Árásin á þingræðið.

Samkomulagið við breta og Hollendinga, sem ríkisstjórn Íslands lagði fram í dag, er árás á þingræðið.   Og þessi árás er ekki af hálfu erlendra kúgunarafla, það er ríkisstjórn Íslands sem er árásaraðilinn.

Alþingi samþykkt lög um ríkisábyrgð á ICEsave láninu með ákveðnum fyrirvörum.  Þessir fyrirvarar voru settir inn til að girða fyrir að hin háa ríkisábyrgð upp á 650 milljarða auk um 250 milljarða í vexti á samningstímanum, gæti ollið efnahagslegum hamförum á Íslandi.

Margt getur komið upp á. 

Íslensku neyðarlögin um forgang innstæðna geta verið felld úr gildi hjá íslenskum dómsstólum.  Og jafnvel þó þau haldi íslensk lög með tilvísun í neyðarrétt, þá er mjög ólíklegt að þau haldi fyrir breskum dómsstólum.  Hví ættu breskir dómsstólar að dæma gegn rétti breskra kröfuhafa með tilvísun í íslenska neyð, hvað kemur það breskum fjármálamarkaði við???  Bretland yrði ekki ábyggilegt land til að fjárfesta í ef dómsstóll í fjarlægu landi getur breytt leikreglunum eftir á.  Miklir hagsmunir eru í húfi á Bretlandi að virða vilja íslenskra laga að vettugi, enda er íslenska ríkið búið að greiða innstæðueigendum með láni þessu.

Og svo eru allar endurheimtur háðar mikilli óvissu um efnahagsástandið.  Reynt er að telja almenningi í trú um að kreppan sé úr sögunni, en það fer víðsfjarri.  Alda uppsagna fer um álfuna, jafnt hjá byggingaverktökum á Ítalíu, sem og í olíuiðnaðinum í Norðursjó, og allt þar á milli.  Í frétt í Morgunblaðinu síðastliðinn Sunnudag er spurt um stöðu breska efnahagsmála. "Stóra spurningin er þó ekki aðeins sú hvort Cameron og hans knáu sveinar hafi lausnir á takteinum, heldur máske fremur hvort það verði ef til vill um seinan."   Og hver er ástæða þess að svona er spurt??  Jú það kemur fram í fréttinni "Á markaði hvísla menn um að enn ein kreppan kunni að vera yfirvofandi, sem þá væri réttnefnd skuldakreppa. Þótt Bretland skeri sig verulega úr meðal þróaðra hagkerfa heimsins er það þó engan veginn eitt í hættu hvað það varðar, veður eru einnig válynd í Þýskalandi, Spáni, Írlandi, Grikklandi og Slóvakíu, svo nokkur Evrópuríki séu nefnd."

Svona ræða hagfræðingar í Evrópu en á Íslandi reyna spunakokkar þrælasala telja þjóð sinni í trú um að kreppan sé úr sögunni og vænta megi hagvaxtar, og það meiri en landsmenn hafa þekkt frá upphafi vegu.  Trúi því hver sem trúa vill.

En Alþingi trúði ekki spunakokkunum og setti inn sína stífu fyrirvara.  Ef bretar og Hollendingar  vildu ríkisábyrgð á láni sínu til tryggingasjóðs innlána þá væru þetta skilyrðin.  Og þessi lög um ríkisábyrgðina voru samþykkt með atkvæðum ríkisstjórnarflokkanna.  Þá mátu þeir stöðuna á þennan veg, og ef eitthvað er síðan, þá hafa kreppufréttir aukist í heiminum frekar en hitt.

 

En á bak við tjöldin var gamblað með fjöregg þjóðarinnar á kostnað þeirra fyrirvara sem Alþingi setti.  Lög Alþingis voru meðhöndluð eins og þau væru varla pappírsins virði.  Hugarfar þess gjörnings kemur vel fram í viðtalsbút sem fréttastofa sjónvarpsins birti í kvöldfréttum sunnudagsins.

Fyrst les fréttamaður texta með orðum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og síðan kemur viðtalið við Steingrím.

 

Fréttamaður las upp :“Fjármálaráðherra segir ógerningur að fá viðsemjendur okkar til að samþykkja afskriftir. Steingrímur:“Nei, enda áttum við aldrei neinn rétt í hendi í þeim efnum.  Það er ekki þannig og eru engin fordæmi til í lánasamningum milli ríkja að sá sem tekur lánið geti einhliða áskiðið sér rétt til að borga ekki nema hluta þess til baka.Þannig að það var enginn grundvöllur fyrir samkomulags niðurstöður á þeirri forsendum”.

 

Í það fyrsta er ekki um lánasamning milli ríkja, Íslendingum vantar ekki þessa peninga að láni, heldur er um þvinguð útgjöld íslenska ríkisins og um þau getur Alþingi Íslendinga sett öll þau lög og fyrirvara sem það telur nauðsynlegt.  Ísland er ennþá sjálfstætt ríki. 

 

En það er ekki aðalatriði málsins.  Ef ríkisstjórn Íslands taldi nauðsynlegt að fyrirvarar íslenska ríkisins væru ekki bindandi, þá gat til dæmis fjárlaganefnd Alþingis sett saman hugmynd af fyrirvörum til leiðbeiningar handa samningamönnum ríkisstjórnarinnar.  Og ef Alþingi hefði viljað árétta þá fyrirvara, þá gat það samþykkt þingályktunartillögu.  Hún er ekki bindandi fyrir ríkisstjórn Íslands og heftir ekki hendur hennar til að ná það sem hún kallar raunhæft samkomulag.  En lög frá Alþingi með skýrum fyrirvörum binda hendur ríkisstjórnarinnar og henni er skylt að fara eftir þeim. 

 

Lög eru jú lög.

 

En ef þau lög voru ekki raunhæf til samnings, en ríkisstjórn Íslands lét samt samþykkja þau, þá varð hún fyrst að láta breyta lögunum áður en gengið var til samningaviðræðna um breytingar á fyrirvörum Alþingis.  Og það var ekki gert, heldur var því breytt sem viðsemjendur landsins gerðu kröfu um.

 

Og það er ekki allt í lagi.  Svoleiðis eru ekki vinnubrögðin í lýðræðisríkjum þó þau séu tíðkuð hjá einræðisríkjum.  Það gengur ekki að fjármálaráðherra keyri yfir á rauðu ljósi og fari síðan upp í Alþingi og láti breyta umferðarlögunum á þann máta að hann megi brjóta þau þyki honum nauðsyn bera til. 

 

Svona vinnubrögð kallast að nauðga þingræðinu.  Ríkisstjórn sem verður undir í mikilvægu máli, ber að víkja, treysti hún sér ekki að framfylgja því sem Alþingin samþykkir.  Það gengur ekki að vinna bak við tjöldin við að kúga og þvinga einstaka þingmenn til að skipta um skoðun og leggja síðan fram nýtt frumvarp sem hentar ríkisstjórninni betur. 

´

Lýðræði byggist aldrei á ofbeldi.  Enginn veit hvaða þvingunarráðum var beitt.  Hitler lét kveikja í þinghúsinu til að losna við andstæðinga sína.  Í Rússlandi hefur byssukúlan verið notuð og í mörgum löndum Suður Ameríku er nánustu ættingjum þingmanna hótað meiðingum eða jafnvel dauða.   Og á Ítalíu var þingmönnum mútað. 

 

Vissulega óhreinka menn ekki hendur sínar hér á landi með slíkum vinnubrögðum en andlegar hótanir og þrýstingur er engu betri leið til að fá fólk til að falla frá sannfæringu sinni í grundvallarmáli sem snertir heill og framtíð þjóðarinnar.  Slíkt er alltaf árás á þingræðið og þar með tilverugrundvöll sjálfs lýðræðisins hér á landi.

 

Og grátklökk rödd þingflokksformanns VinstriGræna í morgunútvarpinu í morgun þegar hún reyndi að réttlæta sinnaskipti sín, gat alveg eins bent til að náinn ástvinur væri í hættu ef hún segði annað, eins og því sem henni var raunverulega hótað, en það var sjálft líf ríkisstjórnarinnar. 

 

Ríkisstjórn sem notar svoleiðis vinnubrögð er þjóðarskömm og mun ekki verða langlíf. 

 

En þjóðinni skortir allan manndóm ef hún lætur á það reyna hve lengi hún lifir.

 

Trölli mátti ekki stela jólunum og ríkisstjórnin má ekki stela lýðræðinu.

 

Í þessu máli er meira í húfi en vinsamleg samskipti við þjóðir Evrópusambandsins. 

 

Sjálf tilvera þjóðarinnar er í húfi.

 

Kveðja að austan.


mbl.is 253 milljarða skuldbinding
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálið er að ríkisstjórn er og hefur alltaf verið þeirrar skoðunar að við eigum að borga þetta í topp.

og þegar menn eru sammála málsstað viðsemjendans, þá er ekki von á góðri niðurstöðu.  Enda var það klárt bæði af Indriða og Steingrími að þeir töldu að 2024 hafi verið óraunhæft og því leyfi ég mer að efast stórkostlega um að þeir hafi barist fyrir því t.d.

 Svo er þetta svo miklir bjánar að ef þeir telja sig geta klínt þessu á xd, þá er allt í lagi þó þjóðfélagið fari á hausinn....  takk kærlega kjósendur sem kusu þesssa bjána.

stebbi (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 00:11

2 identicon

Og síðan dirfist sumt fólk að reyna að réttlæta þetta hér á blogginu. Það á að taka svona fólk og niðurlægja það í gapastokkum á austurvelli. Samfylkingin og þingmenn VG sem samþykkja þetta eiga ekki von á góðu! Þetta er hreint og klárt lándráð.

Geir (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 01:36

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið félagar.

Mikið sammála ykkur, en ég læt gapastokk orðræðunnar duga.  

En þetta er níðingsskapur gagnvart þjóðinni, niðurrif velferðarkerfisins mun kosta mannslíf, fólk fær ekki þá þjónustu sem dugar.  Og seint brugðist við bráðatilfellum, gamalt fólk látið bíða of lengi eftir nauðsynlegum aðgerðum, dánartíðni á eftir að hækka.

Svona gerir maður ekki þjóð sinni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.10.2009 kl. 08:30

4 identicon

Sæll austmann.

Góður pistill og ekki orð ósatt, sem því miður ekki sama hægt að segja um Samspillingarmenn í deildum 1 og 2.  Hlustaði á þingflokksformann Samspillingar 2, Guðfríði Lilju vera komna á rönguna eins og er algengara þar í flokki en þekkist á byggðu bóli, blákalt halda því fram í Alþingi að minnismiðar Sjálfstæðismanna frá síðasta hausti hefði algerlega bundið hendur samningamanna frá upphafi, og þar sem Sjálfstæðismenn hafi verið búnir að samþykkja og verið ánægðir með hann, þá ættu þeir heldur betur að gleðjast yfir þessum, í stað þess að vera að ráðast á þá sem eru að hreinsa til eftir þá.

Hvenær verður eitthvað gert í að þingmenn og ráðherrum verður gert að bera ábyrgð á orðum sínum og endalausum lygum sem hafað ítrekað verið hraktar af hæfustu lögspekingum þjóðarinnar, sem ekki er ástæða að virða viðlits frekar en fyrri daginn, eða af vankunnáttu, sem er Alþingi stórkostlega niðurlægjandi sem er bein ástæða að almenningu ber nánast ekkert traust til stofnunarinnar?

Þar sem þingflokksformaðurinn er að gera með slíkum orðum, er að fyrrverandi ráðherrar, þingmenn og embættismenn ríkisins hafi gerst brotlegir við stjórnarskrá og þá væntalega á hegningarlögum um landráðHvorki meira og minna, og forseti þingsins segir ekki orð.  Hvað er eiginlega að gerast, og hvers vegna er þetta lið ekki látið sæta ábyrgðar orða sinna, eða að stjórnvöld dragi ekki meinta brotamenn fyrir landsdóm af þeir eru með það á hreinu og er það ekki þeirra embættisleg sem borgaraleg skylda?

Guðfríður Lilja fullyrðir, miðað við álit Sigurðar Líndals lagaprófessors, að þessir aðilar eru brotamenn landráðmenn, eins og hann benti Jóni Baldvin Hannibalssyni svo eftirminnilega á í grein þar sem hann opinberlega rassskellti fyrrum ráðherrann á bera eldrauða ESB boruna:

"Nú liggja fyrir fjölmargar yfirlýsingar forvígismanna Íslendinga um stuðning við tryggingarsjóð, nánar tiltekið að aðstoða sjóðinn við að afla nauðsynlegs fjár – meðal annars með lántökum – svo að hann geti staðið við skuldbindingar um lágmarkstryggingu innistæðna. Ef orð kynnu að hafa fallið á annan veg, geta þau ekki fellt ábyrgð á ríkissjóð, þar sem slík ábyrgð verður að hljóta samþykki Alþingis. Í mikilvægum milliríkjaviðskiptum er gengið úr skugga um umboð og réttarstöðu viðsemjenda, þannig að þetta hefur bæði Hollendingum og Bretum verið ljóst. Reyndar skiptir grandleysi ekki máli – slíkt loforð er ekki bindandi.

En ef Jóni Baldvini er annt um sjálfsvirðingu sína, ætti hann að gefa orðum sínum gaum. Með ummælum um bindandi yfirlýsingar íslenzkra ráðamanna um ríkisábyrgð – þótt hann hafi ekki fundið þeim stað – er hann að saka þá um að virða ekki stjórnarskrána. Ríkisábyrgð hlýtur að fylgja lántaka og fyrir henni verður væntanlega setja tryggingu og til þess þarf samþykki Alþingis, sbr. 40.-41. gr. stjórnarskrárinnar, sbr einnig 21. gr. Ráðherra sem hefði gefið yfirlýsingu um stórfelldar fjárhagsskuldbindingar með ábyrgð íslenzka ríkisins án fyrirvara um samþykki þingsins kynni að baka sér ábyrgð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og verða stefnt fyrir Landsdóm. Jón Baldvin er með orðum sínum að saka forystumenn Íslendinga, þar á meðal ráðherra um stórfelld lögbrot. Þrátt fyrir það að vera ekki bindandi er augljóst að slíkar yfirlýsingar hefðu skaðað íslenzka ríkið."

Eins og þú bendir á, þá er ég hjartanlega sammála um að hvernig er lögfræðilega hægt að réttlæta settningi afturvirkra laga sem gera fullkomlega lagalega framkvæmd manna að ólöglegri?  Hver er þá refsirammi brotamanna í jafn alvarlegum glæpi og þjóðin ekki heimtingu á að þeim verði harælega refsað?  Er þá nokkuð því til fyrirstöðu að hörð afturvirk lög verða sett til að ganga að öllum eigum ábyrga hrunsauðróna sem og til að koma þeim í áratuga tugthúsvist.

Spyr sá sem ekki veit, og kveð kærlega frá blíðunni á suð-vesturhorninu.

PS:  Er kominn tími til að öllum þeim sem fara í framboð verði gert skillt að gangast undir geðrannsókn og strangt greindarpróf og meðalgreind verða lágmarksmörkin? 

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 16:14

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Flott innslag hjá þér, ætti að birtast víðar, kjarninn góð uppistaða í grein í Morgunblaðið.

Já, hún Guðfríður Lilja, hún á erfitt þessa dagana.  Þetta æfða spunaleikrit fer henni illa.  En hún stæði sig vel sem kvenpersóna í skáldsögu eftir Alister Mclean, þær virtust oft vera í slagtogi með ljótu köllunum, en skýringin var þvingun ýmiskonar, foreldrum rænt eða annað slíkt.

En hún var flott þegar hún talaði í sumar út frá sinni sannfæringu, en hennar svanasöngur var í Silfri Egils um daginn, eftir það var hún kúguð til hlýðni og það er ekki fallegt gert af þeim sem það gerðu.

En segjum að hún hafi rétt fyrir sér, um bundnar hendur ríkisstjórnar og allt hvað og besta sem hægt var að fá úr stöðunni o.s.frv., þá eru hún og Ögmundur dýrustu þingmenn Íslandssögunnar, því þá var leikrit þeirra í sumar skrípaleikur fólks sem tafði hið fyrirhugaða samkomulag ICEsave deilunnar um marga mánuði.  Til hvers voru þau að þessu ef þau meintu ekkert með þessu???  

Svavars samningurinn er betri ef eitthvað er, því þar áttu menn að borga með góðu eða illu, en í dag, þá er hættan að greiðslur dragist og skuldin hlaði á sig vöxtum, jafnvel út í hið óendanlega ef heimskreppan skellur á.  Og ekkert hægt að endurskoða því viðkvæðið mun vera eins og hjá skilningsríka okurlánaranum, að þið greiðið þegar þið getið, vitandi að skuldin sígur í sig allar eigur fórnarlambsins.  Ég vil meina að það sé betra að sitja uppi með vondan samning en bastarð sem er hvorki fugl né fiskur.

En annars er ég glaður, ég hafði mestar áhyggjur að stór meirihluti Alþingis myndi samþykkja það sem þeir kalla viðunandi samning, eitthvað í ætt við Ögmundarsamninginn.  Þá er erfiðara að  fylkja fólki gegn ólögunum, og erfiðara að skapa samstöðu um riftun hans.   Ég er alfarið á móti ICEsave og vill ekki greiða þúsundkall, þó það leysi erfiða milliríkjadeilu, nema að um það sé skýr dómur, byggður á skýrum lögum.  

Þetta snýst ekki um pening, þetta snýst um grundvallarforsendur þess að vera sjálfstæð þjóð, og sjálfstæð þjóð lætur ekki kúga sig, jafnvel þó niðurstaðan sé þúsund krónur.  Dæmisagan um andskotann og litla puttann var sérstaklega samin af því tilefni.

Og þjóðin mun rifta þegar kreppir að.  Það kennir sagan, fólk hugsar ekki með neinu öðru en maganum, og þegar hann er tómur, þá bregðast menn reiðir við kúgun.  En ég hef engan áhuga að geyma þetta fólk í grjótinu, baráttan er hörð meðan að þvælist fyrir réttlætinu, en svo má það alveg vera memm mín vegna, smáþjóð veitir ekki af öllum sínum höndum í uppbyggingunni.

Og ég held að þetta snúist ekki um greind fólks, nógu andskoti er Þórólfur prófessor vel gefinn, þetta snýst um siðferði, að þekkja muninn á réttu og röngu.  Og ef maður gerir það þá missir maður um leið áhugann að loka fólk inni, nema þá því aðeins að engin önnur leið er til að hindra rangar gjörðir þess, en iðrun og þá á að opna allar dyr sem eru lokaðar, líka hjá venjulegum krimmum.  Við vorum einu sinni öll að leika í sama sandkassanum og erum öll af sama meiði.  Það er margt sem villir fólk sýn þannig að það villist af beinu brautinni, og mér finnst persónulega að samfélagið eigi að einbeita sér að slökkva á villuljósunum, í stað þess að tyfta þá sem villtust.

En þetta er bara mín skoðun og ég mun aldrei vera í neinni þeirri aðstöðu að þurfa láta reyna á hana, en það er alltí lagi að lemja þá í hausinn sem flækjast fyrir framtíðinni.  Meira að segja fast ef þess þarf.

En gaman að spjalla, núna stend ég við það.  Ég er farinn út að labba.  Pistla aftur þegar þingið hefur samþykkt ICEsave.

Kveðja, Ómar.

Ómar Geirsson, 20.10.2009 kl. 20:13

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir pistilinn Ómar

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 22.10.2009 kl. 01:48

7 identicon

Held hann Ómar sé í alvöru hættur!?!  En takk fyrir alla pistlana, Ómar. 

ElleE (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 23:02

8 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk Ómar.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 27.10.2009 kl. 11:19

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk kæra fólk.

En Elle, ég er ekki hættur, hef bara ekki meira að segja í bili.  Læt í mér heyra þegar glæpurinn verður  samþykktur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.10.2009 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 995
  • Frá upphafi: 1321547

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 834
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband