Þekkjum orðræðu og (ó)rök Borgunarsinna í ICEsave deilunni.

Það ríkir stríð í Netheimum.  Milli íslensku þjóðarinnar og leppa Evrópusambandsins. 

Lepparnir fullyrða að Ísland eigi að borga þessar ábyrgðir því það standi í EES samningnum.  Þegar það er gengið á þá þá byrja órökin og útúrsnúningarnir.  Yfirleitt vísa þeir í fullyrðingar hvors annars eða almannaróm en þeim er fyrirmunað að koma með gild rök fyrir sínu máli.  Sem blasir náttúrulega við því þau eru ekki til.

En ég vil strax í upphafi taka fram að auðvita eru það gild rök að telja að íslenska þjóðin verði að borga þessar fjárkröfur vegna þrýstings og þvingana Evrópusambandsins.  Um þau rök má ræða og um þau rök má deila og til þeirra er hægt að taka afstöðu.

En stærsti hluti Borgunarsinna heldur sig ekki við þessi rök, heldur tekur undir málflutning kúgara okkar í einu og öllu.  Þegar fullyrt er að Ísland eigi að borga þessar fjárkröfur vegna löglegra starfsemi einkafyrirtækja sem fóru á hausinn, þá er verið að gera eitt af þrennu.

1. Það er verið að ljúga vitnandi vits til að blekkja fólk og afvegleiða umræðuna.

2. Það er verið að segja ósatt í nauðvörn þegar rökræðan er töpuð vegna þeirra staðreynda sem við blasa.

3. Það er verið að tala í fáfræði þess sem hefur ekki kynnt sér rökin í málinu en treystir leiðtoga sínum í blindi.

Borgunarsinnar í nauðvörn vísa oft í sömu pistlana á netinu, misgóða.  Allt frá því að vera heiðarleg tilraun til fréttaskýringar út í það að vera argasta bull.  

Í þessum pistli og a.m.k. einum öðrum ætla ég að taka fyrir þessar tilvísanir og benda á helstu vitleysurnar og bullið (þegar því er að skipta) sem fólk vitnar í sem marktæk rök.  Fréttaskýring Óla Kristjáns Ármannsonar í Fréttablaðinu 11.feb var heiðarleg tilraun til að skýra út af hverju íslendingar eigi að borga.  Reyndar að mínu dómi sú málefnalegasta sem gerð hefur verið af borgunarsinnum.  Hún dúkkar oft upp í nauðvörn Borgunarsinna og því er rétt að minnast fyrst á hana.  

Greinin er aðgengileg á slóðinni  http://www.visir.is/article/20090211/VIDSKIPTI0803/180687518/0

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á augljósum veikleika greinarinnar en það er algjör skortur á nafngreindum heimildarmönnum.  Og útskýringin er svo fyndin að ég verð að koma með hana orðrétta:

Þetta má ráða af viðtölum við sérfræðinga í Evrópurétti. Illa gengur þó að fá fólk til að tjá sig um málið, þar sem margir helstu sérfræðingar landsins í þessum málum eru bundnir af verkefnum sem þeir eru að vinna við, hvort heldur það er fyrir stjórnvöld hér eða erlendar stofnanir.

Óli Kristján gat sem sagt fengið fólk til að segja sitt hvað sem hann byggir grein sína á en það hafði svo mikið að gera að það hafði ekki tíma til að segja honum nafn sitt.  Eða það þorði ekki að koma fram undir nafni og eiga á hættu að gamli kennari þess í lagadeild, Stefán Már Stefánsson rasskelti það opinberlega fyrir lélega lögfræði.

En áður en við kíkjum á niðurstöðu þessara sérfræðinga þá langar mig að taka tvennt fyrir. 

Lagaspekingar Óla Kristjáns gáfu sig tíma til að segja honum að virtasti lagaprófessor landsins, Stefán Már Stefánsson kynni ekki að lesa einfaldan enskan lagatexta og það sem meira var, að skjalaþýðendur íslenskra stjórnvalda kynnu það ekki heldur.  En kíkjum á klausuna:

Þá hefur því verið haldið fram að í aðfararorðum tilskipunarinnar segi að aðildarríki beri ekki ábyrgð gagnvart innstæðueigendum hafi það komið á fót innlánstryggingarkerfi í samræmi við tilskipunina. Sérfræðingar sem leitað hefur verið til telja þarna um mislestur á 25. efnisgrein hennar að ræða, en þar segir: „Whereas this Directive may not result in the Member States’ or their competent authorities’ being made liable in respect of depositors if they have ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognized;". Þetta þýði að óvíst sé að ábyrgð falli á aðildarríki hafi verið komið upp tryggingarkerfi samkvæmt tilskipuninni.

 Í íslenskri þýðingu (löggilt, hefur því lagagildi á Íslandi) stjórnartíðinda EB hljómar þessi texti svona:

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfir-völd þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafaséð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndumaf stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnarsjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og trygg-ingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Skýrar er ekki hægt að orða hlutina og ef löggiltur texti á íslensku er rangt þýddur þá hefðu viðkomandi stofnanir ESB átt að gera athugasemdir við það strax í upphafi því þessi texti er undirstaða íslensku laganna úm tryggingasjóða innlána sem er ekki á ábyrgð íslenskra stjórnvalda samkvæmt lögum sjóðsins.

En fólk með heilbrigða skynsemi léti heldur aldrei svona vitleysu út úr sér.  Það er útilokað að um jafnmikilvægt grundvallarmál eins og bakábyrgð aðildarríkja að það sé sagt með berum orðum.  Sagt skýrt, jafnskýrt og þetta er orðað í íslenska textanum að þau beri ekki ábyrgð.  Og ef það hefði verið sagt þá hefði þurft að fylgja því útskýringar hvernig aðildarríki gætu fjármagnað al-ábyrgð án þess að setja fjármálafyrirtækin, sem aðild eiga að innlánstryggingakerfinu, á hausinn.  Því samkvæmt tilskipuninni eiga þau að fjármagna sjóðinn.  Og enginn milliríkjasamningur getur falið í sér bakábyrgðir sem setja aðildarríkin í þrot, komi til þeirra.  Til glöggvunar á þessum rökum þá er gott að hafa rökfærslu Stefáns Más Stefánssona til hliðsjónar, tekin úr grein hans og Lárusar Blöndals sem nefnist "Í hvað liði eru stjórnvöld"

 

Ef ætlunin hefði verið að aðildarríkin bæru ábyrgð á því að fjármögnun kerfisins dygði a.m.k. fyrir lágmarksgreiðslu samkvæmt tilskipuninni hefði það að sjálfsögðu átt að koma fram í henni. Þá hefði einnig þurft að koma fram hvaða úrræðum aðildarríkin ættu eða mættu beita til að takmarka þá ábyrgð sem þannig gæti fallið á þau. Ekkert kemur fram í tilskipuninni um þetta. Þvert á móti er sagt að innlánsfyrirtækin fjármagni tryggingakerfið og aðildarríkin beri ekki ábyrgð á innstæðum ef tryggingakerfið hefur verið innleitt og framkvæmt í samræmi við tilskipunina.

Að átta sig ekki á þessum staðreyndum er mikil einfeldni, svo mikil einfeldni að flestir sem halda þessu fram eru að blekkja til að þjóna sínum málstað.  Þeir hafa engan lagatexta máli sínu til stuðnings.

Seinna atriðið sem vert er að staldra við í grein Óla Kristjáns er upprifjun hans á vanhæfni ríkisstjórnar Geirs Harde í samskiptum okkar við breta og Hollendinga. 

 

 „Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár," og var þar ítrekuð fyrri afstaða stjórnvalda, líkt og hún birtist í bréfi viðskiptaráðuneytis til breska fjármálaráðuneytisins 20. ágúst. Þar er fullyrt að íslensk stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að Tryggingarsjóður fái staðið við skuldbindingar sínar hvað varðar lágmarksvernd innstæðueigenda. Þessi afstaða íslenskra stjórnvalda gagnvart innstæðutryggingarsjóði var svo enn ítrekuð í bréfi viðskiptaráðuneytis til breska fjármálaráðuneytisins 5. október 2008 og í frægu símtali fjármálaráðherra Íslands og Bretlands tveim dögum síðar.
Raunar virðist sem það hafi aldrei leikið vafi á því í hugum íslenskra stjórnvalda að Íslendingum bæri að standa við lágmarksábyrgðina í samræmi við tilskipun ESB og íslensk lög. Því til staðfestingar má benda á að 11. október gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við Hollendinga sem þau töldu að lyki málinu gagnvart þeim. Í tilkynningu um samkomulagið segir meðal annars: „Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur
.

 Um þetta þarf ekki að deila.  Svona var þetta.  En í þessu felst ekki nein þjóðréttarleg skuldbinding þó vissulega hafi þetta gert okkur að fíflum.  Orð eða samningur ríkisstjórna skuldbinda ekki þjóðfélög eða ríki.  Það þarf að fara eftir þeim lögum sem gilda og í fyrsta lagi þá þarf að samþykkja þessar skuldbindingar á lögformlegan hátt og í öðru lagi þá þurfa þau að standast stjórnarskrá landsins.  Ekkert af þessu er til staðar.  Jafnvel í vafasömu lýðræðisríki eins og Hvíta Rússlandi þá eru orð Lúkasjenkó forseta landsins ekki lög, hvað þá í lýðræðisríki eins og Íslandi þá eru orð Geirs og Ingibjargar ekki lög eða skuldbindingar landsins.  Meira að segja orð Pútins forseta um lán til Íslands dugðu ekki rússneska fjármálaráðherranum til að lána Íslandi.  Hlutirnir eru ekki bara svona einfaldir.  Og ég vísa aftur í þá félaga Stefán og Lárus til útskýringar.

Getur það staðist að fyrirtæki séu starfrækt víða um heim á ábyrgð íslenska ríkisins án þess að ríkið sjálft hafi nokkuð um það að segja? Auðvitað er það ekki svo. Ábyrgð ríkisins á skuldbindingum annarra getur í meginatriðum orðið til með þrennum hætti; á grundvelli laga, þar sem ábyrgð ríkisins er skýrt sett fram, á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga með heimild í lögum eða með því að ríkið verður bótaskylt vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis á grundvelli sakar.
Síðastnefnda atriðið er það eina sem gæti átt við hér, þ.e. að ríkið hafi látið undir höfuð leggjast að koma á innlánatryggingakerfi í samræmi við tilskipun ESB. Eins og rakið hefur verið hér að framan þá á það ekki við nein rök að styðjast
.

 Um þetta er ekki hægt að deila nema þá ef annar deiluaðilinn veit ekki hvað hann er að segja en segir samt það sem hann vil trúa, án þess að rökstyðja sitt mál með lögum og reglum.

Um orð Óla Kristjáns sem koma fram í fyrri hluta greinarinnar um þá skyldur sem tryggingasjóðurinn ber samkvæmt tilskipun ESB þá er það allt rétt og gilt en það er ekki það sama og að ríkið beri ábyrgð ef hann getur ekki staðið við sínar skyldur.  Á þeim vanda tók tilskipun ESB ekki.  Því er niðurstaða hinna nafnlausu sérfræðinga hans röng.

Helsta niðurstaðan er hins vegar að með því að gangast undir tilskipun ESB um innstæðutryggingar og leiða ákvæði hennar í lög hafi ríki búið til réttmætar væntingar hjá sparifjáreigendum (á Evrópska efnahagssvæðinu) um að innstæður þeirra væru tryggðar upp að ákveðnu lágmarki. Þar af leiðandi standi krafan ekki einungis upp á innlánstryggingakerfin, heldur aðildarríkin, burtséð frá því hvaða leiðir hafa verið valdar í hverju landi til að fjármagna þessi kerfi.

Það eru ekki aðildarríkin sem skapa þessar væntingar, það er ESB með tilskipun sinni.  Ísland átti ekki neinn annan úrkost eins og önnur ríki EES að innleiða þessa tilskipun.  Hafi hún skapað væntingar þá er það á ábyrgð þeirra sem gáfu út þessa tilskipun.  Um þetta atriði fjalla þeir félagar Stefán og Lárus í grein sinni "Er Evrópusambandið skaðbótaábyrgt".  Í stuttu máli var niðurstaða þeirra félaga sú sem kemur fram í þessari málsgrein.

Komumst við að þeirri niðurstöðu að á grundvelli þess að ESB hafi vakið upp þær réttmætu væntingar að innlánstryggingarkerfin sem byggðust á tilskipun ESB myndu að lágmarki tryggja 20.000 evra innistæður hjá hverjum og einum. Því væri Evrópusambandið bótaskylt í þeim tilvikum þar sem tryggingarkerfin stæðu ekki undir þeim væntingum. Síðan sýndum við fram á að Evrópusambandinu var fullkunnugt um að innlánatryggingarkerfin væru ekki í stakk búin að mæta verulegum áföllum eins og nú ríða yfir. Þá var það niðurstaða okkar að íslenska ríkið gæti öðlast sama rétt og innistæðueigendur ættu gagnvart ESB ef það greiddi þeim umfram skyldu greiðslur til að uppfylla réttmætar væntingar þeirra. Fyrir þessu eru færð marvísleg önnur rök en greinin er aðgengileg á vefslóðinni: http://www.mbl.is/media/68/1168.pdf .

 En kjarni málsins er sá að ef um ágreining er að ræða þá á að takast á við þann ágreining í dómssölum.  Hagfræðingurinn Yngvi Örn Kristinsson skrifaði grein 26. jan í Morgunblaðið undir titlinum "Eru aðrar leiðir færar".   Þar varð honum á að kalla málflutning Stefáns Más og Lárusar "Lagatæknileg rök".  Frasi sem síðan kemur oft fyrir í málflutningi Borgunarsinna.  Svar þeirra félaga "

„Lagatæknileg rök“ um innistæðutryggingar

er ein hressilegasta flenging sem nokkur maður hefur fengið í opinberri umræðu síðustu ára.  En ég ætla að hafa mín lokaorð um grein Óla Kristjáns, sem þrátt fyrir allt er upplýsandi og málefnaleg í alla staði, tilvísun í þessa frægu flengingu. 

Hins vegar gerir Yngvi lítið úr því sem hann kallar lagatæknileg rök sem við leyfum okkur að skilja sem lögfræðileg rök. Til lögfræðilegra sjónarmiða er gripið t.d. þegar lagt er mat á skyldu aðila til að greiða fjárskuldbindingar eða hvort einhver beri ábyrgð á annarra manna gjörðum. Í réttarríki verður aðila ekki gert að greiða fjárskuldbindingar ef hann er ekki skyldur til þess að lögum. Því má segja að í samskiptum manna og eftir atvikum ríkja, skipti lögfræðileg rök miklu, jafnvel öllu máli ef ákvarða á réttindi eins og skyldur annars.

Og meira um siðaðra manna háttu.

Af framansögðu er því ljóst að við ákvörðun um það hvaða greiðslur okkur ber sem þjóð að greiða vegna bankahrunsins verður að byggja á lögfræðilegu mati. Á það við hvort heldur fjallað er um greiðslur til almennra kröfuhafa bankanna, til innistæðueigenda eða annarra sem kröfur gera. Úr grein Yngva má lesa það viðhorf að því sé haldið fram af einhverjum að ríkið eigi ekki að greiða þær skuldbindingar sem réttilega er að því beint. Við þekkjum hins vegar ekki til þess að þessu hafi verið haldið fram. Að sjálfsögðu á íslenska ríkið að greiða það sem því ber, um það á ekki að þurfa að deila. Það getur hins vegar verið ágreiningur um það hvað fellur þar undir.

Og hvað gera menn við lagalegan ágreining??????????????????

Yngvi nefnir einnig að líklegt sé, ef íslenska ríkið hafni því að greiða til innistæðueigenda í samræmi við kröfur Bretlands og fleiri þjóða, muni þessi lönd sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Vonandi er það rétt. Það er nefnilega þannig að ef ágreiningur er um réttindi og skyldur þá leysa menn úr honum fyrir dómstólum. Þá kröfu hefur íslenska ríkið sett fram og við það eigum við að halda okkur. Það er alveg fráleitt að halda því fram að málsókn fyrir alþjóðlegum dómstólum geti dregið úr trúverðugleika. Ef ríki eða ríkjasambönd vilja hins vegar beita öðrum aðferðum við lausn ágreiningsmála sinna eins og þvingunaraðgerðum eða nauðung þá er verið að fara á svig við grundvallarreglur réttarríkja.

Hvað sem er rétt eða rangt í þessari deilu þá er það ljóst að þeir sem meina þjóð sinni um réttlæti siðaðra þjóða eru ekki hæfir til að stjórna þessu landi og slíkt er alvarlegt brot á stjórnarskrá landsins, samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem kveður skýrt á um réttarúrræði, og alþjóðalögum.

Höfum það hugfast að aðeins landráðafólk mælir svona málsmeðferð bót. 

En rökin að segja að við neyðumst til að ganga að nauðunginni því annars eru aðrir afarkostir kúgunaraðilans til staðar, þau eru gild og þau má ræða.

Kveðja að austan. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 353
  • Sl. viku: 3853
  • Frá upphafi: 1329384

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 3379
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband