Fársjúk þjóð.

 

Greiðir erlendum aðilum tugi milljarða í vexti, sama tíma og hún lætur heilbrigðiskerfi sitt grotna niður.

Ástandið á Landsspítalanum er eins og á stríðshrjáðum svæðum, starfsemin er við það að hrynja vegna undirmönnunar og álags.  Álag án upplits, sýgur allan þrótt úr fólki þar til einn daginn, það getur ekki meir.  Í bókstaflegri merkingu.

Og þá hrynur allt.

 

Þetta er spítalinn sem sinnir börnunum okkar, foreldrum okkar, og okkur sjálfum þegar við fáum krabbamein, eða aðra lífshættulega sjúkdóma.

Og við eyðileggjum hann því við látum Friedmanista stjórna landinu í þágu auðs og ofurauðmanna.

Tug milljarða vextirnir eru ekkert náttúrulögmál, þeir eru verk þjóna fjármagnsins sem þiggja ríflega þóknun fyrir að rúa þjóð sína.

 

Af hverju halda menn að vextir slefi rétt núllið í höfuðríkjum Vesturlanda??

Það er vegna þess að skuldir þessara ríkja eru það háar, að þau standa ekki undir hærri vaxtarprósentu án þess að eyðileggja innviði samfélaga sinna líkt og gert hefur verið hér á Íslandi.

Þó menn kannski vildu þjóna fjármagninu á þann hátt, þá gera menn það ekki.

 

Mig langar að vitna í Michael Hudson,  sem benti á þessa einföldu staðreynd í grein sem hann skrifaði snemma árs 2009.

 

"Lausn nýfrjálshyggjunnar á þessu vandamáli er að selja eignir með gríðarlegum afföllum til alþjóðlegra arðræningja og brjóta niður félagslegt kerfi þjóða, einmitt þegar þær þurfa mest á því að halda. Þetta gildir þó aðeins um litlu þjóðirnar. Þær þjóðir sem hæst hrópa á Íslendinga að greiða lán spákaupmannanna eru undanskildar. Þar eru fremstar í flokki þær þjóðir sem eru skuldsettastar, Bandaríkin og Bretland, undir stjórn manna sem dytti aldrei í hug að leggja slíkar byrðar á eigin þegna. Um leið og þessar þjóðir lækka skatta og auka á fjarlagahallann reyna þær að kúga peninga út úr smærri og veikburða þjóðum, líkt og þær stunduðu gagnvart Þriðjaheimsríkjum á 9. og 10. áratug síðustu aldar."

 

Við  Íslendingar náðum að andæfa með því að verjast ICEsave fjárkúguninni en ofurvextirnir hafa hægt og hljótt sogið allan þrótt úr hagkerfinu.

Þar að fara tugir milljarðar árlega í vasa erlendra spákaupmanna og vogunarsjóða.

 

Núverandi ríkisstjórn ætlar að greiða þjóðinni rothöggið.

Með niðurskurðarfjárlögum sínum, Fjárlögum dauðans.

 

Það eina sem verður ekki skorið niður, eru vaxtagreiðslurnar.  Við þeim helgu véum Friedmanismans verður ekki hróflað.

Við fjármagninu verður ekki hróflað.

Við afætum auðs og sníkjudýrum sjálftökunnar verður ekki hróflað.

 

Aðeins samfélagið okkar, velferðin okkar, límið sem heldur þjóðinni frá vígaferlum, verður skorið.

Þar sem ekkert meir er til að skera, án þess að það verði skorið til ólífis.

 

Ríkisstjórnin þykist ætla að ráðast á kerfið, kerfið sem er undirstaða valda hennar.

Það mætti trúa því ef hún hefði tilkynntu um uppsögn EES samningsins, sem er undirstaða kerfisvæðingu síðustu 20 ára eða svo.  Sem hún hefur ekki gert og á meðan verður hún að fara eftir leikreglum regluveldis Evrópusambandsins.

Gjörðir sýna vilja, ekki orðaglamur.

Orðaglamur er til að blekkja, þyrla upp moldviðri, til að etja fólki saman.

 

Af hverju er Hörpu stillt upp gegn heilbrigðiskerfinu en ekki hinum erlendu vaxtagreiðslum??

Af hverju er ráðist á útsæðið sem skilar uppskeru í ríkiskassann??

Af hverju er ráðist á græðlingana sem skila framtíðarvexti í hagkerfið??

Af hverju er ráðist á réttlæti skuldaleiðréttingarinnar með afbökun og rangfærslum??

Af hverju er sama ræðan flutt og hjá síðustu ríkisstjórn??

 

Af hverju, af hverju??

Hvað er að okkur, af hverju látum við þetta líðast??

 

Að við séum rænd þjóð, svívirt.

Og að þeir sem rændu okkur og svívirtu ráði öllu í gegnum þjóna sína og leppa.

 

Erum við fársjúk þjóð??

Þekkjum við ekki lengur muninn á röngu og réttu.

 

Og gerum rangt, líðum órétt. 

Látum fólk deyja svo fé dafni.

 

Eitthvað mikið er að í landi feðra okkar.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Liggur ekki á að komast úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar. Í umræðu undanfarinna missera er oftast rætt um að ástandið sé fyrri ríkisstjórn að kenna og sumir fara lengra aftur til eða 2003 eða svo.

Þegar vinstri stjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar var Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra. Þeirri ríkisstjórn tókst að skila hallalausum fjárlögum síðasta árið. Á þeim tíma var þjóðarsáttin gerð.

Þegar ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar með Sighvat Björgvinsson sem heilbrigðisráðherra var farið í að sameina sjúkrastofnanir bæði út á landi og og á höfuðborgarsvæðinu gegn miklum mótmælum heilbrigðisstarfsmanna og landsmanna. Komugjöld til lækna hverrar stéttar sem var voru hækkuð, framlög til sjúkrahúsa voru skert.
Sighvatur barðist með odd og egg fyrir þessu hjartans máli sínu og Davíðs.

Ég tel að þessi tími hafi verið upphaf vandræða heilbrigðiskerfismála almennt.

Með sameiningu sjúkrahúsa, lokunum deilda ofl varð samkeppni að lúta í lægra haldi fyrir miðlægu stóru sjúkrahúsi sem kallast LSH í dag. Þar er engin samkeppni milli lækna og þá minni metnaður og sama á við um annað starfsfólk. Með þessum orðum geri ég ekki lítið úr þessu fólki en það getur sig hvergi hreyft. Eini vinnustaðurinn er LSH. Eina samkeppnin er erlendis.

Að ætla sér að skera meira niður er svo galið að geðgjörgæsludeild fyrir flokksmenn og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar þarf að vera miklu stærri en fyrirhugað er.

6% stýrivextir Seðlabankans eru út í hött í því ástandi sem nú er. Þeir þurfa að lækka umtalsvert. Þeir skara eld að köku þeirra sem meira mega sín. Þar með talið Pétri nokkrum Blöndal.

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.9.2013 kl. 14:34

2 identicon

Frábær pistill Ómar.  Heyr, heyr.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.9.2013 kl. 16:08

3 Smámynd: Ómar Geirsson

"Ég tel að þessi tími hafi verið upphaf vandræða heilbrigðiskerfismála almennt.

Með sameiningu sjúkrahúsa, lokunum deilda ofl varð samkeppni að lúta í lægra haldi fyrir miðlægu stóru sjúkrahúsi sem kallast LSH í dag. Þar er engin samkeppni milli lækna og þá minni metnaður og sama á við um annað starfsfólk. Með þessum orðum geri ég ekki lítið úr þessu fólki en það getur sig hvergi hreyft. Eini vinnustaðurinn er LSH. Eina samkeppnin er erlendis."

Mikið sammála þessum orðum þínum Hafþór og takk fyrir þetta ágæta innlegg.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.9.2013 kl. 17:47

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Jamm og jæja Pétur, þá þarf ég ekki að vera svo gáfulegur á morgun  þegar ég klára vikuna.

Mig langaði eiginlega bara að sjá hve hátt ég skoraði á topp tíu listanum ef ég héldi þetta út með lágmarks fyrirhöfn í heila viku.

Hvort gamli framhlaðningurinn virkaði ennþá ef til átaka skyldi koma.

Sem ég vona ekki, ef úlfaldi getur sloppið í gegnum nálaraugað, þá ættu göngin mín líka að geta það.

Eiginlega er ég bjartsýnni á það með hverjum deginum.

Eða þannig.

Samt til öryggis er gott að vera búinn að hlaða, hafa allt klárt ef ske kynni.

Fjárlög dauðans þurfa ekki endilega að vera dauði samfélagsins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.9.2013 kl. 18:01

5 identicon

"Fjárlög dauðans" gætu allt eins orðið til þess að fólk vaknaði úr dvala, til lífsins. 

Eða sem Lao Tze segir:  "Sannindin hljóma oft sem öfugmæli."

Í því er galdur lífsins fólginn, sjálfur hinn mjúki sprengikraftur lífsins.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.9.2013 kl. 19:03

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Vissilega Pétur.

En ég þarf ekki að vera sannspár um þau.

Þetta er svona varúðarráðstöfun, að hafa fyrstu skotfærin klár, svona just in keis.

Vonum að óttinn sé ástæðulaus og allt fari á betri veginn.

Heyrumst.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 24.9.2013 kl. 20:54

7 identicon

Gott að vita til þess Ómar að þú hafir skotfærin klár :-)

Orð þín og skrif njóta virðingar þeirra sem móavit hafa.

98-2 sýndi það og einnig þegar Icesave puntudúkkur "Sjálfstæðis"flokksins

gerðu illilega í brækurnar í þingsal.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.9.2013 kl. 23:12

8 identicon

Sæll.

Hvernig höfum við látið Friedmanista stjórna landinu? Með hvaða hætti er núverandi og fyrrverandi stjórn friedmanísk?

Hudson talar um að lækkun skatta auki fjárlagahallann, slíkt er rangt og dæmigert viðhorf þeirra sem illa eru að sér í efnahagsmálum. Mýmörg dæmi eru um að lækkun skattprósentu skili hinu opinbera auknum tekjum. Heldur einhver að ef við hækkum alla skatta á ferðaþjónustuna fyrir næsta sumar að það muni skila auknum tekjum? Ferðamenn fara einfaldlega annað. Ef við tvöföldum alla skatta mun það ekki skila tvöföldum tekjum - síðasta ríkisstjórn komst að því the hard way - sífellt var verið að hækka skatta en þær hækkanir skiluðu alltaf minna en menn héldu.

Á árunum 1991-2001 voru skattar á fyrirtæki hérlendis lækkaðir í skrefum úr 45% í 18%. Minnkuðu tekjur ríkisins við þessa lækkun? Nei, þær þrefölduðust!

Af hverju er svona hræðilegt að skera niður á fjárlögum? Ef það er ekki gert munu vaxtabyrðar okkar aukast. Ertu ekki á móti því? Þú er hér í hrópandi mótsögn við sjálfan þig. Er þér sama eða veistu það ekki?

Þú talar um að stýrivextir SÍ séu  of háir og þú hefur nokkuð til þíns máls. Vandinn er bara að ef þeir lækka mun það leiða til aukinnar skuldasöfnunar. Af hverju heldur þú að nánast allir séu að drukkna í skuldum? Leggja ber SÍ niður eða í það minnsta vængstýfa hann enda getur enginn maður vitað hvað peningar eiga að kosta.

Hvað vilt þú annars gera til að snúa við ástandinu? Það er hægt að snúa hér öllu við á ca. 2 árum - ég þekki sögulegt dæmi þess.  

Hér er búið að forklúðra svo málum að viðgerð verður auðvitað sársaukafull og tekur nokkurn tíma. Því lengur sem við frestum óumflýjanlegri tiltekt þeim mun verri verða timburmennirnir.

Helgi (IP-tala skráð) 25.9.2013 kl. 09:48

9 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar og hafðu þökk fyrir að skerpa  athygli okkar. Það er mér ómögulegt að skilja þessa vaxtastefnu SÍ frá hruni. Þessir vextir knésetja almenning og fyrirtæki. Það hefur engin skýring komið fram frá SÍ á þessari vaxtastefnu sinni og hverning hún hefur hjálpað til við endurreisn heimila og fyrirtækja í landinu.

Að halda því fram að háir vextir séu til þess að hamla við skuldasöfnun, þegar þessir sömu háu vextir eru að drepa fólk og fyrirtæki. 

Það væri gaman að sjá samantekt yfir hvað 5% vaxtalækkun á fólk og fyrirtæki hefðu gert fyrir samfélagið í heild sl. 5 ár. Ég tel að atvinnuleysi væri sama og ekkert og niðurskurður Ríkisfjármála hefði verið 50% minni, eða nálægt þeirri upphæð sem fjármagnseigendur-og fjármálastofnanir hafa fengið í vaxtagreiðslur frá SÍ á kostnað okkar skattgreiðanda.

Ég get ekki skilið fréttamenn. Þeir grípa hverja "smörklípuna" á eftir annarri og forðast að taka umræðuna  um það sem skiptir máli. Veruleikinn blasir við okkur og enginn fréttamaður tekur slaginn og krefur skýringa og svara.

Maður er farinn að trúa því að það sé borið fé á fréttamenn og fjölmiðla, því ekki trúi ég að heimskan ráði þar ríkjum.

Eggert Guðmundsson, 25.9.2013 kl. 12:07

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Eiginlega er þetta ekki flókið ef þú íhugar orð mín um Friedmanista.

Sem reyndar er nýyrði um nýfrjálshyggjuna og vísar í hagfræðistefnu hinna ofurríku.  Sem var fjármögnuð af örfáum auðmönnum í Bandaríkjunum um og upp úr 1970, og fyrir skrítna tilviljun, en ekki svo skrítna ef þú skoðar fjárframlög hinna ofurríku, varð ráðandi hagspeki níunda og tíunda áratugarins.

Sem kristallast um að gera hina ríku, ofurríku.

Og aldrei þessu vant, ekki á kostnað þeirra sem áttu lítið sem ekki neitt, heldur á kostnað millistéttar, smáatvinnurekanda og svo framvegis.

Þeirra sem áttu, og þar með gátu tapað, tapað í vasa þeirra sem fjármögnuðu Friedmanismann.

 Fridmanisminn ógnar kapítalismanum miklu meir en sósíalismi Stalíns gerði nokkurn tímann.

Í árdaga Friemanismans hét hann frjálshyggja og siðað fólk, kennt við borgarlega íhaldsmennsku, vann bug á honum.

Ég lýsti Friedmanisma hér að ofan Eggert, en þú fattar ekki að flokkur þinn hefur fyrir löngu gefist upp fyrir þessari hugmyndafræði hinna ofurríku.

Og er ógn við þjóðina, í stað þess að kenna sig við von og framtíð.

Þetta hefur ekkert við fréttamenn að gera, heldur fé hinna ofurríku.

Og það sem er rétt er hulið blekkingarhjúp sem heiðarlegt íhaldsfólk nær ekki í gegn.

Það vill vel, en styður stefnu hinna ofurríku.

Stefnu þeirra sem rændu og ræna, stefnu núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins, stefnu  Hels og Heljar sem skóp þetta blogg.

Sem andsvar, sem vilja til að berjast gegn þar til yfir lýkur.

Ég er sammála þér Eggert, en vagn þinn er ekki vagn lífsins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.9.2013 kl. 13:03

11 identicon

@10:

Það er ekki heil brú í þessu svari þínu en takk samt fyrir að reyna að svara mér. Þú ert því miður enn fastur í merkingarlausum orðaleppum. Hvað þýðir t.d. ". . . . kenna sig við von og framtíð"? Er það stefna eða ismi?

Hvernig ógnar friedmanisminn kapítalismanum?

Helgi (IP-tala skráð) 25.9.2013 kl. 20:39

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Helgi minn.

Þér að segja þá hélt ég að þú hétir ekki Eggert.

Ekki það að ég sé að hundsa þig, þú beiðst betri tíma, nánar til tekið næðisins sem ég sá að ég fengi í fyrramálið.

Heyrumst þá.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.9.2013 kl. 21:28

13 Smámynd: Flowell

@ Helgi 09:48

Sæll Helgi.

Friedmanismi snýr að því að einkavæða (flest)öll gæði - markaðurinn skal ráða. Þetta skal gerast jafnvel þó ósamhverfa upplýsingar leiði í mörgum tilfellum til óhagkvæmra lausna án inngripa hins opinbera. Fyrst er það einkavæðing margra fyrirtækja, ekki síst fjármálafyrirtæja (já, ríkisábyrgð fjárfestingabankastarfsemi spilaði rullu í alþjóðlegu fjármálakrísunni en aukið frjálsræði í starfsemi bæði viðskipta- og fjárfestingabanka á mestu sökina – sér í lagi regluleysi afleiðumarkaða en þar bjuggu menn til afleiður úr afleiðum úr afleiðum o.s.frv.). Því næst er það lánsfjárbóla. Þegar bólan springur eru innviðir brotnir niður vegna of hárra skulda samanborið við eignaverð, þeir einkavæddir og í tilfelli Íslands eru náttúrauðlindir hreinlega hirtar eða seldar mjög ódýrt. Þetta hefur verið í gangi í langan tíma hér á landi.

Friedmanismi gerist ekki með að smella fingrum – ferlið tekur ár ef ekki áratugi.

Helsta ástæða þess að við getum ekki haldið uppi okkar heilbrigðiskerfi í dag – sem var byggt upp af auðlindaarði á sínum tíma – er vegna þess að hærra og hærra hlutfall af arði náttúruauðlinda gengur til banka/sérhagsmunaaðila. Frá inngöngu í EES hefur sífellt aukin skuldsetning einkageirans breitt yfir vandann í heilbrigðiskerfinu sem hefur ágerst hægt og rólega með árunum. En nú eru allir einkaaðilar skuldsettir upp fyrir haus – skuldaaukning getur ekki lengur drifið áfram aukningu lífskjara líkt og áður var. Eftir situr yfirskuldsettur einkageiri og sífellt hlutfallslega lægri arður af auðlindum vegna yfirskuldsetningar þeirra fyrirtækja er vinna auðlindirnar okkar. Slíkt á aldrei að gerast.

Friedmanisminn skríður hægt og rólega áfram hér á landi. Fjármagn leitar í hendur færri og færri aðila sem grefur undan sjálfum kapítalismanum. Þetta á sér stað í fjölmörgum vestrænum ríkjum í dag. Stjórnkerfið okkar er ekki í stakk búið til að stöðva þessa þróun – völd fjármálageirans eru of mikil. Hlutirnir gerast hins vegar svo hægt að vel flestir taka ekki eftir breytingunum og sætta sig því við ástandið.

Þú segir að tekjur ríkisins hafi þrefaldast á árunum 1991-2001 (á hvaða mælikvarða - á föstu verðlagi, sem hlutfall af VLF eða annað?) og telur að skattalækkanir segi þar mest til um tekjuaukninguna. Þú lítur framhjá því að á þessum árum var opinber einkavæðingastefna hins opinbera. Afar mörg ríkisfyrirtæki voru seld og tekjur ríkisins jukust mikið vegna þess. Það stenst því ekki að skattabreytingar hafi einar og sér leitt til svona mikillar tekjuaukningar hins opinbera eins og þú heldur fram.

Þú spyrð um hræðileika þess að skera niður úr fjárlögum, m.ö.o. austerity. Empiriskar rannsóknir hafa sýnt fram á að austerity hafi aldrei nokkurn tímann virkað fyrir þjóðir sem eru í efnahagslægð – efnahagslægðin verður verri fyrir vikið. Við erum í efnahagslægð. Austerity virkar ekki fyrir okkur þessa stundina, eins og austerity virkar ekki fyrir eina einustu evruþjóð frá því alþjóðlega fjármálakrísan skall á. Austerity á að nota í uppsveiflu. Vaxtabyrði ríkisins er að miklu leyti komin til vegna Friedmanismans. Það er hægt að skera niður þær vaxtabyrðar fljótt en þá þarf að ganga gegn fjármálavaldinu.

Þú talar um að lækkun SÍ vaxta munu leiða til aukinnar skuldsetningar. Einkageirinn á Íslandi er skuldsettur upp fyrir haus og skuldsetur sig varla meira í bili – allir eru uppteknir við að borga niður skuldir sínar. Þetta má sjá með að skoða útlánatölur bankakerfisins á heimasíðu seðlabankans. Í mars 2009 voru innlend útlán kerfisins 1.901.000 m.kr. Í ágúst 2013 voru útlánin 1.941.555 m.kr. Þetta eru tölur á nafnvirði, raunútlán hafa því lækkað ansi mikið á þessum rúmum fjórum árum. Stöðnun ríkir því hjá fyrirtækjum (þar með atvinnulífi) sem má sjá enn betur með að skoða tölur atvinnuþátttöku (e. employment) á heimasíðu Hagstofunnar. Því þó atvinnuleysi hafi lækkað hefur það ekki skilað sér í aukinni verðmætasköpun. Af hverju? Jú, atvinnuleysi hefur mest lækkað vegna þess að 1) fólk flýr land, 2) fólk fer í nám, 3) fólk dettur út af atvinnuleysisskrá eftir atvinnueysi í 3-4 ár.

Svipað „skuldsetningardæmi“ er QE í Bretlandi og USA. Þar dæla seðlabankar hræódýrum peningum inn í banka og „búast við“ auknum útlánum þeirra til fyrirtæja og einstaklinga sem eiga svo að framleiða ný gæði og koma raunhagkerfinu þannig í gang. En ekkert slíkt gerist – einmitt vegna yfirskuldsetningar einkageirans (líkt og hjá okkur). Og þar eru nafnvextir nálægt núlli og raunvextir neikvæðir. Í staðinn nota bankar peningana til að bjóða upp eignaverð (fasteignir, hlutabréf o.s.frv.) eða leggja peningana aftur inn á reikning seðlabanka á hærri vöxtum – almenningur borgar vaxtamuninn. Nýklassískir og austurrískir hagfræðingar kalla það svo Keynesisma án nokkurrar innistæðu en raunin er að þær aðgerðir eru af nýklassíska skólanum. Ekkert hefur breyst í hagfræðiþankagangi þeirra sem stjórna þrátt fyrir að sá þankagangur hafi komið vestrænum þjóðum í sína verstu krísu síðan Kreppan mikla reið yfir.

Þú spyrð einnig þeirra spurningar af hverju allir séu að drukkna í skuldum. Það er i það minnsta ekki vegna lágvaxtastefnu SÍ fyrir hrun, það er á hreinu. Í stuttu máli er skuldsetning vegna: 1) Ríkisábyrgðar fjárfestingabankastarfsemi, 2) Aukins frjálsræðis í starfsemi viðskipta- og fjárfestingarbanka, sem skapa þannig útlánabólur í þeim tilgangi að verða too big to fail. 3) Nýklassískrar hagfræði sem lítur ekki á ofurskuldsetningu einkageirans sem eitthvað sérstakt vandamál. Og nýklassíska hagfræðin byggist að einhverju leyti upp á „speki“ Friedman um að forsendur skipti ekki máli (e. assumptions don‘t matter) – enda standast engar frumreglur (e. axioms) nýklassískrar hagfræði. Ekki spár þeirra heldur, þau líkön geta einfaldlega ekki spáð fyrir um fjármálakrísur. Það er vegna þess að bankar, peningar og skuldir spila ekki sérsök hlutverk í stærðfræðilegum nýklassískum líkönum.

Þetta er leiðin í átt frá þeirri gerð kapítalisma er hentar (flest)öllum fulltrúum innan hvers hagkerfis.

Oligarchar taka völdin.

Lýðræði deyr.

Þetta er stefna Vesturlanda í dag.

Í myndinni Shock Doctrine má sjá umfjöllun um Friedmanisma, http://www.youtube.com/watch?v=7iW1SHPgUAQ

Þú spyrð um lausnir til að snúa ástandinu við hérna. Í fyrsta lagi þarf stjórnkerfið okkar að virka sem það gerir ekki. Stjórnkerfi okkar er lamað, aðdragandi hruns og eftirmálar þess hafa sýnt fram á það svo um munar. Án stjórnkerfis sem ekki virkar er ekki hægt að skipuleggja framleiðslu með nægilega góðum hætti. Í öðru lagi þarf að bræða snjóhengjuna en hún étur upp hluta af verðmætasköpun okkar. Að því gefnu að stjórnkerfi virki og engin snjóhengja sé fyrir hendi eru aðrir þættir sem myndu snúa ástandinu við og það hratt. Listinn er alls ekki tæmandi og peningamálastefna SÍ er ekki nefnd:

Gagnsæ stjórnsýsla – hún ýtir réttilega undir vantraust daginn í dag. Gagnsæi er t.d. hægt að ná fram með aukinni rafvæðingu hennar sem er afar skammt á veg komin hér á landi, þrátt fyrir eina mestu netvæðingu borgara í heimi hér á landi.

Afskriftir einkaskulda.

Lækkun raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóða.

Umbreyting lífeyriskerfis í gegnumstreymiskerfi.

Skylda lífeyrissjóði til að fjárfesta í innviðum hagkerfis. Þjóðverjar hafa gert slíkt með sérstökum banka – kannski væri það betra en að skylda lífeyrissjóði til þess.

Afnám verðtryggðra neytendalána og umbreyting allra verðtryggðra lána í óverðtryggð samhliða því.

Aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingabanka.

Afnám ríkisábyrgðar á fjárfestingabankastarfsemi.

Reglur sem setja skorður á útlánaþenslu viðskiptabanka en of mikil útlánaþensla hefur oftar en ekki verið undanfari gengislækkunar hér á landi. Og útlánaþensla til tiltekinna geira innan hagkerfis hefur nánast ávallt ráðist af hentugleika stjórnmálafólks hérlendis.

Auðlindasjóður allra auðlinda.

Umbreyting þeirra kerfa sem veita okkur arð af auðlindum. Þau hafa siglt í strand vegna skuldsetningar og almenns óréttlætis.

Finna fleiri kaupendur að orkunni okkar til að hækka verð hennar. Hér væri hægt að nefna gagnaver eða matvælaframleiðslu sem dæmi. Þó grunar mig að sæstrengsverkefnið verði ofan á sem hluti af Friedmanismanum til að skuldsetja Landsvirkjun í botn áður en hún verður einkavædd.

Kveðja. Biðst forláts á lengd svars!

Flowell, 26.9.2013 kl. 00:27

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Hér er linkurinn á Shock Doctrine virkur,.

Ómar Geirsson, 26.9.2013 kl. 10:11

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Flowell. 

Síðustu daga hef ég oft hugsað hvaða gráglettni örlaganna olli því að ég las fyrir algjöra rælni á sömu mínútunni frétt um Hraunvini og ákall frá Landsspítalanum, sem gerði það að verkum að var búinn að henda inn örpistli áður en ég vissi af.  Sem síðan kostaði það ég henti inn fleirum án þess að hafa minnstu löngun til að tjá mig eða leggja á mig þá vinnu sem þurfti til að passa bloggið, og halda því lifandi í heila viku svo ég gæti svalað forvitni minni hvar lestur þess stæði miðað við virk blogg.

Svarið fékk ég í morgun þegar ég kíkti á póstinn áður en ég fór í morgunlabbið með bróður mínum.

Hvílík samantekt á kjarna umræðunnar.

Sagðir eiginlega allt á stuttan og hnitmiðann hátt.  Fróðleiksbrunnur fyrir þá sem vilja setja sig inní efnahagslegar forsendur umræðunnar.

Hafðu þökk fyrir.

Ég reikna með að þetta blogg lifni við í október þegar átakalínur stjórnmálanna liggja fyrir.  Þá bý ég að skrifum þínum og ef aðstæður bjóða uppá, þá mun ég vitna í þau.

Einhvern veginn þarf að fá fólk til að lesa svona skrif, og þá sér til fróðleiks og skilnings.

Ef við ætlum að lifa af sem þjóð þá höfum við ekki lengur efni pólitískri umræðu frasa og bábilja, það þarf að kalla vitið heim úr útlegðinni.

Áður en síðast eyrinn verður rændur.

Enn og aftur takk fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.9.2013 kl. 10:36

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja Helgi, það er oft þannig að bestu molana geymir maður sér til síðast, ekki það að hér sé ekki mikið af góðum molum, en þú hefur þá gáfu að kalla á viðbrögð umræðunnar og uppskeran er oft hið fróðlegasta spjall.

Síðast þegar þú varst hérna þá áttir þú hina skemmtilegustu snerru við Loft Altice og óþolinmæði þín hér að ofan fékk Flowell til að stinga niður penna þannig að maður er ekki samur á eftir.

Maður er fróðari.

Þó þú sjáir ekki brúna í skrifum mínum þá reikna ég með að Eggert geri það, við höfum rætt þessi mál áður.  Við höfum verið samstíga í ICEsave baráttunni og deilt svipuðum skoðunum á óráð AGS og óráðsstjórnina sem sá um að framfylgja þeim.  

Okkur Eggert greinir hinsvegar á um hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé svarið, fyrir því hefur hann fært rök, gegn því hef ég fært rök.

Svona eins og gengur og gerist.

Það er enginn ismi að kenna sig við von og framtíð, það er frekar svona viðhorf eða hvati.  Ef þú lest til dæmis ævisögu Ólafs Thors eftir Matthías, eða Jóns Þorlákssonar eftir Hannes þá tekur þú mjög fljótt eftir að gegnumgangandi þráður þessara manna var uppbygging og framþróun, þjóðinni til heilla.

Til dæmis þá hugsaði Jón uppbyggingu Elliðaárvirkjunar sem framþróun, öllum til handa, jafnt ríkum sem fátækum, en ekki féþúfu þar sem síðasta aurinn mátti kreista út úr fátækum fólki.

Borgarleg gildi, byggð á kristinn siðfræði, var kjölfesta þjóðarinnar og þeirrar framþróunar sem átti sér stað.

Eigum við ekki frekar að kalla þetta lífsviðhorf frekar en isma.

En þetta er ekki hið eiginlega andsvar mitt, aðeins inngangur vegna síðasta innslags þíns. 

Þarf aðeins að sinna barnaláninu, finn mér samt tíma fljótlega og pikka restina inn.

Á meðan, 

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.9.2013 kl. 11:08

17 identicon

@Flowell:

Margt af því sem þú segir er auðvelt að sýna fram á að er einfaldlega rangt. Hvaða náttúruauðlindir hafa verið hirtar eða seldar ódýrt?

Varðandi tekjuaukningu af skattalækkunum jukust tekjur hins opinbera af þessum skattstofni - ég hefði mátt orða þetta skýrar. Ef skattar eru lækkaðir geta fyrirtæki líka frekar ráðið til sín fólk eða hækkað laun þeirra sem fyrir eru. Verulegar skattalækkanir eru bráðnauðsynlegar - bæði á fyrirtæki og einstaklinga. Samhliða þarf að segja upp opinberum starfsmönnum enda stærð hins opinbera slík að ekki verður undir bákninu staðið.

Þú segir sem svo að vaxtabyrði ríkisins sé að miklu leyti komin til vegna Friedmanismans. Þetta er alrangt. Vaxtabyrði ríkisins er auðvitað bara komin til vegna þess að stjórnmálamenn vinna við að múta kjósendum með þeirra eigin fé og vegna þess að hið opinbera er rekið með mínus - þann mínus þarf að brúa með lánum og af lánum þarf að borga vexti. Viltu ekki líka kenna Friedman um eitthvað annað slæmt? Hvað með krabbamein?

Hið opinbera framleiðir ekki verðmæti og velferðarkerfi verður því einungis rekið ef athafnalífið er kröfugt. Kannast þú við hina svokölluðu Laffer-kúrfu? Lækka þarf álögur á atvinnulífið.

Þú segir að empírískar rannsóknir sýni að austerity hafi aldrei virkað í efnahagslægð. Þetta er líka rangt og innatóm fullyrðing. Virkar þá taumlaus eyðsla? Er hún að virka í USA, Frakklandi eða annars staðar? Kynntu þér hvað Harding gerði þegar hann varð forseti 1921, þar sérðu svart á hvítu að niðurskurður virkar og batinn kemur tiltölulega fljótt fram. Meira þarf auðvitað til en skattalækkanir en þær eru besta leiðin ásamt hraustlegum niðurskurði útgjalda hins opinbera. Nokkur bati hefur einmitt orðið í þeim ESB ríkjum þar sem opinberi geirinn hefur verið dreginn saman - öðrum ekki.

Peningaprentunin á Vesturlöndum er ekki í samræmi við austurríska skólann, því fer fjarri og það áttu að vita. Svo sjá það allir sem vilja að öll þessi peningaprentun virkar ekki enda enginn efnahagsbati í gangi - þau störf sem t.d. verða til í USA er mikið til láglaunastörf og (vegna Obamacare) hlutastörf. Peningar skipta mjög hægt um hendur m.a. vegna þess að hið opinbera er stöðugt að skipta sér að og því halda menn að sér höndum. Í dag hérlendis er fokdýrt og flókið að leggja kaðla í sjó til þess að rækta krækling - þökk sé hinu opinbera.

Finnst þér það virkilega vera hlutverk stjórnkerfisins að skipuleggja framleiðslu eins og þú segir? Heldur þú virkilega að gamla Sovétmódelið hafi ekki sannað í áranna rás að það virkar ekki? Viltu s.s. að embættismenn segi fyrirtækjum hvað þau eigi að framleiða? Komon!!?

Þú segir:"Þú spyrð einnig þeirra spurningar af hverju allir séu að drukkna í skuldum. Það er i það minnsta ekki vegna lágvaxtastefnu SÍ fyrir hrun, það er á hreinu. Í stuttu máli er skuldsetning vegna: 1) Ríkisábyrgðar fjárfestingabankastarfsemi, 2) Aukins frjálsræðis í starfsemi viðskipta- og fjárfestingarbanka, sem skapa þannig útlánabólur í þeim tilgangi að verða too big to fail. 3) Nýklassískrar hagfræði sem lítur ekki á ofurskuldsetningu einkageirans sem eitthvað sérstakt vandamál." Þetta er allt rangt.

Heldur þú virkilega að vextir hafi ekki áhrif á sparnað og útlán? Trúir þú þessu virkilega? Til eru empírísk göng sem sýna fram á hið gagnstæða, ég hef séð tölur frá USA sem sýna svart á hvítu fram á að það sem þú segir er rangt. Aukið frjálsræði er alltaf gott fyrir efnahagskerfi en hér ferð þú með fleipur - hið opinbera hérlendis þandist út á árunum fyrir hrun og reglum sem og reglum um fjármálafyrirtæki fjölgaði sem þýðir minna frelsi. Hér er á ferðinni enn ein staðreyndavillan hjá þér. Af hverju heldur þú að einkageirinn hafi orðið skuldsettur? Spila seðlabankar heimsins þar ekkert inn í með vaxtastefnu sinni og peningaprentun?

Öll sú umræða sem ég hef séð varðandi hrunið hér er í besta falli barnaleg. Einhverra hluta vegna dettur engum í hug að fylgja peningaslóðinni. Hvaðan fengu íslensku bankarnir fé til að lána út? Ekki var það frá innlánum.  

Þú nefnir lækkun raunávaxtakröfu lífeyrissjóða. Þá þarf lagabreyting að koma til - það áttu að vita. Hið opinbera skiptir sér í allri visku sinni að fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og má raunar þakka hinu opinbera það að lífeyrissjóðirnir töpuðu verulegum fjármunum í hruninu.

Ég er sammála þér með afskriftir einkaskulda, þar þarf að gera eitthvað en ekki gengur að láta stjórnmálamenn skipta sér að því ferli - það bíður bara upp á spillingu. Hægt væri að lækka tímabundið gjald fyrir gjaldþrotabeiðni (t.d. úr 250 þús í 20 þús) í t.d 3 ár og hafa það þannig að gjaldþrotið virki bara í 2 ár næstu 3 árin. Hreinsa þarf upp skuldir og fjármálastofnanir þurfa að bera ábyrgð á útlánastefnu sinni - hingað til hafa þær að verulegu leyti sloppið við það :-(

Helgi (IP-tala skráð) 26.9.2013 kl. 16:36

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Helgi.

Loksins smá næði og ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið.  Leiði hjá mér umræðu þína við Flowell, þú ert alveg tveggja manna maki og munt örugglega geta rætt við okkur báða ef svo æxlast.

Þú spyrð af hverju niðurskurður ríkisfjármála dýpki kreppur.  Því er fljótsvarað, það tekur peninga út úr hagkerfinu.  Þegar samdráttur mælist, sérstaklega í skuldsettu hagkerfi, þá er barningur margra fyrirtækja að lifa augnablikið af.  Það dregur úr eftirspurn eftir vörum og þjónustu, líklegt er að vanskil aukist sem aftur kemur þeim í vanskil og svo framvegis.  Þetta er óstöðugt kerfi þar sem tiltölulega lítil breyting getur framkallað skriðu gjaldþrota eða varnarviðbragða eins og fyrirtæki dragi úr fjárfestingum, segi upp starfsfólki og svo framvegis. 

Minnkun peninga í umferð gæti framkallað slíkt kreppuferli, og hitt að auka peningamagn í umferð gæti dregið úr líkum á slíku ástandi.

Sagan deilir ekki um þetta.  

Hvort sem ríkið hækkar skatta eða sker niður á fjárlögum til að ná jafnvægi í upphafi kreppu, þá til skamms tíma í það minnsta dregur það úr framtíðartekjum ríkisins.  Sem aftur kallar á aukinn niðurskurð eða skattahækkanir og svo framvegis.

Á þetta er Hudson að benda í grein sinni, að lykilríki Vesturlanda lækki skatta og auki ríkisútgjöld, til að örva eftirspurn, en þau krefjist hið gagnstæða af öðrum ríkjum sem glíma við efnahagserfiðleika, og þá út frá hagsmunum fjármagnseiganda.

Varðandi skatta þá er ljóst að það er ekkert samhengi á milli hárra skattprósenta og hámarks skattheimtu, það er ef tímalína er tekin með í dæmið.  Hámarks skattar er sú skattprósenta sem tryggir hámörkun vaxtarlínunnar.  Og háir skattar draga úr henni, of lágir skattar gera það líka.

Skattlítil samfélög hafa aldrei komist af í samkeppni þjóðanna.

Dæmið sem þú tekur er dálítið drastískt, örugglega jukust tekjur ríkissjóðs af fyrirtækjaskatti við þessa lækkun, en gífurleg peningaprentun bankanna ásamt fölsku innstreymi fjármagns vegna hávaxtastefnu SÍ, skýrir stóra hluta hins meinta hagnaðar sem var á þessu tímabili.  Það var ekki innistæða fyrir honum.

Hins vegar mættu vinstri menn íhuga að háir skattar eru markaðshindrun í þágu stórfyrirtækja, líkt og ofvaxið regluverk.  Stórfyrirtæki hafa efni á skriffinnskunni og þau hafa efni á að ráða sérfræðingana sem sérhæfa sig í skattasmugum, þau eiga líka auðvelt með að útvista framleiðslu sinni og svo framvegis.

Það er engin tilviljun að Fridmanistabáknið kennt við Evrópu er að kaffæra hið smáa, með sköttum og reglubákni, það er ákaflega góð leið til að halda einstaklingnum niðri, drepa sjálfsbjargarhvöt hans og gera hann algjörlega háðan hinum stóru með vinnu og lífsafkomu.

En það er önnur saga.

Þú spyrð hvernig Friedmanisminn er að drepa kapítalismann og þá verð ég að spyrja á móti, sérð þú ekki hvað hefur gerst á Vesturlöndum frá því á miðjum níunda áratugnum???  Alþjóðavæðinguna sem byggist á þrælahaldi, stórskuldug ríki sem hafa útvistað stórum hluta iðnframleiðslu sinnar, síaukna fátækt og misskiptingu, hrörnandi innviði, nýjar átakalínur?!!

Flowell útskýrði fyrir þér skuldatrendið, ætla ekki að bæta þar við.  

Fjármálakreppur fara illa með millistéttina af ýmsum ástæðum, hún dregst saman í slíkum kreppum.  Tapar fjármunum, missir fyrirtækin sín.  Eftir að Friedmanisminn tók yfir á níunda áratugnum, þá hefur tíðni fjármálakreppa aukist, það er það er styttra á milli þeirra, og þær eru alvarlegri.  Hin borgarlega millistétt er grunnstétt kapítalísks þjóðfélags og allt sem veikir hana, veikir hið borgarlega samfélag.

Fjármálakreppur sjúga einnig fé úr raunhagkerfinu til að rétta af pappírshagkerfið.

Afbrigðileg hegðun ýmiskonar, sem reyndar er alltaf til staðar, er upphafin í hugmyndafræði Friedmanismans.  Til dæmis yfirtaka fyrirtækja til að rúa þau inn að skinni, kallaðist rán í gamla daga, skuldsett yfirtaka sem sýgur fé úr rekstri til að borga skuldir eiganda, fáránlegar arðsemiskröfur, langt um fram langtímavöxt raunhagkerfisins og sífelld tilhneiging til að skjóta fé undan á löglegan hátt í skattaskjól ýmiskonar.

Þrælahald, félagsleg undirboð, umhverfisníð, eru síðan viðtekin norm alþjóðavæðingarinnar.  Réttlætt með lágmörkun kostnaðar, hámörkun arðsemi, en brýtur í raun niður atvinnuvegi Vesturlanda.  Samkeppnin er á röngum forsendum. 

Lækkun raunlauna, skert félagsleg réttindi, þróun sem enginn endir sést á, ýtir undir misskiptingu og skapar ólgu og átök.

Ólga og átök er kostnaður fyrir efnahagslífið.

Skuldsetningin, fjármálakreppur, niðurbrot framleiðslugreina, misskipting, þjóðfélagsólga, er niðurstaðan eftir 20 ára Friedmanisma.

En ekki það versta.

Hugmyndafræði hennar, að náunginn megi éta það sem úti frýs, bara að þú græðir, er hugmyndafræði sem mun leysa upp límið sem heldur samfélögum okkar saman.  Velferðarkerfi nútímans er siðferðisleg lausn borgarsamfélagsins á átakaferli sem stóð yfir í um 200 ár, og kennt er við stéttarátök og stéttastríð.

Friedmanisminn vill eyða þessu velferðarkerfi, og hefur unnið að þessu markmiði sínu hægt og hljótt.  Með misgóðum árangri, en samt allsstaðar með einhverjum árangri.  

Á næstu árum verður uppgjör við þessa stefnu, hvort hún takist eða takist ekki.

Velmegun Vesturlanda hófst þegar átak var gert í mennta og heilbrigðismálum almennings.  Verði þessi þjónusta aftur stéttskipt, þá er samfélagssáttin úr sögunni, stéttarátök brjótast út.  

Stjórnmálaflokkar sem beita sér gegn borgarlegum gildum munu fá aukið vægi. Sama gildir um þá sem boða ofbeldi, bæði innan samfélagsins, sem og á hendur öðrum þjóðum.

Það verður vinsælt til dæmis að boða afhausun auðmanna, og núna þarf ekki að finna fallexina upp, það var gert í upphafi síðustu stéttarátaka.

Hvað sem verður, þá verður það ekkert gott Helgi.

Fridmanisminn er ógn við siðmenninguna, alveg eins og nasisminn eða kommúnisminn.

Hann á ekkert skylt við kapítalisma, hann á ekkert skylt við frjálslyndi.

Hann er aðeins aðferðarfræði hinnar óheftu aðsöfnunar á kostnað hins frjálsa manns.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.9.2013 kl. 20:29

19 identicon

@18:

Sæll. Innslag Flowell var málefnalegt en samt merkilegt að aðili sem virðist vera ágætlega að sér skuli ekki hafa staðreyndir á hreinu.

Það er hræðilegt hve margir hafa látið blekkja sig. Besti mælikvarðinn á það sem menn segja er raunveruleikinn. Það sem þið Flowell segið fellur á því prófi. Flowell meinar án efa vel en er einn af mörgum sem hefur látið blekkjast af stjórnmálamönnum og wanabe sérfræðingum. Ég viðurkenni fúslega að ég var í þessum hóp lengi vel - þar til ég fékk nóg af þeim mótsögnum sem fylgdu minni gömlu afstöðu. Ég fór að lesa mér til og sé ekki eftir þeim tíma.

Þú segir að skattlítil samfélög hafa aldrei komist af í samkeppni þjóðanna. Þetta er alrangt - skattar hafa ekki alltaf verið svona háir. Skattar í Kína eru lægri en á Vesturlöndum. Samkvæmt þínum orðum eru Kínverjar þá á leiðinni í duftið. Um aldamótin 1900 t.d. minnir mig að hið opinbera í USA hafi tekið til sín um 5% þjóðarframleiðslunnar en í dag er þetta hlutfall í kringum 40% eða svo. Hver er svo raunveruleg staða okkar ágætu vina í USA núna? Fátækt er mikil og hefur vaxið þar undir Obama. Við hér erum að drukkna í sköttum og opinberri afskiptasemi enda telur hið opinbera að það eigi að hjálpa okkur við að ákveða hvað við eigum að borða. Þú heldur ekki uppi velferðarkerfi nema einkageirinn sé öflugur og geti með góðu móti greitt þá skatta sem þarf til að velferðarkerfið geti staðið undir nafni. Er því til að dreifa í dag?

Kynntu þér Laffer kúrfuna svokölluðu - þegar menn skilja hana hafa þeir náð mikilsverðum skilningi á efnahagsmálum.

Í annarri efnisgrein þinni rökstyður þú það sem þú segir - mál til komið. Ef ríkisútgjöld hér yrðu skorin niður um 50-70% á næstu 2-4 árum, eins og ég vild, yrði tímabundinn samdráttur. Leiðréttingin yrði sársaukafull enda hefur hagkerfið verið vanið við útþaninn opinberan geira. Ríkið eyðir minni peningum og opinberir starfsmenn missa kaupmátt sinn og verða atvinnulausir - það sem þú segir er rétt. Sú kreppa yrði tímabundin. Samhliða lækkun skatta og fækkun íþyngjandi reglna myndi einkageirinn geta bætt við sig starfsmönnum og myndu þeir loksins fara að framleiða eitthvað gagnlegt. Þungu oki yrði létt af einkageiranum. Um leið og hið opinbera tekur minna af einkageiranum getur hann ráðið fleiri og hækkað laun. Hvaða verðmæti framleiða t.d. þingmenn, ráðherrar, ráðuneytisblækurnar og öll þessi hjörð aðstoðarmanna? Engin!! Hafðu í huga að hið opinbera framleiðir ekki verðmæti - alltof margir skilja ekki þetta mikilvæga atriði.

Hin leiðin - sú sem mér sýnist þú mæla fyrir er að gera ekkert eða auka eyðslu hins opinbera. Gaman verður að sjá á komandi fjárlögum hve mikið fer í að greiða af skuldum okkar - giska á að það sé í kringum 100 milljarðar. Sú tala lækkar ekki nema verulega sé dregið saman í opinberum rekstri. Vandinn er að hið opinbera hefur svakalega tilhneigingu til að þenjast út - Wagner lögmálið svokallaða. Sú útþensla er á kostnað einkageirans enda verður ekkert starf til hjá hinu opinbera nema á kostnað starfs í einkageiranum.

Telur þú að hin svokallaða "stimulus" leið í USA hafi virkað? Þar fóru stjórnvöld þá leið sem mér sýnist þið Flowell mæla með. Um þúsund milljörðum dollara var varið í að örva hagkerfið - hið opinbera kom inn í efnahagslífið með hvelli. Hver er árangurinn? Hverjar eru afleiðingarnar?

Heldur þú að Friedman hafi mælt með því að hið opinbera þendist út og skipti sér að stöðugt fleiri sviðum lífsins? Ég get ekki sagt að ég sé fylgismaður hans en mér finnst óþarfi að gera honum upp skoðanir.  Passaðu líka að rugla ekki saman kapítalisma og pilsfaldakapítalisma.

Helgi (IP-tala skráð) 27.9.2013 kl. 06:30

20 Smámynd: Ómar Geirsson

Helgi, Flowell fer ekki rangt með, hann á svar við öllum þeim atriðum sem þú minnist á í andmælum þínum.  En ég ætla að láta hann um þau ef hann kýs svo.

Víkjum þá fyrst að Laffer kúrfunni.

Það liggja engin vísindi að baki henni, hún styðst ekki við tölfræðilegar rannsóknir.  Er eiginlega hálfgert grín hjá Laffer, þegar hann var að útskýra ákveðið orsakasamhengi  sem hann taldi augljóst, og gerði það þá þennan myndræna hátt. 

Hún stangast algjörlega á við raunveruleikann því hún er svo mikil einföldun.  Til dæmis var skattlagning Inka veldisins nálægt 100% og það kerfi virkaði alveg ágætlega.  Fólk ákvað ekki að deyja til að mótmæla sköttum.  Eins eru til samfélög þar sem fólk hefur enga þolinmæði gagnvart sköttum, tekur hatt sinn og staf, og heldur lengra inní frumskóginn.

 laffer

Og hún er túlkuð á mismunandi hátt, hér að ofan er til dæmis hún sýnd með 70% skattaþolmörkum, og að baki liggja tölfræðilegar rannsóknir.  

Þú veist Helgi að skattar eru ekki 70% á Vesturlöndum  og samkvæmt þessum má hækka þá ennþá meir.  Það er ef Laffer er heimildin.

En ég er bæði sammála þér og Laffer, tel að þetta samhengi sé til staðar og inní kúrfuna verði að bæta tímavíddinni.  Minntist á það hér að ofan.  

Skattalækkun er örvandi aðgerð, og í anda Keyne.  Um hana gildir það sama og aðrar örvandi aðgerðir, þær bera mismikinn árangur eftir beitingu þeirra.  Lækkun skatta, sem er líkleg til að fara í skuldauppgreiðslu, dýpkar kreppu, því hún dregur úr peningamagni úr umferð.  Skattalækkun sem er líkleg til að auka athafnasemi, vinnur gegn kreppu.  

Þetta orsakasamhengi örvunar var Flowell að reyna að útskýra fyrir þér Helgi þegar hann benti þér á að meint örvun í USA væri í fæstum tilvikum örvun í anda Keyne, sbr "Nýklassískir og austurrískir hagfræðingar kalla það svo Keynesisma án nokkurrar innistæðu en raunin er að þær aðgerðir eru af nýklassíska skólanum".  Stærsti hluti þeirra fór í að vernda fjármálakerfið og viðhalda vitleysunni þar.  

En þær komu í veg fyrir hrun Bandaríkjanna, þó vandanum (uppgjörinu við Friedmanismann) hafi verið slegið á frest.  Og það var ríkisstjórn George Bush sem mótaði þessar aðgerðir, Obama tók aðeins við keflinu og hefur í engu breytt þeirri stefnu sem var þegar mótuð.  

Hins vegar hafa Keynískir hagfræðingar bent á ágallana og lagt til leiðir sem væru mun árangursríkari.  Stiglitz nennti meir að segja að láta þýða grein yfir á íslensku þar sem hann útskýrði tillögur sínar.

Keynistar, og þar á meðal ég, deilum skoðunum þínum á skaðsemi reglubáknsins.  Ef útí það er farið þá kemst ekki slefann á milli okkar og ykkar nýfrjálshyggjumanna um mikilvægi þess að efnahagslífið losni við þann klafa sem reglubáknið er.  Sósíalistar og Friedmanistar deila hins vegar áhuga á slíku bákni, þó forsendur þeirra séu ólíkar.  Ég minnti þig á að reglubákn er markaðshindrun sem gagnast stórfyrirtækjum, dregur úr samkeppni og stuðlar að fákeppni.

Hugsaðu þig aðeins betur um þegar dregur fram Kína til vitnis um árangur lágskatta, svona í ljósi þess að kínverska samfélagið er að hrynja innan frá vegna veikra innviða.

Meginmeinloka þín Helgi snýr síðan að gangverki efnahagslífsins. Þú áttar þig ekki á hvað gerist við skyndilega peningaþurrð.  Á þeim tímapunkti sem kreppa ríður yfir, þá skiptir það engu fyrir framleiðendur vöru og þjónustu, hvaðan peningarnir koma sem eru í umferð, bara að þeir séu í umferð. Að það sé eftirspurn eftir vöru þeirra og þjónustu.  

Þegar dregur úr eftirspurn, samfara fjárhagserfiðleikum, til dæmis vegna mikillar skuldsetningar, skyndilegrar lækkun á gangverði framleiðslu þeirra, og svo framvegis, þá þarf að bregðast við strax.  Að hindra að það myndi vítahringur gjaldþrota og minnkandi eftirspurnar.

Það er vel hugsanlegt að skattar og regluverk haldi aftur af efnahagslífinu, og breyting þar yrði því dæmi um örvandi aðgerð.  

En það reddar ekki núinu, fyrirtæki sem getur ekki greitt reikninga sína vegna þess að það er engin eftirspurn eftir vörum þess, það ræður ekki fólk í vinnu þó skattir lækki.  Það fer á hausinn.

Atvinnulaust fólk fer ekki út í búð og kaupir.

Auðvita er hægt að láta allt fara í kalda kol og treysta því að almenningur rísi ekki upp, en þegar Keynisminn kom til, þá var það einmitt vandamálið.  Keynisminn var svar við kommúnismavæðingu heimsins.

Hann bjargaði kapítalismanum.

Samdráttarkreppur geta staðið yfir í áratugi, jafnvel aldir.  

Kreppa sem er leyst með Keynisma stendur yfir í einhver misseri, og svo búið.

Svo einfalt er það.

Hinsvegar þarf ekki Keynisma ef aðrir þættir geta viðhaldið peningamagni í umferð.  Ef möguleiki á útflutningi er til staðar, það er eftirspurn í öðrum hagkerfum, þá kemur niðurskurður ríkisútgjalda ekki að sök.  Eins má nefna erlenda fjárfestingu, það er ef ríki kjósa að vera ósjálfstæðar nýlendur, vissulega auka þær peningamagn í umferð, en þær gera ríki aldrei auðug til lengri tíma litið, vegna þess að arðurinn fer úr landi.

Dæmin sem þú hefur í huga falla í þessa flokka.  Þau eru sértæk, og byggjast á því að eitthvað utanaðkomandi komi þjóðum til bjargar.  

Og að lokum, Friedmanismi er pilsfaldakapítalismi af verstu gerð.  

Forsenda hans er yfirtaka ríkisvaldsins, enda kom sú yfirtaka fyrst.

Síðan kom hnignun Vesturlanda, og glötunin er yfirvofandi, ef við náum ekki að losna við sníkjudýr sýndarviðskiptanna út úr samfélögum okkar.

Auðsöfnun fárra gengur aldrei upp.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.9.2013 kl. 15:24

21 Smámynd: Flowell

@Helgi 16:36

Sæll Helgi.

Þetta verður síðasta svar mitt til þín á þessum þræði, það er ekki hægt að eiga við menn sem byggja málflutning sinn upp með staðreynda- og rökvillum auk þess sem þú leggur mér orð í munn.

Þú spyrð um hvaða náttúruauðlindir hafi verið hirtar eða seldar ódýrt. Þetta á bæði við um fiskinn og orkuna okkar, ætla ekki að fara nánar í það hér því það verður aldrei hægt að komast að rafrænni niðurstöðu - sagan segir þó sitt um þessi mál. Ef réttlæti væri í vinnslu náttúruauðlinda okkar þá hefði ekki ríkt ósætti um þau mál svo áratugum skiptir. Það er innanmein þjóðfélags okkar að ná ekki sátt um þessi mál og það heldur aftur af aukningu lífskjara heildarinnar svo um munar.

Þú heldur upppi ágæti skattalækkana og berð fyrir þig Laffer kúrfuna. Enginn hagfræðingur getur með góðu móti sagt hvar þjóðfélag er statt á þeirri kúrfu á hverjum tíma og hvar þjóð er stödd á þeirri kúrfu getur breyst mjög hratt á afar skömmum tíma, janvel án einhverra skattabreytinga heldur bara með venjulegri þjóðfélagsþróun. Að nefna Laffer kúrfu eyðileggur alltaf alla skattaumræðu samstundis. Stundum er gott að hækka skatta, stundum er gott að lækka skatta. Sú skoðun að skattalækkanir skili alltaf meiri verðmætum í þjóðarbúið á ekki heima í hinum raunverulega heimi líkt og Ómar nefnir réttilega. Ég er sammála þér með lækkun (einhverra) skatta þessa stundina en ósammála austerity í heild sinni á þessum tíma efnahagslægðar. Slíkt gerir efnahagslægð verri þegar vöntun er á eftispurn eftir gæðum vegna yfirskuldsetningar einkageirans. Yfirþyrmandi meirihluti empiriskra rannsókna sýna fram á að austerity virkar ekki í efnahagslægðum.

Þú segir að ég hafi rangt fyrir mér að vaxtabyrði sé tilkomin vegna Friedmanisma. Ég skil satt að segja ekki rökfærslu þína með múturnar en ég skal endurtaka mín rök. Vaxtabyrði ríkisins er tilkomin vegna hruns fjármálakerfis okkar. Stækkun og ósjálfbærni fjármálakerfis okkar, sem hlaut að enda með hruni, var helst út af auknu frjálsræði í starfsemi fjárfestinga- og viðskiptabanka auk þess sem hið opinbera spilaði sitt hlutverk. Þegar rætt er um Friedmanisma þarf ekki endilega að skilja að hlutverk hins opinbera og einkageirans við eyðileggingu heils kerfis – nær væri að nefna það í sömu andrá.

„Hið opinbera framleiðir ekki verðmæti og velferðarkerfi verður því einungis rekið ef athafnalífið er kröfugt.“ Sannleikurinn er sá að sum einkafyrirtæki (athafnalíf eins og þú orðar það) sem vaxið hafa með miklum hraða í gegnum tíðina hefðu ekki getað það án rannsókna og þróunarstarfs (R&D) hins opinbera. Hið opinbera leggur oft í sumar tegundir fjárfestinga sem einkageiranum myndi ekki detta í hug að gera vegna áhættu. Hið opinbera spilar því á tíðum mikilvæga rullu í þróun nýrra gæða og á stóran þátt í að ýta athafnalífi einkageirans áfram með meiri hraða og betri hætti en einkageirinn myndi gera einn og óstuddur.

„Kynntu þér hvað Harding gerði þegar hann varð forseti 1921“ Það er ástæða fyrir þvi að áratugurinn kallast Roaring twenties. Sá áratugur endaði hins vegar með Kreppunni miklu vegna bóla í efnahagslífinu og taumlausri neyslu, eins og þú orðaðir það. Sama gildir um bólurnar sem leiddu til alþjóðlega fjármálahruns Vesturlanda 2007-8. Samt snýrðu hlutunum við og spyrð mig hvort ég vilji taumlausa neyslu.

„Nokkur bati hefur einmitt orðið í þeim ESB ríkjum þar sem opinberi geirinn hefur verið dreginn saman - öðrum ekki.“ Hvaða ESB ríki eru það og hvaða bati er það? Í þeim evrulöndum sem hafa orðið fyrir fjármálaáföllum og lent í austerity í kjölfarið – CIPIGS; Kýpur, Írland, Portúgal, Ítalía, Grikkland og Spánn – hefur öllum vegnað verr vegna beinna áhrifa austerity. Í um það bil fimm ár hafa stjórnendur (undir dáleiðslu nýklassískrar hagfræði) svo sagt að sjálfstraust á efnahagslífi þeirra muni aukast aftur ef bara verði skorið meira niður. Sjálfstraustið hefur ekki komið enn heldur hafa hlutir versnað svo um munar. Reglulega fær þessi rispaða plata þó spilun. Austerity á evrusvæðinu er svo skilyrði fyrir auknum lánveitingum en lánin fara svo í zombie bankakerfi þar – svona er Friedmanisminn öfugsnúinn.

„Peningaprentunin á Vesturlöndum er ekki í samræmi við austurríska skólann, því fer fjarri og það áttu að vita.“ Þetta sagði ég aldrei.

„Finnst þér það virkilega vera hlutverk stjórnkerfisins að skipuleggja framleiðslu eins og þú segir?“ Þetta sagði ég aldrei og samlíkingin við Sovét er hreint út sagt aumkunarverð tilraun. Ég sagði að ónýtt stjórnkerfi leiddi til þess að ekki væri hægt að skipuleggja framleiðslu með nægilega góðum hætti og þá hafði ég m.a.s. skipulagningu einkageirans í huga. Einkageirinn leggur ekki í fjárfestingar og framleiðslu ef stanslaus óvissa/vanhæfni hins opinbera er fyrir hendi. Hversu mörg tækifæri höfum við t.a.m. haft til að selja okkar orku til annarra einkaaðila en álfyrirtækja í gegnum tíðina – brjótast þannig úr viðjum einkeypis til að fá hærra verð fyrir náttúruauðlindina okkar? Tækifærin hafa verið nokkur en hafa ávallt strandað á stjórnkerfinu.

„Heldur þú virkilega að vextir hafi ekki áhrif á sparnað og útlán?“ Þú misskilur mig hér, hvað fær þig til að halda að ég trúi að vextir hafi ekki áhrif á sparnað og útlán? Það kemur hvergi fram hjá mér. Atriði 1), 2) og 3) sem ég nefndi örlítið ofar hafa öll áhrif á vexti, sparnað og útlán.

„Aukið frjálsræði er alltaf gott fyrir efnahagskerfi.“ Eins og hefur komið fram hjá mér áður er þetta rangt hjá þér vegna markaðsbresta sem geta komið upp m.a. vegna ósamhverfra upplýsinga. Þetta er óumdeilt innan hagfræðinnar og ósamhverfa upplýsingar eiga sérstaklega við fjármálageirann. Meira að segja voru hörðustu laissez-faire hagfræðingar um miðja síðustu öld sammála um óstöðugleika fjármálageirans, þar á meðal Milton Friedman. Halda einhverjir því virkilega enn fram að aukið frjálsræði fjármálamarkaða á grunni of mikilla ríkisábyrgða hafi ekki átt sér stað sl. áratugi sem leiddi svo með beinum hætti til alþjóðlega fjármálahrunsins? Eðli fjármála, sér í lagi banka, er óstöðugleiki. Það er vegna þess að fjármálakerfið hefur ávallt tilhneigingu til að byggja upp meiri og meiri vogun vegna leitar að auknum hagnaði, sjúga þannig hlutfallslega meira og meira fjármagn úr raunhagerfinu vegna hærri og hærri vaxtagreiðslna - sem heldur svo aftur af vexti raunhagkerfis. Þess vegna ber að hemja fjármálageirann.

„Af hverju heldur þú að einkageirinn hafi orðið skuldsettur? Spila seðlabankar heimsins þar ekkert inn í með vaxtastefnu sinni og peningaprentun?“ Ef þú telur að peningaprentun sé helst tilkomin frá seðlabönkum hefurðu rangt fyrir þér. Langstærsta hlutfall peninga í umferð (undir venjulegum kringumstæðum – þ.e. án QE dagsins í dag) er tilkomið vegna þess að (einka)bankar skapa peninga og skudir samtímis við lánveitingar með tvíhliða bókhaldi. Yfirskuldsetningin er tilkomin vegna þess að útlánaþensla einkabanka (nei, ég er ekki á móti einkabönkum, síður en svo) skapaði of mikla peninga (og skuldir) í umferð sbr. við þau raunverulegu gæði sem til staðar eru í hagkerfinu. Útlánaþenslan beindist í mestu á eignamarkaði því aðilar sáu tækifæri til að græða á verðhækkun eigna (e. capital gain). Vextir seðlabanka skipta að sjálfsögðu máli en Keynes hélt því fram að þeir skiptu minna máli en almennt sjálfstraust á viðskiptalífi. Enginn stjórnandi leggur út í fjárfestingar ef framtíðarhorfur efnahagslífs eru það slæmar að fjárfestingin gefur ekki nægilegan arð af sér – óháð vaxtastigi. Og nú eru framtíðarhorfur vestrænna hagkerfa slæmar vegna yfirskuldsetningar einkageirans – lágt og jafnvel neikvætt raunvaxtastig hefur lítið sem ekkert að segja. Skuldsetning einkageirans er ein mikilvægasta breytan í þjóðhagfræði en nýklassískir hagfræðingar leiða hana hjá sér.

„Öll sú umræða sem ég hef séð varðandi hrunið hér er í besta falli barnaleg. Einhverra hluta vegna dettur engum í hug að fylgja peningaslóðinni.“ Ástæðan fyrir því að menn eltast ekki við peningaslóðina er að sú slóð sýnir fram á stórfellda glæpi – bæði einkageirans og hins opinbera.

Kveðja.

Flowell, 27.9.2013 kl. 20:40

22 Smámynd: Flowell

@Ómar 15:24

Sæll Ómar.

„Auðvita er hægt að láta allt fara í kalda kol og treysta því að almenningur rísi ekki upp, en þegar Keynisminn kom til, þá var það einmitt vandamálið. Keynisminn var svar við kommúnismavæðingu heimsins.

Hann bjargaði kapítalismanum.“

Mikið rétt.

Stuttu eftir fæddist New-Keyensísk hagfræði, sem ríkir daginn í dag og leiddi okkur í fjármálakrísu. En hún er af nýklassíska skólanum. Það eina Keynesíska við þá hagfræði er tregða launa (e. wage rigidity) til breytinga. Allar aðrar forsendur eru af nýklassíska skólanum, þar á meðal frumforsendurnar.

„Og að lokum, Friedmanismi er pilsfaldakapítalismi af verstu gerð.

Forsenda hans er yfirtaka ríkisvaldsins, enda kom sú yfirtaka fyrst.“

Þú nærð alltaf að útskýra hlutina með mjög einföldum og skýrum hætti, Ómar. Hafðu þakkir fyrir það.

Það sem þú segir er mikið rétt og gríðarlega mikilvægt að hafa í huga og fá almennilega umræðu upp á borðið ef Framsókn ætlar sér að taka upp heildarforðakerfi á kjörtímabilinu.

Algjört vald hins opinbera yfir peningum hræðir mig. Án þess að vera viss, enn sem komið er, getur það verið mesti pilsfaldurinn í sögu pilsfaldakapítalisma.

Stofnendur (e. founding fathers) Chicago skólans um miðja síðustu öld, aðilar eins og Henry Simmons, Milton Friedman og Irving Fisher, voru miklir Laissez-faire hagfræðingar en alls ekki þegar kom að fjármálamörkuðum.

Fyrir stuttu horfði ég á fyrirlestur sem ber heitið Private debt and fiat money: Lessons from the crisis and from some old economic texts (youtube tengill neðst). Fjallaði hann að hluta til um afstöðu þessara Chicago hagfræðinga til fjármálakerfis. Eftirfarandi skoðun þeirra tók ég úr fyrirlestrinum:

„[T]hose economists came up with two really quite radical propositions in their writings in 30‘s and 40‘s. The first was that finance was subject to such potential instability, and that in particular banking was subject to such potential instability, that not only should we regulate banks tightly but that we should regulate banks out of existence. They didn't believe that fractional reserve banks should exist. They believed that we had made a major elementary mistake in allowing banks to create private money and credit, that the creation of money was an essential monopoly function of the state and therefore they argued for 100% reserve banks in which the monetary base is the money supply.“

Þessir hagfræðingar vildu sem sagt frjálsa markaði fyrir öll gæði NEMA peninga, þar sem þeir vildu akkúrat hið öfuga.

Eitthvað segir mér að yfirtaka ríkisvalds sé auðveldari ef peningavaldið er algjörlega í höndum hins opinbera.

Tilvitnun mín frá youtube myndbandinu byrjar á 18:40. Tengill hér, http://www.youtube.com/watch?v=ZhrY_coLK_k

Hér má sjá grein Gunnars Tómassonar hagfræðings um betra peningakerfi, http://blog.pressan.is/gunnart/2013/04/01/hugmyndir-um-nytt-peningakerfi/

Biðst forláts á að ekki er hægt að klikka beint á tenglana mína, ég kann hreinleag ekki að „virkja“ þá. Hvernig gerir maður það?

Kveðja.

Flowell, 27.9.2013 kl. 22:47

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Mig minnir Flowell að slíkt gerist sjálfkrafa í Explorer vafranum, minnir segi ég því hann hrundi hjá fyrir mörgum árum eftir vírusárás og ég nota því Firefoxinn.  Og mér hefur aldrei tekist þetta í honum.

Trixið sem ég nota er að kópera linkana og peista þá í tölvupóstskeyti.  Þaðan peista ég þá í athugasemdarkerfið.  Það er ekkert must að nota póstforritið, Word eða Exel ættu að gera sama gagn.  Aðalatriðið er að link staðsetningarnar verði bláar þar sem þú peistar þær fyrst.

Annars vil ég enn og aftur þakka þér fyrir þann fróðleik sem þú hefur miðlað inná þennan þráð.  Það leynir sér ekki að þú hefur þekkingu á þessu sviði og þú kannt að láta hana flæða þannig að aðrir skilji.  Reikna reyndar ekki með að Helgi breyti afstöðu sinni en hann ætti að vita hvar þið eruð ósammála og af hverju.

Ég hef fagnað umræðunni um nýtt peningakerfi því ég tel hana vekja athygli á meginmeinsemd vestrænna hagkerfa, en það er vald sýndarviðskipta yfir raunhagkerfinu.  Mattador hættir að vera fyndið þegar útvaldir geta nýtt peninga þaðan til að kaupa upp raunverðmæti.  Bæði skekkja þeir alla verðmyndun en fyrst og síðast þá eru þetta hálfvitar upp til hópa sem ættu aldrei að fá að koma nálægt rekstri fyrirtækja.  Gjaldfelling vits og þekkingar eru líklegast alvarlegasta hliðarverkunin  af innreið Friedmanista inní okkar heim, nærtækasta dæmið er þegar fjármálalegur yfirmaður skipaði tæknilegum yfirmanni að slökkva á öryggiskerfinu á borpalli BP því þetta blessaða öryggiskerfi var alltaf að stöðva framleiðsluna og þar með tekjuflæðið af olíuvinnslunni.

Fósturvísar í jakkafötum kallar frændi minn þessa apaketti eftir kynni af þeim víða í kerfinu, jafnt hinu opinbera sem einka.

Jæja, þarna gleymdi ég mér en ég tel að allt sem lemur á núverandi fjármálakerfi vera til góða, og umræðan gæti hugsanlega skilað einhverjum bótum, og jafnvel grunnbreytingu sem virkar.  

Það má ekki hlaupa til því það er svo algengt að menn hlaupa á lausn sem í sjálfu sér leysir vandann sem við er að glíma en býr um leið til annan vanda, bæði fyrirséðan sem ófyrirséðan.  Eldhættu á bensínstöðvum er hægt að lágmarka með því að banna bensínstöðvum að selja bensín svo dæmi sé tekið.

Ég get hinsvegar ekki ímyndað mér að nokkur stjórnmálaflokkur hafi þann styrk sem þarf til að breyta bankakerfinu í grundvallaratriðum, og hef því alltaf litið á þessa hugmynd Frosta út frá því sjónarmiði.

Algjört vald er alltaf hættulegt.

Í náttúrunni eru alltaf ólíkir kraftar sem togast á og mynda jafnvægi, það sama á að gilda um okkar mananna verk.  Hvorki ríki eða einkageiri eiga að hafa alræðisvald.  Ólíkir hagsmunir, mismunandi hagsmunahópar, ólík sjónarmið, togstreitan sem leiðir til jafnvægis er það sem skilar skástu niðurstöðunni á hverjum tíma.

Hayek var ekki svo vitlaus að hann vissi ekki að atlaga hans að ríkisvaldinu skilaði ekki auknu frelsi, heldur auknum völdum og yfirráðum örfárra.

En hann fékk að borða og honum var hampað.

Spurningin er hinsvegar afhverju hinir ofurríku héldu í gagnsókn sinni sem hófst uppúr 1970, að þeir gætu lagt undir sig heiminn án þess að það hefði sömu afleiðingar og síðast þegar fólk losaði sig við þá.

Það er spurningin sem ég hef mikið velt fyrir mér síðustu misserin.

Takk fyrir spjallið Flowell.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.9.2013 kl. 09:09

25 identicon

@21:

Þú ferð því miður með rangt mál og skautar alveg framhjá þínum staðreyndavillum. Í Evrópu hefur ekkert raunverulegt austerity átt sér stað þó Krugman segi svo vera. Jafnvel þó svo væri tekur það tíma fyrir efnahagslífið að rétta úr kútnum. Þegar hið opinbera sogar til sín sífellt stærri hluta verðmætasköpunar endar það alltaf illa, bara spurning hvenær. Það munum við sjá innan fárra ára - bankakreppan verður sem hurðarsprengja. Þá verða Keynsistarnir að líta í eigin barm hvort sem það líkar betur eða verra og éta ofan í sig sín fræði. Margir munu ekki hafa til þess hugrekki.

Hið opinbera hefur ekkert með skipulagningu einkageirans að gera - ekkert. Viltu þá ekki líka að hið opinbera reki einkafyrirtæki? Það hefur verið prófað. Tilraunir hins opinbera til að auka hagsæld enda nánast allar illa. Hrunið hér og erlendis varð þrátt fyrir mikið opinbert eftirlit og þykkan stabla af reglum enda þandist hið opinbera út sem og reglum fjölgaði á árunum fyrir hrun. Hrunið varð vegna inngripa hins opinbera og afskipta. Kynntu þér Community reinvestment act og seinni tíma breytingar á því. Hrunið hefur ekkert með græðgi bankamanna að gera. Útlánabóla verður ekki til nema nægt fé sé til - fé sem seðlabankar heimsins sjá um að útvega og viðskiptabankar um að lána enda græða þeir á núverandi fyrirkomulagi. Friedman vildi láta leggja seðlabankann þarlendis niður. Annars skil ég ekki þennan einbeitta vilja til að hengja Friedman þegar gert er þvert á það sem hann vildi?

Hvaða rannsóknar og þróunarstarf hefur hið opinbera lagt í? Örgjörvan? Tölvuna?  Smárann? Stýrikerfi? Helst má tiltaka vopnaiðnaðinn. Opinber fyrirtæki á samkeppnismarkaði standa sig undantekingarlaust illa.

Af hverju i ósköpunum er stundum gott að hækka skatta? Hvers vegna á hið opinbera að taka fé af einkaaðilum og útdeila því? Vita stjórnmálamenn s.s. betur en einstaklingar og fyrirtæki hvað á að gera við peninga? Berðu ekkert traust til sjálfs þíns og annarra? Við endum auðvitað á því að borga fyrir þeirra mistök en ekki þegar einkafyrirtæki fer á hausinn. Pilsfaldakapítalismi hefur komið óorði á kapítalismann. Þú kannski vilt borga fyrir mistök íslenskra stjórnmálamanna en það vil ég ekki.

Kreppan á fjórða áratugnum í USA kom til vegna aukinna opinberra afskipta. 2 mánuðum eftir hrunið í okt 1929 náði atvinnuleysi hámarki, um 9%. Næstu 6 mánuðina lækkaði það óreglulega og var um 6% í júní 1930. Þetta er gott dæmi um að það að efnahagslífið jafnar sig ef það fær til þess frið. Þá komu svo til opinber inngrip og atvinnuleysi var að meðaltali 17% allan fjórða áratuginn ef ég man rétt.

Rétt, einkageirinn leggur ekki í fjárfestingar þegar hið opinbera skapar óvissu. Þetta sjáum við mjög víða núna í formi mikils atvinnuleysis. Margir veigra sér sjálfsagt við að fjárfesta í sjávarútveginum hérlendis núna af augljósum ástæðum.

Markaðsbrestir leiðrétta sig sjálfir ef einhverjir eru og má yfirleitt rekja til opinberra afskipta - þetta sáum við greinilega í kringum kreppuna miklu. Harding sneri slæma kreppu niður á ca. 2 árum - hans aðferð ætti að nota í dag.

Taumlaus neysla kom kreppunni miklu ekki af stað heldur afskiptasemi Hoovers.

Einstaklingar, fyrirtæki og einstaklingar skuldsetja sig ekki upp í rjáfur nema fé sé til  og vextir hvetji til þess. Seðlabankar heimsins stjórna peningamagni í umferð og vaxtastigi. Fractional banking hefur annað fyrirbæri en því hlutfalli er auðvitað líka stjórnað af hinu opinbera. Vandinn er þessar miklu sveiflur í peningamagni - viðskiptabankarnir græða á tá og fingri á núverandi fyrirkomulagi. Bankahrunið og komandi kreppa skrifast að öllu leyti á hið opinbera en menn munu auðvitað kenna öllum öðrum en hinu opinbera um - líkt og í bankahruninu. Forleikur kreppunnar 1920 var veruleg aukning peningamagns í umferð líkt og við sjáum í dag.

Já, stjórnkerfið og opinberi geirinn hafa eyðilagt mörg tækifæri eins og álver á Bakka og orkusölu til gagnavers. Dæmin eru án efa mjög mörg :-( Lausnin er auðvitað að minnka völd hins opinbera. Í dag skiptir hið opinbera sér að því hvað við borðum og hefur embættismenn í vinnu við að passa það hjá okkur.

Ég er nú á því að útrásarvíkingarnir séu að mestu sekir um að kunna ekki að reka fyrirtæki. Dómstólar vinna úr hinu en mikil bræði er í mörgum og útrásarvíkingarnir þægileg skotmörk þeirra.

Í aðdraganda kreppunnar miklu (á þriðja áratugnum) jókst kaupmáttur einstaklinga og hinir ríku urðu ekki ríkari á kostnað hinna. Neysla jókst á þessum áratug og USA greiddi niður skuldir sínar. Verð neysluvarnings lækkaði þennan áratug þannig að árið 1929 var auðveldara fyrir almenning í USA að kaupa það sem menn vildu. FDR þandi út opinbera geirann á meðan Harding dró saman seglin. Um árangur þessara manna er ekki hægt að deila, atvinnleysið var einungis 2,3% 1923 en hafði verið 12% 1920.

Já, eðli fjármálakerfisins er óstöðugleiki vegna opinbers eftirlits og afskipta eins og var svo snilldarlega útskýrt af Mises. Kynntu þér það sem kallað er "business cycle" og þá áttar þú þig betur á þessu sem og því sem verða vill.

Tölurnar sem ég nefni að ofan hérlendis frá staðfesta Laffer kúrfuna sem og mislukkaðar skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar. Þið getið gert grín að Laffer eins og ykkur listir en við höfum tvö nærtæk dæmi hérlendis frá sem renna enn frekari stöðum undir það sem Laffer sá með því að skoða fjölmörg lönd. Ekki er hins vegar hægt að segja að 15% tekjuskattur í öllum löndum skili hinu opinbera svo og svo miklu - aðlaga þarf hana að aðstæðum í hverju og einu efnahagskerfi.  

Það er þú sem gerist sekur um staðreyndavillur kæri Flowell og ég legg þér hvergi orð í munn. Þú segir að ofan sem svo að án stjórnkerfis sem ekki virkar er ekki hægt að skipuleggja framleiðslu með nægilega góðum hætti og ég legg einfaldlega út af því sem þú segir. Það er ekki að leggja þér orð í munn. Margar kenningar innan hagfræði eru því miður ekki pappirsins virði sem þær eru skrifaðar á og m.a. þess vegna er heimurinn í þeim vanda sem hann er í í dag. Dýr er Keynes.

Það sem þú segir er ekki í samræmi við veruleikann og vonlausar tilraunir hins opinbera til að leysa úr núverandi heimskreppu munu mistakast og það með miklu hvelli. Menn hafa verið að nota uppskrift Keynes í USA núna árum saman og enn hillir ekki undir neinn bata.

Ég hef sömuleiðis séð gögn sem staðfesta það sem ég segi að ofan að aukið frjálsræði sem gott fyrir efnahagskerfi. Víða í Afríku þarf að fá alls kyns leyfi fyrir hinu og þessu frá hinu opinbera og sú er því miður raunin í dag í USA enda sjáum við hvernig staðan er þar. Mýgrútur af reglum er sem myllusteinn um háls einkaframtaksins víða um heim. Við sjáum það t.d. hér að flóknar reglur um banka valda því að mjög erfitt er fyrir nýja aðila að koma inn á markaðinn og veita þeim sem fyrir eru á fleti samkeppni. Á því hagnast þeir sem eru í fjármálastarfsemi í dag en ég og þú töpum á því.

Eigið góðar stundir!

Helgi (IP-tala skráð) 28.9.2013 kl. 11:14

26 Smámynd: Flowell

Sæll Ómar.

„[M]eginmeinsemd vestrænna hagkerfa [...] er vald sýndarviðskipta yfir raunhagkerfinu."

Það er nefnilega málið. En það er ekkert mál að breyta því - ef ekki væri fyrir nýklassíska hagfræði og þess grundvallarmisskilnings að seðlabankar stjórni peningamagni í umferð.

Að neðan er afar góð umfjöllun um hvernig peningar verða til. Á bls. 12 er umfjöllun um algjört ráðleysi New-Keynesian (s.s. nýklassíska) hagfræðingsins Paul Krugman (fyrir Helga) þegar kemur að skilningi þess hvernig peningar, bankar og skuldir virka í raunveruleikanum. Á bls. 19 er fjallað um Chicago planið.

http://www.primeeconomics.org/wp-content/uploads/2013/01/The-power-to-create-money-out-of-thin-air5.pdf

Flowell, 30.9.2013 kl. 19:30

28 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Flowell.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.9.2013 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 303
  • Sl. sólarhring: 578
  • Sl. viku: 1364
  • Frá upphafi: 1322127

Annað

  • Innlit í dag: 251
  • Innlit sl. viku: 1130
  • Gestir í dag: 233
  • IP-tölur í dag: 230

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband