8.3.2009 | 16:35
Hin mikla meinloka stuðningsmanna VinstriGrænna
er sú að þeir halda að það séu mennirnir en ekki ákveðnar efnahagsaðgerðir sem eru rót vandans. Þess vegna trúðu þeir því dag og nótt að ef þjóðinni lánaðist að hrekja Davíð úr Seðlabankanum og Sjálfstæðisflokkinn úr ríkisstjórninni þá myndi allt sjálfkrafa lagast. Það var sem sagt ekki efnahagsstefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem reyndar Steingrímur Joð gagnrýndi svo harkalega, sem var rót vandans. Það var Árni Matt og Davíð Oddsson.
Núna er komin ný ríkisstjórn. Steingrímur Joð fékk lánaðar buxurnar hans Árna og núna er töluð Norska í Seðlabankanum. Annað hefur ekki breyst. Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti strax að aðgerðaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með lífshættulega háa vexti og blóðugan niðurskurð ríkisútgjalda væri hornsteinn efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar. Og Steingrímur Joð, nýkominn í buxurnar hans Árna, kinkaði kolli ábúðarfullur á svipinn. Nú var hans stund upp runninn, honum skyldi ekki lengur vera brigslað um að vera óábyrgur stjórnmálamaður.
Lilja Mósesdóttir hagfræðingur, sem lengi hefur staðið með þjóð sinni í harðri gagnrýni sinni á Óráð Alþjóðagjaldeyrisjóðsins, sagði þetta um stefnu ríkisstjórnarinnar í grein á Smugunni.
Vítahringur efnahagsstefnunnar
Markmið hagstjórnarinnar á að vera að auka efnahagslega velferð og leiðirnar að því markmiði eru aðgerðir sem tryggja fulla atvinnu, hagvöxt og stöðugleika til lengri tíma. Efnahagsstefna AGS og íslenskra stjórnvalda mun ekki tryggja þessi markmið. Við framkvæmd hennar er aðeins tveimur hagstjórnartækjum beitt, þ.e. hátt vaxtastig og gjaldeyrishöft. Bæði þessi hagstjórnartæki miða að því að draga úr útstreymi fjármagns og þar með frekari lækkun á gengi krónunnar.
Hátt vaxtastig og skortur á fjármagni er að sliga bæði fyrirtæki og heimili. Til að þóknast stefnu AGS þarf ríkið auk þess að skera niður útgjöld til að standa undir afborgunum og vaxtagjöldum af lánum frá AGS og vinaþjóðum. Á meðan að heimilin hrópa á hjálp til að takast á við stóraukna skuldabyrði og atvinnuleysi keppast fyrirtæki og ríkisstofnanir við að ná niður kostnaði með því m.a. að segja fólki upp eða banna nýráðningar en það bitnar hvað harðast á ungu fólki. Aukið atvinnuleysi leiðir til vítahrings minnkandi tekna ríkissjóðs á sama tíma og opinber útgjöld aukast. Við þessar aðstæður dregur úr spurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækja. Þörfin fyrir niðurskurð hjá hinu opinbera og fyrirtækjum eykst í kjölfar aukins atvinnuleysis. Atvinnulífið sogast inn í vítahring aðhaldssamrar efnahagsstjórnar sem mun með tímanum draga úr hagvexti og þar með möguleikum þjóðarinnar til að geta staðið undir skuldabyrðinni sem einkavæddu bankarnir lögðu á hana.
Vinstri Grænir í Reykjavík hljóta að vera sammála þessari greiningu Lilju því þeir kusu hana í annað sæti flokksins í forvali flokksins í Reykjavík. En grein Lilju á Smugunni er ein samfeld árás á stjórnarstefnu núverandi stjórnar. Í hverju liggur þá samkvæmið?
Jú, þetta skiptir ekki máli því okkar fólk er í stjórn. Í athugasemd í færslu minni um fiskvinnsludrauma Steingríms Joð fékk ég innslag um, að það tæki talsverðan tíma að rétta af kúrsinn eins og það var orðað Annarsstaðar hef ég heyrt athugasemdir eins og þá að eftir allan þennan langa stjórnartíma Sjálfstæðisflokksins, þá væri ósanngjarnt að gera kröfur á mikla kúvendingu á svona stuttum tíma.
Þetta er allt mikið rétt. En það verður engin kúvending eða umvending eða hvernig sem fólk vill orða það í réttlætingu sinni á núverandi ríkisstjórn, nema ef það verður breytt um stjórnarstefnu eins og Lilja bendir réttilega á í grein sinni. Og svo var góður maður að benda Boga Ágústssyni á í góðum viðtalsþætti Boga í ríkissjónvarpinu, að skuldir umfram 50-60% af þjóðarframleiðslu væru ávísun á framtíðargjaldþrot. Það væri bara þannig. Samt eru VinstriGrænir í stjórn með flokki sem hefur það að meginstefnumáli sínu að Íslendingar borgi ólöglegar fjárkröfur breta og Hollendinga á hendur Íslendingum. Við það eitt fer skuldin að teknu tilliti til vaxtagreiðslan langt í 50% af þjóðarframleiðslu.
Samt eru allir stuðningsmenn VinstriGrænna ligeglaðir með núverandi stjórn og vilja festa helreiðina til Heljar í hendi næstu ríkisstjórnar.
Undirritaður sem hefur skrifað nánast sömu skammirnar um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá upphafi, hefur fengið margt klappið á bakið frá stuðningsmönnum VinstriGrænna á meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Núna þegar ég skrifa orðrétt sömu gagnrýnina pistil eftir pistil því ég horfi uppá sömu Heljarreiðina í boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, núna er ég skammaður fyrir að vera Bjögga vinur og íhald eða ómálefnalegur eða eitthvað sem er notað af móðguðu fólki. Samt fannst sama fólkinu mjög gaman þegar ég var að dunda mér við að móðga stuðningsfólk Samfylkingarinnar, að ég tali ekki um höfuðandstæðinginn sjálfan, íhaldið.
En málið er það að ég þjáist ekki af þeirri meinloku að fólk skipti máli nema þá í þeirri merkingu að það sé að vinna að góðum málum. Núverandi ríkistjórn er stjórn atvinnuleysis og fátæktar, fjöldagjaldþrota heimila og fyrirtækja.
Á að klappa fyrir slíkri stjórn?
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 37
- Sl. sólarhring: 531
- Sl. viku: 5043
- Frá upphafi: 1400870
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 4375
- Gestir í dag: 34
- IP-tölur í dag: 33
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þakka þér fyrir áhugaverðan pistil. Ég tel að sá tími sem ný ríkisstjórn fær, 83 dagar, sé að mestu og stuttur til að laga ástandið. Ég hef tekið eftir því að nýliðun á listum Vinstri Grænna er ekki nægjanleg beri maður þá saman við aðra flokka t.d. Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn þar sem konur hafa unnið mikinn sigur í a.m.k. einu prófkjöri. Eftir næstu kosningar trúi ég að sex flokkar verði á þingi og litrófið meira en áður hefur verið. Hrósa vil ég þó Steingrími J. fyrir að hafa skorið niður útgjöld í veislugjörðir ráðherra að mestu.
Hilmar Gunnlaugsson, 8.3.2009 kl. 18:39
Það verður nú varla litið fram hjá því að það er sjálfstæðisflokkurinn sem leiddi þjóðina í skítinn með aðstoð annarra flokka. Það tekur lengri tíma en 83 daga að moka upp eftir þá.
Það verður enginn öfundsverðir af því verkefni.
Er sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda mun spillingin krauma áfram hér sem aldrei fyrir og barist verður enn grimmilegar um að ná helst öllu af þjóðinni.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 8.3.2009 kl. 23:30
Það fer ekkert á milli mála að þessi ríkisstjórn hefur gert mikið meira á mánuði en fyrri ríkisstjórn gerði á fimm mánuðum eftir hrunið
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 8.3.2009 kl. 23:32
Blessaður Hilmar.
Ég get alveg skrifað mun lengri pistil um mannkosti Steingríms Joð en hér er að framan og meint hvert einasta orð.
En það er ekki málið. Ekki heldur hvort buxurnar hans Árna er betur sniðnar á Steingrím. Málið er mjög einfalt. Stjórnarstefna er röng og hún er endanlega að ganga að Íslensku þjóðfélagi dauðu. Ég orðaði þetta í einhverjum pistli mínum að það skipti ekki máli hvort það er vinalegi græni maðurinn í næsta húsin sem er að níðast á barninu þínu eða Sjalli, glæpó með sinn 18 ára glæpaferil að baki. Það er alltaf rangt að níðast á börnum. En grein Lilu á Smugunni segir allt sem segja þarf á hagfræðimáli sem ég er að segja með skæruliðagreinum mínum. Málið er það að á hvorugt er hlustað og þess vegna lútum við erlendri stjórn manna sem gera allt rangt í grundvallaratriðum.
Sama hvað mér vel við Steingrím. Í núinu er glæpurinn hans.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.3.2009 kl. 23:46
Blessuð Jakobína.
Þú veist vel að ég er sömu skoðunar á sekt Sjálfstæðisflokksins og þú. Hann er flokkurinn sem fórnaði klassískri íhaldsstefnu fyrir græðgi og siðleysi frjálshyggjunnar. Reyndar erum við ekki sammála um hinn meinta brotavilja, á því er áherslu munur en Sjálfstæðisflokkurinn var miðstöð græðgi og siðblindu þjóðfélagsins. En sú hugmyndafræði var að mínum dómi mest ráðandi í neðri lögum flokksins.
Hvað spillinguna varðar þá er hún visst molbúaheilkenni sem hrjáir mjög Íslenskt samfélag. Ég gæti alveg skrifað heilan pistil um hinar margvísu birtingarmyndir hennar. En í hnotskurn þá hafa þeir flokkar sem hafa haft völdin á hverjum tíma, hyglað sér og sínum. Það er gamall og góður þjóðlegur siður sem þegjandi sátt hefur verið um í þjóðfélaginu. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert verið verri en aðrir flokkar hvað þetta varðar. Þar sem ég ólst upp var "íhaldsspillingin" sem fylgdi flokknum í Reykjavík, bundin hinum pólnum, Alþýðubandalaginu. Þegar ég á menntaskólaárum mínum hitti róttæklinga í Reykjavík, þá notuð þeir sama tungutak og ungir íhaldsdrengir heima hjá mér.
Þegar Jón Baldvin komst til valda, meðal annars vegna heitstrenginga sinna gegn spillingu, þá var það hans fyrsta verk að ráða kosningasmala á Akureyri til ÁTVR. Bara svona lítið dæmi um raunveruleikann á Íslandi síðustu 100 árin eða svo.
Ég er ekki að gera lítið úr þeirri spillingu sem fylgdi Sjálfstæðisflokknum síðustu 30 árin. Ég er einfaldlega að benda á að þeir voru spillingarkóngarnir vegna þess að þjóðin kaus þá valda. Aðrir flokkar höfðu sömu tilhneiginguna. En Vilmundur heitinn Gylfason var að mínum dómi sá maður sem gat breytt þessu því hann var sá fyrsti sem sagði að þetta væri rangt, og maður trúði honum. Hann féll frá en rökin hans lifa t.d. í mínum huga. Eins hefur engum tekist að setja blett á Ögmund og þá er það upptalið. Steingrímur hyglaði sínum þegar hann gat og ég hef svo sem enga ástæðu til að hann muni ekki gera það núna þegar hann hefur tækifæri til.
Ég hef alltaf sett þann fyrirvara á völd Sjálfstæðisflokksins að vegna einokunar hans á atvinnulífinu og allri þeirri spillingu sem þar þrífst, þá á hann ekki að hafa þessa yfirburða stöðu í stjórnmálum. Ef mitt Hriflungahjarta hefur einhverja pólitíska sannfæringu, þá er það sú að Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að stjórna neinu og þeir flokkar sem með honum starfa eiga að skammast sín en það er bara mín skoðun.
En þetta með Steingrím og stjórnina. Ég veit alveg að ég er leiðinlegur gagnvart Steingrími. Hef það mér bara til afsökunar að fáir lesa skrif mín.
En það þarf einhver að vera leiðinlegur. Á meðan Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fer hér með völd og knýr okkur til að greiða ICEsave þá er engin von. Þó menn hafi vilja til að ná klárnum upp úr keldunni, þá dugar það ekki ef allt sem gert er festir hann ennþá meir. Og tíminn er á þrotum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.3.2009 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.