Frysting verðtryggingarinnar er ekki val.

Frysting verðtryggingarinnar, frá þeim  tíma sem grímulaus árás íslenskra auðmanna hófst á íslenskt hagkerfi, er ekki valkostur í stefnu stjórnmálaflokka.  Málið snýst ekki um hvort þjóðin hafi efni á slíkri gjörð og það snýst ekki um hvort það sé réttlætismál eða þá að gerðir samningar eigi að standa.  

Ekkert að þessu skiptir máli því það er ekki val hvort verðtryggingin sé fryst eður ei.  

Frysting verðtryggingarinnar er  það eina sem getur bjargað þessari þjóð frá glötun.  Hún er upphaf allrar samfélagssáttar og hún er upphaf þess að þjóðin vilji takast á við aðsteðjandi vanda og leysa hann í sameiningu.  

Standi þjóðin ekki saman þá er þjóðarvá í vændum og ekkert getur hindrað yfirvofandi hrun þess samfélags sem við þekkjum og vorum svo stolt af.  Vissulega voru skuggar í því samfélagi og það villtist af leið á meðan mýrarljós græðgi og sérhyggju var sá ljósgjafi sem lýsti upp efnahagslífið.  En lífið er ekki fullkomið og önnur samfélög eiga líka við sinn vanda að glíma.

En þjóðin stóð saman á erfiðleikatímum og það var hugsað um þá sem áttu undir högg að sækja sökum aldurs, sjúkleika eða annars sem gerði fólk erfitt fyrir í sinni lífsbaráttu.  Staða foreldris skipti ekki máli þegar kom að því að mennta börnin og öll börn nutu sömu heilsugæslu. 

En núna vilja græðgiöflin rjúfa þessa sátt.  Þau höfða til síngirni fólks og öryggisleysis.  Segja að þjóðin hafi ekki efni á að hjálpa unga fólkinu.  Það sé of dýrt og það verði á kostnað ellilífeyri þess.  Segja að það eigi að standa við gerða samninga.

 

Og það er rétt.  Það á að standa við gerða samninga.  Og það eru til æðri samningar en sú kvöð að undirgangast verðtryggingu lána ef þú vilt flytja að heiman og stofna til þinnar eigin fjölskyldu.  Uppfylla þannig þá kvöð sem náttúran leggur á allt líf og kallast að viðhalda tegundinni.

Þessi samningur er sjálfur grunnsáttmáli samfélagsins.  Að allir eigi sama rétt til lífs og gæða samfélagsins og á erfiðleikatímum þá stöndum við öll saman og hjálpumst að.  Þessi sáttmáli milli einstaklinga innbyrðis og milli einstaklinga og stjórnvalda er óskráður en það vita allir af tilvist hans.  Hann er sáttmálinn sem heldur samfélaginu saman og kemur í veg fyrir illdeilur og bræðravíg.

Og þessi sáttmáli krefst þess að Verðtryggingin sé fryst meðan hinar efnahagslegu hamfarir ganga yfir.  

 

Það er ekki val.  Þetta er eitt af því sem verður að gerast.

 

Lítum á forsögu þeirrar stöðu sem núna er uppi í samfélaginu.

Vegna óhóflegs innstreymis erlends lánsfjár þá ríkti eignabóla á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu.  Þessi eignabóla var ekki á ábyrgð unga fólksins heldur á ábyrgð bankanna sem lánuðu því pening og ríkisvaldsins sem leyfði henni að fara úr böndunum.  Unga fólkið átti ekki val með að kaupa hús utan bólusvæða því störfin og menntunin var á höfuðborgarsvæðinu.  Og það hafði ekki val um hvort það tæki lán með verðtryggingu eður ei.

Vildi það búa á landi feðra sinna og stofna þar fjölskyldu, þá varð það að kaupa húsnæði á þeim kjörum sem bauðst.  Hinn valkosturinn var að setjast að erlendis og slíkt er ekki valdkostur fyrir þjóð sem vill vaxa og dafna. 

Enda var ekki rætt um hættur efnahagslífsins, það var sagt traust af stjórnvöldum og bönkum og fólk fékk ekki lán nema það stæðist greiðslumat.  Og þeir sem vissu að borgin var reist á sandi, bæði innan bankanna og stjórnkerfisins, þögðu um vitneskju sína.

Því er það ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að ungt fólk hafi getað hagað sínum málum á neinn annan hátt en það gerði.  

En efnahagslífið stóð ekki á traustum fótum og í ársbyrjun 2008 gerðu bankarnir atlögu að íslensku krónunni með þegjandi samþykki ríkisvaldsins.  Þetta gerðu þeir til að fegra sína stöðu en skeyttu engu um hag viðskiptavina sinna, þar á meðal alls þess fólks sem skrifaði undir verðtryggð lán sín í þeirri góðri trú að hlutirnir væru í lagi.

Og það var ekki bara þannig að ríkisvaldið lét þetta áhlaup bankanna viðgangast, heldur þagði það yfir vitneskju sinni um yfir vofandi hrun.

Stjórnvöld rufu sáttmála sinn við unga fólkið í landinu.

Eignir þess féllu í verði á sama tíma og lánin þess hækkuðu.  Fólk sem gerði samninga sína í góðri trú út frá eignastöðu sinni og greiðslugetu, var allt í einu orðið eignalaust í þeirri merkingu að virði eigna þess dugði ekki fyrir skuldum.  Og þegar áhrif efnahagshamfaranna bætast ofaná þessa stöðu þ. e. atvinnuleysi, tekjumissir eða tekjulækkun og gífurleg hækkun vöruverðs þá ræður þetta unga fólk ekki lengur við sínar skuldir.

Það missir heimili sín ofaná þá óáran sem annars ríkir.  Og það er ekki verið að tala um nokkur þúsund einstaklinga í vandræðum, rúmlega helmingur heimila landsins er þegar kominn með neikvæða eiginfjárstöðu og þúsundir eru atvinnulausir og ennþá stærri hópur lifir í stöðugum ótta um að missa vinnu og í kjölfarið allt sitt.

 

Ef samfélagssáttmálinn helst rofinn og þjóðin neitar að aðstoða þetta unga fólk, þá mun annað að tvennu gerast.  Það sem gerðist í Færeyjum þar sem heil kynslóð flutti úr landi eða það sem gerðist í Finnlandi í upphafi tíunda áratugarins en þar varð fátækt landlæg í hópi þess fólks sem missti vinnu og heimili.  Félagsleg vandamál, misnotkun áfengis og eiturlyfja, stóraukin sjálfsmorðstíðni, geðræn vandamál, þunglyndi; eða allt það sem fylgir slömmi og útskúfun. 

Og börnin lenda á vergang vímaefnaneyslu og afskiptaleysis.  Börnin sem eiga að erfa landið.

 

Þetta er gjaldið ef við trúum stjórnmálamönnum sem aðeins telja sig hafa hagsmuni fjármagnseiganda að verja.

Og þeim má ekki trúa.  Þjóðarvá getur aldrei verið valkostur.

 

Steingrímur Joð Sigfússon kvaðst skilja þennan vanda og vildi geta hjálpað en kvaðst ekki vera töframaður.  Þar með misskildi hann hlutverk sitt gjörsamlega.  Töframenn skapa ekki peninga en þeir geta skapað sýn á það sem þarf að gera.  Fengið fólk til að trúa því að hið ómögulega sé hægt.  

Einu sinni var Steingrímur gæddur þeim töfrum.  

En það þarf ekki töfra til.  Heldur viljann til að hjálpa þjóð sinni.  Hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda.  

Faðir, sem horfir uppá alvarlega veikt barn sitt, byrjar ekki að ræða við móðir þess hvort þau hafi efni á að hjálpa barni sínu.  Hann reynir að gera það sem þarf að gera, til að barn hans fái hjálp.  Kannski er það honum fjárhagslega ofviða, kannski reynist björgin í óséðri framtíð.  Skiptir ekki máli.  Ef barninu verður ekki bjargað, þá er það ekki þess að hann reyndi ekki.  Hann gerði það sem hann gat.

Það sama átti Steingrímur Joð að gera.  Hann átti að lýsa því strax yfir að fólk héldi heimilum sínum og hefði þar skjól á meðan hamfarirnar gengu yfir.  Það má vera að það sé ekki hægt að bjarga öllum en engan á að afskrifa fyrirfram.  Það veit engin hvað óráðin framtíð ber í skauti sér.  Og ef öllum er ekki bjargað þá er það ekki vegna þess að viljann hafi skort.  Það var eitthvað annað sem brást.

 

En hvað kostar þetta spyr fólk.  Og svarið er það að þetta kostar minna en að bjarga fjármálakerfinu og þetta er peningur sem kemur til greiðslu á löngum tíma því verðtryggðu lánin eru til langs tíma. 

Og það kostar miklu meira að aðhafast ekkert eða grípa til ráðstafana sem ekki ná utan um vandann.  Þá fyrst mun þjóðfélagið sjá kostnað.  Kostnað sem það hefur ekki efni á því hann verður ekki bara fjárhagslegur, hann verður líka metinn i mannslífum og mannlegum harmleikjum.

En mesti kostnaðurinn er samt sá að rjúfa grunnsáttmála samfélagsins því án hans mun þjóðfélagið aldrei ná sér á strik á ný.  

Það verður engin viðreisn án samstöðu og sáttar.

 

Sú leið að hjálpa einum en hafna öðrum mun aðeins leiða til bræðravíga.  Og stjórnvöld munu ekki geta biðlað til þjóðarinnar um stuðning við erfiðar ákvarðanir.  Stjórnvöld sem sjálf reyndust ófær um að gera það sem þurfti að gera.  Og þau öfl sem þrífast á sundrungu og óánægju munu blómstra.

Loks mun þjóðin skiptast upp í ólíka hópa sem munu berjast sín á milli og engu eira í þeirri baráttu.  Slíkt er ætíð afleiðing þess að rjúfa sátt og frið.

Þetta vissi Þorgeir Ljósvetningagoði og þetta vita allir vitrir menn.  

 

En þeir sem telja samning um greiðslu verðbóta á neyðartímum, æðri sjálfum sáttmála þjóðarinnar, nota það sem rök að þjóðin verði að takast á við erfiðleika sína núna en ekki velta byrðum verðtryggingarinnar á skattgreiðendur framtíðarinnar.  Þeir sem þessu halda fram eru ekki þeir sem glíma við afleiðingar verðtryggingarinnar og þeir eru ekki að ala upp börn.  Þá vissu þeir að börnin okkar vilja frekar halda heimilum sínum og losna við þær afleiðingar sem upplausn fjölskyldna og samfélags hefur í för með sér.  Þeirra draumur er ekki að enda sem áfengissjúklingar eða fíkniefnaneytendur.  

Þegar þau verða eldri og þekkja sögu þess skuldabréfs sem ríkissjóður gaf út á skattgreiðendur framtíðarinnar til að stuðla að framtíð þeirra og fjölskyldna þeirra, þá munu þau stolt greiða þá milljarða inn í lífeyriskerfið sem þarf til að afar þeirra og ömmur bíði ekki skaða að.  

Þeir milljarðar eru lítið gjald fyrir framtíð einnar þjóðar sem setti sér það takmark að engin mundi farast í þeim hörmungum sem yfir dundu.  Efnislegar eigur mega glatast en ekki mannslífin og ekki sáttmáli þjóðarinnar um eina þjóð í einu landi þar sem öllum er tryggður réttur til lífs og framtíðar.  

Engum má fórna svo aðrir hafi það aðeins betra.  Við erum öll á sama bátnum og við munum öll komast af.  Græðgin og síngirnin munu þurfa að leita á önnur mið til að finna sér fórnarlömb. 

Að halda í heiðri æðsta sáttmála þjóðarinnar er hennar eina lífsvon og í þeim sáttmála er framtíð hennar fólgin.

Þeir sem skilja ekki þessi einföldu sannindi og telja sig hafa vald til að fórna meðbræðrum sínum, þeir eiga ekki erindi í Íslensk stjórnmál.

Því það er ekkert val.  Við erum ein þjóð.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein hjá þér.

Ef menn telja sig geta verðtryggt "krónuna í bankabókinni" þá hljóta sömu rök að gilda fyrir "krónuna í launaumslaginu".

Öll "verðtrygging" er hins vegar "blekking" sem ber að afnema, hún er aðeins  "seðlaprentun" sem gerir þá ríku ríkari en þá fátæku fátækari. 

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 10:37

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir Páll.

Ég lagði líka sálu mína í hana því ef þjóðin vill komast af þá verður hún að skilja þau sannindi sem liggja að baki þessum greinarstúf.

Ógæfa þjóðarinnar er ekki síst sú að hún neitar að horfast í augun á manndómi sínum.  Þessi kreppa er ekkert mál ef við skiljum orsakir hennar og grípum til þeirra aðgerða sem duga til að við náum okkur út úr henni.  

Það þarf bara manndóm til að gera það sem þarf að gera.  Frysting verðtryggingarinnar er eitt af því.  Hætta öllu röfli og tilgangslausu þrasi er annað.

T.d vita allir að atvinnulífið og heimilin eru yfirskuldsett og munu hvorki geta greitt skuldir sínar að fullu, hvað þá vextina og verðbæturnar sem krafist er af þessum skuldum.  Þess vegna þarf að frysta verðtrygginguna og lækka vextina a.m.k í 2%. Það er ekkert val í þessum málum.

Og svo þarf að halda atvinnulífinu gangandi.  Slíkt er hægt ef veltunni er snúið inná við þ.e. aðeins brýnustu lífsnauðsynjar eru fluttar inn ásamt aðföngum fyrir innlenda framleiðslu.  Þá duga gjaldeyristekjurnar.  Annað kerfi er óraunhæft því hvorki er vilji til að lána okkur meiri pening eða þó svo væri þá eru þeir ekki á lausu.  

Þetta er bara heilbrigð skynsemi sem blasir við.  

En músum hættir til að hugsa bara um ostinn.  Því er það svo nauðsynlegt að fólk fatti að það er ekki mýs.  Gerist það þá leysist hitt af sjálfu sér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.4.2009 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 316
  • Sl. sólarhring: 828
  • Sl. viku: 5600
  • Frá upphafi: 1327146

Annað

  • Innlit í dag: 283
  • Innlit sl. viku: 4968
  • Gestir í dag: 266
  • IP-tölur í dag: 262

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband