Nokkur rök gegn Borgunarsinnum.

Borgunarsinnar hengja sig á að ef Tryggingasjóðurinn íslenski greiðir ekki út sína lágmarkstryggingu þá hafi það skilyrði að koma á fót löggiltu tryggingakerfi, ekki verið fullnægt.  Þessi athugasemd kom inn hjá Loft eftir nafna minn Kristjánsson:

"Sjóður sem á að greiða 20.887 evrur á hverja innistæðu en gerir það ekki uppfyllir ekki þær kröfur sem ESB gerir um innistæðutryggingasjóði!  Er það eitthvað flókið?"

Og mitt svar var eftirfarandi:

Síðasta rökleiðsla þín er ágæt en hún er röng.  Í lögunum um  Tryggingasjóð innlána er skýrt kveðið á um að hann greiði út 20 og eitthvað þúsund Evrur.  Og það gerir hann.  Ef til dæmis innistæður í sjóðnum hefðu verið 700 milljarðar króna, þá væri það ljóst að allir kröfuhafar ICEsave hefðu fengið sína lágmarkstryggingu, það er ef ríkið hefði leyst innlenda hlutann á þann hátt sem það gerði.  Eins er það ljóst að ef til dæmis að bara Sparisjóður Mýrarsýslu hefði farið á hausinn, þá hefðu allir innistæðueigendur þar fengið sínar lágmarkstryggingar, miðað við núverandi inneign sjóðsins.

Ef sjóðurinn hefði hins vegar aðeins greitt út 10.000 Evrur eða hann hefði neitað Mýrarmönnum um greiðslur með þeim rökum að Sparisjóðurinn hefði ekki verið aðili að sjóðnum, þá er ljóst að Tryggingarsjóðurinn hefði brotið tilskipun ESB um innlánstryggingar og þvi væri íslenska ríkið í ábyrgð samkvæmt orðanna hljóðan.

En eigi sjóðurinn ekki fyrir skuldbindingum sínum, þá er ljóst að í tilskipun ESB er ekki minnst einu orði á hvað eigi þá að gera, annað en það að það er skýrt tekið fram að aðildarríki séu ekki í ábyrgð.  Ég hef svo gaman að peista þá setningu að ég ætla þér til heiðurs að gera það aftur.  Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum.

Nafni, þú ert eins og maðurinn sem dundaði sér við það langa lengi að fara alltaf yfir á rauð ljósi og var alveg forviða þegar hann var loks tekinn  og sektaður.  Það stóð í lögunum að það mætti fara yfir á rauð ljósi sagði hann.  Vitnað hann í þann kafla umferðarlaga þar sem tekið var fram að lögregla við viss brýn skilyrði, eins og eftirför hættulegra aðila, mætti fara yfir á rauð ljósi, mæti hún það að slíkt stefndi ekki öðrum vegfarendum í hættu.  Náunginn bara gleymdi skilyrðingunni og alhæfði eins og hún væri almenna reglan.   

Það er nefnilega þannig að ef maður sleppir setningu eða setningarhlutum úr lagatexta, þá getur maður fengið hvað eina út, en lögfræði er það ekki.

Og loks skil ég ekki nafni þessa histeríu þína gagnvart því að dómstólar EES túlki þennan umdeilda lagatexta og síðan meint eftirlitsleysi ESA ef dómur fellur íslensku lögunum í óhag.  Við hvað ertu hræddur??  Eða erum við Loftur og aðrir þeir sem vilja ekki greiða skuldir Björgólfs og Björgólfs, það miklir glæpamenn að við eigum ekki sama rétt og Saddam, sem þó fékk að verja sitt mál fyrir dómi.  Eða böðlar þriðja ríkisins.  

Er það skelfilegastur glæpur heims að neita greiða skuldir Björgólfs og Björgólfs.

Og svipuð athugasemd kom í kjölfarið frá Steingrími Jónssyni sem sagði þetta: Þú átt að stofna sjóð.  Sjóðurinn á að greiða 20.887 evrur á  hvern reikning einstaklings.  Geti sjóðurinn ekki borgað 20.887 evrur á hvern reikning þá uppfyllir sjóðurinn ekki kröfurnar sem um hann eru gerðar.

Og mitt andsvar var svona:

Mátti reyna, en þó ég stofni sjóð. þá þarf ég ekki að vera ábyrgur fyrir honum.   Nema ef lögin sem ég vinn eftir kveða á um það.  Eins geta lögin gert mig ábyrgan ef ég fer ekki eftir þeim reglum sem eftir á að fara.  Og að sjálfsögðu geta lögin alveg sleppt því að minnast á hver er ábyrgur ef sjóðurinn tekur á sig skuldbindingar en getur ekki greitt.  Og þá deila lögfræðingarnir.

En í tilviki Tryggingasjóðs míns, eins og Loftur hefur útskýrt svo vel, þá er kveðið á um ábyrgð mína, sem stofnanda sjóðsins (og restina af íslensku þjóðinni), að ég beri ábyrgð á vanefndum sjóðsins, ef ég hef ekki stofnað til sjóðsins eftir þeim reglum sem eftir átti að fara. Annar er ég ekki ábyrgur eins og segir í fyrsta setningahluta þessa ákvæðis sem Loftur vitnar í.

Nú er ljóst að öll ákvæði sjóðs míns voru eftir þeim reglum sem tilskipun ESB kvað á um.  Sjóðurinn átti að fjármagnast með hóflegu gjaldi á fjármálastofnanir, enda mátti ekki raska samkeppnisskilyrðum þeirra gagnvart öðrum efnahagssvæðum.  Og sjóðurinn greiðir út rúmar 20 þúsund Evrur og allar fjármálastofnanir undir íslensku fjármálaeftirliti voru aðilar að sjóðnum.

Þess vegna Steingrímur sendi Eftirlitsstofnun EFTA mér ekki neitt bréf um að ég hefði brotið lög og reglur EES, ESB eða tilskipana ESB um innlánstryggingar.  Gættu að því Steingrímur, að ég stofnaði sjóðinn í góðri trú eftir þeim reglum sem mér voru settar og vissi að ESA myndi gera athugasemdir ef svo væri ekki.  Og þar sem ég stofnaði sjóð minn fyrir 9 árum síðan þá er frestur ESA til að segja mér að ég sé ábyrgur því ég hafi ekki skilið reglur ESB, liðinn.  

Sorrý Stína.  Fresturinn er liðinn.  

Og gættu að því Steingrímur að ESA hefur ekki ennþá gert athugasemdir við sjóð minn og framkvæmd hans.  Það voru Goggi Brown, þekktur fantur og Olli túlipani, liðleskja, þekktir handrukkarar og yfirgangsmenn.  Láti ég að kröfum þeirra og ábyrgist sjóðinn, þá fyrst brýt ég gegn reglum EES því þar skýrt kveðið á um að EES sé siðaður klúbbur þar sem lög og regla gilda.  Og úr málum og ágreiningi er notuð leið réttarríkisins, sem heita dómstólar, ekki leið þekktra ofbeldismanna og handrukkara.

Og til hvers Steingrímur ert þú að mæla með leiðum ofbeldismanna en ekki leiðum EES, sem eru leiðir réttarríkisins?

Einnig ræddi ég við Steingrím af hverju reglusmiðirnir hefðu haft þennan varnagla að aðildarríki gætu ekki verið í ábyrgð.

Þessi lagatexti er skýr og er settur þarna inn af gefnu tilefni.  Vegna þess að ef aðildarríki væru ábyrg, þá yrðu þau að verja sig á einhvern hátt.  Og varnirnar geta aðeins verið fólgnar í tvennu.  Stórauknar álögur á fjármálastofnanir því þær eiga að fjármagna tryggingakerfið eða banna þeim að starfa erlendis.  En báðar þessar leiðir eru andstætt þeim markmiðum sem koma fram í tilskipuninni.  Þar segir:

lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu.

Það er sem sagt markmið tilskipunarinnar að kerfið slátri ekki fjármálastofnunum efnahagssvæðisins.  Þá er það hin leiðin að banna erlenda starfsemi.  En það stangast á það markmið tilskipunarinnar að:

 Samkvæmt markmiðum sáttmálans skal stefnt að samræmdri þróun lánastofnana í öllu bandalaginu með því að fjarlægja allar takmarkanir á staðfesturétti og frelsi til að veita þjónustu

Og fjórfrelsið gerir ekki ráð fyrir slíkum takmörkunum, fyrirtæki eiga að geta starfað hvar sem þau vilja, óháð sinni stærð eða stærð heimalands.  Bann við starfsemi í öðrum ríkjum er nærtæk lausn fyrir smærri ríki en ef slíkt yrði leyft, þá væru forsendur innri markaðar EES brostnar.  

Með öðrum orðum þá hafa aðildarríki engin ráð samkvæmt tilskipun þessari, ef um bakábyrgð er að ræða, en að taka hana á sig.  En það er ekki hægt.  Stjórnarskrár allra aðildarríkja bannar ótakmarkaða ábyrgð, því undir slíku getur ekkert ríki staðið.

Þess vegna er þetta ákvæði sem bannar bakábyrgð aðildarríkja.  Þau eru því aðeins í ábyrgð, hafi þau á einhvern hátt komið á fót tryggingarkerfi sem uppfyllir ekki skilyrði tilskipunar ESB eða tryggingakerfin starfi ekki eftir þeim reglum sem þeim er sett.  Og sú ábyrgð er eðlileg og í samræmi  við viðteknar venjur.  En samkvæmt EES samningnum þá eiga ríki ekki geta komist upp með brot, til þess eru ESA og EFTA dómstóllinn.  Geri þessar stofnanir ekki athugasemdir, þá eru íslensku lögin og framkvæmd þeirra samkvæmt lögum og reglum EES.

Steingrímur þú gefur þér þá forsendu að markmið sé það sama og framkvæmd.  Mikið vildi ég að þetta hefði verið rétt hjá þér þegar ég sat á vondum stólum og hlustaði einhvern mann tala við sjálfan sig upp við töflu í grunnskólanum í gamla daga.  En markmið laga eru markmið laga en framkvæmd þeirra fer eftir þeim lögum og reglum sem gilda á hverjum tíma.   Ég hélt að þessi grunnsannindi væru öllum Íslendingum ljós því nóg er til hér að lögum með fögrum markmiðum en  sá ljóti Þorgeirsboli, fjárlögin stjórnar því hvernig tekst til. 

Eins er það með þessa tilskipun ESB.  Markmiðin eru fögur, svona svipuð eins og markmiðið um Ísland án eiturlyfja árið 2.000  eða  markmið Sameinuðu þjóðanna  um að útrýma fátækt fyrir árið 2020, en það er tilskipunin sem segir til um hvernig þessum markmiðum er náð.

Þar segir að fjármálafyrirtækin fjármagni kerfið, sú fjármögnun eigi ekki að íþyngja þeim, og það er skýrt tekið fram að aðildarríki eru ekki í ábyrgð.  Þetta er framkvæmdin, og það er hún sem gildir samkvæmt lögum

Þú og aðrir Borgunarsinnar gangið út frá því að fyrst að kerfið sprakk, þá sé heimaríki í ábyrgð, en það er forsenda sem styðst ekki við lögin.  Þú gast alveg eins gefið þér þá forsendu að öll aðildarríki tækjust á við kerfishrun eða þá jólasveinninn eða Kínverjar.  Forsendur sem fólk gefur sér skipta engu máli, það eru lögin sem gilda. Og gleymdu því aldrei að þær stofnanir EFTA sem eiga að fylgjast með framkvæmd tilskipana ESB/EES hafa aldrei gert athugasemdir við okkar lög, ekki einu sinni núna eftir hrunið.

Þú segir að markmið tilskipunarinnar hafi ekki verið að koma á tryggingakerfi, markmiðið er að tryggja innstæður sparifjáreigenda.  Hugsaðu þetta aðeins betur.  Ég skal hjálpa þér, ég skal peista fyrir þig hvað þessi tilskipun heitir: 

TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 94/19/EB frá 30. maí 1994 um innlánatryggingakerfi.

Vissulega er eitt af markmiðum þessarar tilskipunar að tryggja innstæður en markmiðin eru svo mörg önnur eins og allir geta lesið sér til um.  Og hvernig þessari tilskipun um innlánstryggingakerfi tókst til má deila, hún til dæmis gerði ekki ráð fyrir að tryggingasjóðirnir kæmust í þrot.  Kannski var það ekki meiningin, kannski voru það mistök.  

En kjarni málsins er sá að mér og þér og öðrum Íslendingum kemur það ekki við. Lögin gilda.

Og lokatilvitnun mín í sjálfið er sú sem átti að vera lokaloka innlegg mitt í umræðuna en hún varð langlífari en það og alveg ótrúlegt að hún skyldi vera lesin, það eitt sýnir hvað málið brennur á mörgum og fólk finnst að þeir sem vitið og þekkinguna hafa, til dæmis háskólasamfélagið, með örfáum undantekningum, hafi brugðist.  Því er þessi umræða svona hörð á netinu, og vissulega í mínu tilviki tekin meira af vilja en mætti, en hvað um það, hér er loka loka.

Lokasetningahlutinn, sem þú vitnar í er hnykking á skilyrðingunni.  Þau skilyrði sem "kerfin" (það er innstæðutryggingakerfin) þurfa að uppfylla.  Og það gerir íslenska kerfið Steingrímur. 

Það er ekki því að kenna að núna er ekki til peningar til að greiða öllum fullar innistæður, og það er ekki því að kenna að tilskipun ESB skyldi aðeins gera ráð fyrir að fjármálastofnanir sæju um fjármögnun kerfisins og sú fjármögnun mætti ekki skaða starfsemi þeirra.  Og það er ekki íslenska kerfinu að kenna að tilskipun ESB skyldi útiloka þann möguleika að aðildarríki bæru bakábyrgð á sjóðnum.

Steingrímur, annaðhvort uppfyllir kerfið þessi skilyrði eða ekki.  Þú segir ekki, því að peningar séu ekki til staðar í tryggingasjóðnum.  En ef við hefðum tekið þessa umræðu í ársbyrjun 2008 og umræðuefnið væri meint gjaldþrot Sparisjóðs Mýrarmanna, þá væri það ljóst að sjóðurinn hefði uppfyllt þau skilyrði að greiða öllum innistæðueigendum sína lágmarkstryggingu og hann hefði jafnt greitt Pólverjum sem Íslendingum.  Þú hefðir hlegið að mér ef ég hefði ruðst fram á ritvöllinn og skammað Samfylkinguna fyrir Nýfrjálshyggju (sem ég gerði stundum í góðra vina hópi) og sagt eitt dæmið vera að EES samningurinn hefði innleitt Tryggingarsjóð, sem væri Nýfrjálshyggja og uppfyllti ekki skilyrði ESB um fjármögnun.  Miðað við málafylgju þína núna, og ég hefði verið jafn leiðinlegur þá eins og núna, þá hefðir þú örugglega sagt mér að hætta þessu bulli, íslenski tryggingasjóðurinn uppfyllti öll þau skilyrði sem til hans væru gerður og aðeins gamlir uppgjafa Hriflungar væru að tuða um hugsanlegt kerfishrun.  Og þú hefðir rétt fyrir þér þá, það er í þessu ímyndaða dæmi mínum.

Sjóðurinn greiðir nefnilega út sína lágmarkstryggingu hafi hann til þess pening.  Og fram að bankahruni var hann fullkomlega löglegur samkvæmt öllum þeim reglum og öllum þeim kröfum, sem til hans voru gerðar, og ef hann var löglegur þá, þá er hann löglegur í dag.

Því það er kerfið sem þarf að vera löglegt.  Og íslenska kerfið var löglegt.

Þú hefur forðast það eins og heitan eldinn að svara öllum hinum röksemdum mínum, eins og þeim af hverju ekki voru gerðar athugasemdir við sjóðinn ef hann var svona ólöglegur, því íslensku lögin útiloka bakábyrgð ríkisins.  Af hverju Steingrímur??  Svaraðu því og notaður rökhugsun þína, ekki óskhyggjuna sem þínir menn þurfa á að halda þessa daganna.  

Og áttar þú þig ekki á því  að fyrst engar athugasemdir voru gerðar, þá var skilningur eftirlitsaðila EES samningsins sá sami og ég hef reifað í mínum "órökstuddu" fullyrðingum.  Og áttar þú þig ekki á því að þessir sömu eftirlitsaðilar hafa engar athugasemdir gert ennþá á formlegan hátt eins og þeim ber skylda til ef skoðun þín er rétt.  Og samkvæmt lögum og reglum EES þá eru athugasemdir þeirra og síðan, ef eftir þeirra úrbótum er ekki farið, kæra þeirra til EFTA dómsstólsins, hin eina lögforleg leið EES samfélagsins til að knýja Ísland til að breyta sínum lögum.  

Hvorki skoðanir mínar eða skoðanir þínar, eða skoðanir Össurar Skarphéðinssonar eða Gordons Browns hafa ekkert um það að segja hvort Ísland sé í bakábyrgð eða ekki.  Á meðan ekki eru gerðar athugasemdir eftir lögformlegum leiðum, þá standa íslensku lögin, og í þeim stendur að íslenska ríkið er ekki í ábyrgð.

Málið getur ekki verið einfaldara ef eftir lögum EES er farið.  En það er hængurinn.  Bretar og Hollendingar treystu sér ekki til þess og með stuðnings skrifstofumannaliðs ESB/EES hafa þeir kúgað íslensk stjórnvöld til samninga.

En frá ESA og EFTA dómstónum hefur ekki heyrst ein einasta hóstastuna, hvað þá meir.

Þess vegna er ótrúlegt að þú sem Íslendingur skulir taka undir þessa ólöglegu kúgun, hreint ótrúlegt.  Og þess vegna vil ég biðja þig aftur að íhuga orð Herdísar og ef þau vekja þig til umhugsunar þá skal ég gefa þér upp linkinn svo þú getir lesið um staðreyndir ICEsave deilunnar eftir virtan lagaprófessor.  Orð Herdísar er málstaður Íslands og íslensku þjóðarinnar í hnotskurn.  Ég er ekki að segja að þetta sé málstaður Breta eða Hollendinga, hvað þá skriffinna ESB.  Þetta er málstaður Íslands.  Og aðeins dómstólar sem málið varðar geta breytt okkar málstað.  

Já og svo landráðafólk, en ég er ekki að flokka þig í þann dilk.  Skil alveg að þú telur það rétt að greiða þessa peninga.  Um það erum við ósammála.

Jæja og ef einhver hefur komist á endastöðina með mér, þá þakka ég lesturinn, og

Kveðja að austan.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 454
  • Frá upphafi: 1412816

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 393
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband