Hlustið á orð þeirra, þið meintu lögbrjótar.

Áður en þið lendið öll í grjótinu eftir að þjóðin hefur séð í gegnum klæki ykkar og mútaða þjónustu við erlend ríki.

Það kallast landráð og við því eru þungar refsingar. 

Þið létuð Snata ykkar á Ruv slá því upp í fréttum í gær að 3 af 4 lagaprófessorum sem komu fyrir fjárlaganefnd í gær hefðu sagt nefndinni að Svavarsfrumvarpið hið seinna stangaðist ekki á við stjórnarskrána.  

Þið treystuð á það að andlegt atgervi fréttamanna Ruv væri ekki það mikið að þeir hefðu mátt til að kynna sér bakgrunn lagaprófessoranna eða rökstuðning þeirra.  En þið vanmátuð íslenska lögmenn, þeir eru ekki allir í vinnu hjá ykkur.  En lítum fyrst aðeins nánar á þá lagaprófessora sem gáfu fjárlaganefnd sitt álit.

Eiríkur Tómasson hefur frá því að elstu menn muna, og líklegast mun fyrr, gefið lagaálit sem styðja málstað ríkisstjórna hverju sinni.  Þegar dómur fellur með ríkinu, þá hefur Eiríkur rétt fyrir sér, þegar dómur fellur gegn ríkinu, þá hefur hann rangt fyrir sér.   Með öðrum orðum þá þiggur hann laun fyrir að vera stimpill stjórnvalda og hefur haft ágæta lífsafkomu af því.

Ragnhildur Helgadóttir vinnur hjá Háskólanum í Reykjavík og þar er ein grunnregla í gildi, þú slærð ekki á hönd þess sem fæðir, annars fer skólinn á hausinn, og allir missa vinnuna.

Björg Thorarensen er meiri spurning.  Hefði viljað heyra rök hennar.  En það er áberandi að eftir að Björg fékk feitt embætti hjá Samfylkingararmi ríkisstjórnarinnar, þá hvarf stuðningur hennar við þjóðina út í tóm þagnarinnar.  En hæfur lögfræðingur er hún engu að síður, og rök hennar ber að virða.

Sigurður Líndal, er hollur þegn lagagyðjunnar, og hans álit taka mið að henni, ekki þeim hagsmunum sem er verið að verja hverju sinni.  Stundum er hann með, stundum á móti, en rökin fær hann frá lagagyðjunni, ekki veski sínu.  En hann er vissulega óskeikull eins og aðrir menn, en hann rökstyður sinn vafa, og aðeins dómsstólar geta skorið þar úr um.

En margt og mikið má skrifa um hið meinta stjórnarskrárbrot.  Málflutningur landráðafólks er sá að það sem er ekki beinlínis bannað, það er leyft.  Og orðalag skiptir máli.  Sé glæpurinn ekki nákvæmlega orðaður í lögum, þá ná lög ekki yfir hann. 

Sá sem staðinn er að verki við bankarán, hann segist einfaldlega vinna við frjálsa peningaflutninga og vísar síðan í frelsisákvæði fjórfrelsisins.  Sá sem staðinn er af líkamsmisþyrmingum, hann segir ef hann er einn á ferð, að hann hafi verið að veita frjálst nudd, harkalegu útfærslu king kong kerfisins, vísar síðan í lög um atvinnufrelsi og frjálsa markaðskynningu.  En ef þeir eru tveir, þá krefst hann að Arngrímur dæmi hann og þar ber hann við þeirri vörn að hinn hafi slegið.  Og er síðan sýknaður.

Sá sem leggur landa sína í skuldánauð erlenda ofbeldismanna, hann bendir réttilega á með stuðningi Eiríks, Ragnhildar og Bjargar, að það standi hvergi í stjórnarskrá Íslands að  það megi ekki setja á óbærilegar skattaálögur vegna þjónkunar við erlenda ræningja, og það standi hvergi að það megi ekki gera landið gjaldþrota ef 33 þingmönnum sýnist svo.  Og vissulega er það rétt, höfundar stjórnarskrárinnar höfðu ekki hugmyndaflug til þess sjá fyrir þann glæp.  En almennu varnirnar eru skýrar. 

Í þessu samhengi má geta þess að ekkert í íslensku stjórnarskránni beinlínis bannar VG að taka upp velheppnaða aðgerð Stalíns, flokksleiðtoga, til þess að þagga niður Andstöðu þjóðarinnar við stjórn þeirra.  Stalín drap 6 milljónir úr hungri í Ukraníu í byrjun fjórða áratugarins með svo í þyngjandi skattheimtu að fólk svalt heilu hungri, og féll um veturinn.  Þeir sem lifðu héldu síðan kjafti, hætti ekki á annað skattaátak.  En þó afleiðingarnar voru slæmar, þá var viljinn góður, það var verið að moka flórinn eftir íhald keisarastjórnarinnar, og til þess þurfti að taka erfiðar ákvarðanir.  En fyllsta jafnræðis var gætt, það sultu allir, og engu ofbeldi var beitt, ekki nema þegar ríkið þurfti að halda uppi almanna reglu og ró þegar hungrað fólk reyndi að brjótast inn í matarskemmur.

Þetta kaldranalega dæmi sýnir heimsku þeirra sem hengja sig í beina orðatúlkun laga, en líta algjörlega fram hjá þeim tilgangi sem þau þjóna og þeim réttindum sem þau eiga að verja.  Vissulega er ekkert í stjórnarskrá Íslands sem beinlíns bannar íþyngjandi skattheimtu sem gerir fólki ókleyft að framfæra sér.  Og vissulega er ekkert sem beinlínis bannar að veita erlendum ríkjum ríkisábyrgð á skuld sem kemur íslenska ríkinu og íslensku þjóðinni ekkert við.  Jafnvel þó þessi skuldaviðurkenning þýði endalok íslensks sjálfstæðis. 

Heldur er ekkert í stjórnarskrá Íslands sem beinlínis bannar Stalíns aðferðina, og hún stangast ekki heldur beint á við mannréttindaákvæði Sameinuðu þjóðanna.  En hún stangast á við öll réttindi fólks sem stjórnarskráin er að verja og banvæn skattheimta stangast á við meginmarkmið og tilgang Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna eða Mannréttindasáttmála Evrópu.  En það hafði bara enginn hugmyndaflug að orða slík ósköp beint.

Og um það snýst ICEsave deilan.  Má allt sem ekki er bannað bókstaflega með þeim orðum sem lýsa glæpnum, eða eru réttindi fóks og þjóðar sem stjórnarskráin á að tryggja, og yfirlýstur tilgangur hennar er,  æðri illskuverkum stjórnmálamanna, sem klækjarefir lögmannastéttarinnar klæða síðan í einhvern þann orðhengilshátt að lög nái ekki yfir.

Með öðrum orðum þá snýst ICEsave deilan um grundvallaratriði siðaðs þjóðfélags.  Um sjálfa tilveru siðmenningarinnar, má gera fólki og þjóðum allt, bara ef gerandinn hefur vald til þess.

En lokaorð mín eru frá Stefáni, Sigurði og Lárusi í Morgunblaðsgrein þeirra i dag. 

Í 40. gr. stjórnarskrárinnar er m.a. svo mælt að ekki megi taka lán er skuldbindi ríkið nema með lagaheimild. Enginn vafi er á því að ákvæðið nær til ríkisábyrgðar slíkrar sem hér um ræðir. Með þessu er verið að tryggja forræði Alþingis og þá óbeint þjóðarinnar á því hverjar kvaðir íslenska ríkið megi gangast undir.

Einnig má halda því fram að verið sé að ganga á lýðræðislegan rétt kjósenda með því að binda hendur Alþingis gagnvart erlendum ríkjum til ófyrirsjáanlegrar framtíðar við skuldbindingar sem geta reynst þjóðarbúinu ofviða og eru þar að auki líklega umfram lagaskyldu. Slíkt fær vart staðist 1. gr. stjórnarskrárinnar um löggjafarvald Alþingis.

Í stuttu máli má halda því fram með fullum rökum að verið sé að skerða fullveldi ríkisins umfram það sem stjórnarskrá heimilar.

Þessi orð skilja allir nema þeir sem eru örvita eða ala landráð í brjósti, eða þeir sem voru alltaf svag fyrir Philby og Burgess, vilja líka vera föðurlandssvikarar eins og fyrirmyndir sínar.

 

En allt venjulegt fólk skilur þessi einföldu sannindi.

 

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Segja Icesave-lög geta verið brot á stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Umrenningur

Sæll kæri Ómar.

Það verður seint hrakið að þú kannt að orða það sem flestir Íslendingar hugsa þessa dagana. Takk kærlega fyrir frábæra málsvörn Íslendinga.

Íslandi allt

Umrenningur, 2.12.2009 kl. 10:09

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já þér mælist vel.  Tek undir orð þín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.12.2009 kl. 10:21

3 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

takk fyrir Ómar

Jón Snæbjörnsson, 2.12.2009 kl. 10:22

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið og hlý orð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2009 kl. 11:17

5 Smámynd:  Birgir Viðar Halldórsson

Ómar - Takk fyrir þetta og að segja þetta á íslensku. Framkoma ríkisstjórnarinnar í Icesavemálinu er ekkert annað en ofbeldi!

Birgir Viðar Halldórsson, 2.12.2009 kl. 11:23

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Blessaður Ómar.

Það er alveg klárt að stjórnarskráin íslenska bannar allar þær aðgerðir sem stofna grunnstoðum samfélagsins í hættu. Hvað sem þær heita og í hvers þágu. Landráðkafli almennra hegningarlaga tekur svo af öll tvímæli hvað grunnstoðir samfélagsins varða, allar aðgerðir eða aðgerðaleysi sem stofna grunnstoðunum í hættu eru landráð. Flóknara er það ekki. Gallinn við þennan kafla í almennum hegningarlögum er hins vegar sá að þrátt fyrir augljós brot þá er aðeins einn aðili í landinu sem getur beitt þessum kafla almennra hegningarlaga og það er hæstvirtur dómsmálaráðherra.

Kveðja að norða.

Arinbjörn Kúld, 2.12.2009 kl. 14:03

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir Birgir.  Svo ég vitni í orð Steingríms Joð, þá er þetta "fordæmalaust".

Og Arinbjörn, ég tel að mat þitt sé rétt, enda tel ég greinarstúf eftir þig hafi fyrst kveikt þessar hugsanir hjá mér.  Og loksins núna, þá eru málsmetandi lögfræðingar farnir að taka undir þessi sjónarmið.  Og í Hæstarétti er ekki fólk, sem á afkomu sína undir bretavinum. 

Og eftir því sem ég best veit, þá má almenningur höfða mál út af stjórnarskránni, og vonandi mun hann gera það ef þessi lög verða samþykkt.  Og hjá mörgum þjóðum myndi Hæstiréttur viðkomandi lands, taka ICEsave frumvarpið sjálfur til athugunar og úrskurðar.

En þó þessi örpistill hefði orðið lengri (vegna leti minnar í morgunn), þá var upprunaleg hugmynd hans að minna á að þessi lög gætu haft afleiðingar.  Því ný ríkisstjórn gæti tekið völdin þegar almenningur mun loks grípa til aðgerða gegn þessum Leppum AGS. 

Annað  eins hefur gerst í löndum þar sem sjóðurinn hefur skipulagt aðför af eigum almennings. 

Og nýr dómsmálaráðherra, hann gæti gripið til landráðakafla hegningarlaganna og lögsótt bretavini fyrir landráð.

Ekki það að ég hafi nokkurn áhuga á því, tel framtíðina skipta meira máli, og tel einhverja glópsku hafa glapið vit þessa fólks.  En ég mun ekkert hafa um það að segja hvað reitt fólk krefst þegar að skuldaskilum kemur.

Þess vegna er betra að fella þessa stjórn fyrr, en seinna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2009 kl. 14:35

8 identicon

Góður pistill, Ómar og held í vonina að þú hverfir nú ekki þrátt fyrir sí-endutekna brandara þar um -_-

"Sá sem staðinn er að verki við bankarán, hann segist einfaldlega vinna við frjálsa peningaflutninga og . . ."

Kannsi verður þetta eina leiðin til að fá vinnu í ræningjabælinu sem landið er orðið?

"Í þessu samhengi má geta þess að ekkert í íslensku stjórnarskránni beinlínis bannar VG að taka upp velheppnaða aðgerð Stalíns, flokksleiðtoga, til þess að þagga niður Andstöðu þjóðarinnar við stjórn þeirra." 

Verð nú að segja að mér finnst Björn Valur Gíslason vera farinn að haga sér ansi grimmdarlega við stjörnarandstöðuna í teymi með Samfylkingar-andskotanum.  Hefði aldrei kosið flokk með slikum grimmdartólum viljandi. 

ElleE (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 22:35

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle.

Taldi þörf á að ræða hugsunina á bak við lögin og mannréttindasáttmála.  Þeir sem styðja ólög og svívirðu, þeir segja alltaf að það standi ekki í lögum að þetta og hitt sé bannað.  Og stóra skýringin á því að bankaþiggjendurnir komust svona langt í að leggja landið undir sig, var sú að það sem var ekki beinlínis bannað, það var leyft.

Og mikið til sömu lögfræðingar og lagaprófessorar skrifa upp á þessi álit, að það sé ekki til neitt grá svæði sem lög ná yfir.  Ef ekki orðrétt bannað, þá leyfilegt.  Þess vegna valdi ég þetta hungurdæmi Stalíns sem dæmi um hvað getur gerst "löglega" en lög hafa engan innri tilgang.

En hver sagði þér að ég væri hættur, aldrei verið hressari.  En það er til lítils að semja sína Höfuðlausn, ef enginn les.  Því er ég spar á nýja pistla næstu dagana.  En ég skaut inn einum áðan, held áfram að ráðast á helg vé.

Og svo bíð ég eftir Herhvötinni eins og aðrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.12.2009 kl. 11:27

10 identicon

"En hver sagði þér að ég væri hættur . . . " 

Frétti það úti í bæ. Og núna var kjaftarinn ekki Umrenningur. Smilie

"En það er til lítils að semja sína Höfuðlausn, ef enginn les.  Því er ég spar á nýja pistla næstu dagana. . . "

Ómar, þú ert svo duglegur að skrifa og við getum ekki öll lesið svona hratt svo það er í fína lagi að þú hægir á pistlunum og við fáum smá-sjens að lesa. 

ElleE (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 15:19

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Chao.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 4.12.2009 kl. 15:39

12 identicon

Ómar, ætlaði ekki að vera ruddaleg þarna með lesturinn. 

ElleE (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 19:01

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Elle, mín kæra, þú ert dama.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.12.2009 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 355
  • Sl. viku: 3852
  • Frá upphafi: 1329383

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 3378
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband