2.4.2009 | 18:24
Í hvað liði er dægurmálútvarpið?
Ísland hefði aldrei hrunið nema þjóðin hefði átt hagfræðinga eins og Guðmund Ólafsson. Menn sem notuðu þekkingu sína til að verja auðmennina og gjörðir þeirra til hinsta dags. Aðvörunarljósin blikkuðu víða og þá komu menn eins og Guðmundur og dreifðu yfir þau aurburði og blekkingu svo þjóðin svæfi áfram sínum Þyrnirósarsvefni. Til þessa gjörða voru miðlar auðmanna notaðir óspart.
Netið geymir ekki bullið og sullið sem flóði út úr sendum Sögu en netið geymir nokkur gullkorn. Þessi eru fræg af DV.is.
Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir ekki sjá betur en að bandaríski hagfræðingurinn Arthur B Laffer hafi í fyrirlestri hér á landi fyrir helgina slegið af kenningu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að þjóðin væri á bjargbrúninni vega skuldasöfnunar fyrirtækja og einstaklinga erlendis. "Þetta er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Það var í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartaði yfir því um daginn að almenningur keypti leikföng," segir Guðmundur.
Núna vill Guðmundur að fólkið, sem trúði honum og miðaði fjárfestingar sína og eyðslu við þann kaupmátt sem það hafði á árunum á undan hruninu, það verði undið eins og tuska til að borga til síðasta eyris, og dugi það ekki til, henda því á ruslahaug gjaldþrotsins.
En Guðmundur fær inni núna á fleiri stöðvum en auðmiðlum.
Þegar starfsmenn ríkisútvarpsins fá áhyggjur af því að von og birta flæði yfir Íslenskt þjóðlíf, þá fá þeir Guðmund í viðtal til að dreifa aur yfir birtuna í þeirri von að hún slokkni.
Ég lenti í því að hlusta á Guðmund í viðtali á Síðdegisútvarpi Rásar 2. Hef heyrt í honum áður og tel hann reyndar fínan skemmtikraft, en núna var mér bumbult.
Hver borgar fólkinu á ríkisútvarpinu kaup? Auðmenn eða almenningur? Hagfræðingur sem hefur látið slíka vitleysu út úr sér eins og Guðmundur gerði í tilvitnun minni hér að framan á ekki að fá að mæta í fjölmiðil almennings og nota sína hundalógík og hótfyndni til að kæfa niður alla vitræna umræðu sem þarf að eiga sér stað til að þjóðin eigi sér von í neyð sinni.
Það má vel vera að Freyr, Einar og þau hin viti ekki að tugþúsundir landa þeirra eru á barmi gjaldþrots og líða mikinn ótta og þjáningar vegna óvissunnar og bjargarleysinu sem því fylgir. Þau vita kannski ekki heldur að fólk sem þó á ennþá í sig og á, lifir í stöðugum ótta við að missa vinnuna og lenda í hópi úrkastsins hans Guðmundar.
En andskotinn hafi það, þetta ofverndaða stofnunarfólk getur drullað sér út á götu og tekið viðtal við almenning og komist að kjörum þess og aðstæðum. Þau geta rætt við foreldra barna sem fá ekki skólamat sökum blankheita fjölskyldunnar og þau geta rætt við fólk sem horfir fram á að missa heimili sitt vegna þess að það getur ekki staðið í skilum með lán sín sökum tekjumissis og hækkunar vísitölunnar.
Síðan geta þau rætt við stjórnmálamenn úr öllum flokkum sem eru að reyna að finna og útfæra leiðir til að hjálpa þessu fólki og gefa því von.
Ekki ræða við landsfrægan bullukoll sem hefur aldrei gert neitt annað en að skíta út og draga úr öllu því sem þarf að gera.
Mér varð bumbult þegar drengurinn í útvarpinu næstum grét af geðshræringu þegar Guðmundur sló því fram að ef við tækum ekki Evru þá færum við 60 ár aftur í tímann. Allar nútíma atvinnugreinar hyrfu með gengishöftum og sauðskinnsskóm.
Hvað hefur misfarist í menntun og uppeldi þessa unga manns að hlusta með andakt á slíka þvælu.
Tökum ferðamannaiðnaðinn sem dæmi. Eru ekki annar hver Íslendingur að fara til Kúbu. Þó er gjaldmiðill Kúbu verðlaus á alþjóðavettvangi og þar að auki hefur nágrannaríki þess, Bandaríkin beitt landið viðskiptabanni frá 1962. Samt er ekki þverfótað þar fyrir ferðamönnum.
Af hverju ættu ferðamenn að gufa upp á Íslandi vegna þess að við höfum ekki Evru? Eða frjáls gjaldeyrisviðskipti. Höft sem slík eru skaðleg en þau bitna fyrst og fremst á lífskjörum almennings í viðkomandi löndum. Og þessi höft eru ekkert viljaverk illgjarnar ríkisstjórnar. Þau eru afleiðing af neyð og bankahruni og hvorugt hverfur þó við tökum upp Evru á morgunn. En sparifé landsmanna mundi hverfa í öruggt skjól í Sviss.
Og vita börnin á dægurmálaútvarpinu ekki að því að það var til líf og hagvöxtur fyrir 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins og hins meinta frjálsræðis. Hagvöxtur frá 1960-1980 er t.d hærri en frá 1990 til 2008 eða ég tali ekki um 2010. Svona raus um fortíðina er áróður, settur fram til að blekkja, til að ná fram einhverju ákveðnu pólitísku markmiði. En það er lágmarkskrafa að starfsfólk ríkisfjölmiðla hafi farið í sögu 101 í menntaskóla. Það á ekki að vera hægt að segja því hvaða vitleysu sem er.
Þetta fólk þiggur laun af skattpeningum almennings, og þeir peningar eru takmarkaðir um þessar stundir. Og mikið af hæfu fólki hefur ekki vinnu.
Því spyr ég. Hvað er þjóðin að gera með þessa vanþekkingu og vankunnáttu í vinnu hjá sér. Er ekki hægt að fá alvörufólk í vinnu sem talar við þá sem hafa lausnir en ekki þá sem höfðu vitlaust fyrir sér í öllum atriðum í aðdraganda hrunsins og nota núna hina meintu þekkingu sína til að kæfa alla vitræna umræðu.
Svona vinnubrögð eiga ekki að líðast.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 7
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 453
- Frá upphafi: 1412815
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 392
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gott að sjá þig á blogginu - verst ef þú hættir að mega vera að því að lesa vísis-bloggið mitt.
Kveðja
Bensi
Benedikt Sigurðarson, 2.4.2009 kl. 18:35
Blessaður Bensi.
Það er ekki rétt. Ég hef lesið mér til mikillar ánægju skrif þín en þú sérð að ég er frekar agressívur í augnablikinu út í flokk þinn og og svo tala ég ekki mjög fallega um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Hafði vissar áhyggjur af ef ég væri of oft á kommentinu hjá þér þá gæti blogg þitt fengið stimpil. Sem ég vil ekki því Samfylkingarfólk og aðrir verða að lesa og skilja það sem þú ert að segja.
En ég kem við þegar ég fer að róast. Reikna með því um páskana, jafnvel fyrr.
Meiningin var alltaf að einbeita mér að því sem sameinar en ekki stunda blóðugar skammir. Er alltaf að bíða að fleiri argist úti í IFM og hávextina og ICEsave og menn eins og Guðmund Ólafsson sem nota hótfyndni t.d til að skjóta í kaf vel rökstuddar tillögur þína um verðtrygginguna.
En ég róast og verð einhvern tímann til friðs.
Bið að heilsa á meðan.
Kveðja, Ómar.
Ómar Geirsson, 2.4.2009 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.