31.12.2020 | 20:35
Áramótaávarp Katrínar.
Var vel mælt.
Á pari við það besta sem ég hef skálað fyrir núna í um 40 ár.
Uppúr stendur hjá mér, búandi á Neskaupstað, ávarp Davíðs Oddssonar í árslok hamfaraársins 1995, þá skáru snjóflóðin fyrir vestan í sál og vitund.
Þá sýndi Davíð á sér áður óþekkta hlið, talaði sem landsfaðir, óháð þeim kreddum stjórnmálanna sem hann hafði ungur svarið fóstbræðralag við.
Man kannski ekki orðin, en man talandann, hrynjandann, fyrirheitin um að við sem þjóð myndum snúast til varnar, verja byggðir, við værum öll ein þjóð.
Katrín hafði aðeins ekki styrk til að minnast á eitt.
Fyrirheitið um greiðsluskjól handa öllum þeim sem sjá fram á að missa heimili sín vegna fordæmalausra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Eins og hún hefur vaxið á þessu ári í embætti sínu, þá er hún ekki ennþá orðin nógu stór til að segja, "svona gerum við ekki, við bjóðum ekki upp fólk vegna afleiðinga hamfara".
Henni til afsökunar má þó segja að enginn annar stjórnmálamaður hefur mælt þessi orð.
Allra síst þeir sem mynda vitleysingabandalag stjórnarandstöðunnar, fólkið sem hneykslast og fordæmir á torgum, en hefur sjálft ekkert til mála að leggja.
Katrín átti samt að heitstrengja þetta.
Því slíkt er hlutverk leiðtoga.
Að segja það sem þarf að segja á Ögurstundum.
En ég veit að hún mun segja það.
Allavega inní sér.
Annars er það áramótakveðjan.
Takk kæru lesendur, við erum öll eitt.
Kveðja að austan.
![]() |
Ár hamfara að baki, ár viðspyrnu fram undan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.12.2020 | 15:44
Skinhelgi á jólum.
Ótrúlegt að upplifa hvernig fólk og fjölmiðlar gátu farið hamförum út af meintum brotum Bjarna Ben á sóttvörnum, það hefði mátt halda að Bjarni hefði boðið til mannfagnaðar og staðið fyrir djammi langt fram á nótt, í stað þess sem gerðist, að honum varð á, og gætti ekki að sér.
Hvernig fólk gat velt sér uppúr þessu eða gripið tækifærið til að vega að pólitískum andstæðingi, á þessum tíma þar sem við eigum að huga að ljósinu og birtunni, jafnvel hafa aðgát í dómum okkar og fordómum gagnvart náunganum, að ekki sé minnst á að leggja eitthvað gott til, gagnvart okkar nánustu, gagnvart náunganum, gagnvart samfélaginu.
Jafnvel á erfiðum stundum kemst maður ekki hjá því að finna fyrir inntaki jólanna þegar sagt er í fréttum frá hinu óeigingjarna sjálfboðastarfi hermanna Hjálpræðisins sem gefa gjafir, gefa mat, og ekki hvað síst, gefa kærleik.
Þá eyða menn tímanum í aðför að manni, manneskju, sem gaf á sér höggstað, og bullusullast út um víðan völl um eitthvað sem á sér ekki flugufót í raunveruleikanum.
Góðglaður Bjarni var ekki að vanvirða fólk sem býr við einangrun þessi jól. Einangrun þess stafar af því að það er í áhættuhópi, og þarfnast því sérstakrar verndar.
Mistök hans eru ekki hvatning til annarra að virða ekki sóttvarnir, fólk er ekki svo heimskt að það lætur einhverja meinta áhrifavalda stjórna lífi sínu, til góðs eða ills. Þeir sem virða sóttvarnir, halda áfram að virða þeir, hins vegar gæti umræðan um þessi mistök orðið til þess að þeir sem eru kærulausir, hugsi betur sinn gang, og þá eru þessi mistök til góðs.
Síðan er engin tvískinnungur fólginn í því að gegna skyldum sínum innan ríkisstjórnar Íslands og taka réttar ákvarðanir um sóttvarnir þjóðarinnar, sem og í kjölfarið að hvetja fólk til dáða, og verða síðan sjálfum á mistök á þessum tímapunkti þar sem fólk slakar og vill gleðjast með sínu nefi.
Annars vegar er það hin opinbera persóna, hins vegar er það manneskjan að baki henni.
Og illa er fyrir sálarlífi fólks ef það áttar sig ekki á þessum mun.
Fjarstæðan er síðan sú að leggja út af þessu broti og samkvæmi, að eitthvað meint ríkt fólk telji sig geta komist upp með athæfi sem almenningi líðist ekki. Það er tekist á við þetta brot eins og önnur, það fær sína afgreiðslu, eins og önnur sama eðlis.
Frekar mætti halda því fram að hinir skinheilögu krefjist að strangara sé tekið á sumum en öðrum, og þessir sumir séu allir þeir sem viðkomandi er illa við, hvort sem það er pólitískt, eða persónulegt.
En af hverju er ég með svona langan aðdraganda að því sem ég sagt vildi hafa út frá þessari frétt?
Jú, þegar fárið stóð sem hæst, þá blöskraði mér hvernig ómál fékk alla athygli en stórmál, mál sem snerta okkur öll, falla í skuggann, eru ekki rædd, nema þá sem aukafrétt.
Stórfréttin fyrir jól, fyrir utan hörmungarnar á Seyðisfirði, var sú staða sem upp var komin að fyrirheitin um bólusetningu uppúr áramótum, og hjarðónæmi fyrir vorið, var orðið að engu, hafði drukknað í skriffinnskutilburðum Brussel.
Eitthvað sem átti að kalla á svör, og jafnvel kröfu um afsögn heilbrigðisráðherra.
Þá hjó ég eftir því að Bjarni hjólaði ekki í VG þó það hefði glatt margann haukinn í flokki hans; hann lét til dæmis þessi orð Katrínar ekki út úr sér; " .. að vissulega séu það vonbrigði að málið hafi komið upp og að það skaði traust milli flokka í ríkisstjórn".
Hann fóðraði ekki nagið gegn ríkisstjórninni með því að ráðast á samstarfsflokk og ráðherra sem lá við höggi.
Þess í stað var reynt að bæta úr, Katrín tók upp tólið, sambönd voru virkjuð.
Þá kom stórfrétt þessarar hátíðar, hugmynd var uppi um samstarf við Pfizer um tilraunabólusetningu þjóðarinnar til að rannsaka hið mögulega hjarðónæmi, sem í dag er aðeins tilgáta, nútíminn hefur aldrei staðið frammi fyrir viðlíka hremmingum gagnvart svona smáum og illvígum drápara.
Frábær frétt, en hvað gerðist svo?
Jú, aðilar málsins fóru að karpa eins og smástrákar um heiðurinn, drógu skugga deilna fyrir tjald vonarglætunnar.
Hversu heimskt þetta er er í raun ekki hægt að lýsa með orðum, það eina sem afsakar er þandar taugar hinna örmögnuðu sem hafa of lengi staðið vaktina í framlínu baráttunnar.
Eitthvað sem snerti líf og limi, eitthvað sem gæti flýtt fyrir að við fengjum líf okkar aftur úr hremmingum sóttvarna, og þá karpa menn um heiðurinn.
Og fjölmiðlar og netheimar veltir sér uppúr mannlegum breyskleika, eins og drulluslagur og mannorðsníð sé það eina sem menn hafa til málanna að leggja á dauðans alvöru tímum.
Eins og við séum stödd á þeim tíma þar sem Íslands ógæfu varð allt að vopni.
Margir eiga að skammast sín eftir þessa hátíð.
Það er enginn sómi að svona aðför á sjálfri jólahátíðinni.
Vonandi hafa menn vit til að sjá það.
En fyrst og síðast erum við að bregðast framtíðinni með því að láta svona.
Það þarf ekki að eyða orðum að vitleysingabandalaginu, en full ástæða til að lesa yfir fullorðnum mönnum sem taka uppi hætti smástráka.
Kyrrð jólanna virðist samt hafa haft góð áhrif, Kári gerðist auðmjúkur og Þórólfur er hættur að kýtast.
Það er vel því þannig á það að vera.
Það er verkefni sem þarf að vinna.
Ekki með hangandi hendi heldur með eldmóði þess sem trúir að hann nái árangri, að hann skili góðu verki.
Gangi ykkur vel Þórólfur, Kári, Katrín og þið öll hin.
Verk ykkar skiptir máli.
Kveðja að austan.
![]() |
Þórólfur: Vonandi sér Pfizer kosti Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.12.2020 | 18:38
Afsakið, mér varð á.
Hvað er flókið að segja þetta??
Hví alltaf þetta mjálm sem hét á fornu máli sem var talað fyrir aldamótin síðustu, að bera í bætifláka, sem virkar alltaf svo hjákátlegt.
Við skulum vona að Bjarni sé ekki að vinna að ekki mikilvægum og góðum málum, af hverju þá alltaf að segja, vil ekki stefna góðum málum í hættu með því að axla ábyrgð með afsögn??
Og af hverju að taka fram að í augnabliki tímans hafi láðst að hlusta á tímastjórnandann, eiginkonuna?
Hvaða karlamaður kannast ekki við þau glöp, þetta kallast að vera giftur, og að vera karlmaður.
Og allt eftir þessu.
Kjarninn er sá að Bjarna varð á.
Hann var maður til að biðjast afsökunar.
Og málið útrætt.
Hins vegar eru það afglöp að segja af sér.
Og Bjarni er margt, en afglapi er hann ekki.
Sem betur fer.
Kveðja að austan.
![]() |
Ég er ekki að hugsa um að segja af mér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.12.2020 | 15:22
Bjarni er bara maður eins og við hin.
Alveg eins og Víðir sem tók vinartryggð fram yfir stranga túlkun á sínum eigin reglum.
Þetta gerist og mun alltaf gerast á meðan við njótum þeirrar gæfu að fólk stjórni okkur, sem er breyskt eins og aðrar manneskjur.
Hæfni fólks ræðst ekki að mistökum þeirra heldur viðbrögðum þess við vanda, leiðsögn þess og sýn.
Bjarni hefur verið gæfa þessarar þjóðar, hann hefur rifið sig út úr kreddum og viðjum frjálshyggjunnar og nálgast efnahagsvandann sem fylgir svona faraldri, út frá kenningum borgarlegrar hagfræði um að beita ríkissjóð og seðlabanka til að vinna gegn samdrætti kreppunnar.
Með öflugum mótvægisaðgerðum hefur þjóðfélagið gengið nokkuð snurðulaust, og slíkt er alls ekki sjálfgefið.
Bjarni á því að biðjast afsökunar, sem hann hefur gert, fara svo heim til mömmu sinnar og leyfa henni aðeins að lesa honum lesturinn, og halda svo áfram sínu striki.
Einu mistökin sem hann gæti gert í stöðunni væri að taka mark á því fólki sem krefst afsagnar hans.
Því það yrði þjóðarógæfa.
Fólkið sem æpir hæst er algjörlega ófært um að stýra á þessum tímum, eða yfir höfuð á öllum tímum.
Það er bara svo.
Skammastu þín Bjarni.
En ekkert um fram það.
Kveðja að austan.
![]() |
Hefði átt að yfirgefa listasafnið strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.12.2020 kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.12.2020 | 01:44
Skipstjóri hengdur fyrir útgerðarmann.
Líklegast vegna þess að ákæruvaldið fann engan bakara til að ákæra.
Krakkagreyjunum sem hafa bókstafslega lært lagabókstaf, má virða til vorkunnar að enginn smiður kom nálægt vettvang hins meinta glæp.
Það er ljóst að skipstjórinn á Júlíus Geirmundssyni fór ekki í land þó að kóvid hefði laumast um borð, og var þar með laumufarþegi, ekki svartur, ekki flóttamaður, heldur veira sem gat verið lífshættuleg við ákveðin skilyrði.
Veira sem samfélagið var á fullu að berjast við, og öllum var ljóst tilurð hennar, hún væri ekki flensa enda ganga ekki flensur á sumrin, jafnvel ekki fyrir vestan þó sumar þar teljist varla til mildra haustveðra í hinum byggilega heimi, og hún var sett í einangrun hvar sem til hennar náðist.
Þó Vestfirðir séu á mörkum hins byggilega heims, þá var öllum ljóst þar við hvað væri að glíma.
Þetta vissi skipstjórinn, þetta vissi áhöfnin, og því miður fyrir áhöfn Júlíusar Geirmundssonar, þá vissi útgerðin þetta líka.
Seinna þegar skipstjórinn fór í land, þá sagði útgerðin honum að sigla og veiða.
Því þó allir væru fárveikir um borð, og Júlíus neyddist í land vegna vatnsskorts að mig minnir, þá skipaði útgerðin skipstjóranum að halda aftur á miðin.
Nema að bíræfinn sjálfstæður fréttamaður hjá Ruv fyrir vestan, kjaftaði, og upplýsti þjóðina.
Þá fyrst kviknaði á perunni hjá sóttvarnaryfirvöldum, að það væri ekki sniðugt að hafa fárveika áhöfn úti á sjó.
Peran kviknaði aðeins vegna þess að fréttirnar vöktu hneykslan almennings, þó flestir bentu á skipstjóra og útgerð, þá spurðu samt margir, eru ekki sóttvarnarlög í gildi líka fyrir vestan??
Þá var haldinn neyðarfundur, allir þeir sem klúðruðu, allir þeir sem ábyrgðina báru, þeir kölluðu á Júlíus í land, til þess að hægt væri að benda á hinn meinta sökudólg.
Stórtíðindi reyndar að ekki var bent á skúringarkonuna, eða hásetann niðri í lest (léttadrengir eru ekki lengur ráðnir til sjós), eins þótti það ekki líklegt til árangurs að benda á hina fárveiku áhöfn, en skipstjórinn, hann var sekur, var það ekki?, hann var jú skipstjóri.
Reyndar maðurinn sem hafði samband við sóttvarnarlæknir Vestfjarða, sem bar skyldu til að láta löggæsluyfirvöld vita, sem miðað við alvarleik málsins, hefði þýtt að varðskip hefði snúið Júlíusi í land.
En þar sem grunur lék á að hann hefði sumarpart unnið í bakarí á Ísafirði, þá töldu sóttvarnaryfirvöld og Landhelgisgæslan tilvalið að hvítþvo ábyrgð sína með því að hnippa í krakkagreyið sem hefur lært utanbókar lagabókstaf, og segja honum að meintur bakari sé alltaf hengdur, það er þegar glæpur er framinn sem yfirvöld neyðist til að ákæra fyrir.
Salómonslausn fyrir menn lítilla sjáva.
Síðan var ekki hægt að rífast yfir að skipstjórinn fór sannarlega ekki í landi, og fór sannarlega út á sjó aftur, með fárveika áhöfn.
Sem hefði heppnast ef fréttamaður Ruv fyrir vestan hefði þegið sponsuna sem til dæmis Morgunblaðið þáði og þagði.
Í því ljósi eru fleiri glæpir til staðar en sá afglapaháttur yfirvalda að leyfa Júlíusi Geirmundssyni að veiða þrátt fyrir að opinber yfirvöld hefðu verið upplýst um kóvid sýkingu um borð.
Yfirvöld höfðu lögin með sér, bæði siðferðisleg og lagaleg svo jafnvel krakkagreyið sem hafði lært lög, utanbókar, og ákærir núna, hefði aldrei getað véfengt þann rétt.
Sá glæpur er að skipstjórinn átti að snúa í land, um það eru skýr ákvæði í sjómannalögum, á hann skyldi bent, hann gerður að upphafi og endi alls þessa sem miður fór.
En hann gerði það ekki.
Og hver skyldi skýringin vera??
Einar Valur kom út eins og hálfviti í viðtalinu sem tekið var við hann.
Augljóslega sekur maður, ekki út frá vitneskju okkar, heldur út frá atferli hans sjálfs.
Það afsakar kannski ekki skipstjórann, vissulega er forsenda starfsins skilyrðislaus hlýðni, annars vegar heill og heilsa áhafnar.
Honum til betrunar má aldrei gleyma að hann hafði samband við yfirvöld og lét vita, hlýddi hann útgerðinni þá átti landhelgisgæslan að grípa inní samkvæmt laganna bókstaf.
Hefðu lögin virkað, þá þannig séð ógnaði hann ekki neinum.
Misreiknaði bara ítökin eða hreðjatakið sem útgerðaraðalinn fyrir vestan hefur á barnaráðherrum Sjálfstæðisflokksins, enda borgar almannatengillinn, sem mótaði hugmyndafræðina að baki selaímyndunum sem skýra ráðherrasetu viðkomandi, ekki sjálfum sér laun.
Eftir stendur æpandi sekt samkvæmt laganna hljóðan.
Og ákærður eftir því.
En smiðurinn, nei fyrirgefið útgerðarmaðurinn sem meginábyrgðina ber, þolir samviska hans þessa ákæru??
Það er aðeins einn maður sem getur svarað því.
Maðurinn með vondu samviskuna, étinn og tærður að innan.
Kerfið verndar hann.
Ekki bara það sem hann keypti, og er eilíf smán Sjálfstæðisflokksins, heldur líka sú lagahefð sem auður, völd og stétt hafa þróað í árhundruð, og frýja (með undantekningum en í þau göt er ætíð stoppað) að ætíð sé verkfærið dæmt.
Ef auðmaður með tengsl í kerfið, hinum samofnu þræði auðs, embættis og stjórnmála, hefði til dæmis framið fjöldamorð í mosku eða kirkju, þá hefði krakkagrey verið fengið til að rannsaka og ákæra, og samkvæmt laganna bókstaf, sem krakkagreyið lærði utanbókar og fékk góða einkunn fyrir, þá væri augljóst að byssan væri sek.
Þannig séð erum við ekki lengra komin frá því miðaldaþjóðfélagi auðs og aðals þar sem almenningur, hið vinnandi fólk var réttlaust, nema í því tilviki þar sem það fékk það hlutverk að láta hengja sig fyrir hinn seka sem tilheyrði elítunni.
Eftir stendur Einar Valur.
Er hann sáttur?
Er þetta sú byrði sem hann ætlar að bera á bakinu þegar amma hans spyr hann hvort hann hafi verið ærlegur eftir að hún fór??
Aðeins hann getur svarað þeirri spurningu.
Vegna þess að réttarkerfið á Íslandi hefur lítt þróað frá því að snærisþjófar voru sendar á Brimarhólm á 17. öldinni líkt og Laxness gerði ódauðlegt í Íslandsklukkunni.
Nema þá vissu menn ekki betur.
En jafnvel krakkagreyin sem lærðu lagabókstafinn utanbókar vita betur.
Og sem þjóð vitum við betur.
Á dauðans alvöru tímum þá eigum við ekki að líða svona kattarþvott.
Svona réttlætingu hinna seku, eða kerfisins sem brást.
Amman mun vissulega spyrja.
Og ég vildi ekki vera í sporum Einar Vals, sem hefur ekki manndóm í að axla ábyrgð sína.
En það er æðri dómur.
Eitthvað sem mun ske, og er öruggt, en hefur ekkert að gera með þau skilaboð sem eru send út í samfélagið.
Að ef þú ert rétt tengdur, þá kemstu upp með allt.
Vissulega þekkt staðreynd.
En ekki líðandi á dauðans alvöru tímum.
Við lifum þá tíma í dag.
Og ef við viljum lifa þá af, þá líðum við ekki þessa ákæru.
Því hinir seku eru ekki ákærðir.
Sem býður þeirri hættu heim að það sem má ekki gerast, gerist aftur.
Og aftur.
Sem er dauði á dauðans alvöru tímum.
Kveðja að austan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.12.2020 | 18:03
Ein þjóð í einu landi.
Sameinuð á hamfaratímum.
Þá falla grímur, innri maður blasir við.
Seyðfirðingar fengu góða heimsókn í dag.
Í dag er ég stoltur af ráðafólki mínu.
Við erum ein þjóð þegar á reynir.
Megi svo verða áfram á nýju ári því þá mun þjóðin takast á við áður óþekktar áskoranir.
Sú stærsta að koma öllum í öruggt skjól.
Öllum fyrirtækjum er ekki hægt að bjarga en það er hægt að bjarga heimilum fólks.
Veira er hamför, alveg eins og ofanflóð eða heljarrigningar.
Hamfarasjóður á því að endurfjármagna heimili þess fólks sem hefur misst allt sitt í kóvid, eða sér fram á að missa allt sitt.
Við erum ein þjóð.
Stöndum saman.
Gætum að hvort öðru.
Líka á nýja árinu.
Kveðja að austan.
![]() |
Ráðherrar slegnir og segja mikið verk framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.12.2020 | 10:02
Munu þau biðjast afsökunar.
Yfirfullar gjörgæsludeildir, smitmet, líkin hrannast upp, neyðarpantanir á líkpokum.
Þetta er hrollvekjan í Bandaríkjunum í dag, raunveruleiki sem margar ríkisstjórnir Vestur Evrópu reyna að forðast með því að skella öllu í lás um jólin og áramót, nú að þreyja þorrann á þar til almenningur er bólusettur.
Það er langur vegur frá þessu ástandi í Bandaríkjunum í dag og þess sem prófessorinn, sem ferðaþjónustan fékk til að ráðast gegn sóttvörnum á landamærunum, sagði í blaðagrein þann 29. ágúst síðastliðinn;
" Til dæmis voru viðbrögð vegna faraldursins vestra ekki til fyrirmyndar og Covid hefur í raun brunnið þar í gegn eins og sinueldur. En, án þess að það fari hátt í fjölmiðlum, þá hefur tilfellum í Bandaríkjunum farið fækkandi og lífið hér úti gengur almennt sinn vanagang, veitingahús full af fólki og sjúkrahús að mestu að sinna hefðbundnum sjúklingum þótt vissulega sé ástandið misjafnt á milli ríkja. Hjarðónæmi myndast ekki í einu vetfangi heldur verður smám saman erfiðara fyrir veiruna að breiðast út og það gæti e.t.v. farið að raungerast vestra á næstu mánuðum. ".
Þessum orðum hömpuðu andstæðingar sóttvarna í Sjálfstæðisflokknum mjög, sögðu að þarna væri fræðimaður sem væri ekki í vasanum á Kára og DECODE og margt mætt fólk þarna úti trúði þessu.
Prófessorinn var hluti af áróðursherferð fjársterkra hagsmuna, annað getur ekki skýrt að á svipuðum tíma birtust aðrar greinar í dagblöðum, leiðaraskrif Fréttablaðsins og Morgunblaðsins réðust beint gegn sóttvörnum þjóðarinnar, Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins endurbirti níðgrein öfgamanns um Boris Johnsson, þekkt Albaníuaðferð sem beindist að Bjarna Benediktssyni, og bullið og vitleysan var síðan blásin upp í netheimum, þar á meðal hér á Moggablogginu.
Í ljósi frétta um samfélagslegar lokanir víða í Evrópu eru þessi orð Reimars Péturssonar lögmanns athyglisverð, en hann skrifaði grein í Fréttablaðið, einmitt þann sama dag og Jón Ívar Einarsson, prófessor í Harvard, undir fyrirsögninni; "Vafasamar sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda".
"Vafasamt hlýtur að teljast að lokun landsins og stórkostlegar takmarkanir á atvinnufrelsi fjölmennra hópa samrýmist stjórnarskrá og lögum. Að minnsta kosti benda viðbrögð annarra Evrópuþjóða, eyríkja sem annarra, sem búa við stjórnskipun og löggjöf sem líkist okkar, til þess að síður íþyngjandi aðgerðir séu nú um stundir taldar nægjanlegar. Engar þeirra virðast álíta það markmið raunhæft eða samrýmast hófsemd að reyna að skapa veirufrítt svæði með því að stöðva allar ferðir yfir landamæri.".
Það vita allir hvernig það fór með þessar síður íþyngjandi aðgerðir, í dag eru þær strangari en hér, en munurinn er sá líklestin er farin af stað, í mörgum þessum löndum slagar mannfall haustsins hátt uppí þann fjölda sem féll í vor, munurinn er sá að í vor vissu menn svo lítið, í dag eru menn undirbúnir og gjörgæslur og önnur meðferð bjargar því miklu fleirum.
Samt deyr fólk og deyr, og miklu fleiri eiga eftir að deyja.
Verst er samt lygi Reimars, úthugsuð til að blekkja, "með því að stöðva allar ferðir yfir landamæri", ferðalög yfir landamæri hafa aldrei verið stöðvuð hérlendis, og krafa um sóttkví við landamæri var langt í frá séríslenskt fyrirbrigði.
Eitt af því sem einkenndi áróðurinn eða blekkingarinnar var að taka lönd þar sem faraldurinn var ekki eins skæður og í mörgum öðrum löndum, og það notað sem rök fyrir því að mildari sóttvarnir virkuðu betur en þær hörðu.
Þýskaland var tekið sem dæmi um stórt ríki þar sem ekki var gripið til eins harkalegra ráðstafana og í löndum eins og Ítalíu eða Bretlandi. Þjóðverjar náðu vissulega að halda veirunni í skefjum í vorbylgjunni en aðferðirnar voru um margt svipaðar og reyndar voru í upphafi í öðrum stórum löndum. Kannski var þýskur almenningur meðvitaðri um smithættu og hagaði sér í samræmi við það en allavega þá braust ekki út stjórnlaus faraldur þar í vor, ólíkt því sem gerðist í hinu stóru löndum Vestur Evrópu.
En þegar faraldur er stjórnlaus, þá duga ekki önnur ráð en að skera á smitleiðir veirunnar með stífum samfélagslegum lokunum. Eitthvað sem Þjóðverjar hefðu neyðst til að gera eins og allir aðrir.
Og gera núna á þessum tímapunkti; "Hert útgöngubann tekur gildi í Þýskalandi í dag og gildir til 10. janúar vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu. Skólum verður lokað og fyrirtækjum sem ekki veita nauðsynlega þjónustu verður gert að loka. (Ruv)".
Svíþjóð var síðan annað dæmi sem hampað var mjög, þrátt fyrir að mannfall þar átti sér engin önnur fordæmi á Norðurlöndum.
Bara það sem gerðist þar í vor gera þessi orð Sigríðar Andersen alþingismanns og foringja sóttvarnarandstæðinga í Sjálfstæðisflokknum óskiljanleg;
""Ég hef ekkert legið á mínum skoðunum og þetta er ákveðin leið sem ég tala fyrir og óska eftir skýringum frá yfirvöldum. Af hverju fara menn þessa leið?" spyr Sigríður og bætir við að sín leið sé líkari margtugginni sænskri leið, sem sóttvarnalæknir hafi upphaflega viljað feta: "Þess vegna er svo skrítið að menn hafi gefið í í þessum sóttvarnaaðgerðum þegar líður á faraldurinn og þegar það er alveg ljóst að menn eru að veikjast minna og höndla faraldurinn betur. Þá er gripið til harðari aðgerða. Það þarf að útskýra það"".
Það er mikill misskilningur að sænsk heilbrigðisyfirvöld hafi ekki gripið til harðra sóttvarnaaðgerða og þegar komið var fram á mitt sumar var heimsóknabann á hjúkrunarheimilum landsins og á meðan við máttum ferðast um landið okkar, þá máttu Svíar ekki fara nema x kílómetra frá heimili sínu í sumarfrí.
Vandinn var eins og sagði í nýrri skýrslu þarlendra um sóttvarnir; "Það mistókst að verja eldra fólk fyrir COVID-19, segir í áfangaskýrslu nefndar sem sænsk stjórnvöld skipuðu í sumar.Skýrslan er áfellisdómur yfir viðbrögðum yfirvalda í Svíþjóð, aðgerðir þeirra hafi komið of seint og ekki gengið nógu langt.".
Þeirra eigin orð um hina margtuggnu leið sem Sigríður Andersen hefur barist fyrir, þær mistókust því þær komu of seint og gengu ekki nógu langt.
En faraldurinn er í rénun í Svíþjóð var þá sagt og áróðursvélin dró upp að Íslandsströndum því til sönnunar forstjóra Karilanska sjúkrahússins, Íslendinginn Björn Zoëga. Allt var í góðu hjá honum og hans fólki, varla kóvid sjúklingur á sjúkrahúsinu en sagði þó að faraldurinn væri víða í vexti út um sveitir.
Bloggar höfðu ekki heldur undan að birta litmyndir af smitkortum Evrópu þar sem hluti Svíþjóðar kom betur út en Ísland og Noregur.
Og það var sífellt ráðist á Þórólf á blaðamannafundum, af hverju er ástandið svona gott í Svíþjóð, er það ekki vegna þess að þeir gáfu veirunni frelsi??
Í dag er allt lokað í Svíþjóð, og ástandið ekki gott.
Þetta mátti lesa í SVT í gær;
"153 nya dödsfall har rapporterats in sedan i fredags i Sverige, vilket gör att den totala dödssiffran i landet nu ligger på 7 667 personer. Samtidigt forsätter smittan att öka. Ökningen är ganska jämnt fördelad över olika åldersgrupper. Särskilt ökningen för personer över 70 år är bekymmersam eftersom de har ett större behov av sjukhusvård och större risk för att dö, säger Sara Byfors, enhetschef på Folkhälsomyndigheten, under tisdagens pressträffDet ökar i alla åldersgrupper vilket är en signal om att alla måste vara med i att bromsa smittspridningen. Det är viktigt att alla gör vad vi kan, fortsätter Byfors.".
Það verður að bremsa af smitútbreiðsluna, gjörgæslan er að yfirfyllast.
Ekkert af þessu á að koma á óvart því það er þannig með bráðsmitandi farsóttir, að þær breiðast út þar til hjarðónæmi næst eða það er skorið á smitleiðir þeirra.
Eitthvað sem vestrænir stjórnmálamenn þráuðust við fram eftir öllu hausti með þekktum afleiðingum.
Eitthvað sem íslensk stjórnvöld öxluðu ábyrgð á og því erum við í einum bestu málum í Evrópu í dag.
Öxluðu ábyrgð á þrátt fyrir beina andstöðu hluta af ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins (Frétt af mbl.is Þrír ráðherrar í hópi efasemdamanna).
Þrátt fyrir opinbert andóf þingmanna flokksins sem sögðu létu meðal annars þetta út úr sér; "Bara að einhver geti dáið og þá getum við bara lokað heiminum (BN)".
Þrátt fyrir harðskeyttan áróður fjársterkra hagsmuna.
Að stóru leiti vegna þess að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson stóð ístaðið gegn þessum áróðri, með þjóðinni gegn hinum þröngu hagsmunum.
Eftir stendur samt að áhrifafólk barðist fyrir fjöldamorðum, sænska dauðinn er um 250 einstaklingar hjá okkur.
Það eru þessir einhverjir sem Brynjar Níelsson talar um, rökin vernda ferðaþjónustuna.
En það er engin ferðaþjónusta í heiminum í dag, það er allt lokað, alls staðar.
Allt þetta fólk vissi vel fyrir hverju það var að berjast.
Það vissi afleiðingarnar, það þurfti ekki raunveruleikann til að skera úr um.
Það gengur laust meðal okkar og fær áfram að berjast gegn og grafa undan sóttvörnum þjóðarinnar.
Ráðast á heilbrigðisyfirvöld, ráðast á sóttvarnaryfirvöld.
Biðst ekki afsökunar, iðrast einskis.
Eina sem hefur breyst er að það hefur ekki lengur dæmin til að vitna í.
En ég skal vitna í dæmi um árangursríka sóttvarnir í landinu þar sem allt þetta hófst.
Hér hæðumst við að þeim, köllum þær kínversku leiðina.
"Thousands of people packed shoulder-to-shoulder with no face masks in sight, frolicking on rubber floats and cheering along to a music festival. It's not a very 2020 image, but it was the scene this weekend in the Chinese city of Wuhan, where Covid-19 first emerged late last year. ".
Það er allt eðlilegt í Whuan í dag.
Það tók aðeins innan við 3 mánuði.
Sóttvarnir virka.
Þetta er aðeins spurning um þekkingu og vilja.
Ekkert annað.
Kveðja að austan.
![]() |
Yfirfullar gjörgæslur og smitmet |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.12.2020 | 17:05
Loksins axlar vegagerðin ábyrgð.
Á því tjóni sem axarsköft hennar valda vegfarendum, af sem áður var þegar öllu var yfirleitt neitað.
Kannski er þetta upphaf nýrra vinnubragða, að þegar horft er á meintan sparnað, þá sé heildardæmið skoðað, til dæmis hvaða áhrif slæleg vinnubrögð hafa á vegfarendur, hvort þau valdi þeim tjóni, hvort vegirnir endist skemur og svo framvegis.
Má til dæmis ætla að þegar klæðning er lögð að reglan verði að hún verði völtuð og lausagrjóti síðan sópað af veginum, en í dag er slíkt eingöngu gert á veginum milli Akureyrar og Reykjavíkur, allavega hef ég hvergi orðið var við það annars staðar, hér fyrir austan eru bílarnir látnir þjappa með tilheyrandi grjótkasti sem skemmir bíla.
Það er eins og aðeins einn valtari sé til á landinu.
Það er nefnilega þannig að það er oft hægt að spara með því að koma kostnaðinum yfir á aðra sem geta ekki greitt atkvæði með fótunum.
Þú flýrð ekki vegakerfið, og þú þarft að sætta þig við ríkiseinokun ríkisstofnunar sem hefur lagt það í vana sinn að gefa skít og skömm í viðskiptavini sína, vegfarendur þessa lands.
Geta menn til dæmis ímyndað sér að fyrirtæki í samkeppni leyfði sér að nota ónýt íblöndunarefni í nafni umhverfisverndar??
Og lærði ekkert þó kvartað sé ár eftir ár undan ónýtri klæðningu.
Einokun fylgir nefnilega ábyrgð.
Og þá ábyrgð hefur vegagerðin ekki axlað.
Líklega skýring er hugmyndafræði þess í neðra sem kennd er við Cheapest bid.
Og eyðileggingarmáttur þeirra stjórnmálamanna sem hafa náð völdum út á þá hugmyndfræði.
Sem leiðir til þess að almenningur uppsker það sem hann kaus.
Spurning hvort hann axli sína ábyrgð?
Kveðja að austan.
![]() |
Fresti för til Akureyrar vegna blæðinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.12.2020 | 17:11
Gæta skal meðalhófs.
Var margítrekað í lærðum greinum sem áttu það sammerkt að ráðast á þær nauðsynlegar aðgerðir að krefjast seinni skimunar á landmærum Íslands.
Að öðrum ólöstuðum sem gerðu sig að fíflum með þessum greinum má minnast á Reimar Pétursson, lögmann sem áréttaði að almenningur ætti að láta reyna á þessar hömlur við landamærin.
Inntakið var alltaf að vitna í meintar mildari sóttvarnir í öðrum Evrópulöndum, Svíþjóð, Þýskaland, Bretland og jafnvel Tyrkland og Spánn voru tekin með sem dæmi.
Hver er staðan í þessum löndum í dag??
Gríðarlegar strangar sóttvarnir, mun harðari en hér á landi.
Munurinn samt sá að hér tókst að vernda líf, og hér er bylgjan á síðasta snúning, fáir greinast, flestir í sóttkví.
Og ekki hvað síst, ástandið á gjörgæsludeildum er viðunandi.
Ekki við það springa, eða jafnvel það sé rætt um að senda sjúklinga til annarra landa líkt og umræða er í dag í Svíþjóð.
Síðan getum spurt um hina skipulögðu árás á sóttvarnir þjóðarinnar, og hve miklu mátti muna að fjársterkir hagsmunir náðu ekki að knésetja þær.
Vonandi er enginn svo heimskur að halda að kvensjúkdómalæknir starfandi í Bandaríkjunum hafi fundið það upp hjá sjálfum sér að skrifa ítrekað greinar í Morgunblaðið þar sem hann réðst beint að lokun landamæranna án undangenginnar skimunar og sóttkvíar þar á milli.
Eða maðurinn hafi verið svo einfaldur að hann hafi ekki vitað hverju hann laug.
Er nokkur búinn að gleyma staðhæfingunni um að faraldurinn væri í hægri rénun í Bandaríkjunum, fullyrðing sem var röng í sumar, og virkar sem fjarstæða í dag.
Nær væri að spyrja hver er gjaldskrá meintra fræðimanna og sérfræðinga á eitt stykki lygi, og hvað kostar ein grein uppfull af blekkingum og rangfærslum??
Einnig má spyrja hvað er undir þegar fjársterkir hagsmunir fá almannatengil til að skipuleggja aðför að sóttvörnum þjóðarinnar þar sem dagskrágerðarfólk á Ruv, hægri öfginn á ritstjórn Morgunblaðsins, þekktir lögmenn, misskrýtnir læknar, leggjast á eitt til að ráðast á sóttvarnir þjóðarinnar, í einni og sömu vikunni??
Og við skulu spyrja okkur hvað hefði gerst ef kjafturinn á Kára hefði ekki gripið til varnar??
Hvernig væri ástandið í dag, hvað margir hefðu fallið??
Og við skulum spyrja okkur hvað gengur eldra íhaldsfólki til sem upphefur Sigríði Andersen og Brynjari Níelssen sem hetjur, svona í ljósi heiðarlegra tilrauna þeirra til að stuðla að ótímabærum dauðdaga þessa sama eldra íhaldsfólks??
Hvaðan kemur þessi veruleikafirring eða forheimska??
Spurning sem við verðum að spyrja því annars endurtekur þetta sig aftur og aftur.
Að fólk gangi erinda þröngra fjársterkra hagsmuna sem ná jafnvel að strengjastýra ráðherrum ríkisstjórnar þjóðarinnar, gegn almannaheill, gegn lífum og limum landsmanna.
Því annað er úrkynjun, kalkúnsheilkenni velmegunar sem hefur svipt fólki skilning á því hvað felst í því að lifa, og lifa af.
Því það er ekkert meðalhóf milli lífs og dauða, það er alltaf annað hvort eða, ekkert þar á milli.
Við eigum í stríði og 5. herdeild veirunnar gengur laus, sífellt að berjast fyrir frelsi hennar til að fá að drepa samborgara okkar, ástvini okkar.
Að ekki sé minnst á þann ótta sem hefur grafið um sig hjá fólki í áhættuhópum, mánuð eftir mánuð hefur það búið við stöðugan ótta um líf sitt, því það veit enginn hvenær næsta sýking er banvæn.
Þetta þurfti ekki að vera svona.
Þetta þarf ekki að vera svona.
En þá þarf að stöðva höndina sem fóðrar hinar sífelldu árásir á sóttvarnir þjóðarinnar.
Það gerist nefnilega ekkert af sjálfu sér.
Jafnvel illskan þarf sína vinnumenn.
Og þeir eru ekki ókeypis.
Kveðja að austan.
![]() |
Bretar færa sig á hæsta stig takmarkana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2020 | 13:05
Þórólfur er með áhyggjur.
Það er að segja af því sem hann kallar hópamyndun og veisluhöldum um nýliðna helgi.
Þýtt á mannamál, af fyllerí og drykkjulátum í Reykjavík og nágrenni.
Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir landsbyggðarfólk, miðað við fyrri ákvarðarnir Þórólfs má búast við hann hóti útgöngubanni á landsbyggðinni til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins.
Það er ekki langt síðan að hann hafði áhyggjur af nýrri smitbylgju um jólin, brást við með því að leyfa félagsliðum á höfuðborgarsvæðinu að stunda æfingar en bannaði slíka iðkun á landsbyggðinni.
Smitið var á höfuðborgarsvæðinu, en öryggistékkið tekið á smitlausum byggðum landsbyggðarinnar.
Reyndar vissi Þórólfur að það var smit á Eyjafjarðarsvæðinu svo hann leyfði félögum þar að stunda æfingar til öryggis, því ekki mega jú sóttvarnir mismuna.
Nú krossum við landsbyggðarfólkið fingrum og förum með bænir í hljóði um að brennivínsserkir höfuðborgarsvæðisins hemji sig um næstu helgi, ef ekki þá gætu sóttvarnaryfirvöld brugðust við með því að banna allt jólahald á landsbyggðinni, svona just in case.
Kannski smá kaldhæðni í þessum orðum mínum en þegar sóttvarnaryfirvöld byrja á annað borð að láta undan klíkuskap og mismuna þvert á öll sóttvarnarök, þá veit enginn endinn á þeirri vegferð.
Þetta snýst jú allt um trúverðugleika þegar upp er staðið.
Þar brást Þórólfur og hans lið.
Og gæti alveg gert aftur.
Kveðja að austan.
![]() |
Erum að komast út úr þessari bylgju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.5.): 7
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 1440178
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar