Þekkjum orðræðu Borgunarsinna, annar kafli, bullið.

Sá ágæti fjölmiðlamaður Egill Helgason hefur bjargað því sem hægt er að bjarga í þjóðfélagsumræðunni eftir Hrunið.  Aðrir fjölmiðlar voru á einn eða annan hátt undir ægivaldi stjórnvalda, þeir voru gjaldþrota eða pólitískt stjórnað eins og Ruv.  En Egill fékk að sprikla og hefur gert það nokkuð vel.

Hann notar mikið þá taktík að setja fram sjónarmið sem vekja umræðu, enda mikið skammaður af flokkshestum allra flokka, en að sama skapi hrósað þegar sjónarmið hans er þeim að skapi.  Egill dró fram andstæðurnar í ICesave umræðunni í pistli 11. júní.  Hér er linkurinn:

http://eyjan.is/silfuregils/2009/06/11/rok-med-og-a-moti-icesave-samningi/

Þar teflir hann fram ágætum pistli Jóns Helga Egilssonar um 11 firrur ICesave umræðunnar gegn orðræðu þekkts bloggara BaldurMcqueen að nafni.  Í sínum 10 liðum tekst Mcqueen að ná fram öllu helstu bullrökum ICEsave deilunnar.  Ég ætla ekki að taka þær fyrir lið fyrir lið en impra aðeins á því helsta.

Baldur segir í fyrsta lið:

1)  Íslensk stjórnvöld hefðu getað hafnað Icesave í fæðingu, til þess eru heimildir í lögum.  Það gerðu þau ekki, heldur beinlínis studdu bankann í sínum gjörningi; í ljósi upplýsinga sem lágu fyrir þegar gefið var leyfi fyrir Icesave í Hollandi, er erfitt að kalla þá gjörð annað en ránsleiðangur.  Með vitund og vilja íslenskrar stjórnsýslu.

Vissulega er það rétt hjá honum að opnun ICEsave reikningsins í Hollandi var óskiljanleg miðað við þekktar upplýsingar en það þarf að gæta að því að flestir sérfræðingar sem þá tjáðu sig voru einmitt að benda á að íslensku bankarnir þyrftu að auka innlán sín.  Og ef stjórnvöld á annað borð vildu þetta fjármálakerfi þá var stofnun innlánsreikninga eðlilegt mótspil við alþjóðlegu fjármálakreppuna.   En fullyrðingin um að þau gátu stoppað ICEsave í fæðingu er hæpin því þessir reikningar voru löglegir samkvæmt EES samningnum og svona netreikningar voru þegar þekktir.  Það var mjög hæpið fyrir íslensk stjórnvöld að banna það sem aðrir leyfðu.  Slíkt hefði getað skapað því skaðabótaábyrgð vegna fjórfrelsins svokallaða. 

En þetta er samt ekki kjarni þess máls sem rætt er um.  Bjánaskapur yfirvalda (ef fólk kýs að kalla það svo) skapar ekki neina ábyrgð.  Það eru lög sem gera það og þessi fullyrðing Baldurs hefur ekkert með Tilskipun ESB nr 94/19 að gera.

2)  Að kenna EES samningnum um ófarir Íslendinga er í besta falli hálfur sannleikur.  Það neyddi enginn skuldakónga til að teygja frelsið út í margfalda stærð íslenska hagkerfisins.  Aðhaldið var ekkert, eftirlitið svaf og útrásin meira og minna dásömuð af íslenskum stjórnvöldum.

Þetta er svo sem allt rétt.  EES regluverkið heimilaði útrásina eða réttara sagt gerði hana auðveldari.  Og það er sjaldnast nauðung sem rekur fólk áfram í græðgi.  En hvað koma svona fullyrðingar ábyrgð íslensku þjóðarinnar á ICesave við??  Berum við siðferðislega ábyrgð vegna þess að við tilheyrum frjálsu markaðshagkerfi eins og aðrar þjóðir EES?  Við megum aldrei gleyma því að allt sem okkar fólk gerði var samkvæmt lögum og reglum efnahagssvæðisins og það er ekkert í lögum sem bannar fíflum að fara á hausinn.  Og reyndar ekki öðrum heldur. 

4)  Bretar, sem þurfa greiða Icesave NÚNA, eru ekki endilega með þá fjármuni í rassvasanum.  Þeir þurfa sjálfir taka lán fyrir útgjöldum eða prenta peninga.  Bretar græða ekkert á þessum samningi, þó sumum henti ágætlega halda öðru fram. 
Bretar, rétt eins og Hollendingar, eru þvert á móti að tapa miklu á Icesave - enda greiða Íslendingar ekki nema hluta skaðans
.

Þetta er rétt. Bretar og Hollendingar bera skaða af falli íslensku bankanna, alveg eins og við gerum.  En það sem þessi stjórnvöld eru að gera er að vernda sparifjáreigendur í sínu landi, alveg eins og íslensk stjórnvöld eru að gera með sinni ábyrgð.  En munurinn er sá að þessi ríki eru að koma hluta af sínum kostnaði yfir á aðra þjóð.  Til þess nota þær ekki leiðir réttarríkisins heldur leiðir hrokafullra einræðisríkja sem telja hnefarétt hins sterka þau alþjóðalög sem gilda.  Svona hugsunarháttur var til mikilla vandræða í Evrópu milli 1933 og 1939, eða þar til að hann startaði seinni heimsstyrjöldinni.  Þess vegna eru alþjóðalög um réttarstöðu ríkja og þær réttarleiðir sem ríki nota til að leysa ágreining sín á milli, svo mikilvæg.

 5)  Með íslensku neyðarlögunum samþykkti þáverandi alþingi að mismuna fólki eftir þjóðerni* og kippti jafnframt ákvæðum um tryggingarsjóð úr sambandi.  Fordæmið er komið - og það barst frá íslenskum stjórnvöldum.  Verði Icesave hafnað er allt eins líklegt að krafist verði sömu meðferðar á öllum innistæðum, óháð þjóðerni*.  Sem sagt, Íslendingar greiði öllum upp í topp - í stað lágmarksins sem nú er krafist.

Þetta er vitleysa frá a til ö.  Neyðarlögin mismuna ekki eftir þjóðerni.  Ef Breti á Íslandi færi í útibú Landsbankans á Laugaveginum, þá fær hann sínar innistæður, alveg eins og aðrir sem búsettir eru á Íslandi og greiða þar skatta og skyldur.  Og Íslendingur, búsettur í Bretlandi fær ekki aðra sérmeðferð í ICesave en breti, búsettur þar í borg.  Og lögin um tryggingasjóð eru í fulli gildi.  Og sjóðurinn má ekki mismuna eftir þjóðerni.  Og falli neyðarlögin fyrir dómstólum (sem ekki er ólíklegt því þau mismuna kröfuhöfum), þá falla þau einfaldlega úr gildi og íslensk stjórnvöld þurfa annað af tveggja, láta kjurt eða setja ný lög sem standast neyðarrétt.  En hvaða húmoristi kom þeirri flökkusögu á kreik að ógilding þeirra myndi þýða að stjórnvöld þyrftu að greiða allar ICEsave skuldbindingarnar upp í topp, veit ég ekki en eitt er víst að hann hlær mikið um þessar mundir.  Ógilding á innistæðuvernd á Íslandi þýðir aðeins ógilding á innistæðuvernd á Íslandi.  Það er engin gangályktun í þessu dæmi.

6)  Formaður Framsóknarflokks hefur talað fyrir því að hafna samkomulaginu og láta Breta/Hollendinga um að sækja málið.  Þær þjóðir myndu líkast til láta það eiga sig, enda ljóst að alger einangrun í kjölfarið þætti duga til að letja aðrar þjóðir frá "við borgum ekki" viðhorfinu.  Slíkt yrði í raun versta hugsanlega niðurstaðan.  Ef svo ólíklega vildi til að Bretar og Hollendingar færu í mál, myndu þeir, að mínu mati, hafa betur (samanber 5). 
Erfitt gæti reynst að finna dómstól sem leggði blessun sína yfir mismunun á grundvelli þjóðernis
.

Rökleysa.  Það er réttarákvæði í EES samningnum um eftirlitsskyldu ESA.  Og sú ágæta stofnun er með íslensku neyðarlögin til umfjöllunar.  Telji bretar og Hollendingar á sér brotið þegar íslenska ríkið stendur við sína löggjöf um tryggingasjóð innstæðna, þá eiga þessar þjóðir að nota þær réttarfarslegar leiðir sem EES samningurinn kveður á um.  Eða þegja ella.  Sú leið sem þær fara er leið lögleysunnar eins og allir lögspekingar benda á.  Og hvort málið tapist eða vinnst, kemur þessu máli ekki við.  Tapist það þá þurfa íslensk stjórnvöld að takast á við þann veruleika en eftir viðurkenndum alþjóðlögum sem banna kúgun og ofbeldi og nauðung þjóða.  Sá leið sem íslensk stjórnvöld myndu fara yrðu í takt við stöðu mála, og greiðslugetu þjóðarinnar.  Og sú gjörð yrði íslensk samkvæmt þeim neyðarrétti sem við höfum vegna alvarlegrar stöðu þjóðarinnar. 

En hinn meinti mismunur vegna þjóðernis kemur tilskipun ESB um innlánstryggingar ekkert við. 

 

8)  Gera má athugasemdir við framferði íslenskra stjórnmálamanna og eftirlitsstofnanna sem mærðu svikamyllur bankanna allt fram á síðasta dag.  Þar á meðal ummæli háttsettra manna sem gáfu ítrekað í skyn að íslenska ríkið gæti greitt innistæðueigendum ef illa færi.  Þannig var búin til fölsk öryggiskennd hjá viðskiptavinum Icesave; sú auglýsing hafði áhrif.
Velta má fyrir sér hví breskur/hollenskur almenningur skuli bera ábyrgð á íslenskum banka, sem var undir íslensku eftirliti og studdur af íslenskum stjórnvöldum - stjórnvöldum sem kosin voru af íslenskri alþýðu
.

Nú er stórt spurt.  Er alþjóðlegur kapítalismi svikamylla??  Er bannað að fara eftir lögum og reglum EES samningsins um fjórfrelsið???   Kannski, en þá átti Ísland ekki að vera í EES.  Og við megum aldrei gleyma þeirri staðreynd að íslensk stjórnvöld tóku upp leikreglurnar, en sömdu þær ekki.  Það vill oft gleymast í umræðunni.  Og hvað eftirlitið varðar þá er ljóst að daglegt eftirlit var hjá hollenska og breska eftirlitinu, það eru rangfærslur að halda því fram að útibú á ákveðnum fjármálalmarkaði hafi ekki lotið þeim reglum sem viðkomandi ríki setti á þeim markaði.  Ef til dæmis breska eftirlitið hefði talið lausafjárstöðu veika, þá gat það tafarlaust krafist úrbóta og ef það taldi ekki íslensku lögin standast reglur ESB, þá bar því skylda til að krefja Landsbankann að gerast aðili að viðurkenndu tryggingakerfi.  Það er ekki þannig að stórfyrirtæki geti skráð sig hjá einhverri smáþjóð og síðan farið á svig við öll lög og allar reglur. 

En sjónarmið um fíflsku íslenskra ráðamanna sem tóku þátt í Hrunadansinum er réttmætt en fíflska skapar ekki ábyrgð, ekki einu sinni í kosningum þar sem Samfylkingin er stærsti flokkur landsins.

 

En um aðrar fullyrðingar BAldurMcqueen ætla ég ekki að fjölyrða.  Persónulegar skoðanir sem koma ICEsave deilunni ekkert við.  Og auðvita mega menn hafa sínar skoðanir í friði.  En þegar vitnað er í þær sem einhverja málsvörn Borgunarsinna, þá þarf að mæta þeim og afgreiða þær á þann hátt sem þær eiga skilið.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 15
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 2034
  • Frá upphafi: 1412733

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1787
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband