24.3.2021 | 22:38
Ósköp getur Sigríður verið beinskeytt.
Þegar hún vill svo við hafa.
Gaman að fá hana svona skýra út úr kófinu og full ástæða til að endurbirta orð hennar;
""Það eru mjög misvísandi skilaboð að gefa út svona yfirlýsingu og senda svo prívatnótu til utanríkisráðuneytisins sem segir að þetta eigi ekki við um Ísland".
"Ísland hefur kannski ekki ástæðu til að blanda sér mikið í þessa baráttu ESB og Bretlands, en við erum óhjákvæmilega dregin inn í málið með þessari ákvörðun í morgun," segir hún.
"Íslensk stjórnvöld eiga að mínu mati að krefast þess að Ísland verði tekið út úr þessari tilkynningu hið fyrsta. Og framkvæmdastjórnin ætti í raun að biðjast afsökunar á þessu," segir Sigríður enn fremur, en hún er formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
"Þetta er allt saman algjör þvæla, en svona er þessi umræða orðin. Og viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar eru gerræðisleg og óyfirveguð. Þau eru í raun miklu verri en veiran sjálf nokkurn tíma.".
Já viðbrögð framkvæmdarstjórnarinnar eru í raun miklu verri en veiran sjálf.
Heimskulegast af mörgu heimsku var krafa framkvæmdarstjórnarinnar um frjálst flæði veirunnar, landamærum var ekki lokað fyrr en öll álfan var smituð.
Og hjáleigurnar í Schengen eltu, þorðu ekki að loka fyrr en allt var orðið of seint.
Hins vegar er það orðið grafalvarlegt mál hvernig Evrópusambandið hagar sér þessa dagana, vikurnar, mánuðina, síðustu árin.
Samskipti við flest ríki byggjast á hótunum og yfirgangi, nema gagnvart Kína, þar er skriðið, nema svona til málamynda var skjalamappa með upplýsingum um óþekkta embættismenn í Xinjiang héraði hökkuð og nöfn nokkurra dregin úr hattinum og sambandið setti á þá viðskiptaþvinganir.
Brussel er um margt farið að minna áþarflega mikið á annað veldi sem var líka stýrt frá B-borg.
Það veldi reyndar hervæddi sig og lét kné fylgja kviði hótana sinna, Brussel er hins vegar máttvana pappírstígrisdýr, svo það ógnar fáum, en það truflar mikið.
Þess vegna er þörf tilbreyting að lesa svona ádrepu, í stað hins hefðbundna orðfæris skríðandi stjórnmálamanna sem halda ekki taktinum í skriðinu því þeir eru alltaf að taka ofan, taka húfuna aðeins úr hendi sér til að setja hana á höfuð svo þeir geti strax aftur sýnt auðmýkt sína og undirlægjuhátt með því að taka hana niður jafnharðan.
Það er jú þess vegna sem þeim gengur svona illa að skríða í takti.
En þeir skríða og skríða, þeir skriðu þegar bretar beittu okkur fáheyrðri fjárkúgun í ICEsave, þeir skriðu þegar sambandið krafðist innleiðingar regluverks sem afsalar þjóðinni yfirráðum sínum yfir orkuauðlindum þjóðarinnar, og þeir skríða núna.
Nema Sigríður.
Hún vill að alþjóðasamningar gildi.
Og auðvitað eiga þeir að gilda.
Hvað annað??
Kveðja að austan.
![]() |
Segir háalvarlegt að setja Ísland á bannlista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2021 | 15:45
Vá, núna eru það stálin stinn.
Engin hálfvelgja, engar hálfkveðnar vísur, ekki "ég veit betur".
Spyrja má reyndar, af hverju er enn og aftur verið að níðast á landsbyggðinni, sem passar upp á sig, svo langt síðan að víða greindist smit, að hugsanlega eru menn farnir að rugla því saman við síðasta faraldur Stóru bólu.
En samt, það er viss lógíg að láta eitt yfir alla ganga, þetta bráðsmitandi breska afbrigði er ekkert grín.
En þá mega grínarar ekki stjórna ferðinni.
Dómsmálaráðherra gerði sig seka um fáheyrðan dómsgreindarbrest með því að setja nýjar reglur um sóttvarnir á landamærum, án þess að hafa sóttvarnarlæknir með í ráðum, og fjármálaráðherra var lítt skárri þegar hann reyndi að verja þá vitleysu sem í raun er skýlaust lögbrot.
Þarna þarf ríkisstjórnin að gera hreint fyrir sínu dyrum.
Og yfirlýsing heilbrigðisráðherra um að ríkisstjórnin stæði við ákvörðun sína um að láta litaspjöld stýra landamæraeftirliti eftir 1. maí er líka ámælisverð, en hún var þó að ítreka þegar tekna ákvörðun þegar aðstæður voru hugsanlega betri og bjartsýni vegna bólusetningar réði ríkjum.
Hennar víti var að sjá ekki hinar breyttu aðstæður sem og að fara gegn áhyggjum sóttvarnarlæknis.
Það er nefnilega þannig að sóttvarnarlæknir hefur alltaf haft rétt fyrir sér.
Hans einu mistök voru að reyna að þóknast ríkisstjórn Íslands svo það líti út að hún sé heil, en ekki klofin eftir línum hægri öfganna í Sjálfstæðisflokknum.
Þess vegna spilaði hann með þegar landamærin voru opnuð síðasta sumar, þess vegna var hann ekki nógu harður að krefjast þess að stoppað væri í lekann á landamærunum.
En einn daginn áttaði Þórólfur sig á því að hann var sóttvarnarlæknir, ekki sóttvarnarstjórnmálamaður, hans hlutverk var ekki að eltast við hið mögulega í hinum pólitísku refjum baktjaldanna, heldur að gegna lögboðnu hlutverki sínu að verja þjóðina gegn vágesti farsóttarinnar.
Síðan þá hefur hann staðið vaktina, og nýtur bæði traust þjóðarinnar sem og heilbrigðisstarfsmanna.
Það fer enginn gegn Þórólfi í dag.
Hans tími er kominn.
Hann á að klára dæmið.
Aðeins lokun landamæranna gegn nýsmiti getur réttlætt þessar hörðu aðgerðir.
Að gera ekki nóg er fullreynt.
Í sjálfu sér við engan að sakast, það sem er liðið er liðið, en sökin er mikil, algjör, ef menn læra ekki, og gera ekki það sem þarf að gera.
Veiran getur vissulega alltaf sloppið í gegn um varnir.
En það á ekki að vera vegna mannanna verka, að það sé viljandi skildar eftir glufur sem hún getur nýtt sér til að koma af stað nýrri og nýrri bylgju.
Þetta er svona.
Þetta sér allt vitiborið fólk, allt fullorðið fólk.
Börn og unglingar líka.
Ef það er eitthvað sem hindrar í ríkisstjórn Íslands, þá ber forsætisráðherra að losa um þá hindrun.
Hvort sem það eru einstakir ráðherrar eða flokkar.
Ef hægri heimskan tröllríður svo Sjálfstæðisflokknum að hann getur ekki varið þjóð sína, þá ber Katrínu að reka hann úr stjórninni, og mynda ríkisstjórn með þeim flokkum sem eru tilbúnir til þeirra verka að halda veirunni frá Íslandsstrendum þar til þjóðin er að fullu bólusett, og veiran ógni ekki framar lífi og limum þeirra samborgara okkar sem eru í áhættuhópum.
Þetta er ekki val, þetta er nauðsyn.
Aðeins orðað til að benda á að það er ekkert í veginum fyrir að það sé gert sem þarf að gera.
En það mun ekki reyna á þetta því Sjálfstæðisflokkurinn er með.
Aðeins einhuga ríkisstjórn bregst svona skarpt við eins og þessar tillögur fela í sér.
Klárum svo dæmið.
Enn og aftur, það er ekki val.
Það er það eina.
Kveðja að austan.
![]() |
Tíu manna fjöldatakmörkun frá miðnætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2021 | 11:34
Taktu slag við raunveruleikann.
Og það eina sem er öruggt, er ósigurinn.
Eina spurningin hve menn blóðga sig mikið við að lemja hausnum við stein raunveruleikans.
Landamæri, sem leka, valda fyrr eða síðar samfélagssmiti sem aðeins víðtækar lokanir og höft á daglegu lifi geta unnið bug á.
Miðað við sögurnar sem leka út um lekann, þá er í raun ótrúlegt hvað landamærin hafa haldið og fyrir utan lukkuna sem hefur verið með okkur í liði, þá eigum við því að þakka frábæru fólki í smitrakningu og góðu skipulagi um að setja alla í sóttkví sem hugsanlega geta tengst smiti.
En var á meðan var, í dag er raunveruleikinn sá að páskarnir eru undir, vorið og jafnvel byrjun sumars ef hlutirnir eru ekki strax teknir alvarlega.
Samt enn og aftur, allt til einskis, ef tregða stjórnmálamanna við að feisa raunveruleikann, árátta þeirra að taka slaginn við hann, kemur í veg fyrir að það sé gert sem þarf að gera.
Það þarf ekki mikla heilbrigða skynsemi, eða mikinn þroska, að vita að þegar 4 göt kom á bátinn, þá dugar ekki að gera aðeins við 2, hin duga til að hann sökkvi.
Þess vegna er okkur hollt að rifja upp raunsögu þeirra sem reyna að koma vitinu fyrir stjórnmálamennina.
"Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að lögreglan á landamærunum hefði kallað eftir hertum reglum og eftirliti með fólki sem hyggst dvelja á Íslandi í mjög stuttan tíma, jafnvel styttri tíma en sóttkví á að standa yfir. "Við erum að ýta á það núna ásamt sóttvarnalækni að reglum verði breytt þannig að þegar við sjáum svona getum við keyrt fólk beint í sóttvarnahús þar sem það er undir eftirliti". ....
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til í nýjasta minnisblaði sínu að víðtækt samráð verði haft við landamæraverði, lögreglu, almannavarnir, Sjúkratryggingar Íslands og Rauða Krossinn um hvort hægt sé að skylda flesta eða alla þá sem ferðast hingað til lands til að dvelja í sérstöku húsnæði á meðan á sóttkví eða einangrun stendur. "Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú að í ljós hefur komið að í mörgum tilfellum er meðferðarheldni í sóttkví hjá þeim sem hingað koma ábótavant. Þetta hefur leitt til frekari smita og jafnvel til lítilla hópsýkinga sem auðveldlega hefðu getað þróast í stærri faraldra,". ...
Hann minnir á að þau smit sem greinst hafa innanlands að undanförnu tengist smituðum ferðamönnum og fullyrðir að oft á tíðum hafi litlu mátt muna og mikil mildi að smitin hafi ekki hrundið af stað stærri hópsýkingum. ". (úr frétt Ruv).
Þetta hefur verið vitað svo lengi það er að smitið innanlands tengjast smituðum ferðamönnum, það er flandrið á fólki sem ógnar okkur hinum, fjöldanum.
Og hópsýkingin sem gæti þróast í stærri faraldra, virðist samkvæmt fréttum dagsins, vera mætt á svæðið.
Í gær tilkynnti ríkisstjórnin vissulega hertar aðgerðir á landamærunum, og því ber vissulega að fagna.
Ber að fagna vegna þess að þegar menn hafa á annað borð viðurkennt vandann, og gripið til aðgerða gegn honum, þó ekki sé nóg gert, þá er aðeins tímaspursmál hvenær allt verður gert sem þarf að gera.
Sbr til dæmis ef menn sjá glæpahópa vígvæðast, og telja það ótækt, þá dugar ekki að afvopna suma, en láta aðra vera. Markmiðinu um friðsælla samfélag er ekki náð fyrr allir eru afvopnaðir.
Eðlilegt mannlíf kemst ekki á fyrr en landamærin halda.
Að feisa þá staðreynd er forsenda þess að stjórnvöld fái almenning í lið með sér enn einu sinni enn.
Í lið með sér að bæta fyrir klúður sem stjórnvöld bera beina ábyrgð á, einu sinni enn.
Að reyna annað, að bulla gegn raunveruleikanum, að sleppa börnunum lausum, gengur ekki þegar svona er komið.
Fögnum skrefinu sem var tekið í gær.
Fögnum skrefinu sem verður tekið í dag.
Og tilkynnum hátíð þegar lokaskrefið verður tekið.
Höldum svo glaðbeitt inní sumarið.
Í landinu okkar, óhrædd.
Frjáls.
Kveðja að austan.
![]() |
17 smit innanlands 14 í sóttkví |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.3.2021 | 12:59
Eins og lög gera ráð fyrir.
Þá skila ég tillögum mínum til heilbrigðisráðherra, sagði Þórólfur Guðnason eftir fund hans með fullorðnu fólki, formönnum ríkisstjórnarflokkanna í morgun.
Svaraði þar með spurningunni hvort hann hefði lagt fram tillögur fyrir fundinn um hertar aðgerðir vegna hinna nýlegu samfélagssmita.
Hann var búinn að skila tillögum sínum, eins og lögin kveða á um að honum sé skylt þegar aðstæður krefja.
Svona eru lögin, eitthvað sem sumir ráðherrar ríkisstjórnarinnar virðast eiga erfitt með að skilja, það er ekki þeirra að koma með tillögur um aðgerðir gegn farsóttinni.
Sem og þeir fréttamenn sem síspyrja Þórólf um álit hans á litaspjöldum eða að vottorð frelsi ferðalanga frá sóttkví.
"Spurður hvort ósamræmi væri í því sem heilbrigðisyfirvöld væru að segja og gera og svo stjórnvöld, til að mynda með því að slaka á aðgerðum á landamærunum, sagðist Þórólfur ekki ætla að leggja dóm á hvað stjórnmálamenn væru að segja. Þeir hefðu frelsi til að túlka fyrirliggjandi gögn en að við þyrftum að vanda okkur eins mikið og hægt er á landamærunum.".
Á mannamáli, stjórnmálamenn mega gaspra, en ég hef verk að vinna samkvæmt lögum.
Reynslan sker úr um hvort hinar nýju tillögur nái að stoppa í götin, allavega er ljóst að samfélagið getur ekki búið við þennan leka, fólk vill frið frá veirunni, fólk vill að landamærin séu varin.
Af hverju ekki fyrr er ekki issjú í málinu, það sem er liðið, er liðið, en það liðna krefur heilbrigðisyfirvöld um lærdóm, að það sé gert sem þarf að gera.
En að lokum má skemmta sér yfir barnláninu, láta enn eitt gullkorn fljóta með;
"Öll höfum við þurft að færa fórnir vegna aðgerða sem grípa varð til í því skyni að verja þá veikustu í samfélagi okkar. Fórnirnar eru þó mismiklar eftir aðstæðum hvers og eins. Þeir sem eiga lífsafkomu sína undir ferðamennsku hafa fært einna mestar fórnir. Við vitum að endurreisn efnahagslífsins hvílir á því hversu langan tíma það tekur ferðaþjónustuna að ná viðspyrnu.".
Gáfurnar svona álíka eins og að segja að þegar fiskifræðingar mæla enga loðnu, og leggja til veiðibann, að þá séu loðnusjómenn að færa fórnir umfram aðra með því að fara ekki á miðin og veiða hana.
Veiran er faktur og farsóttin leikur atvinnugreinar misgrátt.
Kemur misilla við fólk og fyrirtæki.
En að feisa þá staðreynd er ekki að færa fórnir, heldur bitur raunveruleiki.
Hins vegar færir samfélagið fórnir þegar misvitrir stjórnmálamenn afneita þeim raunveruleika, og nota rök forheimskunnar til að leyfa ferðalög milli landa án undangenginnar sóttkvíar, slíkt leiðir alltaf til faraldurs, og tilheyrandi samfélagslegra lokana.
Fórnirnar eru þá atvinnan og frelsið sem aðrir tapa vegna þeirrar heimsku.
Því það er eitthvað sem hægt er að stjórna, og sú ranga ákvörðun bitnar á öðrum.
Samt er ekki annað en hægt að gleðjast yfir að reynt er að stíga rétt skref.
Ekkert sjálfgefið þar sem Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut og það mannaval sem hann lítilsvirðir þjóðina með í ríkisstjórn.
Seint skulu menn vanmeta þrönga fjárhagslega hagsmuni flokkseiganda og annarra vildarvina.
Rétt ákvörðun er því alltaf sigur og fagnaðarefni.
Vonum að þetta dugi, en ef ekki, þá þarf bara að gera meira.
Og þá fyrr en seinna.
Kveðja að austan.
![]() |
Skima börn og skylda fólk í sóttvarnahús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.3.2021 | 09:55
Veiran er þarna.
Illvíg sem fyrr, og það er sama hvað hausnum er barið oft í steinvegg, það þarf aðeins eitt smit til að koma að stað faraldri.
Það má aldrei gleymast að fyrsta staðfesta smitið greindist í Wuhan í byrjun desember 2019, 6 vikum seinna eða 22 janúar 2020 var gripið til allsherjarlokunar í borginni, sársaukafull aðgerð sem var eina bjargráðið vegna þess að þetta eina smit fékk að grassera þar til það var of seint að grípa til mildari sóttvarna.
Þess vegna á að þefa veiruna uppi og útrýma henni, meðan það er hægt með fjöldaskimunum og sóttkví þeirra sem hugsanlega gætu verið smitaðir.
Að bíða, að sjá til, að elta skottið á veirunni, endar aðeins á einn fullreyndan veg.
Samfélagslegum lokunum allra.
Börnin eru líka þarna, ennþá að manni skilst.
Þau eru að leika sér með litaspjald, og þau hafa ekki þroska eða vit til að skynja alvöru málsins.
Þau eru vítin sem við eigum að varast, vítin sem við eigum að þekkja;
"Við verðum því að velta því fyrir okkur hvert og eitt, sem ekki verðum bólusett þegar landið opnast, hver ábyrgð okkar sjálfra er við að draga úr áhættu með eigin hegðun".
Þau ætla að opna landið og ábyrgðin er okkar að passa okkur, að fara í felur í okkar eigin landi.
Á alvöru tímum, þegar heimurinn gengur í gegn fordæmalausa farsótt, er ótrúlegt að þjóðin þurfi mest að óttast eigið ráðafólk.
Því á meðan svona er gasprað, þá er hugur og vilji ekki einbeittur að því sem skiptir öllu máli.
Því sem skiptir eina máli.
Að verja þjóðina.
Mannlífið, samfélagið okkar.
Þar þarf að verða breyting á.
Kveðja að austan.
![]() |
21 smit um helgina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2021 | 00:44
Börnin hafa talað.
Og reyna sitt besta að skaða bæði flokk sinn og ríkisstjórn.
Vanþroskinn svo mikill að þau skilja ekki hvað er að málflutningi þeirra.
"Ekki mætti festast í gildru ástandsins; takmarkana og lítils ferðafrelsis og því væri nauðsynlegt að liðka til eins fljótt og auðið er.".
Hárrétt, en þjóðin var í þessari gildru vegna þess að staðreyndir veirusýkinga voru hundsaðar, að það þarf aðeins eitt smit til að koma að stað faraldri, og landamærin voru ekki varin síðasta sumar.
Við erum nýsloppin úr þessari gildru, og þá hótar blessað barnalánið okkur nýrri með því að þykjast vita betur en sóttvarnaryfirvöld.
Og fáviskan alltaf réttlætt með því að það sé verið að vernda störf, en aldrei spurt hvað hún hefur kostað mörg störf??
Hvað hafa mörg störf tapast vegna þess að samfélagið var sett í herkví sóttvarna vegna smitbylgjunnar síðasta sumar??
Skilja börnin ekki að þjóðin vill fá að lifa eðlilegu lífi og hún vill bíða með tilslakanir á landamærunum þar til það er öruggt að þær tilslakanir leiði ekki til nýrrar bylgju.
Hvað er svo flókið við þetta??, unglingarnir á mínu heimili skilja þetta og þeir eru ekki ennþá orðnir 17 ára.
Og þjóðin vill að sérfræðingar hennar, sóttvarnaryfirvöld meti þau skref sem tekin eru.
Þar sem skynsemin og varkárnin er höfð að leiðarljósi.
Þjóðin vill ekki að krakkar á ráðherrastól véli um þær ákvarðanir, þó þeir telji sig hafa vitsmuni til að vitna í sóttvarnalækni máli sínu til stuðnings; "Enn fremur vitnaði hún í orð sóttvarnalæknis um að góð vörn væri í vottorðum".
Bólusetningar eru vörn mannsins gegn þessum vágesti og þær hægt og hljótt ná að brjóta hann á bak aftur.
En þetta tekur tíma, bæði erlendis og hérlendis, og við verðum að sýna þeim tíma þolinmæði.
Sóttvarnayfirvöld vega síðan og meta hvenær hægt er að slaka á seinni skimun og í hvaða tilvikum.
Alltaf með það að leiðarljósi að landamærin haldi.
Þeirra rök eru aldrei viðspyrna eða minna atvinnuleysi.
Heldur hvað er öruggt, hvað er óhætt.
Og sú farsæla leið er líka til lengri tíma litið sú leið sem skilar mestum efnahagslegum ávinningi, því heilbrigði og frelsi er alltaf samofin efnahagslegum styrk og velmegun.
Það er hreint út ótrúlegt að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa reynt að verja þennan barnaskap og þau afglöp að tillögur um tilslakanir á landamærum skyldi vera unnar án þess að sóttvarnalæknir hafi verið hafður með í ráðum.
Og ennþá ótrúlegra að hann skuli ekki hafa sett krakkana í samfélagsbindindi, eða bannað þeim yfir höfuð að tjá sig um sóttvarnir og fyrirkomulag þeirra á landamærunum.
Katrín Jakobsdóttir hafði þó tötstið að þagga niður í Svanhvíti og tali hennar um að ekki yrði hvikað frá litakerfinu sem ætti að taka við 1. mai.
Katrín gerði það reyndar ekki fyrr en Þórólfur hló að því opinberlega á blaðamannafundi og sagði að litaspjald væri aldrei innlegg í sóttvarnir og hann tæki ekki þátt í slíkri vitleysu, en Katrín gerði það þó.
Þetta töts vantar Bjarna.
Það skaðar hann, líkt og hann hafi ekki stjórn á sínu liði.
Eða það sem verra er, að hann sé sjálfur svo firrtur að hann sé ekki neinum tengslum við líf og hugsanir venjulegs fólks.
En menn byrja ekki kosningabaráttu á að skjóta sig í fótinn, að vekja upp úlfúð og ótta, og geirnegla ímynd flokksins við þrönga hagsmuni fjársterkra aðila sem hafa fjárfest í ferðaþjónustunni undanfarin ár.
Bjarni þarf því að taka sig taki, og þó hann ráði kannski ekki menntaða fóstru til starfa í stjórnarráðið, þá má alltaf athuga hvort Nanny Mcphee sé á lausu.
Það er svo mikið undir, þetta gæti jafnvel varið bjarghringur vitleysingabandalags Pírata og Samfylkingarinnar, að flokkar sem hafa ekkert að segja, og ekkert til málanna að leggja, fái fylgi út á dómgreindarbrest og barnaskap fólks sem annars vegar skynjar ekki þjóðarsálin og hins vegar hefur ekki lágmarks þroska til að gegna starfi sínu.
Eldgosið gefur smágrið en ekki langan.
Vonandi notar ríkisstjórnin þann tíma til að ná sátt við sóttvarnaryfirvöld, og já kaupa beisli á börnin.
Haldi svo áfram að stjórna þjóðinni, því þrátt fyrir allt þá hefur stjórn hennar verið til heilla á þessum örlagatímum.
Vissulega gerð mistök, en það hefur alltaf verið reynt að bæta úr þeim.
Hún hefur tryggt stöðugleika, og sýnt augljósan vilja til að gera illt skárra, og í mörgu hefur vel tekist til.
Það má ríkisstjórnin eiga.
Og á svona tímum á meta slíkt og halda til haga.
En Nanny Mcphee, það ætti að athuga með hana.
Kveðja að austan.
![]() |
Engu fórnað fyrir aðra bylgju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.3.2021 | 12:14
Vítin eru til að varast.
Á engan hátt er hægt að heiðra minningu allra þeirra sem hafa fallið að óþörfu í þessari illvígu farsótt sem Kóvid er.
Gleymum því ekki að maðurinn býr yfir allri þeirri tækni og þekkingu til að verjast veirunni, setja hana í bönd, og síðan útrýma henni.
Síðan er varist á landamærum.
Það eru ekki bara eyríki eins og Nýja Sjáland og Taivan sem hafa náð að loka á veiruna, þriðja stærsta ríki heims, það fjölmennasta, hefur líka náð þeim árangri að allt mannlíf er eðlilegt innanlands, varnirnar eru á landamærunum, en þegar minnti grunur er um að smit sé að festa rætur, þá er lokað þann tíma sem það tekur að útrýma veirunni.
Kínversk stjórnvöld gerðu það sem margt hægri fólk vestrænna landa gerir, afneituðu staðreyndum og rifust við raunveruleikann, töldu sig vita betur.
En þegar þau sáu fram hrun samfélagsins og þar með hrun efnahagskerfisins, þá sáu þau að sér, og gerðu það sem þurfti að gera.
Útrýmdu veirunni og síðan þá hefur allt blómstrað í Kína.
Ólíkt því sem er í flestum vestrænum löndum, sífelldar samfélagslegar lokanir, efnahagsskaði, ótímabær andlát hundruð þúsunda.
Og ekkert lát á.
Ítölsk stjórnvöld heiðra hina látnu í Bergamo, borgarinnar sem varð táknmynd hörmunga fyrst bylgju kóvid faraldursins.
En þau hafa ekkert lært, frá því í vor hafa þrefalt fleiri fallið vegna kóvid veirunnar, samfélagið í fjötrum, stórskaðað efnahagslíf.
Allt vegna ítaka hins heimska hægris sem vill afsanna að við séum homo sapiens, þetta vitiborna sé óþarfa forskeyti.
Vítin eru til að varast.
Þessi orð má lesa í þessari frétt um minningaathöfnina í Bergamo;
"Margir borgarbúar gagnrýna yfirvöld fyrir að hafa oft seint gert sér grein fyrir alvarleika farsóttarinnar í fyrra. Hversu seint var gripið til viðeigandi ráðstafana til að stöðva fjölgun smita. Meðal annars með því að setja á samkomubann.".
Andvaraleysi sem kostaði líf ástvina þeirra.
Við Íslendingar eigum líka okkar víti.
Óþarfa dauðsföll, ónýtt síðsumar, stífar samfélagslegar lokanir langt fram eftir vetri, og fyrir þá sem skilja ekki sið, aðeins aura og krónur, tugmilljarðar töpuðust vegna frostavetur hinna stífu sóttvarna.
Og núna ætlar sama fólkið að endurtaka þessi víti.
Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur kveðið úr um að þetta séu ekki bara börnin.
Sumir læra ekkert, sumir skilja ekkert.
Í raun of heimskt til að vera satt.
Svo spurningin er; Hvað hangir á spýtunni??
Eftir Hrun var upplýst hvernig útrásarvíkingarnir mútuðu eða keyptu upp stjórnmálamenn.
Er eitthvað slíkt í gangi í dag, eru það miklir fjárhagslegir hagsmunir undir hjá hluta auðstéttar okkar, að hún hafi talið það arðvænlegt að fylla tóma vasa flokka og einstakra stjórnmálamanna í aðdraganda prófkjara og kosninga??
Veit ekki.
En ég veit að þegar heimskan er of heimsk til að hægt sé að skýra hana með heimsku viðkomandi, þá er skýringanna að leita annars staðar.
En svarið vita þeir sem spila sig fífl þessa dagana.
Á meðan skulum við sem þjóð hindra vítin.
Kveðja að austan.
![]() |
Herbílar hlaðnir líkkistum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.3.2021 | 13:37
Börnin sem þykjast vita betur.
Og hafa jafnvel verið staðin að því að ybba gogg við sér eldra og reyndara fólk líkt og iðnaðarráðherra gerði svo eftirminnilega í byrjun síðasta sumars þegar hún andmælti gildum rökum Gylfa Zöega hagfræðiprófessors um að skaðinn við opnun landamæranna væri margfaldur á við þann skammtíma ávinning sem ferðaþjónustan hefði af auknum ferðamannastraumi, ávinning sem varaði aðeins á meðan ný bylgja veirunnar væri að skjóta rótum og öllu yrði lokað á ný.
"Ég tel svo ekki vera" er frægt svar iðnaðarráðherra og sú forheimska kostaði þjóðina einhver prósent í samdrátt þjóðarframleiðslunnar auk ótímabærs andlást nokkurra eldri samborgara okkar.
Núna berast fréttir að börnin sem vita betur, hafi unnið tillögur um gildi einhverra vottorða frá löndum utan Schengen, án nokkurs samráðs við sóttvarnaryfirvöld.
Eins og enginn sé lærdómurinn eða þá það sem þarf að vera til staðar svo fólk geti lært, sé ekki til staðar.
Eins fáum við fréttir um að heilbrigðisráðherra hafa sagt í Kastljósi, en ekki í grínsketsi hjá Gísla Marteini, að stjórnvöld stæðu fast við þá ákvörðun sína að taka upp litakóðunarkerfi á landamærunum frá og með 1. mai.
Rökin eru reyndar ekki þráin eftir að komast aftur í öruggt skjól leikskólans og fá að lita, heldur eitthvað sem heitir fyrirsjáanleiki, að það séu einhverjir í samfélaginu sem geta ekki vaknað á morgnanna og skipulagt daginn sinn nema að búa við þennan meinta fyrirsjáanleika.
Maður vorkennir Ölmu að þurfa enn einu sinni að svara þessu bulli.
"Alma D. Möller landlæknir bætti því við að kallað hafi verið eftir fyrirsjáanleika í ýmsum aðgerðum hvað faraldurinn varðar en að veiran byði ekki upp á fyrirsjáanleika og mikilvægt væri að allir væru tilbúnir í að áætlanir væru endurskoðaðar reglulega.".
Það er ekki nema von þó að Þórólfur eyði nokkrum orðum í að útskýra efnislega að hann gegni embætti sóttvarnalæknis og hlutverk hans er samkvæmt lögum að koma með tillögur og annað sem taka tillit til aðstæðna hverju sinni, með því markmiði að vernda almenning gagnvart hinni alvöru farsótt sem herjar á heimsbyggðina.
Hans hlutverk er ekki að hlusta á börn.
Hvort sem þau þykjast vita betur eða ekki.
Loksins kom að því að Þórólfur lét ekki lengur bjóða sér þennan ruglanda.
Hann hefði betur gert það fyrir ári síðan, en hann lærir.
Enda löngu orðinn fullorðinn og laus við barnsskóna.
Og hann er í þeirri stöðu í dag að eiga síðasta orðið.
Þjóðin líður ekki annað.
Kveðja að austan.
![]() |
Erfitt að vita nákvæmlega hvaðan fólk kemur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2021 | 17:56
Elliært gamalmenni stuðlar að heimsófriði.
Það er vissulega alveg rétt að forseti Rússa, Pútín, beri ábyrgð á dauðsföllum andstæðinga sinna.
En aðeins elliært gamalmenni horfir ekki í eigin barm, og fattar að í embætti hans felst ákvörðun um að drepa andstæðinga þjóðar sinnar.
En vissulega þarf Biden ekki að vera elliær, hann getur höfðað til heimsku og forheimsku fólks, líkt og til dæmis við þekkjum vel hér á Moggablogginu, sem kannast aldrei við bein dráp bandaríska stjórnvalda, en halda síðan lærðar ræður um lýðræði eða mismunun á milli þeirra sem drepa með sprengiefni tengt við fólk, eða þeirra sem drepa miklu fleiri með því að sprengja allt í loft upp með drónum.
Eitthvað sem allir vita nema hugsanlega Björn Bjarnason og Davíð Oddsson.
Breytir engu um það að hið meinta stríð við meint hryðjuverkasamtök, ber beina ábyrgð á dauða saklausra, svo það tæki jafnvel Pútín áratugi að ná einu ári í beinum morðum bandarískra stjórnvalda.
Trump var vissulega kaupsýslumaður, en engin dæmi eru um að hann hefði verið svona heimskur að saka rússnesk stjórnvöld um að vera morðingjar.
Enda nýtti Trump sér óspart að vega og drepa meinta andstæðinga stjórnvalda í Washington.
Eftir stendur hvaða fífl og fábjáni leyfði hinu elliæra gamalmenni að tjá sig án þess að hið elliæri sem tryggði þessu fólki völdin, væri ekki ritskoðað.
Þetta er alvarlegra en aumkunarverðar tilraunir Brussel til að drepa bólusetningar AstraZenita, bein afleiðing þess er aðeins ótímabær andlát þúsunda, en þegar Haukarnir fá free spil með að efna til ófriðar, að skapa stríðsástand, þá þarf mannkynið að spyrna við fótum.
Og krefjast þess að leifarnar að lýðræðinu í Bandaríkjunum hafi hemil á stríðsæsingamönnum sem efna til ófriðar í þeim eina tilgangi að auka hagnað sinn og tekjur vegna aukins herbúnaðar hin stríðshrjáðra andrúmslofts.
Elliært gamalmenni, hinir aumkunarverðu félags og vinstrimenn sem seldu sálu sína í glóbalvæðingu frjálshyggjunnar, og heimurinn er á barmi staðbundinna átaka sem sagan kennir að leiða að lokum til allsherjarstríðs.
Ef hið elliæra gamalmenni hefði ekki verið birtingarmynd nútímalæknavísinda um að hægt sé að hægja á eða jafnvel í miðri kosningabaráttu, láta líta út að þegar ga ga stjórnmálamaður, sé ekki svo ga ga, og jafnvel þau öfl sem að baki standa, vilja gera hið veikburða veldi Pútíns að óvini, þá er ekki hægt að líða slíkt feik og fals.
Sem er hin vanheilaga glóbalvæðing (alþjóðavæðing) auðs og hinna Örfáu auðmanna og alþjóðlegra stórfyrirtækja sem kerfisbundið hafa fært þekkingu og framleiðslu til Kína, sem og annarra þrælabúða alþjóðavæðingarinnar.
Trump reisti upp varnargirðingar með þekktum árangri, lífskjör vinnandi fólks í Bandaríkjunum náði sögulegum hæðum ásamt þess að ríkiskassinn fékk áður óþekktar upphæðir sem áður fóru í skattaskjól alþjóðavæðingarinnar, en núna á að snúa því tímahjóli við.
Hinn raunverulegi óvinur vestrænna ríkja, velmegunar þeirra og lífskjara, fær aftur frítt spil eftir að hafa smitað heimsbyggðina af nýjum veirusjúkdómi, hinn forni óvinur, sem er líklegast eldri en þegar Biden varð elliær, tók við áróðurskeflinu.
Eftir standa hérlendis fíflin sem taka undir.
Þeirra heimska er botnlaus hít, svo jafnvel elliglöp og heilarýrnun fær aldrei botnað og unnið gegn.
Sem og heimurinn, sem er uppfullur af lífi sem við ólum öll.
Hvernig gat hið svarta afl Wall Street, hið siðlausa ómennska fjármagn, stolið forsetakosningunum í höfuðvígi vestræns lýðræðis??
Og talið "rétthugsunina" og fíflin þar að baki í trú um að elliært gamalmenni væri leiðtogi sem við gætum fylgt okkur um??
Aflið sem rústaði hinum vestrænu velferðarsamfélögum, fjármagnaði forsetakosningu Bidens, og höndina sem benti á ógnina frá Kína, hún fékk sitt show með því að benda á Rússa og hið aldna kjarnorkubúr þeirra.
Á meðan við erum endanlega rænd og rupluð, allt sem við gerðum vel, og höfum gert vel, hefur hið svarta fjármagn þess í neðra, flutt í alræðisstjórn kommúnistanna í Kína.
Svo jafnvel þegar kommúnistarnir afneituðu tilvist Covid veirunnar, þá komust þeir upp með að sýkja heimsbyggðina, og sú gjörð var ekki þeirra fyrsta.
Vestræn ríki í fjötrum Cóvid, Kína sem sannarlega dreifði veirunni um heimsbyggðina, eflist á kostnað þeirra starfsemi sem alþjóðavæðingin hafði ekki frekar gert út um, það er eytt, útrýmt, útvsitað með allri þekkingu og kunnáttu til meðreiðarsveina hins kínverska kommúnistaríkis.
Og vörnin er að hið elliæra gamalmenni bendir á Pútín, og þann litla stöðugleika sem við búum við í Austur Evrópu og Mið Asíu.
Ekki að hinn meðaljóni sem býr á meðal okkar, skynji vandann eða ógnina að baki óstöðugleika á þeim slóðum, en sú skynjun er forsenda alls sem kenna má við stjórnun og ákvörðunartöku okkar í Vestur Evrópu.
Svo látum við hið skítuga fjármagn frjálshyggjunnar og alþjóðavæðingarinnar komast upp með að elliært gamalmenni var kosið forseti Bandaríkjanna.
Líkt og við séum ekki til, í það minnsta eigum ekki líf sem við viljum verja.
En er það svo?
Skynjum við ekki tilveru okkar og líf á móti??
Ef svo er, þá skulum við spyrna á móti.
Ef við lesum svona rugl, fordæmum það.
Trúum að það sé von á móti.
Kveðja að austan.
![]() |
Biden segist sammála því að að Pútín sé morðingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.3.2021 | 14:04
Dauðans alvara er handan við næsta horn.
Og því megum við ekki núna eftir alla þessa mánuði þar sem samfélagið var meira eða minna í höftum sóttvarna, vanvirða ráðgjöf og ráðleggingar Þórólfs um að við stígum varlega til jarðar, gætum að okkur og hvert og eitt skref til opnunar samfélagsins sé tekið að varúð, og við séum öll meðvituð um að gæta að hegðun okkar.
Það er svo auðvelt fyrir veiruna að skjóta hér rótum aftur, alveg eins og það er svo auðvelt fyrir okkur að ná að útrýma henni úr samfélaginu svo við getum tekið upp eðlilega lífshætti á ný.
Þetta tóks í Whuan, 11 milljóna manna borg, eftir 76 daga útgöngubann, þá hófst þar ferli þar sem samfélagslegum lokunum var aflétt í áföngum, og þegar komið var fram á sumarið var eins og engin farsótt geisaði i heiminum.
Mannlíf var þar því sem næst eðlilegt, fólk gætti vissulega að persónulegum sóttvörnum (kínverska gríman) en vörnin var staðin á borgarmörkum og síðan við landamæri Kína.
Það er svo mikilvægt fyrir okkur að skilja að fólk þurfti ekki svo mikið að deyja í þessum heimsfaraldri, ekki ef ríki gripu strax til þeirra ráðstafana að loka á smitleiðir veirunnar og verja síðan landamærin.
Ekki bara Kínverjar, samlandar þeirra i Taiwan eru með dánartöluna 0,4 per milljón, Thailand er með 1 per milljón, Nýja Sjáland með 5, eitthvað meira í löndum eins og Hong Kong og Singapúr.
Á sama tíma hundsuðu vestræn stjórnvöld alvarleik veirunnar, þegar bönd virtust vera komin á hana í byrjun sumars, faraldurinn var að deyja út, þá í forheimsku sinni var Evrópa opnuð fyrir umferð, án þess tryggt væri að smit bærust ekki milli landa. Svipað gerðist í Bandaríkjunum.
Hundruð þúsunda dóu að óþörfu, frá því í fyrsta faraldri hefur dánartala flestra Evrópulanda þrefaldast ef ekki meir.
Við megum ekki gleyma þessum napra raunveruleika, hinir látnu eiga þá kröfu að afglöpin séu viðurkennd, af þeim dreginn lærdómur, svo fall þeirra hafi ekki verið til einskis.
Og tökum dæmi um þennan napra raunveruleika, gott er að miða við 1. júní, því þá var ljóst að faraldurinn var búinn í Whuan.
Ísland fór úr 11 í 29, tæp þreföldun, dánarhlutfallið 83 per milljón íbúa.
Danmörk fór úr 576 í 2.361, rúmleg fjórföldun, dánarhlutfallið 407 per milljón.
Svíþjóð fór úr 4.661 í 12.826, tæplega þreföldun (2,7), dánarhlutfallið 1.265.*
Portúgal fór úr 1.424 í 16.276, rúm 11 földun, dánarhlutfallið 1.603 per milljón.
Tékkland fór úr 318 í 20.396, rúm 64 földun, dánarhlutfallið 1.909 per milljón.
Ítalía fór úr 33.568 í 97.699, tæplega þreföldun, dánarhlutfallið 1.617 per milljón.
Spánn fór úr 29.079 í 69.142, rúmlega tvöföldun, dánarhlutfallið 1.478 per milljón.
Frakkland fór úr 28.808 í 86.454, þreföldun, dánarhlutfallið 1.323 per milljón.
Þýskaland fór úr 8.618 í 70.687, rúmlega 8 földun, dánarhlutfallið 842 per milljón.
Bretland fór úr 37.529 í 122.849, rúmlega þreföldun, dánarhlutfallið 1.803 per milljón.
Bandaríkin fóru úr 110.116 í 525.778, tæplega 5 földun, dánarhlutfallið 1.582 per milljón íbúa.
Og þessi aukning varð þrátt fyrir að á lokum var gripið til umfangsmikilla samfélagslegra lokana í öllum þessum löndum, og þær hafa staðið víðast lengur yfir en það tók Kínverja að útrýma farsóttinni úr landi sínu.
Ávinningurinn af heimskunni er því enginn fyrir utan ótímabæran dauða og margfalds efnahagslegs tjóns en hefði orðið ef veirunni hefði strax verið útrýmt í fyrstu bylgju og landamæri síðan varinn.
Vissulega hefði veiran blossað upp, en aðeins staðbundið og henni hefði þá aftur verið útrýmt með sömu aðferðarfræði.
Gleymum svo heldur aldrei að það var endalaust verið að naga niður sóttvarnir hérlendis með tilvísan í eitthvað sem átti að ganga betur í öðrum löndum þar sem að sögn miðuðust sóttvarnir við meðalhóf.
Gott og blessað, allir vita hvernig það endaði hjá þessum hinum, því raunveruleikinn er sá að annað hvort lokar þú á smitleiðir, eða þú situr uppi með faraldur fyrr eða síðar.
Við megum ekki gleyma þessu.
Styðjum núna Þórólf allt til enda.
Hann á það inni hjá okkur.
Kveðja að austan.
![]() |
Mótefnamælingar beðið vegna smitsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 3
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 1440174
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar