Þjóð í fjötrum verðtryggingar.

 

Verðtryggingin mun ganga frá íslensku þjóðinni áður en yfir líkur.

Hún ógnar heimilum landsins og hún ógnar stöðugleika efnhagslífsins.

Og ekki hvað síst, hún er mesta ógn sparnaðar landsmanna.

 

Verðtryggingin var hugsuð á sínum tíma til að ná tökum á óðaverðbólgu, tryggja stöðugleika og að peningalegar eignir héldu verðgildi sínu. 

Og vissulega virkaði hún til skamms tíma, verðbólga varð líkari því sem hún var í öðrum vestrænum löndum, mestu öfgarnir í gengissveiflum hurfu, sparnaður í peningaeignum var raunhæfur.

 

En undirliggjandi vandi verðtryggingarinnar var að hún ýtti undir verðbólgu, gróf undir stöðugleika og skapaði ofurkrónu sem hagkerfið gat aldrei staðið undir.

Fyrir þessu má færa mörg rök sem ég get ekki reifað sökum lengdar á pistli.  Vil benda á að það felst í orðinu verðbólga að hún á mæla tilbúið samspil hækkana á verðlagi versus launa, það er "bólgan".  Hækkanir á aðföngum er hins vegar ekki verðbólga, þegar olía til dæmis hækkar í verði, þá lækka tekjur þjóðfélagsins, það hefur úr minna að spila, og ef laun lækka ekki á móti, þá getur efnahagslífið ekki fundið annað jafnvægi nema með því að lækka kaupmátt gengis, það er gengisfelling.  

Verðtryggingin mælir slíkt hins vegar sem verðbólgu, hækkar þá skuldir, sem aftur ýtir undir launakröfur.  Verðtryggingin er þar með orðinn þrýstitæki á verðbólgu, það er hún ýtir á víxlhækkanir verðlags og launa á sama tíma og ráðstöfunartekjur þjóðarbúsins dragast saman.  Ergo, óstöðugleiki.

Um ofurkrónuna þarf ekki að ræða, hún var raunveruleiki á árunum fyrir Hrun og stöðug aukning skulda bendir einnig til ójafnvægis þar sem  á einhverjum tímapunkti rís almenningur og fyrirtæki ekki undir skuldum sínum.   

Og þegar skuldir eru ekki borgaðar til baka þá eru forsendur verðmæta peningalegra eigna brostnar.

 

Verðtrygging sem lausn á óstöðugleika er því álíka gáfuleg og menn hefðu brugðist við krabbameinsvaldandi áhrifum asbest í vatnslögnum með því að innleiða blýlagnir í staðinn.

Í stað fljótvirks eiturs væri tekið upp hægvirkara en jafn banvænt engu að síður.

Lausn á bráðavanda var langtímavandi. 

Engu betri en sú fyrri en fyrst og síðast þá var ekki tekist á við hinn raunverulega vanda. 

Óstöðugleikinn og óðaverðbólgan átti sér aðeins eina skýringu og það var skilningsskortur á hinni einföldu staðreynd að það þarf að afla áður en menn eyða.  Og tekjuöflun er sveiflukennd eins og tilvikið er á Íslandi þá eru allar vísitölur til ills.  

Sveiflan er óhjákvæmileg en vísitölur hindra hagkerfinu í að ná eðlilegu jafnvægi.

 

Rétt viðbrögð við olíuverðshækkunum  á áttunda áratugnum var að leyfa genginu að lækka án þess að hækka laun.  Þær þjóðir sem gerðu það voru fyrstar að ná sér út úr efnahagsþrengingunum sem fylgdi í kjölfar þessara hækkana.

Þegar Svíar lentu í efnhagsþrengingum sínum í upphaf tíunda áratugarins þá felldu sænsk stjórnvöld gengið um 25% og það gekk yfir þjóðfélagið án þess að það kæmi fram í hækkun launa.  Raunveruleikinn var einfaldlega sá að tekjur í sænskum krónum voru of háar miðað við kaupmátt þjóðarbúsins.

 

Kaupmáttur launa er aldrei hærri en  kaupmáttur þjóðarbúsins. 

Að skilja þetta er ein megin forsenda stöðugleika og skilningsskorturinn á þessu samhengi var ein meginskýring óðaverðbólgunnar á áttunda og níunda áratugnum.

 

Það sem uppá vantar að hagkerfi séu stöðug er skilningur á að eignabóla leiðir til óstöðugleika alveg eins og launabóla.

Og eignir má aldrei verðtryggja frekar en laun.

Aðeins raunveruleikinn í efnahagslífinu getur myndað eignarverð.

Sama eign hefur ólíkt verðgildi eftir því hver kaupmátturinn er, því hærri sem hann er, því hærra treysta einstaklingar og fyrirtæki sér að bjóða í eignir.

Við kaupmáttarhrun hrynur eignarverð, hvort sem það er peningaeign eða efnisleg eign.  Það leitar allt í jafnvægi.  Hvort sem það er aðlögun í gegnum gjaldþrot eða í gegnum rýrnun á gjaldmiðli eða sambland af þessu tvennu.

 

Við Hrunið 2008 féllu peningalegar eignir þrátt fyrir verðtrygginguna.  Nægir þar að nefna fall hlutabréfa, peningamarkaðssjóða og rýrnun á eignum lífeyrissjóða.

Og verðbólga hefur verið um 40% sem er óðaverðbólga hvernig sem á það er litið.

Á tímabilinu hafa ekki verið víxlhækkanir launa og verðlags.

Samt er látið með verðtrygginguna eins og hún sé heilög kýr sem ekki megi slátra þó múgurinn svelti.

Slíkt hefur ekkert með rök eða skynsemi, aðeins trú útskýrir þá bábilju.

 

Óðaverðbólga, rýrnun peningalegra eigna.  Samt er hausnum lamið í stein.

Við blasir helför heimilanna, við blasir átök og óeirðir eða þá landflótti fólks sem flýr skuldgildruna, við blasir að ekki er hægt að aflétta gjaldeyrishöftum nema taka erlend lán til að borga út bólukrónur.

Erlend lán sem rýra kaupmátt þjóðarinnar um langa tíð ef þau gera hana ekki gjaldþrota.

Samt má ekki hrófla við verðtryggingunni.  

 

Rökin eru hin algjöra heimska að benda á fortíð sem er algjörlega ósambærileg við nútímann  eða sú veruleikafirring að benda á að verðtrygging tryggi verðmæti sparfjár.

Ég tók heimskuna fyrir í pistli mínum "Hvernig þekkir maður mjög vitlausan hagfræðing" en hér að framan hef ég bent á staðreyndir sem ganga algjörlega gegn þeirri mítu að verðtrygging tryggi sparifé.

Sparifé er þessa heims og er háð gangi efnhagsmála eins og allar aðrir þættir efnhagslífsins.  Dragist tekjur þjóðarbúsins saman þá rýrnar verðmæti sparifjársins.  Svo einfalt er það.  Þó að sparifé sé úr gulli þá er aldrei hægt að kaupa meira fyrir það en er framleitt.  Eina sem gerist er það að sparifé fær aukið vægi á kostnað launa við að kaupa framleidd gæði.

Og laun þurfa að lækka til að jafnvægi haldist, annars myndast verðbólga.  Í ýktu dæmi, til dæmis við algjört hrun framleiðslunnar, þá dugar ekki til að þurrka út laun, gullið er meira en framboðið á vörum og fellur því í verði.  Slíkt ástand er þekkt á stríðstímum eða fyrst á eftir á meðan framleiðslan er lömuð.

 

Verðtrygging peningasparnaður er tilraun til að hindra að hann lúti lögmálum efnahagslífsins, að hann séu einhvers konar gull sem haldi verðgildi sínu óháð sveiflum.

Eins og ég lýsti hér að framan þá er gull ekki óháð sveiflum og þar af síður verðtryggður sparnaður.  Forsenda hans er að hann sé fjárfestur í verðtryggðum skuldum og á tímum niðursveiflu eru skuldir mjög ótraust eign.

Þær gufa upp við gjaldþrot og þó veð sé að baki þá er það einskis virði ef enginn vill kaupa hina veðsettu eign.

Verðmæti verðtryggðar skuldar er því í beinum tengslum við getu hagkerfisins til að greiða þær.  

Það er því dauðdæmt frá upphafi reyna að viðhalda verðmæti skulda með verðtryggingu þegar hagkerfi dragast saman.  

Og þegar það er reynt, þá er hættan alltaf sú að hagkerfið gefist upp á þeim, neiti að borga þær.

Því skuldir eru ekki bara háð efnahagsgetunni heldur líka viljanum til að greiða þær.

 

Og það er það sem er að gerast á Íslandi í dag.

Samt lemja menn hausnum í stein og neita að horfast í augun á þeirri staðreynd að höfuðmeinsemd íslenskra efnhagsmála er verðtryggingin..

Það er ekki einfalt mál að losa um hana og það er ekki einfalt mál að leiðrétta skuldir heimilanna þannig að sátt náist í þjóðfélaginu.

En það er gerlegt og ég minni á grein Kristjáns Þórs Júlíussonar og ég minni á tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna.   Einnig má benda á hugmyndir Gunnars Tómassonar hagfræðings.  Og svo framvegis og svo framvegis.

 

En verði ekkert gert og hausnum áfram lamið í stein, þá munu lögmál efnhagslífsins hafa sinn gang.

Allt mun leita í jafnvægi, líka skuldirnar.

En það jafnvægi næst í verri lífskjörum, auknum þjóðfélagsátökum, hugsanlega gjaldþroti þjóðarinnar og það sem snýr að skuldareigendum, meiri afskriftum en þegar málum er stýrt inní nýjan farvega sáttar og stöðugleika.

Því staðreyndin er sú að verðtryggingin er höfuðóvinur sparifjáreigenda í dag.

 

Munum að engin skuld er verðmeiri en vilja og geta fólks til að borga hana.

Og tímaglasið er að tæmast.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Óbreyttir vextir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein Ómar þetta erum við mikið sammála um/Kveðja að sunnan!!!

Haraldur Haraldsson, 8.2.2012 kl. 16:58

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Haraldur.

Vonandi er nú lag til að knýja valdastéttina til skuldaleiðréttingar þannig að allir geti vel við unað.

Ef ekki þá mun einhvern tíman sjóða uppúr og þá veit enginn hvað kemur út úr þeirri ólgu.

Ég myndi ekki veðja á að valdastéttin haldi þá sínum hlut.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.2.2012 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 842
  • Sl. sólarhring: 1618
  • Sl. viku: 4318
  • Frá upphafi: 1325404

Annað

  • Innlit í dag: 749
  • Innlit sl. viku: 3794
  • Gestir í dag: 702
  • IP-tölur í dag: 680

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband