"Sjúklingnum heilsast vel".

 

Má  lesa á vef ríkisútvarpsins á meðan Morgunblaðið reynir að upplýsa þjóðina um alvarleika þess að á ögurstundu í lífi fólks, getur það ekki komist undir læknishendur vegna þess að þjóðin lét ógæfufólk komast upp með að loka neyðarbraut höfuðborgarinnar án þess að hafa aðra braut tilbúna í hennar stað.

 

Morgunblaðið spyr spurninga sem skriffinnurinn, þessi í hvítu skyrtunni með bindið svo ég vitni í Ove, telur fyrir neðan virðingu sína að svara.  Sjálfsagt mun hann segja að lokum að Hæstiréttur hafi fyrirskipað þessa meinta tilraun til manndrápa, eins og að dómurinn muni stefna íslenska ríkinu fyrir að hafa neyðarbrautina opna.

Ríkisútvarpið telur það aðalatriði málsins að stóru flugvélar flugfélags Íslands hefðu ekki notað neyðarbrautina.  Eða svo segir í fyrirsögn fréttarinnar á Ruv.is;  "FÍ hefði ekki notað þriðju flugbrautina í gær ". 

Eins og það komi málinu eitthvað við.

 

Hvað höfum við landsbyggðarmenn upplifað oft að sjá sjúkraflugvél á frumstæðum flugvöllum okkar, þó farþegaflug hafi legið niðri??  Þúsund sinnum, fimm þúsund sinnum?  Hver veit, nema þeir sem hafa flogið sjúkraflugvélum í gegnum tíðina, og hafa með hæfni sinni og þori bjargað hundruðum mannslífa, þegar annar möguleiki var ekki í boði til að bjarga mannslífi en að fljúga í kolbrjáluðum veðrum. 

Ríkisútvarpið leggur sig ekki niður við að spyrja þá menn, en það gat upplýst þjóðina að farþegaflug hefði legið niðri, og er þá sjálfsagt að ýja að Fokkerinn sjái um sjúkraflugið.

Og ríkisútvarpið gengur lengra, það upplýsir í frétt sinni að lokun neyðarbrautarinnar minnki "nýtingarhlutfallið aðeins lítillega og þá aðallega í þeim vindáttum sem voru í gær". 

Gefið í skyn að málið sé eiginlega stormur í vatnsglasi.

 

Lægra er ekki hægt að leggjast.

Neyðarbrautin er einmitt neyðarbraut vegna þess að hún er eina flugbrautin sem nýtist í stífri suðvestan átt, og ekki er um aðra braut að ræða á suðvesturhluta landsins. 

Og það er í eðli neyðar, að vera undantekning, eitthvað sem er notað í neyð.  Eins og til dæmis nýtísku björgunarbúnaður í borð í fiskiskipum, fullkomin eldvarnarkerfi í verslunar og iðnaðarhúsnæði og svo framvegis.

Og á neyðarstundu skiptir slíkt öllu máli og getur bjargað mannslífum við aðstæður sem annars hefðu kostað mannslíf.

Það er engin tilviljun að sjóslysum hefur fækkað, að færri látast í umferðarslysum, heldur er það vegna þess að markvisst hefur verið unnið að koma í veg fyrir þessi slys.

 

Nema í höfuðborg okkar, þar telja ráðamenn það tölfræðilega viðunandi að auka dánarlíkur fólks.

Og eru ekki einir um þá siðblindu eins og frétt ríkisútvarpsins staðfestir, þar er Vöggur greyið tíndur til svo hægt sé að réttlæta hið óverjanlega.

 

Heiðarlegur, hlutlaus fjölmiðill, sem ríkisútvarpið er náttúrulega ekki, hefði rannsakað málið. 

Spurt af hverju neyðarbrautin er lokuð.

Og spurt reynda sjúkraflugmenn hvað þeir hafa oft upplifað að þessi braut skipti sköpum.

 

Hvað hefur hún í raun bjargað mörgum mannslífum??

Er svo flókið að spyrja þeirrar spurningar, og afla sér upplýsinga um það?

Í stað þess að gefa í skyn að einhverjar annarlegar hvatir búi að baki málefnalegrar gagnrýni sjúkraflugmanna, eða þeirra lækna á landsbyggðinni sem taka undir að það sé mjög mikilvægt að hægt sé að senda bráðveika og eða illa slasaða sjúklinga suður á Landspítalann þar bestu aðstæður eru fyrir hendi til að bjarga lífi fólks, og eða tryggja því sem besta heilsu.

Eða halda menn að það sé spurning um dagpeninga eða stubb að sjúkraflugmenn vilja fljúga í kolvitlausum veðrum??

 

Mikil er firring þeirra sem verja hið óverjanlega.

Mikil siðblinda hlýtur að búa að baki.

 

Morgunblaðið á hins vegar heiður skilið fyrir fréttaflutning sinn, og vonandi nær blaðið að fylgja málinu alla leið, að það hætti ekki þegar ljóst er að boltinn er ekki hjá ógæfufólkinu í borgarstjórn Reykjavíkur.

Vissulega hafa krakkarnir þar mikil völd, en þau stjórna ekki landinu.

Og stundum þarf að spyrja eigin flokksmen óþægilegra spurninga.

Þó ríkisútvarpið sé fast í forarpytti flokkshollustunnar, að þá vonandi gildir það ekki sama um Morgunblaðið.

 

Á næstu dögum þarf að lenda þessu máli á þann hátt að sjúkraflugmenn fái lent með sína sjúklinga.

Að það séu þá veðurguðirnir sem stöðvi þá, ekki forheimska mannanna.

 

Því þetta er spurning um mennskuna.

Um það að vera maður.

 

Að vera manneskja.

Kveðja að austan.


mbl.is „Brautin hefur ekkert breyst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

" Við vit­um það flest.“"

 

"Það er bara tímaspursmál hvenær eitthvað gerist".

 

Fleiri orð þarf ekki að hafa um málið.

Og við "flest", sem þekkjum muninn á réttu og röngu, og skiljum að ekkert er æðra en helgi mannslífsins,  vitum að þetta eru grafalvarleg orð hjá Sigurði E. Sigurðssyni, framkvæmdarstjóra lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

En við "flest" erum í þeirri stöðu að við ráðum ekki gangi mála á Íslandi í dag, hverju sem um er að kenna.

 

Þessi hin þarna, þau "fáu", stjórna Reykjavík í dag. 

Og hjá þeim er gróði verktaka æðri helgi mannlífsins.

 

Spurningin er hins vegar af hverju þingmenn okkar sitja þegjandi hjá??

Fyrst að þau "fáu" náðu völdum í Reykjavík, þá hljótum við "flest" að vera í algjörum meirihluta á landsbyggðinni, og við erum nýbúin að kjósa þetta fólk á þing.

Sem hvorki æmtir eða skræmtir.

Þóttust það bara vera eins og við "flest", en voru í raun eins og  hin, þau "fáu"?

 

Eða er þetta einhvers konar öfugsnúin hégómagirni, hafði einhver spottastjórnandi hvíslaði í eyru þeirra, að ef ekkert er að gert, þá ættu þessir þegjandi þingmenn fulla möguleika á að skáka Valsmönnum í komandi orðabók framtíðarinnar, að fyrsta orðið í íslensku máli sem táknar siðblinda græðgi sé þeirra.  Þó ég fatti ekki hvernig þegjandi þingmenn af landsbyggðinni séu eitt orð.

Allavega er skýringin absúrd, hver sem hún er.

Og það er ekkert eðlilegt að hafa hugmyndaflug til að útskýra þá hegðun eða aðgerðarleysi sem leiðir til ótímabærs andláts náungans.

Venjulegt fólk á ekki að geta útskýrt þá siðblindu að loka neyðarbraut án þess að hafa aðra tiltæka í staðinn.

 

En venjulegt fólk á hins vegar ekki að þegja.

Samt er þögn þess hávær.

 

Er það kannski misskilningur hjá lækninum að við "flest" þekkjum muninn á réttu og röngum, að við skiljum hvað felst í boðorðinu eina, Þú skalt ekki mann deyða.

Að við séum í raun óttalega fá.

Og náum ekki að yfirgnæfa þögnina.

 

Veit ekki, en hins vegar veit ég að málinu hefur verið áfrýjað til æðra dóms.

Og þegar sá dómur fellur þá mun margur faríseinn missa mátt orða sinna.

 

Því sá sem þegir, eða það sem verra er, gerir lítið úr ógninni eins og Rúv-ararnir gerðu í hádeginu með tölfræði ættaðri úr ranni andskotans, hann stendur alltaf berstrípaður á berangri réttlætisins, því réttlæti er algilt, en ekki eitthvað gagn sem hægt er að grípa í þegar það hentar hagsmunum hvers og eins.

Og það verður eins og hann sé staddur í speglasal, bending hans á aðra, verður eins og þúsund bendingar á hann sjálfan.

 

Það féll ekki dómur í dag.

Sjúklingurinn lifði, sú læknisþjónusta sem hann þurfti, var hægt að veita á Akureyrin.

 

En það er aðeins "tímaspursmál" hvenær hann fellur.

Kveðja að austan.


mbl.is Fleiri tilfelli muni koma upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. desember 2016

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 95
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 5412
  • Frá upphafi: 1338870

Annað

  • Innlit í dag: 73
  • Innlit sl. viku: 4759
  • Gestir í dag: 69
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband