17.12.2009 | 13:11
Neyðarlögin eru æðri jafnræðisreglu.
Öll könnumst við fullyrðingar eins og það er engin munur á ICEsave reikningunum og útibúi Landsbankans á Raufarhöfn. Að neyðarlögin mismuni eftir þjóðerni, að neyðarlögin ríkistryggi innlán á Íslandi og því sé það brot á jafnræðisreglu EES samningsins að þau skuli ekki líka tryggja innlán í útibúum íslenskra banka í Englandi og Hollandi.
Og með þessum rökum er fólk að reyna sannfæra sjálft sig um að það verði að þræla fyrir ICEsave næstu áratugina. Því allt í einu urðu Íslendingar svo löghlýðnir að allt í einu vildu þeir frekar deyja sultardauða en að gerast lögbrjótar á jafnræðisreglu ESB.
Og ef þjóðin borgar ekki ICEsave þá munu koma hérna skikkjuklæddir menn með hvítar hárkollur á höfði og fá atbeina íslenskra dómsstóla til að dæma eignir af þjóðinni og ráðstafa skattpening almennings í breskan og Hollenska ríkissjóði, þvert á lög landsins og stjórnarskrá. Það skiptir engu máli þó það hafi verið upplýst að ESA hafi 7 sinnum fellt upp úrskurð sem kveður á um rétt íslenska ríkisins til að verja bankakerfi sitt, það skiptir engu máli þó það sé reglulega útskýrt fyrir fólki að engin innlán á Íslandi séu ríkistryggð, aðeins liggja fyrir orð fyrrverandi forsætisráðherra þar um, og það er eins fólk átti sig ekki á því að alþjóðalög og alþjóðlegir mannréttindasamningar kveði á um rétt almennings til mannsæmandi lífs og rétt þjóða þeirra til að verja fullveldi sitt og tilveru með neyðarlögum.
Neyðarlög eru öllum öðrum lögum æðri, um það er hvergi deilt.
Það sem má deila um er tilefni þeirra, hvort það sé nægjanlegt til að réttlæta þær ráðstafanir sem til var gripið.
En þeir félagar Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson skrifuð grein í Morgunblaðið þar sem þeir jörðuðu þessa bábilju. Vissulega fékk þessi grein enga athygli í fjölmiðlum og meðal fjölmiðlamanna enda er hún full af staðreyndum sem útskýra réttarstöðu þjóðarinnar og leiðrétting á helstu rangfærslum dægurumræðunnar. En hún hefur farið víða á Netinu og oft til dæmis verið birtir kaflar úr henni hér á þessu bloggi.
En ég ætla að birta hana alla núna, handa þeim sem ekki hafa ennþá lesið þessa grein. Vek athygli á að ESA hefur staðfest málflutning þeirra félaga og eins vil ég vekja athygli á þeirri staðreynd sem þeir benda á með algengasta misskilning neyðarlaganna. Í þeim voru innlán flutt yfir í Nýja banka, sem eru ekki stofnanir ríkisins. Þess vegna eru innlán ekki ríkistryggð. Falli þessir bankar, þá falla innlánin, ef eignir duga ekki fyrir þeim. Þetta er staðreynd sem er öllum bretavinum kunn, en þeir kjósa samt að halda öðru fram því þeir vita eins og er að ef lygin er endurtekin nógu oft, þá fær hún sjálfstæða tilveru.
Og það er lygi að innlán á Íslandi séu ríkistryggð.
Kveðja að austan.
Mismunun og Icesave
Eftir Stefán Má Stefánsson og Lárus L. Blöndal
Í GREINUM sem við undirritaðir höfum ritað um ábyrgð Íslands á innistæðum í íslenskum bönkum höfum við m.a. komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið sé ekki greiðsluskylt samkvæmt tilskipunum ESB um innistæðutryggingar. Þau rök hafa komið fram gegn þessari niðurstöðu okkar að innistæðueigendur í erlendum útibúum íslenskra banka hafi verið beittir mismunun sem eigi að leiða til greiðsluskyldu. Þetta teljum við ekki rétt og setjum því hér fram nokkur atriði sem fela í sér rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu.
Forgangsréttur innistæðueigenda innan gömlu bankanna.
Með 6. gr. laga nr. 125/2008 (neyðarlögin) var kveðið á um að við skipti á búi fjármálafyrirtækis skyldu kröfur vegna innstæðna samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta njóta rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga.Þetta þýðir að kröfur innstæðueigenda í fjármálafyrirtækjum fá forgang og verða greiddar áður en kemur til greiðslu á kröfum almennra lánadrottna úr búum þeirra. Umræddar reglur um forgang hafa almennt gildi þannig að þær gilda jafnt fyrir innistæðueigendur hér á landi og í útibúum erlendis.
Ákvæðið felur því ekki í sér mismunun gagnvart erlendum innstæðueigendum því að þeir sitja við sama borð og þeir íslensku sé tekið mið af réttarstöðunni innan gömlu bankanna.
Fólst mismunun í stjórnsýsluákvörðuninni um yfirtöku banka?
Með 3. mgr. 1. gr. neyðarlaganna var gert ráð fyrir því að ríkið geti stofnað hlutafélag til að taka við rekstri fjármálafyrirtækis. Samkvæmt þessari heimild tók íslenska ríkið yfir Glitni banka hf., Kaupþing banka hf. og Landsbanka Íslands hf. að öllu leyti á haustdögum 2008, samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.Með stjórnsýsluákvörðun Fjármálaeftirlitsins var innlend bankastarfsemi tekin út úr gömlu bönkunum og stofnað um þau hlutafélög í opinberri eigu. Þar með fylgdu innistæður í bönkum hér á landi hvort sem þær tilheyrðu innlendum eða erlendum aðilum. Hér er um að ræða hlutafélög sem njóta ekki ríkisábyrgðar að neinu leyti. Fullt verð verður greitt fyrir þann hluta, sem tekinn var, þannig að nettóandvirði rennur inn í bú gömlu bankanna og kemur þar til úthlutunar með venjulegum hætti.
Gera verður ráð fyrir því að innistæðueigendurnir í nýju bönkunum séu einkum persónur eða fyrirtæki sem eiga heimili og stunda vinnu eða hafa starfsemi hér á landi. Það er forsenda fyrir tilvist hvers fullvalda ríkis að til séu bankastofnanir sem eru tengdar ríkinu traustum böndum og hafa það hlutverk að geyma, ávaxta og miðla peningum til verkefna innanlands. Fullvalda ríki verður tæpast byggt og rekið á annarri forsendu.
Spyrja má hvort innistæðueigendur íslenskra bankaútibúa erlendis hafi með umræddri aðgerð verið beittir mismunun miðað við eigendur innistæðna sömu banka hér á landi.
Þess er þá fyrst að geta að ríki eru sjálfstæðir aðilar bæði að EES- og ESB-rétti og mynda raunar grundvöll eða stoðir samninganna um þau. Þannig er réttur og tilvist þjóðríkja sérstaklega varinn í samningunum um ESB og EES-samningurinn telst samningur milli sjálfstæðra ríkja og ESB. Sú grundvallarregla gildir að þær stofnanir sem starfa eftir samningunum um ESB eða EES geta ekki tekið sér neitt vald sem ekki er veitt þeim í samningunum.
Samkvæmt Maastrichtsamningnum ber ESB að virða einkenni og stjórnkerfi aðildarríkjanna enda er þar gert ráð fyrir tilvist aðildarríkjanna með margvíslegum hætti. Þessi sjónarmið eiga auðvitað enn frekar við um EFTA/EES-ríki sem hafa ekki tekið þátt í þeim samruna sem ESB stefnir að. Af því leiðir svo aftur að heimilt er og lögmætt að taka tillit til sjónarmiða sem varða brýna efnahagslega hagsmuni eins aðildarríkis án þess að taka tillit til efnahags annars aðildarríkis þar sem slík sjónarmið eiga ekki við að sama skapi. Það er því ljóst að hvert ríki hefur víðtækan rétt til að verja tilverurétt sinn hvort sem miðað er við samningana um ESB eða EES.
Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er sú að fyrrgreindar aðgerðir stjórnvalda voru taldar nauðsynlegar til að verja og viðhalda bankakerfi innanlands. Slíkt hefði ekki verið unnt að gera með því að tryggja innistæðueigendum í erlendum útibúum sömu meðferð. Þeir sem þar áttu innistæður eru ekki í neinum sambærilegum hagsmunatengslum við Ísland og þeir sem eiga innistæður hér á landi. Verulegar líkur eru á því að innstæðueigendur erlendis hefðu einfaldlega tekið út allar innistæður sínar ef reglurnar hefðu verið látnar ná til þeirra og þar með gert innlenda bankastarfsemi að engu. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að eigendur innistæðna erlendis hefðu leyst út íslenskar krónur og notað hér á landi með sama hætti og þeir sem áttu innistæður hérlendis.
Meginatriðið er að innistæðueigendur útibúa, t.d. í Bretlandi og Hollandi, eru ekki tengdir íslenskum hagsmunum með sama hætti og menn og fyrirtæki með heimili hér á landi, t.d. með hliðsjón af fjárfestingum, félagslegri aðstoð, sköttum og fleiri atriðum.
Af þessu má ráða að innistæðueigendur í erlendum útibúum íslenskra banka voru í annarri stöðu heldur en þeir sem áttu inneignir í sömu bönkum hér á landi. Réttarstaða þeirra var með öðrum orðum ekki sambærileg. Af því leiðir að ekki var um mismunun að ræða við fyrrgreinda aðgerð.
Þessu til viðbótar er rétt að koma því á framfæri að það er vel þekkt í Evrópurétti að ráðstafanir sem kunna að fela í sér mismunun en eru engu að síður óhjákvæmilegar vegna þjóðfélagsþarfa í almannaþágu fá staðist. Má nefna marga dóma dómstóls ESB því til sönnunar. Enginn vafi er á því að verði talið að efnahagslegt hrun hafi blasað við hér á landi nægir það til að réttlæta frávik frá umræddri meginreglu.
Skilyrðin fyrir frávikunum eru þó ávallt þau að gætt sé meðalhófs. Er erfitt að sjá að vægari kostur hafi verið í stöðunni. Þess ber einnig að gæta að samkvæmt dómafordæmum dómstóls EB hafa aðildarríkin sjálf talsvert mat um það hvort fyrrgreindum skilyrðum hafi verið fullnægt enda tæpast á færi dómstóls að meta aðgerðir til að koma í veg fyrir efnahagshrun heillar þjóðar.
Yfirlýsing stjórnvalda um ábyrgð ríkisins á greiðslu til innstæðueigenda
Forsætisráðherra gaf þá yfirlýsingu seint á síðastliðnu ári að íslenska ríkið myndi tryggja innlánseigendum hér á landi fjárhæðir þeirra á innistæðureikningum. Yfirlýsingin mun hafa verið sett fram umfram skyldur íslenska ríkisins og væntanlega í þeim tilgangi að tryggja að unnt væri að starfrækja innlenda innlánastarfsemi í framtíðinni, reyna að viðhalda sparnaðarvilja almennings, tryggja efnahagslegan stöðugleika og koma í veg fyrir efnahagslegt hrun.Þrátt fyrir þetta er hér aðalatriðið að yfirlýsing ráðherra af þessu tagi er óskuldbindandi því henni var aldrei fylgt eftir með lögum (hún krefst samþykkis í fjárlögum, fjáraukalögum eða venjulegum lögum) né kom hún til framkvæmda á einn eða neinn hátt. Þvert á móti verða innistæðueigendur í nýju bönkunum að sætta sig við að bankarnir eru reknir í formi hlutafélaga og ábyrgðin í aðalatriðum takmörkuð við gjaldþol þeirra félaga.
Af þessum sökum fellur umrædd yfirlýsing stjórnvalda hvorki undir 4. gr. EES-samningsins né önnur ákvæði hans um fjórfrelsið. Í fyrri skrifum okkar höfum við einnig talið að yfirlýsingar af þessu tagi féllu ekki undir gildissvið nefndrar 4. gr. Verður sú umræða ekki endurtekin.
Niðurstaða
Af framangreindu má vera ljóst að þau sjónarmið, sem fram hafa komið, um að mismunun íslenskra stjórnvalda gagnvart eigendum innistæðna í útibúum íslensku bankanna erlendis hafi skapað greiðsluskyldu, fá ekki staðist. Gildir þetta hvort sem horft er til neyðarlaganna, stjórnvaldsákvarðana í tengslum við endurreisn bankakerfisins eða yfirlýsingar ráðherra um ríkisábyrgð á innistæðum.Stefán Már er prófessor. Lárus er hæstaréttarlögmaður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.3.2011 kl. 16:46 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 22
- Sl. sólarhring: 629
- Sl. viku: 5606
- Frá upphafi: 1399545
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 4779
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
"Það skiptir engu máli þó það hafi verið upplýst að ESA hafi 7 sinnum fellt upp úrskurð sem kveður á um rétt íslenska ríkisins til að verja bankakerfi sitt.."
Auðvitað skiptir það máli að ESA komist að það hafi ekki brotið gegn EES samningum að gera innlán að forgangskröfu. Að sjálfsögðu. Einnig skiptir máli að álit ESA fjallar eigi um mismun innlánseigenda eftir þjóðerni/búsetu:
"As your clients are not depositors, this letter does not deal with the compatibility under EEA law of the difference in treatment, due to the Icelandic emergency measures, between domestic deposits and deposits held in branches of Icelandic banks in other EEA States."
Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.12.2009 kl. 14:39
Blessaður nafni.
Þú fannst þér einhverja syllu til að hanga á.
Jú, ESA tók ekki afstöðu til mismunar milli innlendra útibúa og erlenda, enda ekki beðin um það, og ekki hættandi á refsiaðgerðir breta, svona að óþörfu.
En þú hefur samt ekki alveg náð þessu. ESA tók ekki heldur afstöðu sem slíka að gera innlán að forgangskröfu, það fólst vissulega í úrskurði ESA, en ESA er að taka afstöðu hvort íslensk stjórnvöld hafi verið í rétti til að setja sín neyðarlög, hvað víkur EES samningnum. Og auðvita komust þau að þeirri niðurstöðu að slíkt stæðist, enda skýrt kveðið á um fullveldi þjóða og neyðarrétt þeirra í EES samningnum, enda stæðist hann þá ekki alþjóðalög.
Og ef þú viðurkennir grunnréttinn til neyðarlaga, þá viðurkennir þú innihald þeirra, ekki nema þá að það sé út í kort miðað við tilefnið.
Og hvernig dettur þér í hug í eina mínútu að ESA samþykki neyðarrétt þjóðar, en í næstu setningu afturkallar hann með tilliti til jafnræðisreglu, sem er ekki forgangsregla alþjóðarréttar. Að viðurkenna neyð, og skapa svo ennþá meiri neyð í næstu setningu. Ennþá dag í dag er langt í land með það að ef til neyðarástands kemur í einu landi, þá megi stjórnvöld viðkomandi lands ekki gripa til neyðarráðstafana án þess að hjálpa restinni af jarðarbúum í leiðinni.
Það verður kannski einhvern tímann en ekki næstu aldirnar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 17.12.2009 kl. 19:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.