9.7.2009 | 14:21
Þekkjum rödd kúgarans.
Pierre Mathijen, prófessor í Brussel og fyrrverandi ráðuneytisstjóri hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, skrifað grein í Morgunblaðið þann 2. júlí síðastliðinn.
Efni greinarinnar var í stuttu máli það að segja íslensku þjóðinni að sætta sig við ICEsaveánauðina, eða hafa verra af. Ég ætla að birta grein Pierre hér að neðan svo fólk geti kynnt sér hana ef það vill en annars ætla ég að vitna í meginatrið hennar. Ísland hefur ekki slæman málstað að verja ef rök kúgara okkar eru ekki betri en þetta. Sem líka aftur á móti útskýrir af hverju ráðamenn stinga undir skjól lögfræðiálitum sem benda á augljósar staðreyndir. Þeir sem vilja tapa öllu fyrir hönd þjóðar sinnar, þeir nota ekki það sem afhjúpar kúgunina og lygarnar.
Áður en lengra er haldið þá skulum við muna að allar lagatúlkanir kúgara okkar þurfa að útskýra af hverju tilskipun ESB um innlánstryggingar orðar bakábyrgð þjóða á þann hátt að aðildarríki séu ekki í ábyrgð.
Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum(,) ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum(,) sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.
Og síðan þurfa kúgararnir að útskýra, ef þeirra túlkun er rétt, af hverju er þá ekki tekið fram í tilskipuninni hvaða úrræði aðildarríki hafi til að takmarka sína ábyrgð, ef hún er til staðar. Og þau úrræði þurfa að vera önnur en þau að leggja óbærileg gjöld á fjármálafyrirtæki eða banna þeim að starfa erlendis, en hvorutveggja er andstætt tilskipun ESB og markmiðum hennar. Og eins þurfa þeir að útskýra af hverju ESA, Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA dómstóllinn gripu ekki strax inn í 1999 þegar íslensku lögin voru samþykkt, því það er skylda þessara stofnana EFTA að sjá um að aðildarríki framfylgi EES samningnum á lögmætan hátt og röng lagasetning á grunni tilskipunnar ESB er grundvallarbrot. Einnig þurfa þessir sömu menn að útskýra af hverju slíkt hafi ekki verið ennþá gert, þrátt fyrir fyrirsjáanlegt greiðsluþrot íslenska tryggingasjóðsins.
Þegar grein Pierre er lesin þá örlar ekki fyrir tilraunum til að útskýra eitt eða neitt um þau atriði sem minnst er hér á að framan. Og þar með er grein hans með öllu ómarktæk sem rök í málinu, en snjöll áróðursgrein er hún og margir Borgunarsinnar vitna í hana í löngun sinni til að enda sem betlarar ESB. En kíkjum á það sem Pierre segir.
TILSKIPUN Evrópusambandsins um innstæðutryggingar leggur þá skyldu á herðar aðildarríkjum að koma á fót innstæðutryggingakerfi í því skyni að tryggja sérhverja bankainnstæðu, fyrir allt að 20.000 evrum, komi til greiðsluerfiðleika bankastofnunar. Ef innstæðutryggingin stendur ekki undir skuldbindingum sínum, hefur ríkið þar sem bankastofnun er staðsett augljóslega brugðist skyldu sinni og er fjárhagslega ábyrgt gagnvart sérhverjum innstæðueiganda.
Skyldan er bæði skýr og skilyrðislaus. Hvergi er að finna ákvæði þess efnis, að í sérstökum tilvikum sé mögulegt að víkja frá innstæðutryggingunni eða að ríkin verði leyst undan skuldbindingum sínum samkvæmt henni. Þar að auki er hvergi kveðið á um að greina beri á milli stórra og smárra áfalla í fjármálakerfi.
Fyrsta setningin er tekin beint úr þeirri klausu sem ég feitletra hér að ofan. Aðildarríkin eru skyldug til að koma á tryggingarkerfum sem ábyrgjast lágmarksinnstæðutryggingu innlánseiganda. Og fjármögnun kerfisins á að vera í samræmi við tilskipun ESB, en þar er tekið fram að fjármálakerfið sjálft sjái um fjármögnun kerfisins, þó þannig á þann hátt að slík fjármögnun (gjald) hamli ekki starfsemi þeirra. Önnur fjármögnun er ekki tilgreind í tilskipun ESB og ljóst er að fyrst að gjaldið á fjármálastofnanir á að vera hóflegt, þá tekur það langan tíma að byggja upp öfluga sjóði.
En hvað gerist í millitíðinni?? Ef tryggingasjóðurinn lendir í greiðsluþroti. Eðlilegast er að um það sé kveðið í sjálfri tilskipuninni, en það er skilið eftir opið, annað en það að skýrt er tekið fram að aðildarríkin sjálf eru ekki í ábyrgð. Þeirra ábyrgð skapast aðeins ef kerfið er ekki rétt útbúið eða reglum rangt framfylgt. En það að aðildarríki beri ekki ábyrgð, kallar Pierre að þeim beri skylda til að greiða mismuninn, vegna þess að kerfið brást. Þó bendir hann ekki á neinn lagatexta máli sínu til stuðnings. Orð hans eru fullyrðingar. Aðildarríki voru að framfylgja tilskipun ESB og ef kerfið brást er það þeim að kenna?
Grunnspurningin er sú, hvers vegna var ekki nægur peningur í tryggingarsjóðnum??? Var einhver sú fjármögnun sem Ísland greip ekki til en átti að gera??? Sé svo ekki hvernig getur þá landið verið í ábyrgð fyrir kerfi sem því var skipað að koma á fót á þann hátt sem það gerði???? Og enginn gerði neinar athugasemdir við það kerfi. En slíkt er reglan ef ekkert er athugavert við framkvæmdir tilskipana. Ef Ísland brást skyldu sinni með því að tryggja ekki nægjanlegt fjármagn í sjóðinn, þá var það vegna þess að Ísland fór eftir tilskipun ESB og markmið þeirrar tilskipunar var ekki bara að tryggja neytendavernd, heldur líka að tryggja fjármálastöðugleika. Vandséð var hvernig Ísland gat tryggt fjármögnun kerfisins án þess að kollvarpa þeim stöðugleika og brjóta gegn fjórfrelsinu um frjálst flæði þjónustu. Þeir sem fullyrða svona einhliða eins og Pierre gerir, án þess að benda á brotin eða þær lausnir sem Ísland gat notað, þeir eru ekki marktækir, ekki frekar talsmenn Kínverska stjórnvalda um ástandið í Tíbet.
Það sem síðan kemur á eftir hjá Pierre er almennar vísbendingar í markmið innstæðutryggingakerfisins, markmið sem allir eru sammála um að standi í tilskipuninni og í þessi markmið er vísað í íslensku lögunum. En markmið eru ekki sama og framkvæmd. Það er markmið G8 ríkjanna að draga úr fátækt í heiminum en gjörðir þeirra eru ekki í samræmi við markmiðin. Mörg lög hafa háleit markmið en fá úrræði til að framfylgja þeim, og það eru þau úrræði sem gilda. Þú getur ekki kært skólastjóra grunnskóla fyrir að uppfylla ekki göfug markmið grunnskólalaganna, þegar skóli hans er í fjársvelti. Hvað á hann að gera? Stunda bankarán á kvöldin?
Með öðrum orðum þá er það lýðskrum og ómerkilegur áróður að byggja fárkröfur á hendur annarri þjóð á þeim forsendum að tryggingakerfi hennar hafi ekki getað uppfyllt markmið laga, sem hún var skyldug að taka upp, þegar í þeim sömu lögum er ekki hugsað til fjármögnunar á þeim sömu markmiðum.
Það eru lögin sem gilda, ekki markmið þeirra. Og lögin segja að aðildarríki séu ekki í ábyrgð ef kerfið sem þau settu á fót eftir fyrirmælum þessara sömu laga, virki ekki eins og skyldi. Þeirri spurningu var ekki svarað hvað þá skyldi gera en skýrt tekið fram að stofnaðili sjóðanna væri ekki ábyrgur.
Einfaldara getur málið ekki verið og lýðskrumið getur ekki heldur verið grófara og ómerkilegra en hjá ofangreindum Pierre.
Og þegar blessaður maðurinn segir að "Samkvæmt Evrópurétti er það því rétt, jafnvel nauðsynlegt, að Ísland tryggi að hinn íslenski innstæðutryggingasjóður geti staðið við skuldbindingar sínar að greiða innstæðueigendum, að því marki sem kveðið er á um í tilskipuninni, vegna hruns íslensku bankanna", þá lýgur hann eins og hann er langur til. Feitletraða klausa mín er úr þessum Evrópurétti og hann kemur ekki með nein rök önnur en þau að lesa upp úr forsendum laganna án þess að leggja neitt til í formi beinna tilvitna í önnur lög eða lagafyrirmæli sem styðja hans málflutning.
Það er augljóst að kerfið hrundi á Íslandi og það er jafnaugljóst að tilskipun ESB gerir ekki ráð fyrir slíku hruni. Og það er jafnljóst að það er tilbúin röksemd að halda því fram að við þessar aðstæður hafi Ísland ekki uppfyllt skyldur sínar við Tryggingasjóðinn. Ísland er stofnaðili sjóðsins en ekki aðili að honum frekar en hver annar, t.d en hann Pierre. Hafi einhver brugðist skyldum sínum þá er það ljóst að það voru reglusmiðir ESB, en kannski var það með vilja því ekki hafi verið pólitískur stuðningur við þá einu lausn sem gæti virkað þolanlega ef fjármálafyrirtæki eiga sjálf að fjármagna sín kerfi, og sú lausn er að öll fjármálafyrirtæki á EES svæðinu borguðu í einn sjóð, sem væri í umsjón Brusselvaldsins. Það er eina rökrétta leiðin þegar markaðssvæðið er eitt.
Því er vandi Ísland, um leið vandi Evrópu, og því er lausn vandans sameiginlegt verkefni allra aðildarríkja ESS. Væri þessi Pierre með æru, þá hefði hann áttað sig á þessari staðreynd áður en hann skrifaði þessa grein.
Kveðja að austan.
En hér er grein Pierre fyrir þá sem hafa áhuga.
Lagalegar skuldbindingar samkvæmt tilskipun ESB um innstæðutryggingar
Eftir Pierre Mathijsen
TILSKIPUN Evrópusambandsins um innstæðutryggingar leggur þá skyldu á herðar aðildarríkjum að koma á fót innstæðutryggingakerfi í því skyni að tryggja sérhverja bankainnstæðu, fyrir allt að 20.000 evrum, komi til greiðsluerfiðleika bankastofnunar. Ef innstæðutryggingin stendur ekki undir skuldbindingum sínum, hefur ríkið þar sem bankastofnun er staðsett augljóslega brugðist skyldu sinni og er fjárhagslega ábyrgt gagnvart sérhverjum innstæðueiganda.
Skyldan er bæði skýr og skilyrðislaus. Hvergi er að finna ákvæði þess efnis, að í sérstökum tilvikum sé mögulegt að víkja frá innstæðutryggingunni eða að ríkin verði leyst undan skuldbindingum sínum samkvæmt henni. Þar að auki er hvergi kveðið á um að greina beri á milli stórra og smárra áfalla í fjármálakerfi.
Samkvæmt orðalagi tilskipunarinnar er kerfið svokallað tryggingakerfi. Af þeim sökum geta innstæðueigendur treyst því að geta ávallt nálgast allt að 20.000 evrur af innstæðum sínum, sama hvað á dynur.
Þessi niðurstaða er ennfremur í fullu samræmi við markmið innstæðutryggingakerfisins. Kerfinu er ætlað að koma í veg fyrir áhlaup á bankastofnanir, enda hefur það sýnt sig að slík áhlaup hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir fjármálakerfið í heild sinni. Það er erfitt að ímynda sér að innstæðueigendur myndu leggja traust sitt á innstæðutryggingakerfi sem væri uppfullt af undantekningarákvæðum og smáu letri, en slíkt á ekki við um umrætt innstæðutryggingakerfi.
Niðurstaðan samræmist einnig þörfinni að tryggja virkni innri markaðar Evrópu. Það felur í sér að innstæðueigendur verða að geta treyst innstæðutryggingunni hvort sem að bankinn sem þeir leggi peningana sína í sé frá Íslandi, Danmörku, Tékklandi, Þýskalandi o.s.frv.
Það er því nauðsynlegt, þar sem innstæðutryggingunni er ætlað að skapa traust á fjármálastofnunum, innlendum sem erlendum, að hún virki sem skyldi. Engu máli má þá skipta hvaða bankastofnun á í hlut eða hvar innstæðueigandinn á heima. Innstæðutryggingin gildir á sama hátt fyrir alla, hvort sem um er að ræða íslenska ríkisborgara eða ríkisborgara annarra ríkja.
Samkvæmt Evrópurétti er það því rétt, jafnvel nauðsynlegt, að Ísland tryggi að hinn íslenski innstæðutryggingasjóður geti staðið við skuldbindingar sínar að greiða innstæðueigendum, að því marki sem kveðið er á um í tilskipuninni, vegna hruns íslensku bankanna.
Höfundur er prófessor við Háskólann í Brussel, fyrrverandi ráðuneytisstjóri hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og í ritstjórn European Law Review.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 1
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 2020
- Frá upphafi: 1412719
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1773
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Alveg með ólíkindum hvað fólk getur verið útsmogið!? En eins og þú sérð Ómar er ég mætt og les nánast allt sem fólk skrifar um þetta viðurstyggilega ICE-save.
Elle_, 10.7.2009 kl. 00:38
Takk Elle.
Það eru pistlar eins og þessi sem reka mig áfram til að blogga. Þeir eru ótengdir og fjalla um grundvallarmálin og þau rök sem takast á. Meiningin, er ekki bara að þjálfa mig að glíma við þursana, heldur líka að fólk sem er í slagnum út um allt net og allt þjóðfélag hafi gagn af. Detti maður niður á eitthvað nothæft og annar tekur upp, þá er tilganginum náð.
En til þess að einhver droppi inn og lesi "alvörupistlana" þá þarf ég reglulega í víking og höggva mann og annan. Fá fólk til að kíkja við og lesa. Og ég sé það á flettingunum að slíkt heppnast ágætlega.
Í dag er ég með enn einn Ráðapistilinn í kvörninni og ætli ég sendi ekki inn einn eða tvo áreitispistla til að fá athygli.
Og svo vona ég að mér gefist tími til að kryfja Jón Baldvin eftir helgi, sérstaklega þau falsrök hans að framferði einstakra manna, jafnt bankamanna eða ráðamanna, geti skuldbindið heila þjóð. Jón virðist greinilega vera búinn að gleyma því til hvernig lýðræðið virkar, Alþingi setur lögin og kjósendur setja vitleysingana af.
En svona er margt meinið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.7.2009 kl. 09:05
Já og orustan þín Ómar, í hinum ýmsu síðum er að draga athygli fólks, ekki nokkur vafi.
Elle_, 10.7.2009 kl. 12:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.