Er Morgunblaðið að rumska?

Eftir ritstjóraskiptin á Morgunblaðinu, hefur blaðið sett niður.  Áður var stefna og skoðanir blaðsins í umræðunni en á umbrotatímunum eftir Hrunið í haust þá var Mogginn ekki með.  Skoðanir blaðsins höfðu ekki meira vægi en hjá meðalgóðu héraðsfréttablaði.

Þegar Styrmir skrifaði þá var eftir því tekið.  Menn elskuðu að vera ósammála honum eða fögnuðu því þegar hann tók undir skoðanir þeirra.  Jafnvel hans hörðustu andstæðingar frá þeim dögum þegar tilfinning og hiti var í pólitíkinni, áttu það til að skrifa greinar og skamma andstæð sjónarmið en klykktu út með þeim rökum að Styrmir hefði sömu skoðanir.  Um þetta eru mýmörg dæmi.

Þegar Ólafur skrifaði sín Reykjavíkurbréf þá taldist það gott að fólk gæti lesið þau án þess að sofna.  Langar og leiðinlegar Evróputrúboðslanglokur höfðu þann eina árangur að eftir að Morgunblaðið tók að beita sér í Evrópumálum, þá minnkaði fylgi Evrópusinna jafnt og þétt.  Flokkur blaðsins, Samfylkingin náði ekki 30% fylgi sem er algjört skipbrot fyrir eina flokkinn sem beitti sér fyrir inngöngu í Evrópusambandið.  Skipti engu þó Ólafur og félagar héldu úti stanslausu níði á VinstriGræna vikuna fyrir kosningar til að hindra fylgishrun Samfylkingarinnar.  Allt kom fyrir ekki.

En þegar Styrmir fékk frelsi til að beita sér óskiptur gegn aðild að ESB innan Sjálfstæðisflokksins, þá sprakk ríkisstjórnin, fram að því hafði hún lafað vegna þess að Samfylkingarforystan taldi að hægt væri að knýja Geir Harde til uppgjafar og styðja aðildarumsókn að ESB.  Styrmir kæfði þá von í fæðingu.

 

En samt hafa góðir sprettir komið  inná milli hjá Morgunblaðinu.  Mannréttindamál og stuðningur við þá sem höllum fæti standa og þá sem hafa lenti illa út úr kerfinu af ýmsum ástæðum, hafa hlotið vægi í umfjöllun og leiðaraskrifum blaðsins og mjög margt gott skrifað um þau mál.  Leiðarinn sem gerði upp arfleið Bush stjórnar og Nýfrjálshyggju hennar, var klassi og t.d holl lesning fyrir menn eins og Björn Bjarnason sem studdi óhæfuverk NýRepublikana bandarísku eins og blindur Stalínisti.  En stefna þeirra var eins skylt stefnu Sjálfstæðisflokksins og stefna þjóðernissósíalista á sínum tíma.  En faðir hans þekkti þann mun sem ungur maður og kæfði uppgang þeirra stefnu strax í fæðingu í frægri ræðu hjá lýðræðislegum stúdentum á sínum tíma. 

Ólafur er greinilega lesinn í því hvað er rétt og rangt og hvað maður gerir og hvað maður gerir ekki.

 

 

En hvað er það sem hefur sett Morgunblaðið niður??

Þrennt má nefna helst.

  1. Blindur stuðningur við meint aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart þeim vanda sem við blasti strax eftir Hrun.  Skiptir ekki máli hvort það var stjórn Geirs eða Jóhönnu.  Þáverandi ríkisstjórn átti skilið frið í upphafi kreppu en þegar efnahagspakkar hennar, fyrst til bjargar heimilunum og síðan orðagjálfrið um atvinnulífið þar sem ekkert raunhæft kom fram, þá var ljóst að ríkisstjórnin var ekki vandanum vaxinn og átti að víkja.  Enda kom það á daginn að í janúar komu harðorðar yfirlýsingar frá talsmönnum atvinnulífsins um að vandinn væri grafalvarlegur og ekkert raunhæft hefði verið gert.  Forseti ASÍ lýsti yfir vantrausti á ríkisstjórnina um sama leiti.  En stuðningur Morgunblaðsins var áfram jafn blindur og blaðið sá ekki ástæðu til að biðja afsökunar á þeim stuðningi þegar stjórnin hrökklaðist frá.
  2. Algjör hundsun á neyðarópi atvinnulífsins um drápsklyfjar vaxtastefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Þegar talsmenn atvinnulífsins segja í fullri alvöru að atvinnulífinu sé að blæða út, þá á Morgunblaðið síst að öllu að taka undir Vog-kenningu Þorvalds Gylfasonar eða sambærilegar röksemdir um að efnahagstefnan á Íslandi eigi að vera algjörlega á skjön við það sem annarsstaðar er gert í heiminum.  Mun færari og virtari hagfræðingar en íslenski meðalhagfræðingurinn hafa bent á að svo sé ekki.  Það er aðeins ein leið út úr Kreppunni ef ósköp eiga ekki að dynja yfir almenning og fyrirtæki.  Og sú leið er farin allstaðar annars staðar en á Íslandi.  Að taka undir málflutning þeirra sem vilja útrýma borgarastéttinni er ekki hlutverk Morgunblaðsins.
  3. Stuðningurinn við Samfylkinguna í ICEdeilunni fór yfir allan þjófabálk þegar blaðið tók þátt í þöggun þeirra félaga Stefán Más Stefánssonar og Lárusar Blöndal, eftir að þeir félagar skrifuðu grein sína í Morgunblaðið og spurðu í hvaða liði ríkisstjórn Íslands er.  Hvort sem blaðið er sammála skoðun þeirra félaga eður ei, þá er lykilatriðið í jafn mikilvægu máli að umræðan sé upplýst og stjórnvöld, í þessu tilviki utanríkisráðuneytið, eiga ekki að komast upp með að fela upplýsingar fyrir almenningi.  Ef lögfræðiálit segja að við eigum að borga samkvæmt þeim lögum og tilskipunum sem í gildi eru, þá á að birta þau álit.  Að vitna í eitthvað sem aðrir mega ekki skoða er engu betri rökflutningur en að vitna í kristalkúlu eða ósýnilegan vin sem allt veit.  Mjög algengt hjá ómálga smákrökkum.

Og margt annað má auðvita týna til  en þetta eru aðalatrið þess sem ég ætla að fjalla um því augljós stefnubreyting kom fram í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 17 maí.  Þar kom loksins fram sjálfstæð ritstjórnarstefna, byggð á skynsemi og viti og með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

 

Og hvað sagði Ólafur?

 

Leiðarinn var frábær og Reykjavíkur bréfið var snilld.

En víkjum fyrst að leiðaranum.   Hann var ein beinskeytt og hörð gagnrýni á stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hann krafðist að framvegis yrði stefnan í vaxtamálum tekin út frá forsendum íslensks atvinnulífs en ekki hagsmunum alþjóðlegs fjármagns.  Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn færi í fýlu þá yrði svo að vera.  Eftirleiðis yrði sjóðurinn aðeins notaður til góðra verka.

Auðvitað var þetta ekki sagt beinum orðum en meiningin er öllu hugsandi fólki augljós.  Stíllinn er þekktur úr mannkynssögunni.  Imre Nagy flutti svipaða ræðu þar sem hann þakkaði Sovét fyrir allt gott og gilt eins og frelsunina undan nasistum og hafa leyft þjóðinni að kynnast sósíalismanum.  En núna vildu Ungverjar ráða sínum málum sjálfir.  Og hann bað Sovétið um að yfirgefa landið.  Sem var kjarni hans ræðu.  Alexander Dubcek komst eitthvað svipað að orði í Tékkóslóvakíu en báðir þessir menn skildust svo vel að Sovétið sendi skriðdreka til að losa löndin við við slíkt sjálfræðistal.  Spurning hvað Leppar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gera við Ólaf.

En orðin tala sínu máli og þegar fyrri skrif blaðsins eru skoðuð þá er ljóst að vatnaskil hafa orðið i afstöðu blaðsins og nú renna öll vötn til björgunar íslenskrar þjóðar.  Hvenær blaðið hefur svo kjark til að gera upp við Óbermin er svo önnur saga.  En vatnaskilin eru falleg og hér er hluti af þeim.

Hins vegar verður að setja stórt spurningarmerki við hverjum sé verið að þjóna með kröfu um háa stýrivexti við núverandi aðstæður í efnahagslífinu. Sú krafa birtist meðal annars í orðum Franeks Rozwadowskis, sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja á fimmtudaginn. Þar sagði hann ekki svigrúm til frekari vaxtalækkana þar sem ríkisstjórnin hefði ekki fylgt endurreisnaráætlun eftir.

En er það ekki lykilatriði í endurreisninni að lækka stýrivexti umtalsvert í júní eins og peningastefnunefnd Seðlabankans hefur talað um? Með því að létta á hjólum atvinnulífsins aukast líkurnar á að bjarga því sem bjargað verður. Það getur haft víðtækan eyðileggingarmátt í langa framtíð að halda vöxtunum áfram háum.

Og ekki er þetta síðra.  Hrein fegurð fyrir hatramman andstæðing gjöreyðingarstefnu sjóðsins gangvart íslensku þjóðlífi.  "I love it".

Háir stýrivextir eiga ekki að þjóna þeim aðilum sem keyptu krónubréf og sitja nú fastir með eignir sínar á Íslandi vegna víðtækra gjaldeyrishafta. Þeir eiga sjálfir að bera kostnað af eigin áhættutöku en ekki þjóðarbúið í formi hárra stýrivaxta og vaxtagreiðslna til útlendinga eða erlendra félaga í eigu Íslendinga.

Allir viðurkenna að þeir hagvísar sem notast hefur verið við, eins og þróun verðbólgu og atvinnuleysis, veiti svigrúm til umtalsverðrar stýrivaxtalækkunar í júní eins og seðlabankastjóri gaf í skyn í byrjun maí. Þá kemur í ljós hver ræður í raun stýrivaxtastiginu á Íslandi.

 

En Reykjarvíkurbréfið tekur á sjálfri framtíðinni, og er hrein ótrúleg lesning ef litið er til þess að fyrrverandi frjálshyggjumaður og formaður SUS frá þeim tíma sem setti nýjan standard í barnslegri heimsku og einfeldni.  Að lesa skrif Ólafs núna og bera það sama við marga þá vitleysu sem hann lét út úr sér í den, er hreint ótrúlegt.  Að finna sambærileg dæmi er einna helst að finna í falli Páls ofsækjanda, sem síðar varð postuli, en við fallið sá hann ljósið um betri heim. 

Hvort ljós Ólafs muni hafa sambærileg áhrif á gang heimsmála er líklegast mjög ólíklegt en orð og skýr hugsun er til alls fyrst og það eru svona greinar sem marka nýja og betri framtíð.  Þetta skrifar fullþroska maður sem hefur mikið fram að færa.  Og hugsun hans er hluti af þeirri hugsun sem er nauðsynleg ef börnin okkar eigi einhverja framtíð vísa.  Og þau munu ekki eiga sér framtíð ef þau tilheyra örlitlum minnihluta fólks sem hefur allt til alls en byggir lífskjör sín á kúgun og arðráni meginhluta jarðarbúa.  Við erum öll eitt, óháð liti og kynþætti, þjóð eða trúarbrögðum.  Og örlög okkar eru samtvinnuð.  Ef einhver er skilinn útundan þá bitnar það að lokum á öllum. 

Og markaðurinn er því aðeins réttlætanlegur ef hann skilur þessa sýn og vinnur að henni.  Hann féll á síðasta prófi og það er spurning hvort hann fái aftur tækifæri eða hvort afleiðingar hrunsins verði átök og hörmungar. 

Framlag okkar Íslendinga er að búa til gott og mannvænlegt þjóðfélag þar sem börnin okkar eiga sér framtíð en um leið vinnum við að sátt og samlyndi í heiminum öllum.  

Fyrstu skrefin eru augljós.  Það þarf að vísa Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr landi og síðan á þjóðin að beita sér fyrir því að öll Óbermi þar innanborðs verði rekin og sjóðurinn fari aftur að sinna upprunalegu hlutverki sínu sem er að hjálpa og aðstoða þjóðir í neyð.  Næsta skref okkar er að setja núverandi ríkisstjórn af og neyða stjórnmálastéttina til samstarfs um viðreisn lands og þjóðar.  Til að sú viðreisn gangi eftir þarf að reka alla þá alþingismenn sem hafa opinberlega lýst yfir þeirri skoðun sinni að sumum þegnum þessa lands sé ekki viðbjargandi og megi því farast.  Flokkar þeirra verða skipa nýja menn í þeirra stað sem þekkja gildi mannúðar og náungakærleika.

Og svo þarf að gera það sem þarf að gera.  En það verður ekki gert nema með fólki sem hefur hjartað á réttum stað og einsetur sér að endurreisa íslenskt þjóðlíf en ekki fallið kerfi fjármagns og auðmagnseiganda.   Það kerfi á heima á öskuhaugum sögunnar.

Hugmyndafræðin á bak við þessi orð má finna víða, t.d í skrifum mínum á netinu.  Grundvallaratriðið er ekki að við eyðum allri orkunni í að gera upp við einstaklingana heldur kerfið sem skóp þá.  Þannig skapar þú nýjan og betri heim.  Það sem hinir föllnu auðmenn og bankamenn gerðu var rangt en það er líka rangt að byrja uppbyggingu á einhverju nýju og betra, á að sýna sömu heiftina og hatrið sem einkennt hefur hina gömlu yfirstétt gagnvart þeim sem hún taldi brotlega.  Til hina föllnu á aðeins að gera eina kröfu.  Segið sannleikann og skilið illa fengnu fé.  Verið síðan velkomnir í samfélag siðaðra manna.  Annars megið þið éta það sem úti frýs sem útlagar frá ykkar eigin þjóð. 

Punktur.  Það eru börnin okkar og framtíðin sem krefjast allrar okkar orku og hún á að fara í uppbyggingu og endurreisn þjóðlífsins.  Hvernig verjum við velferðina og fjölskyldur þessa lands??  Svarið er ekki að skera og skera heldur að virkja mannauðinn til lausna og nýrrar uppbyggingar.  Við erum ekki 300 milljónir, við erum aðeins þrjúhundruð þúsund og það á að vera nóg að gera fyrir alla.  Það eina sem gerðist við efnahagshrunið er að við þurfum að semja um þær skuldir sem okkur ber og síðan þarf þjóðin að sætta sig við minni innflutning sökum þess að hún þarf að lifa á því sem hún aflar.  Eins og allir þurfa þannig að það er ekkert mál.  Það tekur enginn frá okkur fólkið, ástvini okkar, matinn og óspilltu náttúruna, hitt er bara verkefni að gera gott úr því sem við höfum og leggja drög að öflun raunverulegra verðmæta. 

Og þetta verkefni er mjög einfalt.  Aðeins villuljós heimskunnar hafa villt þjóðinni sýn.

En hver hlustar á afdalabúa?? Hundurinn hans ef hann á hund.  En þjóðin á að lesa Reykjavíkurbréf Ólafs sér til gagns og umhugsunar.  Ég ætla ekki að birta neina glefsur úr því.  Það á að lesast sem heild.

Og ég endurtek.  Það er snilld.  Sá sem fattar það ekki við fyrsta lestur á að lesa það aftur og aftur þar til hann fattar það. 

Og svarið við spurningu þessa pistils er JÁ.  Morgunblaðið er að rumska og ef drengurinn sættir sig við vit sitt og hæfileika til að tjá það, þá mun Morgunblaðið aftur vera blaðið sem vitnað er í.

En til þess þarf Ólafur að taka skýra afstöðu með framtíðinni.  Og styðja aðeins það sem til framfarar horfir.  Og styðja alla.  Líka þá sem fóru óvarlega og ráða ekki við skuldir sínar.  Það er líka landar okkar og þetta fólk á börn.  Börn sem eiga sömu rétt til framtíðar og börnin mín.  Og þetta fólk er talið í þúsundum og félagshyggjan sveik það. 

Blað borgarstéttarinnar má ekki líka gera slíkt hið sama.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 39
  • Sl. sólarhring: 623
  • Sl. viku: 5623
  • Frá upphafi: 1399562

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 4796
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband