14.4.2009 | 14:01
Aðeins heimskan ein viðheldur ógnarstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
á íslensku efnahagslífi. Núna þegar gengið fellur vegna erlendra vaxtagreiðslna þá er síðasta röksemdin fyrir drápsvöxtum sjóðsins fallin. Norski sendisveinninn í Seðlabankanum hefur rangt fyrir sér þegar hann heldur því fram að það skapi gengisstöðugleika þegar hann reynir að kyrkja allt atvinnulíf með hávaxtastefnu sinni. Gengið þolir ekki einu sinni nokkurra milljarða vaxtagreiðslur til útlanda.
Hvernig verður það þegar vaxtagreiðslur að láni IFM streyma úr landi? Eða á kannski ekki að greiða vexti? Á kannski að selja landið og miðin í staðinn?
Hvernig verður gengið þegar vextirnir af 700 milljarða láni breta og Hollendinga vegna ICEsave koma til útborgunar? Á kannski ekki heldur að greiða þá? Á að selja óbornar kynslóðir í skuldaþrældóm?
Aðeins heimskur maður trúir því að núverandi vaxtastefna skapi stöðugleika. Í þjóðfélagi þar sem rúmlega helmingur heimila landsins er með neikvæða eiginfjárstöðu og í þjóðfélagi þar sem allt að 70% fyrirtækja er tæknilega gjaldþrota samkvæmt upplýsingum samtaka atvinnulífsins, þá munu hávextirnir ná aðeins einum stöðugleika og það er stöðugleiki allsherjargjaldþrots.
Vissulega getur atvinnulífið aðlagað sig að háum vöxtum með því að lækka stórlega laun en hvernig hjálpar það stórskuldugum heimilum landsins? Mun eitthvað atvinnulíf þrífast þegar fjölskyldur landsins fara á hausinn í stórum stíl? Og jafnvel þær sem skrimta munu ekki eiga mikið afgangs til að halda þjónustuhagkerfinu gangandi.
Hvernig sem á málin er litið er þá leiða hávextirnir til aðeins eins og það er vítahringur gjaldþrota og atvinnuleysis. Og sá vítahringur er rétt að byrja hér á landi.
Enda eðlileg afleiðing á hörðustu frjálshyggjustefnu sem framfylgt hefur verið í nokkru vestrænu lýðræðisríki síðustu aldirnar.
En á Íslandi kallast stefnan Félagshyggja og nýtur stuðnings mikils meirihluta þjóðarinnar.
Ráðherrar félagshyggjunnar tala um blóðugan niðurskurð ríkisútgjalda, háa stýrisvexti til að ná fram stöðugleika efnahagslífs, flótta ungs fólks af landi brott sem eðlilega afleiðingu kreppunnar og gífurlega skuldsetningu landsmanna, sem þau ráð sem duga til að landsmenn geti búið við jöfnuð og réttlæti næstu árin.
En hins vegar er það óskiljanlegat af hverju þjóðin setur höfuð sitt með bros á vör á höggstokkinn og kýs þessi Óbermi yfir sig.
Hvers eiga komandi kynslóðir að gjalda?
Mikil veiking krónunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 121
- Sl. sólarhring: 610
- Sl. viku: 5705
- Frá upphafi: 1399644
Annað
- Innlit í dag: 104
- Innlit sl. viku: 4868
- Gestir í dag: 103
- IP-tölur í dag: 103
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heill og sæll; Ómar minn, líka, sem þið önnur, hver geyma síðu hans; og brúka !
Þakka þér fyrir; færzluna. Samsæri Alþjóða gjaldeyrissjóðssins; ásamt Evrópusambandinu, gagnvart Íslandi, er að skýrast, meir og meir - þessi dægrin.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar helgi helgason
p.s. Rifja upp; í góðu tómi, við þig - dvalartíma þinn, hér á Suðurlandi, fyrr á tíð - og hverjum þú kynntist, það sinnið, hér um slóðir.
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 14:12
Takk Óskar.
Hlakka til að heyra í þér.
Kveðja, Ómar
Ómar Geirsson, 14.4.2009 kl. 14:19
Ekki bara hávextir, heldur vextir yfir höfuð.
Fosendur vaxta eru þær að hagkerfið stækki, það stækkar ekki nema með stöðugt aukinni framleiðslu, og framleiðslan eykst ekki nema með frekari ágang á náttúruauðlyndir. Séu forsendur ekki til staðar verða útreikningar rangir og niðurstöðurnar villandi. Þannig skapa vextir (0,0001% eða 199,99%) aldrei stöðugleika því stöðugleiki vinnur gegn forsendum vaxta. Það er eins og að reyna að kveikja bál og slökkva það á sama tíma.
Með því að rukka vexti í minnkandi hagkerfi er bara hægt að kalla einu nafni: Rán!
Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 14:34
Blessaður Rúnar.
Þetta er kannski önnur leið til að orða þann vanda sem við er að glíma.
Enda eru vextir við núllið bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi og víðast hvar mjög lágir.
En hávextir eru hvergi. Enda óðs manns æði. Norski sendisveinninn talar ekki það lélega ensku að menn eigi ekki að sjá að maðurinn er að bulla.
Hins vegar spurning af hverju Gylfi Zoega er að eyðileggja mannorð sitt með stuðningi við þessa drápsstefnu.
Spyr sá sem ekki veit.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.4.2009 kl. 14:48
Ég tek undir með þér Ómar, að það gengur ekki lengur að keyra áfram með þessa "torgreindu peningastefnu". Okkur er sagt að við séum með: háa vexti, gjaldeyrishöft og risalán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (AGS), til að styrkja Krónuna. Samt fellur Krónan og fellur.
Að vísu er sagt að það sé of kosnaðarsamt að nota lánið frá AGS, en hvað erum við að gera með lán sem ekki má nota ? Ætli vaxtareikningurinn fyrir AGS lánin verði ekki 50 milljónir á dag, þegar allt lánið hefur verið tekið ?
Hvers vegna tökum við ekki upp "fastgengi undir stjórn Myntráðs" og leysum þar með flest okkar efnahagsmál ? Getur verið að heit-trúnaður Samfylkingarinnar hafi eitthvað með málið að gera ? Gylfi Zoega er einn harðasti stuðningsmaður heit-trúarstefnu Samfylkingarinnar.
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/850030/
Loftur Altice Þorsteinsson, 14.4.2009 kl. 15:03
Thetta er mjög edlilegt. Vid hverju er ad búast? Er haegt ad búast vid betri nidurstödu hjá thjód sem kaus yfir sig aftur og aftur stjórn sem afhenti útvöldum audlindir sjávar sem er sameign thjódarinnar?
Heimskt fólk kaus yfir sig raeningja aftur og aftur. Heimskt fólk lét raena sig. Fólkid bad um thetta. Thad er einmitt thetta sem fólkid vildi. Fólkid vildi thjódargjaldthrot. Fólkid vill veika krónu.
Jalli (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 15:26
Það eina rétta í stöðunni er að neita að greiða þessar skuldir. Lánardrottnarnir verða einfaldlega að taka á sig tapið af sínum lélegu fjárfestingum. Því miður hefur Samfylkingin veðjað pólitískri framtíð sinni á inngöngu í ESB og vill fyrir alla muni ekki styggja embættismannakerfið þar og eyðileggja þar með möguleika á inngöngu. Sem fyrr eru agsmunir flokksins framar hagsmunum einstaklinga í landinu!!
Egill (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 15:29
Blessaður Loftur og takk fyrir innlitið.
Þetta er einmitt stóra spurningin. Til hvers var verið að taka lán sem ekki átti að nota? Ég vona að Geir Harde hafi eitthvað getað útskýrt þetta fyrir ykkur sjálfstæðismönnum á landsfundinum en mér að minnsta kosti var alltaf fyrirmunað að skilja þessa vitleysu. Það var alla tíð augljóst mál að krónan kæmist ekki af án gjaldeyrishafta og viðbótarlán eins og ICEsave eða IFM lánið gera ekkert annað en að veikja grundvöll krónunnar. Burt séð frá spurningunni hvort við getum einhvern tímann greitt lánin til baka.
En það væri óskandi að fastgengi væri svarið en eins og viðhöfum áður rætt þá deili ég ekki þinni bjartsýni í þeim efnum. Ef ég ætti sparifé þá væri ég a allavega fljótur að fara með það úr landi ef ég hefði til þess minnsta möguleika.
En ef við hefðum haft Myntráð þitt í aðdraganda hrunsins? Hefði þá orðið hrun? Það er efinn eins og Helgi Hálfdánar orðaði það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.4.2009 kl. 15:57
Og blessaður Jalli.
Margt var að hjá okkur og hrunið kannski fyrirsjáanlegt en það er sterkt til orða tekið að fólk hafi viljað þjóðargjaldþrot.
En núverandi kerfi er gjaldþrota en því miður er það draumur félagshyggjunnar að endurreisa það með öllum tiltækum ráðum. Þeir vorkenna víst svo auðmönnum þessa lands.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.4.2009 kl. 15:59
Blessaður Egill.
Mikið sammála þér. Er með pistil um Samfylkinguna í vinnslu og kem honum frá mér á morgun í síðasta lagi.
Skömm hennar er mikil.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.4.2009 kl. 16:00
Ég verð að játa Ómar, að Geir hafði ekki tíma til að útskýra fyrir mér það bragð, að taka lán frá AGS sem ekki má nota. Ætli þetta sé ekki jafn gáfulegt og trúar-játning Samfylkingarinnar, sem fjallar um áhrif þess að hefja viðræður við Evrópusambandið. Um þetta bloggaði ég í morgun.
Fastgengi undir stjórn myntráðs er svarið. Þú hefðir enga ástæðu til að rjúka með peninginn úr landi, því að baktrygging Myntráðsins verður varanleg og 100%. Með vernd Stjórnarskrárinnar, er útilokað fyrir ríkisstjórnina að leggja Myntráðið niður nema með samþykki aukins meirihluta þjóðarinnar. Þú hefur þá góðan frest til að hóa peningnum úr landi.
Í aðdraganda hrunsins hefði þenslan ekki orðið jafn svakaleg undir Myntráði og hún varð undir Seðlabankanum. Varla meiri en annarsstaðar á myntsvæði stoðmyntarinnar. Að auki hefðu bankarnir aldreigi getað farið í viðlíka útrás undir Myntráði. Við hefðum líka örugglega haft erlenda banka í landinu, sem hefði mildað áhrif samdráttarins. Ég er þess fullviss að við hefðum ekki upplifað hrun.
Kveðja.
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/852963/
Loftur Altice Þorsteinsson, 14.4.2009 kl. 16:27
Blessaður aftur Loftur.
Fróðlegur pistill hjá þér um Samfylkinguna. Ég hef ekki séð þessa stefnuskrá hennar og gerði mér ekki grein fyrir því að landráð hennar væru svona berlega orðuð í sambandi við ICEsave svikin.
En ég deili með þér þeirri skoðun að agi myntráðs hefði gert bóluhagkerfið illmögulegt. Tel að allur vöxtur innan slíks kerfis þurfi að vera raunvöxtur, annars springur kerfið og þá ættu allar aðvörunarbjöllur að klingja.
En ég deili efanum með netvini okkar Gunnari Rögnvaldssyni um gildi ráðsins núna. En við höfum farið í gegnum þá umræðu áður. Það sem mér þætti fróðlegt að vita er hvernig þér gekk að afla hugmyndum þínum fylgis innan flokksins. Hvernig sem á málin er litið þá er núverandi kerfi komið í þrot og allar hugmyndir til lausnar hlóta að vera vel þegnar.
Kveðja Ómar.
Ómar Geirsson, 14.4.2009 kl. 19:31
Sæll ávallt Ómar.
Því miður hefur staðan innan Sjálfstæðisflokksins verið slík, að peningamálin hafa ekki fengið næga umfjöllun. Óhemjulegur tími og orka flokksmanna hefur farið í störf Evrópunefndarinnar og Endurreisnarnefndarinnar. Hins vegar mótaði landsfundurinn þá afstöðu, að peningamálin yrðu tekin föstum tökum og niðurstaða lægi fyrir á þessu ári.
Blogg mitt um málið er hægt að nálgast hér neðst, en samþykkt landsfundarins var eftirfarandi, með smá breytingu orðalags:
http://altice.blog.is/blog/altice/entry/841604/
Loftur Altice Þorsteinsson, 14.4.2009 kl. 21:31
Takk Loftur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.4.2009 kl. 22:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.