Það var ekki stefnan sem brást, það voru mennirnir

sögðu stuðningsmenn VinstriGrænna í nýlegri skoðunarkönnun.  Um 50 % þeirra telja núverandi ríkisstjórn hafa gert mikið eða mjög mikið fyrir heimilin. Og tæp 30% landsmanna styðja VinstriGræna.  Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur svipuðu fylgi þá er mjög líklegt að þetta séu sömu stuðningsmennirnir og studdu hreyfinguna þegar síðasta ríkistjórn var við völd.

Samt er grunnstefna þessarar ríkisstjórnar sú sama og þeirrar síðustu.  Grunn efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er sá samningur sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 

Okurvextir og blóðugur niðurskurður ríkisútgjalda. Og þvingun til að greiða ICEsave skuldbindingar Landsbankans, skuldir Björgólfs og Björgólfs.

Engu skal eirt því með þessum vöxtum sem sjóðurinn þvingar upp á Íslenska hagkerfið þá ekki bara myndast vítahringur gjaldþrota og atvinnuleysis, heldur líka hitt og það er miklu alvarlega.  Allt lausafé ríkisstjórnarinnar sem gæti farið í að aðstoða sjúka og fátæka í kreppunni, það fer í vaxtagreiðslur á næstum árum.  

Að níðast svona á sinni eigin þjóð er einsdæmi í seinni tíma sögu Vesturlanda.  

Og þetta er stefna VinstriGrænna í dag.

Þó vita þeir alveg hvað samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er hættulegt almenningi og sjálfstæði þjóðarinnar.  Þeir hafa fátt annað skrifað í vetur á vefnum og rætt annað á þingi og í fjölmiðum en hætturnar við "Nýfrjálshyggjustefnu"Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það voru þeir sem gerðu fyrirvara við ICEsave samkomulagið á Alþingi. 

Margir hafa skemmt sér við að rifja upp ummæli VinstriGrænna.  Strax var greinilegt að hagfræðingurinn Lilja Mósesdóttir lagði línurnar í gagnrýni flokksins á aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Þetta var haft eftir Lilju í fréttablaðinu í haust: "Benti hún á að reynslan víða í heiminum sýndi að háir vextir dýpkuðu ef eitthvað væri fjármálakreppur með tilheyrandi fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og gríðarlegu atvinnuleysi".  'I grein í Smugunni þann annan mars segir Lilja þetta um stefnu sjóðsins:

Markmið hagstjórnarinnar á að vera að auka efnahagslega velferð og leiðirnar að því markmiði eru aðgerðir sem tryggja fulla atvinnu, hagvöxt og stöðugleika til lengri tíma.  Efnahagsstefna AGS og íslenskra stjórnvalda mun ekki tryggja þessi markmið.  Við framkvæmd hennar er aðeins tveimur hagstjórnartækjum beitt, þ.e. hátt vaxtastig og gjaldeyrishöft.  Bæði þessi hagstjórnartæki  miða að því að draga úr útstreymi fjármagns og þar með frekari lækkun á gengi krónunnar.

Hátt vaxtastig og skortur á fjármagni er að sliga bæði fyrirtæki og heimili. Til að þóknast stefnu AGS þarf ríkið auk þess að skera niður útgjöld til að standa undir afborgunum og vaxtagjöldum af lánum frá AGS og vinaþjóðum. Á meðan að heimilin hrópa á hjálp til að takast á við stóraukna skuldabyrði og atvinnuleysi keppast fyrirtæki og ríkisstofnanir við að ná niður kostnaði með því m.a. að segja fólki upp eða banna nýráðningar en það bitnar hvað harðast á ungu fólki. Aukið atvinnuleysi leiðir til vítahrings minnkandi tekna ríkissjóðs á sama tíma og opinber útgjöld aukast. Við þessar aðstæður dregur úr spurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækja. Þörfin fyrir niðurskurð hjá hinu opinbera og fyrirtækjum eykst í kjölfar aukins atvinnuleysis. Atvinnulífið sogast inn í vítahring aðhaldssamrar efnahagsstjórnar sem mun með tímanum draga úr hagvexti og þar með möguleikum þjóðarinnar til að geta staðið undir skuldabyrðinni sem einkavæddu bankarnir lögðu á hana
.

Betur er ekki hægt að orða þá ógn sem íslensku mannlífi stafar að efnahagsstefnu sjóðsins. 

Steingrímur Joð segir í frétt á Vísi að erfitt sé fyrir þróuð ríki að undirgangast skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins enda hugsi sjóðurinn ekki um hagsmuni almennings.

Og þessi gullkorn má finna í þingræðu Steingríms Joð þann 5 des 2008.

Mér finnst þetta vera heldur dapurlegur dagur þessi dökki föstudagur 5. desember árið 2008, að hér skuli vera á dagskrá Alþingis tvö mál, tvær tillögur sem fela í sér áður óþekkta skuldabyrði á landið.

Þessir tvílembingar, tillaga til þingsályktunar um fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum annars vegar og tillaga um uppgjöf í Icesave-deilunni hins vegar, eru ekki miklir að vöxtum, þ.e. þingskjölin sjálf. En segja má að alvarleiki málsins og skuldbindingarnar sem þeim fylgja séu akkúrat í öfugu hlutfalli við það. Ég hef sjaldan séð rýrari pappíra sem fela að sama skapi í sér jafnafdrifaríkar ákvarðanir og þarna eru á ferðinni.

...framhaldið þekkjum við. Sjóðurinn krefst þess að hallinn á ríkissjóði sem getur orðið af stærðargráðunni 150–200 milljarðar á næsta ári verði tekinn niður í núll á tveim til þremur árum. Halda menn að það muni ekki taka í? Jú. Það er sem sagt með blóðugum niðurskurði af þessu tagi sem reyna á að standa við þetta greiðsluprógramm. Það er satt best að segja ekki mjög falleg framtíðarsýn og er þó hér aðeins verið að horfa til áranna sem endurgreiðsla lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á að taka til, þetta stutta lán frá honum.

Hvernig verður staðan þegar afborganir af Icesave-reikningunum bætast þar ofan á og þegar afborganir af þeim miklu skuldum bætast við sem ríkið verður að setja sig í — að vísu hér innan lands sem gegnir nokkuð öðru máli um — vegna endurfjármögnunar bankanna, Seðlabankans og hallans á ríkissjóði næstu árin? Hvernig verður staðan þegar þetta leggst allt saman?

Það sem í reynd er að gerast er að með þessu verða lífskjörin á næsta áratug tekin mjög harkalega niður á Íslandi. Árabilið frá 2011–2012 og inn á þriðja áratug aldarinnar verður greiðslubyrðin gríðarlega þung þótt ekkert bætist þar við sem við vitum ekki af núna.

Ég hef ekki lesið þessa ræðu áður en þetta hef ég reynt að segja út frá mínu eigin hyggjuviti í allan vetur á netheimum, og vægast sagt verið álitinn skrýtinn fyrir vikið.  Einna helst að stuðningsmenn VinstriGrænna í andstöðunni bökkuðu mann upp.  Enda nema ekki von svo ég vitni aftur í Steingrím:

... það eru skilmálarnir sem Ísland á þar með að undirgangast, sem eru kannski af tvennu enn alvarlegri en lántakan sjálf vegna þess að hendur okkar verða mjög bundnar. Við höfum eftir það ekki frelsi til að velja þær leiðir sem við teljum bestar — fyrir hverja? Fyrir almenning í landinu, fyrir þjóðina, en ekki endilega fyrir peningamennina og fjármagnið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fyrst og fremst að passa upp á. Það er það alvarlega í þessu máli.

Þessi varnaðarorð leiðtogans höfðu þeir kynnt sér og greinilega verið sammála honum.   Og um kjarna stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir Steingrímur

Þegar kemur að kjarnanum í stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hún áfram sama harða peningahyggjan, harða frjálshyggjustefnan, sem þar hefur verið rekin um árabil.

Og það var út af þessum orðum sem ég ákvað að styðja VinstriGræna í komandi kosningum því einn flokkur hafði manndóm í sér að gæta hagsmuni almennings og heimila landsins.

Ég vil láta það koma hér fram að eftir því sem við verðum í aðstöðu til að hafa áhrif á málin, þingmenn Vinstri grænna, verður það forgangsatriði af okkar hálfu á komandi missirum eða árum að reyna að borga Ísland út úr þessu prógrammi aftur. Það skal hafa algeran forgang af okkar hálfu að reyna að standa þannig að málum að við endurheimtum aftur frelsi okkar á þessu sviði eftir því sem aðstæður frekast leyfa.

Ég trúði og hjörðin trúði.  Það má tína margt til af vefnum eða úr blöðum en þessi orð Sverris Jakobssonar, tekin úr grein í Fréttablaðinu, finnst mér lýsa mjög vel það sem margir í Andstöðunni hugsuðu um stöðu mála.

Hitt aflið er almenningur; fólkið sem situr núna uppi með reikninginn.  Ef þjóðin lærir eitthvað af reynslunni þá hafnar hún forystu þeirra afla sem boðaði þessa stefnu eins og trúarsannleik.  En nauðarsamningar við IMF munu gera okkur erfitt fyrir að skipta um stefnu eða að hafast nokkurn skapaðan hlut af sjálfsdáðum.  Í stað þess að móta nýja áherslur í efnahagsmálum með lýðræðislegum hætti er verið að skuldbinda Íslendinga til langs tíma og festa okkur á klafa stefnunnar sem orsakaði gjaldþrotið.

 En stjórnin sprakk og VinstriGrænir mynduðu nýja stjórn með Samfylkingunni. 

Andstöðunni létti.  Núna var lag að breyta stjórnarháttum og færa efnahagsstjórnina að hagsmunum þjóðarinnar.  Sverrir Jakobsson orðar þetta mjög vel í annarri grein í Fréttablaðinu sem ég vil vitna í:

Hinu er ósvarað hvað verður þá um þá sem skulda eða þá fjölmörgu sem núna eru að missa vinnuna. ......   Er það þeim í hag að vextir verði áfram háir- með tilheyrandi fjármagnsflutningum frá skuldurum til fjármagnseiganda?  Eiga þessi lögmál virkilega að gilda áfram þegar þjóðarbúið er komið í þrot og erfið staða blasir við fjölmörgum heimilum í landinu?  Á að halda áfram viðskiptum eftir sömu reglum, eins og ekkert hafi í skorist?

Og um vextina segir Sverrir:  Og fyrst og fremst þarf að skapa störf með stuðnings opinbera en ekki að kyrkja fyrirtæki með háum vöxtum.

Nei, þetta er ekki leiðin sem Sverrir vill.  Svar hans er félagshyggja eða eins og hann segir:

Þess vegna er nú kominn tími félagshyggjunnar því að hún tryggir ekki einungis réttlátara samfélag heldur einnig efnahagslega farsæld sem ekki mun springa eins og loftbóla.

Og Steingrímur Joð lætur hafa eftir sér í stríðsfyrirsögnum að Tími Nýfrjálshyggjunnar er liðinn.

Svo heldur hann blaðamannafund með Jóhönnu og þar tilkynnir Jóhanna að aðgerðaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé sá grunnur sem efnahagsstefna hinnar nýju Félagshyggjustjórnar byggist á.

Þarna gat Steingrímur staðið upp og gengið út.  Til hvers var Geir Harde hrakinn úr stjórnarráðinu ef hin nýja ríkisstjórn ætlaði að framfylgja sömu stefnu.

Hávaxtastefna sjóðsins og hinn blóðugi niðurskurður sjóðsins á velferðinni var stefna hinnar nýju Félagshyggjustjórnar

En Steingrímu sat hinn kyrrasti og brosti bara blíðlega þegar Jóhanna tilkynnti svik hans.

Hvort sem það var fyrir 30 silfurdali eða eitthvað annað sem hann sveik þjóð sína veit enginn nema hann sjálfur en þennan dag 1. febrúar 2009, sviku forystumenn VinstriGrænna þjóð sína í tryggðum.  Þegar á hólminn var komið voru þeir engu betri en Sjálfstæðisflokkurinn. 

Eina stefna hinnar nýju ríkisstjórnar var að gefa í og koma þingmálum þeirrar gömlu til þings og fá þau samþykkt.  Það eina sem má segja að VinstriGrænir komu með í ríkisstjórnina er Ögmundur Jónasson og hans nýju vinnubrögð í heilbrigðisráðuneytinu.  Þar er félagshyggjuhjarta að störfum.  Og þar með er það upptalið.

Nú hefði maður haldið að stuðningsmenn VinstriGrænna hefðu verið mjög óánægðir og látið mikið í sér heyra og þá á svipuðum nótum og þeir gerðu í Búsáhaldabyltingunni þar sem þeir höfðu sig mjög í frammi.  Jafnvel hefði maður búist við að þeir skelltu hurðum með látum og yfirgæfu flokk sinn í stórum stíl.  En svo er ekki

Stefnan var bara vond á meðan Sjálfstæðismenn voru í stjórn.  Það voru mennirnir en ekki sjálf stefnan sem brást.

Þar með var kominn samhljómur á milli Sjálfstæðisflokksins og VinstriGrænna því Sjálfstæðisflokkurinn heldur þessu líka fram en segir reyndar að það var ekki kerfið sem brást heldur mennirnir.

Og Steingrímur virðist vera nokkuð sáttur.  Hann segir þjóðina þurfa að sætta sig við blóðugan niðurskurð og hann telur hávexti  Alþjóðagjaldeyrissjóðsins það eina rétta til að ná gengisstöðugleika.  Eða eins og Morgunblaðið segir:

En samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heldur áfram, sem stangast síst á við viðhorf frjálshyggjunnar.

En það er allt í lagi því kjósendum VinstriGrænna er alveg sama.  Núna er þeir dús við Nýfrjálshyggjuna.

Það voru mennirnir sem brugðust.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir þennan (mjög langa) pistil

Kjarni málsins:

Samt er grunnstefna þessarar ríkisstjórnar sú sama og þeirrar síðustu.  Grunn efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er sá samningur sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 9.4.2009 kl. 02:34

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

.....Okurvextir og blóðugur niðurskurður ríkisútgjalda. Og þvingun til að greiða ICEsave skuldbindingar Landsbankans, skuldir Björgólfs og Björgólfs.

Kvitta undir það hér eru engir bjargvættir á ferðinni.

Lýsi eftir hugrekki!

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 9.4.2009 kl. 02:35

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Jakobína.

Það sem er einhvers virði að ræðast, á að ræðast í löngu máli.  Rök með og móti eru oftast þess eðlis.  En kjarninn má segjast í einni setningu eða tveim.

VinstriGrænir sviku andstöðuna og stuðningsmönnum þeirra er alveg sama. 

Annar hvor maðurinn, Steingrímur Joð fjármálaráðherra eða Steingrímur Joð leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur rangt fyrir sér.  Ég treysti Steingrími fyrir að leiða Andstöðuna gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og mín vonbrigði eru djúpstæð.  Það er miklu stærri glæpur að svíkja von en að vera Óbermi og hafa aldrei þóst vera annað.  Og voga sér síðan um að tala um félagshyggju og blóðugan niðurskurð í hinu orðinu, ég gæti ælt.

En hugrekkið er hjá þjóðinni.  Og ég vona að hún finni sér farveg innan Borgarahreyfingarinnar.  Því hún á enga fortíð sem flækist fyrir.  Og hann Herbert býr að hugsjónum hins venjulega manns.

Hitt er vinna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2009 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Júní 2024
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.6.): 13
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 3014
  • Frá upphafi: 1349105

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2608
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband