskálið spurði þegar það hvatt okkur til dáða í sjálfstæðisbaráttu okkar hinni fyrri.
Núna á að kasta sjálfstæðinu fyrir róða, það sé úrelt í nútímanum, það sé aftur runninn upp tími stórríkjanna.
Við sem erum ekki sammála og trúum því að sjálfstæði sé fjöregg þjóðarinnar, ásamt tungu hennar og menningu, upplifum að núna sé kominn tíma á aðra sjálfstæðisbaráttu, sjálfstæðisbaráttuna hina seinni.
Eigum ekkert val í þessum kosningu, aðeins einn frambjóðandi hefur risið upp gegn þessum fyrirhuguðum landráðum stjórnmálastéttarinnar, og sagt; Þetta má ekki.
Og ef hann kemst á Bessastaði, mun hann vísa þessum landráðum til þjóðarinnar.
Barátta Arnars Þórs Jónssonar er örugglega vonlítil, alveg eins og hjá manninum sem hvatti þjóð sína til dáða með heitstrengingum um að verja ströndina, um að verja hæðirnar, að verja bæi og borgir þar til yfir líki, og halda svo áfram baráttunni á fjarlægum ströndum þar til sigur ynnist.
Margur glotti en þessi hvatningarorð urðu þjóð hans innblástur.
Því það er þannig að þegar flest sund virðast lokuð, þá er það eina sem er eftir, að halda haus, gefast ekki upp.
Þessa speki, það er þegar öll sund virðast lokuð, hef ég reynt á mínu eigin skinni, og get skrifað þessi orð af því að þá var ekki gefist upp þó brimskaflar rastarinnar virtust ókleyfir fyrir smáfleyið sem reyndi að komast í gegnum þá, að snúa við hefði verið síðasti snúningurinn.
Því þetta snýst allt um að gefast ekki upp, og eygja vonina.
Það skiptir ekki máli hve margir kjósa Arnar Jónsson, hvert atkvæði er yfirlýsing vonarinnar um að til er fólk sem sættir sig ekki við landsölu valdaelítunnar.
Og alræðið hefur áður virst hafa allar taglir og öll höld, en samt lotið í gras gegn einbeittri frelsisþrá fólks og þjóða.
Svoleiðis baráttu háum við Íslendingar í dag.
Undir er tilvera okkar sem þjóðar, því án sjálfstæðis munum við daga uppi í einhverri skúffunni út í Brussel.
Þetta veit valdið, það afhjúpar ótta sinn þegar það lætur penna sína naga niður framboð Arnars Þórs, einan allra frambjóðanda.
Og þetta vitum við; Sjálfstæðir menn, sjálfstæðir Íslendingar.
Við mætum á kjörstað, ég reyndar búinn að kjósa, og kjósum sjálfstæði þjóðarinnar.
Það er okkar eini valkostur.
Vissulega erum mætir í framboði.
En aðeins einn sem reis upp.
Kjósum hann.
Kjósum Arnar.
Því þannig kjósum við okkur sjálf.
Kveðja að austan.
Horfðu hér: Heitar kappræður í Hádegismóum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.5.2024 | 11:32
Sjálfstæðisflokkurinn sér um sig og sína.
Undir orðavaðlinum að gera íslenskum fyrirtækjum kleyft að sækja erlent áhættufjarmagn er kinnroðalaus skattasniðgöngun útbúin fyrir bestu vinina.
Erlend dótturfélög heitir þetta víst í dag, þá þarf ekki að fara eftir innlendum lögum, hvorki varðandi greiðslur til samfélagsins eða lausasölu áfengis.
Hið frjálsa flæði í hnotskurn undir verndandi hönd Stóra bróðir Brussel.
Það er ekki von þó flokksforystan er komin í Evrópusambandið að öllu nema nafninu til.
Hún berst fyrir því að regluverk Brussel verði íslenskum lögum æðri, löggjafarvald Alþingis þar með óþarft, og hún berst fyrir hliðhollum forseta á Bessastaði.
Forseta sem hægt er að treysta á að komi ekki þjóðinni og sjálfstæði hennar til varnar þegar bókun 35 verður afgreidd frá Alþingi.
Það skýrir stuðninginn við Katrínu Jakobsdóttur, þrautreynda í ganga erinda Brussel.
Það skýrir nagið, baktalið og jafnvel beinar árásir skítadreifara flokksins á hendur þeirra fyrrum félaga; Arnari Þóri Jónssyni, hans sök að telja sjálfstæði þjóðarinnar öllu æðra.
Æðra en frami innan flokks sem hefur svikið öll sín helgu vé.
Hvar endar þetta??
Látum við bjóða okkur þetta??
Er af sem áður var að Sjálfstæðir menn stæðu gegn slíkri aðför að sjálfstæði þjóðarinnar og þjóðarhag.
Var hugsjónin aldrei dýpri en að grilla á daginn og græða á kvöldin, eða var það öfugt??
Vitna í eldri konu sem skrifaði hugvekju í Moggann í dag.
Hugvekju um það sem skipti máli fyrir Sjálfstætt fólk;
"Ég styð og kýs þann frambjóðandann, sem ég treysti best til að gæta og varðveita lýðveldið, frelsið og fullveldið. Ég kýs Arnar Þór Jónsson fyrir landið og þjóðina, lýðveldið, fullveldið og frelsið, og skora á fólk að veita honum glæsilegan sigur á kjördag".
Því það er eitthvað sem er þess virði að verja.
Verjum það.
Kveðja að austan.
Varar við hættu á skattasniðgöngu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.5.2024 | 08:29
Væri ekki ráð að hætta stríða??
Það er ekki einleikið hve hlutdrægt hið meinta alþjóðasamfélag er gagnvart átökunum á Gasa. Það er látið eins og aðeins einn aðili sé að berjast við sjálfan sig, hann sé einbeittur í að drepa sína eigin hermenn, og í þeim átökum sprengi hann allt í loft upp hjá saklausum íbúum Gasa strandarinnar.
Eins og slík afstaða hjálpi eitthvað fórnarlömbum þessara stríðsátaka.
Þeir sem vilja stöðva þessi átök geta ekki horft framhjá þeirri staðreynd að morðárásir Hamas þann 7. október síðastliðinn voru þess eðlis að ríkisstjórn Ísraels varð að taka það alvarlega að Hamas væri í stríði við ríkið þar til því væri útrýmt, og þá ekki ríkinu sem slíku heldur íbúum þess.
Að einbeitt stefnuyfirlýsing samtakanna þar um væri ekki innantómt orðgjálfur í vinsældarkeppni Íslamista um völd og áhrif, heldur dauðans alvara fyrir Ísrael og íbúa þess.
Og hvað gat ríkisstjórn Ísraels gert annað en að verða fyrri til???, frelsa hið hertekna fólk og útrýma Hamas??
Treyst á alþjóðasamfélagið??, var það ekki útséð undir hvaða áhrifavaldi stofnanir Sameinuðu þjóðanna væru þegar sjálfur framkvæmdarstjórinn varði voðaverk Hamas með því að segja að þau hafi ekki sprottið upp úr tómarúmi og náði þar með að réttlæta öll voðaverk sem framin hafa verið í heiminum frá því í árdaga.
Það sprettur nefnilega ekkert upp úr tómarúmi, allt á sér sína forsögu, líka dráp Húta á yfir milljón samlanda sinna í Rúanda eða morð Serba í Sebrenicha.
Það réttlætir samt aldrei voðaverkin og þegar sjálfur framkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna fellur í hið siðferðislega hyldýpi að gera slíkt, þá er tekin afstaða, og sú afstaða hefur mótað viðbrögð alþjóðasamfélagsins gegn stríðsátökunum á Gasa, gert það áhrifalaust, því sá sem berst fyrir tilveru sinni hlustar ekki á þann sem styður andstæðinginn.
Eða halda menn til dæmis að Bandamenn hefðu látið af árásum sínum á Þýskaland þó Goebbel hefði getað virkjað samfélagsmiðla til að birta myndir af brenndum börnum, sundurskotnum húsum og lík ótal óbreyttra borgara???
Svarið við þessari spurningu er augljóst og þetta vissu þýskir herforingjar, og þeir vissu líka að það þyrfti 2 til að berjast, og fyrst að Bandamenn vildu ekkert annað en uppgjöf nasista, líkt og Ísraelar vilja með uppgjöf Hamas, þá ákváðu þeir að reyna að binda enda á stríðið með því að drepa Hitler og gerðu ítrekaðar tilraunir til þess.
Það mistókst og þess vegna þjáðist þýska þjóðin miklu lengur en þörf var á og þjáningum hennar lauk ekki fyrr en með falli Berlínar og Hitlers, þá gafst Þýskaland upp og manndrápunum linnti.
Annar lærdómur úr Seinna stríði er sá að þeir sem vörðu ekki borgir sínar héldu þeim óskemmdum, lærdómur sem hinum meðvirka stuðningsfólki morðingja Hamas er ómögulegt að skilja.
Það væri ekkert mannfall á Gasa, það væri ekki allt í rúst á Gasa, ef Hamasliðar hefðu drattast eftir jarðgöngum sínum og leitað hælis í Egyptalandi, því það þarf 2 til að berjast líkt og þýskir herforingjar gerðu sér grein fyrir.
Mannfall og eyðilegging vegna innrása er alltaf vegna þess að það er barist við innrásarliðið, það deyr fólk í Úkraínu vegna þess að heimamenn eru að berjast við Rússa. Það féll enginn í Danmörku fyrir utan þann eina Dana sem fékk hjartaáfall við að sjá þýsku skriðdrekana þjóta framhjá, vegna þess að Danir reyndu ekki að berjast við ofureflið. París brann ekki því Frakkar vörðu hana ekki, loftárásirnar á Antwerpen hættu um leið og belgíski herinn hætti að berjast, og svo framvegis.
Þetta er raunveruleiki stríða og það er ekki hægt að rífast við hann, því menn rífast ekki við raunveruleikann.
Samt rífst stuðningsfólk voðaverka Hamas við þennan raunveruleik út í eitt.
Það eru fáir eftir sem þora að standa í hárinu á þeirri meðvirkni sem hefur grafið um sig í Evrópu og felst í að styðja morðingja sem hafa það líka á stefnuskrá sinni að drepa okkur hin, eins og Bjarni Ben gerði í fjölmiðlaviðtali í gær, og benti á skýringu þess að árásin á Rafah kom beint í kjölfarið á eldflaugaárás Hamas á Tel Aviv.
Forheimskan bendir nefnilega á afleiðingarnar en hundsar orsökina og er þar með meðvirk með hinum endalausum átökum sem virðast hafa fáan annan tilgang en að drepa fólk.
Á meðan heggur enginn á hnútinn.
Grátlegra en tárum tekur.
Öll líkin á Gasa hefðu aldrei orðið ef Hamas hefði ekki veðjað á þessa forheimsku og haft rétt fyrir sér.
Og Hamas berst á meðan hún getur treyst á hana, leiðtogum Hamas er nákvæmlega sama um þjáningar þjóðar sinnar.
Hvernig er þá þessi vítahringur rofinn?
Forheimskan á sér engin takmörk, hlustið bara á viðtalið við Þórdísi Kolbrúnu í sjónvarpinu í gær, í innihaldslausu blaðri virðist hún ekki gera sér grein fyrir að hún og hennar líkar hafa hoppað uppá morðingjavagn Hamas, þökk sé leyndarþræðinum frá Persafóla sem hefur fjármagnað óöldina í hinum gamla heimi alla þessa öld.
En hún á ekki að stjórna Ísrael eða Bandaríkjamönnum.
Þar á skynsemin að taka völdin og höggva á hnútinn.
Frekari átök eru aðeins í þágu Hamas, þar grenja menn ekki yfir að deyja sem píslarvottar, vita að fyrir hvern meintan píslarvott spretta upp hundrað stríðsmenn.
Þar grenja menn ekki yfir þjáningum þjóðar sinnar ef þær þjáningar tryggja samtökunum sigur í áróðursstríðinu sem háð hefur verið frá 7. október.
Það eina sem þeir óttast er réttlát reiði íbúa Gasa, að liðsmönnum samtakanna verði ókleyft að skríða uppúr holum sínum og taka aftur upp ógnarstjórn sína þar sem frá var horfið.
Og skynsamt fólk lætur þá feisa þá reiði.
Það á að hætta að stríða.
Þessum manndrápum þarf að linna þó fyrr hefði verið.
Ísraelsmenn eiga, og Bandaríkjamenn eiga að sjá til þess, að bjóða vopnahlé gegn frelsun gísla og í því vopnahléi á að felast að þeir dragi herlið sitt til baka frá Gasaströndinni.
Láta svo íbúana um restina.
Þetta sjá allir nema öfgamenn, og öfgamenn eiga ekki að stjórna.
Þeir eru alltaf ávísun á auðn og dauða.
Það verður að enda þessi átök sem áttu aldrei að byrja.
Það er mál að linni.
Kveðja að austan.
Vara við auknu mannfalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.5.2024 | 13:22
Sjálfstæðisbaráttan hin síðari.
Það var hrollvekjandi að hlusta á viðtal við lektor við HR í sjónvarpsfréttunum í gær þar sem hann gaf álit sitt á lögmæti sniðgöngunnar að selja áfengi í búðum undir yfirskini erlends dótturfélags.
Einhver hefði haldið að maðurinn gæti sagt annað hvort Já eða Nei, og vísað í lög máli sínu til stuðnings.
Svona einhver sem tryði því að þjóðin vær sjálfstæð og réði sjálf sínum lögum og reglum.
En svar lektorsins var ekki svo einfalt og hann vísaði ekki í skýra íslenska löggjöf sem bannar smásölu áfengis fyrir utan verslanir ÁTVR.
Það var EES samningurinn sem skipti máli í þessu sambandi, ekki hin skýra íslenska löggjöf.
Og þar sem EES samningurinn er svo snúinn og margþættur, að hann sem lektor í lögum hefði ekki hugmynd um hvað hann segði um þessa áfengissölu, að þá yrði að fá ráðgjafandi álit EFTA dómsstólsins hvort íslensk lög giltu í landinu eða hvort EES samningurinn stjórnaði áfengisstefnu stjórnvalda.
Hvort átti maður að hlæja eða gráta, eða gnísta tönnum og brýna sverð??
Hvernig er komið fyrir sjálfstæði þjóðarinnar þegar umræðan er á þessum nótum, að það er ESA og EFTA síðasta orðið um íslenska löggjöf.
Og íslensk lög fái aðeins náðarsamlega að standa ef þau eru þýðing á regluverki Brussel, annars setji viðkomandi stofnanir landið í skammarkrókinn.
Brýning sverða varð ofaná og þessi pistill í kjölfarið.
Því forsetakosningarnar snúast aðeins um eitt, hvort maður láti bjóða sér þessa yfirtöku erlends valds á lögum og reglum þjóðarinnar, eða maður spyrni við fótum.
Eða maður spyrni við fótum og kjósi gegn valdaelítunni sem er að færa Brussel landið á silfurfati, án þess að þjóðin hafi nokkuð hafi verið spurð um það valdaafsal.
Brýni sverðið og standi vörð um stjórnarskrána sem er afrakstur áratuga sjálfstæðisbaráttu genginna kynslóða.
Munum að það er núverandi ríkisstjórn sem er endanlega að ganga frá valdaafsalinu og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem leiðir málið, vanvirðir þar með rætur sínar, uppruna og stefnu í tæp 100 ár.
Það er ráðherra flokksins sem lýgur því að þjóðinni að vatn renni uppá móti, svart sé hvítt og afsal löggjafarvaldsins til Brussel brjóti ekki gegn stjórnarskrá sjálfstæðar þjóðar.
"Var það mat helstu sérfræðinga að frumvarpið væri innan marka stjórnarskrár" svo ég vitni í gamalkunnugan frasa á vef Stjórnarráðsins, las hann fyrst í ICEsave deilunni þegar íslensk stjórnvöld gengu erinda breta og Hollendinga í fjárkúgun þeirra á hendur íslensku þjóðinni.
Það er nefnilega þetta mat helstu sérfræðinga sem á að kveikja á öllum aðvörunarbjöllum því það mat gegnir sama hlutverki og nefið á Gosa.
Afhjúpar lygi og fals.
Í komandi forsetakosningum er einn maður sem stendur keikur gegn þessu valdaafsali, og hefur styrk og þekkingu til að berjast gegn því.
Síðan er hann mjög óvenjuleg manngerð, fórnaði frama fyrir sannfæringu, þó hann vissi að það myndi kosta hann ævilangt baktal og baknag varðhunda Flokksins.
Í þessu liggur sérstaða Arnars Þórs Jónssonar, hann syndir gegn straumnum á meðan aðrir frambjóðendur synda með.
Án þess að ég sé nokkuð að gera lítið úr mannkostum þeirra og hæfileikum, allflest þeirra eiga fullt erindi á Bessastaði, þá er þarna heljargjá á milli í máli sem skiptir öllu fyrir framtíð þjóðar okkar.
Að við kjósum mann á Bessastaði sem er tilbúinn að taka slaginn við valdaelítuna þegar hún formlega ætlar að afhenda Brussel sjálfstæði þjóðarinnar.
Þetta er eitthvað sem við sjálfstætt fólk þurfum að skilja.
Að það er Ögurstund og við kjósum ekki eftir óttanum, vananum, gegn einhverjum, eða öðru sem fær okkur til að hundsa hina innri rödd sem segir okkur að kjósa eftir sannfæringu okkar og trú.
Þá verða atkvæði Arnars miklu fleiri en spáð er, og rödd hans verður ekki hægt að hundsa.
Það þarf nefnilega að brýna sverðin, og verja það sem okkur er kærast.
Landið okkar, þjóð okkar, sjálfstæði okkar.
Menninguna, þjóðararfinn, tunguna.
Allt það sem gerir okkur að því sem við erum í dag.
Þessu líkur ekki á laugardaginn.
Það er löng barátta framundan.
En hefjum hana.
Hefjum hana með reisn.
Kveðja að austan.
Arnar Þór: Gerir mikla fyrirvara við skoðanakannanir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.5.2024 | 07:30
Ég er svo sæt.
Er megin stef kosningabaráttu Höllu Hrundar.
Sem hún er, um það þarf ekki að rífast.
Ég er svo ung er annað stef, og um það er ekki heldur deilt.
Og óspilt, en um það má efast.
Fyrir utanaðkomandi, sem fellur ekki fyrir þeirri ímyndunarsmíð sem einhver hæfur auglýsingamaður hefur hannað um framboð Höllu Hrundar, blasir við að Halla Hrund hefur í þessari kosningabaráttu umgengist Orkustofnun sem eitthvert einkafyrirtæki, sem hún ráði og megi ráðstafa gögnum og gæðum hennar í kosningarbaráttu sinni.
Starfsmenn sem óvart gleymdist að taka af launum þegar einhentu sér í að vinna fyrir framboð Höllu Hrundar.
Vinir sem fengu verkefni hjá Orkustofnun, örugglega hæfastir en þar með komin vanhæfni við að vinna fyrir framboð hennar.
Og núna myndband sem Orkustofnun var búin að greiða fyrir.
Myndbandið sem slíkt getur verið mistök, en hinar loðnu útskýringar kosningateymis Höllu eru ekki mistök.
Í stað þess að segja satt og biðjast afsökunar á mistökunum því að mörgu er að hyggja í svona kosningaspretti og því getur alltaf eitthvað misfarist, þá er grafin einhver þekkt spillingargröf, ekki kannast við neitt, boðið uppá skýringu sem treyst er á að ekki sé hægt að sannreyna.
Þetta segir svo margt þegar eitthvað er hannað af auglýsingastofu.
Það er eins og ímyndin komi raunveruleikanum ekkert við, og því megi svo margt sem annars væri ekki gert í raunveruleikanum.
En látum það vera, miklu fróðlegra væri að vita hvað býr að baki ímyndinni??
Af hverju var Halla Hrund látin bjóða sig fram, kornung manneskjan með framtíðina fyrir sér??
Og fyrir hvað??
En hún er sæt, um það er ekki deilt.
Kveðja að austan.
Kveðst engar kvittanir hafa fengið frá Höllu Hrund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.5.2024 | 18:21
Forsetinn sem sigar lögreglu til að berja mótmælendur.
Er núna bálreiður vegna þess að Ísraelar herja á Hamas í Rafha.
Mótmælendur í Frakklandi voru þó aldrei að gera neitt annað en að mótmæla hinu þjakandi regluverki Brussel sem skaðar og eyðileggur innlenda framleiðslu, en segir ekki múkk við innflytjendur sem yfirfylla markaði með vörum þar sem ekkert í framleiðsluferlinu fer eftir kröfum regluverksins.
Síðustu fréttir eru frá Danmörku þar sem Óvörur frá Kína eru að leggja innlenda framleiðslu, sem fer eftir regluverkinu, sem og innflutning á vörum sem allavega reyna að uppfylla kröfur regluverksins, í rúst.
Í þágu glóbalsins og verkfæra þess sem Macron Frakklandsforseti er.
Hlálegast að öllu, um skrípið sem Macron vissulega er, er að það, það er hann, er nýkominn úr heimsókn til nýlendu Frakka í Kyrrahafinu, þar sem frönsk stjórnvöld sendu vopnaða lögreglu til að brjóta aftur frelsisbaráttu innfæddra.
Þeirra glæpur var að mótmæla yfirtöku auðugra innflytjenda með því að reisa götuvirki og hindra ferðamannastraum, gjörð sem skaðaði tekjur franskra fjárfesta sem hafa þau einu tengsl við nýlenduna að arðræna hana.
Maður getur spurt sig hvað nýlenduherrann hefði gert, svona í ljósi á barsmíðum frönsku lögreglunnar gagnvart sínu eigin fólki, ef innfæddir hefðu tekið upp baráttuaðferðir Hamas??
Svona í ljósi sögu Frakklands og beitingu stjórnvalda þar á kúgunartækinu sem kennt er við Útlendingahersveit.
Macron segist núna vera bálreiður vegna þess að Ísraelar halda áfram að herja á Hamas, hryðjuverkasamtök sem hafa þann einbeitta vilja að útrýma Ísraelríki og 9 milljónum íbúa þess.
Ásetningur sem Hamas sýndi í verki með morðárásum sínum þann 7. október.
Morðárásir sem eiga sér enga samsvörun nema í voðaverkum systursamtaka Hamas, Ríki Íslams.
En hvað hefur Macron gert annað en að láta lögreglu sína lemja sína eigin þegna þegar þeir mótmæla, eða senda þungvopnaða lögreglu til að berja niður réttmæta frelsiskröfu íbúa Nýju Kaledóníu??
Jú, hann hefur svo sem sent tvær eða þrjár úreltar byssur til Úkraínu til að þarlendir séu ekki alveg vopnlausir þegar þeir verjast innrásarher Rússa.
En að takast á við voðamennin í Hamas hefur hann ekki gert.
Enda slíkt ekki í eðli skrípa, þau gjamma bara.
Samt varð París fyrir morðárásum öfgamanna sem játa sömu hugmyndafræði og Hamas, sem deila sama hatrinu á vestrænum gildum og menningu.
Voðaverk sem kostuðu 130 manns lífið, þeirra sök sú eina að vera til.
Sama sök sem fórnarlömb Hamas í Ísrael báru.
Sama sök sem Svíarnir báru þegar þeir voru skotnir fyrir knattspyrnuleik milli Belga og Svía.
Sama sök sem þúsundir saklausra bera en eru þar með taldir réttdræpir af voðafólki Íslamista, hvort sem þeir kjósa að kenna sig við Hamas, Ríki Íslams eða Al Kaida.
Kristnir, gyðingar, venjulegir múslímar, enginn óhultur fyrir þessu voðafólki.
Svo eru leikbrúður glóbalsins bálreiðir.
Sjálfir beitandi margfalt meiru ofbeldi miðað við tilefnið.
Fá fréttafyrirsagnirnar því glóbalið á jú flesta fréttamiðla hins vestræna heims.
Á meðan drepa öfgamennirnir mann og annan.
Og halda því áfram.
Í skjóli þess að morðæði þeirra virðist á einhvern hátt þjóna hagsmunum hinna Örfáu sem eiga næstum því allt og stjórna öllu sem skiptir máli.
Á meðan deyja börnin á Gasa.
Og halda áfram að deyja.
Fórnarlömb voðamanna sem engu eira.
Þökk sé skrípum og þaðan af aumkunarverðu fólki.
Og við hin gerum ekkert í því.
Kveðja að austan.
Bálreiður og kallar eftir vopnahléi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.5.2024 | 08:44
Ofbeldið stigmagnast.
Og sú hugsun hvarflar að manni að þetta séu í raun sömu aðilarnir sem senda sprengjur á hvorn annan.
Með því eina markmiði að viðhalda bálinu og brandinum, óöldinni, drápunum, morðunum.
Hvað skýrir annars hina fáránlegu árás Hamas á einu opnu landamærastöðina frá Ísrael, þeir vissu að fyrstu viðbrögð Ísraelsmanna yrðu að loka henni og hefta þar með innstreymi lífsnauðsynja??
Hvað skýrir árásina á Tel Avív sem Hamas vissi að yrði svarað með loftárásum á meinta Hamas liða og lík óbreyttra borgara yrðu eins og hráviði um allt??
Og af hverju falla Ísraelsmenn alltaf í þessa gildru Hamas, að láta Hamas stjórna atburðarrásinni sem samtökin hafa gert frá upphafi átakanna?
Þetta eru ein allsherjar ólíkindi.
Breytir því samt ekki að við hin sem eigum að teljast með nokkurn veginn fullu viti og óbrenglaða dómgreind, eigum ekki að falla í þessar gryfjur öfga og óaldar sem gamblar með líf óbreyttra borgara eins og þeir séu minna virði en pappírslöggurnar sem Sólveig Pétursdóttir lét setja upp sælla minninga til að efla löggæslu á höfuðborgarsvæðinu.
Við eigum að sjá í gegnum froðuna og áróðurinn.
Og við eigum að krefja alþjóðasamfélagið um að stöðva þennan hildarleik.
Það er ekki gert með gjaldfellingu alþjóðlegra laga líkt og femínistinn á Morgunblaðinu tönglast á í fréttum sínum um að "Alþjóðadómstóllinn skipaði Ísrael á föstudaginn að stöðva innrás sína inn á Rafah".
Það fer beint gegn alþjóðalögum að krefja Ísraela um að hætta þessum stríðsátökum með vísan til mannúðarlaga, því það eru ekki þeir sem hófu þau, það eru ekki þeir sem rændu fólki í öðru landi og færðu inn fyrir sín eigin landamæri, það eru ekki þeir sem verjast innan um óbreytta borgara.
Það er eins og áður hefur verið rakið úr ranni Faðirvors Andskotans, yfirlýsing að stjórnmál og fjárstreymi frá ríkjum Persaflóans sé lögum æðri.
Lóð á vogarskál múslima í allsherjarstríði þeirra gegn gyðingum.
Alþjóðadómstóllinn hefði vissulega getað krafist þess að átökin yrðu stöðvuð, en þá aðeins með vísan í að alþjóðasamfélagið, með Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í forystu, myndu koma lögum yfir Hamas og frelsa hið hertekna fólk.
Ekkert ríki, sem til þess hefur burði, myndi sætta sig við annað.
Ekkert ríki, sem til þess hefur burði, myndi sætta sig við stöðug hryðjuverk og morðárásir frá nágrannaríki, hvað þá að viðkomandi nágrannaríki væri stjórnað af fólki sem hefði þann einbeitta vilja að útrýma því.
Að gera þá kröfu að Ísraelsríki sé eina ríki í heiminum sem sætti sig við slíkt, því landsmenn þar eru að meirihluta gyðingar, er ekki lögfræði, vart stjórnmál, aðeins kynþáttahatur í sinni verstu mynd.
Líði siðað fólk það, þá ætti það að spyrja sig; Hver er næstur? Hvert verður næsta fórnarlamb öfganna og rasismans??
Það breytir því samt ekki að það þarf að stöðva þessi átök, þetta bara gengur ekki lengur, og hefur í raun ekki gengið frá upphafi átakanna, og í raun miklu fyrr.
Gærdeginum er hins vegar ekki breytt, en menn ráða yfir deginum í dag, til að hafa áhrif á atburði og atburðarrás morgundagsins.
Þess vegna er það óskiljanlegt að Biden skyldi ekki standa við orð sín um að það hefði afleiðingar fyrir Ísraelsmenn að ráðast inní Rafha.
Að það sé komið nóg, að það sé tími til kominn að hætta.
Rökin fyrir því eru augljós.
Frekari átök er í þágu áróðursvélar Hamas en ekki gyðinga.
Hamas verður ekki sigrað í orrustu, það verður hægt að ná Rafha með miklu mannfalli en hvað svo??
Öflugra Hamas?, frekari átök?, guð má vita hvað.
Það versta sem Ísraelsmenn gætu gert Hamas er að hætta átökum og láta Hamasliða skríða uppúr holum sínum og feisa sitt eigið fólk.
Feisa rústirnar, feisa hörmungarnar og reyna að réttlæta þær.
Því þegar sulturinn sverfur að í skjólleysi hinna rjúkandi rústa þá munu fáir kaupa þá skýringu að "við unnum sigur í áróðursstríðinu".
Íbúar Gasa munu einfaldlega spyrja; Hvernig bætir það fyrir líf ástvina okkar, okkar ónýtu heimili, hina ónýtu skóla, sjúkrahúsa, fyrir allt það sem við höfum glatað vegna þessa heimskulega stríðs ykkar?
Og hvernig fáum við líf okkar aftur???
Það er nefnilega stóra spurningin sem Hamas á erfitt með að svara.
Hvernig fær fólk aftur sitt daglega líf??
Vinir þeirra við Persaflóann fjármagna hryðjuverk og óöld en hafa lítið komið að uppbyggingu Gasastrandarinnar, þar hafa vestrænir fjármunir skipt sköpum.
Og sá vestræni stjórnmálamaður sem sendir fjármuni úr kreppuhagkerfum Vesturlanda til að endurfjármagna Hamas svo eitthvað sé til að sprengja í loft upp næst þegar samtökin ráðast á Ísrael, mun ekki haldast lengi í embætti, því slík forheimska verður alltaf nýtt af pólitískum andstæðingum viðkomandi.
Þar fyrir utan eiga Vesturlönd nóg með stríðið í Úkraínu, það er aðeins rétt að byrja.
Hamas getur ekki treyst á Vesturlönd og hvað gera morðingjarnir þá???
Það mæla því öll rök með því að Ísraelsmenn hætti þessum átökum, á einhverjum tímapunkti er ekki hætt að réttlæta þau lengur með vísan í morðárásirnar 7. október og þann einbeittan vilja Hamas til að útrýma gyðingum í Palestínu.
Skynsamt fólk lætur síðan ekki andstæðinginn spila svona með sig eins og Hamas hefur tekist að spila með öfgaöflin í Ísrael, það þjónar ekki hagsmunum ríkisins eða þegnum þess.
Það semur um vopnahlé gegn því að fá afhent lík gíslanna sem og þeirra sem eru ennþá lifandi.
Svo lætur það íbúa Gasa um rotturnar í Hamas.
Verði þeim að góðu.
Skynsamt fólk stjórnar reyndar ekki, heldur fólk sem lætur stríðæsinginn spilla dómgreind sinni.
En fyrirfinnst í Bandaríkjunum, þar liggur vonin um stöðvun þessara átaka, að vopnin séu tekin úr höndum öfgalýðs.
Þá von þarf að virkja.
Kveðja að austan.
Ætlunin að drepa Hamas-liða, segir Ísraelsher | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.5.2024 | 12:57
Sá hæfasti fær loksins athygli.
Er það vel, því það segir að það er ennþá von um framtíð þjóðar okkar í landinu okkar fagra.
Sjálfstæðið hefur gert okkur það sem við erum, án sjálfstæðis verðum við aðeins útnári, verbúð þar sem láglaunavinnuafl yrkir miðin og landið
Vissulega þróun sem er löngu hafin, en þróun sem er hægt að stöðva beri okkur gæfu til að standa saman.
Ég vil skora á alla læsa að lesa viðtalið við Arnar Þór í Mogganum, og alla sem heyra, að hlusta á viðtal Spursmála Mbl.is við hann.
Og kjósa svo eftir sinni Innri rödd, ekki eftir einhverri hræðslupólitík að kjósa gegn einhverjum, eða kjósa sakleysi auglýsingastofunnar í þeirri trú að þá sé maður að kjósa gegn valdaelítunni.
Aðeins einn maður býður sig fram gegn valdabandalagi Brussel og stjórnmálastéttarinnar, aðeins einn maður hafði kjarkinn til að segja það sem þarf að segja hvað það valdabandalag er að gera sjálfstæði þjóðarinnar.
Þegar ég vissi að Arnar Þór ætlaði að taka slaginn, þennan vonlitla slag um sjálfa tilveru okkar sem þjóðar, þá viss ég hverjum ég myndi greiða atkvæði í komandi forsetakosningum, og af hverju.
Samdi pistil; Vér Sjálfstæðismenn sem útskýrir val mitt og afstöðu. Læt hann fylgja með hér fyrir neðan.
Vér Sjálfstæðismenn.
Búum að arfleið þeirra áa okkar sem töldu ytra helsi aldrei vera valkost fátækrar þjóðar langt út í ballarhafi, þó í helsinu gæti falist öryggi, og í jafnvel í núinu, meiri velmegun en fyrstu skref frelsisins buðu uppá.
Þjóðskáldið okkar orðaði þessa hugsun, þessa frelsisþrá, svo ekki verður betur gert;
"En þegar á íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima".
Ég hygg að í þessum orðum hríslist kjarni framboðs Arnar Þórs Jónssonar.
Ég veit líka að þó margir áar okkar sem voru Sjálfstæðismenn, þá gengu þeir ekki allir í Sjálfstæðisflokkinn þegar hann var stofnaður, þar réði sá margbreytileiki stjórnmálaanna sem kenndur er við hægri og vinstri, og allt þar á milli.
Samt er þar arfleið Sjálfstæðisflokksins sterk, stofnendur hans voru Sjálfstæðismenn, þeir sem tóku við kefli þeirra voru Sjálfstæðismenn, og sú hugsjón mótaði flokkinn og forystu hans mest alla síðustu öld, og að kjarna í byrjun þessarar.
Það voru Sjálfstæðismenn í Seðlabanka og ríkisstjórn eftir fjármálahrunið 2008 sem vörðu sjálfstæði þjóðarinnar með neyðarlögunum, bara það eitt réttlætti stofnun Sjálfstæðisflokksins fyrir rúmum 94 árum síðan.
Samt er eins og síðasti Sjálfstæðismaðurinn hafi gengið úr flokknum í dag.
Kannski tímanna tákn núna á tímum gervigreindar og óreiðu, þegar mennskan sjálf er á höggstokknum, þá eru forn gildi eins og frelsi og sjálfstæði, jafnt fjöldans sem ríkja, löngu hent fyrir ætternisstapa.
Samt dálítið grætilegt fyrir okkur Hriflunga sem höfum Bjart í Sumarhúsum í frændgarði okkar, og skiljum um hvað Sjálfstætt fólk fjallar, svo ég vitni í aðra skáldsögu Halldórs Laxness.
Eitt sinn forni fjandi, dó örendi, ekki að okkar völdum, heldur fyrir þeirri framþróun tímans sem stíft afmáir mennsku á altari tækni og afstæðishyggju.
Maður átti kannski ekki von á þessu, en auðvitað var þetta fyrirséð.
Á tímum þar sem ráðafólk veit ekki einu sinni hvernig lífið verður til.
Hæðir söguna, eyðir henni með síbendandi putta fordæmingarinnar; að "svona erum við ekki, svona gerum við ekki", ekki að rétttrúnaður og fordæming hafi ekki átt sína sögu í Sögunni, en við lifum tíma Talibana sem brjóta niður styttur og minnismerki, brenna bækur, ráðast á allt sem þeim er ekki þóknanlegt.
Fólkið sem gengur taktlaust með mennskuna að höggstokknum.
Að berjast við tímann er líkt og að berjast við vindmyllur sagði einhver á Spáni í den, og varð frægur fyrir.
Sem Sjálfstæðismaður þakka ég fyrir að Arnar Þór Jónsson hefur ekki lesið það mæta bókmenntaverk, eða ef hann hafi gert það, þá sé hann betur vopnum búinn en sá síðasti sem reyndi það.
Ég óska honum alls hins besta.
Burtséð frá öllum skoðunum eða skoðanaágreining, þá hljótum við Sjálfstæðismenn að styðja einn úr okkar röðum.
Og við hljótum að virða þann kjark sem þorir að heyja vonlítið stríð.
Meiri kjark en við hinir höfum.
Við vitum allir að Sjálfstæði þjóðar er forsenda velferðar hennar í dag sem og um ókomna framtíð.
Og við erum það sem við erum í dag, vegna þess að áar okkar skildu þessi einföldu sannindi.
Þó þjóð okkar skilji þau ekki í dag, sé lost í tómhyggju nútímans, þá skiljum við þau.
Annars værum við jú ekki Sjálfstæðismenn.
Virðum því framboð Arnars.
Styðjum það.
Því sjálft fjöreggið, Sjálfstæðið, er stærra og mikilvægara en allt annað en það sem okkur greinir á um, eða kjósum að þrasa um.
Áar okkar börðust fyrir Sjálfstæði þjóðarinnar og uppskáru.
Að verja þá uppskeru er hlutskipti okkar í dag.
Þar er ekkert val.
Og að sjálfsögðu fylgdi Kveðjan með að austan, og hér með er hún ítrekuð;
Með kveðju að austan.
Þroskandi að kynnast breiddinni í mannlífinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.5.2024 kl. 07:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.5.2024 | 17:42
Íslamistar sem drepa konur án slæða.
Bókstaflega, fyrir þann eina glæp að neita þeirri djúpstæðri kvennakúgun að konur skuli hylja hár sitt, ná að stjórna umræðu um næsta forseta þjóðarinnar.
Gleymum því ekki að Guðni hóf feril sinn með því að svíkja íslensku þjóðina í ICEave, gangandi erinda þess agnarsmá örminnihluta sem auðþjófar og auðræningjar okkar eru.
Ég hef sagt sjálfum mér og öðrum að bjáninn Guðni hafi þroskast, og hann, eins og hann er, ágætis forseti.
Svo ákvað Guðni að senda samúðarkveðjur til þeirra Íslamista sem drepa konur fyrir þann eina glæp, að bera ekki kúgunartækið, slæðuna á réttan hátt.
Þar með berstrípaður ræfill sem hefði aldrei átt að bjóða sig fram, ennþá allavega er kvennakúgun ekki gildi sem íslensk þjóð, það er restin af okkur, og þá rest allavega svívirti Guðni.
Svona fyrir utan öll fórnarlömb Íslamista.
En ræfillinn Guðni á sér ræflabræður sem og systur, afhjúpun Spursmála Mbl.is, sem ég saklausi sveitamaðurinn átti aldrei von á; Halla Tómasdóttir getur ekki staðið með kynsystrum sínum í Íran, þó maður ætlist ekki til þess að hún standi gegn innfluttri kvennakúgun Samtakanna Ísland-Palestína.
Aumari getur engin kona orðið, nema blind metorðagirnd liggi að baki.
Og aumingja, aumingja þeir sem halda að atkvæði sitt gegn stjórnmálum eigi að falla með þeim formanni Viðskiptaráðs sem gekk í takt með Hrunadansi útrásarvíkinganna.
Í raun kallast aumur á við aumingja.
Svívirðan er samt að geta ekki staðið með kynsystrum sínum gegn miðaldakúgun Íslamista.
Guðni er ræfill, höfum það á hreinu, en þetta er miklu verra en það.
Svo slæmt að það er móðgun við sál og sið þjóðar okkar, atkvæði sem Halla Tómasdóttir fær.
Afhjúpar innihaldsleysi þjóðar sem vanvirðir sín eigin gildi, upphefur fólk sem styður voðaverk og kvennakúgun miðaldaöfgamanna.
Að samúð eigi að senda til morðingja, viðbjóðslegra morðingja.
Við látum bjóða okkur þetta.
Svívirðum þar um leið gildi áa okkar sem við fengum í arf.
Takturinn líklegast sleginn með þeim viðbjóði sem knýr áfram stuðning fréttastofu Ríkisútvarpsins með voðaverkum Hamas.
Samt eru mörk sem á ekki að fara yfir.
Til dæmis alla daga, alla nætur.
Þá fordæmir heilbrigt fólk voðaverk Íslamistanna í Íran.
Eðli málsins vegna þá fögnum við ekki dauða þeirra, en við vottum morðingjunum ekki samúðarkveðjur.
Ekki frekar en Sveinn Björnsson vottaði þýsku þjóðinni samúð Íslendinga með fráfall Hitlers.
Halla fékk spurningu, og hún klúðraði mennskunni.
Maður vottar ekki þeim samúð sem drepa konur án slæðu.
Maður fordæmir þá.
Kveðja að austan.
Myndi Halla senda Írönum samúðarkveðjur? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.5.2024 | 09:00
Voðaverkin bera ávöxt
Það er fátt sem lýsir betur firringu og innihaldsleysi blaðurs vestrænna stjórnmálamanna en að leiðtogar Hamas skyldu veðja á sigur í áróðursstríðinu sem þeir hófu þann 7. október með voðaverkum sínum.
Þar sem mesta voðaverkið var að þeir skyldu leggja líf og limi sinna eigin þegna undir í því stríði.
Ákæra breska múslímans afhjúpar aðeins leyndarþræðina frá Persaflóanum en beinn stuðningur evrópskra stjórnmálamanna sýnir að voðaverk þeirra hafa borið ávöxt.
Ávöxt úr jarðvegi illskunnar.
Vitnum í gáfumennið Þórdísi Kolbrúnu utanríkisráðherra og varformann Sjálfstæðisflokksins; "Þegar ég horfi á þessa ákvörðun og þá vinnu sem dómstóllinn er búinn að vinna, horfir það þannig við mér að það sé verið að setja alþjóðalögin á sama stalla, það sé verið að setja fórnarlömbin á sama stall".
Það er verið að verja rétt fórnarlambanna segir Þórdís Kolbrún en af hverju styður hún þá voðamenni Hamas með því taka undir leyndarþræðina frá Persaflóa og ákæru breska múslímans??
Fórnarlömb þessara átaka er fólkið sem var drepið í fordæmalausri árás Hamas á Ísraels 7. október og þeir gíslar sem voru teknir þann skelfingardag.
Alveg eins og fórnarlömb Þjóðverja í Seinna stríði voru óbreyttir borgar þeirra landa sem þeir réðust á að ekki sé minnst á allar þær milljónir sem þeir drápu í útrýmingarbúðum sínum.
Vissulega féllu margir óbreyttir borgarar í innrás Bandamanna inní Þýskaland, og vissulega voru þeir líka fórnarlömb, en þeir voru ekki fórnarlömb árása Bandamanna heldur fórnarlömb sinna eigin stjórnvalda sem hófu árásarstríð við önnur lönd, frömdu þar voðaverk og mögnuðu upp það heiftarbál sem endaði með innrásinni í Þýskaland þar sem aðeins skilyrðislaus uppgjöf kom til greina.
Og alveg eins og íbúar Þýskalands voru fórnarlömb nasistanna þá eru íbúar Gasa fórnarlömb Hamas, að halda öðru fram er eins og að snúa faðirvorinu uppá andskotann.
Faðirvor andskotans er samt kyrjað í Evrópu í dag.
Hlutunum snúið á hvolf, árásaraðili orðinn fórnarlamb, hornsteinn alþjóðalaga, rétturinn til að verja sig, takmarkaður við það að ef árásaraðilinn flýr inn yfir sín eigin landamæri þá er hann stikkfrí, sbr helli helli hættur í einum leik æsku minnar.
Sjálfum sér samkvæmir þá hljóta menn næst að afvopna lögreglu og sleppa ofbeldismönnum úr fangelsum. Þeir eru jú fórnarlömb og fórnarlömb á að setja á stall.
Sjálfum sér samkvæmir hljóta leiðtogar Evrópu síðan að krefja breska múslímann um að hann ákæri þá líka fyrir stuðning þeirra við Úkraínu en þar senda þeir vopn sem eru notuð til að drepa fórnarlömb.
Þórdís Kolbrún ríður kannski á vaðið.
En við hin sem göngum ekki um akur illskunnar til að tína þar upp ávexti, við bíðum spennt eftir frekari ákærum Alþjóðaglæpadómsstólsins.
Nýlegt dæmi er til dæmis stríðsglæpir og síðan þjóðarmorð Azera á armennskum íbúum Nagorno-Karabakh, eins má minna á innrás Tyrkja í Kúrdíska hluta Sýrlands, stríð þeirra við Kúrda í héruðum sínum innan Tyrklands bera líka öll einkenni stríðsglæpa og þjóðarmorðs.
Og talandi um þjóðarmorð, hvenær verður Kína ákært fyrir þjóðarmorð sitt á Úígúrum eða er það alltí lagi að það sé markvisst unnið að því að útrýma heilli þjóð??
Því ef við fáum ekki þessar ákærur, strax á morgunn, þá er ljóst að ákæra breska múslímans er röng, hún er kostuð pólitík olíuauðsins og hefur ekkert með lögfræði að gera.
Jafnvel þó gáfumenni okkar segi annað.
Og talandi um gáfumenni og alla vitringana sem leiða Vesturlönd í dag, þá er það ákaflega sorglegt að sá leiðtogi sem sannarlega er að glíma við ellina og fylgifiska hennar, skuli vera sá eini sem stendur keikur gegn firringu forheimskunnar og segir; "Það sem er að gerast er ekki þjóðarmorð, við höfnum því".
Enda þarf aðeins heilbrigða skynsemi til að sjá og skilja að íbúar Gasa eru fórnarlömb voðmenna Hamas, það eru þeir sem hófu átökin, og það eru þeir sem viðhalda þeim.
Þá skynsemi hefur sá elliæri þó hann skrifi ekki undir allt og hefur reynt að hafa hemil á verstu öfgamönnunum í ríkisstjórn Ísraels, öfgamenn sem eru sprottnir uppúr sama akri og voðamenni Hamas.
Þá skynsemi hefur varaformaður Sjálfstæðisflokksins ekki og maður spyr sig; Hvernig getur eldra íhaldsfólk, sem er mótað og hert af lífsbaráttu raunveruleikans, haldið áfram að styðja þann flokk þegar vitið þar er ekki meira en það er.
Og fyrst það er enginn sjáanlegur munur á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum, af hverju styðja þessir eldri íhaldsmenn þá ekki Samfylkingunni, formaðurinn þar er þó ekki illa gefinn.
Reyndar er ég farinn að endurskoða álit mitt á Loga Einarssyni eftir margt af því sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa látið út úr sér nýlega.
Þetta er allt orðið eitthvað svo skrýtið í heimi þar sem öllu er snúið á hvolf.
Höfum samt á hreinu að það er engin framtíð í heimi þar sem akrar illskunnar sjá um að fæða stjórnmálin.
Allavega ekki framtíð sem við viljum börnum okkar og barnabörnum.
Og það er okkar að verja, að snúast gegn.
Þó það kosti þau átök að við þurfum að hugsa hlutina uppá nýtt, átta okkur á að gömul bandalög er rofin og okkur ber að mynda ný.
Það er vegið að lífinu úr öllum áttum.
Þar er einn versti fjandinn sem telur fólki í trú um að það megi drepa fólk sem er ekki eins og það sjálft.
En sá versti er sá sem segir að þú megir græða eins og engisprettan án nokkurrar ábyrgðar gagnvart fólki eða samfélögum þess.
Þessum fjöndum þarf að mæta.
Áður en það er orðið of seint.
Því sjálft lífið er undir.
Kveðja að austan.
Segir Ísraela ekki fremja þjóðarmorð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 13
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 459
- Frá upphafi: 1412821
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 398
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar