Ögmundur út að aka.

 

Hefur ekki þá afsökun að vera dópaður.

Aðeins af gamla skólanum, skilur ekki að Ólöf Nordal setti lög sem girti fyrir geðþóttaákvarðanir stjórnmálamanna varðandi skipun dómara, einstaklingar sem sækjast eftir dómaraembættum þurfa sýna fram á að þeir hafi áunnið sér hnossið með störfum sínum og menntun.

En ekki pólitískum tengslum.

Alveg eins og aðrir sem sækja um störf á vegum ríkisins.

 

Sigríður Andersen gat ekki rökstutt af hverju hún tók 4 einstaklinga út af lista hæfnisnefndar, og afhverju hún bætti þeim fjórum sem ekki voru á listanum inn.

Auk þess að brjóta lögin þar um, þá leikur vafi á trúverðugleik viðkomandi einstaklinga sem hún skipaði.

Ganga þeir erinda ákveðinna hagsmuna, tilheyra þeir einhverju leynifélagi, keyptu þeir embættið og svo framvegis??

Ekkert af þessu vægast sagt líklegt, en á meðan er ekki farið á eftir lögum, og geðþótti ræður för, þá er vafi, og við þann vafa er ekki unað.

 

Það er í raun ótrúlegt að maður sem hefur verið þingmaður í öll þessi ár, skuli ekki ennþá skilja að tími hins pólitíska geðþótta er liðinn.

Þjóðin vill gegnsæi og að leikreglur séu virtar.

Hvað þá að Ögmundur láti það út úr sér að Alþingi geti upp á sitt eigið einsdæmi sniðgengið lög, að samþykkt þess sé æðri lögum þjóðarinnar.

Eins og hann hafi ekki öll þessi ár frétt að uni menn ekki lögum, þá breyta þeir þeim, en brjóta þau ekki.

 

Vissulega var þetta liðið á árum áður, en það er liðið enda stjórnvöld ítrekað dæmd brotleg í hinum og þessum málum, sem og að Alþingi hefur verið gert að taka upp sum lög sín sem stangast á við aðra lagasetningu, Ögmundur var til dæmis ráðherra í einni ríkisstjórn sem var gerð brottræk með lög sín um útreikninga vaxta á fyrrum ólöglegu gengislánum.

Dómskerfið er nefnilega farið að dæma sjálfstætt, það er eftir lögum en ekki vilja framkvæmdarvaldsins.

Svona er bara nútíminn og fáránlegt að leika sig eitthvað nátttröll, og þykjast ekkert skilja í breyttum tíðaranda.

 

Síðan er það ómerkilegt að hjóla í MDE á þeim forsendum að hann eigi ekki að dæma í svona málum því það séu önnur verri þarna úti.

Hvers eigum við sem þjóð að gjalda að hafa stjórnmálamenningu sem telur sig hafna yfir lög??

Á bara að taka verstu bandítana og láta öll önnur brot eiga sig.

 

Og hvað innilega heimska er þetta að halda að málið fyrir MDE snúist um einhvern dópaðan mann á hjóli??

Málið snérist fyrst og síðast um rétt okkar sem þjóðar að fá að lifa í friði fyrir spilltum stjórnmálamönnum sem telja sig ríki í ríkinu, í stað þess að vera hluti af þjóðinni, deila með henni kjörum sínum og RÉTTLÆTI.

Heitir þetta ekki ein lög fyrir alla.

 

Síðan ætti Ögmundur Jónasson að vita og muna, að öll mannréttindabrot eiga sér eitt upphaf.

Að stjórnvöld telji sig ekki þurfa að lúta leikreglum réttarríkisins.

Og fyrsta skref hinna brotlegu eru alltaf að ná tökum á dómskerfinu.

Ítalía Mússólínis, Þýskaland Hitlers, Tyrkland Erdogans, að ekki sé minnst á Sovétið sem engin mannréttindi virtu.

 

Enda fyrsta verk hinna nýfrjálsu þjóða Austur Evrópu að ganga í Evrópuráðið og gangast undir lögsögu MDE.

Því þar vissu menn á eigin skinni hvað það var að hafa valdhafa sem virtu ekki mannréttindi.

 

Eiginlega á Ögmundur bara bágt þessa dagana.

Hann er ekki að gera þjáðum Tyrkjum gagn með því að ráðast á MDE á þeim forsendum að hann eigi ekki að sinna öðrum en stórbrota þjóðum.

Dómurinn hlýtur að vera allra.

Annars er hann ekki hlutverki sínu vaxinn.

Sem er draumastaða böðlanna sem geta þá alfarið hundsað hann.

 

Stundum eiga menn að hugsa áður en þeir tala.

Þó það sé gaman að vera slegið upp í Mogganum.

 

Það er blettur á stjórnmálamenningu okkar og framkvæmdarvaldi að það skuli hafa vogað sér að gera sem það gerði í Landsréttarmálinu.

Og svartur blettur að það skuli hafa þurft dóm að utan til að leiðrétta þá ósvinnu.

 

Vilji menn ekki slík afskipti, þá skulu menn virða sín eigin lög.

Í stað þess að hrópa eins og frekur krakki, ég má, ég má, ég á, ég má.

 

Það er tími til kominn að þroskast.

Því sá tími er liðinn.

 

Og við búum í betra samfélagi á eftir.

Kveðja að austan.


mbl.is Dópaður bílstjóri og Mannréttindadómstóllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi brást.

 

Það er ekkert flókið.

 

Fyrst að þingmenn á annað borð töldu sig hæfa til að greiða atkvæði um skipan dómara í hinn nýja dómsstól þjóðarinnar, Landsrétt, þá var lágmarkið að þeir kynntu sér lögin sem Ólöf Nordal þáverandi dómsmálaráðherra af skörungsskap sínum náði breiðri samstöðu um á Alþingi og voru hugsuð til að koma í veg fyrir pólitísk afskipti stjórnmálamanna af skipan dómara.

Þar var staðfesting ráðherra á niðurstöðu hæfnisnefndar fyrst og síðast hugsuð sem eftirlit á að hæfnisnefnd færi eftir lögum og reglum um starfsemi sína, að hún mæti hæfni en ekki til dæmis vinskap eða fjölskyldutengsl.

Staðfesting Alþingis gaf síðan dómurum hins nýja dóms þá vigt  að þeir sætu í umboði þjóðarinnar.

 

Hefðu þingmenn kynnt sér lögin og umræðuna þá hefðu þeir í hið minnsta aldrei viðurkennt þau glöp og þá aðför að lögum landsins sem lesa má um í frétt Mbl.is frá því feb 2018 undir fyrirsögnini; "Viðreisn stöðvaði lista dómnefndar."

"„Það vor­um við sem rák­um hana til baka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri list­an­um í gegn,“ sagði Hanna Katrín Friðriks­son, þing­flokks­formaður Viðreisn­ar, á opn­um fundi þing­flokks­ins 7. júní á síðasta ári. Vísaði hún þar til lista dóm­nefnd­ar yfir þá sem nefnd­in taldi hæf­asta til þess að gegna embætt­um dóm­ara við Lands­rétt.

Rætt var einnig við Bene­dikt Jó­hann­es­son, þáver­andi formann Viðreisn­ar og fjár­málaráðherra, sem seg­ist hafa gert at­huga­semd­ir við lista dóm­nefnd­ar­inn­ar þegar Sig­ríður hafi borið list­ann und­ir hann. „Við sögðum ein­fald­lega að listi sem að upp­fyllti ekki jafn­rétt­is­sjón­ar­mið, að við gæt­um ekki samþykkt hann.“".

 

Tækifæri þeirra til að setja inn svokölluðu jafnréttissjónarmið inní lögin, það er að kyn en ekki hæfni ætti að ráða vali á dómurum, og hæfnisnefnd myndi þá hafa heitið "hæfnis og kynjanefnd", rann út þegar lögin voru endurskoðuð 2017. 

Sú tillaga kom vissulega fram þá en þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen var snögg að afgreiða hana út af borðinu með þeim orðum að konur væru líka fólk, og þyrftu ekki að óttast að hæfni þeirra væri metin til jafns við karla.

 

Lögin hins vegar voru skýr um það að geðþótti einstakra stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka, "um að ég vil hafa þetta svona en ekki hinsegin, þetta er æskilegur maður en þessi óæskilegur og svo framvegis", væri ekki lengur inní dæminu þegar dómarar við Landsrétt yrðu skipaðir.

Að láta sér detta annað í hug eins og kemur fram í tilvitnuðum orðum Hönnu og Benedikts er því annað hvort dæmi um óendanlega heimsku eða algjöra fyrirlitningu á leikreglum lýðræðisins.

 

Í því ljósi eiga menn að skoða þessi orð réttlætingar Hönnu Katrínar í frétt á Ruv.is í gær;

"Þingið hafi lagt áherslu á að fá úr því skorið hvort ákvörðun dómsmálaráðherra væri í samræmi við ráðleggingar fagfólks. „En það er erfitt þegar samstarfsfólk og ráðherra fara fram með ósannindi og blekkingar,“ segir hún. Þótt þingið hafi vitað að tillaga ráðherra væri ekki sú sama og hæfnisnefndarinnar hafi þingið ekki haft forsendur til að vita að ákvörðun ráðherra væri þvert á allar ráðleggingar sérfræðinga innan stjórnsýslunnar".

Kallast þetta ekki að stinga rýting í bakið í mesta bróðerni til að fría sjálfan sig sök??

 

En aldrei þessu vant þá lét fréttamaður Ruv ekki gæluþingmenn sína komast upp með slík ómerkilegheit og kattaþvott, á eftir þessum orðum og öðrum þar sem áfram voru dregnir fram rýtingar til að stinga í bak Sigríðar, kom kafli þar sem falsið og yfirdrepskapurinn var afhjúpaður.

Algjörlega ljóst öllum sem lesa að Alþingi brást algjörlega og getur ekki kennt Sigríði um;

"En hörð gagnrýni lá fyrir.

Áður en þingið samþykkti tillöguna höfðu lögspekingar varað opinberlega við framgöngu ráðherra. Í umsögn um tillöguna varaði Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður til dæmis við því að í uppsiglingu væri hneyksli sem yrði samfélaginu dýrt og myndi valda langvarandi vandamálum í réttarkerfinu. Hann minnti á að ráðherra væri bundinn af því að velja þá hæfustu: „Og samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar þarf hann að geta rökstutt að dómnefnd hafi í einstökum tilvikum farið villur vegar,“ sagði í umsögninni. Rökstuðningur ráðherra hafi engan veginn uppfyllt lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og ekki staðist efnislega skoðun. Þar hafi ekki verið minnst á jafnréttissjónarmið.".

 

Í sjálfu sér þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta.

Þetta fólk á bara að skammast sín.

Það virti ekki lög þjóðarinnar í einhverjum pólitískum hrossakaupum.

 

Réttlætingin á óhæfunni, að reyna að verja hið óverjanlega er síðan önnur saga.

Er fyrst og síðast heiðarleg tilraun mætra manna að gera lítið úr vitsmunum sínum og trúverðugleik.

 

Það getur öllum orðið á mistök en það er sorglegt að það skuli þurfa dóm að utan til að þau mistök sé viðurkennd, og það með hangandi hendi svo jafnvel Ragga Bjarna hefði þótt nóg um og haft áhyggjur hvort viðkomandi væri ekki í hættu að fá sinaskeiðabólgu í úlnliðina.

Ennþá sorglegra er að menn skuli rífast við þann dóm, og þær staðreyndir sem hann byggir á.

Að það hafi ekki verið farið að lögum þegar skipað var í Landsrétt og að geðþótti hafi ráðið skipan hluta dómaranna.

Því það er ekki bara réttarfarið sem er undir, heldur líka æra þjóðarinnar, jafnt út við sem og hjá okkur sjálfum.

 

Ef við getum ekki gert þetta rétt, hvað getum við þá gert rétt??

Af hverju lítillækkum við okkur svona??

Sem þjóð sem og þeir einstaklingar sem reyna að verja þetta.

Svo hlæjum við að trúðnum í Hvíta Rússlandi.

 

Sem er eiginlega alveg sjálfsagt.

Hann er hlægilegur.

Verra er að aðrir skuli hlæja af okkur á svipuðum forsendum.

Að við séum svona brandaraþjóð.

 

Þetta er nefnilega ekki einkamál þeirra sem klúðruðu eða brugðust.

Þetta snertir okkur öll.

Sem og landið sem við unnum.

 

Það er hið alvarlega eða hið alvarlegasta í öllu þessu máli.

Og það sér allt skynsamt fólk.

 

Hinir?

Hinir eiga bara bágt.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Alþingi fékk pillu frá MDE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdaflokkurinn stærstur.

 

Af hverju??

 

Eru kjósendur hans búnir að gleyma svikum hans í Orkupakkamálinu, eða skandalnum að ráðherra flokksins gat ekki einu sinni farið eftir lögum þegar skipað var í Landsrétt, og í stað þess að gangast í að leiðrétta þann skandal, þá þurfti dóm að utan til að rétt yrði breitt, það er farið að lögum.

Er kjósendur hans sáttir við opnun landamæranna í sumar sem kom af stað kóvid bylgju með gífurlegu tjóni fyrir allt hagkerfið, en efnahagslegur ávinningur ferðaþjónustunnar enginn.

Eru þeir sáttir við að nokkrir fjársterkir einstaklingar hafi það gífurleg ítök innan flokksins að almannahagur er látinn víkja þegar hagsmunir þeirra eru annars vegar??

Eru þeir sáttir við mannavalið í ráðherraliði flokksins, svona í ljósi þess að þeir eru flestir í  eldri kantinum, og eru komnir með þann þroska og það vit, að þekkja fólk sem ekki er komið með vit og þroska svo hægt sé að telja það til fullorðna??

 

Svarið er einfalt.

Formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, ber af öðrum stjórnmálaleiðtogum þjóðarinnar, hann er traustur, staðfastur, málefnalegur.

Er kjölfesta á tímum þar sem veltingur virðist alltaf vera að fleyta öllu á hvolf.

 

Það er bara svo, um þetta þarf ekki að rífast.

Þeir flokkar sem eru ósáttir, ættu að íhuga sín innri mál, og hvað það er sem fær hinn almenna kjósenda ekki til að treysta þeim.

Það er til dæmis þannig að það virðist ekki hafa verið nothæfur leiðtogi í Samfylkingunni frá því að Ingibjörg Sólrún var og hét, skrumið byrjaði eftir brotthvarf hennar.

Bara svona svo dæmi sé tekið.

 

Það er gífurleg óánægja í þjóðfélaginu með svo margt.

Samt er svo margt sem er gott.

 

Eina skýring þess eru stjórnmál sem hafa ekki náð að fanga eftirmál Hrunsins eða bjóða fólki uppá framtíðarsýn.

Á meðan er þó þekktur stöðugleiki illskástur.

 

Vilji menn breyta því.

Þá byrja menn á að breyta sjálfum sér.

Kveðja að austan.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjaldborg um spillingu.

 

Það var rétt ákvörðun hjá stjórnvöldum að senda dóm MDE á sínum tíma til baka til yfirréttar dómsins því það þurfti fá úr því skorið hvort það þyrfti að taka upp alla dóma hins ólöglega skipaða Landsréttar.

Við þá réttaróvissu varð ekki unað og nú er búið að skera úr henni,

 

Lærdómurinn, eða niðurstaða dómsins um að það sé ótækt í lýðræðisríki að ólöglega skipaður dómur skeri úr um hvort farið sé að lögum eða lög séu brotin, hefur hins vegar staðið í hluta af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, lesist Sjálfstæðisflokkurinn.

Það er ótrúlegt að fullorðið fólk sem hefur gefur kost á sér til trúnaðarstarfa fyrir þjóðina, og nýtur trúnaðar hennar, skuli ekki skilja þá einföldu staðreynd að ráðherra sem skipar dómara þurfi að fara eftir lögum þar um.

Og sé það ekki gert þá er það spilling, og þeir sem samþykkja gjörninginn, eru þar með meðsekir.

Ættu að biðjast afsökunar, segja fyrirgefið, þeim hafi orðið á mistök sem þeir hafi lært af.

 

Það gleymist stundum að það varð ekki bara Sigríði sem varð á, heldur afhjúpaði spilling hennar helsta veikleika íslenskra stjórnmála, ráðherraræði sem knýr í gegnum Alþingi þegar teknar ákvarðanir bakherbergjanna.

Þegar Alþingi samþykkti tillögur Sigríðar þá vissi það að hún hafði brotið sín eigin lög um skipan dómara þegar hún kaus að víkja frá tillögu hæfnisnefndar án efnislegs rökstuðnings, Alþingi lagði því blessun sína yfir beint lögbrot og gat sagt sér að borgarar landsins myndu ekki una slíku.

Svona fyrir utan forherðinguna að telja sig hafið yfir sín eigin lög, að líta á sig sem eitthvað ríki í ríkinu sem geti valið úr þau lög sem það hlýðir, og þau lög sem það ákveður að hundsa.

 

Í stað þess að skammast sín og biðjast afsökunar, þá var lagst svo lágt að ráðast á sendiboðann, bæði Hæstarétt sem fyrstur kvað upp úrskurð um lögbrot ráðherra, og síðan Mannréttindadómstól Evrópu, dómar þeirra gerðir tortryggilegir, ýjað að hagsmuna eða vinatengslum, jafnvel látið eins og dómararnir beri ábyrgð á lögunum sem þeir dæma eftir, en ekki löggjafaþingið sem setti þau.

Leiðtogarnir gefa þetta í skyn, en síðan fyllast blöð og samfélagsmiðlar af greinum og pistlum þar sem öllum staðreyndum er snúið á hvolf, dómarar og dómsstólar rægðir, hæfnisnefnd sem vinnur eftir lögum þar um, er sögð stunda vinahygli, að mat hennar sé háð gildismati og svo framvegis.

Þekkt vinnubrögð kommúnista og stjórnleysingja á árum áður þegar þeir áttu í stríði við hið borgaralega samfélag og grófu markvisst undan stofnum þess til að veikja það innan frá.

 

Það er margt ófullkomið í þessum heim og lögin þar ekki undanskilin.

En ef menn eru ekki sáttir við þau, þá reyna þeir að breyta þeim eftir þeim leikreglum sem lýðræðið setur þar um.

En menn brjóta þau ekki, svo einfalt er það.

 

Brot Sigríðar er ekki fyrsta brot ráðherra og verður örugglega ekki það síðasta.

Spilling hennar er ekki fyrsta spilling ráðherra og verður örugglega ekki sú síðasta.

En það þurfti dóm að utan til að stöðva hana, og það er hið alvarlega í málinu.

 

Hvernig getum við litið á okkur sem fullvalda þjóð ef við getum ekki tekist á við svona einfalda augljósa hluti eins og lögbrot við skipan dómara og lagfært sem þarf að lagfæra að eigin frumkvæði??

Þeir sem skammast út í dóm MDE á þeim forsendum að hann sé að seilast inní fullveldi þjóðarinnar, ættu að íhuga þá spurningu og skoða hegðun sína út frá henni.

Fólk sem hagar sér eins og fífl, ræðst á dómstóla, dómara, fjölskyldur þeirra, saka þá um klíkuskap og óheiðarleika, er fyrst og síðast að ráðast á fullveldi þjóðarinnar, grunnstoðir hennar, og í raun að grafa undan sjálfstæði hennar.

Í stað þess að bregðast rétt við á sínum tíma og þá hefði aldrei komið til þessara afskipta af utan.

 

Það er kjarni málsins sem siðað fullorðið fólk verður að skilja.

Börn geta sagt að lögbrot ráðherra hafi verið skiljanlegt því hún hafi fengið þau skilaboð að ekki væri þingmeirihluti fyrir niðurstöðu hæfnisnefndar (eins og eitthvað annað en atkvæðagreiðsla geti skorið úr um það) en fullorðið veit að það afsakar ekki lögbrot ráðherra að hún hafi haft grun um að Alþingi hafi ætlað sér að brjóta hin sömu lög með því að hundsa hæfnisnefndina og niðurstöðu hennar.

Því ef þetta væru rök, þá væru fangelsi landsins tóm, "ég stal vegna þess að annars hefði þessi þarna stolið".

 

Geðþótti sem gengur gegn skýrum lögum, er og verður alltaf spilling, jafnvel þó niðurstaða hans sé rétt.

Menn slá ekki skjaldborg um þá spillingu heldur láta hana sæta afleiðingum.

Og menn læra.

 

Ekki með semingi og afsökunum.

Heldur með iðrun og auðmýkt.

 

Iðrun og auðmýkt.

Eitthvað sem vantar sannarlega í íslensk stjórnmál í dag.

 

Sem skýrir að stærstu hluta að þau eru eins og þau eru.

Olnbogabarn þjóðarinnar sem allflestir telja sér skylt að hnýta í.

 

Þessu þarf að breyta.

Kveðja að austan.


mbl.is Kallar ekki á ráðstafanir í Landsrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttarríki og geðþótti ráðherra.

 

Eru andstæður líkt og ediksýra blandast ekki vel með matarsóda, eða vatn við olíu.

Eldur og ís, sjálfstæði dómsstóla og geðþóttarákvörðun ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem annars vegar var hugsuð til að útiloka pólitískan andstæðing, sem og að skipa eiginmann vinkonu sinnar, er dæmi um slíkar andstæður.

 

Sigríður Andersen var flengd í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, núna hefur Yfirréttur þess sama dómsstóls staðfest þá hirtingu.

Vissulega hafa íslenskir stjórnmálamenn vanvirt þá stjórnarskrá sem einhver danakóngur gaf okkur, þeir hafa annað hvort ekki skilið aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds, eða töldu að fyrri skipan einvalds konungs væri réttari skipan, það er að ef þeir höfðu valdið, þá væri valdið háð þeirra geðþótta.

Og fram eftir öllu eftir sjálfstæði okkar var þannig raunin.

 

Svo komu þessir bölvuðu alþjóðasamningar, einn daginn mátti ekki dæma mann fyrir að hjóla ljóslausan án þess að sá sem tók hann, fengi ekki að dæma hann fyrir hið augljósa brot.

Svo hitt og þetta, allt meir og minna bannað ef ekki var farið eftir einhverjum réttarreglum sem þróuðust út í Evrópu en áttu ekki við hér í kaldranum þar sem réttarvenjan hafði þróast út frá kófdrukknum sýslu- og embættismönnum, sem reyndu að halda uppi lögum og reglum, á milli þess sem valið var að deyja úr kulda og trekk, eða áfengisvímu,

 

Samt var skrifað undir og réttarvenja vestrænna lýðræðisríkja er skýr og má lesa um í frétt Ruv um málið, hægri öfginn á Mogganum passar sig blessunarlega að banna blaðamönnum að fjalla um kjarna, þegar nóg er að sækja í hismið.

"Þar segja dómarar yfirdeildarinnar meðal annars að þótt ráðherra hafi verið ósammála niðurstöðu hæfnisnefndarinnar varðandi dómaraskipan þýðir ekki að hún hafi getað skipað dómara eftir sínu höfði án þess að færa fyrir því nægilega góð rök. Þær aðferðir sem ráðherra beitti þar dragi verulega úr trúverðugleika alls ferlisins. ".

Þeir sem þetta ekki fatta, þeir eru ennþá að gráta að Stalín er ekki hér, enginn Lúðvík sólkóngur, enginn Flokkur sem passar upp á sína, eins og enginn sé tilgangurinn með að berjast til valda.

Sem náttúrulega gengur ekki, það þarf að passa uppá forheimsku hinnar viljugu hjarðar sem ennþá grætur Stalín, þó einhver almannatengill hafi skipt nafni hans út í síbylju grátkórsins.

 

Vitið þið ekki, þetta er allt honum Spanjó að kenna, og fólk tekur ofan, sögðum við ekki.

Hver þessi Spanjó er?? vissulega óþekktur en var hann ekki persóna sem hann Erlendur glímdi við í mörgum af glæpasögum Arnaldar, eða var þetta ekki annað nafn yfir Sauron hin illa í Hringadróttinsþríleik Peter Jacksons.

Eða var hann perrinn sem amma varaði mig alltaf við??

 

Spanjó dæmir Spanjó segja þeir sem verja hið óverjanlega, að ráðherra hafi gengið gegn sínum eigin lögum sem hún var nýbúin að setja.

Þó Spanjó sé holdgervingur búgímanns, allavega örugglega útlendingur, þá veðjar þessi vörn algjörlega á forheimsku, eða hreinræktaða heimsku þess sem les, og trúir.

 

Því margt má vera garúgt í Rómarveldi hinu nýja, en samt er þar ekki ennþá einræði, Enginn, þó hann heiti Spanjó og sé búgí mann á Íslandi, stjórnar dómum Mannréttindadómsstóls Evrópu.

Í raun svipuð aumkunarverðarheit og þegar hérlendir vígamenn rétttrúnaðarins héldu að Trump hefði skipað íhaldssama konu í Hæstarétt til að tryggja sér kosningasvindl, vissulega var konan kona, hún var móðir, hún var kaþólsk og því íhaldssöm á mælistiku rétttrúnaðarins, en hún var lögfræðingur, flekklaus dómari, og engin rök að baki aðdróttunum á hendur henni, lögin voru hennar húsbóndi

En hún hét reyndar ekki Spanjó.

 

Það alfyndna er að ruglið og heimskan, sem mun örugglega finna sér birtingarmynd í næsta Reykjavíkurbréfi, höfðar næstum algjörlega til eldri sjálfstæðismanna.

Fólksins sem var vant að verja sinn flokk, verja leiðtoga sína, og í þeirri skilyrðislausri vörn, krossaði fingur og bað til guðs að það sem varið var, væri miklu minna en það sem vert væri að styðja.

Fyndnin er að Sigríður Andersen hefur lagt sig sérstaklega fram um á kóvid tímum að reyna að drepa þetta fólk.

Með því að berjast fyrir frelsi veirunnar.

 

Alexander Solzhenitsyn, sovéskur andófsmaður, samtímamaður þess fólks sem Sigríður Andersen vill vísvitani fækka, hann lýsti þessu heilkenni undirlægjuháttar og sjálfstortímingar í bók sinni Gúlaginu, þar sem rosalega margir kaflar voru birtir í Morgunblaðinu, þegar blaðið var og hét og tók beinan þátt í stríðinu við heimskommúnismann.

Í fangabúðunum upplifði hann þetta heilkenni, verstu verkstjórarnir voru kommúnistar, sem Stalín hafði af náð sinni þyrmt við byssukúlu, en dæmdi í lífstíðarþrælkunarvinnu, og þeir hömuðust á samföngum sínum í nafni Sovétsins og 5 ára áætlunar þess, sjálfir fórnarlömb einhvers sem Stalín vissi ekki um.

Ekkert var Stalín að kenna, aðeins einhverju öðrum.

 

Þetta heilkenni skýrir vörn þeirra sem Sigríður vildi feiga.

Engin vitglóra í því, en allt lítur samt rökum í alheiminum.

Þetta heilkenni hefur örugglega eitthvað með stórt S að gera.

 

Sem þjóð erum við samt betri á eftir.

Það var staðreynd sem fylgdi stjórnarskrá Kristjáns níunda, með henni jókst réttaröryggi almennings gagnvart geðþótta höfðingjanna.

Síðan þá hefur réttaröryggið aðeins batnað.

 

Og það batnaði með þessum dómi Mannréttindadómsstóls Evrópu.

Vissulega er illt fyrir sjálfstæða þjóð að sækja réttarbætur að utan.

En allir þurfa að kyngja stolti sínu á einhverjum tímapunkti, líka þeir sem stórir eru og eru jafnvel stórbokkar.

 

Ráðherra varð á.

Hann viðurkenndi það ekki.

Hroki hans eða misskilið stolt kom í veg fyrir að brygðist rétt við.

 

Og svo skrýtin eru stjórnmál þjóðarinnar að hann komst upp með ranga breytni sína.

Afglöp urðu alltí einu að pólitík.

 

Þar er ekki aðeins við Sjálfstæðisflokkinn að sakast.

Heldur líka við þá flokka sem töldu flokkinn stjórntækan með þetta lík í farþegasætinu.

 

Því kóun annarra er jú forsenda spillingar.

Það er enginn skriðdreki þarna úti, eða hermenn með vélbyssur sem knýja á að það sem augljóslega rangt er, sé viðurkennt eða þolað.

Ekki frekar en að við líðum síofbeldi sem við kennum við heimili.

 

Við gleymum þessu stundum.

Sjáum ekki okkar eigin sök.

Og verjum hið óverjanlega þegar okkar eigið fólk á í hlut.

 

Samt þarf mikla hundstryggð til að verja manneskjuna sem vildi drepa mann.

En ég hygg að það sé aðeins pís of keik fyrir margra, fram í rauðan dauðann vörðu jú margir Gúlagið.

 

Rangt, rétt??!!!??

Röng spurning.

 

Ég er forritaður til að fylgja.

Og ég fylgi.

 

Líffræðileg staðreynd sem skýrir að VG og Samfylkingin eru ennþá á þingi, flokkarnir sem sviku sín helgustu vé, sjálfan kjarna mennskunnar og komast upp með svik sín.

Ekki vegna froðunnar og hinna innantómu frasa um eitthvað félagslegt eða jöfnuð, heldur vegna þess að þeir sem kjósa, kjósa óháð gjörðum.

Telja sig félagshyggjufólk þó leiðtogarnir séu böðlar hins alþjóðlega fjármagns.

 

Eina spurningin er hvort kóvid veiran hafi náð að brjóta niður þessa líffræðilegu efnahvata sem fær fólk til að fylgja þó raunveruleikinn sé allur á skjön við hagsmuni þess eða lífsskoðanir.

Mun fólkið sem Sigríður vildi sannarlega drepa, munum að árás hennar á sóttvarnir hafa þessa beinu afleiðingu, verja hana, því það hefur varið Flokkinn allt sitt líf??

 

Það er spurningin.

Þar er efinn.

Og slíkur er máttur Moggabloggsins að það mun skera úr um þann efa.

 

Spanjó.

Já, hann Spanjó, er hann ekki ljóti kallinn??

 

Sumt fær kóvid jafnvel ekki breytt.

Kveðja að austan.


mbl.is Yfirréttur MDE staðfestir dóm í Landsréttarmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Des. 2020
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband