"Guð blessi Ísland". Hvað er til ráða.

Í síðustu grein minni í þessum flokki, "Guð blessi Ísland", þá færði ég rök fyrir því að væntanlegur samdráttur eftir bankahrunið yrði aldrei minni en 20-25% af þjóðarframleiðslu.  Bæði var áfallið fyrir innlenda eftirspurn það mikið og svo er skuldastaða heimila og fyrirtækja það alvarleg eftir gengisfall krónunnar.  Hagkerfið var drifið áfram af lánsfé og á einni nóttu varð það eldsneytislaust. 

Síðan bætist  hin alvarlega heimskreppa ofaná vandan og gerir slæmt verra. Bæði falla útflutningsafurðir þjóðarinnar í verði og svo hitt að vonin um nýsköpun í útflutningsframleiðslu er óraunhæf.  En einmitt sú von átti að skapa ný störf og vega þannig á móti samdrættinum í innlendri framleiðslu.  Eins ætti öllum að vera ljóst að þegar bankakerfið er hrunið útí hinum stóra heimi þá mun það ekki koma til Íslands í bráð og lána til endurreisnar atvinnulífsins.  Öll umræða í þá átt er til þess eins að blekkja og afvegleiða það uppbyggingarstarf sem þjóðin þarf að takast á hendur.

Margt var hægt að gera á haustmánuðum 2008 en það sem var gert var andstætt allri skynsemi og gerði slæmt ástand hræðilegt.  Ill ráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru gerð að megininntaki efnahagsaðgerða íslenskra stjórnvalda.  Við það eitt er hætta á að samdrátturinn fari í 40% af þjóðarframleiðslu og við blasi kerfishrun.  

En hvað var hægt að gera haustið 2008.  Og hvað átti að gera.  Ég gæti sjálfsagt skrifað  um það margar síður ef ég ætlaði að gera því fullnægjandi skil.  En í þessu greinarkorni ætla ég að tæpa á aðalatriðunum og fyrst og fremst þeirri hugmyndafræði sem að baki liggur.

Þetta mikla hrun sem fall bankann leiddi af sér er að mörgu leyti ekki ósvipað sem myndast á stríðstímum eða við miklar náttúrhamfarir.  Allt í einu stendur fjöldi fólks frammi fyrir atvinnuleysi.  Fólk á hættu á að missa heimili sín og það er lítið sem það sem einstaklingar geta gert.  Það þarf samstillt átak fjöldans til að leysa þau yfirþyrmandi vandamál sem við blasa. 

Í raun er tvennt hægt að gera.  Það er að skipa neyðarstjórn, sem stjórnar með beinum tilskipunum, eða fara lýðræðislegu leiðina og mynda samstjórn allra stjórnarflokka sem einhendir sér í að leysa þau vandamál sem við blasa.  Þekkt fordæmi er að slíkt gerist við mikla neyð þjóða.  T.d fékk Breska þingið Winston Churchill til að leiða samstjórn alla flokka 1940 þegar algjör ósigur blasti við Bretum.  hlutverk hennar var að takast á við þann vanda sem við blasti og skapa einhug hjá þjóðinni um að það yrði gert sem þyrfti að gera.

Hér þurfti að fara þjóðstjórnar leiðina en í raun var tekið upp ákveðið form af neyðarstjórn sem stjórnar með tilskipun.  Þó hér eigi ennþá að heita lýðræði þá eru landinu stjórnað með tilskipunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Hann ákvað efnahagsóráðin og allt sem íslenska ríkisstjórnin gerir þarf samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Reyndar ræður Alþingi ennþá kvað kaffitegund er drukkin á kaffistofu þingsins en lítið annað fram yfir það. 

Þjóðstjórnina átti að skipa formönnum allra flokka sem buðu fram til Alþingis í síðustu kosningum.  Síðan átti að skipa unga og velmenntaða hagfræðinga í ráðneyti fjármála, efnahags og viðskipta.  Skipta átt út allri yfirstjórn í fjármálakerfinu, þar á meðal Fjármáleftirlitinu og Seðlabankanum.  Fyrst og fremst til að losna við allar fortíðar deilur.  Og endurvekja traust.

Og hvað átti að gera?  Málið er ákaflega einfalt.  Það átti að skilgreina vandann og síðan þau markmið sem ríkistjórnin stefndi að.   Allt það sem gert var í framhaldinu átti síðan að miðast við að ná þessum markmiðum.  Helstu markmið þjóðstjórnarinnar áttu að vera þessi:

1. Tryggja að fjölskyldur landsins héldu heimilum sínum þrátt fyrir skuldsetningu sína.

2. Halda atvinnulífinu gangandi.  

3. Lágmarka atvinnuleysi.  Bjóða uppá menntunarúrræði fyrir atvinnulausa.

4. Verja velferðarkerfið.

5. Tryggja að ríkissjóður yfirskuldsetti sig ekki. Annars yrðu markmið 1-4 innantóm.

 

Og til að ná þessum markmiðum þarf forystu og leiðsögn

Forystan felst í að sameina þjóðina um þessi grunnmarkmið.  T.d átti að segja strax að eitt heimili sem eyðist vegna kreppunnar er einu heimili of mikið.  Að segja að við séum það smá þjóð að hin einu raunverulegu verðmæti okkar sem þjóðar erum við sjálf.  Þess vegna reynum við að vernda allt líf, hvort sem það er aldraðir, sjúkir, öryrkjar, langveik börn, einhverf börn, börn með geðræn vandamál og svo framvegis.  Og ekki hvað síst hvort annað.  Blóðfórnir Finna frá bankakreppu þeirra má ekki og á ekki og mun ekki endurtaka sig á Íslandi.  Þess vegna sköpum við samstöðu og einhug um þá lífsýn að við séum öll eitt, með sömu örlög og framtíð.  Þess vegna verndum við atvinnu okkar og velferðarkerfi.  Og við verndum hvort annað.

Vissulega má færa rök fyrir því að mikið sé lagt á stöðuna með þessari lífsýn en málið er að ef þú vilt og stefnir af því að allir bjargist í neyð, þá eru mestu líkurnar að flestir bjargist.  Ef stefnan er að sumum sé fórnandi þá splundrast samstaðan um leið og upp hefjast bræðravíg í anda Hávamála.  Í raun er sú stefna ákall um að láta goðsagnir rætast:  "Bræður munu berjast og að bönum verðast".  Eina sem er öruggt úr bræðravígum er hörmungar.  Og í þjóðfélagi þar sem manngildi er ekki lengur brúkanlegur mælikvarði heldur krónur og aurar þá skal þess getið að mesti kostnaður samfélaga fellur einatt til í bræðravígum.  Þó það sé ekki kennt í viðskiptafræðum þá er það bara þannig til lengdar að minnsti kostnaður og mesti ávinningur er leið manngildis og samstöðu.  Þannig séð var Jesús Kristur mikill hagfræðingur.

Leiðsögn felst í því að útfæra leiðir til að ná markmiðum þjóðarinnar.  Einfaldara getur það ekki verið.  Í stað þess að hagfræðingar og aðrir spekingar og svo allir meðaljónarnir í flokkapólitík okkar haldi ræður uppfullar að staðreyndum um það sem er ekki hægt og af hverju, þá felst leiðsögn um að finna þau úrræði sem duga.  Hagfræðingar fá því t.d spurningar um hvernig tryggjum við búsetu fólks og atvinnu.  Auðvitað eru margar gryfjurnar til að falla ofaní eins og í fyrstu ferðinni yfir hálendi Íslands.  En hún var farinn því menn ætluðu sér það og ef menn festu trukkana, þá fundu menn leið til að losa þá aftur.  

Eins er það með ferð þjóðartrukksins.  Leiðirnar og sáttin finnast ef allir einsetja sér að leggja sitt af mörkum.  T.d benti Þórólfur Matthíasson hagfræðingur fréttamanni útvarps á að almennar þensluaðgerðir, fjármagnaðar með peningaprentun,  gegnu ekki upp því engin þjóð væri tilbúinn að fjármagna viðskiptahallann.  Nema auðvitað ef fólk vildi gjaldeyrishöft.  Daginn eftir var búið að setja á gjaldeyrishöft.  Rökrétt afleiðing þess að þjóðin átti ekki gjaldeyri.  Þannig að talsmenn helreiðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins koma sjálfir með þær lausnir sem sjálfbær þjóð þarf að nota á neyðartímum.  En hjá þeim var það hluti af aðgerðum sem eyða og kæfa þjóðfélagið en í þeirri leiðsögn sem ég tala um þá eru höftin afleyðing fátæktarinnar.  En það er svo margt sem hægt er að gera innanlands til að mannlífið sé bærilegt og kostar ekki mikla peninga.  Hafi menn ekki efni á að sjá Miklagljúfur þá geta þeir bara heimsótt Víkina mína og skoðað hana í þoku eða í skyni Norðurljósa í janúarmánuði.  Upplifunin sú sama en sú seinni kostar ekki gjaldeyri.  Það er algjörlega óþarfi að drepa allt í dróma til að einhvern tímann, einhvern tímann í fjarlægri framtíð hafi þjóðin efni á frjálsu flæði gjaldeyris í allt sem henni dettur í hug.  Því helstefnan áttar sig ekki á því að það er hægt að lifa góðu lífi af sínu og það er aukning útflutnings sem eflir innflutning og stuðlar að frjálsum gjaldeyrisviðskiptum en ekki aðgangur að lánsfé.  Sú stefna er komin á endamörk og verður ekki upptekin aftur.  Sama hvað talsmenn fortíðar vilja trúa því heitt.  Líklegra að frjálshyggjumaður fljúgi með því að lyfta sér upp á hárinu.

En hvort sem menn benda á gryfjurnar með góðum hug eða úrtölu hug þá mun þjóðartrukkurinn falla ofaní og þá reyni á forystuna og samstöðuna að draga og ýta honum uppúr aftur.  Ég ætla ekki að rekja það ítarlega hvað þarf að gera í smáatriðum.  Veit það ekki frekar en aðrir jónar.  En ég ætla að tæpa á því helsta sem fylgir startinu á ferðalaginu.

 

1. Aðgerðir vegna heimila er einfaldasti hluti þess sem þarf að gera.  Fólk býr í húsum sínum og það á að gera það áfram.  En sem Íslendingar, ekki sem skuldþrælar.  

Frysta þarf vísitölu verðtryggingar frá 01.01.08.  Hækkun hennar síðan hefur verið vegna óeðlilegra aðstæðna sem hún var ekki hugsuð fyrir.  Sú lækkun skulda sem af því hlýst er sú forgjöf sem heimili fá til að mæta tekjusamdrætti og öðru þeim óáran sem óhjákvæmilega fylgir Kreppunni.  Þessi lækkun er fyrir alla.  Slíkt er undirstaða þeirrar þjóðarsáttar sem þarf að nást til að fólk þrauki og berjist.   Þessi frysting kemur sér best handa barnafólki, því fólki sem þjóðfélagið má ekki við að missa frá sér, hvort sem það er af landi brott eða í vonleysi gjaldþrota og atvinnuleysis.  Gerist það þá verður hér ekki ein þjóð eftir 5 ár eða svo.  Og upplausn mun ríkja með ófyrirsjáanlegum atburðum.

En það er rétt að aðrir hópar munu njóta sem ekki standa eins illa að vígi.  En hvað um það.  Þeir munu þá hafa einhverja burði til að rífa hjól efnahagslífsins í gang með "eyðslu" sinni.  Ef allir eru aðkrepptir í skuldafjötrum þá er engir peningar eftir í þá veltu sem heldur þjónustuhagkerfinu gangandi.  Þannig að Frysting verðbóta mun bæði hafa bein og óbein áhrif til góðs til hagsbóta fyrir allt þjóðfélagið.

Sú leið að finna þá sem verst standa er leið spillingar og flokkadrátta.  Af hverju fær þessi en ekki hinn?  Og þeir sem fara halloka í því mati munu ekki sjá sér neinn hag í að vera hluti af hinum sem er bjargað.  "Bræður munu Berjast  og ...."  Aðeins smásálin áttar sig ekki á þessum einföldu sannindum og það er einmitt hlutverk Forystunnar að blása þeim anda í brjóst á fólki að allir (a.m.k. allflestir) upplifi sig mikilmenni og styðji þjóðarsáttina heilshugar.

Næsta sem þarf að gera er að láta fólk borga það sem það getur borgað með góðu móti.  Það getur falist í greiðsluaðlögun og/eða eignarhluta íbúðalánssjóðs í fasteigninni sem ígildi þess hlutfalls sem ekki greiðist.  Þegar betur árar þá borgar fólk þetta til baka eða selur eign sína og fær þá sinn eignarhluta og íbúðalánasjóður sinn.  Með svona útfærslu tapar fólk ekki því sem það setur í fasteign sína nema þá fasteignamarkaðurinn verði þá frosinn um aldur og æfi.  Og þá er hlutfallslega jafn gott að kaupa nýja fasteign.

2.  Málefni atvinnulífsins eru öllu flóknari.  Bæði vegna of mikillar skuldsetningar þess og skorts á rekstrargrundvelli vegna tekjusamdráttar.  Í sinni einföldustu mynd má segja að til að byrja með, á meðan mesta kreppan stendur yfir þá á að halda þeim fyrirtækjum gangandi sem hafa jákvætt sjóðsstreymi.  En hin þurfa að fara, allavega ef ekki úr rætist innan viss tíma.  Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í þennan þátt.  Vísa í Jón Daníelsson sem hefur komið með vel útfærðar hugmyndir og svo náttúrlega miklu fleiri. 

En grunnhugmyndin er sú að skuldastaða á ekki að stoppa rekstur fyrirtækja fyrsta kastið.  En svo þurfa færustu sérfræðingar að koma með áætlun um endurreisn atvinnulífsins.  Byggja má á svipaðri reynslu Svía og Norðmanna en fyrst og síðast þá þarf að gera allt þetta ferli á opinn og gagnsæjan máta.  Byggja á almennum reglum og þeim forsendum sem þjóðfélagið setur atvinnulífinu.  Þessi ábyrgð á ekki að vera á höndum bankamanna eða þá fjárfesta.   Banna á fákeppni, skuldsettar yfirtökur eða skuldsett kaup svokallaðra fagfjárfesta.    

3.En það verður atvinnuleysi því svo margar atvinnugreinar eru búnar að missa tilverugrundvöll sinn eins og ég rakti í fyrri greinum um Guð blessi Ísland.  Margar góðar hugmyndir hafa þegar komið fram hvernig á að skapa ný fyrirtæki og ný atvinnutækifæri.  Það á að keyra á þeim hugmyndum sem kosta ekki mikinn gjaldeyri og vissulega á að heimila erlenda fjárfestingu og reyna að gera hana aðlaðandi en ekki á braskforsendum.  En raunveruleikinn er sá að heimskreppan  hefur klippt á nýfjárfestingar og er það ekki bara bundið við Ísland.  Þannig að nýsköpun verður fókusa á okkar eigin getu.

Atvinnuleysi verður samt og þá er það spurning um menntun atvinnulausra og atvinnuátaks ríkis og sveitarfélaga.    Mjög margt sem Göran Person sagði á að geta nýst okkur og ef vilji er fyrir hendi þá á enginn að vera raun atvinnulaus nema í stuttan tíma.

Kjörorðin eiga að vera sveigjanleiki, mannúð og uppbygging.   

4. Velferðarkerfið er grunnstoð samfélagsins.  En vegna hins mikla tekjutaps þjóðfélagsins þá skerðast tekjur ríkissjóðs verulega.  Núna er enginn til að lána okkur og þó hægt sé að reka ríkissjóð með tapi fyrstu árin meðan þjóðfélagið er að rétta úr kútnum þá þarf hann að leita jafnvægis.  Og það þarf vissan afgang til að greiða herkostnað björgunarinnar. 

Þó ríkið prenti peninga þá er það aðeins lausn að vissu marki.  Verðmæti þurfa að vera til á móti og ef skortur og skömmtun á ekki að einkenna allt mannlíf næstu árin þarf sem fyrst að ná hallalausum ríkissjóð.  Og of mikil skattheimta er ávísun á áframhaldandi stöðnun og samdrátt.  heimili og fyriræki eiga nóg með sitt.

Svarið við niðurskurði er ekki einfalt en grunnvinnubrögðin eru skýr.  Ekkert skilar árangri nema  með samvinnu og þátttöku starfsfólks í ákvörðunarferlinu.  Eitthvað sem gengur sjálfsagt ekki við  eðlilegar aðstæður en neyðin flytur fjöll og fær fólk til að standa saman.  

Halda á þjóðfund (sjónvarpi frá Laugardalshöll) strax í sumar og kynna þjóðinni stöðu mála undanbragðalaust.  Tekjum, kostnaði, skuldum og framtíðarhorfum.  Og síðan er það bara herhvötin.   Í seinna stríði komu flugmenn frá afskekktustu stöðum hins enskumælandi heims og tóku þátt í orustunni um Bretland.  Það var eitthvað sem skipti meira máli en þeirra sjálf og þarfir.   Eins er það með þjóðina.  Hún mun takast á við vandann.

Í heilbrigðiskerfinu þarf að kalla til fulltrúa allra stofnana, jafnt stjórnenda og  starfsfólks, eins fulltrúa stéttarfélaga með breiðan bakstuðning sinna félagsmanna.  Og fólk þarf að setjast niður og ræða hvernig hægt er að bregðast við.  Þarf að segja upp fólki eða eru til aðrar leiðir?  Hagræðing, launakjör, þess vegna óunnin yfirvinna eða minnkað starfshlutfall, aðrar leiðir að sama marki o.s.frv.  Grunnhugsun á að vera sú að hver skoði sinn rann og komi með tillögur um hann.  Enginn á að sleppa svo billega að hann bendi á aðra.  Tillögur í pottinum þarf að ræðast.  Loks þegar ramminn liggur fyrir þá þarf hver hópur að útfæra sínar hugmyndir heima í héraði og skapa um hann sem breiðustu sátt.

Vissulega munu margir frekar hætta en það er mun betra að losna við skemmd epli sérhyggjunnar en að sagt sé upp góðu fólki sem er tilbúið að halda stofnunum sínum starfshæfum í gegnum þrengingarnar.

Sama hugmyndafræði á í raun að gilda um aðrar stofnanir og þjónustu ríkisins.  Ramminn á að liggja fyrir og svo sameiginlegt átak að láta hann ganga upp

Í þessu samhengi þarf ríkið að endurskoða launastefnu sína.  Ríkið elti þensluna í þjóðfélaginu með því að hækka laun sín.  Nú er sú þensla horfin og fyrirtæki á markaði þurfa að lækka launakostnað sinn.  Eins þarf ríkið að gera.  T.d á að lækka öll laun milli 200.000 - 350.000 um 10% en um 20% á hærri laun en 350.000 þúsund.  Segi þetta reyndar án ábyrgðar en launalækkanir og atvinna er betri kostur en uppsagnir hluta starfsfólks sem gætu lamað starfsemi viðkomandi þjónustustofnunar.  En eitthvað svona þarf að koma til annars hrynur kerfið.

5. Þjóðarbúið skuldar mikla peninga og getur ekki hlaupið frá því.  Hver sú skuldabyrði er fara tvennar sögur en ljóst er að svona hrun verður ekki án mikils kostnaðar og skulda.  Þeir sem halda öðrum fram eru að blekkja í annarlegum tilgangi, hver sem hann svo sem er.   Og skuldastaða þjóðarbúsins má ekki miðast við áætlaða landsframleiðslu fyrir hrun, hrunið þýðir mikinn samdrátt og síðan munu tekjur þjóðarbúsins dragast stórlega saman vegna heimskreppunnar.  Því er ljóst að þjóðin tekur ekki á sig frekari skuldbindingar.  Hvort sem þar er vegna ICEsave eða lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að byggja aftur upp gengismarkað og frjáls gengisviðskipti.  Aðeins veruleikafirrtir menn sem greina ekki alvöru málsins tala um slíkt.  Sömu mennirnir og rústuðu efnahagslífinu með gjörðum sínum eða stuðning við fáránleik hins gjaldþrota kerfis.

Og þegar þjóðin þarf frekar styrki og aðstoð þá bætir hún ekki við skuldir sínar.  Útflutningurinn verður að duga.  Og hluti útflutnings fer í vexti og afborganir á erlendum lánum.  En ekki stærri hluti en þjóðfélagið þolir, bæði innviðir þess og möguleg uppbygging.

Að þessu verða hinir erlendu lánardrottnar að ganga.  Þeir tóku áhættu sem þeir þurfa að axla eins og Íslenska þjóðin.  En það á að borga þeim til baka sem þjóðin tók að láni og er með veði í eignum hennar og mannorði.  Skuldir auðmanna sem fóru í hlutabréfabrask og erlenda útrás er tapað fé og verður ekki lagt á íslensku þjóðina.

Svona samningar þar sem borgað er eftir getu hafa áður verið gerðir og munu verða gerðir í miklu mæli i komandi heimskreppu.  Ísland er ekki eyland þó eyja sé.  Það er allra hagur í heiminum að skuldafjötrar hindri ekki eðlilega uppbyggingu heimsviðskipta.  Allur hræðsluáróður um að við endum sem útnári þó við höfum lent í erfiðleikum og þurfum að miða afborganir lána okkar eftir getu er í besta falli hræðsluáróður í annarlegum tilgangi eða hreint óráðshjal veruleikafirrtramanna sem munu aldrei sjá eða skynja heimsku sína og afglöp.  Hið nýja Ísland á þola þessa menn en ætti að vera búið að læra að ráð þeirra er óráð því dómgreind þeirra er engin.  Sagan segir það og hún lýgur ekki.

 

Hver kostnaðurinn við þessa endurreisn?   Hann er mikill en kostnaður þess að efna til bræðravíga er meiri.  T.d hverfa ekki skuldir þegar fólk er gert gjaldþrota.  Þær falla þá beint á ríkissjóð því enginn mun kaupa hinar yfirteknu eignir.   Síðan bætist ofan á ýmis félagslegur kostnaður vegna hins gjaldþrota fólks.  Og tekjutap fyrir ríkissjóð því gjaldþrota fólk sem gefst upp eða flytur úr landi er ekki skattgreiðendur.  Hinn kosturinn að gera fólki kleyft að halda heimilum sínum, án þess að hart sé að því gengið, er ávísun á tvennt.  Fólk mun reyna að bjarga sér og það mun taka þátt í uppbyggingu þjóðfélagsins.  Og það mun borga hluta af sínum afborgunum í núinu en allar þegar betur árar.  

Í raun er leið mannúðar hagkvæmasta leiðin fyrir stjórnvöld og fjármálafyrirtæki.  Allt hálfkák er miklu dýrara þegar allur kostnaður er talinn til.  Gamla hagræðingin að fella niður kostnað á einum  bókhaldslykli, til að fá hann margfaldan á næsta er hagræðing heimskunnar og Íslendingar eru ekki heimsk þjóð, alla vega ekki á krepputímum.

En Frysting verðtryggingarinnar kostar pening en leiðin er þekkt og þrautreynd.  Langtímaskuldabréf með hóflegum vöxtum sem mynda stofn að eigin fé sjóðanna sem eiga lánin.  Bæði afborganir og vaxtagreiðslur verða hóflegar á hverjum ári og þessi skuld er öll innanlands.  Sem þýðir, að á meðan harðindunum stendur, þá greiðist ekkert því peningar þjóðfélagsins fara í að hindra hrun þess og síðan þarf peninga í uppbyggingu.  En þegar hún skilar árangri þá munu greiðslur af þessu bréfi ekki íþyngja skattgreiðendur framtíðarinnar.  T.d í Bandaríkjunum er ennþá til ríkisskuldabréf frá fyrra stríði.  Þau eru þarna sem eign en borgast hægt niður eða þannig. 

Eins verður það með kreppubréfið. Stolt Íslensku þjóðarinnar mun kristallast í því.  Það var vopnið sem lagði drög að þjóðarsamstöðunni.  Sem kom í veg fyrir Sturlungaöld hina nýrri.

Þjóðin verður líka að átta sig á því að atvinnulaus maður kostar.  Það er ekki nóg að fordæma kostnaðarsamar almennar aðgerðir en líta hjá hinum kostnaðinum.   Kostnaði þess að gera ekki neitt eða það lítið að það skilar litlu.  Og þegar kostnaðurinn við samfélagslega upplausn og landflótta er reiknaður þá er hið almenna ódýrara ef rétt er fókusað og ráðist á rót vandans.  En ég viðurkenni að það þarf líklegast forystu til að þjóðin sjái samhengi hlutanna.

Núna reynir á hvort við séum menn eða mús.  Sérstaklega er ábyrgð menntamanna og sérfræðinga mikil.  Þeir eiga að hafa menntun og þekkingu til að koma með tillögur og lausnir.  Þeirra hlutverk er að fylgja Forystunni en ekki steinleggja götur með úttölum og niðurrifi.  Slíkt fólk er það eina sem má missa sig og margt má gera til að útvega því vinnu í kreppunni út í hina stóra heimi.  Maður með þekkingu og menntun er lítils virði ef hann hefur ekki sál til að finna til samábyrgðar og samkenndar.  En hann getur valdið svo mörgum skaða með úrtölum sínum og steinalögnum.  Það er betra að vera færri og gera gott úr því sem þjóðin á en fleiri og smásálarleg.  Smásálir hafa aldrei unnið nokkra baráttu eða bakað nokkuð brauð með litlu gulu hænunni.  En þær vilja njóta ávaxtanna.  En þær eru bara búnar að klúðra málum svo illilega að þjóðin hefur ekki efni á smæð þeirra.

Við megum aldrei gleyma því að þjóðin væri ekki að rífast um sjálfsagða hluti eins og atvinnu og húsnæði handa öllum ef um afleiðingar náttúrhamfara væri að ræða.

Hrun Íslands er okkar náttúruhamfarir og  okkur ber skylda að endurreisa landið upp þannig að allri þegnar landsins séu með í því ferli.  Einelti er ljótt og það er ljótt að skilja útundan.  Þetta læra 4 ára synir mínir á leikskólanum og ef einhver efast um það þá á hinn sami að sína þann manndóm að setjast aftur á leikskólabekk til að skilja þessi grunnsannindi upp á nýtt.

Við erum öll ein þjóð.  Og við lækkum vextina strax á morgun niður í 3 %. 

 

Og hana nú, en seinni hluti þessara stemmu er eftir.  Þar tek ég á mínum hugmyndum um praktísk vandamál.  T.d þarf að tryggja matvælaöryggi á þeim forsendum að það er landráð að hrófla við bændum, jafnvel þó þeir skuldi meira en þeir geta borgað.  Síðan þarf að beina ódýru rafmagni í gróðurhúsin og öll garðrækt á að njóta hagstæðustu skilyrða sem hægt er að veita.  Og það á að leyfa krókaveiðar á grunnslóð.  Strax, og fiskurinn á að fara á innanlandsmarkað.  Fyrst þegar allir eru búnir að fá í soðið á viðráðanlegu verði, má senda utan.

Og það á að leggja drög að grænni orku og vistvænu þjóðfélagi.  Og ekkert röfl um það því það er heimskreppa og gjaldeyrisskortur.  Græn hugsun er okkar leið til að ná jafnvægi og lífsgæðum.  Tækifærin eru óþrjótandi og þannig byggjum við upp mannorð þjóðarinnar því þó gjaldþrota peningamenn og aðrir púkar séu í nöp við þjóðina þá eru bara svo miklu fleiri sem skynja að grænt er vænt og þeir eiga eftir að líta upp til hins Nýja Íslands.   Sanniði til.

Kveðja að austan

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég þakka þér fyrir góðan pistil sem og áhugaverðar hugmyndir Ómar minn.

Hilmar Gunnlaugsson, 10.3.2009 kl. 18:16

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Hilmar.

Kveðja, Ómar

Ómar Geirsson, 10.3.2009 kl. 23:55

3 identicon

Sæll Ómar, þetta er eins og talað úr mínu hjarta. Samstaða okkar allra er það sem kemur okkur hraðast úr þessu með sem minnstum sársauka.

Að gera heimilin friðhelg er praktísk lausn þegar öllu er á botninn hvolft. Að binda mannauðinn við áhyggjur skuldaklafans dregur úr kjarkinum og eykur á tilfinningu óréttlætis, með réttu eða röngu. Áhyggjur og fynnast að maður sé beittur órétti er ekki góður efniviður í uppbyggingastarfið.

Það munu langflestir ef ekki allir vera reiðubúnir að taka á sig þrengingar ef það hefur einhvern tilgang. Og sennilega munum við ekki ganga í gegnum mikla erfiðleika ef samstaða næst um þessi einföldu og sjálfsögðu sannindi sem koma fram í þessar grein hjá þér.

Þegar uppi er staðið, getur verið að þetta hrun sé það besta sem gat komið fyrir Ísland, en ekki það versta. Allt eftir því hvernig við tökumst á við verkefnið.

Mbk, Toni

Toni (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 16:11

4 identicon

Þetta eru ekki erfiðleikar sem einhverjir fáir útvaldir hafa einir rétt á að greiða úr. Það er að sjálfsögðu réttur okkar allra að fá að taka þátt í því. Og fólk mun gera það með glöðu geði ef það finnur að það sé tilgangur með fórnum þess.

Toni (IP-tala skráð) 12.3.2009 kl. 16:18

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Toni.

Þú orðar kjarna greinarinnar mjög vel.  Það gleður mig mjög að að ég hef ekki alveg púlað til einskis.

Kveðja, Ómar

Ómar Geirsson, 13.3.2009 kl. 09:52

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Frábær Ómar, við þurfum þig í forystuna fyrir landið okkar

Arinbjörn Kúld, 13.3.2009 kl. 15:13

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arinbjörn.

Góður.

Kveðja, Ómar

Ómar Geirsson, 13.3.2009 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 473
  • Sl. viku: 5511
  • Frá upphafi: 1327335

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 4921
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband