Fyrirgefðu Jóhanna, þú segist ennþá vera að skoða málin.

Svona túlkaði Þóra Arnórsdóttir örvæntingu þjóðarinnar gagnvart aðgerðarleysi stjórnvalda.   Í viðtali Þóru við Jóhönnu Sigurðardóttir, þá nýorðin forsætisráðherra, var Jóhönnu tíðrætt um að skoða hlutina.  Þegar Þóra gat ekki þagað lengur og benti forsætisráðherra á að tími "skoðana" væri liðinn og tími aðgerða ætti löngu að vera runnin upp, þá brást Jóhanna hart við og svaraði með þjósti að "það væri ekki þannig að ekkert hefði verið gert".

Þetta er harmleikur íslensku þjóðarinnar í hnotskurn

Hún treystir flokki fyrir stjórn landsins sem sérhæfir sig í að skoða.  Og gerir hæstu vexti á byggð bóli að hornsteini efnahagsstefnu sinnar.  Og telur það grundvöll framtíðarvelferðar að landsmenn taki á sig 700 milljarða skuldbindingu til að "tryggja fjármálastöðugleika í Evrópu".

Og efnahagsaðgerðir hennar eru að uppistöðu frasar á borð við "létta greiðslubyrði" þegar fólk á ekki fyrir skuldum sínum eða "slá skjaldborg um heimili" með aðgerðum eins og "breytingu á gjaldþrotalögum", "lengingu aðfarafrests" eða "frestun nauðungaruppboða" þegar það eina sem fólk biður um er að fá að halda heimilum sínum.

Og atvinnulífi sem er við það að stöðvast vegna mikilla skulda, minnkandi eftirspurnar og hárra vaxta var boðið uppá efnahagsaðgerðir eins og "bankaráðum gert að setja skýrar viðmiðunarreglur", "skipun óháðs umboðsmanns viðskiptavina" eða "endurskoðun á ákvæðum hlutafélagalaganna".  Að vísu ætlaði ríkisstjórnin að liðka fyrir stofnun endurreisnarsjóðs sem átti að "taka tillit til sjónarmiða er lúta að góðum stjórnarháttum og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja" en aðilar að þessum sjóð áttu að vera bankarnir (sem eiga svo mikinn pening), erlendir fjárfestar (að vísu hættir að fjárfesta heima hjá sér enda flestir á hausnum) og lífeyrissjóðirnir sem reyndar lýstu því strax yfir að þeir yrðu ekki með nema bankarnir gengu að kröfum þeirra um uppgjör framvirkra gjaldmiðlasamninga.  Sem gefur að skilja hefur ekki heyrst meira af tilurð þessa sjóðs.  Sjálfssagt er verið að velja úr viljugum erlendum fjárfestum og hemja bankana svo þeir leggi ekki fram of mikið af eigin fé til sjóðsins.

Um þessar miklu efnahagsráðstafanir sagði Ingibjörg Sólrún í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu að "ríkisstjórnin hefur þegar gripið til margháttaðra aðgerða til að mæta fólki og fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum".  Og til að gæta fulls sanngirnis þá vantaði ekki stuðninginn frá höfuðleppum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, þeim Gylfa forseta og Vilhjálmi framkvæmdarstjóra. 

En þó orð eru til alls fyrst þá duga þau skammt ef ekki fylgja raunhæfar aðgerðir gagnvart þeim vanda sem við blasir.

Fljótlega uppúr áramótum fóru kveinastafir miklir á kreik úr röðum atvinnurekanda.  Í grein í Morgunblaðinu  13. jan segir Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Samtaka iðnaðarins, þetta um um árangurs "orðaaðgerða" þáverandi ríkisstjórnar.

Þrátt fyrir þessar efnahagslegu hamfarir bólar ekkert á aðgerðum stjórnvalda til stuðnings atvinnulífinu.  Lítil stoð var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í byrjun desember um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja.    .....  Lítið sem ekkert var þar að finna um áform ríkisstjórnarinnar til örvunar á kólnandi hagkerfi.  Við svo búið má  ekki standa.

Þetta eru hörð orð, sérstaklega í ljósi þess að sá sem skrifar þau er gallharður sjálfstæðismaður.  Þessi grein Þorsteins er í framhaldi af orðum Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu í frétt í Morgunblaðinu frá 10. jan þar sem hann segir "að samtökin hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum vegna aðgerðarleysis stjórnvalda síðustu mánuði".

Þannig að þessar "margháttaðar efnahagsaðgerðir" sem Ingibjörg Sólrún talaði um í áramótagrein sinni voru þess eðlis að enginn í atvinnulífinu varð var við þær.  Það er mjög mikilvægt að hafa þessi sannindi í huga því í dag fer Samfylkingin í kosningarbaráttu með 18 atriða lista aðgerða sem hún telur vera "margháttaðar efnahagsaðgerðir".  En víkjum að því síðar.

Alþýðusambandið gafst upp á ríkisstjórninni og aðgerðarleysi hennar þann 23 janúar og sjálf ríkistjórnin gafst upp á sjálfri sér þann  26 janúar.  Þá var aðeins einn maður sem hélt því fram að hún væri að bjarga einhverju og það var þáverandi forsætisráðherra, Geir Harde.  Aðrir voru búnir að fá nóg af aðgerðarleysi stjórnarinnar.

Um þáverandi stjórn sagði núna Ingibjörg að hún hafi skort "kraft og dirfsku" og Jóhanna sagði að hún hefði verið "verkkvíðin".  Hið meinta aðgerðarleysi hennar, sem öllum var orðið ljóst, var staðfest af hálfu Samfylkingarinnar, þegar hún myndaði nýja ríkisstjórn með VinstriGrænum, með orðum eins og "áherslan lögð á björgun" og talað var um "björgunaraðgerðir" og "bráðavanda".   

Og eins og þegar björgunaraðgerðir hinar fyrri voru kynntar þá var talaðu um að "slá skjaldborg um heimilin og atvinnulífið í landinu".

 

Og hvernig hefur til tekist með skjaldborgina hina nýrri? 

Sjálfstæðismenn benda réttilega á að allt það sem hefur komið til framkvæmda eru tillögur og aðgerðir sem fyrri ríkisstjórn hafði lagt fram eða var að vinna að.  Ef þær aðgerðir voru ekki betri en það að sú ríkisstjórn hrökklaðist frá með skömm eins og þegar hefur verið lýst, þá má spyrja til hvers leikurinn var gerður?  

Ég nenni ekki að hæðast meir af "orðaaðgerðum" Samfylkingarinnar en vil benda á fáráð þess sem hún telur að dugi til ásamt "greiðsluaðlögun" sinni til að reisa skjaldborg sem dugar fyrir heimilin, þ.e ránið á séreignasparnaði fólks og hækkun vaxtabóta.

Af öllu því heimskulega sem gert hefur verið í hinum göfuga tilgangi að bjarga heimilum fólks er útgreiðsla séreignarsparnaðar fólks það heimskulegasta.  Það riðlar þeim litla sparnaði sem hélt við bankahrunið því þegar séreignarsjóðir þurfa að innleysa svo mikla upphæð á svona skömmum tíma þá er bein afleiðing verðfall eigna þeirra og var ekki á bætandi.  En gjörðin sjálf hjálpar engum, þegar eignir fólks hafa fallið um milljónir og skuldir þess hækkað um milljónir þá dugar séreignasparnaður þess lítið uppí það gat sem myndast.  En vissulega lengir það dauðastríð heimilanna á meðan fólk fær greiddan út sparnað sinn.  En þegar hann er búinn þá er helmingur heimila landsins eignalaus og aðeins gjaldþrot bíður fólks.  Og það sem átti að bæta lífskjörin í ellinni er farið í hít vaxta og verðbóta án þess að koma að neinu raunverulegu gagni.   Því greiðslubyrði og skuldasúpa, sem er óviðráðanleg í dag, er jafn óviðráðanleg að ári þegar séreignarsparnaðurinn er búinn.    

En eins og ránið á séreignarsparnaðinum er heimskulegt þá er sú fullyrðing, að stórhækkun vaxtabóta sé það ráð ásamt greiðsluaðlögun, sem dugi til að leysa vanda heimilanna, ekki heimskuleg, fáráð hennar er það mikið að aðeins algjörlega veruleikafirrt fólk getur látið slíka vitleysu sér um munn fara og meint hana.  Ef tveir milljarðar í hækkun einhverra bóta slá á Kreppu, þá er ekki um neina Kreppu að ræða, ekki einu sinni þrengingar, varla samdrátt.  Til hvers er verið að setja allt þjóðfélagið á annan endann með tali um byggingu skjaldborga eða hin mikla bráðavanda heimilanna, ef það dugar að henda 2 milljarða inn í kerfið til að leysa vandann?  Af hverju er þá upphæðin ekki hækkuð í 4 milljarða og málið þá útrætt?  Enda kalla Hagsmunasamtök heimilanna þessa aðgerð "brauðmola úr hendi ríkisstjórnarinnar". 

Og Hagsmunasamtökin bæta um betur í yfirlýsingu sinni:

Með samkomulagi viðskiptaráðuneytisins og fjármálafyrirtækja er ábyrgð lánastofnana á því ástandi sem hér hefur skapast í raun að engu gerð og svik þeirra við heimili landsmanna samþykkt af ríkisstjórninni.  Hagsmunasamtök heimilanna líta á þennan gjörning sem stríðsyfirlýsingu lánastofnana og stjórnvalda gegn heimilum. Engar leiðréttingar eiga að fara fram, enginn tekur raunverulega ábyrgð.  ..  Úrræðin eru lausnir fyrir lánastofnanir, ekki lántakendur.  Hvergi er gerð tilraun til að létta á vaxtabyrði, draga til baka hækkanir sem lánastofnanir bera ábyrgð á eða leiðrétta vegna ranglegra tekinna verðbóta.  Lausnirnar eru ekki til að létta heildargreiðslubyrði, heldur til að þyngja þær.  Hvergi er gerð hin minnsta tilraun til að bera fram réttlæti í orði eða verki.  Allar lausnirnar lúta að því að styrkja skuldahlekkina, auka byrðarnar.
 

Þyngri dóm getur engin ríkisstjórn fengið, jafnvel þó hún væri kennd við Nýfrjálshyggju.

Um orðaaðgerðir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir vegna atvinnulífsins þarf ekki að hafa mörg orð.  Stjórnin lofaði að vísu 6.000 nýjum störfum við hátíðalega athöfn en flaggskip þeirra starfa er uppbygging álvers í Helguvík.  Í fyrsta lagi þá er móðurfyrirtæki þeirra framkvæmda á hausnum, lánsfé til virkjunarframkvæmda er ekki á lausu og svo er Landsvirkjun í sömu stöðu og Baugur var fyrir ári síðan.  "Frábært" tekjuflæði og lánsfjármögnun tryggð í ár í viðbót.  Eigi skal sköpum renna og þau fyrirtæki og fjármálastofnanir sem hafa runnið sitt skeið að endamörkum sinnar brautar, hafa viðhaft svipaða orðræðu í upphafi brautar.  Ekki ætla ég að spá fyrir örlög Landsvirkjunar en það þarf ekki að spá um álframkvæmdir næstu missera, þær verða engar

Og ef flaggskip atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar er fals, hvernig er þá restin?  Pappírsins virði?  Því miður ekki nógu mikill spámaður til að meta þann pappír en sporin hræða.

En orðaaðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja er eitt en efnahagsstefna annað.  Og Jóhann sló strax á allar vonir Íslendinga um framtíð á meðan hún er við stjórn.  Í jómfrúarræðu sinni á Alþingi sagði hún það skýrt og skorinort, sagði það ekki einu sinni í skoðun að tillitsemi við VinstriGræna, að "engar breytingar væru fyrirhugaðar á samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn".

Um afleiðingar hávaxtastefnu sjóðsins segir til dæmis Andrés Magnússon (frétt í Morgunblaðinu 10. jan) að "snara sé um hálsinn á fyrirtækjum í landinu sem blæðir smátt og smátt út.  Snaran sé hátt vaxtastig".  "Enginn leggi í að fjárfesta eða að kaupa fyrirtæki þegar fjármagnið sé svona dýrt.  Hátt vaxtastig komi í veg fyrir að hægt sé að ýta einhverju úr vör og hefja nýtt upphaf í landinu".

Og Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að "vaxtastigið er með þeim hætti að það getur enginn rekstur staðið undir þessu til lengri tíma"  Og hann kallar eftir stefnubreytingu "ef ekki á að leggja allt í rúst".

Og ef forsvarsmenn atvinnulífsins styðja ekki Nýfrjálshyggju ríkisstjórnarinnar, hverjir gera það þá?  Jú, vissulega ritstjórar Auðmiðla en það vita jú allir hverjir munu kaupa náinn fyrir lítinn pening.  Svarið er auðvitað ekki ritstjórarnir heldur vinnuveitendur þeirra.

Og hverjar eru svo afleiðingar þeirrar stefnu sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar lofar þjóð sinni og hefur aflað henni það mikillar vinsældar að hún er stærsti stjórnmálaflokkur landsins.  Í marga má vitna en einn er sá maður sem VinstriGrænir vitnuðu oft í máli sínu til stuðnings, þegar þeir voru ennþá í liði með þjóð sinni.  Sá maður heitir Michale Hudsons og er prófessor í hagfræði við Missouri háskóla í Kansas í Bandaríkjunum.  

Meðalaldur styttist, fæðingum fækkar, vinnuafl flýr land, sjálfsmorðstíðni hækkar, sjúkdómar, áfengissýki og fíkniefnaneysla aukast. Líkt og hefðbundið stríð þurrkar út karla á aldrinum 25-40 ára, hrekur fjármálastríðið þá úr landi í atvinnuleit.

Eins óhjákvæmilegt eins og 2 + 2 eru 4 ef Samfylkingin og stefna hennar fær brautargengi í næstu kosningum og þegar þessi færsla er skrifuð 11 dögum fyrir kosningum þá er þetta það hlutskipti sem íslenskir foreldrar kjósa börnum sínum.  

Draumur alkóhólistans um líf í búsi virðist víða lifa. 

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 451
  • Frá upphafi: 1412813

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 390
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband