Skjaldborg um spillingu.

 

Það var rétt ákvörðun hjá stjórnvöldum að senda dóm MDE á sínum tíma til baka til yfirréttar dómsins því það þurfti fá úr því skorið hvort það þyrfti að taka upp alla dóma hins ólöglega skipaða Landsréttar.

Við þá réttaróvissu varð ekki unað og nú er búið að skera úr henni,

 

Lærdómurinn, eða niðurstaða dómsins um að það sé ótækt í lýðræðisríki að ólöglega skipaður dómur skeri úr um hvort farið sé að lögum eða lög séu brotin, hefur hins vegar staðið í hluta af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, lesist Sjálfstæðisflokkurinn.

Það er ótrúlegt að fullorðið fólk sem hefur gefur kost á sér til trúnaðarstarfa fyrir þjóðina, og nýtur trúnaðar hennar, skuli ekki skilja þá einföldu staðreynd að ráðherra sem skipar dómara þurfi að fara eftir lögum þar um.

Og sé það ekki gert þá er það spilling, og þeir sem samþykkja gjörninginn, eru þar með meðsekir.

Ættu að biðjast afsökunar, segja fyrirgefið, þeim hafi orðið á mistök sem þeir hafi lært af.

 

Það gleymist stundum að það varð ekki bara Sigríði sem varð á, heldur afhjúpaði spilling hennar helsta veikleika íslenskra stjórnmála, ráðherraræði sem knýr í gegnum Alþingi þegar teknar ákvarðanir bakherbergjanna.

Þegar Alþingi samþykkti tillögur Sigríðar þá vissi það að hún hafði brotið sín eigin lög um skipan dómara þegar hún kaus að víkja frá tillögu hæfnisnefndar án efnislegs rökstuðnings, Alþingi lagði því blessun sína yfir beint lögbrot og gat sagt sér að borgarar landsins myndu ekki una slíku.

Svona fyrir utan forherðinguna að telja sig hafið yfir sín eigin lög, að líta á sig sem eitthvað ríki í ríkinu sem geti valið úr þau lög sem það hlýðir, og þau lög sem það ákveður að hundsa.

 

Í stað þess að skammast sín og biðjast afsökunar, þá var lagst svo lágt að ráðast á sendiboðann, bæði Hæstarétt sem fyrstur kvað upp úrskurð um lögbrot ráðherra, og síðan Mannréttindadómstól Evrópu, dómar þeirra gerðir tortryggilegir, ýjað að hagsmuna eða vinatengslum, jafnvel látið eins og dómararnir beri ábyrgð á lögunum sem þeir dæma eftir, en ekki löggjafaþingið sem setti þau.

Leiðtogarnir gefa þetta í skyn, en síðan fyllast blöð og samfélagsmiðlar af greinum og pistlum þar sem öllum staðreyndum er snúið á hvolf, dómarar og dómsstólar rægðir, hæfnisnefnd sem vinnur eftir lögum þar um, er sögð stunda vinahygli, að mat hennar sé háð gildismati og svo framvegis.

Þekkt vinnubrögð kommúnista og stjórnleysingja á árum áður þegar þeir áttu í stríði við hið borgaralega samfélag og grófu markvisst undan stofnum þess til að veikja það innan frá.

 

Það er margt ófullkomið í þessum heim og lögin þar ekki undanskilin.

En ef menn eru ekki sáttir við þau, þá reyna þeir að breyta þeim eftir þeim leikreglum sem lýðræðið setur þar um.

En menn brjóta þau ekki, svo einfalt er það.

 

Brot Sigríðar er ekki fyrsta brot ráðherra og verður örugglega ekki það síðasta.

Spilling hennar er ekki fyrsta spilling ráðherra og verður örugglega ekki sú síðasta.

En það þurfti dóm að utan til að stöðva hana, og það er hið alvarlega í málinu.

 

Hvernig getum við litið á okkur sem fullvalda þjóð ef við getum ekki tekist á við svona einfalda augljósa hluti eins og lögbrot við skipan dómara og lagfært sem þarf að lagfæra að eigin frumkvæði??

Þeir sem skammast út í dóm MDE á þeim forsendum að hann sé að seilast inní fullveldi þjóðarinnar, ættu að íhuga þá spurningu og skoða hegðun sína út frá henni.

Fólk sem hagar sér eins og fífl, ræðst á dómstóla, dómara, fjölskyldur þeirra, saka þá um klíkuskap og óheiðarleika, er fyrst og síðast að ráðast á fullveldi þjóðarinnar, grunnstoðir hennar, og í raun að grafa undan sjálfstæði hennar.

Í stað þess að bregðast rétt við á sínum tíma og þá hefði aldrei komið til þessara afskipta af utan.

 

Það er kjarni málsins sem siðað fullorðið fólk verður að skilja.

Börn geta sagt að lögbrot ráðherra hafi verið skiljanlegt því hún hafi fengið þau skilaboð að ekki væri þingmeirihluti fyrir niðurstöðu hæfnisnefndar (eins og eitthvað annað en atkvæðagreiðsla geti skorið úr um það) en fullorðið veit að það afsakar ekki lögbrot ráðherra að hún hafi haft grun um að Alþingi hafi ætlað sér að brjóta hin sömu lög með því að hundsa hæfnisnefndina og niðurstöðu hennar.

Því ef þetta væru rök, þá væru fangelsi landsins tóm, "ég stal vegna þess að annars hefði þessi þarna stolið".

 

Geðþótti sem gengur gegn skýrum lögum, er og verður alltaf spilling, jafnvel þó niðurstaða hans sé rétt.

Menn slá ekki skjaldborg um þá spillingu heldur láta hana sæta afleiðingum.

Og menn læra.

 

Ekki með semingi og afsökunum.

Heldur með iðrun og auðmýkt.

 

Iðrun og auðmýkt.

Eitthvað sem vantar sannarlega í íslensk stjórnmál í dag.

 

Sem skýrir að stærstu hluta að þau eru eins og þau eru.

Olnbogabarn þjóðarinnar sem allflestir telja sér skylt að hnýta í.

 

Þessu þarf að breyta.

Kveðja að austan.


mbl.is Kallar ekki á ráðstafanir í Landsrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Vantar auðmýkt og afsökun? Mette Friðriksen forsætisráðherra fékk á sig réttmæta gagnrýni í ólöglegri aflífum minka. Hún heimsótti bændur grátklökk og baðst afsökunar. Landbúnaðarráðherra hennar fór frá og tók á sig ábyrgð. Hér bregðast forystumenn Sjálfstæðisflokks með því að gera lítið úr Mannaréttindadómstólunum í Strassborg. Eins og þeir vilji ekki vita af því að stærstu réttarbæturnar í íslenskri löggjöf komu frá MDE eftir að dómur féll í máli Þorgeirs Þorgeirssonar 1988. Versta vörnin er að vilja ekki viðurkenna mistök og reyna að snúa út úr veikri stöðu. Er það eitthvað sem lögmenn læra í háskóla?

Viðtal á Útvarpi Sögu í dag við Eyjólf Ármannson lögmann í Noregi um niðurstöður dómstólsins er greinagott innlegg í umræðuna. Þar er fjallað um ábyrgð Alþingis og tilgang þess að forseti sendi athugasemd með frumvarpi sem ekki á við. Þínir pistlar um þetta mál er mælskan ein. Sannar að; Vinur er sá til vamms segir. 

Sigurður Antonsson, 2.12.2020 kl. 22:12

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Er þetta bara ekki kjarninn; "Versta vörnin er að vilja ekki viðurkenna mistök og reyna að snúa út úr veikri stöðu", hvort sem það er kennt í háskólanum eður ei.

Þessi sannindi skildi allavega sá mikli stjórnmálasnillingur Steingrímur Hermannsson, blessuð sé minning hans.  Hann stýrði umræðunni með því að velja þau mistök sem hann kannaðist við og baðst afsökunar á.  Snérist umræðan ekki um grænar baunir sem einhver leyndó lak í blöðin á sama tíma og verðtryggingu var laumað á húsnæðislán fólks??

Sigríður þurfti bara að segja, afsakið, mér varð á, og haldið sig svo við eftirá skýringar sínar.

En hrokinn varð henni að falli, og það fall var hátt.

Dómskerfi í upplausn, hún með stóran svartan skammastu þín blett á nefinu, eitthvað sem samherjar hennar innan flokks munu nýta í botn þegar gaggað er í göggunarröð.

En hún er allavega engin liðleskja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.12.2020 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 387
  • Sl. sólarhring: 496
  • Sl. viku: 552
  • Frá upphafi: 1320395

Annað

  • Innlit í dag: 346
  • Innlit sl. viku: 488
  • Gestir í dag: 333
  • IP-tölur í dag: 329

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband