Hin meinta skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins

Vegna hugsanlegra vanefnda á framkvæmd tilskipunar ESB um innlánstryggingar.

 

Hróbjartur Jónatansson, hæstaréttarlögmaður, skrifaði grein í Morgunblaðið um miðjan ágúst þar sem hann reifaði hugsanlega skaðabótaábyrgð ríkisins vegna vanefnda á framkvæmd, og lagði til að ríkisstjórnin samþykkti ríkisábyrgðina möglunarlaust, því hugsanleg skaðabótaábyrgð gæti verið miklu hærri.  

Um þessa grein Hróbjarts bloggaði ég viku seinna undir heitinu "Meinloka lögmannsins" og mig langar til að birta útdrátt úr þeim pistli.   Núna í lokaorrustunni um sjálfstæði Íslands, er gott fyrir Andstöðuna að hafa þessi rök á takteinunum.  Þessi sjónarmið Hróbjarts eiga örugglega eftir að dúkka upp í umræðu næstu daga.

 

RÖK HRÓBJARTS FYRIR SKULDAÁNAUÐ.

 

Eru af tvennum toga.  Hann bendir á þá augljósu staðreynd að sjóðurinn hefur ekki fjármagn til að borga lágmarksvernd og hann gefur það í skyn að íslensk stjórnvöld hafi brugðist í sínu eftirliti með bankastofnunum á þann hátt að skaðabótaábyrgð gæti myndast. 

Lítum á fyrri röksemdina hjá lögmanninum.  "Það liggur í augum uppi að það kerfi sem komið var á með lögum um innstæðutryggingar veitir ekki fullnægjandi lágmarksvernd, peningar til þess að greiða lágmarksfjárhæðina til innstæðueigenda Landsbankans í Englandi og Hollandi eru ekki til í tryggingasjóðnum íslenska. Það þarf tæpast að fjölyrða um það frekar" segir Hróbjartur.  En af hverju eru ekki til peningar?  Augljósasta skýringin er sú að öll tryggingakerfi ráða ekki við allsherjarhrun, skiptir þá ekki máli hvort um bankatryggingar eða aðrar tryggingar er að ræða. 

Brugðust íslensk stjórnvöld í fjármögnun kerfisins??  Þau fóru í einu og öllu eftir tilskipun ESB.  Og sú tilskipun gerir ekki ráð fyrir kerfishruni.  Það er rétt hjá lögmanninum að innlánsverndin hverfur ekki við kerfishrun en hvernig á að fjármagna hana??  Tilskipunin kveður ekkert á um þaðEn hún segir orðrétt að aðildarríki séu ekki í ábyrgðSpurningin snýst því um gagnvart dómsstólum hvort það sé eitthvað annað í evrópskum rétti sem kveður á um greiðsluskyldu aðildarríkja.  En ef svo er þá þurfa þeir sömu dómsstólar að taka afstöðu til þess af hverju slíkt komi ekki skýrt fram í kjarnatilskipun ESB um innlánstryggingar og hvort ESB hafi vald til að setja slík íþyngjandi ákvæði á aðildarríki.  Vandséð er hvernig einstök aðildarríki hafi getað varið sig gegn slíkri ábyrgð, nema þá með óhóflegri skattlagningu og hefur ESB slíkt vald að krefjast skattlagningu á almenning vegna bankaviðskipta á frjálsum markaði??  Slík krafa þarf líka að standast önnur lög og reglur, til dæmis mannréttindaákvæði.  Ótakmörkuð ábyrgð getur leitt til slíkra skattpíningar að almenningur rísi ekki undir henni.

Spurningin er alltaf sú hvað má og hvað má ekki.  Ef um ótakmarkaða ábyrgð er að ræða, af hverju var þá ekki sagt frá henni í skýrum og skilmerkilegum lagatexta, þetta er jú grundvallaratriði, og ef um vafa er að ræða, hver ber þá ábyrgðina á honum?

En að fullyrða að íslensk stjórnvöld hafi ekki innleitt tilskipun ESB á réttan hátt vegna þess að ekki voru til peningar, það er rökvilla.  Tilskipunin sjálf gerði ekki ráð fyrir þeim aðstæðum sem upp komu.

 

Seinni röksemdarfærsla Hróbjarts snýr að ófullkomnu eftirliti íslenskra stjórnvalda með bönkunum og meintar skaðabótaábyrgðar vegna þess.  Ekki ætla ég að bera í bætifláka fyrir íslensk stjórnvöld en þar á bæ voru menn í góðri trú.  Vandséð er að hægt sé að sanna að gjörðir okkar stjórnvalda hafa á einhvern hátt verið öðruvísi en gjörðir stjórnvalda annarra ríkja.  Menn mega aldrei gleyma því að hið alþjóðalega fjármálakerfi riðaði til falls haustið 2008, og ennþá er ekki útséð um það.  Höfum nokkrar staðreyndir í huga.

 

1. Allt eftirlit fór eftir lögum og reglum ESB.  Eftirlitsstofnanir EES gerðu aldrei neinar athugasemdir við það.

2. Íslensku bankarnir stóðust öll álagspróf sem viðtekin voru í fjármálaheiminum.  Alþjóðleg matsfyrirtæki sem mátu styrk bankanna hækkuðu styrkleikamat sitt á þeim vorið 2008 og fegnu þeir þá hæstu einkunn.

3. Módelið sem íslensku bankarnir störfuðu eftir var ekki íslensk uppfinning og var ekkert veikburðaðri hjá okkur en öðrum þeim sem störfuðu eftir því.

4. Það voru ekki bara íslenskir bankar sem féllu haustið 2008, og mun fleiri höfðu fallið ef ekki hefðu komið til gífurleg inngrip ríkisvalds í Evrópu og Bandaríkjunum.  Slíkt var ekki hægt á Íslandi sökum stærðar bankakerfisins, en stærð íslenska bankakerfisins var ekkert einsdæmi, bæði bankakerfið í Sviss og Lúxemborg er margföld þjóðarframleiðslu viðkomandi landa. 

5. Það er hvergi bannað í Evrópskum lögum að menn og stjórnvöld megi ekki vera heimsk og frjáls markaður gerir ráð fyrir því að fyrritæki fari á hausinn ef þau standast ekki samkeppni.  Að fara á hausinn er ekki glæpur sem slíkur.

 

Ég ætla ekki að fullyrða hvernig hugsanleg skaðabótamál færu.  Málið er flóknara en það og Hróbjartur er heldur ekki maður til að fullyrða slíkt.  Hann eða aðrir Borgunarsinnar eru ekki lögmætur dómstóll og því er það út í hött þegar maðurinn út frá heimatilbúnum rökum fullyrðir seinna í grein sinni að "íslenska ríkið standi við skyldu sína" og tryggi lágmarksvernd innstæðna með því að skattleggja íslenskan almenning.  Það er hægt að standa við skyldur sínar á margan annan hátt en að skattleggja saklausan þriðja aðila og rústa lífsskilyrðum hans. 

Í því er hin meinta rökvilla lögmannsins fólgin.

Þú hengir ekki bakara fyrir smið.  Það kallast réttarmorð í siðuðu samfélagi.  Og það kallast líka villimennska að taka grunaða af lífi án dóms og laga.  Það er það sem hið Evrópska samfélag er að gera í ICEsave deilunni.

Íslenska ríkið stendur við skyldu sína með því að setja á neyðarlög þar sem innstæður eru gerðar að forgangskröfum.  Dugi það ekki til þá gerir það skyldu sína að biðja þjóðir heims um aðstoð um að finna alla þá fjármuni sem hugsanlega voru teknir út úr kerfinu á ólögmætan hátt.  Engin skattaskjól eða lagaflækjur eiga að koma í veg fyrir það.  Og dugi það ekki til þá íslenska ríkið að fara fram á aðstoð EES ríkja að tryggingasjóðir viðkomandi landa komi þeim íslenska til aðstoðar svo hann geti staðið við sínar skuldbindingar

Við megum nefnilega aldrei gleyma því að vandi íslenska tryggingasjóðsins er vandi fjármálakerfisins og þess trausts sem þar þarf að ríkja.  En hann er ekki vandi almennings á Íslandi eða almennings í öðrum löndum EES.  ICEsave reikningarnir voru frjáls viðskipti milli sparifjáreiganda og fjármálafyrirtækis á frjálsum markaði.  Almenningur í EES, þar með talið á Íslandi, hefur ekkert með slík viðskipti að gera annað en sjá til þess að stjórnvöld setja heilbrigðar reglur um slík viðskipti.

Og það var gert.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Skaðabótaábyrgð vegna vanefnda á framkvæmd? Íslenski innstæðutryggingasjóðurinn var útfærður nákvæmlega eins og sá breski, sem átti ekki heldur nóg til að dekka IceSave innstæðurnar! Þar sem hvorugur sjóðurinn var nógu stöndugur og íslenska ríkið átti engan gjaldeyrisvarasjóð þá ákváðu Bretar upp á sitt einsdæmi að setja á ríkisábyrgð til að afstýra allsherjar bankaáhlaupi. Skiljanleg ákvörðun en engu að síður óheimilt samkvæmt sömu reglum og borgunarsinnar vilja meina að Ísland hafi ekki uppfylt þó svo að það hafi raunverulega verið Bretarnir sem ákváðu að fara útfyrir reglurnar. Hver er það þá sem er skaðabótaskyldur? Ef þeir hefðu bara sleppt þessari vitleysu og fylgt reglunum frá upphafi þá sætum við ekki uppi með þetta klúður heldur hefðu bankarnir (og eftir atvikum innstæðutryggingasjóður) einfaldlega verið tekin til gjaldþrotaskipta og innstæðueigendur hefðu getað sótt bætur í samræmi við endurheimtur af þrotabúi Landsbankans, án ríkisafskipta eins og kerfið var upphaflega hugsað. Þannig hefðu allir hlutaðeigandi aðilar deilt með sér tjóninu í stað þess að velta því yfir á saklausa íslenska skattgreiðendur sem áttu enga aðild að rekstri einkafyrirtækisins Landsbankans og sjálfseignarstofnunarinnar Innstæðutryggingasjóðs sem vel að merkja er ekki ríkisstofnun.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.11.2009 kl. 15:12

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Að mörgu leiti sammála, en það var ekki valkostur að láta bankanna fara.  Nútímaþjóðfélag þrífst ekki án þeirra.  Þeir sem leggja það til, hafa aldrei komið með útfærða hugmynd um hvernig slíkt hefði gengið.

Og neyðarréttur er æðstur laga.  

En auðvita var þetta allt saman eitt allsherjar fokking fokk.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.11.2009 kl. 17:34

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvort sem það var valkostur eða ekki þá féllu bankarnir hvort sem er. Ég var mikið hrifnari af Plan B Seðlabankans sem gerði ráð fyrir að stofnaður yrði einn nýr ríkisbanki sem myndi taka dagleg innanlandsviðskipti í fangið, og hinir stóru þrír yrðu svo látnir hanga í vindinum. Það hefði ekki þurft að kosta ríkið nema einhverja tugi milljarða í stofnfé hins nýja banka, en allt sem tilheyrði einkareknu bönkunum hefði fallið á eigendur þeirra í stað skattgreiðenda. Þessu hefði að sjálfsögðu fylgt talsverð óþægindi en á móti má spyrja sig hvort það væri verra en það sem nú þegar hefur gerst? Það hefði allavega verið miklu ódýrara, við hefðum t.d. sloppið alveg við IceSave málið sem er búið að stífla allar endurreisnaraðgerðir. Við hefðum heldur ekki þurft að henda allt að 410 milljörðum í skilanefnd Landsbankans fyrir yfirtökuna á innlendri starfsemi bankans sem ég efast stórlega um að sé sanngjarnt verð heldur sé frekar bókhaldsbrella til að bólstra endurheimtur vegna IceSave.

En ég er þér hjartanlega sammála, að þetta er allt saman eitt stórt helvítis fokking fokk!

Guðmundur Ásgeirsson, 18.11.2009 kl. 18:53

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Þyki leitt hvað ég kem seint með þessa athugasemd, en póstkerfið faldi hana.

Ég tel að það hafi verið fullrökstutt að plan B hafi ekki komið til greina.  Hagkerfi sem slíkt snýst ekki um innlán, heldur atvinnulífið, að fólk hafi vinnu og þjóðfélagið tekjur.

Það þurfti að ná utanum þessa starfsemi, og með öllu ótækt fyrir sjálfstæða þjóð að afhenda allt sitt bankakerfi erlendum kröfuhöfum bankanna.  Í mínum huga er það ekki valkostur.

En hins vegar sé ég að þú hefur smitast af ICEsave áróðri Jóns Baldvins, krafa breta og Hollendinga tengist hinum nýju bönkum ekki baun í bala, það er eftir á skýring þegar bretarnir áttuðu sig á því að tilskipun ESB um innlánstryggingar fól ekki í sér ríkisábyrgð innlána.   En þá var bæði krafan og hryðjuverklögin komin fram.   

Öll gögn málsins sanna að krafa breta byggist á vísan i tilskipun ESB um innlánstryggingar, þar töldu þeir að lagatextinn væri skýr, jafnvel bretar átta sig á því, að það þarf dómsstóla til að túlka jafnræðisregluna svokölluðu með tilliti til íslensku neyðarlaganna.

Og það eru ekki aðrir en trúgjarnir Samfylkingarmenn sem halda því fram ennþá dag í dag að íslenska ríkið ábyrgist innlán, allir aðrir vita að orð Geirs Harde eru ekki lög, hvorki þessa heims eða annars.  

Þá stæðu bankarnir ennþá.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.11.2009 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 30
  • Sl. viku: 446
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 385
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband