Hækkun lána eftir Hrun er á brot á stjórnarskránni.

 

Á því ákvæði hennar sem verndar eignarétt.

 

Lykilatriðið í þessu er sú grunnstaðreynd sem Gunnar Tómasson hagfræðingur bendir á í ágætu viðtali við Egil Helgason þann 01.04.09 að í fjármálakreppum tapast verðmæti.

Fjármálakreppur eru hamfarir fjármálaheimsins líkt og fellibylir eða jarðskjálftar.  Hamförum fylgir tjón, sem hægt er að tryggja sig fyrir, eða er bætt með sérstökum hamfarasjóðum eins og Viðlagasjóður er, en það er ekki löglegt að koma sínu tjóni einhliða yfir á aðra tjónþola og auka þar með þeirra tjón.  

Ef lagasetning leyfir slíka mismunun þá er hún brot á jafnræðisreglu, og brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskráarinnar.

Vístöluforsendur verðtryggingarinnar er slík mismunun, hún rænir eignum eins til að bæta öðrum tjón sitt.  Í stað þess að allir beri sitt tjón vegna fjármálakreppunnar þá geta lánveitendur einhliða sent lántakendum tilkynningu um að lán þeirra hafi hækkað svo og svo mikið vegna reiknaðar verðbólgu sem á ekkert skylt við raunverulega verðbólgu.

 

Þessa ólöglegu eignaupptöku, þetta rán afhjúpar Sigurbjörn Svavarsson rekstarhagfræðingur í grein í Morgunblaðinu   4. janúar á þessu ári.  Greinin heitir Reiknuð eða raunveruleg verðbólga og sýnir með óyggjandi hætti eignaupptöku upp á 445 milljarða, sem er stærsta rán Íslandssögunnar.

Grein Sigurbjörns birti ég í heild í athugasemd en þetta er kjarni hennar.

 
Hækkun VNV á þessu árabili nam 38% eða talsvert minna en verðlag, sem skýrist aðallega af lækkun húsnæðisliðar í vísitölunni (reiknuð húsaleiga). En Hagstofan gerir fleira en að mæla verðlag. Hún gerir reglulegar kannanir á raunverulegum útgjöldum heimilanna og þar kemur samdráttur heimilanna í neyslu fram. Þrátt fyrir þessa miklu hækkun á verðlagi höfðu útgjöld heimilanna einungis hækkað um 12% á þessum fjórum árum (Tafla 2.), sem er í takt við meðalhækkun launa á þessum tíma:
Hvernig stendur á þessum mismun á milli hækkunar VNV og hækkana raunverulegra útgjalda heimilanna? Jú, ástæðan er sú að VNV er byggð þannig upp að hún mælir einungis verðbreytingu á vörum í neyslukörfunni en ekki magnbreytingu. Þessi útreikningur á verðbólgu gefur ranga mynd af efnahagslegum raunveruleika frá hruni. Þessi vísitala er ekki að mæla aukna eftirspurn almennings eftir vörum, hún mælir einungis verðhækkanir, m.a. vegna gengisfalls krónunnar og hækkana opinbera aðila á gjöldum og sköttum en tekur ekki tillit til mikils neyslusamdráttar almennings. Hún er því ekki verðbólga í hagfræðilegum skilningi heldur einungis tilbúin „kreppuverðbólga“.
 

Hin meinta þensla sem verðtryggingunni er ætlað að bæta er 12%, ekki 38% eins og mæling neysluvísitölunnar segir til um.

Hækkun lána um fram þessi 12% á því sér engar forsendur aðrar en ranga útreikninga sem voru settir í lög vegna sérhagsmuna fjármálakerfisins.  

En almenn lög þurfa að standast stjórnarskrá, og mega ekki fela í sér sértæka eignaupptöku.

 

Þessi staðreynd hefur legið fyrir frá Hruni, og margbent á hana, til dæmis gerði Sigurbjörn Svavarsson það í grein 10.05.09 sem hét Fölsk verðbólga- almenningur og fyrirtæki féflett. þar sem hann segir eftirfarandi.

 

Verðbólguútreikningar Hagstofunnar mældu hækkun vöruverðs vegna gengisbreytinganna upp í 22% og samkvæmt því hækkuðu öll verðtryggð lán almennings í takt við þessa mælingu. En á sama tíma var raunverðbólga engin, vegna þess að almenningur dró saman neyslu sína í sama hlutfalli, eða 25% eins og sést greinilega á línuritinu hér að neðan og íbúðarverð hríðlækkaði. Við eðlilegar aðstæður er verðbólga í raun mæling á neysluaukningu, hagvöxtur leiði til kaupmáttaraukningar sem leiðir til neysluaukningar og verðhækkana. Þess vegna er verðtrygging lána í raun trygging fjármagnseigenda fyrir því að verðmæti þeirra rýrni ekki við slíka verðbólgu.
Ekkert af eðlilegum forsendum verðbólgu var fyrir hendi á síðasta ári. Þess vegna áttu stjórnvöld að grípa til lagabreytinga vegna verðtryggingarinnar og afnema hana við þessar aðstæður í haust.
 

Stjórnvöld gripu ekki til þessara aðgerða því öll endurreisn eftir Hrun var í þágu fjármagns.  

 

En lagabrotið er skýrt engu að síður, hin ólöglega eignaupptaka varðar við lög.

Spurningin er, af hverju fóru samtök lántakanda eða Hagsmunasamtök heimilanna ekki í mál út af þessu stjórnarskráarbroti???  Jafn augljóst brot eins og gengisviðmið lána.

Sem aftur vekur athygli á einni napurri staðreynd sem er að ef Sigurður Hrellir og Maria Elvira hefðu ekki farið í mál við Fjárfestingarbankann, þá hefði ekkert áunnist í baráttunni við lögleysuna og þjófnaðinn sem átti sér stað eftir Hrun.

 

Svarið er augljóst, undirróður þeirra sem fjárfestu í verðtryggingunni eftir Hrun.  Undirróður sem kennt hefur verið við starfsemi efnahagsböðla.

Hagmunasamtök heimilanna voru strax undirlögð fólki sem var þar til þess eins að gæta hagsmuna sinna stjórnmálaflokka, ekki heimilanna, ekki þeirra sem ólög rændu og rupluðu.  

Sterkust vega tengsl við Samfylkinguna, Borgarahreyfinguna, og VinstriGræna.  

Hafi þetta ekki verið ljóst, þá blasti þessi raunveruleiki við eftir ICEsave dóminn þar sem hið meinta baráttufólk gegn vertryggingunni kepptist við að mæra alla stuðningsmenn ICESave fjárkúgunarinnar sem báðust afsökunar á að hafa haft rangt fyrir sér, um leið og þeir hlóðu fallbyssur sínar gegn þeim flokkum sem berjast fyrir leiðréttingu hinna stökkbreyttu skulda.

Það er enginn dús við þann sem berst gegn þér nema hann sé í sama liði.  Einföld staðreynd sem allir sjá nema þeir sem þjást af vitglöpum.

 

Í því ljósi er núverandi málsókn gegn verðtryggingunni skiljanleg.  

Forsenda hennar er tilvísun í reglugerð ESB sem hefur ekki verið staðfest á Íslandi.  Vonin byggist á því að Ísland sé ekki lengur sjálfstætt ríki, heldur stýrt með tilskipunum frá Brussel.  

Og vonin liggur inní framtíðinni, eftir að vogunarsjóðirnir hafa komið sínum mönnum að í næstu ríkisstjórn.  Eftir að þeir hafa eignast atvinnulífið í gegnum bankanna, eftir að þeir hafa byrjað að sjúga til sín allt fé úr hagkerfinu.

 

Og þessi von í framtíð, eftir að krumlur vogunarsjóðanna hafa læst sig um efnahagslífið, byggð á mjög hæpinni forsendu, og mun örugglega aðeins leiða til breytinga á lagasetningu framtíðar, en ekki leiðréttingu á hinum stökkbreyttu skuldum, er síðan notuð til að slæva baráttuna þegar að flokkar vogunarsjóðanna liggja við höggi.

Verðtryggingin er ólögleg eignaupptaka, hún er efnahagsleg gjöreyðingartæki, röksemdir fylgjanda hennar er standast ekki efnislega skoðun, en samt er hún ekki kosningamál.  Því hún verður dæmd ólögleg einhvern tímann í framtíðinni.

Ríkisstjórnin sem hefur aðeins staðið vörð um eitt, um verðtrygginguna, stendur mjög höllum fæti eftir að hafa orðið vís af stuðningi við fjárkúgun í þágu erlends valds, og að henni er ekki sótt vegna þessara lögbrota.  

Allflestir að þeim sem berjast gegn leiðréttingu hinna stökkbreyttu lána, brutu lög með stuðningi sínum við hina erlendu fjákúgun, en þeir eru látnir í friði með þau lögbrot, svo þeir geti alfarið einbeitt sér gegn þeim flokkum og stjórnmálamönnum sem vilja slíka leiðréttingu.

 

Er þetta einleikið??

Að sjálfsögðu ekki, þetta hefur gerst í öðrum löndum, og er að gerast í öðrum löndum, þar sem efnahagsböðlar í þágu fjármálakerfisins sjá til þess að ekkert ógni fjárfestingum sem byggjast á ráni og rupli á eignum og tekjum almennings.

Því eins og maðurinn sagði (Peter Joseph);

".. að fjármagnsöfl heimsins sjái sér hag í því að steypa almenningi í fjötra skulda og að í raun hafi verið búið til peningalegt kerfi sem sogi aðrar peningalegar eignir til sín. ".

Og slíkt gerist ekki að sjálfu sér.

 

Fingraförin eru augljós, en fólk vill ekki sjá þau.

Að sjá og hugsa er miklu erfiðara en að lifa lífi skuldaþrælsins.

Sem út af fyrir sig væri réttur fólks ef það væri ekki með sinnuleysi sínu að dæma börn sín og barnabörn í skuldaánauð.

 

Börnin okkar hafa rétt til mannsæmandi lífs.

Og það er okkar að tryggja þann rétt.

 

Sem við gerum ekki í dag.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Reiknuð eða raunveruleg verðbólga?

Eftir Sigurbjörn Svavarsson

Sigurbjörn Svavarsson

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Eftir Sigurbjörn Svavarsson:

Í hagfræði er verðbólga skilgreind sem almenn verðhækkun á vöru og þjónustu sem er meira en vöxtur efnahagslífsins og verður gjarnan til vegna aukins peningaframboðs sem veldur aukinni neyslueftirspurn í efnahagskerfinu. Handhægasta aðferðin til að mæla verðbólgu er að kanna breytingu á meðalverði vöru og þjónustu í neyslukörfu sem endurspeglar neyslusamsetningu heimilanna.

Hagstofan birtir þessar verðbreytingu mánaðarlega í Vísitölu neysluverðs (VNV) sem er verðbreyting á neysluútgjöldum heimilanna í landinu. Þessi neysluútgjöld eru síðan uppistaðan í svokallaðri „Einkaneyslu“ sem er hluti landsframleiðslu og mælikvarði á hagvöxt í landinu. VNV er jafnframt, samkvæmt lögum, notuð til verðtryggingar á lánum og er eitt helsta tæki Seðlabankans til vaxtaákvarðana.

Gögn Hagstofunnar um heimilin

Bankahrunið var einstakur atburður sem leiddi til mikilla verðhækkana á innfluttri vöru og ýmissi innlendri þjónustu vegna hækkana skulda opinberra sem annarra þjónustufyrirtækja. Mæling Hagstofunnar á verði vöru og þjónustu í útgjaldakörfu heimilanna sýndi 57% hækkun á tímabilinu 2008-2011.

Gögn Hagstofunnar sýna einnig að heimilin brugðust hart við þessum verðhækkunum með miklum samdrætti í flestum útgjöldum sínum á þessum árum. Þessi magnsamdráttur var slíkur að nemur nærri einni ársneyslu (-70,2%) á þessum fjórum árum. (Tafla 1).

Vísitala neysluverðs og verðbólgan

Hækkun VNV á þessu árabili nam 38% eða talsvert minna en verðlag, sem skýrist aðallega af lækkun húsnæðisliðar í vísitölunni (reiknuð húsaleiga). En Hagstofan gerir fleira en að mæla verðlag. Hún gerir reglulegar kannanir á raunverulegum útgjöldum heimilanna og þar kemur samdráttur heimilanna í neyslu fram. Þrátt fyrir þessa miklu hækkun á verðlagi höfðu útgjöld heimilanna einungis hækkað um 12% á þessum fjórum árum (Tafla 2.), sem er í takt við meðalhækkun launa á þessum tíma:

Neysluútgjöld heimila kr.

2007 4.755.778

2008 5.114.474

2009 5.471.049

2010 5.302.474

2011 5.321.540

Hvernig stendur á þessum mismun á milli hækkunar VNV og hækkana raunverulegra útgjalda heimilanna? Jú, ástæðan er sú að VNV er byggð þannig upp að hún mælir einungis verðbreytingu á vörum í neyslukörfunni en ekki magnbreytingu.

Þessi útreikningur á verðbólgu gefur ranga mynd af efnahagslegum raunveruleika frá hruni. Þessi vísitala er ekki að mæla aukna eftirspurn almennings eftir vörum, hún mælir einungis verðhækkanir, m.a. vegna gengisfalls krónunnar og hækkana opinbera aðila á gjöldum og sköttum en tekur ekki tillit til mikils neyslusamdráttar almennings. Hún er því ekki verðbólga í hagfræðilegum skilningi heldur einungis tilbúin „kreppuverðbólga“.

Misnotuð vísitala til bjargar fjármálakerfinu

Ef þessar mælingar Hagstofunar væru aðeins sagnfræði skiptu þær engu máli, en það alvarlega er að þessi sýndarverðbólgumæling er notuð samkvæmt lögum til verðtryggingar lána. Öll verðtryggð lán í landinu hækkuðu um 38% frá 2008 og fram til loka 2011, eða um 600 milljarða á lánum til heimila og fyrirtækja.

Miðað við hvernig lánin skiptast (Tafla 3) hefur verðtryggingin fært bönkunum um 160 milljarða, Íbúðalánasjóði 235 milljarða og Lífeyrissjóðum 50 milljarða. Samtals 445 milljarða sem hafa bæst við skuldir heimila án þess að þau hafi á nokkurn hátt skapað þær skuldir með aðgerðum sínum. Slík lögbundin eignatilfærsla frá almenningi án verðmæta á móti er líklega einsdæmi í veröldinni.

VNV er jafnframt helsta tæki Seðlabankans við vaxtaákvarðanir og reglulega heyrir almenningur hvernig Seðlabankinn vitnar til verðbólgunnar og hækkar jafnvel vexti til að „slá á þensluna“ þrátt fyrir samdrátt í þjóðarframleiðslu þrjú ár í röð. Einnig er vitnað í VNV í tíma og ótíma sem afsökun fyrir hækkun á vörum og þjónustu sem hefur hækkað langt umfram gengisfall krónunnar.

Útreiknað óréttlæti

Núverandi stjórnvöldum var ljóst hverjar afleiðingar verðtryggingar við þessar aðstæður yrðu og ákváðu að yfirlögðu ráði að leggja þennan kostnað á almenning til að byggja upp eigið fé nýju bankanna, bæta tap lífeyrissjóðanna og slæma stöðu Íbúðalánasjóðs í von um að hækkun fasteignamarkaðarins á ný mundi laga neikvæða eignastöðu skuldara og þeir tækju þessu sem hverju öðru hundsbiti.

Þessi sýndarverðbólga mælir ekki raunveruleg efnahagsleg verðmæti í samfélaginu, er úr takti við aðra þætti efnahagslífsins og hefur í raun viðhaldið kreppunni í samfélaginu. Hún er lögleidd séríslensk sjálfvirk seðlaprentun fyrir fjármagnseigendur á kostnað skuldara og hrein eignaupptaka án endurgjalds. Kynslóðin sem á að byggja upp samfélagið næstu áratugina er sett í spennitreyju skulda. Stjórnmálamenn sem sjá ekki hver áhrifin verða á samfélagið eru óhæfir til að leiða efnahagslífið úr þessu öngstræti. Þessa hringavitleysu verður að stöðva og leiðrétta þessa tilfærslu ímyndaðra fjármuna.

Höfundur er rekstrarfræðingur.

Ómar Geirsson, 19.2.2013 kl. 10:45

2 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Það eru ekki ný ákvæði frá Brussel sem gera verðtrygginguna á húsnæðislán ólögleg. Heldur eru það íslensk lög - Lög um lán neytanda. Frá því ári 2000 voru íbúðalán sett inn í lög og þessi lán voru skilgreind sem lán til neytanda.

Það væri þörf á að taka umræðu um vaxtastefnu Seðlabanka Íslands frá því að Már tók viðembætti í ljósi þessarar greinar sem þú birtir hér eftir Sigurbjörn Svavarsson.

Eggert Guðmundsson, 19.2.2013 kl. 11:45

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Tilskipunin sem Elvira vitnaði í er ekki innleidd á Íslandi.  Núverandi lög, frá 2000 hafa samsvörun, en það er einn mjög alvarlegur rökfeill í þessu.

Ef þau lög ganga gegn öðrum lögum, þá er vafamál hvor þurfi að víkja.  

Það er gífurleg réttaróvissa ef túlkun á nýjum lögum getur ógilt eldri lög.  

Slíkt hlýtur að vera á valdi löggjafans, ekki dómsstóla. 

Það er ein af forsendum núverandi lýðræðis, að löggjafinn  setji lög,  og dómsstólar dæmi eftir þeim.  Ekki að dómsstólar stjórni landinu með lagatúlkun sinni. 

Hvað sem slíkt stjórnarfar kallst, þá er það ekki lýðræði.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.2.2013 kl. 14:36

4 identicon

Sæll Ómar,

Lög um neytendalán nr. 121/1994 sem gilda um húsnæðislán hér á landi eru leidd af tilskipun ESB 87/102 um neytendalán en í þeirri tilskipun er að finna sömu ákvæði og túlkun sérfræðings ESB lýtur að. Því er ljóst að sú túlkun á líka við um ákvæði eldri tilskipunarinnar og ákvæða íslenskra laga sem af henni eru leidd. Við erum nokkur sem höfum haldið þessu fram um tíma og meðal annars bent Efnahags- og viðskiptanefnd á þetta oftar en einu sinni á síðastliðnu ári eða svo. Mergurinn málsins er því í raun sá að sérfræðingur ESB var að túlka 25 ára gamlar reglur sem fest hafa sig í sessi í framkvæmd úti í Evrópu, þrátt fyrir  að hún hafi túlkað þær út frá núgildandi rétti.

Vona að þetta skýri málið.

Mbk.,

Arnar Kristinsson 

Arnar (IP-tala skráð) 19.2.2013 kl. 15:38

5 Smámynd: Gunnar Borgþór Sigfússon

Sæll Ómar. Góðar ábendingar frá þér. Og vonandi fá málaferlin flýtimeðferð í dómskerfinu svo fólk fái niðurstöðu sem fyrst.

Gunnar Borgþór Sigfússon, 19.2.2013 kl. 16:30

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arnar.

Svona til að fyrirbyggja allan misskilning, þá finnst mér sjálfsagt að láta reyna á þetta, gegn þessu skrímsli þarf að munda öll vopn.

Pistill minn fjallar hins vegar um að þetta er langsóttasti möguleikinn til að ná fram rétti almennings, og það er ákaflega hæpið að þetta leiði til leiðréttingar á stökkbreyttum lánum, þó hugsanlega geti þetta orðið banabiti verðtryggingar framtíðarinnar. 

Og það er enginn tími eftir í stundaglasinu.

Og ég spyr, af hverju láta samtök heimila og skuldar ekki sverfa til stáls gegn þeim öflum sem með ólögum ræna og rupla heimili fólks, og mergsjúga atvinnulífið??

Alls staðar annars staðar í heiminum er svarið augljóst, en á Íslandi gilda ekki lögmál Newtons, og jörðin er flöt.

Og það gæti verið tilviljun að lögbrjótar komast upp með lögbrot sín.

En ég held ekki.

Ég ætla síðan að skjóta á öðru innslagi varðandi veila í rökstuðninginum, veila sem allavega gera niðurstöðuna ekki örugga.  

Og treysta á þá er jafngáfulegt og að hindra ekki að lekt skip fari á sjó með þeim rökum að lekur björgunarbátur er um borð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.2.2013 kl. 17:48

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Arnar.

Tilskipanir ESB eru ekki lög á Íslandi.  Þær þarf að innleiða.  Því gildir íslenski lagatextinn.  Og hann er ekki skýr hvað þetta varðar, líkur eru leiddar af, eins og þú segir um ESB túlkunina, hún hefur fest sig í sessi.  En eitthvað festir sig ekki í sessi, aftur á bak.  Það vísar fyrst og síðast inní framtíðina.

Lögin um verðtrygginguna byggja á eldri grunni, þau víkja ekkert fyrir lagatúlkun í Evrópu, þau þarf að afnema.

Til dæmis ef þau skarast á evrópska regluverkið, en þá þarf rétta boðleið, kæra til ESA, og ef niðurstaða er jákvæð, þá mun ESA þrýsta á lagabreytingar.  

Ekkert í þessu ferli er afturvirkt og kemur stökkbreyttum skuldurum lítt af gagni.

Hins vegar eru vegir dómara órannsakanlegir en viljum við það??

Að öll löggjöf sé í uppnámi því ný eða breytt lagatúlkun getur gert eldri lög ómerk, án þess að slíkt sé ákveðið af löggjafarvaldinu??

Vildi fólk til dæmis að til dæmis kæmi tilskipun um félagafrelsi, sem einhver hugmyndaríkur atvinnurekandi myndi nota til þess að fá alla eldir kjarasamninga dæma ólöglega því viðsemjandinn hefði nýtt sér samningsaðstöðu sem byggði á hinni ólöglegu skylduaðild???  Og gæti síðan krafið núverandi og fyrrverandi starfsmenn sína um greiðslu á mismun á greiddum launum og lágmarkslaunum??

Hann þyrfti ekki að innheimta kröfuna, dygði að selja hana vogunarsjóðum sem hefði hótunarvaldið um lögsókn gegn einstaklingi, gefið þeim valkostinn að semja eða langvarandi málaferli sem gerðu þá gjaldþrota.

Langsótt??, en svona eru einkaleyfatröllin að gera í Bandaríkjunum.

Óljós löggjöf og sveigjanleg túlkun leiðir til yfirburða stöðu fjármagns á móti hinu almenna, hvort sem það er hinn almenni maður, eða almenn fyrirtæki sem fólk rekur.

Og smán saman gufar réttarríkið eins og við þekkjum það, upp.

Lögin um gengisviðmiðin voru skýr, þau voru allan tímann ólögleg.  En um lögmæti verðtryggingarinnar ríkir mikill vafi, það er á þessum forsendum.  Vonandi gildir neytandarétturinn, því hitt er algjör ósvinna.  

En lögleg ósvinna.  Og verður aðeins leiðrétt fram í tímann.

Hins vegar  er þjófnaður bannaður og slíkt átti sér stað eftir Hrun.

Og hví í fjandanum er ekki látið reyna á það???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.2.2013 kl. 18:07

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Gunnar.

Vonandi verður þjófnaðurinn kærður til ríkisaksóknara, ásamt vaxtaþjófnaðinum og ICEsave þjófnaðinum.

Sekt fólk sem sætir ákæru, mun ekki ná að selja vogunarsjóðunum þjóðina.

Það vita þeir og þess vegna fá ummæli Elviru alla þessa athygli núna í fjölmiðlum fjármagnsins.  Það er allavega ár síðan sem ég las pistil á bloggi Elviru um þetta atriði, og mig minnir að Egill hafi tekið viðtal við hana. 

Meir gat Egill ekki, en auðfjölmiðlarnir þögguðu þetta niður.

Hvað skyldi hafa breyst??

Svarið er augljóst, ein kæra vegna þjófnaðar og fjárkúgunar, og spilaborg valdsins er hrunin núna rétt fyrir kosningar.

Því það gilda lög í landinu, og þjófnaður er bannaður.

Þess vegna er þessi kæra miðpunktur umræðunnar, það er verið að afvegleiða umræðuna, og telja fólki í trú um að það sér verið að gera eitthvað.

Sem þetta virkilega er, en ógnar valdinu á engan hátt, og vogunarsjóðunum er nákvæmlega sama um, þeir eignast þjóðina eftir kosningar.

Það er verið að gera eitthvað, en ekkert sem þarf til að bjarga almenningi frá langvarandi skuldaánauð.

Eða eins og Bjartur sagði oft við syni sína, "á ekki að gera eitthvað".

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.2.2013 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 486
  • Sl. sólarhring: 759
  • Sl. viku: 1547
  • Frá upphafi: 1322310

Annað

  • Innlit í dag: 399
  • Innlit sl. viku: 1278
  • Gestir í dag: 362
  • IP-tölur í dag: 362

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband