28.12.2009 | 17:17
"I am not a crook" sagði Guðbjartur Hannesson
í ICEsave umræðunni á Alþingi núna rétt áðan.
Var hann þar að svara áburði Vigdísar Hauksdóttir um að hann talaði máli breta og Hollendinga í ICEsave deilunni.
"Þetta er sá samningur sem bretar og Hollendingar vilja, og hann verður Alþingi að samþykkja, annars náum við ekki sátt við "alþjóðasamfélagið" og fáum ekki erlent lánsfé inn í landið."
Þetta eru þau rök sem formaður fjárlaganefndar notar til að réttlæta viðsnúning sinn gagnvart þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti í sumar á ríkisábyrgð íslensku þjóðarinnar á skuldum Björgólfs og Björgólfs.
Þetta eru rök Samfylkingarinnar fyrir að borga úr ríkiskassa almennings 100 milljónir á dag í vexti vegna einhvers sem þjóðin á ekki að borga, hvorki lagalega eða siðferðislega. Og auk þessa hundrað milljóna, þá er sjálfur höfuðstóllinn eftir, og um hann ríkir mikil óvissa. Skuldabréfið sjálft er upp á 650 milljarða, og það vita allir með lágmarks vit, að maður skuldar það sem maður skrifar upp á, þar til annað kemur í ljós.
Þegar vextir og höfuðstóll eru lagðar saman, þá er ljóst að um drápsklyfjar er að ræða, skýrt brot á stjórnarskránni, auk ólöglegrar málsmeðferðar á öllum stigum málsins. Því fjárkúgararnir láðust að fá samþykki lögbundinna stofnana EES, töldu það duga að fá samþykki Samfylkingarinnar á fjárkröfum sínum.
Og hver eru þessi rök, þegar lygavaðall keyptra leigupenna breta á Íslandi hefur verið hrakinn inn í dýpstu skúmaskot????? Og þaggað niður Riddurum heimskunnar sem riðu röftum fjölmiðlanna eins og Glámur forðum.
Jú, rökin eru hin meinta sátt við "alþjóðasamfélagið", og aðgangur að erlendu lánsfé. Á mannamáli þýðir þetta, að þeir sem þegar hafa ekki fengið laun eða dúsur fyrir að styðja breta, þeir eru lyddur sem hræðast vindgaul fretkarla og telja að fýlan af þeim geti valdið hörmungum, líkt og þeim sem greint er í Biblíunni um plágurnar sjö.
En Ísland er lýðræðisríki, og huglægur ótti er ekki rök fyrir skattaáþján og þeim hörmungum sem óhjákvæmilega mun fylgja skuldbindingum af þeirri stærðargráðu sem ICEsave ríkisábyrgðin er. Stjórnarskráin er skýr hvað það varðar að "af því bara að ég er hræddur" er ekki rök sem réttlæta ríkisábyrgð.
Lítum því á fyrri röksemdina, hina meintu sátt við "alþjóðasamfélagið". Frá 1945 er aðeins ein stofnun tæk til að tjá rödd alþjóðasamfélagsins, og það eru Sameinuðu þjóðirnar. Ef þjóðríki lendir í "ósátt" við "alþjóðasamfélagið", þá hefur viðkomandi ríki fengið á sig skýra ályktun frá Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um að hegðun þess sé óásættanleg. Eins hefur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna vald til að setja þjóðir út af hinum alþjóðlega sakramenti. En í alþjóðalögum er hvergi minnst á að þetta vald sé í höndum embættismanna Evrópusambandsins, Samfylkingarinnar, eða talsmanna breskra stjórnvalda.
Og ef ekki liggur fyrir í þingskjali staðfest ályktun Sameinuðu þjóðanna að Íslands sé í "ósátt" við alþjóðasamfélagið, og leiðin til "sáttar" sé að samþykkja ríkisábyrgð á ICEsave, þá fer Guðbjartur Hannesson með rangt mál. Hann lýgur, hann er Crook. Og slík framkoma, að ljúga til um rök í svona stóru máli eins og ICEsave er, það er ekki aðeins ámælisvert, það er lögbrot, og myndu hjá öllum alvöru þjóðum kalla á tafarlaus inngrip réttarkerfisins.
En á Íslandi kallast þetta leiðin að norrænni velferðarstjórn.
Og seinni rök Guðbjarts eru litlu haldbetri. Vissulega liggur það fyrir að Evrópskir sjóðir eru í dag stjórnað af mönnum lögleysu og fjárkúgunar. En ekkert liggur fyrir um að þeim sé stætt af slíkum brotum eftir að stofnanir EES hafa dæmt þær ólöglegar. Og þó svo væri, ætlar þessi þjóð að borga 35-50 milljarða árlega í erlendum gjaldeyri til að fá lánafyrirgreiðslu upp á 35 milljarða í erlendum gjaldeyri, en það er sú fyrirgreiðsla sem er frosin í hinu evrópska lánakerfi?????
Frostið í hina evrópska lánakerfi er það eina sem er haldfast í rökum Guðbjarts. Og þetta lánakerfi lánaði síðast fyrir 5-10 árum síðan, þannig að neyða þjóð sína að borga hundruð milljarða vegna nokkurra tuga milljarða lánveitinga í orkuframkvæmdir, í þegar yfirskuldsett orkufyrirtæki, það er ekki heimska, ekki einu sinni algjör fáráð, einna helst er eitthvað hugtak til yfir geðsjúkt fólk, sem hefur misst allt raunveruleikaskyn, sem gæti útskýrt þessi hugrenningartengsl formanns fjárlaganefndar. Rök sem flokkssystkini hans í Samfylkingunni hengja sitt síðasta haldreipi á svo þau standi ekki berstrípuð á víðavangi sem siðlaust landsölufólk og þjóðníðingar.
En það er verið að tala um erlenda lánafyrirgreiðslu almennt segja þá þingmenn Samfylkingarinnar. Og um þá röksemd eins og aðrar, það þarf að sanna hana, sína fram á að til dæmis samtök erlendra fjármálastofnana hafi samþykkt að lána ekki til Íslands nema ICEsave skuld Björgólfs og Björgólfs verði greidd. Og síðan þarf að liggja fyrir lögformleg skuldbinding þessara sömu fjármálafyrirtækja, um að þær ætli að lána gjaldþrota þjóð sem notar allar sínar tekjur í að borga ICEsave skuldina.
Og slíkar skriflegar staðfestingar liggja ekki fyrir Alþingi. Í fyrsta lagi vegna þess að slík alþjóðleg samtök fjármálafyrirtækja eru ekki til, og því er ekki til aðili sem getur talað fyrir hönd allra fjármálastofnana heimsins, og í öðru lagi þá er það fáheyrt, líklegast einsdæmi í allri heimssögunni, að bankar lýsi því yfir að þeir láni aðeins til þjóðríkis, ef það gerir sig fyrst gjaldþrota, svo öruggt er að það geti ekki greitt lán sín til baka.
Og sannasta held ég að jafnvel þó öll geðsjúkrahús heimsins yrðu tæmd, þá finnist þar ekki sjúklingur nógu veruleikafirrtur sem tryði slíku athæfi upp á bankastofnun. Þó mætti örugglega finna 2-3 sem tryðu því að Liverpool gæti orðið Englandsmeistari á næstu 3 árum. En að finna einhvern, sem tryði því að bankar færu fyrst fram á að fyrirhugaður lántakandi skuldsetti sig til andskotans, áður en þeir lánuðu honum, slíkt er útilokað.
Af rúmlega 6 milljörðum jarðarbúa má aðeins finna nokkur gamalmenni á Íslandi sem trúa slíkum öfugmælum, og þau eru öll kjósendur Samfylkingar og VinstriGrænna. Og aðeins djúpstæð óvild á Sjálfstæðisflokknum útskýrir þessa trúgirni. Sumum er það áskapað að vilja fórna sér og sínum vegna persónulegrar óvildar eða haturs, gamalt og nýtt þema í mörgum harmleikjum.
Og það er harmleikur að þjóðin skuli leyfa þjónum erlendra ríkja, sem ætla að kúga aleiguna út úr íslensku þjóðinni, að komast upp með bábiljur og lygar á þjóðþingi sínu. Vegna þess að Guðbjartur Hannesson er Crook, hann trúir ekki sjálfur rökum sínum. Þau eru sett fram til að blekkja vitgranna fölmiðlamenn svo þeir geti fóðrað trúgjarna sálir svo þær styðji níðingsverk Samfylkingarinnar.
Ísland á að komast í Evrópusambandið með góðu eða illu. Og fyrst það tókst ekki með góðu, þá seldi Samfylkingarfólk sálu sína eins og Galdra Loftur forðum og notar fordæðuskap til að ná fram markmiðum sínum.
En það mun fara fyrir Samfylkingunni eins og Lofti forðum, jörðin mun gleypa hana og engin mun sakna hennar frekar en Lofts forðum daga.
Því fordæður eru best geymdar í neðra.
Ekki á Alþingi Íslendinga.
Kveðja að austan.
Vilja vísa Icesave frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.3.2011 kl. 15:30 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 216
- Sl. sólarhring: 875
- Sl. viku: 5947
- Frá upphafi: 1399115
Annað
- Innlit í dag: 182
- Innlit sl. viku: 5037
- Gestir í dag: 177
- IP-tölur í dag: 174
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.